Smartríður og betlarinn í Mjódd

SmartríðurEndurbæturnar á Himnaríki fyrir tveimur árum breyttu mér heilmikið til hins betra þegar kemur að smartheitum á heimili. Mér fór að þykja mjög áríðandi að hafa sæmilega fallegt í kringum mig. Það þarf ekkert að kosta mikið, stundum bara nóg að fækka hlutum en stundum leyfir maður sér að kaupa eitthvert fínirí. Eins og körfuna undir dagblöðin, ég var búin að horfa á hana í margar vikur áður en ég lét loksins vaða og keypti hana dýrum dómum, þannig séð. Vanari prísunum í Rúmfatalager og IKEA. Þessi dásemdarkarfa hefur verið sverð og skjöldur fatahengisins þar sem eru líka skápar og annað af tveimur náðhúsum kattanna, kirfilega falið undir punti og að hluta til á bak við körfuna fínu. Svo sá ég á Skreytum hús-grúppunni á Instagram svipaða körfu, frá Rúmfó og örugglega talsvert ódýrari, og komst að því mér til mikillar skelfingar að þetta er karfa undir klósettpappír (sjá myndina til vinstri hér að ofan, sú hægra megin er mín) Vesalings Smartríður af Himnaríki er á bömmer núna en þó þakklát fyrir að hafa ekki haldið stórafmæli síðan árið 2020. Ég á reyndar svo dásamlega vini og vandamenn að þeir hefðu án efa hugsað: Mikið er hún Gurrí alltaf smart og sniðug og snjöll, sko hvað hún finnur frumleg not fyrir þessa annars fínu klósettkörfu.

Eftir og fyrir

 

Því miður er ekki pláss á mínu annars stóra baðherbergi fyrir körfuna (sjá Eftir-Fyrir og Á meðan-mynd) en kannski hjá Hildu á fína baðinu hennar. Hvernig átti ég að vita að „handfangið“ sniðuga væri fyrir klósettrúllur? Ég sem hélt að mér væri batnað af ósmartheitum mínum sem orsökuðu lengi vel þekkingarleysi á fínum iittala-skálum og -stjökum, já, og geggjuðum designer-handklæðum sem hingað komu sem afmælisgjafir í gegnum áratugina. Fannst þetta allt virkilega flott en vissi lengi vel ekki HVERSU FLOTT ... Hef nefnilega skánað helling í þessu og er ekki jafnmikill plebbi og lengst af ... hreifst hvort eð er nánast bara af antík en hef blandað meira síðustu árin eftir að mér fór að líða eins og langalangömmu, vantaði bara ruggustólinn. Mig langar nú samt í ruggustól en það er önnur saga.

 

Kaffitár við Nýbýlaveg var kvatt með tárum í hádeginu í dag í örsnöggri ferð til borgarinnar. Ristað súrdeigsbrauð með avókadó og sterkri sósu yfir, og latte með, himneskt. Skilst að þessi staður, eins og pottþétt fleiri, hafi aldrei náð sér almennilega á strik eftir covid sem þó grasserar enn þótt við látum eins og það sé búið.

 

VeðurfræðingarÉg skrapp eitt augnablik inn í Nettó á meðan Hilda var á leiðinni í Mjóddina, nýbúin í lagningu, til að sækja okkur, og nýkomin út þaðan rakst ég á betlara frá Rúmeníu. Ég átti því miður ekkert smærra en þúsundkall til að gefa honum en trúði samt samt einhvern veginn ekki á bágindi hans. Hann var með handskrifaðan miða þar sem var skrifað með snyrtilegri rithönd að hann væri húsnæðislaus með þrjú börn á framfæri og svo sífraði hann vesældarlega. Ég færði mig síðan ögn fjær honum í biðinni eftir Godot-systu, en hann kom og bað um meira svo hann ætti fyrir gistingu yfir nóttina. Hmmm. Ég átti ekki meira og þótt ég hefði átt ... og sagði ákveðið: „Því miður, þú færð ekki meira.“ Fannst ég ekki einu sinni vond. Hann færði sig fjær og systir mín kom akandi í þann mund. Ég settist upp í bílinn hjá henni og við keyrðum fram hjá þeim rúmenska sem stóð við hlið konu sem var að setja eitthvað inn í jeppa, og rétti henni eitthvað ... mögulega afrakstur morgunsins, þau virtust þekkjast. Svo klukkutíma seinna, þegar við stráksi biðum eftir að taka 13.30-strætó heim, var þessi elska á leið inn í einhvern af vögnunum í Mjódd, nákvæmlega ekkert mæddur á svip. 

En áður en einhverjir fara að fjasa um hælisleitendur, Rúmenía er í EES svo maðurinn átti greiða leið inn í landið ... og vinnur fyrir sér á þennan hátt.

Ég lærði af þessu ... ekki síst það að taka mark á eigin tilfinningu. Fann einhvern veginn að hann átti ekkert bágt, allt bara leikur. Hann hefði átt að bæta smávegis stolti við og þá hefði hann blekkt mig, sem hann gerði nú samt fyrst hann hafði af mér þúsundkall. Ég er miklu grimmari í þessu í útlöndum, enda er vel vitað að fólk er sérstaklega gert út til að betla, en þetta er frekar nýtt fyrir mér hér á landi, hef líka verið saklaus landsbyggðartútta síðustu 17 árin.

 

Það hefði verið ótrúlega gaman að stoppa lengur í borginni en stráksi þurfti að vera kominn á Skagann kl. 16. Herkúles, sæti hundurinn hennar Hildu, var að fara í nudd og neglur svo það hentaði best að fara þetta snemma. Ég gat eiginlega ekki valið verri dag til að mæta í heimsókn en svangir kettir sem mega bara fá sérfæði sem fæst bara hjá dýralæknum, og hviður á Kjalarnesi passa illa saman. En nú er til matur handa Kela, Krumma og Mosa næstu mánuðina, svo janúar getur bara hoppað upp í lægðirnar á sér.

 

Þriðja og síðasta myndin, skjáskot frá Instagram-vinkonu: Það bókstaflega logar allt á samfélagsmiðlum út af veðurfræðingahneykslinu.


Þau sem þora

JæksAlltaf reglulega kemur einhver hressandi persóna og segist segja hlutina eins og þeir eru, ekkert rugl. Nýlega las ég ágætan pistil um sófakartöflur (eins og næstum því mig) þar sem það var aldeilis kjaftur á viðkomandi. „Rífðu þig upp á rassgatinu ...“ og annað í þeim dúr. Viðbrögðin voru eins og búast mátti við: Loksins einhver sem þorir að segja sannleikann. En þarna var auðvitað ekkert nýtt, bara það sama gamla góða nema skreytt með hressandi orðum ... Þar var nákvæmlega ekkert meiðandi en þegar þessi tegund orðræðu fer að verða algengari er mögulega voðinn vís.

Nú er komið nýtt íslenskt hlaðvarp með þetta að markmiði, að segja sannleikann umbúðalausan, ekkert kjaftæði, og láta feitar kerlingar og femínista heyra það. Feðraveldið er ekki til og herra Tate er ekki svo slæmur ... Fínt fyrir suma að hafa vettvang til að næra skoðanir sínar ... ekki svo fínt fyrir óharðnaðar sálir sem grípa þetta gagnrýnislaust. Jæks.

 

Og þarna Tate-gaurinn sem var handtekinn úti í Rúmeníu ... Andrew Tate. Ég sá tvær miðaldra Facebook-vinkonur sjokkerast yfir handtökunni, verja hann og tala um samsæri gegn þessum manni sannleikans, þeim eina sem virkilega þyrði að segja það sem aðrir hugsuðu - en þær sjá svo sem báðar samsæri í flestu öðru og finnst Trump vera með fullu viti. Sennilega hefur Tate alveg óvart og óafvitandi nauðgað og beitt konur ítrekað ofbeldi á milli þess sem hann þuldi vísdóm sinn, mestmegnis yfir ungum körlum sem hann dáleiddi með umbúðalausum „sannleikanum“. Svona dáleiðarar hafa mátulega mikið af sannleika með til að geta laumað því vafasamara betur að. 

Ég mæli miklu frekar með að þið lesið bloggið mitt, þar birtist nú kurteisin aldeilis holdi klædd og meira að segja sannleikurinn af og til. Kurteisi var fundin upp til að allt færi ekki í bál og brand og forðar því að við drepum hvert annað.

 

sigurjon_einarsson_-_heimaeyÍ gær var komin hálf öld síðan eldgosið hófst í Vestmannaeyjum. Algjörlega ógleymanlegur dagur ... fyrir mig. Var vakin eldsnemma við fréttirnar og átti að fara í miðsvetrarpróf í Austurbæjarskóla (sem var frestað) og síðasta prófið átti svo að vera á föstudeginum (frestað til mánudags). Það átti svo að detta í það um helgina, fara á svona próflokafyllirí ... en þessi góðu áform okkar 14 ára krakkanna riðluðust vegna gossins og fyrst við fórum ekki á fyllirí þarna ákváðum við öll að snerta ekki áfengi framar, ekki fyrr en gysi á Reykjanesskaga sem hafði ekki gerst í 800 ár svo við vorum öll örugg um að þurfa aldrei að drekka. En síðustu árin höfum við drukkið nánast sleitulaust. Ég aðallega kaffi - við sögðum bara DREKKA en ekki hvað. Sumir drekka svo sem allt sem rennur nema skíðasleða og magasleða en ég er ekki þar þótt vinirnir séu það. Þau eru nánast öll flutt til Tenerife þar sem allt er ódýrara, nema vatnið kannski. En svona getur nú lífið breyst í einu vetfangi við eins og eitt eldgos, þótt maður sé hvergi nærri því. Við fyrrum og þá steinhættu drykkjufélagarnir græddum elskuna hana Emmu Davíðs ... fengum eitt stykki Eyjastelpu í bekkinn okkar.

 

Ég þarf að fara í hálfsdagsferð í bæinn bráðum (á milli lægða) til að kaupa kattamat sem fæst bara hjá dýralæknum. Við náum strætó undir kl. 10, hittum Hildu í Mjódd eða Mosó, kaupum kattamatinn (rándýrt sjúkrafæði vegna þvagsteinaveiklunar Kela) og skreppum svo í Kaffitár á Nýbýlavegi, síðasti séns, þar verður skellt í lás um mánaðamótin. Þetta verður áfall fyrir hverfið. Ég myndi flytja. Manni finnst alltaf fullt út úr dyrum þarna. Vissulega hef ég ekki komist lengi því ég byrjaði flestar mínar bæjarferðir á því að koma við þar, þegar ég kom í Mjódd oftast kl. 16.09 á föstudegi. En þegar farið var að loka þar kl. 16 datt það alveg niður, því miður. Mun kveðja þennan góða stað með tárum og frábæra starfsfólkið sem þar hefur unnið í gegnum tíðina.

Svo tökum við stráksi 13.30-strætó heim frá Mjódd, nánast að skiptimiðinn dygði. Helgin hefði verið betri í þetta og við getað stoppað lengur en veðurspáin er frekar spennandi fyrir helgina, hellingsrok sem býr vonandi til stóra öldur við Langasandinn.  


Kaffitengt kraftaverk í Himnaríki och pönnukökur

Soroptismaklúbbur pönnsurTalsverður tími er liðinn síðan úkraínska grannkona mín kom í kaffi síðast. Sonur hennar er kattahvíslarinn mikli, munið, en hann var fjarri góðu gamni í gær þegar ég bauð móður hans í kaffi. Ég átti heitt súkkulaði í potti á einni hellunni og bauð henni bolla af því með ... pönnukökunum! Langaði að taka þátt í bóndadeginum, keypti besta þorramat sem ég veit, pönnukökur, og það af Soroptismaklúbbnum sem selur þær árlega í miklu magni hér á Akranesi á þessum degi og ágóðinn rennur ævinlega til góðs málefnis. Ég ofreiknaði græðgi okkar stráksa þegar ég pantaði, svo það var eins gott að ég hafði boðið minni ljúfu nágrannakonu í kaffi en hún neyddist nú samt til að taka nokkrar pönnsur með sér í nesti.

 

ATH. Myndin er rammstolin. Ég keypti ekki svona mikið. 

 

„Hvað um einn bolla af góða kaffinu þínu?“ spurði hún eftir að hafa klárað heita súkkulaðið og þótt þetta sé viðkvæmt mál brast ég ekki í grát heldur greindi henni rólega og yfirvegað frá því að vélin færi ekki í gang, það kæmi bara rautt þríhyrningslagað ljós í mælaborðinu og ekkert gerðist. 

„Hmmm, ég er nokkuð slyng í því að bilanagreina og gera við með hjálp YouTube,“ sagði skógfræðingurinn snjalli og mér leið eins og að Hildur, gamla grannkona mín, væri endurfædd. Sú gat jútjúbað til gæfu og gagns. Þegar ég vældi aumingjalega yfir slælegri enskukunnáttu minni á tæknilegum orðum sagðist hún geta séð allt svona í úkraínskum myndböndum, ekkert enskukjaftæði. Svo settum við baunavélina í samband, tókum pressukönnuna, ketilinn og kvörnina í burtu og Svitlana bretti upp ermar. Kaffivélin var sennilega farin að nötra og skjálfa og dauðsjá eftir stælunum, nú þegar sérfræðingur var kominn í hús, því hún fór í gang eins og ekkert væri þegar kveikt var á henni! Ekkert rautt ljós og hamingja mín varð óstjórnleg. Ég sem var farin að sjá fyrir mér að taka áætlunarbifreiðina suður með vorinu með bilaða og þunga kaffivélina í fanginu og fram að því lifa á kaffi nánast með hlóðabragði.Þegar guli bjarminn í augum grannkonunnar minnkaði og það komu ekki lengur eldingar frá fingrum hennar, fengum við okkur súpergóðan kaffibolla.  

Enn hálkaNákvæmlega núna drekk ég gæðakaffi á meðan ég horfi á Liverpool slátra Chelsea ... djók. Kannski þurfti vélin bara nokkurra daga hvíld. Hún hefur nú samt ekki verið ofnotuð, blessuð snúllan.

Að öðru: Hvernig tilsteikir maður eiginlega pönnukökupönnu? Ég losaði mig við teflonpönnuna og keypti mér nýja alvöru í fyrra eða hitteðfyrra. Hún hefur verið með vesen frá byrjun, það festist við, sama hversu mikið smjör er í deiginu eða á pönnunni.

 

Inga kíkti í örstutt kaffispjall í gærmorgun, kom með pönnukökurnar en fékk samt bara bananabrauð hjá mér. Ég skrifaði nýlega um systur mína sem borðar mjög ósmekklegt ristabrauð, eða nánast brennt og hefur sultuna undir ostinum.

Inga vill hafa pönnukökurnar sínar dökkar!!! en mér finnst að pönnsur eigi að vera ljósbrúnar og þunnar, eins og mamma gerði þær.

Það er greinilega ofboðslega misjafnt hvernig fólk vill hafa þær. Dökkar, ljósar, þykkar, þunnar, með mikilli sultu, lítilli, miklum rjóma eða litlum ... og ég hrósa pönnsunum sem Inga kom með ... ekki of mikil sulta eða rjómi, bara algjörlega mátulegt og bæði ljósar og dökkar. Tvíburasál mín var greinilega að verki þegar hún útbjó minn skammt.

 

StórsvellHálkan hefur ekki mikið látið á sjá hér á hinu samt iðulega snjólétta Akranesi og ég sá um hádegisbil að skokkararnir hlupu á Langasandi sjálfum til að bjarga sér frá fótbroti. Ég hef oft verið skömmuð fyrir áhuga minn á innivist sem hefur bitnað illilega á útivist minni, ekki síst síðustu vikur. Ég hef alltaf verið svona. Man eftir mér þrettán ára í heimsókn hjá vinkonu á Sóleyjargötu, gegnt BSÍ, hún stríddi mér á því að ég tók yfirleitt strætó heim frá henni, á Miklatorg, það voru tvær stoppistöðvar heim á Bollagötu, götuna næst Miklubraut í Norðurmýri. Mér finnst óbærilega leiðinlegt að ganga bara til að ganga og fæ alltaf í bakið eftir smástund og þarf að setjast. Mér finnst skemmtilegra að fara í ræktina til að hreyfa mig. Náttúruhatari? Nei, alls ekki. Ég horfi á suma göngugarpana í kringum mig sem eru á biðlista eftir gerviliðum eða hafa nú þegar farið í aðgerð. Veit auðvitað ekki hvort það er vegna of margra gönguferða, fjallgöngufíknar eða er eitthvað allt annað. En það er auðvitað til millivegur - ég fer alveg út og geng - út í búð, til tannlæknis (leigubíll síðast en bara vegna fk. hálku). Veit að Sveinn Waage hatar slabb, ég geri það líka, en ég hata* hálku enn meira.

*Áður en velmeinandi bloggvinir senda mér skilaboð um óhollustu þess fyrir sál og líkama að hata vil ég láta koma fram að þetta er orðum aukið hjá mér, mér er rúmlega mjög virkilega afar meinilla við hálku og það næstversta er slabb. Þetta er fyrir utan hnetur, möndlur, döðlur og rúsínur - sem minnir mig á að rúsínupakkinn er enn einhvers staðar í felum hér í Himnaríki - svakalega þroskað hjá henni systur minni ... en hann skal finnast!

 

Miðmyndin var tekin fyrr í dag og sýnir vissulega ört minnkandi svellið en ekki nóg því það á víst að snjóa meira í dag eða á morgun og þá byrjar ballið upp á nýtt. Svo er flóð, og þar með tilvonandi (á morgun) fínasta skautasvell ef ekkert verður að gert, fyrir utan Landsbankann hér á Akranesi. Sjá neðstu myndina sem ég stal án nokkurrar miskunnar af Facebook (sorrí, Guðjón). 


Misheppnuð slökun og önnur vandræðalegheit

Bað í stöðuvatniÞægindahringurinn hefur hvað eftir annað verið rofinn síðustu vikur, ég er að tala um Storytel, get núorðið hlustað, ekki bara lesið rafbækur þar. Ég hef líka prófað mig áfram með að láta svæfa mig með lestri á bók, sefandi hljóðum og svo sérstakri róandi tónlist ... Í gærkvöldi langaði mig að prófa sérstakt slökunardæmi (önnum kafnar konur þurfa að læra slökun) þar sem flottur leikari les nokkrar slökunarsögur. Sú fyrsta hljómaði skringilega. Bað í stöðuvatni. Ég þoli ekkert blautt nema eigin sturtu heima eða lóðrétta rigningu en ég herti samt upp hugann og ýtti á play.

 

„Farið varlega og hreyfið ykkur ofurhægt þegar þið klífið yfir, eða látið ykkur svífa, ef þig getið, gaddavírsgirðinguna og gætið þess að rífa ekki fötin. Munið bara að það er rafmagn í henni svo best er að vera kloflangur. Verið alveg slök þegar þið jafnvel þurfið að kasta ykkur yfir en þúfurnar sem þið lendið á eru ekkert rosalega harðar og engin hætta á mauraþúfum hér á kalda skerinu okkar. Þau allra slökustu og minnst syfjuðu geta auðvitað leitað að hliði á girðingunni, en þar er reyndar líka gaddavír og enn sterkari straumur. Slakið bara á og hlustið á hljóðin í sveitinni, jarmið í litlu sætu lömbunum og baulið í litlu sætu kálfunum. Látið mykjulyktina ekki koma ykkur úr jafnvægi, reynið heldur að venjast henni. Þið eruð á leiðinni að íslensku stöðuvatni og þurfið að komast fyrst yfir jörð bóndans. Í þessari hugleiðslu er hann ekki vopnaður haglabyssu. Þegar þið komið að stórum skurði reynið að stökkva hægt, afslappað en örugglega yfir hann því enn er nokkuð langt að vatninu og best er að ná sem bestri slökun áður en þangað er komið, út af pöddunum. Og slaka. Látið sem þið sjáið ekki mannýga nautið í næstu girðingu. Það er mun rólegra í dag en í gær þegar það stökk á rafmagnsgirðinuna og reif hana þegar að sá síðasta slökunarhópinn koma. Reynið bara að ná róandi og slakandi augnsambandi við það en ekki veifa handklæðinu. Munduð þið ekki annars eftir handklæði? Og slaka. Ef þið komist fram hjá nautinu sjáið þið fljótlega glitta í ryðbrúnt stöðuvatnið. Finnið enn meiri ró og frið færast yfir ykkur. Látið ekki koma ykkur í uppnám þótt vatnið sé gruggugt, heldur leggist nakin ofan í það. Mjög hressandi vissulega svona ískalt, en slakið nú samt á hverjum vöðva og finnið værðina koma yfir ykkur. Ef þið farið óvart í kaf og gleypið mold og pöddur, ekki hika við að tyggja rólega og kyngja, hugsið ykkur bara að þetta sé kraftmikil kjötsúpa. Og stunga frá geitungi hefur ekki drepið neinn, eða jú, kannski en það er mjög sjaldgæft. Slakið bara á og ekki hugsa um ísbjörn. Nú ættuð þið að vera sofnuð.“

Auðvitað var þetta ekki svona, ég slökkti áður en þetta byrjaði almennilega, það er bara engin leið að fá mig til að slaka á í íslensku stöðuvatni og sofna, ekki möguleiki. Það eru fleiri sögur þarna, best að athuga hvort til sé róandi og slakandi saga sem gerist á friðsælli og þurrari stað. Kveðja, konan sem fer ekki einu sinni í sund!

Leiðrétting. Þetta heitir víst Bað í náttúrulaug en ég legg það algjörlega að jöfnu við stöðuvatn.

 

MatarboðVodka-brandarar hafa nú alfarið verið bannaðir utan heimilis. „Viltu vatn?“ spyr ég kannski ónefndan dreng og hann segist frekar vilja vodka og okkur finnst það alltaf jafnfyndið. Í matarboði nýlega þar sem voru kannski tíu, tólf manns, fór sá ónefndi að segja frá því að ég hafi drukkið rosamikið vodka í siglingunni um Karíbahaf jólin 2018. Sem voru miklar ýkjur, ég var líklega eini farþeginn um borð sem drakk aldrei kokteil (við sluppum við að kaupa vínpakkann (10 þúsund kall á dag) sem fólk hamaðist við að drekka fyrir til að tapa ekki fé) heldur varð ég fljótt þekkt á fimmta dekki sem fastakúnni á kaffihúsinu þar og þurfti bara einu sinni eða tvisvar að segja hvað ég vildi, síðan fóru viðskiptin fram þegjandi, fyrir utan góðan dag og takk fyrir. Og nei, ekki Irish coffee, heldur latte úr fínasta Lavazza-kaffi. Þrisvar á dag.

Sá ónefndi þrjóskaðist samt við að sverja upp á mig vodka því það var svo fyndið. Ég andaði léttar þegar talið barst að tedrykkju sem drengurinn stundar sjálfur grimmt en þá þurfti að segja að fósturmamman drykki oft róandi te. Ég harðneitaði því og sagðist hafa kannski tvisvar smakkað úr birgðum drengsins eftir að hann lagði fast að mér. „Nei, oftar,“ staðhæfði hann, og sagði svo lágt, „kannski þrisvar.“ Og nú halda eflaust einhverjir vinir mínir að ég sé komin upp á lag með valíum-te á milli þess sem ég marinera mig í vodka. Sennilega ekki samt, Inga vinkona þorir ekki í heimsókn eftir að kaffivélin bilaði, hún veit um ofurást mína á góðu kaffi. 

Við ræddum þetta samt við heimkomu og ég bað ónefndan um að mótmæla mér ekki þegar ég reyndi að leiðrétta, það skipti ekki máli hvort einhver hefði smakkað relaxing-teið frá Yogi tvisvar eða þrisvar sinnum síðustu árin, svona tal gæti komið illa út og ég kannski lent illa í fósturlöggunni. Hann flissaði. „Já, en þetta var svo fyndið ...“

En sem sagt, vinir og vandamenn hætta héðan í frá að heyra misheppnaða vodka-brandara frá okkur. Það verður án efa víða fagnað. Fimmaurabrandarar eru ekki allra. Ég er fáránlega veik fyrir þeim og get því kennt sjálfri mér alfarið um þetta.


Rifist um veður og grimmileg kaffihefnd

HitamunurNýlega rak ég augun í gífurlegan mun á hitastigi, frostinu sem hefur ríkt svo óralengi, á milli Kópavogs og Akraness. Ég benti systur minni á þessa mjög svo athyglisverðu staðreynd, í raun til að uppfræða hana um fjölbreytileikann sem ríkir, ekki síst á sviði veðurs hér á landinu fagra og ískalda. Ég hefði sennilega ekki tekið eftir þessu ef veðurappið mitt væri ekki stöðugt fast öðrum megin við Fossvogsdalinn, þar sem Hilda systir býr, í stað þess að sýna mér milt og fagurt veðrið á Skaganum. Viðbrögð systur minnar voru ólýsanlega fáránleg. Hún lét eins og ég væri orðin fimm ára og væri að stæra mig af því að það væri hlýrra á Akranesi en í bænum, ég hafði víst eitthvað minnst á færri tonn af snjó hér á Akranesi en ég hafði bætt við sögunni um Skagadrenginn sem fékk fínan sleða í jólagjöf og sleðinn var enn í skúrnum sjö árum seinna, enginn almennilegur snjór. Var ég að monta mig af betri búsetuskilyrðum á Akranesi en í kuldapolli í Kópavogi? Nei, alls ekki. 

„Þú ert nú meira %&&%%$# nautið,“ sagði systir mín brjáluð. 

„Ég er reyndar í ljónsmerkinu,“ svaraði ég róleg og sýndi talsvert meiri þroska en hún.

„Hvað heldur þú að mér sé ekki sama um mun á frosti eftir landshlutum, ormurinn þinn.“

„Gættu hófs í orðavali, kæra systir,“ sagði ég til að reyna að sefa óhaminn ofsa systur minnar. „Ég get að sjálfsögðu ekkert gert af því þótt það sé mögulega betra að búa á Akranesi,“ sagði ég og sýndi í fyrsta sinn smávegis grimmd.

SKELLT Á. Nú hefur ekkert samband ríkt í tvo daga. Ég sem var ekki búin að benda henni á að hjá henni væri pottþétt meiri hiti á sumrin sem henni finnst æðislegt en mér alls ekki.

 

Dagar helvítisReiðistraumarnir úr Kópavogi lentu illilega á Himnaríki í gær, grunar mig, þegar kaffivélin (keypt haustið 2017) neitaði að fara í gang. Einhver algjör heppni (innsæi, miðilshæfileikar, hugboð, greind) hafði séð til þess í fyrra því að ég keypti mér ódýra en góða rafmagnskvörn sem hefur bjargað kaffimálum mínum algjörlega. Ég er ekki sérlega tæknisinnuð en hef getað hreinsað kvikindið sómasamlega, nema ég harðneita að taka þátt í því að hreinsa kalk sem er mikil serimónía og hef ekki gert frá upphafi því það er ekkert kalk í íslenska vatninu, rauða ljósið hefur því blikkað í rúm fimm ár án þess að það hafi komið niður á gæðum kaffisins. Virkilega fín kaffivél en út af þessu blikkandi kalk-ljósi ákvað ég samt að kaupa ekki aftur sömu tegund.

 

 

Hvað er nú til ráða? Nenni ég pressukönnukaffi? Er Nespressó kannski eina vélin sem ég get keypt og tekið með mér heim í strætó? Kaffið í dökkbláu pökkunum er nú ansi gott. En hver á þá að halda uppi kaupum á kaffirjóma á Íslandi? Með Nespresso yrði það nýmjólk og mínir tveir eða þrír latte á dag. Þvílíkir örlagadagar sem ríkja nú í Himnaríki. Er ég kannski komin til helvítis án þess að skilja það? Ætti ég að bjóða fyrrum grannkonu í heimsókn? Þeirri sem finnur svör við öllu á YouTube? Það myndi gleðja kettina líka.     


Svefnfriður með naumindum og óþreytandi hannyrðabófar

Aðdáandinn nýjastiSvefnfriður tryggður í nótt með því að slökkva á símanum, kannski eins gott því nýr aðdáandi frá því fyrr um kvöldið lét til skarar skríða. Hann er 21 ári yngri en ég sem er auðvitað ekkert verra, eins og við Madonna vitum. Í morgun fletti ég henni og kærasta hennar upp og munurinn er 41 ár. Í það mesta en það hélt mér samt frá því að byrja á föstu með þessum. Og þar sem hann fjarlægði ummæli ... ég var búin að sjá þau ... henta alls ekki siðprúðu bloggi og verða því ekki birt hér. Ég er þakklát fyrir að hafa ekki fengið senda ljósmynd af fjölskyldudjásnum hans því ég er mögulega eina konan á landinu sem hef aldrei fengið slíka mynd senda, vil halda því þannig upp á sérstöðuna að gera. Ætlaði eitt sinn að vera sú eina á landinu sem hafði aldrei til Þingvalla komið en Elfa og fleiri vinkonur skemmdu það með því að bjóða mér á þrítugsafmælinu í morgunverð á Valhöll sem þá stóð enn. Þá fann ég mér bara annan stað sem er Bláa lónið. Ég hef komið þangað í gæsapartí vinkonu en aldrei farið ofan í. Verðlagningin þar seinni árin heldur mér líka víðsfjarri.

 

Ef einhver ætlar að skamma mig fyrir að hleypa svona liði að mér, eins og þessum aðdáanda, var það sannarlega ekki ætlunin, við tvö erum ekki fb-vinir og verðum ekki, hann á ekki að geta séð hvort ég SÁ þetta þar sem ég svaraði honum ekki og mun ekki gera. Það heyrist samt auðvitað alltaf BLING þegar einhver reynir að hafa samband og nú hefur Facebook að auki hleypt auglýsingum inn í Messenger-spjallforritið (einkaspjallið) sem er fúlt. Það kemur eins og eitthvað sé ólesið frá mínu fólki en er svo bara auglýsing frá fasteignasölu eða eitthvað.

Þau sem þekkja mig best gætu ímyndað sér að ég hefði fallið fyrir honum því hann skrifar ljómandi góða íslensku. En ... hann er með bil á milli síðasta stafs og spurningamerkja, og svo segir maður kyssileg, ekki kyssuleg. Það hefði líka átt að vera komma á milli Ertu þarna og sæta. Ertu þarna, sæta?

Nei, stafsetning kemur þessu ekkert við. Sumir eru les- og skrifblindir og það myndi ég aldrei láta bitna á þeim. Það gæti verið viðreynsluaðferðin. Konur á mínum aldri falla ekki eingöngu fyrir útlitshrósi, þær vilja heldur ekki bara konfekt / blóm, heldur helst vera dáðar fyrir það andlega líka ... Við fáum aldrei að vita hvað hefði gerst ef maðurinn hefði sagt: Mikið var nýjasta bloggið þitt frábært, hvernig gastu reiknað út nýju Tycho Brahe-dagana og munað að gera ráð fyrir að sumir mánuðir hafa bara 30 daga, jafnvel bara 28? Og ömurleg reynsla fyrir þig að karlarnir í Ameríku læki nánast bara myndina af systur þinni á þinni eigin Instagram-síðu.

Ég hefði svarað honum að ég hefði þessa skemmtilegu greind úr föðurættinni, frá Flatey á Skjálfanda, væri að auki með Merkúr í Meyju sem Fúsi frændi, einnig úr Flatey, segir að bjargi mér, og að ég væri mjög ánægð fyrir hönd Hildu systur út af læk-unum, þeir misstu mig nú samt fyrir bragðið - en kannski héldu þeir að þetta væri ég. Athyglisgáfan væri ekki skárri en þetta. Hver vill þannig menn? Ef einhver verður ástfanginn af mynd af mér en ruglar okkur systrum samt saman, hvernig yrði það hjónaband í raunheimum, alltaf að kyssa Hildu og segja svo: I´m so sorry, ég sé ekki muninn!

 

HeklglæpafólkHeklglæpafólk (sjá samsettar fjórar myndir) heldur áfram við sníkjur á læki og fallegum orðum auðtrúa fólks í athugasemdum. Af hverju losna ég ekki við þetta af veggnum mínum? Alltaf sömu myndirnar með misjöfnum texta. Svo er þetta stundum eitthvað allt önnur handavinna en hekl sem sýnt er. Og af hverju skrolla ég ekki bara fram hjá og læt sem ég sjái þetta ekki? Ég veit það ekki. Ég skelli stundum inn mynd í athugasemd hjá þessum bófum með skjáskoti af samskonar vælutexta (Nobody læks mæ hekl) en við aðra mynd og set spurningamerki. Heklbófarnir halda áfram að fá þúsundir hrósa fyrir fagurt hekl og enn fleiri hjörtu og læk. Yfirleitt ýti ég bara á X í hægra horninu til að loka þessu en friðurinn stendur bara í mánuð. Svo flæða þessar blekkingar yfir á nýjan leik.

 

Stundum hef ég sterkt á tilfinningunni að lífið sé að færast inn í samfélagsmiðlana ... og af hverju fer ég ekki bara í hannyrðabúðina við Kirkjubraut og hrósa handavinnunni þar og sýni mitt hekl og fæ alvöruhrós? Jú, af því að það er hálka! Ég hef sterkt á tilfinningunni að verið sé að ýta mér til og frá, kaffihúsin sem loka allt of snemma sem draga mann út í óreglu á börum og pöbbum sem taka við manni þegar á að hitta vini og vandamenn eftir vinnu. Og ekki-sandbornar gangstéttar eða bílastæði ýta manni inn í innivist og að tölvunni eða símanum. Og þar halda sig hrósþyrstu heklglæpónarnir sem eru að gera mig vitlausa. Þvílík hringrás ... en það líf. En það kemur vor og frostið fer ... vonandi.  


Nýir Tycho Brahe-dagar og ástreitinn hjartaskurðlæknir

Chagall minnPóstnúmer eru ekki eina vesenið, eða að muna ekki eitthvað sérstakt númer, sem heldur fyrir mér vöku greinilega, heldur óhappadagar á röngu tímatali, svo ég reif mig á fætur fyrir allar aldir eftir hádegi í dag og uppfull af kaffi og kappi réðst ég á útreikninginn. Ég mundi: Ap., jún., sept., nóv. þrjátíu hver, það er ekki hlaupár í ár svo ég bretti upp ermar og fór að bæta þrettán dögum við.

Áður en þið farið að lesa og sum jafnvel sjokkerast, endurtek ég að það er ekki slæmt að eiga afmæli á þessum dögum, þeir geta bara verið óhentugir ef maður ætlar sér að galdra eitthvað fínt, gera samninga og taka mikilvægar ákvarðanir - og þá þarf auðvitað líka að trúa bæði á stokka og steina.

  

Haldið ykkur ... Nýju Tycho Brahe-dagarnir eru:

Janúar: 14, 15, 17, 19, 24, og 25. (úps, Halla frænka)

Febrúar: 11. og 24. 

Mars: 2, 3, 14, 17, 27, 28. (úps, Eva frænka)

Apríl: 22, 29, 30

Maí: 1, 2, 5, 12, 23, 30, 31. (úps, mamma, sorrí, verkalýður)

Júní: 19. (Bubbi  sloppinn, úps, kvenréttindi)

Júlí: 30.

Ágúst: 3.

Sept: 2, 3, 29.  (úps, Elísabet frænka)

Okt. 1, 19. (úps, Steingerður og Inga)

Nóv: 19.

Des: 1, 19, 24, 31 (úps, pabbi, Anna Lára, Ísak, Úlfur og jesúbarnið ... Hilda sleppur naumlega)

Ég veit ekki hvað það þýðir að eiga foreldra sem báðir fæddust á Tycho Brahe-degi, 5. maí og 1. des. - hlýtur að vera æðislegt ef ég lít yfir systkinahópinn. Talsverður fjöldi ættingja, m.a. mæðgur, bættust við. Og svo er spurningin sú hvort þetta þýði að bæði aðfangadags- og gamlárskvöld séu dagar sem eigi að bara að njóta en ekki taka mikilvægar ákvarðanir - eða galdra?

 

Í öllu sjokkinu í gær gleymdi ég sérlegu happadögunum sem eru bara fjórir á ári. Þessir æðislegu dagar eru skv. hinu gregoríska tímatali:  

Febrúar: 8., 22. og 23. febrúar (áður 26. jan., 9. og 10. feb.)

Júní: 28. (áður 15. júní)

NÚ er loksins hægt að fara að plana brúðkaup! Held að þetta sé merkileg stund, merkileg bloggfærsla, og í fyrsta sinn sem nokkur manneskja nennir að breyta yfir í rétta daga, svo þetta er einstakt. En ég er svo sem líka manneskjan sem leitaði og gúglaði eftir mynd af gömlu tertusneiðinni úr brúðkaupi Díönu og Kalla 1981, á meðan íslenskir fjölmiðlar létu sér nægja að birta gamla brúðkaupsmynd af þeim með frétt um sölu á tertusneiðinni. Samt er ég ekki sérlega góð í að gúgla.

- - - - - - - - - - - - - - - 

Hilda og jóliNútíminn er vissulega algjör trunta stundum og sumar tækninýjungar ferlega asnalegar svo það sé nú sagt ... eins og ómöguleikinn við að þagga niður í blinginu þegar aðdáendur mínir á Instagram læka eina sérstaka mynd á síðunni minni á öllum tímum sólarhringsins. Líka þegar appið lætur mig vita að einhver hafi nú verið að setja inn mynd, BLING! eða að einhver sem ég gæti mögulega þekkt sé á Instagram, BLING! Vó, takk.

Þessi langsamlega mestlækaða mynd er af Hildu systur í fangi jólasveinsins. Hún hélt upp á stórafmæli sitt fyrir nokkrum árum og býður alltaf jólasveini (hún á svolítið spes vini og ættingja). Þetta er vinsælasta myndin mín en sú sem fylgir fast á eftir er af Mosa (hefðarketti) úti í glugga, sjórinn minn og fallegt sólsetur í bakgrunni. Þriðja vinsælasta er líka af Mosa þar sem hann situr og starir á tölvuna (að prófarkalesa), óveðursský og dökkgrár sjór í bakgrunni.

 

Mynd: Þessi er að gera allt vitlaust á netinu. 

 

Ég tek fram að ég er mjög róleg í tíðinni við að setja inn einhverja fegurð og skemmtilegheit eins og Instagram-vinir mínir gera margir daglega. Það líða heilu mánuðirnir á milli hjá mér. En alltaf reglulega fær myndin af Jóla-Hildu læk. Núna síðast klukkan fjögur í nótt þegar bandarískur hjartaskurðlæknir hreifst af fegurð hennar. BLING! Á meðan ég kann ekki að slökkva á blinginu verð ég að slökkva á símanum á nóttunni, ég er eins og ungbörnin, finnst vont að láta trufla svefn minn, þarf stundum að byrja alveg upp á nýtt að fá mína átta tíma í einni lotu. Vekjaraklukkan virkar þótt ég slökkvi á símanum svo ástreitni glæsilegra og sterkefnaðra Bandaríkjamanna í garð systur minnar mun þá bara framvegis gleðja mig næsta dag.

Þessir ástreitnu (nýyrði mitt) læknar (flestir hjartasérfræðingar), leikarar (semífrægir Hollywood-gaurar), ofurstar (í flottum einkennisbúningum), allir ekklar, eru greinilega miklu meira fyrir jólasveina en ketti miðað við þetta. Hvað segir það okkur? Athyglisvert í meira lagi og hefur talsverðan fælingarmátt, verð ég bara að segja. Ég ætla að velja sérlega vel næsta eiginmann minn og sennilega ganga að eiga hann í febrúar eða júní (sjá sérlega happadaga).   


Óhappadagar, dulið ríkidæmi og besti sendillinn

Hvað er þettaTuttugastinn rann upp í dag en enn er hér uppi jólaskraut, eða bara jólatré, hist og her sem virðast óafvitandi hafa verið eina puntið sem hlaut náð fyrir augum mínum. Þegar ég bað ástkæran sendil Einarsbúðar afsökunar á þessu jóladóti í dag, brá honum svo mjög að hann samþykkti án umhugsunar að koma í lag nýkeyptu tæki hér á bæ, vissulega notuðu og með 50% afslætti frá nýju en mig var virkilega farið að gruna að seljandi hefði losað sig við það vegna lélegheita þess. En tækið er eins og nýtt eftir hjálpsemi unga mannsins sem er þó ekki verkfræðingur heldur sambland af viðskiptafræðingi (samt ágætur) og næstum því smiði. Hér má sjá mynd af þessu tæki sem kostaði mig 70k, mögulega veit þetta á kílóatöluna sem ég verð innan tíðar? Veistu hvað þetta er? Þegar systir mín hringdi í mig og sagðist hafa séð þetta til sölu var ég reyndar búin að steingleyma því að það væri ekkert pláss fyrir neitt á borð við þetta, jafnvel svona samanbrjótanlegt dæmi eins og þetta er. Helst í kósískotunum þar sem yfirbyggðu kattasandskassarnir væru staðsettir en tækið endaði í stofunni, við hliðina á sófanum og stingur ekkert voðalega í stúf. Bleika fokkjú-styttan sem ég fékk í jólagjöf tekur athyglina frá ÖLLU öðru á heimilinu.   

 

Auðlegð mínEftir ljótustu frétt dagsins - án þess þó að ég óttist sjálf að mitt fólk myndi láta lóga Kela, Krumma og Mosa þótt ég slasaði mig, hef ég ákveðið að gera erfðaskrá. Svona kúgandi erfðaskrá ... Nota þá alltaf svipinn „jæja, viltu ekki arf?“ á fólk sem segir eða gerir eitthvað sem er mér á móti skapi - eða neitar að skutla mér (húsfélagið meðtalið). Ég get síðan verið með hirðlögmann minn á hraðvali og skipt um skoðun vikulega eða jafnoft og þarf. Og ef ég dey voveifilega úr elli munu allir sem ég þekki liggja undir grun, eða allir sem einhvern tímann hafa komið við sögu í erfðaskránni. Ég læt síast út að ég eigi yfir 30 milljón dollara sem er ekki beint lygi því ég á þá upphæð á netinu í óraumheimum (sjá mynd og inneign mína efst til hægri). Það eru reyndar til einhverjar Agöthu Christie-bækur um alvöruríkar aðalsfrúr á besta aldri sem eru myrtar á eitri og ... erfðaskrá kemur við sögu. En ég mun útfæra þessa hugmynd mína einhvern veginn - svo ég ráðlegg öllum að dissa mig ekki. Ég á Marc Chagall-mynd og gæti trúað einhverjum fyrir því að hún væri ekki eftirprentun til að gera þetta meira spennandi. Mögulega með alls konar svona auðmannalátum, fæ ég langþráða vinnu hjá Bankasýslunni áður en hafist verður handa við næstu bankaútsölu.

 

Tycho Brahe, stjörnufræðingur og stjörnuspekingur frá sextándu eða sautjándu öld, gaf út lista yfir sérlega Tycho Brahe-óhappadaga. Daga þar sem óheppilegt er að stunda mikilvæg viðskipti, galdra eða gifta sig og annað slíkt ... Hann missti reyndar nefið í slysi, blessaður, en ekki á óhappadegi. Hér eru dagarnir og svo kemur ákveðinn viðsnúningur á þessu sem krefst góðrar greindar og stærðfræðikunnáttu.

Vinur minn, MarcJanúar: 1, 2, 4, 6, 11, 12, 29. (Laufey er 12.1, varð sjötug í gær, en óttastu eigi)

Febrúar: 11, 17, 18. (fv. eiginmaður f. 17. og Dobba mín f. 18. en óttist eigi)

Mars: 1, 4, 14, 15. (fóstursonur minn f. 4. og líka Jóhanna allsherjargoði)

Apríl: 9, 16, 17, 18, 19, 22, 29 ((Ellý Halldórs og Bó Halldórs eru f. 16.4)

Maí: 10, 17, 18.

Júní: 6. (Bubbi Morthens)

Júlí: 17, 21.

Ágúst: 20. 21.

September: 16. 18. 

Október: 6.

Nóvember: 6. 18. (Magga, dóttir Dobbu í febrúar, f. 18.11)

Desember: 6, 11. 18. (Hilda systir 18.12)

 

Sko ... þetta með júlíanska og gregoríska tímatalið. Við notum, eins og flestir, það gregoríska en t.d. Úkraína það júlíanska. 

Úkraínufólk heldur upp á jólin sín 25. desember skv. sínu júlíanska en þá er nú bara kominn 7. janúar hjá okkur gregoríska genginu. Og þessir svokölluðu óhappadagar sem ég hef óttast og gætt þess vandlega að giftast ekki á, eru samkvæmt því júlíanska ... og það er eins og enginn hafi nennt að reikna yfir í það algengara. Svo minn fyrrverandi, Dobba, Magga, Laufey, Bubbi, Ellý og Björgvin Halldórs. þurfa engar áhyggjur að hafa yfir því að vera fædd á óhappadegi því þau eru það ekki. Ég veit ekki hvort mig langi svona seint að kvöldi til að hjúpa mig góðri greind og fara í stærðfræðigírinn, kannski er hægt að finna þetta á netinu, eins og hvað hitastig á Celsíus er mikið á Farenheit - eða sem ég fann út í dag þegar ég smellti í bananabrauð: Einn bolli af hveiti er 150 grömm - bollar eru ekki allir eins, þið þarna kökugerðarfólk. Ég hef keypt bollamál en held að enskt og amerískt sé ekki eins!

Þetta júlíanska er reyndar bara 13 dögum á eftir okkar ... en ég veit ekki með hlaupár og slíkt ... en ef einhver nennir að reikna, vinsamlega sýndu varúð við að segja mér nærgætnislega ef 12. ágúst reynist allt í einu vera sérlegur óhappadagur.


Naumlega sloppið við hryllingsnágranna ...

GlerhálkaLeigubílstjórinn og ég erum fínustu kunningjar eftir ferðir fram og til baka frá tannlækninum í dag. Við náðum meðal annars að tala um fjárans Hvalfjarðargöngin sem nánast eyðilögðu Akranes en hér áður fyrr störfuðu ellefu leigubílstjórar hér og við vorum með þrjár hannyrðabúðir og fullt af alls konar sem hvarf með Akraborginni. ELLEFU! Við hneyksluðumst líka á litlum sandburði á gangstéttar en ég veit svo sem að ófærafyrirgangandi-bílastæðið fyrir framan Himnaríki er ekki á vegum bæjarins, EN SAMT var gott að nöldra. Sennilega er ég eini íbúinn hér sem ekki á bíl svo það yrði ódýrara fyrir húsfélagið ef íbúarnir skiptust á að skutla mér til tannlæknis (mæting næst eftir ár) en að láta sandbera. Ég get stundað mína „daglegu“ hreyfingu úti á svölum bara. Sjúr.

 

Á myndinni virðist alls ekki jafnhált og reyndin er en á henni má sjá nýjasta uppáhalds-Skagamanninn minn bruna í burtu eftir að hafa komið mér heilli heim. Eins og sjá má er gott veður hér að vanda og Skaginn er ansi snjóléttur miðað við marga aðra staði en hálkufjandinn lætur alltaf finna fyrir sér. Á neðri myndinni sem snýr í suður, að Langasandi, eins og sjá má, er ástandið síst betra. Endalaus klaki ... Hvar er sandfok (frá Langasandi) þegar maður þarf á því að halda? 

 

LangasandsmeginUndanfarið hef ég verið nokkuð dugleg við að HLUSTA á bækur á Storytel í þeim tilgangi að drífa í að brjóta saman þvottinn og taka niður jólin (eitt stórt hvítt jólatré, tvö glær glerjólatré úti í glugga, tvö litrík keramikjólatré, annað í eldhúsinu, hitt á baðinu, hmmm). Hlustaði á tvær bækur eftir sama höfund sem les sjálfur. Þegar svefnherbergi kemur við sögu les höfundur alltaf svefnEherbergi. Svo sem ekki einn um þetta, síður en svo. Ég man eftir þessu síðan ég var lítil, mamma talaði svona og margir fleiri. Ég man líka eftir útvarpsviðtal við Eirík Rögnvaldsson sem kenndi mér íslensku eina önn undir aldamót. Í viðtalinu talaði hann um (ef minni minn svíkur ekki) þá tilhneigingu okkar að bæta inn staf til að gera orð liðugri á tungu ... að t.d. ruslfata hefði orðið að ruslAfötu, eitthvað sem við segjum öll. Nú legg ég til að fyrst fólk virðist ætla að samþykkja ógeðsorðið ungAbarn (ekki UNGAbarnasund samt) í tal- og ritmáli að það íhugi líka að taka upp svefnEherbergi fyrst það hefur verið svona lengi í málinu. Mjög lipurt. Nema ... ef fólk vill segja svefnherbergi, hvort það vilji ekki líka segja ungbarn? Nánast enginn munur á lipurleika! 

 

Nágranni frá helvítiÉg fékk símtal frá vinkonu minni í gær. Hún sagði mér meðal annars frá því að íbúð í stigaganginum hennar hafi verið á sölu og væri nú seld, en áður en hún seldist hafi áhugasamur mögulegur kaupandi hringt í hana til að njósna. „Ekkert að marka lygina í þessum fasteignasölum ...“ hnussaði konan og það gaf tóninn. Vinkona mín heyrði að þessi kona, væri á aldrinum old og grömpí, og ansi hreint sérstök með sérlega andstyggð á börnum. Kerlan sagðist vilja frið, vildi geta gengið um nakin heima hjá sér en bætti við að hún færi vissulega í föt ef einhver kæmi í heimsókn sem væri nú sem betur fer ekki oft. Hún vildi m.a. vita hvort þarna reykti ógeðsfólk úti á svölum hjá sér og kastaði stubbum niður, og fá á hreint hvort þetta trampólín í garðinum væri mikið notað. Vinkona mín sagðist ekki vita um reykingavenjur fólks í húsinu en trampólínið væri ansi vinsælt, í notkun nánast allan sólarhringinn yfir sumarið en hún fyndi ekki fyrir hávaðanum í krökkunum þar því hún notaði eyrnatappa ef lætin væru mikil. Kerlan fussaði og sagðist ekki vilja slíkt í eyrun á sér. Spurði svo hvort væri mikill umgangur barna í stigaganginum. „Ekkert svo,“ sagði vinkona mín, yfirleitt ekki eftir tíu, ellefu á kvöldin. Hún sagðist bara hækka duglega í sjónvarpinu ef einhver væri með of mikil læti og hún kannski að horfa á fréttirnar. Hún sagði kerlunni að á hæðinni fyrir ofan íbúðina sem var til sölu byggi kona sem spilaði á píanó, oft mjög fallega en því miður stundum ómstríða nútímatónlist, og notaði þá hægri pedalann aðeins of mikið á meðan hún hamraði á hljóðfærið. Það væri ábyggilega hægt að biðja hana um að spila lausar ... Jú, það væri því miður ansi hljóðbært í blokkinni og hún kviði því virkilega þegar Siggi á þriðju tæki eldhúsið og baðið hjá sér í gegn í sumar ... vinkona mín þorði ekki að segja meira til að konan áttaði sig ekki ... þetta með Sigga var vissulega rétt, en hitt var misjafnlega mikið ýkt. Allt er leyfilegt í ástum og stríði. Allt til að forðast nágrannastríð.  

 

Barnahatarinn missti greinilega allan áhuga á íbúðinni og þessi samhenti stigagangur fær senn ung hjón með barn í húsið. Mig grunar að vinkona mín verði hetjan í blokkinni eftir að þetta spyrst út. Kerlan slapp í raun líka ansi vel, það hlýtur að vera erfitt að búa í fjölbýlishúsi iðandi af lífi og vilja vera allsber í sinni búbblu með kröfu um frið og algjöra þögn í húsinu ...

 

Endalaust er ég þakklát fyrir mína dásamlegu nágranna. Ég reyndi til dæmis með valdi að hindra Hildi og Gumma í því að dirfast að flytja héðan um árið en af því að Hildur lofaði að bjóða mér í afmælið sitt losaði ég fjötrana, skilaði bíllyklunum þeirra, lét afturkalla nálgunarbannið á alla sendibíla nálægt húsinu, setti götunafnaskiltin uppi í hverfi á rétta staði og lagfærði sitthvað fleira sem ég hafði gert til að halda þeim. Bara ... ekki reyna að flytja úr húsinu mínu!


Með taxa til tannsa og lærdómsríkt ER-ár

Hálkan 9. jan. 2023Yfirvofandi tannlæknisheimsókn hefur valdið mér nokkrum kvíða, ekki að það þurfi að bora og deyfa, heldur er þetta bara árleg skoðun. Það er hálkan sem hræðir mig, mögulegt handleggs- eða fótbrot eða eitthvað þaðanafverra-brot. Mér fannst samt frekar andhetjulegt að afpanta vegna hálku, eitthvað sem bílandi fólk hefur fæst einhvern skilning á. „Fáðu þér bara mannbrodda. Settu nælonsokk yfir skóna, eða jafnvel ullarsokka,“ segir það, farandi allra sinna ferða með nagladekk undir sér og getur ekið yfir hálkubletti og svell eins og ekkert sé. Kona með almennilega tískuvitund á ekkert af þessu, það líða stundum ár á milli þess að það komi einhver svona snjór með tilheyrandi hálkuógeði. Til hvers að taka pláss frá Dior-blússunum og Gucci-drögtunum undir ullarsokka? Jæks!

Bara ferðin út á strætóstoppistöð ein og sér er stórhættuleg og allt of fáir ljósastaurar eða grindverk á leiðinni til að halda sér í. Samt er ástandið skárra í dag en í gær, þá var allt yfirborð eitt gler ... En svo fékk ég hugmynd ... er ekki starfandi leigubíll á Skaganum? Þegar ég var lítil var hér heil bílastöð, Fólksbílastöðin hét hún og nokkrir bílstjórar starfandi, ég gat líka keypt sígarettur handa mömmu þar, þær fengust í pökkum og í stykkjatali, mamma reykti Raleigh. Jú, við vorum MIKLU færri þá en engin bílastöð. Göngin skemmdu þetta, nú var engin Akraborg sem þýddi að taka leigubíl frá bryggjunni og heim fyrir Skagamenn. En ... með því að skrifa inn leigubíll á ja.is komu upp tveir möguleikar. Ég hringdi í annan þeirra sem sagði það meira en líklegt að hann yrði að keyra í hádeginu á miðvikudaginn. Jú, ég þurfti að kreista upp úr honum þetta "meira en" því ég þyrfti annars að afpanta daginn áður. Svona er maður nú lausnamiðaður í Himnaríki.

 

Des 2022Hetjurnar hjá Eldum rétt (bílstjórarnir) eru komnir í sama flokk og björgunarsveitirnar hjá mér. Stundum held ég að það séu undirgöng fyrir útvalda á Kjalarnesi (forsetann, útvalda ráðherra, vegamálastjóra og ER-bílstjóra) því mínir menn komast allt, alltaf. Nú er komið ár síðan ég fór að versla reglulega við fyrirtækið og við stráksi borðum fjölbreyttan og hollan mat sem auðvelt er að elda - þrisvar í viku.

Og árið í fyrra var líka lærdómsríkt á margan hátt í tengslum við það. Mér var gefið í skyn að ég væri fáviti þegar ég lenti á rangri manneskju til að panta símleiðis og ákvað að hætta viðskiptum. Drengurinn varð alveg eyðilagður, ekki að honum fyndist maturinn sem ég eldaði vondur, heldur státaði ER af meiri fjölbreytni, bæði framandi og fjölbreytilegt sem við bæði kunnum að meta. Ég kyngdi stoltinu og dónaskapnum og hringdi - vonaðist til að hitta á almennilega manneskju sem gæti mögulega kennt mér að panta í gegnum tölvuna. Ég væri samt mögulega allt of gömul í þetta nýtískudrasl allt saman ... 

„Já, ekkert mál,“ sagði sú elskulega. Og við hófum ferlið Kennum Gurrí að panta sér matarpakka

„Láttu sem þú sjáir ekki: Afhending er ekki í boði í þínu póstnúmeri,“ byrjaði hún. „Þótt það standi þarna, merkir það ekkert. Og alls ekki ýta á flipann MATSEÐLAR, ýttu á flipann þarna til hægri þar sem stendur ELDUM RÉTT. Sorrí, ekki sérlega áberandi. Þar getur þú pantað ...“ og eftir það sagði þetta sig eiginlega allt saman sjálft. Fengi sennilega ekki verðlaun fyrir einfaldleika ... en af því að ég kann á þetta núna finnst mér þetta virkilega einfalt og skil ekkert í þessum kjánum sem eiga í erfiðleikum með að panta ... 

   


Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 215
  • Sl. sólarhring: 258
  • Sl. viku: 1759
  • Frá upphafi: 1453918

Annað

  • Innlit í dag: 173
  • Innlit sl. viku: 1461
  • Gestir í dag: 162
  • IP-tölur í dag: 160

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2023
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • Sven-Göran
  • Hálka
  • Sumardagurinn fyrsti 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband