Svefnfriður með naumindum og óþreytandi hannyrðabófar

Aðdáandinn nýjastiSvefnfriður tryggður í nótt með því að slökkva á símanum, kannski eins gott því nýr aðdáandi frá því fyrr um kvöldið lét til skarar skríða. Hann er 21 ári yngri en ég sem er auðvitað ekkert verra, eins og við Madonna vitum. Í morgun fletti ég henni og kærasta hennar upp og munurinn er 41 ár. Í það mesta en það hélt mér samt frá því að byrja á föstu með þessum. Og þar sem hann fjarlægði ummæli ... ég var búin að sjá þau ... henta alls ekki siðprúðu bloggi og verða því ekki birt hér. Ég er þakklát fyrir að hafa ekki fengið senda ljósmynd af fjölskyldudjásnum hans því ég er mögulega eina konan á landinu sem hef aldrei fengið slíka mynd senda, vil halda því þannig upp á sérstöðuna að gera. Ætlaði eitt sinn að vera sú eina á landinu sem hafði aldrei til Þingvalla komið en Elfa og fleiri vinkonur skemmdu það með því að bjóða mér á þrítugsafmælinu í morgunverð á Valhöll sem þá stóð enn. Þá fann ég mér bara annan stað sem er Bláa lónið. Ég hef komið þangað í gæsapartí vinkonu en aldrei farið ofan í. Verðlagningin þar seinni árin heldur mér líka víðsfjarri.

 

Ef einhver ætlar að skamma mig fyrir að hleypa svona liði að mér, eins og þessum aðdáanda, var það sannarlega ekki ætlunin, við tvö erum ekki fb-vinir og verðum ekki, hann á ekki að geta séð hvort ég SÁ þetta þar sem ég svaraði honum ekki og mun ekki gera. Það heyrist samt auðvitað alltaf BLING þegar einhver reynir að hafa samband og nú hefur Facebook að auki hleypt auglýsingum inn í Messenger-spjallforritið (einkaspjallið) sem er fúlt. Það kemur eins og eitthvað sé ólesið frá mínu fólki en er svo bara auglýsing frá fasteignasölu eða eitthvað.

Þau sem þekkja mig best gætu ímyndað sér að ég hefði fallið fyrir honum því hann skrifar ljómandi góða íslensku. En ... hann er með bil á milli síðasta stafs og spurningamerkja, og svo segir maður kyssileg, ekki kyssuleg. Það hefði líka átt að vera komma á milli Ertu þarna og sæta. Ertu þarna, sæta?

Nei, stafsetning kemur þessu ekkert við. Sumir eru les- og skrifblindir og það myndi ég aldrei láta bitna á þeim. Það gæti verið viðreynsluaðferðin. Konur á mínum aldri falla ekki eingöngu fyrir útlitshrósi, þær vilja heldur ekki bara konfekt / blóm, heldur helst vera dáðar fyrir það andlega líka ... Við fáum aldrei að vita hvað hefði gerst ef maðurinn hefði sagt: Mikið var nýjasta bloggið þitt frábært, hvernig gastu reiknað út nýju Tycho Brahe-dagana og munað að gera ráð fyrir að sumir mánuðir hafa bara 30 daga, jafnvel bara 28? Og ömurleg reynsla fyrir þig að karlarnir í Ameríku læki nánast bara myndina af systur þinni á þinni eigin Instagram-síðu.

Ég hefði svarað honum að ég hefði þessa skemmtilegu greind úr föðurættinni, frá Flatey á Skjálfanda, væri að auki með Merkúr í Meyju sem Fúsi frændi, einnig úr Flatey, segir að bjargi mér, og að ég væri mjög ánægð fyrir hönd Hildu systur út af læk-unum, þeir misstu mig nú samt fyrir bragðið - en kannski héldu þeir að þetta væri ég. Athyglisgáfan væri ekki skárri en þetta. Hver vill þannig menn? Ef einhver verður ástfanginn af mynd af mér en ruglar okkur systrum samt saman, hvernig yrði það hjónaband í raunheimum, alltaf að kyssa Hildu og segja svo: I´m so sorry, ég sé ekki muninn!

 

HeklglæpafólkHeklglæpafólk (sjá samsettar fjórar myndir) heldur áfram við sníkjur á læki og fallegum orðum auðtrúa fólks í athugasemdum. Af hverju losna ég ekki við þetta af veggnum mínum? Alltaf sömu myndirnar með misjöfnum texta. Svo er þetta stundum eitthvað allt önnur handavinna en hekl sem sýnt er. Og af hverju skrolla ég ekki bara fram hjá og læt sem ég sjái þetta ekki? Ég veit það ekki. Ég skelli stundum inn mynd í athugasemd hjá þessum bófum með skjáskoti af samskonar vælutexta (Nobody læks mæ hekl) en við aðra mynd og set spurningamerki. Heklbófarnir halda áfram að fá þúsundir hrósa fyrir fagurt hekl og enn fleiri hjörtu og læk. Yfirleitt ýti ég bara á X í hægra horninu til að loka þessu en friðurinn stendur bara í mánuð. Svo flæða þessar blekkingar yfir á nýjan leik.

 

Stundum hef ég sterkt á tilfinningunni að lífið sé að færast inn í samfélagsmiðlana ... og af hverju fer ég ekki bara í hannyrðabúðina við Kirkjubraut og hrósa handavinnunni þar og sýni mitt hekl og fæ alvöruhrós? Jú, af því að það er hálka! Ég hef sterkt á tilfinningunni að verið sé að ýta mér til og frá, kaffihúsin sem loka allt of snemma sem draga mann út í óreglu á börum og pöbbum sem taka við manni þegar á að hitta vini og vandamenn eftir vinnu. Og ekki-sandbornar gangstéttar eða bílastæði ýta manni inn í innivist og að tölvunni eða símanum. Og þar halda sig hrósþyrstu heklglæpónarnir sem eru að gera mig vitlausa. Þvílík hringrás ... en það líf. En það kemur vor og frostið fer ... vonandi.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 221
  • Sl. sólarhring: 257
  • Sl. viku: 1765
  • Frá upphafi: 1453924

Annað

  • Innlit í dag: 179
  • Innlit sl. viku: 1467
  • Gestir í dag: 166
  • IP-tölur í dag: 165

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Sven-Göran
  • Hálka
  • Sumardagurinn fyrsti 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband