Færsluflokkur: Sjónvarp
14.4.2008 | 11:09
Morgunhugvekja og hugleiðingar um CSI-Miami
Mikið var unaðslegt að vakna í sumarstemmningu í morgun. Alla vega vorstemmningu. Ég vissi að þetta yrði góður dagur þar sem spegillinn sýndi yndisfagra mynd, enda sofnaði ég ekki með blautt hárið í gærkvöldi, smá sinaskeiðabólga hrjáir mig en það eru eflaust 20 ár síðan ég fann fyrir henni síðast. Kettirnir möluðu og kaffibaunirnar möluðust, allir í stuði. Ekki versnaði hugarástandið þegar síminn hringdi og Guðbjörg strætósamferðakona bauð mér far í bæinn á bíl og alla leið í Hálsaskóg. Svo kemst ég til baka með erfðaprinsi sem á erindi í bæinn í dag. Tek þó fram að strætó er líka frábær þótt hann sé ekki jafnfljótur á leiðinni og einkabíll sem getur farið beina leið og þarf ekki að stoppa neins staðar.
Ég sofnaði út frá fallega fólkinu í CSI-Miami í gærkvöldi (nótt). Hvernig það fólk getur opnað munninn og talað fyrir þykkum varalit eða blakað augunum fyrir augnskuggum og almennt fúnkerað fyrir töffaraskap á ég erfitt með að skilja. Þarf að muna að vera aldrei drepin í Miami. Dánarorsök "myrt með gloss" gæti fyrir slysni verið ákveðin. Annars finnst mér hrikalega gaman að fylgjast með Horatio. Í þættinum í gær hafði ungur drengur (6-7 ára) komið að móður sinni myrtri og vildi ekki tala við neinn eftir áfallið. Horatio sagði svipbrigðalaus af öryggi við undirmann sinn: "Hann talar við MIG." (myndi maður vilja hafa svona yfirmann?) Svo settist hann á bryggjuna, horfði á drenginn með sama svipleysi og hann sýnir öllum (vændiskonum, ástkonum, samstarfsmönnum, glæpónum, dýralæknum, strætóbílstjórum), kynnti sig og fór að spjalla góðlátlega en af virðingu. Barnið leit á þennan ófrýnilega, sviplausa og rauðhærða mann og opnaði sig algjörlega fyrir honum, gerði betur en það, tók glaðlega upp úr skólatösku sinni hnífinn sem hann hafði tekið úr hjarta móður sinnar og rétti Horatíusi. Í þessum þáttum eru ALLIR sætir nema Horatio, sem er svona hálfgerður Chuck Norris réttarrannsóknaþáttanna, meira að segja glæpónarnir eru með fullkomnar tennur, flottar strípur og hugsa vel um útlitið eins og starfsfólkið. Já, staffið ... djöfull dáist ég að ljóshærðu konunni þarna sem lætur sig hafa það að mæta í níðþröngum fötum og hælaháum skóm í vinnuna þótt hún þeytist um morðvettvanga á milli þess sem hún sinnir smásjárrannsóknum. Svo er hún varla talandi fyrir kynþokka sem drýpur af henni. Já, Horatio ekur um á lögguHummer!!! Himinn og haf skilja að t.d. CSI og CSI-Miami. Í fyrrnefnda þættinum er venjulegt fólk ... í hinum svífur andi Strandvarða yfir vötnum. Skemmtanagildi þáttanna er alveg tvöfalt, stundum margfalt. Kannski ágætis morðgáta í þættinum ... og svo getur maður flissað yfir öllu hinu þótt þetta eigi alls ekki að heita gamanþættir!
Viðbót frá bloggvini um Hóras: http://www.weebls-stuff.com/wab/CSI/Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
8.4.2008 | 17:59
Varúð, bold og vægast sagt krassandi framtíðarbold
Píanóleikarinn spilar Unforgettable á meðan Brooke og Ridge haldast í augu. Einhver vonnabí rjómatík á skrifstofu Ridge. Þetta hlýtur að vera að hugsun, gömul minning, það getur ekki svona margt hafa gerst síðan í gær þegar Brooke lofaði Nick sínum eilífri ást. Jú, þetta er að gerast. Brooke gefur Ridge myndaalbúm þar sem fyrsta myndin er af þeim tveimur að kyssast. Hún kann að snúa hnífasettinu í sárinu. Hún heldur sér nú helvíti vel og virðist ekki hafa farið jafnoft undir hnífinn og hin varaþykka Taylor sem í raunheimum er gift lýtalækni. Brooke kyssir Ridge bless og það áður en forrétturinn kemur á borðið og lætur sig hverfa.
Þú fékkst Nick, nú er komið að mér, segir Felicia sem vill Dante. Ég fékk Nick bara að láni, svaraði Bridget sem fórnaði honum til móður sinnar. Dante virðist hafa vilja og kýs Bridget.
VARÚÐ, VARÚÐ, ekki lesa lengra nema þið viljið vita OF MIKIÐ: Ég gægðist aðeins inn í framtíðina í boldinu, ég er með nettengda kristalskúlu. Jú, þetta var víst rétt. Taylor, fyrrum keppinautur Brooke um ástir Ridge, er farin að deita Rick, son Brooke og þar sem Taylor, geðlæknirinn geðþekki, var orðin svo mikil fyllibytta var Nick dæmt forræði barnsins sem Taylor gekk með en er samt í raun ekkert blóðskylt henni, heldur á Brooke það raun, eftir að doktor Bridget ruglaðist á eggjum á læknastofunni. Taylor er hætt að drekka en þegar Brooke komst að því að Nick ætlaði að leyfa henni að vera með barnið yfir nótt bilaðist hún og sagði Nick frá Taylor og Rick. Þess má geta að doktor Bridget er farin að vera aftur með Nick. Hann á eftir (í íslenska sjónvarpinu) að kvænast Brooke, síðan Taylor og líklega fljótlega Bridget þar sem þau eru byrjuð að sofa saman. Það er ekkert hægt að skemmta sér með gæunum í boldinu, þeir vilja alltaf giftast! Ég held að Brooke og Ridge séu gift. Einhver skaut Stefaníu, bróðir Brooke, held ég, en hún lifði það af. Systir Stefaníu er móttökudama hjá Forrester og er andstyggileg við unga glæsikvendið í tígrisfötunum sem er búin að ákveða að verða frú Eric Forrester ... en Stefanía elskar enn sinn gamla og það veit systirin. Hvað varð eiginlega um Dante og hvar er Amber?
6.4.2008 | 21:18
Sjónvarpsblogg
Tókst að flissa subbulega yfir Svalbarða á SkjáEinum í gærkvöldi og mun reyna að missa ekki af þeim þáttum í framtíðinni. Þorsteinn er ferlega fyndinn, fer vissulega algjörlega yfir strikið á köflum ... og það er æði. Ágústa var líka mjög skemmtileg. Nú eru það Mannaveiðar og síðan Dexter seinna í kvöld. Held ég glápi einna mest á sjónvarp á sunnudögum, enda oft ágæt dagskrá á meðan laugardagskvöld eru yfirleitt ótrúlega leiðinleg ... Sá reyndar Spaugstofuna á Netinu seint í gærkvöldi (eftir hrós Jennýjar) og hafði mjög gaman af.
Elsku Formúlan var í dag, missti því miður af ræsingunni vegna misskilnings um útsendingartíma, gerist ekki aftur. Ein vinkona mín er ekki með afruglara og útsendingin hjá henni var hálfrugluð þótt hún eigi alls ekki að vera það! Hún var ekkert smá spæld og við ákváðum að þetta væri samsæri til að hún yrði að fá sér afruglara! Hlakkaði síðan til að sjá ræsinguna og valin skot úr Formúlu dagsins í íþróttatíma Stöðvar 2 í kvöldfréttunum en þar var bara 3 sekúndna örfrétt, ekkert sýnt! Það var síðan RÚV sem sýndi sæmilega frá keppninni. Kommon, þið þarna snúllurnar mínar sem ráðið á Stöð 2 Sport! Það eru meiri líkur á því að fá nýja áskrifendur vegna Formúlunnar ef fólk fær að sjá spennandi skot úr keppninni! Gefa smá ... þá fáið þið til baka! Það er lögmál!
Þetta er sjónvarpsblogg þannig að ég áskil mér rétt til að vera afspyrnuruddaleg við alla þá sem kommenta dónalega um að ég eigi að gera eitthvað annað við líf mitt en horfa á sjónvarp.
P.s. Eftirfarandi athugasemd barst áðan frá Mána Atlasyni við færsluna Staðreyndir um Chuck Norris Það má benda á www.chucknorrisfacts.com og líka á
http://www.chucknorris.com/html/fitness.html. Á síðarnefndu síðunni má nálgast líkamsræktarmyndband með kappanum. Ég drapst næstum úr hlátri og aulahrolli þegar ég sá það.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
29.3.2008 | 14:40
Laugardagur til leti
Hér var vaknað um hádegi ... mér leið eins og sláttuvél hefði ekið yfir mig, slík var þreytan. Föstudagar eru yfirleitt mestu annadagarnir í vinnunni og oft slepp ég ekki fyrr en undir sex heim, stundum seinna. Þá er dormað í strætó og kvöldinu varið í leisígörl við lestur og sjónvarpsgláp. Ummm, föstudagar.
Snillingurinn hann Máni vakti áhuga minn á Múmínálfunum í gærkvöldi og nú langar mig að lesa þessar miklu bókmenntir. Enid Blyton var mín Tove Jansson í æsku. Samt var ég bara 10 ára þegar fyrsta bókin kom út á íslensku. Hvar var ég eiginlega, litli lestrarhesturinn? Líklega farin að lesa fullorðinsbækurnar í Bókasafni Akraness; Theresa Charles, Barbara Cartland ... Óskilabarn 312, Dyggð undir dökkum hárum, þetta allt. Hélt að æsku minni væri lokið en það var sannarlega ekki rétt, henni lauk, ásamt sakleysinu, 30 árum síðar þegar ég sat námskeiðið Ofbeldi og klám í kvikmyndum í HÍ, þegar ég var í hagnýtri fjölmiðlun.
Við erfðaprins ætlum í bíltúr, bíllinn þolir ekki langferðir fyrr en eftir verkstæðisyfirferð en er fínn í snatti innanbæjar. Himnaríki vantar m.a. eldhúsrúllur sem erfðaprinsinn gleymdi að kaupa í Einarsbúð, já, og kattasandsplastpoka. Við erum komin í mikinn sparnaðargír og ætlum að borða kartöflur í öll mál, alla vega þangað til kaupmenn fatta að hækka þær í verði. Annar verður þetta líklega bara góður letidagur. Nóg að lesa allavega.
Boldið rúllaði í endursýningu í dag. Persónunum þar er ansi tamt að nota tilfinningalega kúgun og handritshöfundar er snillingar í að búa til erfiðar aðstæður þar sem fólk getur alls ekki sagt sannleikann. Dæmi: Þegar Dante lenti í því að biðja Feliciu í fráhvörfunum eftir hryggbrot Bridgetar gat hann ekki bakkað út úr því nema verða eitthvert ógeð ... hún er barnsmóðir hans og þar að auki nýrisin upp frá dauðum. Felicia bauð öllu fólkinu hans frá Ítalíu að koma og ætlar að halda brúðkaupið eftir nokkra daga, hvers vegna bíða? Bridget greyið, sem maður sér ekki opna bók eða ganga með hlustunarpípu, en er samt við það að útskrifast sem læknir, sér eftir hryggbrotinu og þau Dante geta ekki sagt sannleikann um ódauðlega ást þeirra. Pabbi Brooke og mamma Nicks gera leit á skrifstofu Brooke af því að Ridge ætlar sér eitthvað ... DÖH og uppgötva af fádæmagreind og innsæi að hann ætli sér að kyssa Brooke á hápunkti sýningarinnar og rústa þannig hjónabandi hennar og Nicks ... Þau koma hlaupandi baksviðs á tískusýningunni og er mikið niðri fyrir: Ridge ætlar að skemma hjónaband ykkar Nicks og nota tískusýninguna til þess, arga þau á Brooke.
Úps, í lok sýningarinnar segir Ridge við Brooke: Stundin okkar, og svo kyssir hann hana, Stundin okkar?
Brooke, hvernig gastu leyft honum þetta? gargar Stephen og Nick er líka brjálaður út í HANA. Held að eina leiðin út úr þessu fyrir Brooke sé að giftast Nick sem fyrst. Birna Dís, Helga Vala og Kikka, þið hafið heilan helling á samviskunni ... að láta mig horfa á þetta ... ef ég bakka út úr þessu sjónvarpsglápi yrði ég bara eitthvert ógeð, eins og Dante! Hehehe ...
27.3.2008 | 10:40
Vorið ... ekki bara dans á rósum
Það var ekki séns að vakna kl. 6.15 í morgun eftir að hafa bylt sér fram á nótt. Leyfði Kubbi að stjórna svefnstellingu minni allt of lengi, þráðbein á bakinu-stellingin ... og slíkt ætti maður ekki að gera. Hún lá ofan á maganum á mér og hraut værðarlega. Færði mig löturhægt á hægri hliðina (þá dreymir mann víst frekar) og reyndi að móðga ekki læðuna hugumstóru í leiðinni ... og þannig sofnaði ég fyrir rest en dreymdi fátt. Huggulegi strætóbílstjórinn sat undir stýri í Gumma stað og tilkynnti snöktandi farþegum í saknaðarkasti að Gummi væri á Kanarí. Svikarinn ... Nú kemur hann brúnn og afslappaður til baka, beint í bardagann mikla, árlegu slagsmálin þar sem undanrennubláir Íslendingar reyna að berja af sér nývaknaðar geitungadrottningar. Vorið er sannarlega ekki bara dans á rósum!
Á leiðinni í bæinn sagði sessunautur minn, ung og falleg kona, frá mjög svo óskemmtilegum aðstæðum sem hún lenti einu sinni í á vinnustað. Samstarfsmaður hennar lagði á hana ofurást og var þess fullviss að ástin væri endurgoldin. Miklar ranghugmyndir í gangi, gaf gjafir, sendi henni sms á öllum tímum sólarhringsins ... endaði með löggu og hvaðeina. Hvernig þýðir maður orðið STALKER yfir á íslensku? Er STOKKARI nógu gott orð? Hvað segja íslenskusnillingar? Umsátursmaður er ekki nógu gott, tengist frekar stríði, skæruliðum og slíku, er það ekki?
Það má segja að ég sé með vottorð í leikfimi. Beta sjúkraþjálfari vill meina að ég eigi ekki að leika í Útsvari á morgun. Þarf oft ekki nema eina ranga hreyfingu til að fá í bakið ... Máni harðneitar leiklistinni og ætlar að hlaupa. Held að hlauparinn mikli sé í Kópavogsliðinu, þessi sem hljóp konuna niður sí og æ og skildi hana eftir í blóði sínu fyrir neðan sviðið í einum þættinum, minnir mig. Hann á ekkert í Mána! Að auki er Máni að læra lögfræði og getur farið í mál ... Jamm, ég finn að smástress laumast lævíslega að himnaríkisfrúnni. Ætla rétt að vona að það verði brjálað að gera á morgun í vinnunni svo ég geti unnið til að gleyma! Garggggg ... svo næ ég ekki í Bjarna, meðkeppnisvein minn, til að biðja hann um að æfa sig í leiklist. Ég lofa að vera vel sofið og ákaflega góður giskari!!!
25.3.2008 | 17:54
Nýr strætóbílstjóri og nýtt bold ...
Lagði ekki í plokkfiskinn í hádeginu ... Heyrði samt fólk í kringum mig segja hann ágætan. Var samferða Sigþóru heim í fjögurstrætó. Undir stýri var enginn Gummi, heldur nýr og bara sæmilega útlítandi bílstjóri á óræðum aldri. Miðað við skólastrákinn minn sem reyndist vera rígfullorðinn afi á aldur við mig segi ég bara að hann sé á aldrinum 30-50 ára. Hann keyrði nokkrum sentimetrum of langt á Garðabrautinni þannig að fegurð hans minnkaði ögn í huga okkar Hlina. Sigþóra fékk hláturskast í strætó. Stelpan fyrir aftan okkur lét símann sinn hringja endalaust og hringingin var barnshlátur, afar smitandi nema fyrir lífsreyndar konur eins og mig sem afplána þennan hlátur í símum í vinnunni á hverjum degi. Ég sneri mér við og bað ungu stúlkuna vinsamlegast að hætta þessu svo ég fengi frið til að lesa. Fúl á móti? Nei, ég var bara að stríða henni. Hún hafði ógurlega gaman að viðbrögðum Sigþóru sem hristist öll. Það þarf svo sem ekki mikið til að koma henni til að hlæja. Bókin sem ég er að lesa heitir Jaðiaugað og er spennubók. Hún er rosalega skemmtileg, samt er spennan ekki enn hafin, enda er ég rétt byrjuð á henni.
Nick er að fara yfir um af afbrýðisemi út í hálfbróður sinn, Ridge. Honum finnst Brooke gefa Ridge loðin skilaboð og hreinlega æsa hann upp í viðreynslu. Þegar Brooke kemur inn á skrifstofuna sér hún að Nick hamast á málverki af Ridge og tætir það í sig með fótunum, mögulega málverk eftir Da Vinci. Nick fölnar svo þegar hann kemst að því að fyrrverandi kærasta hans og núverandi tilvonandi stjúpdóttir, Bridget, er skotin í Dante sem lenti í því þarna um daginn í fráhvarfi að biðja Feliciu sem tekur því svo vel ... og hratt. Stefanía er hætt við að reyna að senda hann sem útlendingsræfil úr landi og býður hann velkominn í fjölskylduna. Carlos, frændi Dante, horfir ástríðufullum augum á Bridget og segir með ítölskum pastahreimi: Þú ert ekki hamingjusöm! Bridget lætur sig hverfa, alveg í rusli. Stefanía tekur eftir því og líka þegar Bridget og Dante láta sig hverfa saman nokkru síðar til að tala um vonlausa ástina sem þau bera hvort til annars. Þau kyssast og láta sig hverfa inn í geymslu.
Fyrir þá sem ekki vita þá eru Bridget og Felicia hálfsystur. Felicia fær flott brúðarslör, Feneyjablúndu, frá tengdó og sjokkerar þau þegar hún spyr hvort hún megi ekki láta lita það svart ... í stíl við brúðarkjólinn sem pabbi hennar er að hanna og láta sauma. Stefanía varar Dante við en hann lætur ekki segjast, hann vill opinbera trúlofun sína og Bridgetar í þessari trúlofunarveislu hans og Feliciu. Bridget má ekki heyra á það minnst. Ridge sendir Brooke blautleg skilaboð, mynd af nærfatalínunni sem hún mun líklega sitja fyrir í og segist hlakka til mátunarinnar. Já, og Bridget verður brúðarmær í brúðkaupi Feliciu og Dante, mannsins sem hún elskar.
23.3.2008 | 22:11
Möndlugjöf og allt ...
Syfjan mikla skall yfir um hádegisbil. Held ég leggi ekki framar á mig svona formúluvakn nema með almennilegum undirbúningi, góðum vítamínkúr og slíku. Líklega hefði dagurinn í dag farið í eintómt dorm ef ekki hefði verið fyrir matarboð til Hildu í Kópavog í kvöld en á borðum hjá henni var sannkallaður jólamatur. Meira að segja var möndlugjöf sem ég var svo heppin að fá. Frábært að fá meira nammi á heimilið ... After Eight og svo var líka páskaskraut.
Næsta föstudag á Davíð frændi afmæli og það sama kvöld keppa Akranes og Kópavogur í Útsvari. Hilda elskar Kópavog sinn þótt alin sé upp á Skaganum og á í mikilli tilvistarkreppu ... Mamma ætlar að gera sitt besta með því að mæta í sjónvarpssal, enn og aftur í gulu blússunni sinni sem hefur tryggt okkur Skagamönnum sigur síðustu tvö skiptin. Vona að hún hafi ekki þvegið hana. Það verður barist til síðasta blóðdropa í átta liða úrslitunum!
21.3.2008 | 12:58
Spurningakeppni fjölmiðlanna
Síðustu árin hefur aðeins verið eitt sem hefur gert páskana þess virði að taka sér frí frá vinnu og þurfa að borða góðan mat og páskaegg. Það er spurningaþáttur fjölmiðlanna sem hefur verið á dagskrá Rásar 2 yfir páskana um margra ára skeið. Ég missti af fyrsta þættinum kl. 13 í gær en get án efa hlustað á hann í tölvunni á ruv.is, læt þáttinn í dag ekki fram hjá mér fara. Þriðji þáttur er svo á páskadag og lokaþáttur annan í páskum. Ég hef lifað eftir stundaskrá þessarra þátta, móðgað páskagestgjafa úti á landi (Hildu) þegar ég hef lokað mig af með útvarpi í heilan klukkutíma, alltaf á milli 13 og 14.
Mikið líst mér vel á Hæðina, nýja þáttinn sem hófst á Stöð 2 í gærkvöldi. Ólík pör, sem er gott, eiginlega bara alveg frábært, því að ég ruglaði alltaf saman liðunum í ástralska þættinum The Block sem var byggður svipað upp. Gulli er flottur sem verkstjórinn.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.3.2008 | 22:48
Rommkúlur, strætóstress ... og bold
Mikið er gott að vera komin í páskafrí. Inga vinkona skutlaði mér í Mosó og höfðum við örfáar mínútur fram að brottför leiðar 27 á Skagann. Sem betur fer var ekki þung umferð á leiðinni og náðum við því á mettíma á staðinn, auðvitað á löglegum hraða. Inga bjóst við að þurfa að elta strætó og ná honum jafnvel á Kjalarnesi en eins og svo oft áður þá þurfti 27 að bíða eftir leið 15 sem er oft sein á þessum tíma. Þegar við Inga nálguðumst Háholtið sáum við að strætó var nýlagður af stað frá stoppistöðinni. Við héldum ró okkar þótt ýmsir í okkar sporum hefðu farið yfirum af stressi. Inga var nokkrum sentimetrum á undan strætó inn í hringtorgið rétt við KFC, jók hraðann og fleygði mér svo út á ferð við strætóskýlið í Lopabrekkunni, brekkunni góðu þar sem Karítas tók alltaf vagninn áður en hún flutti norður. Elsku Heimir stoppaði svo fyrir mér þegar hann sá fagurskapaðan þumalfingur minn á lofti.
Við erfðaprins fórum í Einarsbúð og keyptum flottan mat fyrir morgundaginn, nautasteik, Einarsbúðarsalat og margt fleira. Svo var það bara hjartans Skrúðgarðurinn í smástund ... ég mæli með cappuccino-tertunni þar. Hún er mjög gómsæt og rosalega holl. Kaffið vekur, hressir og kætir. Súkkulaði er meinhollt á allan hátt og rjómi kemur í veg fyrir beinþynningu.
Góður næstum því endir á annasömum degi. Nú verður bara lesið og horft á sjónvarpið, frí og útsofelsi á morgun!!!
Annað, skilaboð til erfðaprinsins sem situr inni í stofu: Aldrei, aldrei færa mér fulla dollu af rommkúlum! Þetta átti að vera fyrir gesti!
Það má ekki líta af boldinu þá skipta persónurnar um hjásvæfur, svíkja, kyssast og svona ... og enn er brúðkaup í uppsiglingu. Brooke er saklaus, aldrei þessu vant, en það er þó stutt í að hún giftist Nick. Held að handritshöfundar séu með skipurit þar sem segir að það verði að halda brúðkaup á minnst átta vikna fresti eða oftar eftir aðstæðum. Bara passa að fólk sé ekki of blóðskylt! Bridget hryggbraut Dante á dögunum, sá eftir því en oft seint því aumingja karlinn lenti í því að biðja strax Feliciu, barnsmóður sinnar, eða þannig. Hún játaðist honum, fór strax að undirbúa brúðkaupið, flýtti því og lét fljúga inn tengdó frá Ítalíu. Það heyrðist mikið mamma mia í þessum þætti. Dante fékk langþráða ástarjátningu frá Bridget og ákvað að segja Feliciu upp en það var staðalímyndin af ítölsku fjölskyldunni kominni á staðinn, tyggjandi pasta og drekkandi ólífuolíu sem kom í veg fyrir það.
Ridge reynir stanslaust við Brooke, mömmu Bridgetar, og Nick, unnusti hennar og fyrrum eiginmaður Bridgetar, er að verða brjálaður á því. Sýndist Jackie (mamma Nicks) vera tiltölulega óspæld út í Stefán, pabba Brooke (Bobby í Dallas), fyrir að hafa sofið hjá Taylor (fyrri konu Ridge) til að plata út úr henni hlutabréfin (2%) og koma þannig Forresturunum á kné.
Jæja, nú er Die Hard byrjuð á Stöð 2 Bíó, best að horfa á hana í 15. skiptið. Bruce er kúl, meira að segja þegar hann fer að kjökra í lokin, sárfættur og með mörg, mörg dráp (bara á vondum körlum) á samviskunni. Hann hefur haldið þeim sið í hinum Die Hard- myndunum, svona í blálokin þegar konan er komin og vorkennir honum. Annars horfi ég auðvitað bara á myndina þess að hluti níundu sinfóníu Beethovens heyrist í henni.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
16.3.2008 | 15:27
Sunnudagur til snilldar
Dvölin á Hótel Glym var dásamleg. Við komum frekar seint á staðinn í gær og fengum úthlutað herbergi nr. 6. Það er á tveimur hæðum og rosaflott. Það var ekki eftir neinu að bíða fyrir svöngu herbergisfélagana, kvöldmaturinn var næstur!
Forréttur: Tígrisrækjur og humar. Aðalréttur: Önd. Eftirréttur: Límónuís. Allt hvert öðru betra!
Hjásvæfan mín, sem vaknaði mjög snemma í gærmorgun, var hræddust við að sofna ofan í súpuna en sem betur fer var engin súpa á borðum.
Það voru frekar margir í mat og ég kannaðist við fólk af Skaganum í salnum. Hjásvæfan sofnaði næstum strax eftir matinn (í herberginu) og vaknaði svo klukkan sjö í morgun til að fara í göngutúr í góða veðrinu þar sem umhverfið var kannað á meðan himnaríkisfrúin svaf á sínu græna til hálftíu. Glymur krefst þess ekki af gestum að þeir rífi sig upp og borði morgunverð klukkan sjö, heldur er hann ekki fyrr en tíu á sunnudögum sem hentaði svona líka vel fyrir svefnglaðari herbergisfélagann í herbergi 6.
Þrátt fyrir fjölda sjónvarpsstöðva, ITV, Sky, Omega, SkjáEinn, RÚV ofl. sá ég hvergi stöð sem mögulega sýndi frá Formúlunni. Það var nú í lagi, við tékkuðum okkur út og vorum komnar í hlaðið á himnaríki áður en útsendingin (endursýningin) hófst. Mikið fjör á brautinni og aðeins sjö bílar komust í mark. Það er flott að Formúlan, bæði keppnin og tímatakan, sé sýnd í opinni dagskrá.
Hjásvæfan fór heim (eftir marga kossa fyrir boðið) og við erfðaprins tókum stöðuna á Skrúðgarðinum. Bæði kaffi og kökur reyndust í fullkomnu lagi, María í sama góða skapinu og vanalega og gestirnir sælir. Sjórinn er flottur og öldurnar háværar, kettirnir strá hárum um himnaríki eins og þeir fái borgað fyrir það og góð sjónvarpsdagskrá verður í kvöld. Sunnudagar eru að verða bestu dagarnir ... einu sinni voru þeir leiðinlegustu dagar vikunnar að mínu mati.
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.2.): 8
- Sl. sólarhring: 79
- Sl. viku: 704
- Frá upphafi: 1517284
Annað
- Innlit í dag: 7
- Innlit sl. viku: 570
- Gestir í dag: 7
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- Katrín Snæhólm Baldursdóttir
- Þröstur Unnar
- Anna Ólafsdóttir Björnsson
- Helga Magnúsdóttir
- Fjóla Æ.
- Sumarbúðirnar Ævintýraland
- Jóna Á. Gísladóttir
- Steingerður Steinarsdóttir
- Bertha Sigmundsdóttir
- Svava S. Steinars
- Guðrún Jóhannesdóttir
- Vésteinn Valgarðsson
- Heiða B. Heiðars
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Baldvin Jónsson
- Jens Guð
- www.zordis.com
- Elín Arnar
- Andrés.si
- Vefritid
- Kristín M. Jóhannsdóttir
- Saumakonan
- Laufey B Waage
- Ingibjörg Gunnarsdóttir
- krossgata
- Kristján B. Jónasson
- percy B. Stefánsson
- Ólafur fannberg
- gua
- Anna Gísladóttir
- Hlynur Jón Michelsen
- Jón Svavarsson
- Brynjar Svansson
- Gyða Dröfn Tryggvadóttir
- Gunna-Polly
- Hólmgeir Karlsson
- Sigríður Jósefsdóttir
- Svala Jónsdóttir
- Katrín Anna Guðmundsdóttir
- Eva Þorsteinsdóttir
- Hrönn Sigurðardóttir
- halkatla
- Guðný M
- Einar Vignir Einarsson
- Ingibjörg Stefánsdóttir
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Vilborg Valgarðsdóttir
- Þóra Guðmundsdóttir
- Inga Dagný Eydal
- Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
- Helga Guðrún Eiríksdóttir
- Kristín Katla Árnadóttir
- Birna Mjöll Atladóttir
- Ingibjörg R Þengilsdóttir
- Hrólfur Guðmundsson
- Halla Rut
- Brynja Hjaltadóttir
- Eyþór Árnason
- Guðrún Vala Elísdóttir
- The baristas
- Helgi Már Barðason
- Eydís Rós Eyglóardóttir
- Guðný Jóhannesdóttir
- Ásta Kristín Norrman
- Anna Sigríður Guðmundsdóttir
- Kolgrima
- Huld S. Ringsted
- Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
- HAKMO
- Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
- Bradshaw
- Kolbrún Baldursdóttir
- Ásta Björk Solis
- Margrét Guðjónsdóttir
- María Anna P Kristjánsdóttir
- Rebbý
- Kjartan Pétur Sigurðsson
- Markús frá Djúpalæk
- Bogi Jónsson
- Alheimurinn
- Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
- Svala Erlendsdóttir
- Kokkurinn Ógurlegi
- Binnan
- Daníel Halldór
- Linda Linnet Hilmarsdóttir
- Linda Lea Bogadóttir
- Erna Friðriksdóttir
- Kristín Erla Kristjánsdóttir
- Katrín Ósk Adamsdóttir
- Fiðrildi
- Valgeir Ómar Jónsson
- lady
- Toby
- Vera Knútsdóttir
- Ragnar Páll Ólafsson
- Sverrir Stormsker
- Valdís Rán Samúelsdóttir
- Kej
- Ingigerður Friðgeirsdóttir
- Sigvarður Hans Ísleifsson
- Alexander Már Benediktsson
- Alfreð Símonarson
- Birna Dís
- Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
- Janus
- Tinna Gunnarsdóttir Gígja
- Eyrún Inga Þórólfsdóttir
- Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
- Elsa Rut Jóhönnudóttir
- Þóra Sigurðardóttir
- gudni.is
- Ásgeir Rúnar Helgason
- Sigurður Axel Hannesson
- Inga Helgadóttir
- Kjartan Pálmarsson
- Hlynur Hallsson
- Herdís Sigurjónsdóttir
- Ása Hildur Guðjónsdóttir
- Steingrímur Helgason
- Sæþór Helgi Jensson
- Sif Traustadóttir
- Maddý
- Turetta Stefanía Tuborg
- Gúrkan
- Gunnlaugur Stefán Gíslason
- Ólöf María Brynjarsdóttir
- Tiger
- Hdora
- Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
- Brynja skordal
- Edda Agnarsdóttir
- Helga skjol
- Mummi Guð
- Kristín Einarsdóttir
- Guðbjörg Ottósdóttir
- Sæmundur Bjarnason
- Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
- Linda
- Gylfi Guðmundsson
- Handtöskuserían
- Agnes Ólöf Thorarensen
- Júdas
- Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
- Sigurbrandur Jakobsson
- TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
- Álfheiður Sverrisdóttir
- Kjartan Magnússon
- Bylgja Hafþórsdóttir
- Vertu með á nótunum
- Marilyn
- Anna Mae Cathcart-Jones
- Söngfuglinn
- Dísa Gunnlaugsdóttir
- Ónefnd
- Ásta
- leyla
- Þórður Helgi Þórðarson
- Jónína Rós Guðmundsdóttir
- Anna Ragna Alexandersdóttir
- Laufey Ólafsdóttir
- Einar Indriðason
- Gísli Tryggvason
- Lilja G. Bolladóttir
- Þorsteinn Briem
- Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
- Ragnheiður Ástvaldsdóttir
- Eygló Sara
- I. Hulda T. Markhus
- Himmalingur
- Íbúasamtökin Betra Breiðholt
- Hildur Helga Sigurðardóttir
- Aprílrós
- Bókaútgáfan Salka ehf
- Svetlana
- Sigríður Guðnadóttir
- Andrea
- Jón Þór Bjarnason
- Inga Sig
- Sigríður Inga Sigurðardóttir
- Einar Örn Einarsson
- Heiður Helgadóttir
- Guðrún Ágústa Einarsdóttir
- Stella Jórunn A Levy
- Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
- Perla
- Ingi Thor Jónsson
- Sigríður Þórarinsdóttir
- Vinir Tíbets
- Pálmi Guðmundsson
- cakedecoideas
- Bwahahaha...
- Bullukolla
- Jónas Sen
- Hildigunnur Rúnarsdóttir
- Renata
- Mamma
- Bergljót Hreinsdóttir
- Hrannar Baldursson
- Letilufsa
- Sigrún Jónsdóttir
- Adolf Friðriksson
- Björgvin R. Leifsson
- Brúðurin
- Guðrún Eggertsdóttir
- Kristín Bjarnadóttir
- Margrét Birna Auðunsdóttir
- Methúsalem Þórisson
- Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni