Sjokkerandi sambandsslit og vinir okkar, Danir

Myndin„Æ, er ekki betra að vera svolítið dipló og sýna kurteisi í samskiptum, er ekki tekið meira mark á manni þannig?“ spurði ég nýlega í stuttri pásu til að horfa á „helstið“ í fréttunum.

„Bíddu, bíddu, hatar þú herbergisþernur?“ spurði maðurinn minn gáttaður. Augu hans skutu gneistum. Skýring á tilveru hans: Ég hafði heitið mér því eftir síðasta Valentínusardag (og bolludag) að ná mér í mann innan árs. Við erum auðvitað ekki gift, enda bara þekkst í fimm daga þegar þetta samtal fór fram.

„Ráða ekki fyrirtæki hvern þau vilja hafa sem andlit í auglýsingaherferðum sínum?“ spurði ég síðar sama kvöld. „Sérstaklega ef þau vilja ekki særa viðkvæma hópa fólks, þú veist?“ bætti ég við.

Hann hafði verið á Facebook eins og ég og svaraði mér undrandi: „Bíddu, bíddu, bíddu, BÍDDU! Þú hatar ekki bara skúringarkonur, heldur líka samkynhneigðar söngkonur? Hvar er málfrelsið? Hvert fór þessi æðislega Gurrí sem ég kynntist?“ 

Ég reyndi að segja honum að ég hataði sannarlega engan og útskýrði að ef ég yrði til dæmis fengin til að vera andlit Íseyjar-skyrs myndi það mögulega særa allt almennilegt KFUM-fólk. Jú, ég gagnrýndi ákaft eitt árið alla sumarbúðastyrkina sem þau samtök fengu frá hinu opinbera, á meðan sumarbúðir systur minnar fengu ekkert, þrátt fyrir að uppfylla öll skilyrði og rúmlega það. Viðbrögðin hefðu verið ansi sterk þótt ég hafi nú bara verið að gagnrýna styrkveitingarnar en ekki KF- Hann greip fram í fyrir mér:

„OMG, hatarðu KFUM? Þú fyrirlítur kannski bara allt gott og sannkristið fólk? Ertu kannski í Siðtrú, eða hvað sem þetta félag satans heitir?“

Hann þagnaði og hóf að taka saman dótið sitt sem hann hafði smátt og smátt komið með í sambúðina, eins og gerist. Sambúðina sem hafði lofað svo góðu. Það yrði þrautin þyngri að koma flyglinum niður þröngan stigaganginn, en það tókst. Ekki að spyrja að ÞÞÞ. Ég vonaði heitt að hann gleymdi Egginu, þeim flotta hönnunarstól, og háa borðlampanum sem er eins og lampinn hjá Gísla Marteini, ógeðslega flottur. En öllu lauk þarna í einu vetfangi, með einu samtali, vissulega okkar fyrsta vegna ástríðnanna sem gripu okkur stöðugt og höfðu komið í veg fyrir spjall. En maðurinn, ég man ekki einu sinni hvað hann heitir, ef ég vissi það þá nokkurn tíma, tók hvern einasta hlut með sér og hvæsti í kveðjuskyni: „Er ansi hræddur um að sýnatökupinnarnir hafi sett gat á heilann í þér eins og hinum hræddu sauðunum.“ Svo fussaði hann alla leiðina niður stigana.

 

Valentínusardagurinn verður sem sagt ömurlegur. Ekki einu sinni hægt að hugga sig við köku ársins því hún er með hnetumarensbotni, það vantar bara rúsínur, möndlur og döðlur til að fullkomna hryllinginn. Hvar eru femínistar núna?

 

MYNDIN: Þessa mynd úr svefn- og vinnuherbergisglugga Himnaríkis tók ég með gemsanum mínum í enn einni lægðinni í janúar og sendi hana á Facebook-síðu sem heitir View from my Window, þær eru nokkrar til ... (þessi með 3,5 millj. meðlimi). Mér leið eins og Ronaldo fótboltamanni líður örugglega þegar hann skellir einhverju á Facebook, hann fær óhugnanlega mörg læk og komment á fyrstu sekúndunum og tölurnar hækka hratt. Það voru komnir vel yfir 400 manns sem höfðu látið sér líka vel við myndina mína eftir tíu mínútur og nákvæmlega núna, eftir bráðum sex daga eru líkendur rúmlega 42 þúsund!!! Kommentin 1.200 talsins og deilingar 183. Þónokkuð margir þekktu Akranes, höfðu komið hingað og létu vel af. Minntust á vitann (hæ, Hilmar), Langasand og Kaju, frábæru heilsubúðina með fínu kaffihúsi innanborðs. Konan sem talaði um Kaju og átti ekki orð yfir því hvað snúðarnir þar væru góðir sendi mér myndir (í kommentunum) frá Akranesheimsókninni.  

 

smoerrebroed-luxÉg veit ekki hvort við Íslendingar getum í alvöru miðað við Dani í alls kyns mikilvægum málefnum þar sem nágrannaþjóðir okkar eiga að vera svo frábærar og gera allt rétt í öllum málum ... en við erum svo ofboðslega ólík þeim, eiginlega ólík flestum öðrum þjóðum í raun. Vinkona mín bjó ytra í nokkur ár þar sem hún nam fræði sem voru ekki kennd hér. Ekki arkitektúr en ég segi ekki meira. Margt sem kom vinkonunni á óvart, flest gleðilega en annað ekki, eins og gengur. Eitt sinn hringdi hún í danska kunningjakonu sem átti dóttur jafngamla hennar og spurði hvort væri ekki sniðugt að leyfa stelpunum að hittast og leika sér saman. Kunningjakonan samsinnti þessu, þetta væri voða sniðugt, jú, hún ætti lausan laugardag í viku 27, sagði hún. Ha? hváði vinkona mín sem meinti þennan sama dag. Ekki eftir fimm vikur. Það var þarna sem hún komst að því að allt er skipulagt með löngum fyrirvara hjá svo mörgum Dönum. Eitt sinn fór hún í gönguferð og ákvað að kíkja óvænt í kaffi til skólasystur sem hún þekkti ágætlega. „Áttu ekki kaffi handa mér?“ spurði hún þegar konan kom til dyra. Andlit konunnar datt niður á þröskuld en svo sagði hún já, gaf henni kaffi og þær spjölluðu nokkra stund áður en vinkona mín fór heim. Þetta vakti aldeilis lukku og varla talað um annað í skólanum næstu vikurnar, öllum þótti þetta bæði djarft og stórsniðugt en vinkona mín kom engu spontant-trendi af stað samt. Eitt sinn fóru hún og maðurinn hennar í partí. Hann og dönsku karlarnir drukku óspart þetta kvöld og voru eiginlega afvelta ansi hreint snemma kvölds, að mati vinkonu minnar. Hún stakk upp á því að þær konurnar skelltu sér á pöbb eða skemmtistað og leyfðu þessum körlum að eiga sig. Þessi tillaga vakti mikla undun og þótti allt of uppreisnargjörn, þær tóku þetta alls ekki í mál.

Svo á ég aðra vinkonu sem var í heimsókn í Danmörku eitt árið, mögulega vinnutengdri. Henni til heiðurs var boðið upp á ógurlega fínt smörrebröd-hlaðborð. Hún, sjálfur heiðursgesturinn, dreif sig í að fá sér á disk en allt í einu skall djúp þögn á, fólk starði á hana en reyndi svo að láta á engu bera. Hún komst örlítið seinna að því að hún hafði sett ranga tegund brauðs undir rækjurnar, dökkt eða hvítt ... og setti ekkert dill eða setti dill, hún mundi þetta ekki nákvæmlega. Eitthvað slíkt. En ... Dönum til varnar: Okkur Íslendingum myndi nú bregða í brún ef fólk á þorrablóti borðaði harðfiskinn með rófustöppu. Annars þekki ég konu sem setur alltaf púðursykur ofan í linsoðna eggið sitt á morgnana. Og veit svo sem líka um fólk sem hrærði í hvelli í kokteilsósu með Londonlambinu á aðfangadagskvöld 1978 þegar kom í ljós að hvorugt okkar kunni að búa til brúna sósu ...    


Bloggfærslur 10. febrúar 2023

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 126
  • Sl. sólarhring: 293
  • Sl. viku: 1670
  • Frá upphafi: 1453829

Annað

  • Innlit í dag: 97
  • Innlit sl. viku: 1385
  • Gestir í dag: 95
  • IP-tölur í dag: 94

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Sven-Göran
  • Hálka
  • Sumardagurinn fyrsti 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband