Færsluflokkur: Ferðalög

Fögur og fljótsnyrt

Vaknað 6.23 og andvarpað, aðeins 18 mínútur í brottför strætó frá Skrúðgarðinum. Hrein, falleg en nokkuð gömul fötin tilbúin á stól við rúmið (sett þannig að kettirnir geti ekki lagst á þau), sokkar enn í þurrkaranum, þeir sóttir. Horft á kaffikönnuna, einhver tími? ... nei.  Strætó náð og það án þess að hlaupa eða stressa sig á nokkurn hátt, aðeins þetta kvenlega andvarp við vöknun. Mikið er gott að vera svona fljótsnyrt á morgnana!

Frelsaður maðurUndanfarið hef ég verið að pæla í því að það væri kannski mögulega svolítið sniðugt að ganga út, jafnvel bara skrambi hentugt, sérstaklega ef maðurinn er handlaginn því að þótt smiðurinn minn hugsi mikið til mín lagast svalaumbúnaðurinn ekki neitt og ég kann EKKERT  á svona smíðadrasl. Það styttist líka í veturinn og það er nú ögn hlýlegra að hafa karl í fanginu en kött. Það styttist líka fáránlega í að ég verði 49 ára, eða 12. ágúst nk., og það vill enginn 49 ára gamla konu, eins og allir vita. Ég hef því lagst í ýmsar handbækur undanfarið um árangursríkar karlaveiðar, meira að segja las ég Handbók piparsveinsins, sem ég fann uppi í hillu, en hún reyndist bara vera fyrir stráka, eins og nafnið gefur til kynna. Handbók einstæðra mæðra: Íslenskir milljarðamæringar, var lítið skárri. Þá datt ég ofan í gamla Viku þar sem mátti finna veiðiaðferðir á frelsaða karlmenn. Ég hló subbulega í upphafi en svo fór ég að hugsa alvarlega um þetta ...  Ég bý líka í næsta húsi við KFUM-húsið á Skaganum og hæg heimatökin. Ætla að prófa að negla einhvern með einhverri af þessum setningum:  1) „Flott biblía!“  2) „Meiddir þú þig þegar þú féllst af himnum ofan?“ 3) „Ertu syndugur maður vegna þess að þú STALST hjarta mínu?“ 4) „Ég er að fara að mála mynd af Jesú, viltu sitja fyrir?“

Æ, annars, ég held að ég nenni þessu ekki. Það mátti vissulega velta þessu upp í morgunsárið! Takk fyrir að hlusta. Argggg!

Megi dagurinn ykkar, bloggvinir góðir, verða FRÁBÆR!


Sósuskortur, spennusögur og nýr, undarlegur útlitsgalli

Zinger salatLoksins komst ég í strætó í dag. Hafði rúman hálftíma til umráða eftir lendingu í Mosó og hvað gera konur þá? Nú auðvitað fara þær í KFC og kaupa Zinger-salat ... mér finnst það svo gott. Gat þó ekki torgað nema helmingnum þar sem bara einhver hryllingssósa var til út á salatið, Honey Mustard-uppáhaldssósan búin. Svona gerir maður ekki þreyttri og svangri Skagakonu.

Vonaði að Tommi væri á vaktinni en ég er alveg komin út úr vaktaplönum strætóbílstjóranna eftir allt þetta rand á einkabílum undanfarið. Tommi keyrir líklega um helgina. Kom of seint heim til að geta horft á boldið á Stöð 2 plús ... en það gerist hvort eð er allt svo löturhægt þar, líklega nægir að horfa á fimmtudaginn næsta til að ná auðveldlega þræði margra daga. Ekki séns að ég nenni að horfa á þættina endurtekna eftir hádegi á morgun. Þá er nefnilega tímataka í Formúlunni! Hver lendir á ráspól? Spenna, spenna!

Fyrir einhverjum vikum kom út kiljan Þrír dagar í október. Hún er eftir Fritz nokkurn Jörgensson. Sagan fór svolítið hægt af stað þannig að ég sat ekki stöðugt við hana ... fyrr en líða fór á, þá negldi ég hana á tveimur kvöldum og ætlaði ekki að tíma að gera hlé til að fara að sofa. Steingerður mælti líka með henni sem hvatti mig til dáða. Þetta er splunkunýr spennusagnahöfundur sem lofar góðu.
Nú er ég að lesa svona Da Vinci bók um starfsmann Rannsóknarréttarins sem er í leynilegum erindagjörðum til að hafa upp á Predikaranum. Sjálfur Leonardo Da Vinci er persóna í bókinni. Með rigningunni kom eirðin og stefnan er að gera skurk í lestri um helgina.  

Handleggirnir á mérHvað mynduð þið segja ef ég opinberaði það hér og nú að ég þjáðist af stórfelldum útlitsgalla? Hægri höndin á mér (og handleggurinn) er nokkuð brún, á meðan sú vinstri er bara ljósbrún, eiginlega ljósdrapplituð.

Til að enginn taki eftir þessu væri t.d. snjallt að hafa aðra höndina á sífelldri hreyfingu en það gæti þó hrætt fólk. Hvernig getur svona gerst? Sólin skín vissulega meira á þá hægri þegar ég sit við tölvuna heima í sólskini en ég hélt ekki að væri hægt að verða brúnn í gegnum glerrúðu og ekki hef ég haft hægri handlegginn út um bílgluggann hjá Ástu eða Birki ... Allir sem ég þekki eru jafnbrúnir, hvað er eiginlega í gangi? Næstu sólböð verða framin í langerma bol öðrum megin og stutterma hinum megin. Hver veit nema það verði nýtt trend.


Morgunspælingar Ástu og sjálft Leyndarmálið ...

Hef ekki stigið upp í strætó síðan á mánudaginn, algjör tilviljun, bara fengið far með Birki og Ástu til skiptis. Býst þó við að taka strætó heim eftir vinnu.

Oj, þvílík skelfingar söngkonaÁsta henti í mig geisladiskamöppu í morgun og bað mig um að velja tónlist í bílinn. Á meðan ég valdi setti ég Rick Wakeman á, það vildi nú svo skemmtilega til að ég var með nýju plötuna frá Magnúsi í töskunni og er að hlusta á hana núna, en Ástu fannst þetta með eindæmum leiðinleg tónlist. Ekki hló ég hæðnislega að henni þegar ég sá Sixtís-plötu í möppunni, hvað þá einhvern hryllingsviðbjóð með músíkmorðingjanum Mariuh Carey eða George Michael-martröð (GM er flottur en ekki tónlistin hans). Nei, ég þagði kurteislega en hugsaði mitt. Ekki geta allir haft sama góða tónlistarsmekkinn en ég ræðst ekki á aðra. 

Flatey á SkjálfandaHeld að ég sé betur uppalin en allir sem ég þekki, kurteisari, geðþekkari, fallegri að innan sem utan ... hmmmm, já, ég er byrjuð að lesa The Secret í íslenskri þýðingu og þetta er málið. Kannski ekki að montrassgatast svona á fullu, það er nú meira í gríni, þótt ég sé reyndar Þingeyingur aftur í ættir (Flatey á Skjálfanda).

Mikið held ég að margir muni hafa gott af því að lesa þessa bók og tileinka sér eitthvað af boðskap hennar.  Það er aldrei of mikið af jákvæðni í lífinu.


Þessi rigning, þessi Jimi, þessi Bjartur ...

Rosalega er ég eitthvað orðin þreytt á þessarri rigningu, en þið? Hmmmm ... Nú mætti rigna duglega í svona tvo daga til að bleyta jörðina, vona bara að þetta verði ekki lárétt regn að sunnan til að ég lendi ekki í Nótt hinna 30 handklæða einu sinni enn. Síðan má þetta sumar bara halda uppteknum hætti. Endurtaka væna rigningu í ágúst og síðan væri fínt að fá hitabylgju í kjölfarið. Þá hverfa allir geitungar áður en þeir taka sín árlegu geðillskuköst.

TónlistarbíllRigningFékk far í bæinn með Ástu í morgun. Við hlustuðum á dúndrandi tónlist Jimi Hendrix á leiðinni. Hvernig ætli hinum rúmlega tvítuga, virðulega sjúkrahússtarfsmanni Birki hafi liðið í aftursætinu þegar kerlingarnar fyrir framan hann stundu af hrifningu yfir gítarsólóunum og hristu hausana í takt? 

Held reyndar að Birkir sé kúl og löngu kominn yfir að skammast fyrir hegðun annarra. Þegar hann lagðist á bílgólfið held ég að ástæðan hafi verið, eins og hann sagði, að það færi betur um hann þar en í sætinu.

Bjartur heldur ósvífninni áfram og má segja að hann haldi rólegu, gömlu og værukæru kisunum mínum í heljargreipum. Gerir sér að leik að nálgast þær ógnandi til að fá spennandi viðbrögð. Kubbur hvæsir grimmdarlega en kjarkurinn hennar og gribbuskapur hefur rénað með aldrinum. Tommi vælir bara aumkunarlega og kvartar yfir þessum stælum Bjarts í sumarbúðum, hann væri til í að leika sér, nennir ekki svona : "Ég Tarsan, þú aumingi!"-leikjum. Sigþór, "pabbi" Bjarts hefur komið tvisvar í heimsókn til að sannfæra strákinn sinn um að þessum húsaviðgerðum sé nú alveg að ljúka og hann geti komið heim um helgina. Ég á eftir að sakna Bjarts, enda dásemdarköttur, en mikið held ég að Tommi og Kubbur verði fegin eftir nokkra daga. Sérstaklega Kubbur, hún er góð við mannfólkið en lítið um ókunnuga ketti, öfugt við Tomma sem er spenntur fyrir öllu sem hreyfist, líka ryksugunni.


Ástarsaga að morgni og upprisa hunds a la EHÁ

Ásta og Birkir í framtíðinniFékk far í bæinn með Birki og Ástu ... jú, einmitt, sögupersónunum úr unglingabókinni þarna ... Það var svo gaman hjá okkur á leiðinni að Birkir bíleigandi móðgaðist ekkert alvarlega þótt Yaris-dolla þyti fram úr drossíunni hans. Bylgjan var á og  í einkabíl er hún ekki jafnbráðaofnæmisvekjandi og í strætó. Við meira að segja skellihlógum að fyndni útvarpsfólksins. "Hvað er hraðfiskibátur?" "Hmmm, er það ekki bátur sem veiðir tilbúna fiskrétti?"

Æ, ég er svo veik fyrir aulabröndurum ...

Birkir ók mér upp að dyrum í vinnunni, þessi elska. Vel þegið svona einu sinni að þurfa ekki að klöngrast, ég meina svífa léttilega, upp brekkuna. Svo bara datt ég ofan í VINNU strax upp úr hálfátta í stað þess að byrja á því að blogga ... vildi koma tveimur greinum sem ég vann í gær í prófarkalestur sem allra fyrst. Bjóst hálfpartinn við því að sjá starfsmenn DV húka við dyrnar, svona miðað við fréttir morgunsins en við erum að sameinast þeim. Ef þannig færi að nafn okkar breyttist í DV get ég loksins farið að nota gömlu pappírspressuna mína sem á stendur: Guðríður - DV. Indæll maður hjá Álfasteini vildi endilega gefa mér slíkan stein/pressu fyrir 20 árum þegar ég vann hjá DV. Fer ekki lífið í hringi?

Elías Halldór Ágústsson samdi nýja trúarjátningu og birti á Moggabloggi sínu í gær. Ég stal henni miskunnarlaust ... maðurinn er snillingur:

„Ég trúi á Lúkas, hans einkahund, Drottinn vorn, sem mærður var af Barnalandsmömmum, píndur á dögum Moggabloggsins, sparkaður, dáinn og urðaður, steig niður til heljar, reis á þriðju viku upp frá dauðum, situr ofan Akureyrar og mun þaðan koma að dæma plebba og fávita.“


Hetjusaga af Heimi, veiðifréttir af Tomma og kolbrúnir sóldýrkendur

Sólríkur dagur enn og afturKarlarnir mínir á stoppistöðinni töluðu glaðlega um og af tilhlökkun að það myndi loksins fara að rigna á fimmtudaginn en því miður héldu þeir að það entist ekki mjög lengi. Hvað er eiginlega í gangi? Mikið hefur allt breyst nú í sumar vegna þessarar einstöku veðurblíðu. Hérna í gamla daga, ja, bara í fyrra og öll árin þar á undan, notaði fólk hverja sólarglætu og fannst skammarlegt að vera inni í þau fáu skipti þegar sólin skein. Ég fékk ótaldar skammirnar fyrir að nota ekki sólina!!! Þetta fólk sem gekk lengst í þessu hlýtur að vera ansi brúnt á litinn núna, ansi brúnt ... Karlarnir mínir höfðu víst líka frétt að Tommi bílstjóri hefði ekki veitt eina einustu bröndu í veiðiferðinni í Vesturhópið ... og allt mér að kenna. Maður segir ekki "Góða veiði" við veiðimenn, man það héðan í frá. Nú mun ég segja "Gangi þér illa, helvítið þitt" eða "Fótbrjóttu þig, auminginn þinn" ... við alla, svona til öryggis! Mikið held ég að öllum fari þá að ganga vel ...

Heimir bílstjóri kom okkur heilu og höldnu í bæinn, eiginlega á mettíma án þess að glanna, og ég tók eftir því þegar hann hleypti okkur út, einum ljósastaur lengra en stoppistöðin, að sá staður væri bara skrambi hentugur fyrir stoppistöð. Enginn rúllar niður vegkantinn (skaðræðisbrekkuna) og Strætó bs þarf ekki að búa til rándýrar tröppur á hann ... Mín alltaf að spara fyrir Strætó bs sinn.

Sigþóra sagði mér á leiðinni upp rassvöðvabrekkuna að Heimir hefði sýnt glæsileg viðbrögð undir kvöld á föstudaginn. Einhver bílstjóri á einkabíl svínaði illilega, beygði frá Þingvallaafleggjaranum, inn á Vesturlandsveg og í veg fyrir strætó. Heimir bremsaði víst hetjulega og bjargaði farþegunum naumlega frá árekstri. Sigþóra var með hjartslátt alla leiðina heim.


Rúllandi Sigþóra í rjómablíðu og bomsupælingar

SkaðræðisvegkanturinnBílstjórinn í morgun stoppaði aðeins fyrr/aftar (fjær Reykjavík, nær Akranesi) þegar hann hleypti okkur Sigþóru út við Vesturlandsveginn, mun aftar en Tommi gerir venjulega og ég upplifði loks að sjá Sigþóru kútveltast niður brekkuna. Það var samt hvorki fögur né fyndin sjón, Sigþóra gerði þetta bara töffaralega og líktist helst njósnara í spennumynd. Líklega hefði þetta verið fögur sjón ef ég hefði séð þetta í slow motion en þetta var svona hviss bang, eina sekúnduna liggjandi og þá næstu staðin upp.

Ég hlæ vitanlega aldrei að svonalöguðu, eins og t.d. Hilda systir myndi gera og margir sem ég þekki ... Aftur á móti sturlaðist ég úr hlátri yfir skemmtiþætti í sjónvarpinu fyrir nákvæmlega sex árum sem sýndi viðbrögð fólks við óþægilegum uppákomum. Þarna sást m.a. líkbíll fara upp bratta brekku ... afturdyrnar opnuðust og kistan rann út og brotnaði (minnir að leikari eða brúða hafi verið í kistunni). Það var óborganlegt að sjá viðbrögð fólks við þessu ... þegar ég sá þetta var ég svona frekar döpur því að pabbi hafði dáið deginum áður. Mikið var gott að geta argað úr hlátri! Ekkert samasemmerki þarna milli dauða pabba og grínsins.  

Held að elskurnar mínar hjá Strætó bs. verði að gera eitthvað fyrir þessa stoppistöð áður en fólk fótbrýtur sig eða rúllar fyrir trukk á leið upp aðreinina, auðvitað feta sig flestir niður vegkantinn þarna niður af stoppistöðinni. Eftir að ég rúllaði þarna niður í fyrra hef ég tekið langan sveig (ef bílstjórinn stoppar á "réttum" stað) til að það gerist ekki aftur og svo vil ég líka halda virðuleika mínum í lengstu lög. 

Merguð, ókeypis hugmynd: Í stað þess að ráðast í, með ærnum tilkostnaði, að gera tröppur þarna niður vegkantinn (sem breytast í rennibraut í snjó og hálku) sting ég upp á MIKLU ódýrari lausn, bara eiginlega næstum því ókeypis lausn! Hún er svo að færa stoppistöðina vestar, eða NÆR Reykjavík, að staðnum þar sem aðreinin og Vesturlandsvegur mætast. Þá erum við farþegarnir á jafnsléttu og getum gengið settlega niður eftir götu. Sigþóra var ekki hress með fallið í morgun, enda hefur hún oft kvartað yfir þessu. Bara færa skiltið, krúttin mín og málið er dautt! Svo verð ég að kaupa nýja vetrarskó (ef leið 18 heldur áfram að rúnta um Árbæinn) til að geta gengið upp brekkuna framhjá góðu lyktinni frá Nóa Síríus í öllum veðrum. Laufey kom með mér í hittiðfyrra í Outletbúð þar sem ég fann hina fínustu X-18 skó. Laufey starði á mig um daginn og spurði hræðslulega: "Ekki eru þetta sömu skórnir og við keyptum saman hérna í gamla daga?" Henni finnst ég ganga of langt í búðahatri og nýtni, samt hata ég nísku. Best að einbeita mér að því að finna góða vetrarskó næst þegar ég fer í Kringluna eða á Laugaveginn. Fer maður annars ekki að komast á bomsualdurinn?

Sólin stubbarVá, hvað ég er fegin að ég fór í svartan stutterma rúllukragabol undir svartan kvarterma jakkann í morgun. 

Þetta gula þarna uppi eirir engu og koma því svartar Casall-buxurnar sér ákaflega vel í hitanum og fara vel við svarta þunna kápuna.  


Enginn munkastrætó hér ...

Sól og blíðaÞað hýrnaði yfir samstoppistöðvarkörlunum mínum þegar Tommi birtist og á hárréttum tíma að vanda. Hann sefur aldrei yfir sig. Ekki það að hinir stundi það en það hefur komið fyrir. Ég hreiðraði um mig hjá Ástu og ætlaði að gera enn eina árangurslausa tilraunina til að sofa þá frétti ég af rökræðum sem stjórnstöð strætó átti við Tomma í gærmorgun. Tommi hafði samband við þá og kvartaði yfir vöntuninni á aukabílnum, því sem leiddi til þess að fólk frá Akranesi og Grafarvogi blandaðist saman í áætlunarvagninn. Tommi fékk þau svör frá einhverjum, örugglega gömlum vini mínum á stjórnstöð, að það ætti bara að sjá um að ég yrði ekki áreitt í strætó. Tommi reyndi eitthvað að mótmæla, sagði að Skagastrætó væri enginn munkabíll ... Veit ekki hvað stjórnstöð er að skipta sér af ánægjustundum mínum .... heheheheh! Beið með mínu fólki í gær og upplifði að vera í kássu og kremju  með Grafarvogsbúum og það er efni í alla vega þrjár lífsreynslusögur í Vikuna ... 

Þegar við komum út úr göngunum tautaði Tommi: „Á hvaða vaskafati er Elli núna?“ Við litum upp og sáum litla bílinn, 25 manna vagninn sem var að fara fyrstu morgunferðina frá Mosó. Vaskafat er nokkuð gott orð yfir litla kvikindið sem er annars þægilegur bíll þegar hann er ekki stappaður af fólki.

„Passa puttana,“ sagði Tommi við húsasmiðinn þegar hún fór út úr strætó. Hún hló bara og lofaði því. Karítas brekkubjútí stóð í brekkunni og við spurðum hana undrandi hvort skólarnir væru byrjaðir aftur, enda vinnur hún í skóla í Rvík. „Nei, sérverkefni á fimmtudögum,“ svaraði hún og flissaði.

Tommi veiðir enn stærri fiska um helginaSéð og heyrt með okkur Tomma í faðmlögum í strætó kemur út í dag og mun Tommi eflaust kaupa blaðið á leið sinni norður í Vesturhóp í veiðiferðina sem hann sagði okkur frá. Þegar við Sigþóra gerðum okkur líklegar til að hoppa út við Vesturlandsveginn sagði ég hlýlega við Tomma: „GÓÐA VEIÐI!“ Tommi greip um stýrið og náfölnaði og hinir farþegarnir frusu. Þegar Sigþóra kom upp orði sagði hún: „Svona segir maður ekki við veiðimann, það táknar að hann veiði ekki neitt!“ Ég reyndi að bæta fyrir þetta með því að tauta nokkrar vel valdar bölbænir á meðan ég gekk niður tröppurnar, óskaði þess m.a. aðTommi mölbryti á sér lappirnar og þess háttar, en er skíthrædd um að ekkert veiðist í Vesturhópinu vegna þessarra óábyrgu orða minna. Ég vissi þetta ekki með hjátrú veiðimanna, hélt að leikarar væru eina fólkið sem fótbrotnaði ekki þótt maður óskaði þeim þess en nú veit ég betur!


Næstum því strætókynlíf og fágæt fegurð í útvarpi

Ósköp var notalegt að sjá Ástu í strætó í morgun, brúna og úthvílda. Sumarfríið hennar búið. Hún var aðeins of lítið klædd og ég aðeins of mikið. Erfitt að ráða í þetta veður ...

Var eitthvað pínu hrædd um að gleyma að fara í viðtal á Rás 2 kl. 8.30 og rjúka beint í vinnuna af gömlum vana en auðvitað er ég ekki alveg svona utan við mig. Elti bara Ástu út í Ártúni og við biðum eftir leið 6. Enginn aukabíll beið okkar Skagamanna, eins og venjulega, svo að vagninn okkar varð algjörlega pakkfullur þegar tugir Skagamanna bættust við annað eins af Grafarvogsbúum. Mér fannst nándin við náunga minn bara nokkuð notaleg og þetta er það næsta sem ég hef komist kynlífi allt of lengi. Fór alla leið niður í Bankastræti með sexinu og keypti mér latte ... veit alveg hvernig RÚV-kaffið er.

Viðtalið á gekk glimrandi vel og ég var svoooo sæt, enda vaknaði ég eldsnemma í morgun til að farða mig, eiginlega sofnaði ég ekkert ... Verst að þetta var í útvarpi en ég held að hlustendur hafi samt náð þessu. Útvarpskonurnar Hrafnhildur og Guðrún eru voða skemmtilegar ... en þegar Tommi er undir stýri á strætó hlustum við í Skagavagninum alltaf á þennan þátt. Jæja, best að vinna, nóg verður að gera í dag!  


Góður túristadagur, guðleg stríðni og ... grobb

RekkkjavikkFór á Skrúðgarðinn vel sjúkraþjálfuð þegar klukkan var að verða hálftólf og það var líklega eins gott því mig minnti að síðasta ferð fyrir fjögurra klukktíma síestu bílstjóranna væri kl. 12.41. Hún er klukkutíma fyrr. Ætlaði að fara að tölta heim á leið og kveðja kettina með kossi þegar Tommi birtist, stórhneykslaður á því að ég hefði ekki verið með í fyrstu ferð í morgun. Í Ártúni tók ég fimmuna og fékk spennandi óvissuferð, sá meira að segja stórt skemmtiferðaskip í Sundahöfn ... sumaráætlun strætó er bara kúl á köflum. Ákvað á Hlemmi að taka ferðamanninn á þetta og labbaði niður Laugaveginn, full hrifningar á þessarri fallegu borg, Rekkjavikk. Sá nýja plötubúð við hlið Skífunnar með plötum sem fást ekki alls staðar. Samt fann ungi strákurinn ekkert með Rick Wakeman, heldur ekki sá ljúfi í Skífunni. Að finna King Arthur-plötuna verður bara nýja takmarkið mitt í lífinu. Hitti Rúnar, son vinkonu minnar, í Bókabúð M&M þar sem hann vinnur. Hann sagðist vera búinn að lesa lífsreynslusögubókina, kannaðist við eina söguna úr henni og fannst það ekki leiðinlegt, sagan líka létt og jákvæð. Latte-inn á Kaffitári var guðdómlegur en þá var tími til kominn að skreppa í viðtalið sem gekk mjög vel.

Þvílík heppni að ná síðan korterísex-strætó heim. Sat við hliðina á skemmtilegri konu á leiðinni, verst að við fórum ekki að spjalla fyrr en síðustu mínúturnar. Hún er húsasmiður og það vekur furðu margra, sagði hún. Frétt í útvarpinu fékk hana til að fara að spjalla og við nutum þess að femínistabeljast svolítið.   

Tomkrús minn almáttugurGetur verið að það sé einhver ósýnilegur þarna úti sem fylgist með mannfólkinu, grípur inn í stöku sinnum inn í og ... finnst gaman að stríða? Jafnvel einhver guðlegur? Kannski nýi frelsarinn, þessi hjá Vísindakirkjunni?

Var ekki fyrr búin að sleppa orðinu hér á blogginu um að ég væri aldrei bitin af pöddum ... þegar ég nældi mér í nokkur bit, líklega staraflóarbit. Það er svona þegar maður bregður sér af bæ. Þetta hefði aldrei gerst í himnaríki!

 

Skemmtiferðarskipið að faraUm leið og ég fór að fylgjast með leiknum sem nú fer fram fyrir neðan austurglugga himnaríkis skoruðu Víkingar mark. Nú held ég mig bara vestanmegin, veit í hjarta mínu að ÍA skorar tvö mörk í seinni hálfleik.

Skemmtiferðarskipið sem ég dáðist að í dag sigldi framhjá himnaríki rétt áðan á leið til frekari ævintýra. Finnur þó vart fegurra land en Ísland. (Þetta mun flokkast undir nýja færsluflokkinn minn)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 32
  • Sl. sólarhring: 64
  • Sl. viku: 661
  • Frá upphafi: 1524976

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 562
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Brandon Apple
  • Á lausu
  • Jason minn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband