Færsluflokkur: Sjónvarp

Hver skipuleggur eiginlega konunglegt brúðkaup á Evróvisjóndegi?

Royal weddingEf ég væri Jóakim prins væri ég ansi fúl út í dönsku hirðina. Hver skipuleggur eiginlega konunglegt brúðkaup á Evróvisjóndegi? Alveg er ég viss um að brúðarmeyjan unga hefur harðneitað að taka þátt í þessum mistökum. Brúðkaupið hefur algjörlega í skuggann af keppninni þegar fólk um allan heim keppist við að undirbúa hátíðina. Matar- og kökuilmur berst nú frá hverju húsi og yfirgnæfir hreingerningalyktina. Hátíðin gengur í garð kl. 19 og þá hafa prúðbúnir Íslendingar í hátíðarskapi sest fyrir framan sjónvörpin sín, nema þeir sem eru auðvitað á síðustu stundu með allt. Mikið vona ég að áfengisdrykkja setji ekki svip sinn á hátíðina eins og stundum áður. Mér finnst þetta of heilagur dagur til að hafa áfengi um hönd. Við þurfum líka að vera með vel á hreinu hvaða lönd gefa okkur stig upp á að geta ákveðið hvert á að fara í sumarfríinu. Kannski það eina góða við brúðkaupið á þessum degi er að ef Ólafur og Dorrit eru þarna þá geta þau hringt úr veislunni og gefið Íslandi atkvæði sín.

Skrúfjárn örlagannaÞegar ég kom heim í gær lá erfðaprinsinn í svarta sófanum og hélt blíðlega utan um ... skrúfjárn. Ég argaði upp yfir mig, enda langar mig í alvörutengdadóttur. „Þetta er skrúfjárnið sem kom uppþvottavélinni í lag,“ útskýrði hann. „Ég hringdi í Smith og Norland og spurði út í bilunina (ekki hægt að loka vélinni) og þeir sögðu að ég gæti auðveldlega lagað þetta með skrúfjárni,“ sagði hann himinglaður og kossunum rigndi yfir skrúfjárnið. „Eins gott að ég var ekki búinn að vaska allt upp úr þvottavélinni.“ Skipting heimilisverka í himnaríki er einföld. Erfðaprinsinn gerir allt! Ég tilkynnti honum þegar hann var 27 ára að síðustu 2027 árin hefðu konur séð um heimilisverk. Næstu 2027 árin væri komið að körlunum. Það yrði mér sönn ánægja að taka við þeim aftur þá. Hann er í þessum skrifuðum orðum að bóna ... húsþakið.


mbl.is Brúðarmeyjan mætir ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framtíðarflugróbótsmynd, Evróvisjón og áfram Noregur!

StealthÁkvað að horfa á eina hasarmynd fyrir svefninn. Fyrir valinu varð spennuframtíðarmynd á Stöð 2 um flugmannsróbót og ævintýri hans, Háloftaógnir heitir hún. Ætlaði að finna nafn hennar á ensku en um leið og klukkan slær 12 á miðnætti getur maður ekki skoðað laugardagsdagskrána á stod2.is þótt margir klukkutímar séu eftir af henni. Bara sunnudaginn. Stór galli að geta ekki kíkt aftur í tímann. Erfðaprinsinn bjargaði því!
Áhuginn á myndinni minnkaði jafnt og þétt en ég hélt áfram að hlusta með öðru. Þarna komst ég endanlega að því að orðið Lady er blótsyrði en mig hefur lengi grunað það. Fjórir orrustuflugmenn; róbót, kona, svartur maður og hvítur maður. Róbótinn var fastur við flugvél sína en ekki fólkið. Einu sinni á hlaupum út í vélarnar stoppaði konan við dyrnar að flugmóðurskipsþilfarinu, hleypti mönnunum á undan sér og sagði hæðnislega við þá: „Ladies first!“ Og þeir urðu voða spældir, samt svona í gríni. Hver vill láta líkja sér við konu?

Kyssilegt flugkvendiEkki held ég að konan hafi fattað að hún gerði þarna lítið úr helmingi mannkyns ... en hún fékk alla vega borgað fyrir það og svo samdi hún þessa setningu ekki sjálf, heldur einhver sem heldur að reynsluheimur kvenna sé eins og í LU-kexauglýsingunni, svona voða vitlausar, krúsílegar konur sem vita ekkert meira spennandi í lífinu en kexgetraun eða að horfa á rómantíska þætti, myndir og svona (þetta var líka lúmsk árás á Stöð 2 og SkjáEinn). Konur eru náttúrlega best geymdar í tilfinningasulli, þær heimta ekki jafnrétti og betri laun á meðan. En alla vega ... flugmannsróbótinn bjó yfir gervigreind og ákvað að gera árásir á ýmis skotmörk í stað þess að hlýða yfirmönnum, drap meira að segja flugmann númer 3, þennan svarta, í sjálfsvörn að vísu, það átti að eyða honum fyrir óhlýðnina. Flugmaður 2 þurfti að nauðlenda í Kóreu en flugmanni 1 tókst að tala róbótinn til svo hann varð voða góður og hjálpaði honum að bjarga flugmanni 2, konunni sem flugmaður 1 elskaði. Vondi yfirmaðurinn á flugmóðurskipinu reyndi að láta skapara róbótsins eyða öllum gögnum og líka að hefta för flugmanns 1.

Tók ekki alveg eftir því hvað gerðist næst en flugmaður 1 dreif sig í blálokin í að biðja um hönd flugmanns 2. Áður hafði hann farið á trúnó við flugmann 3 sem sagði honum að ef hann léti í ljós ást sína á henni myndi hann eyðileggja framadrauma hennar í flughernum því að tveir flugmenn mættu ekki vera saman þótt flugmaður 2 væri afar kyssilegur. Þetta var sem sagt hálfgerð femínistabeljumynd með undirliggjandi karlrembu. Hefði frekar verið til í Arnie eða Bruce ...

Alla leiðVeit ekki hvað erfðaprinsinum fannst um myndina en hann hafði alla vega aldrei séð hana áður. Eina sem stóð upp úr dagskrá kvöldins var Alla leið með Páli Óskari og dómurunum frábæru. Mikið er gaman að því hvað mikil stemmning er fyrir Evróvisjón. Ég hlakka hrikalega til á laugardaginn.

Nú rifjaðist fyrir mér að það er u.þ.b. ár síðan nágranni minn í risíbúðinni hinum megin kíkti í óvænta heimsókn sem olli því að Evróvisjónmaturinn minn brann aðeins og ég missti af byrjun söngvakeppninnar. Beiskjan er alveg horfin en ég ætla samt til öryggis að taka síma og dyrabjöllu úr sambandi á laugardaginn, vera með hlaðborð af mat handa okkur erfðaprinsi og köttum og njóta Evróvisjón í ræmur.

Aframmm NorgeÆtla að halda með norska laginu, næst á eftir því íslenska, af því að ég skrifaði þannig um Norðmenn í færslu nýlega að Norðmaður nokkur, búsettur á Íslandi, hélt að mér væri alvara. Norðmenn eru bara svo góðir að enginn trúir illu upp á þá og þess vegna liggja þeir vel við höggi.

Sögurnar sem strætósamferðakona mín sagði mér voru samt dagsannar ... en þær segja auðvitað ekkert um heila þjóð ... sem var misheppnaði djókurinn minn. 

Áfram Noregur!


Ást og fótbolti

Ástin á tímum kólerunnarHef verið að lesa svo dásamlega bók. Endurlesa öllu heldur þar sem hún var að koma út í kilju. Ástin á tímum kólerunnar eftir Gabriel Garcia Marquez. Mögnuð ástarsaga um langa bið eftir elskunni sinni. Ég er nú sjálf svo trygglynd að það væri eflaust ekki mikið mál fyrir mig að bíða í fimmtíu og eitt ár, níu mánuði og fjóra daga eftir stóru ástinni minni. Alla vega ef ég fengi nóg af latte og góðum bókum til að þreyja biðina. Einu sinni á unglingsárum mínum vorum við pabbi í bíltúr og ég sagði honum frá nýjustu ástarsorginni. Löngu seinna sagði hann mér hvað honum hefði þótt fyndið þegar ég talaði um trygglyndi mitt gagnvart strák sem vissi varla af tilveru minni. Þetta hefur samt örugglega ekki verið sönn ást, annars væri ég enn að bíða ef ég þekki mig rétt. Þetta getur því ekki hafa verið maðurinn sem síðar varð fyrrverandi eiginmaður minn, við kynntumst á unglingsárunum. Eða hvað. Ó, kannski er ég ekkert trygglynd, heldur ein af þessum gleymnu glyðrum sem eltast við flottustu buxnaskálmarnar.

Oh+My+Nose+soccerHermann sigraði. Held að ég hljóti að hafa átt þátt í því á einhvern hátt. Fyrir misskilning var Stöð 2 Sport nefnilega opin hjá mér. Ég gerðist áskrifandi að stöðinni um páskana og þegar ég fattaði, þremur tímum seinna, að ég fengi ekki Formúlu og fótbolta á einni stöð hætti ég með hana. Gjaldið var þó dregið af mér um síðustu mánaðamót en það átti að ganga upp í áskrift að Stöð 2 núna næst. Þegar ég hringdi í ungan mann í þjónustuverinu um síðustu mánaðamót til að tékka hvort þetta yrði alveg pottþétt jánkaði hann því í algjöru áhugaleysi (eftir að hann heyrði kennitöluna mína) ... og gerði mig svo bara að áframhaldandi áskrifanda.

Ung, áhugasöm og frábær stelpa í þjónustuverinu lagaði síðan þennan misskilning áðan. Það hlaut eitthvað að vera og þetta er allt Þresti að þakka, athugasemd hans í kommentakerfinu við síðustu færslu. Það hefði orðið erfitt að leiðrétta þetta ef liðið hefði lengri tími. Kannski fæ ég mér bara Enska boltann næsta haust. Eða fer í fótboltaferðina langþráðu.


Hjólreiðahetja, útrás hringtorga og pínkuponsu bold

Mógilsá í framtíðinniSlapp fremur snemma heim, svona miðað við að það er föstudagur. Tókst að pína aðeins hjólreiðahetju okkar Skagamanna sem kom ásamt hjóli sínu með strætó nr. 15 í Mosó og fékk það síðan geymt í farangursgeymslu Skagastrætó. „Hnuss, á ekki að hjóla heim?“ spurði ég. „Nei, ég má ekki fara á reiðhjóli í göngin,“ svaraði hjólreiðamaðurinn glaðlega, fullur af endorfíni. „Hvað með að fara fyrir Hvalfjörðinn?“ hélt kyrrsetukonan úr himnaríki áfram og leið svolítið eins og djammara sem skammar þann heimakæra fyrir að eiga sér ekkert líf. Hjólreiðamaðurinn sagði okkur sem sátum þarna fremst hjá Gumma bílstjóra að hann hefði nú einu sinni hjólað Hvalfjörðinn og það hefði tekið rúma sex tíma. Hann hætti í vinnunni á hádegi þann daginn og hjólaði þetta í félagsskap með fleiri hraustmennum og –kvendum. Hann sat fyrir aftan mig og sá ekki aðdáunarglampann í augum mínum. Gummi bílstjóri vill meina að þegar koma ný göng, ef verður af Sundabraut, muni koma hjólreiðastígur þar ... kannski loftræstur eða með súrefnisblæstri, nema hjólreiðahetjurnar hjóli hreinlega með súrefnistæki. Annars fréttum við í gær að það kæmi enn eitt hringtorgið við Mógilsá við rætur Esjunnar. Held að það finnist ekki fleiri staðir í Mosó til að skella hringtorgum á og þetta heitir nú bara að færa út kvíarnar. Snilld.

Eric og DonnaÉg rétt náði í skottið á boldinu á Stöð 2 plús. Donna, systir Brooke, slær í gegn hjá Forrester-unum og þykir með afbrigðum kynþokkafullt módel. Svo æðisleg að ástarsorgin vegna Brooke sviptist af Ridge. Skyldi hann gruna að hún verði kannski einn daginn stjúpmóðir hans? Hún og Eric virka nú svolítið spennt á myndinni ... Hin hamingjusama, nýgifta Brooke segir Nick sínum að hún ætli að aðeins að kíkja á myndatökuna en nú myndar prófessjonal kona, Ridge var greinilega bara að taka prufumyndir í gær. Ekkillinn Thorne platar Taylor með út ... og þau enda á AA-fundi. Taylor heldur þar hjartnæma ræðu um aumingja Thorne sem missti konuna sína í bílslysi ... en minnist ekki á hver á sökina ... eða allt sérríið sem hún hefur dreypt á undanfarið. Hlýtur að vera leiðinlegt fyrir hana að koma aftur (eftir að hafa dáið og lifnað við) inn í þessa þætti, nýbúin að fara í margar lýtaaðgerðir hjá eiginmanninum í raunheimum, og þurfa svo að leika alka sem drepur konuna hans Thorne, reyndar óvart.
Brooke fylgist einstaklega fúl á svip með sínum margsinnis gamla eiginmanni, Ridge, sem hún er nýbúin að hafna fyrir Nick, horfa áfergjulega á Donnu í ýmsum korsilettum, greinilega búinn að steingleyma ódauðlegri ást sinni á henni. Þegar myndatökunni lýkur kyssast Donna og Ridge og Brooke verður alveg brjáluð út í Donnu. Hún öskrar: „Þú mátt ALDREI kyssa Ridge!“


Leiðrétt kjaftasaga, heitar vöfflur og pínulítið bold

Netið lá niðri í vinnunni eftir hádegi í dag og ég sem ætlaði að blogga í hádeginu. Splunkunýr Indverji var á Ártúnsstoppistöðinni í morgun og eitthvað grunsamlegt í gangi en nú er ég búin að steingleyma hvað það var.

PólitíkinÍ hádeginu var farið að tala um kjaftasögur, margir starfsmenn hússins samankomnir í sólinni úti í porti. Handleggirnir á mér eru eins og undanrenna á litinn en ég bretti niður ermarnar þegar einn samstarfsmaðurinn sagði að það væri í tísku að vera hvítur. Held samt að hann hafi bara verið að gleðja mig en það glampaði samt óþægilega á handleggina, ég fékk ofbirtu í augun, svipað og þegar ég hef verið að horfa á SkjáEinn um kvöld og skjárinn verður mjallahvítur þegar auglýsingar eru kynntar inn.
Einn viskupúki staðarins veit bókstaflega allt
sem er í gangi í þjóðfélaginu. Hann fór að tala um ráðherraskilnaðar- söguna og sagði hana algjört bull, verið væri að reyna að klekkja á viðkomandi, svona pólitískur viðbjóður ... eins og tíðkast víst í stjórnmálum þar sem reynt er að bregða fæti fyrir keppinauta um stjórnunarstöður og svona.

VöfflurÉg fer mjög sjaldan í kaffi í vinnunni, tel mig ekki hafa gott af sætabrauði um miðjan dag, enda nóg af sætum strákum í vinnunni svo sem ... en í dag gerði ég undantekningu, það voru nefnilega heitar vöfflur með rifsberja- eða rabarbarasultu og rjóma. Biðröðin náði út upp í Europrís, eða hefði gert ef allir hefðu komið í einu.

Svo er alltaf sama stuðið í boldinu. Taylor orðin aðalhuggari ekkilsins Thorne sem veit ekki að það var hún sem ók drukkin á Dörlu. Donna, systir Brooke, er farin að sitja fyrir í Beði Brooke, tískulínunni kynþokkafullu og til að spara leikarakostnað tekur Ridge ljósmyndirnar af henni, ásamt því að hanna fötin. Þau eru hættulega innileg, svona miðað við að í framtíðinni eru miklar líkur á því að hún verði stjúpmóðir hans.


Bara bold og bjútífúl - kominn tími til

Það er sko löngu kominn tími á bold, þótt fyrr hefði verið, en nú er allt að verða vitlaust enn eina ferðina. Ég bið bold-aðdáendur velvirðingar á því að ég ferðast aðeins um nútíð, framtíð og jafnvel fortíð í þessari frábæru færslu. Ef þú rennir bendlinum yfir myndirnar sérðu nöfnin á fólkinu ...

Stefan�a, Eric og DonnaNútíð: Brooke fann staðgengil fyrir sig sem fyrirsætu í Brooke´s Bedroom-línunni, eða nýkomna systur sína Donnu, og þarf því ekki að kvelja húsbandið Nick með því að sitja fyrir nakin. Donna mátar sig í laumi við fyrirsætuhlutverkið og Ridge kemur á vettvang, hrósar henni en segist vera hættur að hanna þessa línu. Hann er dapur, hún fær áfall en hún heldur með honum og finnst að Brooke, systir hennar eigi að vera gift honum.

Systir Stefan�uFramtíð: Donna á síðar eftir að gera harða atlögu að ... Eric gamla, hvaða kona þráir ekki að verða frú Forrester? Samt eru synir Erics á lausu, Ridge og ekkillinn Thorne. Ég veit að systir Stefaníu mun gera allt sem hún getur til að losna við Donnu og koma í veg fyrir giftingu þeirra Erics, enda elskar Stefanía alltaf sinn gamla og góða og til hvers eru systur?

BrookeNickLFortíð: Fyrir þá sem ekkert vita um boldið þá var Brooke gift Eric (tvisvar) og eignaðist með honum Bridget og Rick. Brooke er núna gift tengdasyni sínum, fyrrum manni Bridgetar, en það er komið upp í vana hjá henni að stinga undan dótturinni, Brooke á Hope litlu einmitt með Deacon, fyrrum tengdasyni sínum.

taylorFramtíð: Af hinu barni Brooke, Rick, er það helst að segja að það fer að halda við Taylor, sem er líklega eldri en Brooke. Rick reynist Taylor mjög vel þegar hún missir forræðið yfir barni sínu vegna drykkju en samt átti hún í raun ekki þetta barn með Nick, úps, já, þau Nick voru saman eftir að hann hætti með Brooke, og ég er að tala um framtíðina. Bridget er orðin læknir og gerir þau afdrifaríku mistök að ruglast á eggjum móður sinnar, Brooke, og Taylors, þannig að Taylor gengur með og eignast barn erkióvinar síns og Nicks. Mjög ruglandi og ekkert skrýtið þótt hún marineri sig í vodka.

felicia_dante_og_bridgetNútíð: Dante er voða spældur þar sem Bridget hans er ekki ólétt samkvæmt óléttuprófi sem hún tók. Þegar Bridget segist vera ánægð og henni létt þá trompast Dante og segist hafa beðið þolinmóður eftir henni í rúmt ár, eða á meðan hún var gift Nick, núverandi stjúpföður sínum, og næstum eignast barn með honum. Sjálfur hafi hann næstum gifst Feliciu á biðtímanum. Nú rekur hann Bridget út, segist þurfa að hugsa. Næst sést hann skælandi í Feliciu, barnsmóður sinni og hálfsystur Bridgetar. Vonarglampi kviknar í augum Feliciu. Jamms, breytingar eru fram undan því ekkert ástarsamband fær að vera í friði fyrir handritshöfundunum og vegna leikarafæðar skiptist fólk bara á elskum.
„Ég er ekki að reyna við þig en þú veist hvaða áhrif þú hefur á mig,“ segir Donna við Ridge, „þú ert sætur og sexí ... osfrv.“ Þetta var greinilega það sem Ridge greyið þurfti ... og þau kyssast.

 


Æ, strákar mínir á Stöð 2

EM 2004Nú er martröðin hafin! EM í fótbolta að byrja og þá skal passað upp á að kvenfólkið verði á réttum stað, eða yfir dramaþáttum og ástarvaðli í sjónvarpinu sem á að vera sárabót fyrir þennan  fótbolta sem allar stelpur hljóta að hata. Nú skal fetað í fótspor SkjásEins sem gerði þetta í hittiðfyrra við miklar óvinsældir margra kvenna ... og karla. Það var nefnilega annað hvort fótbolti eða væl.

Drama fyrir konurÉg er löngu hætt að sætta mig við að vera dregin í dilka: stelpurnar skulu vera hér yfir dramavæmninni og strákarnir þar yfir fótboltanum, helst ropandi, prumpandi og klórandi sér í bumbunni (staðalímynd af körlum). Ég fyllist heitri bræði þegar ég hugsa um alla fótboltaleikina sem þetta hefur kostað mig í gegnum árin ...  af því að umhverfið sagði mér að stelpur fíluðu ekki fótbolta, bara strákar, fótboltaleikir væru ömurlegir og það væri eðlilegt að ég ryksugaði á laugardögum og horfði reið og sár á manninn minn sem var neyddur til að horfa á fótboltann af því að það var svo karlmannlegt. Vá, ég var að fatta af hverju maðurinn minn heimtaði skilnað ... fjárans Nilfisk.

Sj�nvarpAnnars heillar sjónvarpsgláp mig ekki á sumrin, enda lélegri dagskrá á boðstólum (nema fótbolti og Formúla og fréttir). Já, ég er konan sem horfir bara á sjónvarpsefni sem byrjar á F-i. Þetta er orðinn vítahringur, sjónvarpsstöðvarnar eyða engu púðri í efni af því að það horfir örugglega enginn á sjónvarp á sumrin. Og það er ekki horfandi á sjónvarp af því að ... já, og svo framvegis. Svipaður hugsunarháttur og á gamlárskvöld eftir miðnætti þegar bara eru á dagskrá endursýndar myndir ... af því að ALLIR eru úti að skemmta sér, sjúr!

Jæja, strákar mínir á Stöð 2, hættið þessu staðalímyndakjaftæði, sýnið báðum kynjum virðingu, það er komið árið 2008.

Áfram ÍAVið mörðum jafntefli í dag, Skagamenn, í þessum fyrsta leik sumarsins. Erfðaprinsinn fór á völlinn með ÍA-trefil um hálsinn og fannst afskaplega gaman. Ekki heyrðist kattarins mjálm í himnaríki þegar mörkin tvö voru skoruð, þvílík fagnaðarlæti, gestirnir (Breiðablik) eiga sér greinilega háværan stuðningsmannahóp líka. Ég horfði til skiptis ofan af svölunum og svo sat ég líka og fylgdist með útsendingu á mbl.is, þar uppfærast allar nýjustu fréttir á mínútu fresti. Snilld! Annars bara letidagur.


Heimkoma Hildu, fótboltavonbrigði og fullt af boldi

Hilda � sp�talanumMikið létti mér þegar ég heyrði í Hildu um hádegisbil, hún komin heim og ekki með heilahimnubólgu eins og læknar héldu á tímabili. Fyrsta sem ég spurði hana að var hvort hún hefði fengið ælupokann. Hún hló og sagði að það hefðu greinilega verið vaktaskipti um þetta leyti og einstaklega vel hefði verið hugsað um hana. Það tókst í fjórðu tilraun (hjá fjórða lækni) að ná úr henni mænuvökva en hún hefur fíngerðar æðar eins og ungbarn og þær liggja djúpt eins og sum ættarleyndarmál. Seinni svæfingarlæknirinn gat þetta í fyrstu tilraun, hún lét Hildu bara setjast upp. Þegar ég fór í aðgerð fyrir nokkrum árum kveið ég einna mest fyrir mænudeyfingunni sem var framkvæmd á skurðarborðinu. Ungur læknir sem ég viðraði þetta við hughreysti mig þótt ég væri með Chuck Norris-svip á andlitinu og sagði að í kæruleysispillunni væri ákveðið gleymskuefni. Það passaði, ég man bara eftir að hafa setið upprétt og hallað mér fram í fangið á elsku Kristínu skurðhjúkku og bara nokkrar sekúndur í stunguna. Síðan bara gleymska. Ég hef því einungis hálfrómantískar minningar úr skurðstofunni, vantaði bara kertaljósin. Hilda þarf að muna árangurslausar tilraunirnar og líka þá sem tókst en þar sem hún er töffari mun það ekki hafa varanleg áhrif á hana.

priceless80'sBoldið rúllar í sjónvarpinu og gamlar endurminningar um Sankti Dörlu eru rifjaðar upp. Mikið vona ég að eitís-tískan komi aldrei aftur. Fólk leit skelfilega út, þ.á m. Darla. Sem betur fer missti ég mig aldrei í herðapúðanotkun af því að þeir hafa alltaf klætt mig illa. Hárgreiðslan var kannski annað mál.

RonaldoErfðaprinsinn kom beiskur af barnum áðan, hafði verið að horfa á Manchester United-West Ham. Þegar staðan var orðin 3-0 lét hann sig hverfa, þó er hann gamall MU-aðdáandi. Svona hefur hann Sigþór mágur mikil áhrif á fjölskylduna að allir, ábyggilega mamma líka, halda óðir með West Ham. Annars á Heiðdís, tvíburamamman knáa, afmæli í dag og mamma á mánudaginn. Áfram West Ham. Held að bati Hildu hafi orðið svona skjótur af því að hún var búin að lofa mömmu að sækja tertu í bakarí í Mjóddinni á mánudaginn. Mikið vona ég að tertan verði ekki með hnetum.

ThorneThorne er kominn heim af sjúkrahúsinu eftir lát Dörlu. Allt er enn í blöðrum og skreytingum eftir barnaafmælið. Hector kemur tárvotur heim til Taylor og segir henni að Darla sé dáin. Taylor rétt svo getur gargað og grátið fyrir vörunum sem flækjast óneitanlega svolítið fyrir henni með öllu þessu bótoxi. Ridge rýkur til Brooke og færir henni fréttirnar, fær þar kærkomið tækifæri til að sjá konuna sem hann elskar en hún ekki hann. Darla og ThorneTaylor stingur af og fer til Thorne sem var aleinn að horfa á afmælismyndband. Þegar þau standa í faðmlögum byrjar Darla allt í einu að tala úr sjónvarpstækinu. Hún hefur ákveðið, rétt fyrir dauða sinn, að segja eitthvað ótrúlega sætt við Thorne sinn inn á vídeó, eins og hún hafi fundið þetta á sér ... Hún játar að hafa týnt dematnseyrnalokki í heita pottinum. Segið svo að ríka fólkið hafi ekki áhyggjur líka. Aumingja Thorne missir sig algjörlega og kjarkur Taylor til að játa á sig að hafa ekið á Dörlu minnkar stöðugt. Hún segir samt stöðugt sorrí, sorrí, sorrí.

DonnaSystir Brooke, Donna, er komin til sögunnar og nú leikin af annarri leikkonu en í gamla daga þegar ég horfði ekki. Hún er svolítið gæruleg, ef ég á að vera alveg hreinskilin. „Hve oft sagðir þú mér eiginlega að Ridge væri örlög þín?“ spyr Donna sem skilur ekkert í því af hverju systir hennar er allt í einu gift Nick. Hún verður óþægilegur gestur á heimilinu. „Skiptir þú Ridge út fyrir hann,“ segir hún, ekki mjög hrifin af Nick. „Mann sem bannar þér að sitja fyrir nakin, aldrei myndi Ridge gera það.“


Aldeilis helgarbyrjun ...

Ljósin í strætóMeð því að hotta duglega í leigubílstjórann á leiðinni í Mosó náðist í skottið á 18.45 vagninum á Skagann, þeim síðasta fyrir kvöldáætlunina. Það hefði verið frekar fúlt að þurfa að bíða til 20.45 og missa af Reykjavík rústa Garðabæ í Útsvari. Datt ofan í bókina Áður en ég dey, eftir smápásu á henni, og tókst að lesa alla leiðina, líka í göngunum þar sem Heimir kveikti á kristalsljósakrónunni í loftinu. Hann er greinilega lítið fyrir rómantík í rörinu eins og hinir bílstjórarnir. Skömmu síðar gekk hlaðþjónn um með vagn og bauð farþegum skattfrjálsan varning. Ég nennti ekki að kaupa ilmvatn núna, enda örstutt í árlega árás geitunga og býflugna á saklausa Íslendinga og þá sérstaklega þá sem úða á sig blómailmi eða ganga í gulum bolum. Tala af hroðalegri reynslu. Sem betur fer er ég fljótari að hlaupa en þessi kvikindi.

�arna er h�n HildaÉg var ekki fyrr sest í leisígörl með kött í kjöltu, latte í annarri og styrjuhrogn úr frísvæði Hfg í hinni þegar síminn hringdi og mér var sagt að systir mín væri komin á spítala ... með slæma flensu; háan hita og höfuðkvalir. Kynþokki Hildu (eða kölduflogin) hafði þau áhrif á húsvitjunarlækninn að hann pantaði sjúkrabíl. Hrikalega fallegir og skemmtilegir menn komu og fluttu hana á Borgarspítalann. Þegar ég heyrði í henni voru komnar 20 mínútur síðan hún bað starfsmann um að rétta sér svona „kasta-upp-poka“ en án árangurs. Hún getur samt ekki gengið óstudd, eiginlega varla hreyft sig, svo hún þarf þjónustu, blessunin. Ef ég hefði vitað af þessu hefði ég tekið strætó upp á spítala í stað þess að fara heim en ég var líklega alveg að lenda við himnaríki þegar fallegu sjúkrabílakarlarnir fluttu hana á Borgó. Þessi flensa er víst ekkert gamanmál. Vinkona mín á í svona hryllingi og hefur verið fárveik heima í heila viku.

Lífríki við svaladyrnarKubbur, yngri köttur himnaríkis, liggur nokkuð oft við dyr nýju svalanna og starir á eitthvað spennandi á gólfinu sem við erfðaprins komum ekki auga á. Þetta gerir okkur svolítið skelfd og í kvöld datt mér í hug að þar sem allt er enn ófrágengið hafi skapast pínulítið lífríki, kannski þjóðfélag, milli parketts, veggs og röra, eitthvað sem „smiðurinn sem hvarf“ hefði átt að loka fyrir ári. Samt sést aldrei neitt kvikt hérna. Erfðaprinsinn fjarlægði Kubb, eins og lífríkið myndi hverfa í leiðinni, ég benti honum hæðnislega á það, en Kubbsan var komin á sinn stað eftir örskamma stund. Nema þetta sé húsdraugur með fullkomnunaráráttu sem þolir ekki ófrágengna veggi. Best að hringja í smiðinn, hann lofaði að ganga frá þessu fyrir afmælið mitt ... en gleymdi að segja hvaða ár.

Sj�nvarpEkki hef ég nógu gaman af sérstaklegafyrirkonur-þættinum Lipstick Jungle, hvað þá nýja spítalaþættinum á RÚV á miðvikudagskvöldum. Ég gef samt öllu séns, vinnu minnar vegna, er samt alls ekki sjónvarpssjúk. Skil ekki þessa andúð mína á þáttum sem eiga sérstaklega að höfða til mín.

Held mig bara við Simpsons, Hæðina, Önnu Pihl, Kiljuna, Monk, CSI, Boston Leagal, Silfur Egils og fréttir. Já, og American Dad, Ísland í dag, Kastljós og svo nýja Evróvisjónþáttinn sem hefst annað kvöld og lofar góðu ... og boldið of kors.


Gas, felgur, rottweiler og smávegis bold

B�kasafni�Glæsilegur rauður sportbíll (10) beið mín við stoppistöðina (1) á Garðabraut eftir að Gummi bílstjóri (60) hafði skutlað okkur, hópi glæsilegra Skagamanna, heim úr Mosfellsbænum núna seinnipartinn. Ungur, stórhuggulegur maður (28) sat undir stýri á sportbílnum og bauð mér far á bókasafnið (152). Bíllinn er kominn á sumardekk og flottari felgur þannig að meira stuð en vanalega ríkti í bílnum. Held að ungar heimasætur á Skaganum hljóti að vera óhressar með að hafa séð stútungskerlingu (49) í farþegasætinu. Sportb�llinn � vetrardekkjumGömlu felgurnar (10) höfðu það náðugt í aftursætinu en dekkin (10) eru komin í dekkjahimnaríki. Sími (1/2) erfðaprinsins öskraði Gas, gas! en það er nýjasti tískuhringitónninn á landinu. Svo fékk ég senda slóðina á nýjasta rapplagið með xxx Rottweiler-hundum og þar leikur gas-öskrið veigamikið hlutverk í viðlaginu. Flott lag. Fyrir 1. maí ætla ég að láta bólusetja mig við meis-úða og piparspreii og síðan fríka út með mótmælaspjaldið mitt. Ef völvunni okkar á Vikunni skjátlast ekki verða stjórnarskipti fyrir áramót. Hún spáði réttilega fyrir um ólguna í ráðhúsinu í Reykjavík og borgarstjórnarskiptin.

Darla hans ThorneTaylor reynir að viðurkenna að hafa ekið á Dörlu en Thorne skilur ekkert. Stefanía og Sally fá fréttirnar af slysinu ... jamm, ég var búin að steingleyma því hvað handritshöfundar draga alla atburðarás á langinn í boldinu, ég lönguTaylor og Phoebe búin að skúbba því að Darla lifi þetta ekki af. Spara með því tíma fyrir fólk sem getur þá skúrað eða eitthvað á meðan. Held að það taki alla vega viku að drífa þetta af. „Eini sökudólgurinn er skepnan sem keyrði á Dörlu og skildi hana eftir í blóði sínu,“ segir Thorne og Taylor fríkar út. Hector löggu grunar eitthvað, en hann segist elska hana heitt og vilja vernda hana. „Listen carefully,“ segir hann við Taylor, „þú ert ekki með ökuréttindi eftir að hafa keyrt full og þótt þú fengir besta lögmann í heimi yrðir þú samt sett í fangelsi.“ „Ég vil játa, ég vil játa,“ veinar Taylor, alltaf svo heiðarleg. „Ég missti þig einu sinni, mamma, ég get ekki misst þig aftur,“ æpir Phoebe, annar tvíburinn, sem var vitni að þessu öllu saman. Sæti læknirinn, bróðir Hectors, kemur inn á sjúkrastofuna með góðar fréttir í sambandi við Dörlu ... sjúr, þetta mun taka langan tíma. Næstu þættir verða án efa mjög átakanlegir og fullir af gömlum klippum af Dörlu. Já, og hugsandi um aðra sem hafa hætt í boldinu ... ég fékk fréttir í kommentakerfinu nýlega um að Amber sé komin í aðra sápuóperu, systursápu boldsins, Young and the Restless.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.5.): 11
  • Sl. sólarhring: 64
  • Sl. viku: 2207
  • Frá upphafi: 1458910

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 1811
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Fallegustu menn í heimi
  • hvernig íslend sjá Evrópu
  • Siegfriedungjoy

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband