Færsluflokkur: Sjónvarp

Sjónvarpsplat og Evróvisjónpælingar með dassi af Pink Floyd

E_Greys_Heigl_325Skrýtið að Stöð 2 auglýsti lengi vel að Grey´s Anatomy hefjist í apríl.  Fyrsti þátturinn eftir verkfall handritshöfunda verður ekki sýndur fyrr en í maí. Auglýsingin sagði alltaf 30. apríl en þá verður upprifjunarþáttur. Þeir eru nýbúnir að bæta við: Sagan til þessa. Kannski allt í plati til að fá fleiri áskrifendur í apríl. Mín orðin svolítið beisk eftir sport-tv-meðferðina.

Mun sakna �essara ��ttaSvo var ég að komast að öðru tengdu sjónvarpi ... Norrænu Evróvisjónþættirnir, þar sem Eiríkur Hauksson var fulltrúi Íslands, verða ekki framleiddir í ár. RÚV ætlar að bregðast við með séríslenskum þætti. Laugardagskvöldið 3. maí nk. verður sýndur fyrsti þáttur af þremur þar sem Páll Óskar, dr. Gunni, Guðrún Gunnarsdóttir og Reynir Þór Eggertsson spá í lögin sem keppa til úrslita í ár. Líst bara vel á þetta. Það er alltaf stemmning í kringum Evróvisjón þrátt fyrir öll áföllin sem þjóðin hefur fengið í gegnum tíðina, við sendum algjör sigurlög ár eftir ár en smekklausar Evrópuþjóðir hafna þeim stöðugt. Mér finnst heldur dýrkeypt að ganga í Evrópusambandið til að fá fleiri atkvæði ... Sumir halda því fram að við veljum yfirleitt alltaf lög sem við höldum að falli í kramið hjá hinum þjóðunum, ekki lög sem okkur finnist flottust. Að vanda hef nú samt ég algjöra ofurtrú á laginu okkar, eins og öllum lögum sem við höfum sent í gegnum tíðina. Fyrst ég er byrjuð að skrifa um tónlist læt ég hér fylgja ótrúlega sætt lag fyrir svefninn:

 


Tími á bold

Darla og AmberNú er aldeilis kominn tími á bold þótt fyrr hafi verið. Handritshöfundar hafa undanfarið búið sig undir að drepa Dörlu og þess vegna er hún gerð að samblandi að Díönu prinsessu og Móður Theresu. Þessi háttur ef hafður á í hvert skipti sem einhver deyr. Þegar Amber fæddi andvana barn Ricks (sonar Brooke og Erics) og svo heppilega vildi til að frænka hennar, Becky, fæddi dreng sama dag og lét ljósmóðurina fá til ættleiðingar (hmmm) og ljósmóðirin lét Amber fá til að hún gæti platað Forrester-fjölskylduna. Alla meðgönguna óttaðist hún að barnið yrði dökkt því hún svaf hjá flottum söngvara um svipað leyti og hún tældi Rick þegar hún var barnfóstra hans.
Becky var algjört hjólhýsapakk (svona amerískt) og skömmu áður en hún var skrifuð út úr þáttunum (dó) breyttist hún í sannkallaðan dýrling sem allir dýrkuðu og syrgðu sárt.

Eric, Stefanía, Thorne og DarlaÁ meðan Darla heldur upp á afmæli litlu dóslunnar sinnar og segist elska alla og að hún eigi besta mann í heimi og sætasta barn og frábærustu fjölskyldu, er Phoebe, önnur tvíburadóttir Ridge og Taylor, í vanda. Villtist á leið sinni í afmælið, held ég, svo sprakk á bílnum og ljótur subbukarl sniglaðist í kringum hana. Hún lokar sig inni í bílnum, hringir í mömmu sína sem var nýbúin að hella niður öllu áfengi heimilisins (vegna ofdrykkju undanfarið) og eiga gott samtal við Ridge, sem enn er í sárum eftir brúðkaup Brooke og Nicks. Nú vonar Taylor að Ridge, fyrrum eiginmaður hennar til margra ára og barnsfaðir hennar (Tómas og tvíburarnir), líti mögulega kannski við henni aftur þar sem Brooke lítur ekki við honum. Phoebe hringir líka í Dörlu sem kemur fyrr á staðinn og ákveður að skipta um dekk. Tómas og tvíburar og foreldrar fyrir 6 árumÍ hamaganginum við það hrasar Darla út á þjóðveginn ... og beint fyrir brunandi bílinn hennar Taylor á leið til að bjarga dótturinni. Á meðan situr Thorne, eiginmaður Dörlu, í bíl sínum og hugsar um Dörlu. Stefanía horfir hugfangin á myndir af Dörlu, tengdadóttur sinni, syni og litlabarni. Hún ákveður ásamt Sally að gera eitthvað flott fljótlega í tilefni af afmæli Dörlu. Aðeins áhorfandinn veit að Darla er dáin. Hector kemur á staðinn, enda eini slökkviliðs- og sjúkraliðsmaðurinn í Ameríku, eins og komið hefur fram í þessum þáttum. Thorne kemur síðan á staðinn og grætur, engan grunar að Taylor hafi keyrt á Dörlu, allir halda að ökumaðurinn hafi stungið af. Geðþekki geðlæknirinn er nefnilega í losti og kristalskúlan mín (Netið) segir mér að hún geti ekki dílað við sektarkenndina, heldur marineri það í alkóhóli næstu þættina.
Myndin er frá árinu 2000, Ísland sér 2 ára gamla þætti ... vá, hvað krakkasnúllurnar vaxa hratt á 6 árum. Farin að deita og allt! 

Eigið guðdómlegan síðasta vetrardag!!!


Sjónvarpseinelti, berdreymni og stressandi frídagar

Hekla í stuðiKiddi kom okkur af öryggi heim á Skagann seinnipartinn og við Sigþóra blunduðum ekkert á leiðinni, heldur spjölluðum af miklu offorsi, enda langt síðan við höfum hist almennilega. Hana dreymdi nýlega að hafnar væru strætósamgöngur milli Hólmavíkur og Reykjavíkur. Skyldi hún vera berdreymin? Sagði henni að þetta vissi ábyggilega á eldgos í Heklu innan 20 daga.

Það verður ansi mikið að gera þessa viku og þá næstu þar sem erfitt er að gefa út vikublöð með fimmtudagsfrídögum, eins og 1. maí, sumardeginum fyrsta, uppstigningardegi og slíkri dásemd, nú veldur þetta bara aukaálagi ... en samt met ég þessa frídaga mikils. Það verður því mikill dúndurvinnudagur heima í himnaríki á morgun.

Svarthvítt sjónvarpSjónvarpið í stofunni er nú svarthvítt sem rifjar upp ljúfar minningar úr æsku þegar horft var með áfergju á Maður er nefndur, Stundina okkar, Dýrlinginn, Forsythe-fjölskylduna, Onedin-skipafélagið og stillimyndina. Allt jafnskemmtilegt! Litur prýðir aftur á móti gamla tækið í vinnuherberginu. Þetta sjónvarpseinelti í himnaríki er örugglega engin tilviljun, var ekki vika bókarinnar að hefjast? Kláraði reyndar tvær bækur um helgina og byrjuð á enn einni sem er hrikalega skemmtileg og heitir Kuðungakrabbarnir, eftir sama höfund og Berlínaraspirnar.


Kraftaverk óskast - bömmer í himnaríki!

my-super-ex-girlfriend-742515Kubbur og loftnetiðHvar eru rafvirkjar, sjónvarpsvirkjar og aðrir snillingar þessa lands þegar himnaríkisfrú og sárasaklaus erfðaprinsinn hennar verða sjónvarpslaus í miðri, bráðfyndinni mynd á laugardagskvöldi vegna sambandsleysis í útioftnetinu sem er reyndar staðsett inni? Hvers vegna datt erfðaprinsinum ekki fyrr í hug að fara í nothæft og almennilegt nám sem í lokin hefði bjargað svona stórvandamáli? Verður svo ekki Formúla í hádeginu ... bara til að ergja mann? Sjónvarpsloftnetið frá helvíti sést fyrir aftan Kubb á myndinni vinstra megin. Hinar myndirnar tengjast kvikmyndinni sem við vorum að horfa á þegar hryllingurinn skók himnaríki!

Og ég sem kláraði Sjortarann í dag, spennubókina nýju eftir Patterson ... argggg ........

Sumar konur taka uppsögn illaÞað var nefnilega þessi líka fyndna ástarmynd í gangi þar sem gæinn vogaði sér að segja dömunni upp og hún hefndi sín m.a. með því að fleygja grimmum hákarli inn um gluggann hjá honum og nýju kærustunni á 20. hæð í fínu íbúðinni þegar allt fraus.

Ég þori ekki fyrir mitt litla líf að fara með lítið skrúfjárn þarna ofan í þar sem snúran tengist í loftnetið (þar er vandinn), hræðist raflost meira en margt annað, eins og t.d. léttmjólk í kaffi og þá er nú mikið sagt. Nú þarf ekkert annað en kraftaverk ef þetta á að lagast. Bið um rosamikla samúð í kommentakerfinu og magnaðar tillögur að mögulegri viðgerð í fyrramálið.


Ritskoðun á boldinu

Taylor, Ridge,Tómas og tvíburarnirVegna síðustu atburða sem skekja boldheima hef ég ákveðið að skrifa mun varlegar en áður um þá atburði sem eiga sér stað í þáttunum. Ég tel þó alls ekki að skrif mín hafi einkennst af hatri gagnvart Forrester-liðinu, síður en svo, ég hef þó mögulega verið ögn dómhörð vegna þeirrar viðleitni boldarana til að stunda sígiftingar ... skipta reglulega út börnunum og láta mun eldri leikara í þeirra stað svo hægt væri að láta þá elstu hafa eitthvað nýtt til að sofa hjá og svo auðvitað til að giftast. Dæmi: Tómas og tvíburarnir, sem þroskuðust óhugnanlega hratt, Tómas var meira að segja farinn að sofa hjá Amber, áður en hún hvarf. Tvíburarnir, sem bara í fyrra eða hittiðfyrra voru dúllulegar þriggja ára dömur, eru nú unglingar og stutt er í að Rick, föðurbróðir þeirra en þó ekki blóðskyldur, fari að deita aðra þeirra inni í framtíðinni.

TaylorHinn nýi Rick (Kyle Lowder)Handritshöfundar mega eiga það að þeir hafa verið afar passasamir við að rjúfa blóðtengsl þegar það á við. Aldur skiptir heldur engu máli, það er ekki einu sinni ósmekklegt þótt Rick, sonur Brooke, áður kvæntur Amber, barnapíunni sinni, sé farinn að vera með Taylor, sem áður var gift Ridge og á með honum Tómas og tvíburanna, síðar Nick og átti með honum barn sem var í raun ekki hennar, heldur flæktust egg Brooke óvart í Taylor með þeim afleiðingum að Taylor gekk með barn erkióvinkonu sinnar. Bíddu, hvar var ég, já, Taylor og Rick eru farin að vera saman og það finnst Brooke, mömmu Ricks, alveg hræðilegt, því hún og Taylor bitust árum saman um Ridge og giftust honum til skiptis. Skrif mín hafa kannski verið dómhörð gagnvart afskiptasemi Stefaníu, vælinu í Ridge, botoxinu í Taylor og aumingjaskapnum í Bridgeti og fleira, en því mun ég breyta héðan í frá. Mögulega endurskoða ég gamlar færslur, kannski fjarlægi ég þær bara til að vera örugg.

Héðan í frá verður boldið að mestu skammstafað. Dæmi: F=framhjáhald. M=misskilningur. B=blóðskyldleiki. EB=Ekki blóðskyldleiki. S=sólbrennsla. BK=brúðkaup.


Óvænt sjokk í ísskápnum, óþekkur rútubílstjóri, smábold og sushi

MjólkJa, mér hefndist heldur betur fyrir að hafa talað vel um samkynhneigð í færslu hér í gær. Þegar ég kom heim í sakleysi mínu áðan, frekar snemma miðað við föstudaga, ákvað ég að byrja á því að búa mér til latte. Ég opnaði ísskápinn, enn algjörlega í sakleysi mínu, og það fyrsta sem ég sá var .... LÉTTMJÓLK! Ég argaði í huganum, róaði mig síðan, allt á sekúndubroti, og spurði unga manninn kurteislega hvort hann vissi hvað léttmjólk gerði kaffi. Eftir rúmlega tveggja áratuga sambúð ætti hann að vita að á þessu heimili er EKKI keypt léttmjólk. Aldrei, never! Ekki einu sinni í neyð. Léttmjólk gerir kaffi grátt! Það sem bjargaði erfðaprinsinum var það að dreitill af nýmjólk, nægilegt magn var til í latte í dag og á morgun.

RútanSjórinn er hávær og fallegur núna. Af og til koma stórar og tærar öldur, svona smágerðar Miðjarðarhafsöldur, sem búa til mikinn hávaða þegar þær falla tígulega niður. Ummm, hafið. Stór rúta frá Hópbílum stoppaði hérna á neðra hlaðinu áðan og hleypti út fjörkálfum sem geta núna verið hvar sem er á Skaganum og lita bæinn rauðan. Verst að rútubílstjórarassgatið leggur beint fyrir framan himnaríki og skyggir á skvetturnar. Hann sér ekki huglæga bannmerkið á ljósastaurnum: Varúð, útsýnisstaður frú Guðríðar.

 

HunangsmániÞað eina sem ég sá í boldinu var að Nick og Brooke eru gift og njóta hveitibrauðsdagana, í þeirra tilfelli og miðað við ríkidæmið ættu þetta frekar að kallast vínarbrauðsdagar (aulabrandarar eru líf mitt og yndi). Hin sólbrennda Bridget tryggir sér endalausa samúð með því að gera eins mikið og hún getur úr sólbrunanum (sem Felicia, hálfsystir hennar, olli). Bridget klæðist bleikum sjiffonkjólum, í stíl við andlitið, og drekkur rauðvín, sem er líka mjög flott litasétteríng við andlitið.  

Tommi og JónasÞað skemmtilegasta sem Tommi gerir þessa dagana er að vera úti á stóru svölum, stökkva eftir flugum og éta þær. Ferskara sushi fær hann varla og þetta ætti að spara matarkostnað kattanna. Þegar Tommi og Kubbur gera þetta inni tek ég alltaf fyrir eyrun og loka augunum. Reyni þó fyrst að bjarga flugunum út en ef þær er mjög leiðar á lífinu og neita að fara út er fátt hægt að gera fyrir þær.


Kynþokkaaðskilnaðarstefna

Slef og slappleikiHér á þessu heimili var vaknað kl. 6 og ekki séns að sofna aftur. Voðalegur slappleiki eitthvað, vesen og vanlíðan. Eins og það hefði verið gaman að geta tekið fyrsta strætó, ganga samferða Sigþóru upp súkkulaðibrekkuna og bjóða prófarkalesurnum góða kvöldið við mætingu þeirra undir kl. 8. Þess í stað hef ég á víxl unnið við tölvuna og legið í rúminu. Ég sá meira að segja morgunútgáfuna af boldinu og verð að láta það fylgja með þar sem atburðir gerast vart dramatískari. Mikil kynþokkaaðskilnaðarstefna í gangi þessa dagana.

Nick er brjálaður. Þar sem hann stendur við hlið Brooke og þau eru í þann veginn að heita hvort öðru eilífri ást og tryggð sér hann auglýsingaskiltið með henni nakinni. Við erum reyndar að tala um bandaríska nekt þar sem sést í smá hold en ekki mikið meira. Nick rýkur á brott og Brooke á eftir honum. Í limma sitja Stefanía og Massimo (pabbi Nicks) og skemmta sér konunglega. Nú fer hún aftur til Ridge sem hún á barnið með, hugsa þau. Skrýtið að þau reyni ekki að koma honum aftur til Taylor sem hann á þrjú börn með (Tómas og tvíburana).

Ridge situr dapur inni á skrifstofu sinni og syrgir Brooke sína þegar hún birtist í brúðarkjólnum og segir: „Þú sagðir satt, Nick er bara að reyna að stjórna mér.“ Þau faðmast. Þau kyssast! Argggg! Nei, þetta voru draumórar hjá Ridge.

Nick og Brooke rífast. „Ég ætlaði ekki að giftast eggjandi módeli,“ segir Nick sár. Hann veit að þetta er runnið undan rifjum Forresterana sem vilja skilja þau að.


Að næra flughræðslu, fara í nám, éta eldingar og prumpa þrumum ...

West-Ham-02Við erfðaprins höfum sett Englandsferðina á HOLD til hausts. Veltum ýmsu fyrir okkur, ekki bara fjármálum (hruni vegna okurviðgerðarábílreiknings), heldur líka því hvaða stemmning gæti mögulega verið í gangi í lokaleiknum hjá West Ham í maí. Nú eru þeir ekki í fallhættu, eins og í fyrra, og meiri möguleikar á bragðdaufum leik, ja, alla vega ekki jafnspennandi. Vegna þessa hefur erfðaprinsinn tekið upp fyrri iðju ... að horfa á hroðalega flugslysaþætti á National Geographic-stöðinni. Hann hafði ákveðið að geyma það þar til eftir þotuflugið yfir hafið en ... um að gera að næra svolítið flughræðsluna. Skrýtið að ástin á flugferðum hafi ekki erfst frá móður til sonar, eins og greindin, því mér finnst æðislega gaman að fljúga og t.d. fín stemmning í því að lesa flugslysabækur í flugi.

Annars skrapp erfðaprinsinn upp í fjölbrautaskóla í dag í viðtal hjá námsráðgjafa og ætlar í kjölfarið að skrá sig í fullt nám næsta vetur. Líst vel á þetta! Hann hefur alltaf átt auðvelt með að læra og nú mun það loks nýtast honum! Fórum til Maríu á Skrúðgarðinn á eftir og indverska súpan hennar var hreinasta snilld!

chuck-norrisHér kemur síðasti skammturinn af Chuck Norris-staðreyndum, alla vega í bili. Hef verið húkkt á honum undanfarið og ætla að taka DVD-mynd með honum á leigu fljótlega, auðvitað bara til að dást að honum.
- Chuck Norris spilar skvass með vöfflujárni og keilukúlu.
- Chuck Norris borðar eldingar og prumpar þrumum.    
- Chuck Norris notar Tabasco Sauce sem augndropa.
- Chuck Norris getur fengið fullt hús með aðeins einu spili.
- Chuck Norris þarf að nota staðgengil í grátsenum.
- Chuck Norris getur klofið atóm. Með berum höndum.
- Chuck Norris getur haldið niðri í sér andanum í níu ár.
- Chuck Norris getur látið lauk gráta.
- Chuck Norris elskar ekki Raymond. 
- Chuck Norris getur sleikt olnboga sína … báða í einu.
- Chuck Norris getur sparkað bíl í gang.
- Chuck Norris skilur endinn í 2001: A Space Odyssey.
- Þegar Chuck Norris borar í nefið finnur hann gull, í alvöru.
- Chuck Norris getur klappað með annarri hönd.
- Chuck Norris klippir táneglurnar með keðjusög.
- Auðveldasta leiðin til að aldursgreina Chuck Norris er að skera hann í tvennt og telja hringina.
- Chuck Norris veðjaði við NASA að hann gæti lifað af flug í gegnum lofthjúp jarðar án þess að vera í geimbúningi. Þann 19. júlí 1999 þaut hann nakinn inn í andrúmsloftið og á leiðinni yfir 14 ríki Bandaríkjanna náði hann 3.000 stiga hita á Celsíus. Skömmustulegir Nasa-menn sögðu fjölmiðlum að þarna hefði vígahnöttur verið á ferð og skulda Chuck Norris enn bjór.

Þeir feitu og fögru - varúð, bold!

Nick, Brooke og Hope DeaconsdóttirJæja, er ekki komið að því að bolda? Stefanía planar viðurstyggilega hluti til að koma í veg fyrir brúðkaup Brooke og Nicks en sonur hennar, Ridge, vill kvænast Brooke einu sinni enn og það sem sonurinn þráir skal látið eftir honum þótt hann sé orðinn rúmlega fimmtugur. Felicia er grautfúl út í hálfsystur sína, Bridgeti, fyrir að hafa nokkurn veginn stolið mannsefninu hennar og hefur gert sitt til að gera líf litlu systur viðbjóðslegt. Jæja, best að byrja.

Stefaníu tókst að plata Brooke í nektarmyndatöku vegna nýju, sexí línunnar sem Forrester-fyrirtækið sýndi á dögunum. Brooke vill síðan ekki að myndirnar birtist í auglýsingum. Stefanía og Massimo (pabbi Nicks og blóðfaðir Ridge sem finnst að Ridge eigi að eiga Brooke vegna barnsins) ætla að skella einni nektarmyndinni á risastórt auglýsingaskilti sem verður á leið Brooke og Nicks til giftingarathafnarinnar. Þá ætti þriðja og síðasta áfallið að ríða yfir Nick og hann hættir við, eins og hann hefur hótað. Eða hafa taugarnar skánað?

Felicia, Dante og BridgetFelicia virðist hafa sett steikarolíu eða eitthvað í staðinn fyrir sólvarnaráburð og þegar Dante og Bridget ætluðu að hafa það kósí í sólinni, eftir að Dante valdi Bridget fram yfir Feliciu, sólbrann hún alveg hroðalega. Ekki nóg með það. Læknir gaf Bridgeti deyfikrem sem Feliciu tókst að setja bótox í og nú er vesalings Bridget með lamað andlit. Felicia hló subbulega yfir þessu við Kristján lækni (bróður brunakarlins) og sagði að Bridget fengi ekki hrukkur á næstunni, gæti þakkað fyrir það. Dante hlýtur að hætta að vera skotinn í Bridgeti, hún er eldrauð, slöpp og slefar ... en er að vísu hrukkulaus.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.2.): 0
  • Sl. sólarhring: 84
  • Sl. viku: 696
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 563
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • Rafmagn
  • Skýjahöllin
  • stoppistöð

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband