Færsluflokkur: Ferðalög
3.8.2007 | 21:12
Góðvild, svik, kvíði og sögur úr stigaganginum ...
Elsku strætó beið í nokkrar mínútur eftir mér í Mosó á meðan ég flaug þangað í loftinu á leigubíl. Hafði hringt í stjórnstöð Strætó og sagst kannski verða pínkuoggu sein en bjóst samt ekki við því. Leigubíllinn lenti víst á rauðu á öllum umferðarljósunum á leiðinni úr Breiðholti til mín. Bílstýran mín ók á löglegum hraða en kom mér samt á mettíma á staðinn. Óvenjulítil umferð undir fimm á föstudegi um verslunarmannahelgi.
Það hefur verið einhver ónotatilfinning í mér í allan dag. Held hreinlega að ég hafi fundið á mér að peran í loftljósinu inni á baði myndi springa áðan. Þetta gæti líka hafa verið fyrir því að mistök hjá Stöð 2 urðu þegar átti að endursýna 400. Simpsons-þáttinn og nú með ensku tali. Það var svikið. Þetta sjónvarpsefni hreinlega deyr á íslensku, finnst mér. Ekki heldur gaman að staðfæra þessa þætti, frekar en þegar þýðendur bóka troða einhverju úr íslensku samfélagi inn í erlendar skáldsögur. Oftar en ekki úreldist það á örfáum árum. Svona eins og að endurlesa þýdda spennubók eftir John Grisham þar sem söguhetjan væri að horfa á 70 mínútur með Simma og Jóa. Mögulega fann ég líka á mér að Stöð 2 endursýndi í milljónasta skipti Friends á præmtæm á föstudegi. Já, það er greinilega svona að vera næmur.
Sögur úr stigaganginum: Stefanía gerði sér grein fyrir því að líklega væri hún stærsti eigandi Forrester-tískuhússins og það hlakkar í kerlu. Nú hefur hún mögulega vald til að reka óvin sinn, Brooke framkvæmdastjóra FT, sem er nýgift Eric, fyrrum manni hennar, til að reyna að gleyma Nick, tengdasyni sínum, sem hefur gert Bridget, dóttur hennar, ófríska.
2.8.2007 | 10:46
Beiskjufullt launablogg
Heilsuhraust og grunlaus um kvenleg áföll sem biðu hélt ég af stað út á stoppistöð og beið þar í brunagaddi sem yfirleitt er svona snemma á morgnana. Blái trefillinn var æði og kom sér vel. Sigþóra hélt á mér hita alla leiðina og hélt líka á mér upp súkkulaðibrekkuna ... segi svona.
Það var einstaklega gaman að mæta í vinnuna og sjá fullt af nýútkomnum tímaritum bíða mín. M.a. Tekjublað Mannlífs þar sem laun 2.500 Íslendinga eru tíunduð. Ég fylltist viðbjóðslegri forvitni, sem ég hélt að ég ætti ekki til, og kíkti á laun samstarfskarlmanna minna sem mátti finna þarna. Viti menn, ég, stjörnublaðamaðurinn með titil, er ekki hálfdrættingur á við stjörnublaðamanninn án titils, Eirík Jónsson, og fleiri fjölmiðlakarla. Hmmm, ég er fyrirvinna ef það skiptir máli og þar að auki þrælmontin af mér, eins og sannra Þingeyinga er siður. Held að stutt sé í að konur þessa lands biðji um launaviðtöl og láti heyra hressilega í sér. Mjög athyglisvert að sjá laun þeirra sem eru í umönnunarbransanum, algjörlega til skammar!!!
Mér hefur hingað til verið skítsama um hvort hægt sé að skoða skattskrár eða ekki ... en nú finnst mér þetta nauðsynlegt á meðan þetta misrétti viðgengst í launamálum. Það er ekki hægt að kenna konum endalaust um þetta. Ég fór sjálf á "gamalsaldri" og sótti mér meiri menntun og læt ekkert bjóða mér hvað sem er. Það er greinilega ekki nóg. Nú læt ég mér vaxa typpi og skegg. Ég á eftir að sakna ykkar, strákar!
Tekjur nokkurra ofurbloggara eru líka taldar upp, m.a. Sóleyjar Tómasdóttur, Önnu Kristjánsdóttur vélstýru, Dr. Gunna, Jennýjar Önnu, Jóns Vals (nú skilur maður beiskjuna) og fleiri ...
Í nýútkomnu, flottu Vikunni (mont, mont) eru viðtöl við nokkrar nektardansmeyjar, bæði sem eru í fullu starfi við þetta (150 þús á mánuði) og tvær sem eru hættar. Mikill munur er á sögum þeirra. Sjálf tók ég viðtal við konu sem missti foreldra sína, litla frænku, bestu vinkonu og fleiri í snjóflóðunum í Súðavík. Það var stórmerkilegt að heyra hversu handviss mamma hennar var um að hún væri að fara að deyja. Nokkrum vikum fyrir snjóflóðið fór hún að undirbúa dóttur sína með ýmislegt, m.a. að hún yrði að muna eftir spariskírteinunum sem hjónin áttu, að sonurinn ætti að fá ákveðið málverk og margt fleira! Það munaði mjög litlu að synir konunnar sem ég tók viðtal við gistu hjá ömmu og afa örlaganóttina. Þeir voru lagðir af stað þegar veðrið versnaði skyndilega og mamman kallaði í þá að koma heim. Þetta er svona gæsahúðarfrásögn ... og fullt af myndum með.
1.8.2007 | 15:30
Verslunarmannahelgarsögur og bíórytmi
Verslunarmannahelgin á næsta leiti og þótt best sé að vera heima ætla ég að kíkja í sumarbúðirnar til Hildu. Slepp vonandi við mestu umferðina ef ég fer austur á laugardegi og fer til baka á sunnudegi.
Ég heyrði nokkrar góðar verslunarmannahelgarsögur einu sinni ... m.a. um stelpuna sem sást reika um Eyrarbakka eldsnemma á mánudagsmorgninum. Konan sem var fyrst á fætur á Eyrarbakka mætti henni og stúlkan spurði hana hræðslulega: Hvar er ég?
Konan: Þú ert á Eyrarbakka!
Stúlkan: Á Eyrarbakka? En ég bað strákana að skutla mér í Eyjabakkann í Breiðholtinu.
Eða blindfullu stelpurnar sem seinnipart föstudags stigu út úr rútunni á Siglufirði, litu í kringum sig á allt síldarævintýrið og spurðu: Hvar er Herjólfur?
Besta verslunarmannahelgarsaga sem ég hef heyrt er reyndar í nýjustu Vikunni sem lífsreynslusaga. Hún er bráðfyndin og auðvitað dagsönn. Blaðið kemur út á morgun. :)
Sit heima og vinn í dag, engin strætóævintýri fyrr en í fyrramálið. Ásta ætlaði að kíkja á mig í gær og ég ákvað að leggja mig, var eitthvað svo kalt og sá rúmið mitt í hillingum, mjög, mjög sjaldgæft að degi til. Það slökknaði á mér í nokkra klukkutíma. Svo hringdi klukkan í morgun kl. rúmlega sex en það var ekki séns að hreyfa sig. Skrýtið að grípa allar pestir þessa dagana, er ekki sátt við það. Samkvæmt bíórythmanum mínum getur þetta passað ... líkamlega heilsufarslínan er næstum í botni, fékk nefnilega ímeil frá uppáhalds-netstalkernum mínum, spákonunni henni Rochelle, sem lofar mér stöðugt gulli og grænum skógum, eða bjartri framtíð ef ég bara kaupi einn töfrastein af henni eða eitthvað slíkt. Prófaði að setja afmælisdaginn minn inn og þá verð ég víst í fullu fjöri. Þegar kemur fyrir að allar línurnar eru í botni þykir það slæmt og ég sá einu sinni í Mogganum að leigubílastöð í Japan gefur bílstjórunum sínum frí þessa botndaga þeirra. Margt skrýtið í kýrhausnum.
Hér er hlekkur á bíórythmasíðu: http://www.bio-chart.com/ Skellið bara inn fæðingardegi og ári til að sjá hvort dagurinn ykkar er góður eða slæmur ... eða þannig.30.7.2007 | 16:08
Alvörusumar og styggur RL-maður
Loksins komið sumar, malaði bílstjórinn á heimleiðinni, en honum þykir þessi rigningarsuddi mun heimilislegri en sólin og blíðan sem ríkt hefur mestan part sumars. Ég gat ekki annað en tekið undir hluta af gleði hans þar sem vestanáttinni hefur fylgt öldugangur og einstaklega gaman er að horfa og hlusta á sjóinn núna. Kannski er ég klikkuð en ég hlakka mikið til vetrarlægðanna þótt ég njóti sumarsins vissulega ... upp að vissu marki.
Myndarlegi maðurinn úr Rúmfatalagernum mætti á svæðið um tvöleytið, rataði alveg sjálfur í himnaríki og kíkti á leisígörl. Hann fussaði og sveiaði og sagði að R-lagerinn gæti ekki verið þekktur fyrir að selja svona skakka og skælda stóla, hann væri greinilega gallaður og ég fengi sko nýjan, helst á morgun. Hann tók stólinn undir arminn og ... forðaði sér. Þetta var svona hviss, bang, búið heimsókn og ég steingleymdi að bjóða honum kaffi, hvað þá kyrrsetja hann. Held að Flytjanda-menn séu því miður alltaf tveir saman.
29.7.2007 | 16:02
Álfar, tröll og blaðamannafundur
Kom mér þægilega fyrir í leisígörl til að ráðast í Potter en kíkti aðeins á dagskrá RÚV sem ég hefði ekki átt að gera ... kostaði meiri tafir. Þar kom fram að blaðamannafundur vegna skotárásarinnar yrði haldinn kl. 15.30 og sýndur beint í Sjónvarpinu.
Á undan var ferðamannaþáttur um Ísland þar sem kom fram að 90% landsmanna trúir á álfa, tröll og drauga. Kommon, hvenær linnir þessu ... við erum eins og fávitar í augum alheimsins. Ég þekki MJÖG margt fólk og kannski hugsanlega, mögulega, jafnvel, varla þó, trúir einn, kannski fimm, á eitthvað svona! Hallærisleg landkynning að mínu mati. Að öðru leyti var þetta ágætur þáttur.
Æ, hvað svona blaðamannafundir geta verið vandræðalegir. Margar kjánalegar spurningar bornar upp, kannski lítill tími til undirbúnings, veit það ekki. Mikið reynt að mjólka þrátt fyrir að allar upplýsingar sem hægt var að veita hefðu komið fram. Gott hjá löggunni að halda blaðamannafund þótt hún hafi kannski verið óþarflega kuldaleg gagnvart fréttamönnum. Það tilheyrir líklega.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
28.7.2007 | 00:12
Bíóferð og möguleg rétt hilla í lífinu ...
Mikið er nú gaman að bregða sér af bæ stöku sinnum og skreppa í kvikmyndahús. Draumur okkar Hildu var að sjá Harry Potter í lúxussalnum en sýningin þar hófst ekki fyrr en klukkan átta í kvöld, allt of seint til að ná 22.37 strætó heim. Sjösýningin varð fyrir valinu. Galdrarnir í kvikmyndahúsinu urðu til þess að ég keypti smá nammi og lítinn popp en bjargaði því alveg, held ég, með því að drekka megrandi Kók læt með ... Fínasta mynd.
Fattaði á heimleiðinni að ég er á rangri hillu í lífinu, ætti að vera hlaðfreyja (aðstoðarkona bílstjórans). Hann var kallaður upp: Stjórnstöð kallar á 27! Hann svaraði og ... varð batteríslaus, talstöðin er eins og gemsi, það þarf að hlaða hana. Hann reyndi að kveikja aftur og spurði örvæntingarfullt hvert símanúme ... slökkkkk! Hlaðfreyjan Guðríður horfði hneyksluð á hnakkann á honum og spurði: Vita ekki allir að síminn hjá stjórnstöð Strætó bs er 540 2700? Bílstjórinn hringdi þakklátur en flissandi í stjórnstöð. Einhver maður hringdi víst óttasleginn í Strætó þegar hann sá að gul rúta keyrði framhjá Kjalarnesinu án þess svo mikið sem hægja ferðina ... þá vorum við bara stopp að sleppa einhverjum útlendingi út við Saltvík. Ég þerraði tár Kjalarness-mannsins þegar hann gekk feginn upp í vagninn og þegar hann var alveg hættur að grenja af gleði yfir að hafa ekki misst af síðasta strætó á Skagann reyndist hann þrælskemmtilegur. Umræðuefni frá Göngum: Bíómyndin Fast and the Furious (átti þó ekkert skylt við aksturslag strætóbílstjórans) og leikur Nicholas Cage þar, ég mundi ekki eftir honum úr þeirri mynd en þá voru gæarnir bara að rugla henni saman við Gone in 60 seconds! Karlmenn og bílar ... karlmenn og bíómyndir! Við töluðum líka aðeins um svívirðilegan skepnuskap 365 gagnvart aðdáendum Enska boltans og væmnina í Opruh Winfrey. Svo vorum við bara allt í einu komin á Skagann.
Held að nú styttist í langar lesfarir í himnaríki, þykk og girnileg Harry Potter-bókin bíður spennt á náttborðinu og langar í margar flettingar fram eftir nóttu og eftir ryksugun á morgun. Ég verð að fara að klára þessa elsku til að geta blaðrað endinum í Jennýju.
27.7.2007 | 11:29
Fyrirboðar og fótboltafár - sofið hjá Sigþóru
Sigþóra, viltu koma og sofa hjá mér? spurði ég Sigþóru í morgun og notaði mest tælandi svefnherbergisrödd sem ég hef yfir að ráða. Þetta var ekki æsilegt símtal, eins og halda mætti, heldur saklaust boð eins strætófarþega til annars um að setjast við hlið hans. Sigþóra getur sofið standandi svo að ég vissi að hún gæti alveg eins sofið við hliðina mér í strætó eins og annars staðar. Við löbbum hvort eð er alltaf saman upp súkkulaðibrekkuna ...frá Vesturlandsveginum og upp brekkuna fram hjá Nóa Síríus. Ég hef aldrei freistast til að brjótast inn hjá NS en svakalega hefur það oft munað litlu (elskið þið ekki fylltu molana?) ... Sigþóra þáði boðið með þökkum og var verulega hlýr og góður sessunautur í morgunkuldanum. Ásta verður í fríi til mánaðamóta og ég mun hiklaust halda fram hjá henni með Sigþóru!
Fannst frekar óhugnanlegt að ég spáði fyrir um úrslit ÍA-HK í gærkvöldi svo nákvæmlega að ekki skeikaði marki. Mig minnir að ég hafi sagt að leikurinn færi 5:1 eða 4:1, okkur í vil. Nú, við skoruðum fimm mörk, eitt var dæmt af og fjandvinurinn skoraði eitt. Getur ekki orðið nákvæmara.
Skrýtið hvað ég lendi oft í þessu. Segi kannski þegar ég horfi til himins: Nú fer örugglega að rigna bráðum ... og það fer að rigna. Lít oft á klukkuna og hugsa að strætó hljóti nú að fara að koma og ... hann kemur fljótlega! Sagði eftir skilnaðinn minn: Það verður sko bið á því að ég gifti mig aftur! Og síðan eru liðin 25 ár! Nú hlýtur fólkið sem hló að mér á Skrúðgarðinum um fimmleytið í gær að skammast sín. Bara vegna þess að HK rústaði okkur í fyrsta leiknum í vor þá þóttu þessi úrslit sem ég spáði/vissi um BARA FYNDIN! Ég mun eflaust drekka frítt kaffi í Skrúðgarðinum á næstunni í boði kjánaprikanna. Minnti bílstjórann á þetta í morgun og hann sagði: Já, alveg rétt! Hann var nefnilega staddur í Skrúðgarðinum íklæddur ÍA-bol. Skagamenn hafa unnið alla þá leiki sem hann hefur farið á í þessum bol, þannig að hann fer alltaf núorðið! Eins gott að hann var í fríi í gærkvöldi og komst á leikinn. Ég sat aftur á móti í vesturhluta himnaríkis og lét ekki sjá mig nær leiknum en á mbl.is því að andstæðingarnir skora alltaf þegar ég fer út á svalir að horfa. Hugsa að ég hafi verið eitthvað of nálægt þegar HK skoraði eina markið ...
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
26.7.2007 | 08:58
Ofurhetujuraunir í morgunsárið og ... Will og Grace!
Vaknaði nokkurn veginn alheil og mun minna kvefuð eftir 12 tíma sæmilega ótruflaðan svefn. Er samt YFIR-útsofin því að mér fannst bílstjórinn eitthvað svo skrýtinn í morgun. Kórónan sem hann er vanur að bera reyndist vera hárið á honum og farþegarnir voru fremur hversdagslegir. Held að það sé ekki sniðugt að fara svona vel vakandi í strætó aftur. Þá þarf ég pottþétt að finna nýtt nafn á sætukarlastoppistöðina. Las Leyndarmálið á leiðinni í bæinn fyrst ég var svona upptjúnuð. Miðað við það ógeð sem ég hef á sjálfsræktarbókum gengur mér ágætlega að lesa þessa! Öfundaði sessunaut minn þó af spennubók í kilju en ég áttaði mig á því að ég á þá bók sjálf ... innbundna og ólesna ... arggggggggg! Sumarfríin mín eru ekki nógu löng, hvað þá jólafríin! Held líka að ég sé duglegri að lesa kiljur!
Dáist innilega að sjálfri mér og eiginlega bara finnst ekki ólíklegt að bloggvinir mínir geri það líka! Ekki kannski svona almennt, heldur fyrir að hafa farið í 36 gráða kalt bað í morgun! Hvers konar ofurhetju er ég að breytast í? Vona bara að gæsahúðin fari þegar líður á daginn. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem morgundraumabað breytist í ískrapsmartröð.
Tókst ekki að lesa nema 30-40 blaðsíður í Potter í gær og gat ekki unnið neitt, var bara lasin og lömuð. Sá aftur á móti hluta af Will og Grace-þætti í fyrsta sinn í marga mánuði og var ekki hrifin. Held að húmor minn hafi ekki breyst, heldur hljóti að vera kominn nýr handritshöfundur sem er ansi mikið groddalegri en sá fyrri. Þetta voru einu sinni drepfyndnir þættir ... nú er t.d. Karen snillingur orðin hálfaumkunarverð og ... hundleiðinleg. Hún var eitthvað að tala um Stanley, manninn sinn, sem hún var að reka að heiman, sýndist mér. Hann er SVO feitur að hluti hans verður kominn út á eftir og restin á morgun. Stökk ekki bros, þetta hefði kannski verið fyndnara ef brottför Stanleys alls hefði verið sama daginn, jafnvel sama klukkutímann. Mér sýndist meira að segja að leikurunum sjálfum leiddist!
-------- -------- o - O - o ---------- ----------
Þessi annar skemmtilegast bloggari landsins er kominn með tilgang í lífinu ... sem tengist Moggablogginu: http://hnakkus.blogspot.com/ (muna að ýta á alla hlekkina í tilgangsfærslunni)
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
25.7.2007 | 09:18
Skakki stóllinn og óvænt heimsókn
Uppáhaldstónlistin mín á morgnana frá 6.30 er di-di ... di-di, eða sms-hljóð. Þá veit ég að Ásta er á bíl og við ferðumst með ljóshraða í bæinn á drossíu og hlustum á Led Zeppelin á leiðinni. Þetta guðdómlega hljóð heyrðist úr töskunni minni þegar ég sat í tröppunum á stigaganginum og var að klæða mig í strigaskóna.
Ellý segir að nýi leisígörl-stóllinn minn sé allur grindarskakkur og það þýði ekkert að reyna að lengja hægri lappirnar undir honum til að laga ruggið. Þá er að fara í bæinn með hann og fá nýjan, kannski bara í strætó? Arg! Eins og við Inga höfðum mikið fyrir þessu, aðallega Inga.
Óvænta gesti bar að garði í gærkvöldi (það er sko bannað að mæta óvænt í heimsókn til mín) en ég fyrirgaf þessum vinahjónum mínum óvæntið og dreif þau í kaffi. Hún er fullkomin af því að hún á sama afmælisdag og ég og hann er alls ekki svo slæmur. Hann settist í leisígörl-stólinn minn skakka og skellti á Sýn, enda bilaður leikur í gangi; Valur-Fylkir. Virkilega skemmtilegur leikur sem ég hefði misst af hefði ég verið ein heima. Óskar er Valsari og var því ekki mjög sáttur við úrslitin en Fylkisfólk náttúrlega bilaðist og rústaði eflaust Árbænum í nótt.
Heyrði góða sögu af Óskari sem er mikill Manchester United-aðdáandi. Hann var að þvælast úti á landi og leikur MU gegn Bayern Munchen var í gangi. Óskar fylgdist með í sjoppu. Í hálfleik var staðan MU í óhag, 0:3. Nú voru góð ráð dýr. Óskar hringdi í konuna sína og bað hana um að kveikja á sjónvarpinu, stilla á leikinn og taka MU-bolinn sem hann er alltaf í þegar hann horfir á MU-leiki og leggja hann á stólinn. Frúin dreif í þessu og dæturnar störðu hneykslaðar á hana: "Mamma, þetta er klikkun, segðu bara pabba að þú hafir gert þetta en plís ..." Mamman gerði að sjálfsögðu það sem pabbinn bað um, enda virkaði það algjörlega og leikurinn snerist við, fór 4.3 fyrir MU. Þessu trúi ég alveg, veit ekki hvað ÍA hefur unnið marga leiki bara af því að ég hef hrökklast öfug af svölunum þegar vondu fótboltamennirnir, andstæðingarnir, hafa skorað mark og þá er stutt í að mínir menn jafni og skori svo enn meira.
Væri til í fallegar batahugsanir í dag frá bloggvinum, er eitthvað flensuleg og hefði jafnvel átt að vera heima í dag í stað þess að dandalast þetta í vinnuna. Stefni þó að því að hrista þetta af mér.
23.7.2007 | 18:44
Dularfulla After Eight-ið og sögulegur samningur við strætóbílstjóra
Hef ekki komið í Ártún í lengri tíma. Það var ósköp gaman að rifja upp gamlar minningar með því að hoppa út úr leið 18 þar, hlaupa niður milljóntröppurnar, fara undir brúna og þjóta upp lúmsku brekkuna. Fór létt með þetta allt saman, enda lítill snjór núna, bara rigning. Skrýtið að standa síðan í tíu mínútur á algjörlega mannlausri stoppistöð sem er yfirleitt full af fólki.
Bílstjórinn sem ók fjögur-strætó frá Mosó var hress að vanda. Sagði mér að ég hefði misst af Slade-lagi, C´mon feel the Noise, og fleiri góðum í útvarpinu, jú, við höfum sama tónlistarsmekkinn. Hann bað mig um að gera sér greiða. Hann nennir ekki að lesa Harry Potter sjálfur og spurði hvort ég væri ekki til í að segja honum hvað hefði gerst á þessum fyrstu 200 blaðsíðum sem ég er búin með. Frá Kollafirði og að Kjalarnesi sagði ég honum það helsta í stuttu máli. Hann er sem sagt kominn á samning, fær að vita allt jafnóðum alveg til enda. Sat beint fyrir aftan hann og gat talað frekar lágt. Ásta er gjörsamlega áhugalaus um Potter og afplánaði þetta með mæðusvip en ég veit ekki um strákinn sem sat við hlið okkar hinum megin við ganginn. Hann hélt alla vega ekki fyrir eyrun. Bílstjórinn keyrði eins og engill alla leiðina, með hunangsblíða rödd mína í eyrunum mestallan tímann!
Við Ásta verðlaunuðum okkur fyrir ... uuuu, góða frammistöðu í vinnunni ... og fengum okkur kaffi og köku í Skrúðgarðinum, sátum úti og nutum sólarinnar, það er nefnilega sól á Skaganum. Stelpurnar á kaffihúsinu vita orðið nákvæmlega hvernig ég vil hafa latte-inn minn; ekki sjóðheitan og enga froðu, takk! Kaffið var líka fullkomið! Keypti græna kortið en þegar ég ætlaði að kippa því með voru svona milljón útlendingar sem biðu eftir afgreiðslu svo að ég sæki það bara á morgun.
Mía systir og Sigþór vildu endilega verðlauna mig fyrir að passa Bjart svona vel. Þau færðu mér After Eight ... og ég sem er hætt að borða sælgæti fram að afmæli ... AE-pakkinn lá heillengi (alla vega í tíu mín.) við hliðina á Harry Potter-bókinni eftir að Bjartur var farinn og ég vissi ekki fyrr til en allt í einu var búið að opna hann og troða nokkrum aftereitum upp í mig. Ég þorði ekki að berjast á móti. Sólin bræddi súkkulaðirestina í dag og ég mátti horfa á pakkann fljúga inn í ísskáp þegar ég kom heim úr vinnunni. Mikið verður gott að klára þessa galdrabók, þá verður lífið eðlilegt á nýjan leik og skemmtilegt meinlætalífið hefst í himnaríki.
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 20
- Sl. sólarhring: 62
- Sl. viku: 649
- Frá upphafi: 1524964
Annað
- Innlit í dag: 15
- Innlit sl. viku: 551
- Gestir í dag: 13
- IP-tölur í dag: 13
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni