Spennandi plön fyrir áramótin

Fjandans rúsínurnarUppi varð fótur og fit í fjölskyldunni í gær þegar ég aulaði því út úr mér að ég treysti mér ekki í bæinn yfir áramótin. Hefði þurft að fara í gær til að sleppa heilu og höldnu þangað, skildist mér á öllu og öllum. Ástæður fjarveru: arfaslæm veðurspá, slappheit í gær (drög að hálsbólgu með hausverk - eitthvað sem hefur angrað reglulega nær allan mánuðinn) og verkefni sem þarf að vinna og þá kemur sér verulega illa að verða veðurteppt í ófærðinni í bænum sem allt bendir enn til að verði.

 

„Hvað um drenginn?“ spurðu þau miður sín, eins og ekkert væri hræðilegra fyrir fósturson minn en að þurfa að afplána gamlárskvöld með mér. Sem var reyndar rétt hjá þeim, hann var frekar ósáttur við að komast ekki í áramótaveisluna hjá Ellen frænku og Elvari hennar. Matarboð með útsýni og skemmtilegu fólki. Vissulega möguleiki á flatsængum um öll gólf um nóttina ef veðurspár gengju eftir og slagsmál um einu aukadýnuna og sófann ... Það gekk auðvitað ekki að láta drenginn borða fylltan lambahrygg og súkkulaðimúss í eftirrétt, sem var planið, horfa á skaupið með mér, fylgjast með sprengingum út um gluggana og spila krakkakviss, svo ... honum var boðið í bæinn og tók strætó einn um kvöldmatarleytið í gær, mjög spenntur og ofsaglaður. Hann er partíljón.

GamlárskvöldJá, ég á verulega dásamlega ættingja nema kannski þegar kemur að rúsínum. Rúsínupakkinn úr síðasta bloggi leyndist heima hjá mér eftir allt saman og ég fann hann ekki fyrr en drengurinn var farinn með strætó í gleðina í bænum. Hefði alveg örugglega beðið drenginn um að lauma honum inn í skáp hjá systur minni. Hugsa að rúsínurnar endi í maganum á fuglunum mínum sætu.

 

Myndin hér sýnir sennilega hvernig annars spennandi plön mín fyrir áramótin enda ... kannski næ ég að vakna til að hlusta á níundu sinfóníuna á Rás 1 í fyrramálið ... sem mér tókst síðast 1981.

 

Það er eins og allt sé ákveðið fyrir fram í þessum heimi. Ég pantaði þrjá matarpakka hjá Eldum rétt og átti í smávandræðum, reyndar heilmiklum, með að elda þá alla fyrir áramót þar sem þeir komu ekki fyrr en á miðvikudag vegna jólanna, og þann dag var snætt annars staðar. Ég eldaði silung á fimmtudag og pastasnilld í gær, en síðasti rétturinn, eitthvað mexíkóskt nautavefju-eitthvað verður þá á boðstólum í kvöld. Nenni alls ekki að elda hrygg fyrir mig eina. Ætla að vinna pínku, horfa á sjónvarpið með öðru, skaupið með báðum ... fínt plan.

Ég gáði að gamni hvaða myndir verða sýndar í línulegri sjónvarpsdagskrá eftir miðnætti og sá að það verður ágæt mynd á Stöð 2 ... væmin, hallærisleg jólamynd um kvenkynsfatahönnuð og fallegan prins. Virðist nákvæmlega eins og jólamyndir eiga að vera, en too little, too late ... Tónleikar í boði á RÚV, myndi horfa ef væru með Skálmöld og Sinfó, spennuofurhetjumyndin Watchmen (kl. 00.50) á Sjónvarpi Símans en í gamla daga, þegar ég þráði eitthvað gott eftir miðnætti hafa kennt mér að slökkva bara og lesa, jafnvel með uppáhaldstónlist í eyrunum.

25 ára of gömulÉg var í góðri aðstöðu til að kvarta, forréttindablaðamaður sem skrifaði stundum um viðburði fram undan, hringdi á sjónvarpsstöðvarnar og spurði og kvartaði svo sáran yfir ömurlegheitum á gamlárs og fékk alltaf sama svarið: „Það eru allir úti að djamma þetta kvöld.“ Ég svaraði á móti með grátstafinn í kverkunum: „Nei, alls ekki. Ekki foreldrar ungra barna, barnapíur, eldra fólkið, öll sem nenna ekki að djamma þetta kvöld ...“ En talaði alltaf fyrir daufum eyrum. Auðvitað hefði ég átt að tala við æðstu toppana en mundi aldrei eftir þessu fyrr en um áramótin þegar ég þráði að horfa á eitthvað skemmtilegt fyrir svefninn en þá var kannski bara fimmtánda endursýningin á Titanic (sem ég ætla aldrei að horfa á aftur, hún endar ömurlega, varið ykkur) eða Forrest Gump (sem endar reyndar vel en er ansi oft sýnd). Engin alúð var lögð í að velja eitthvað almennilegt handa okkur sem kjósum að vera heima þetta kvöld. Nú get ég valið um þúsundir mynda, múahahaha. Ég fór stundum í flott partí á nýárskvöld og þá var bókstaflega allt lagt í súpergóða, nánast sturlað góða sjónvarpsdagskrá það kvöld. Brjálaðist ég? Nei, alls ekki.

 

Sumir skrifa persónulega pistla um árið sem senn er liðið og hér verður stiklað á risastóru ekki alveg í réttri tímaröð: Fóstursonurinn varð 18 ára í mars en neitaði að halda upp á það og sá svo eftir því. Það að verða 18 ára hefur haft ýmsa erfiðleika í för með sér því hann fær nú sjálfur senda alla reikninga, t.d. vegna sumarbúða fyrir fatlaða, fæðiskostnaðar vegna sumarvinnu á vernduðum vinnustað og skólagjalda á starfsbraut - nema þessir reikningar fara allir inn í eitthvað bankasvarthol - því hann er ekki með gemsa, ekki rafræn skilríki, ekki heimabanka eða neitt slíkt, það koma ekki reikningar hingað heim í pappírsformi fyrr en þeir eru orðnir að ásakandi lögfræðihótunum. Sama hvað ég grenja og garga, gengur sérlega illa að fá reikninga hans senda á mína kennitölu. Hann er fullorðinn og skal sjá um þessi mál sjálfur, sama hvað! Þetta á víst að vera valdeflandi fyrir einstaklinginn - en það sama hentar ekki öllum. Þarna er eitthvað sem verður að laga. Við erum ekki öll eins.  

Afmæli Rvíkur með mömmuÉg hélt auðvitað upp á mitt afmæli í ágúst, hætt að telja árin, með tíu jólakúlugestum, í þriðja sinn sem covid kemur í veg fyrir stórveisluhöld. Ég hætti hjá Birtíngi í upphafi mánaðarins eftir að hafa unnið þar nánast samfleytt í 22 ár, fyrirtækið hét Fróði þegar ég byrjaði og var til húsa við Seljaveg. Breytingar þar kröfðust meiri vinnu en ég var tilbúin til að veita svo ég kaus frekar að hætta. Hét mér því fyrir nokkrum árum, eða eftir að sonur minn lést, að forðast álag og streitu sem hefur tekist nokkuð vel. Hef haft alveg nóg að gera síðan við hin ýmsu verkefni. Sit daglangt við tölvuna og horfi svo auðvitað reglulega út á sjóinn minn sem ég keypti dýrum dómum með Himnaríki árið 2006.

Mamma dó í júlí, 88 ára og södd lífdaga, og hafði búið á Eir í góðu yfirlæti síðustu misserin. Útför hennar fór fram frá Dómkirkjunni, flottur prestur (Karen Lind) og dásemdar karlakór og organisti (gamall pönkari, skilst mér). Erfidrykkjan var í Oddfellow-húsinu gegnt ráðhúsinu, en það var víst algjör heppni að fá þann eftirsótta sal ... Vel við hæfi fyrir miðborgarstelpuna sem mamma var, hún ólst upp í húsi við Laugaveg, þar sem Domus kom síðar og Sautján, beint á móti Stjörnubíói sem hún sótti grimmt, ásamt hinum kvikmyndahúsunum í miðbænum. (Myndin af þessum flottu þremenningum, mér, mömmu og Einari var tekin á afmæli Reykjavíkurborgar 1986.)   

Besta vefmyndavél landsinsVið Hilda systir, með fleirum en oftast, skruppum í okkar árlega sumarferðalag í ágúst og urðu Vestmannaeyjar fyrir valinu. Virkilega skemmtileg heimsókn og ég sakna enn kaffihússins við höfnina. Besta vefmyndavél landsins er frá höfninni í Eyjum, sem sýnir Herjólf koma og fara. Ótrúlega gaman að sjá yfir bæinn! Eftir að Seyðisfjörður klúðraði sinni vefmyndavél eða er skítsama um fólk með alvöruáhugamál, er ég komin í hóp þeirra sem vill Norrænu frá Seyðisfirði ... til dæmis til Akraness. (Djók.) Vefmyndavélin fyrir austan sefaði söknuð minn yfir því að komast ekki með nokkru móti austur (enginn strætó alla leið) og geta siglt til Færeyja með Norrænu, sem mig hefur alltaf langað, en að geta horft á skipið sigla inn fjörðinn eða út úr honum, var aum sárabót sem ekki er lengur í boði. Hvar er góði bæjarstjórinn?

- - - - - - - - - 

 

Óska ykkur öllum gleðilegs árs. Vonandi verða áramótin dásamleg hjá ykkur, veðrið skárra en en spáð var sem myndi nú samt spæla mig rosalega fyrst ég sit heima, nað hluta til vegna veðurs ... og skaupið skemmtilegt. Ef ég næ að flissa eða hlæja einu sinni eða tvisvar er ég hæstánægð. Þakklát fólkinu sem sér um það fyrir að gera sitt allra besta til að skemmta mér og öðrum.


Stjörnur, löggumál, greind og ristabrauðshneyksli

Fisher SpasskyAfmælisbarnið sendi mér skilaboð eftir síðustu bloggfærslu og gestirnir góðu sem ég spjallaði svo mikið við í veislunni undir jól, voru svo sem bara venjulegt fólk eins og ég og þú. Hann, þessi sem mætti í stuttbuxunum, vinnur fyrir Red Hot Chili Peppers, hver gerir það svo sem ekki? Og ýmsar fleiri flottar hljómsveitir, sem og Penny, konan hans. Og Sara Lee sem ég spjallaði líka nokkuð við er bassaleikari King Crimson, hver hefur svo ekki verið það? Hún hefur líka spilað með B52, Robert Fripp league of gentlemen, Gang of Four og fleiri hljómsveitum ... og er fyrrum kærasta Gail Ann Dorsey sem var bassaleikari Bowies ... 

 

Það hefði sennilega voða litlu breytt þótt ég hefði vitað þetta fyrir partí, aðdáendur eru svo leiðinlegir, ég vil ekki vera þannig, það fann ég eftir að hafa afplánað heilt ár sem Ungfrú Skagasætust fyrir einhverjum árum. Ég lærði líka mína lexíu þrettán ára þegar Friðrik Ólafsson skákmeistari, þá stórfrægur, kom í heimsókn ásamt Auði, konu sinni, skömmu eftir að við fluttum frá Akranesi. Það eina sem mér datt í hug var að segja við hann: „Finnst þér gaman að tefla?“ Ég skammaðist mín lengi á eftir en ég var bæði lömuð af feimni og hrifningu. Ef sama ríkisstjórnin og þá var væri enn við lýði væru skákmeistarar enn hinar einu sönnu rokkhetjur og stórstjörnur á Íslandi og allt tónlistarbull næstum bannað í sjónvarpi og útvarpi, eins og var upp úr 1970 og ég þurfti að passa börn og vinna með skóla til að geta keypt mér plötur sem ég spilaði nánast í einrúmi heima, annað hefði getað spillt mér. Annars eru skákmeistarar frábærir, held ég, fyrir utan kvenhatarann þarna.

 

Frozen-dótNokkrir sem fengu ljótar jólagjafir höfðu samband við mig, alveg brjálaðir, og sögðu að víst yrði að koma skilaboðum til smekklausra gefara og hvað væri betra til þess en sjónvarpið? Fréttirnar? Þetta væri allt planað.

„Já, en fólk gefur af góðum hug, er þetta ekki bara vanþakklæti í fólki?“  andmælti ég.

„Hefurðu aldrei heyrt minnst á stríðnar ömmur, kvikindslega frændur, hræðileg systkini?“

„Unei,“ sagði ég, en svo mundi ég eftir litla rúsínupakkanum sem Hilda systir laumaði í jólapakkann til mín nú í ár og leyndist inn á milli annars glæstra gjafanna frá henni. Þótt ég hafi fengið kurteislegt hláturskast hefur reiðin bullað og mallað í mér síðan, hún veit að ég hata rúsínur (möndlur, döðlur og hnetur). Ef ég hefði ekki skilið pakkann eftir í Kópavogi og hún laumað honum aftur í pjönkur mínar áður en ég sneri á Skagann og ég laumað honum svo á hana eftir litla boðið mitt á jóladag, hefði ég án efa skilað honum í Einarsbúð - án nokkurrar miskunnar. Þannig að nú er ég komin í hinn hópinn.

 

LögfræðingurÉg hef líka snúist varðandi stóra hryðjuverkamálið, var svo sem aldrei búin að mynda mér ákveðna skoðun þar. Ef ég væri lögmaður annars ungu mannanna, hefði ég trúlega notað sömu aðferð og afmælisbróðir minn, Sveinn Andri (12. ágúst, eins og Ásdís Rán, Krossinn, Halldóra Geirharðs, fyrstu stöðumælarnir í Rvík (1957) og fleira stórfenglegt). Ljóshærðir, bláeygðir, kristnir og voða góðir, bara að djóka, myndi ég segja, það væri starf mitt að losa þá úr varðhaldi sem fyrst ... og eftir ansi mörg viðtöl í fjölmiðlum tækist mér Sveini Andra að snúa almenningsálitinu þeim í hag, alla vega að einhverju leyti ...

Auðvitað á lögreglan að taka þetta alvarlega. Menn með fullt af vopnum og búnir að finna skotmörk. Kommon. Það þótti einu sinni fyndið og hrikalega ótrúverðugt að skrifa glæpasögur sem gerðust á Íslandi, nú hafa slíkar bækur skilað milljörðum í ríkiskassann. Held að draumur sumra um að vopnavæða lögregluna tengist þessu ekki, það var komið upp löngu áður og í því er ég glerhörð á móti Jóni ráðherra eins og í svo mörgu - öllu?

 

Í dekrinu hjá Hildu systur undir jól uppgötvuðum við ótrúlegan sannleika sem við höfum haft hálfa öld til að komast að en ekki tekist.

AlvörubrauðÞorláksmessumorgunn

„Ég er að fara að rista mér brauð, kæra frábæra og fagra stóra systir. Á ég að rista handa þér?“ spurði Hilda ljúfmælt.

„Já, þó það nú væri að maður fengi einhverja þjónustu á þessu heimili,“ hreytti ég út úr mér kurteislega.

Hún ristaði, smurði og allt ... og á diskinum mínum endaði dökkbrúnt, hart brauð OG SULTAN VAR UNDIR OSTINUM! Mér brá ofboðslega en stillti skap mitt af því að það voru að koma jól. Eftir að hafa talið upp á tvær milljónir sagði ég rólega en röddin skalf samt:

„Ef þú einhvern tímann gerir aftur svona brauð fyrir mig, viltu þá hafa það léttristað og sultuna ofan á ostinum?“

Við hlógum þótt við værum í raun sótrauðar af illsku og undrun yfir ósmekklegheitum hvor annarrar en slagsmál eru bönnuð í minni fjölskyldu í desember svo við féllumst bara harkalega í faðma. Skemmtileg uppgötvun samt - höfum við virkilega aldrei snætt saman svona morgunverð? Hvaðan fékk systir mín þennan skelfilega smekk á ristuðu brauði með osti og sultu? Sumt er okkur kannski ekki ætlað að vita.

En í tilefni jólanna keypti ég graflax og graflaxsósu á rúgbrauð sem ég keypti líka. Laxinn var bara til í stórum umbúðum, ekki litlum og krúttlegum áleggsbréfum, heldur hægt að tala um skrokk ... og pottþétt eldislax, ekki góður nema kaffærður í sósu. Endar sennilega sem fuglamatur. Snökt.

 

Ég tók greindarpróf á netinu eitt kvöldið og er með greindarvísitölu upp á 150. Var ósátt við að fá bara 130 en sem betur fer var gefinn sá möguleiki að prófa aftur. Mér fannst t.d. fúlt að vita ekki  nafn á einhverri stofnun innan Bandaríkjaþings og missti þar með mikilvægt stig sem ég náði að svara rétt í annarri lotu. En ég vissi ótrúlega margt, hvaða tungumál er talað í Brasilíu, við hvaða hitastig á Celsíus frýs og margt misflókið ... Til að prenta út skírteinið og sanna þetta fyrir blogglesendum mínum þurfti ég að borga eitthvað svo líklega hefur þetta ekki verið svo merkilegt, en alveg pottþétt marktækt. Your strongest category is Visual Perception were you scored highter than 99% of people tested ... hvað sem það þýðir. 

„Wow. You have Ph.D.-level knowledge here. Great job.“

Retry?


Jólastemning og önnur dásamlegheit

Jólatré 2022Hátíðarstemning ríkir enn í Himnaríki, að vissu leyti. Nú hljómar rokk og ról - við vinnuna. Akkúrat núna Jethro Tull, strax á eftir Skálmöld ... núna Radiohead ... Er tónlist ekki dásamleg?  

 

Í öðru afmælinu sem ég fór í skömmu fyrir jól, sat ég lengst af hjá erlendum hjónum, mig grunar að hann sé tónleikahaldari (hann var alla vega í stuttbuxum og já, það var trylltur snjór) sem sennilega hefur hitt stærstu nöfnin, því hann var svo þögull um starf sitt. -Have you heard of Skalmöld? langaði mig svo að spyrja hann en hélt mig við þetta erlenda og við höfum ansi líkan tónlistarsmekk. Hann sýndi mér virkilega samúð yfir því að hafa misst af King Crimson 2018 í París, ég gæti hafa ýkt afmisselsið um nokkra mánuði. Ég var þar í febrúar og tónleikarnir áttu að vera í október, skv. plakötum sem héngu um alla borg, en ég missti samt af þeim, ekki naumlega samt. En það á helst aldrei að eyðileggja sumar sögur með of mikilli nákvæmni.

 

Hönd með attitjúdJólagjafirnar í ár voru fremur margar í ár og stórfenglegar. Mér datt ekki í hug að skipta einni einustu en ég sá mikið uppnnám á netinu yfir ósvífinni fréttakonu. Hvaða jólagjöf varstu að skila? Aha, heyrnartólum frá ömmu? Ráð mín til fólks er að segjast hafa fengið tvennt af einhverju - til að særa ekki gefendur í beinni útsendingu.

Mikil (mest) var hrifning viðstaddra þegar ég opnaði pakka með skærbleikri styttu af hönd sem sendir manni fingurinn. Sjá mynd. Viðkvæmir hugsi sér baugfingur sem lyftist þarna. Það verður þrautin þyngri að finna henni stað við hæfi. Áberandi. Svo fannst mér tryllt hugmynd hjá systrum mínum að slá saman í ... þyrluferð, spurning um að skreppa á Esjuna aftur eða bíða eftir eldgosi? Hún gildir á virkum dögum en ekkert kom fram um að hún veitti ekki aðgang að eldgosi ... Ég fékk nokkrar óhemjuljótar jólakúlur á skrítnukúlujólatréð mitt og líka eina fallega þótt gefandinn reyndi að segja hana ljóta.

Allt of lítið var lesið en allt of mikið horft á sjónvarp í næstum því veik-ástandinu á mér. Myndin um Árna stóð upp úr (Velkominn, Árni). Svo var Facebook líka nokkuð fyndin í dag. Upp úr stóð statusinn:

Það er landlægur misskilningur að Labbi í Mánum heiti fullu nafni Göngutúr Þórarinsson. Hann heitir Ólafur.“ Jón Ólafsson tónlistarmaður.

Hver er EvansÞað var virkilega gaman að horfa á fyrsta þáttinn af þremur af Why didn´t they ask Evans? (Því spurði enginn Evans?) eftir bók Agöthu Christie á RÚV í gærkvöldi. Þýðingin á heitinu er samt ekki alveg rétt ... Fólk verður að lesa bókina til að vita að það hefði þurft að BIÐJA Evans um að gera ákveðinn hlut, ekki spyrja. Bókin sem ég las í eldgamla daga hét Hver er Evans? sem var góð lausn því leitin að Evans stendur yfir nánast alla bókina. Því báðu þau ekki Evans?

Æ, kannski algjör smámunasemi hjá mér. Þetta er miklu betra efni en þættirnir um leitina að Evans sem voru sýndir fyrir nokkrum árum, þar voru þau tvö (Bobby og Frankie) svo innilega yfirborðskennd og leiðinleg. Kannski misminnir mig og þetta voru þau Tuppence og Tommy í Fjórir stórir ... alls ekki persónurnar sem ég sá fyrir mér þegar ég las bækurnar. Miklu frekar núna í þessum þáttum þótt „bílavinur“ hans Bobbys heiti ekki Badger þar eins og í bókinni sem ég á enn og les mér til skemmtunar og gleði á fimm til tíu ára fresti.    


Annir við djamm og hjálpsamur Portúgali

Kór LangholtsAnnasöm helgi í samkvæmislífinu að baki og nú tekur alvaran við. Að gera extra-fínt í Himnaríki og fara að skreyta. Ég fór í fyrsta jólastuðið þegar ég sá gamla kórinn minn syngja í sjónvarpinu ... og viti menn, ég var með þarna, þetta var 1984. Þarna fannst mér ég alveg rosalega feit og rosalega glyðruleg með þennan rauða varalit. Nú er ég nokkuð þykkari og aldrei glyðruleg, samt miklu ánægðari með sjálfa mig ... að hugsa sér. Ég er efst til vinstri, elskan hún Herdís í miðið. Konan sem segir m.a. hástöfum í strætó 57: „Næsta stopp er ... Klébergsskóli.“ Þetta gæti líka verið mynd frá hljómsveitaræfingu með Grýlunum ... 

Þegar snjónum var spáð þarna á föstudagskvöldið gerði heppnin fátt annað en að eltast við mig. Ein af fjölmörgum systrum mínum (Mía) átti erindi upp á Skaga og bauðst til að leyfa okkur stráksa að sitja í til Reykjavíkur ásamt kommóðunni flottu sem hún var að kaupa. Ég bjó til Eldum rétt-Mac&Cheeserétt handa okkur og á meðan við snæddum kræsingarnar gerði Mía játningu. Hún hafði orðið að setja bakið niður á aftursætinu (2 bök, bæði niður) til að koma kommóðunni fyrir, munaði millimetrum. Tvennt í stöðunni, geyma kommóðuna í Himnaríki í nokkra daga eða við stráksi sitja saman í farþegasætinu frammi í. Hmmm. Þau sóttu létta kommóðuna í bílinn og báru hana upp á meðan ég undirbjó heimilið fyrir brottför og afhenti kisupassaranum lyklavöld. Örlítið fjúk var byrjað, svona til að minna á komandi óveður sem norska veðurstofan sagði að hæfist klukkan tíu um kvöldið. Við vorum á ferðinni upp úr átta og á Kjalarnesi var mikill skafrenningur, ansi blint, sást varla á milli stika fyrir ofankomu en af því að veðrið átti ekki að hefjast fyrr en klukkan 22 bitum við á jaxlinn og vorum sallaróleg í bílnum, enda Mía afbragðsgóður bílstjóri. Nánast allar jólagjafir frá okkur drengnum voru meðferðis og átti að afhenda þær í seinni veislu helgarinnar.

 

Jóli og TrölliDaginn eftir var ansi hreint mikill snjór og það tók okkur Hildu hátt í 40 mínútur að komast út úr stæðinu í Kópavogi. Duglegu snjóruðningstækin höfðu búið til nokkuð háan og harðan kant sem, þrátt fyrir mokstur okkar, var ansi hreint erfitt að komast yfir. Muna að kaupa hærri bíl næst, hugsaði systir mín örugglega en þegar við loksins komumst út á götuna fórum við allra okkar ferða án nokkurs vesens enda er litla systir einnig afbragðsgóð bílstýra. Í Smáralind hittum við sjálfan Trölla sem gaf okkur kókómjólk í stað þess að ræna af okkur gjöfum. Sjá mynd. Við lentum svo í öðrum festingi við heimkomu á stóra og fína bílastæðinu hennar Hildu. Bíllinn hennar blýfestist ofan á snjóhrygg og neitaði að hreyfa sig. Hálfur úti á götu. Portúgalskur bráðhuggulegur en of ungur maður vippaði sér út úr bíl og hóf að hjálpa okkur, þá aðallega við að moka burt þessum klakahrygg. Allir aðrir bílstjórar óku fram hjá og einn flautaði og sendi okkur fokkmerki, sennilega til að sýna okkur stuðning eða spældur yfir að þurfa að hægja ferðina og sveigja fyrir fastan Hildubíl. Þessi portúgalski sagðist hafa orðið aðnjótandi mikillar ýt- og mok-aðstoðar kvöldinu áður og fannst dásamlegt að geta endurgoldið það svona. Við Hilda slitum payitforward-keðjuna, við sáum engan sem þurfti aðstoð okkar.

„Ef við værum á Akureyri, væru sennilega um tíu manns komnir til að ýta okkur og moka,“ sagði systir mín hugsandi á meðan sá portúgalski mokaði, en hún bjó fyrir norðan árum saman og sagði hjálpsemi Norðlendinga mjög mikla í svona aðstæðum. Tengdasonur hennar, einmitt frá Akureyri, hjálpaði granna sínum í gær. Sá er útlenskur og var að sjá snjó-ófærð í fyrsta sinn. „Þú keyra,“ sagði hann feginn við tengdason okkar Hildu, sem hoppaði upp í bílinn hans og losaði hann á innan við mínútu, vanur maður á réttum stað á réttum tíma, já, og með hjartað á réttum stað.

Veislan, sú fyrri, um kvöldið var algjör dýrð og dásemd, haldin á Hæðinni við Síðumúla og þar var fjöldinn allur af skemmtilegu fólki. Ég var svo mikill plebbi að ég tók með mér inniskóna (gleymdi gelluskónum á Akranesi) sem varð til þess að enginn bauð mér upp. Geggjuð veisla, skemmtilegt fólk, æðislegur veislustjóri, góður matur og ein uppáhalds-Instagramstjarnan mín vann þarna sem þjónn, hversu gaman. Svo fékk ég far báðar leiðir með svo skemmtilegum bíl að það nægði að ýta á SNOW-system-eitthvað og þá komumst við allt. Ögn hægar en við óðum inn í ógurlegustu skafla án þess að festast. Man því miður ekki nafnið á bílnum, bara að hann er 2006-árgerð, og er einn af tveimur eða þremur sinnar tegundar hér á landi.   

 

FótboltiÍ afmælisveislu gærdagsins voru ekki mikil afföll, og mögulega komust ekki allir til að hitta skemmtilega jólasveininn sem mætti klukkan tvö. Síðan hvenær eru tvö erindi í Í skóginum stóð kofi einn? Stráksi er kominn með svo margar ljósmyndir af sér og fræga fólkinu (Páll Óskar, Hr. Hnetusmjör, Lalli töframaður, Áslaug Arna og Katrín Jakobsd.), nú bættust við jólasveinninn og Trölli, að nú þarf ég að fara að láta prenta þær út og ramma inn ... og bara upp á vegg með þær.

 

Já, fótboltinn? Ég náði ekki að horfa á bronsleikinn og heldur ekki leikinn um gullið, að hugsa sér. Jú, við Mía lögðum af stað í björtu í gær, hún að skutlast eftir kommóðunni og skutla okkur stráksa heim. Í þakklætisskyni bauð ég henni á Lemon, á bensínstöð, ekki jafnplebbalegt og það hljómar. Það er frekar snjólétt á Skaganum miðað við höfuðborgarsvæðið, ekki í fyrsta sinn sem það gerist, en sennilega hefur tvisvar verið hér meiri snjór en í bænum síðan 2006.

 

Spennandi jólamarkaðsbásVið heimkomu, Mía rokin með kommóðuna í bæinn til að sleppa við gulu viðvörunar-veðrið, kveikti ég á sjónvarpinu, íhugaði að setja á leikinn sjálfan og hunsa þjóðfélagið á meðan. Það þurfti ekki - vítaspyrnukeppnin var að byrja - ég hlustaði á hana með öðru á meðan ég japlaði á Lemon-inu, þóttist ekki hafa áhuga (til að fá ekki hjartaáfall) en stökk fagnandi á fætur þegar í ljós var komið hverjir hrepptu gullið. Hef oft haldið með Frökkum í ýmsum keppnum en í þetta sinn voru það Messi og co.

 

Í dag hef ég þjáðst af næstum því veik-heitum (það er til), en skammaðist mín upp úr skónum þegar kappklæddur Eldum rétt-bílstjórinn birtist hér eftir sannkallaða svaðilför, sanna hetjudáð, að komast hingað úr Kópavogi með ferskan og góðan mat handa okkur drengnum. En drög að hálsbólgu, stífluðu nefi og höfuðverk tek ég nú samt það alvarlega að hér verður bara algjör slökun, ég mun elda það fljótlegasta af þremur réttum (pasta), og vona svo að morgundagurinn beri með sér meiri orku og kraft. Ég á enn smávegis eftir af amerískum flensupillum, eins og ég hef gefið mikið magn af þeim, og gat sofið rótt í nótt með einn skammt í kerfinu. Þær eru vissulega útrunnar en virka samt. Þyrfti að komast til USA innan tíðar, landsins þar sem 300 milljón manneskjum er treyst til að innbyrða flensulyf, en ekki 300 þúsund manns á Íslandi ... Dæs.

 

 

Ég er að byrja að lesa æsispennandi bækur, komin með þrjár í hús; Kaldaslóð, Meinsemd og Kyrkjari (eftir Kim Faber og Janni Pedersen). Þær eru sjálfstæðar en mér finnst alltaf gott að byrja frá byrjun á bókaflokkum (með rétta röð á þeim hér) en ég féll fyrir þeim á jólamarkaðnum Akratorgi fyrir rúmri viku. Komst ekki á markaðinn um helgina, enda í eilífum afmælum, og kemst heldur ekki á Þorláksmessu, bömmer, en þessar bækur verða þar, og miklu fleiri. Mæli með.  


Fyrsta barferðin og fyrsta matarstellið, á sama degi

Aðventuhittingur sexkvenninganna og SnötuSunnudagurinn var æði. Þegar ég tók strætó um hádegisbil í gær vissi ég strax að dagurinn yrði góður því bílstjórinn rukkaði mig um fullt gjald. Ferðinni var heitið í aðventuboð þar sem sexkvenningarnir svakalegu og Snatína hittust í fyrsta sinn síðan við störfuðum saman hjá LÍ við ýmis spennandi og háleynileg verkefni á árum áður. Geggjað að sjá stelpurnar, hvað þær hafa haldið sér vel. Sumir halda kannski að ég sé elst af hópnum, ég hef ætíð viðurkennt að vera jafngömul Madonnu, og Steingerður ... hún var kölluð Barbie, enda 59-módel. Hinar notuðu nöfn eins og Tító, Maó, Frankó og Florence N. sem ruglaði mig, kannski voru þær ekki að miða við jafnaldra í vali á þessum leyninöfnum - en hvað veit maður? Tækninni fleygir fram og meik þekur sífellt betur en kannski var ég elst, en hver telur svo sem? Verst að sokkarnir mínir fínu úr Stefánsbúð hverfa alveg á bak við voffa en á þeim myndum þar sem þeir sjást er ég sjálf agaleg útlits sem kemur fyrir.

 

Laugardagurinn var líka æði. Jólamarkaðurinn Akratorg hófst kl. 13 og það verður opið alla næstu helgi líka og á Þorláksmessu. Guðrún vinkona kom alla leið úr Kópavogi til að slást í för með okkur Ingu þangað. Ég keypti heilan helling í jólagjafir og ætlaði að kaupa meira í fleiri búðum, en mér til undrunar var ekki mikil aðventustemning, flestar búðir skelltu í lás ótrúlega snemma, eða eins og á venjulegum laugardegi og misstu viðskipti fyrir vikið. Ekki bara mín. Ég fórnaði fyrri fótboltaleik dagsins í þetta búðaráp en nokkuð margar jólagjafir eru komnar í hús sem er mikill plús.

OrginallinnÉg keypti mér líka matarstell, mitt fyrsta í raun. Eða ókei, vísi að stelli; sex grunna diska og sex djúpa. Fékk þessi fínheit á bílskúrsmarkaðnum fyrir aftan sjúkrahúsið á Akranesi, þar er alltaf opið til fimm um helgar. 

„Er þetta ekki eitthvað fansí stell? Af hverju kostar diskurinn bara 800 krónur?“ spurði ég Kristbjörgu.

„Jú, að sjálfsögðu er þetta voða fínt,“ svaraði hún. „Sko þetta sem þú ert að kaupa er frá Þýskalandi. Svo fóru ýmsir að stæla það, eins og Royal Copenhagen, diskurinn á 20 þúsund ... en hugsaðu ekki um það. Þú ert með það upprunalega. Þetta er orginallinn.“

Svo nú get ég boðið mínum hefðbundnu fjórum gestum í hangikjöt á jóladag án þess að vera með litlu hversdagsdiskana og ef við erum fleiri í mat get ég notað hina tvo sæmilega fínu diskana, fer svo í hversdagsdiskana og slepp jafnvel alveg við að nota tertudiska ... Svo er ekkert mál að bæta við stellið, sagði Kristbjörg, ég væri til í kannski skál undir kartöflur og uppstúf, fat undir hangikjötið - bara alls ekki of mikið. Held nánast aldrei matarboð en gaman að eiga loks svona fína og fallega diska, nú líður yfir jóladagsgestina.

 

ÚpsSeinni áttaliðaleikurinn var svo agalegur að ég slökkti (Áfram England nefnilega) og fór á barinn, í alvöru. Reyndar átti ég stefnumót á Útgerðinni (rétt hjá Galito) þar sem fór fram pöbbkviss. Ættingi annarrar konunnar sem ég átti stefnumót við þar hafði varað hana við að mæta, þetta væri ekki fyrir gamlingja, hann sjálfur (20 plús) væri nánast of gamall ... Ég spurðist fyrir, og var sagt að allir væru velkomnir, þetta væri fyrir alla, nema börn. Þetta er í fyrsta skipti sem ég fer á djammið á Akranesi (fyrir utan árgangsmót) síðan ég flutti hingað 2006. Ég gerði ýmsar ráðstafanir, farðaði mig, var frekar fín í tauinu ... og skipti á rúminu. 

Okkur gekk ljómandi vel, hefðum jafnvel unnið ef ekki hefði verið fyrir flumbrugang og fávitahátt minn ... spurt var til dæmis: Hvað þarf Karl konungur að ná háum aldri til að ríkja jafnlengi og mamma hans gerði. Auðvelt, hugsaði ég. Lagði saman 73 og 61 ... 134 ára! Sem var einn möguleikinn af fjórum. Nema móðir hans ríkti í rúm 70 ár og ég átti að vita það, hún tók við hálfþrítug og náði næstum 100 ára aldri. Ég vissi aftur á móti að Marel var verðmætasta fyrirtækið í Kauphöll Íslands, ekki spyrja mig af hverju ég vissi það. Þetta voru 25 ótrúlega skemmtilegar og fjölbreyttar spurningar - og við græddum á því að vera gamlar. Inga (MIKLU eldri en ég, 2 árum) þekkti til dæmis lagið sem er einkennislag Landans. Ég hefði þekkt lag með Skálmöld eða Radiohead, eitthvað frá tíunda áratugnum hefði líka verið fínt, og sú sem var með okkur, allt með Kim Larsen ... og dönsku drottninguna, grunar mig. Útgerðin bar fær tíu fyrir skemmtilegar móttökur fyrir aldraða og frábært pöbbkviss. Við vorum nú ekki meiri bógar en það að þegar þessu var lokið á miðnætti drifum við okkur heim og sluppum við að breytast í grasker. Það var skrambi lítið um jafnaldra, kannski allir í losti eftir seinni leikinn. Spurning um að halda með Argentínu núna.   


Tær illska ... blogg um fótbolta og grimmd

Það sem ég þurftiFótbolti hefur lengi leikið stórt hlutverk í lífi mínu. Auðvitað hélt ég alltaf með ÍA í gamla daga og geri enn, enda alin upp á Skaganum þar sem eru bestu kartöflurnar, fallegasta kvenfólkið og flottasti fótboltinn. Það var sjálf Kolbrún Bergþórsdóttir, gagnrífandinn minn í bókmenntaþætti á Aðalstöðinni snemma á tíunda áratug síðustu eða þarsíðustu aldar, áður en henni var rænt af mér og hún gerð fræg, sem vakti áhuga minn fyrir alvöru á þessari dýrð og dásemd sem HM og EM eru ... Kolla dró mig eitt sinn á Glaumbar þar sem við fylgdumst með Brasilíu og Ítalíu slást um gullið - þetta var leikurinn (1994) þar sem hinn ítalski Baggio brenndi af í vítaspyrnukeppni og tryggði með því Brasilíu sigurinn. Óhugnanlega spennandi vítaspyrnukeppni, svo hræðileg að ég fór að halda með Þýskalandi lengi á eftir. Aumingja ítalska parið, ferðafólkið, sem sat þarna innan um eintóma Brassafylgjendur. Kolla sagðist fylgjast með fótbolta út af lærunum á fótboltamönnunum (hún hefur sagt það opinberlega en ég held enn og vona að hún sé að grínast).

 

 

Kamerún ÍslandÉg fylgist alltaf það spennt með leiknum sjálfum að ég hef engan tíma til að horfa á lærin á þeim - ég trúi bara ekki að einhver horfi útlitsins vegna. Svo var HM-mót nokkru áður (1990?) þar sem ég og gamli klúbburinn minn komst á forsíðu virts dagblaðs (Alþýðublaðsins) því við héldum svo grimmt með Kamerún. Sem betur fer var netið ekki komið til sögunnar, því gat enginn eyðilagt stemninguna með því að skrifa: Er þetta frétt? En ég hef síðan verið kölluð forsíðustúlkan af vinum mínum og ættingjum úr Þingeyjarsýslu.

 

Frekar mörgum árum seinna fór ég að verða vör við aðeins of margar tilviljanir í kringum mig, jafnvel samsæri eða ég veit ekki alveg hvað ég á að kalla svona illsku þegar ég áttaði mig á því hvað var í gangi. Ég fór sífellt oftar að segja eitthvað á borð við: 

„Bíddu nú við, Hilda, hjartans kæra litla systir, HM hefst á eftir og við á leiðinni til Stykkishólms í orlofshús! Er ekki örugglega sjónvarp þar?“ Jú, sjónvarp var þar og reyndist í lagi en grillið ónýtt sem mér var nú nokk sama um fyrst sjónv- 

Ég sé sjaldnast framan í systur mína þegar ég rek upp öll þessi ramakvein yfir að hafa planað ferðalögin okkar með svo löngum fyrirvara að ég gleymi að gera ráð fyrir HM en nú eftir að grunsemdir mínar kviknuðu finnst mér líklegt að hún hafi ætíð glott grimmdarlega um leið og hún sagði: „Æ, æ.“

 

Ferðalögin okkar næstu árin innihéldu nánast öll eitthvað svipað. Ofboðslega mikilvægir leikir sem ég neyddist kannski til að horfa á í gegnum litla gemsann minn (jafnvel hljóðlaust) á meðan við vorum kannski úti að borða í einhverju krummaskuðinu eða ég þurfti að gera mér upp skyndileg veikindi sem kröfðust þess að ég yrði í friði einhvers staðar í sumarbústað eða káetu eða aftursæti. Ég á ótal margar átakanlegar sögur af því þegar reynt var að hafa af mér fótboltaleik. Fólkið sem þekkir mig best veit að ég keypti ekki Himnaríki eingöngu vegna sjávarútsýnis og Einarsbúðar, heldur vegna þess að fótboltavöllurinn á Akranesi sést svo vel út um eldhúsgluggann hjá mér.

FerðalögNúna á HM 2022 hef ég reynt að gæta mín afskaplega vel og takmarkið er að missa ekki úr leik. 

Ég hef kvartað, aðallega í hljóði, nöldrað og verið undrandi yfir því að sjá hvergi dagskrána yfir leiki, ekki einu sinni þarna fyrst þegar vel var vitað hvaða lið spiluðu saman ... en ég kveikti á sjónvarpinu og sá með aðstoð fjarstýringarinnar hvað dagurinn bauð upp á í fótbolta. Ég fann hvergi dagskrá, í alvöru. 

En loksins nú í kvöld hugkvæmdist mér að gúgla HM á ensku, world cup 2022, og komst nánast samstundis inn á almennilega síðu sem sýnir það sem ég vildi allan tímann sjá, ekki bara fréttir af leikjum dagsins, úrslitin, skandala, fýluköst Ronaldos og slíkt, sem ég hef eingöngu fundið á íslenskum miðlum þegar ég slæ inn HM 2022 dagskrá. Það finnst vissulega betra fólk en ég í að gúgla en samt ...

Mynd frá Akureyri: Hversu mörg ferðalög þurfti eiginlega áður en ég áttaði mig á samsærinu?

Gleði mín yfir að hafa loks fundið dagskrá keppninnar (sjá efstu mynd) stóð ekki lengi því sannleikurinn opinberaðist fyrir mér þegar ég horfði vantrúuð á dagsetningarnar sem íslenskir fjölmiðlar hafa haldið leyndum fyrir mér. Nánast komin jól, er það næsta sem komst réttri dagsetningu á úrslitaleiknum sem verður 18. desember. Þið sáuð það fyrst hér. Það verða vissulega átta liða úrslit föstudag og laugardag sem mér sýnist að ekki verði hægt að eyðileggja fyrir mér. Og þó, sumir eru óhugnanlega ráðsnjallir ...

Já, og með því að hafa sýnt þá snilli að gúgla á ensku næ ég mögulega að bregðast við illskunni í sinni verstu mynd eða lymskulegri tilraun til að hafa af mér úrslitaleikinn, þar sem England berst sennilega við Portúgal eða Argentínu, mögulega Marokkó, um gullið. Systir mín ætlar nefnilega að halda stórt boð þennan dag og þegar leikurinn hefst verður jólasveinninn sennilega rétt ófarinn. Þótt hún eigi afmæli þennan dag er þetta samt sérlega ómanneskjuleg framkoma við stóru systur sína! Ég þarf mögulega að gera mér upp hægðatregðu og læsa mig inni á baði til að ná að horfa á leikinn. Ég gæti líka þóst vera með höfuðverk rétt fyrir þrjú og fengið að leggja mig fjarri gleði og glaum, en með snittur og kaffi og símann í vasanum, það er dömulegra. 

Systir mín er sérlega indæl ... nema þegar kemur að fótbolta og mér, þá er eins og færist yfir hana biksvart miskunnarleysi sem sést einna helst í mjög hryllilegum hryllingsmyndum. Ég leyfi ykkur að fylgjast með framvindunni, ekki fara langt.


Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 472
  • Sl. sólarhring: 478
  • Sl. viku: 2799
  • Frá upphafi: 1458069

Annað

  • Innlit í dag: 417
  • Innlit sl. viku: 2342
  • Gestir í dag: 395
  • IP-tölur í dag: 382

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Des. 2022
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Siegfriedungjoy
  • Ótrúleg kvittun
  • Sjöundi maí 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband