Færsluflokkur: Ferðalög

Stutt ...

Dagskrá dagsins í stuttu máli: Sjúkraþjálfun, strætó í bæinn, far út á land, viðtal, kem í kvöld. Ekki gleyma mér á meðan.

Bendi á síðustu færslurnar hans Jens Guð þeim sem hafa ekki lesið þær! Hvernig hann rústaði plötubúð og hvernig honum tekst að koma heitu máli yfir á mannamál! Jens Guð, þú ert æði!

Hér er lag sem mér fannst voða skemmtilegt hérna einu sinni. Upprifjun dagsins og möguleg nostalgía er í boði frú Guðríðar:  
http://www.youtube.com/watch?v=bCDIt50hRDs


Týnd Esja, hlátur í jarðarför og marktækur draumur ...

EsjanÞað kemur stundum fyrir að farþegar segi þegar komið er alla leið á Skagann: „Where is Eisja?“ Tveir erlendir farþegar fengu aukabíltúr í dag með þessum hætti. Þeir græddu heilmikið á því og gátu litið augum dásemdir Akraness í einhverjar mínútur. Bílstjórinn var splunkunýr og kíkti á kort á milli þess sem hann hleypti fólki út á Skaganum. Þegar hann spurði mig til vegar bauðst ég til þess að fara með honum á endastöð og svo gæti hann hent mér út á leið út úr bænum korteri seinna. Hann þáði þetta með þökkum og þetta er sem sagt ástæðan fyrir því að nokkrir Skagamenn aka ekki eilífan rúnt í einhverju svartholi á þessarri stundu með rammvilltum bílstjóra. Keypti kaffi í Skrúðgarðinum og tók með heim til að fá eitthvað fyrir minn snúð. Ekki amalegt.
Sit nú og skrifa verulega djúsí lífsreynslusögu sem gömul samstarfskona sagði mér. Hún er um mann sem lenti í klónum á sértrúarsöfnuði og hvarf úr lífi fjölskyldu sinnar.

Afmælisbarn í sumarbúðunumHeyrði í Hildu systur áðan og var mjög gott hljóðið í henni, mikið fjör í sumarbúðunum. Nú eru krakkarnir að undirbúa lokakvöldvökuna og sýna afrakstur námskeiðanna sem þau voru á sl. viku. Svo fara þau heim á morgun. Börnin sem koma í Ævintýraland á miðvikudaginn fá óvæntan glaðning. Guðbjörg úr X-Factor ætlar að kíkja í heimsókn og syngja fyrir þau. Nýja heimasíðan er miklu flottari og auðveldara að skoða myndirnar en áður. www.sumarbudir.is

 

Í dag eru sex ár síðan pabbi dó. Hann fór mjög óvænt og þetta var mikið áfall. Við systkinin ákváðum að hafa jarðarförina í hans stíl, ef hægt er að orða það svo, og  ... það var hlegið nokkrum sinnum. Aldrei verið við slíka jarðarför. Sr. Bjarni Karlsson jarðsöng og sagði nokkrar góðar sögur af pabba sem olli hlátrinum. Ein sú besta var þegar pabbi lenti í bílslysi og var fluttur allur krambúleraður með sjúkrabíl upp á spítala. Þetta var á þeim tíma þegar ekki mátti bjarga lífi fólks nema búið væri að taka skýrslu af því, sumir lifðu það víst ekki af. Pabbi þurfti að svara nokkrum spurningum á meðan læknirinn beið, m.a. nafni, heimilisfangi og kennitölu.
„Ertu giftur?“ spurði hjúkkan að síðustu. „Nei,“ svaraði pabbi, „ég slasaðist svona í umferðarslysi!“

PabbiÞegar þessi saga var sögð í kirkjunni var mikið hlegið en það var frekar skondið þegar gamall skólafélagi hans var við það að skella upp úr aftur þegar allir voru hættir að hlæja og tróð einhverju upp í sig til að verða sér ekki til skammar.

Í byrjun árs 2001 dreymdi mig að ég hefði misst fjórar tennur. Vinkona mín réði drauminn og sagði að þetta gæti táknar fjögur dauðsföll ... Fyrsta dauðsfallið var viku seinna og það fjórða og síðasta rétt fyrir jólin þetta ár. Segið svo að það sé ekkert að marka drauma!


Frábært brúðkaup og fréttir af blautri frænku á Hróarskeldu

Hinn írski TommiRauðhærður, vígalegur strætóbílstjóri sat undir stýri þegar ég tók vagninn í bæinn. Þetta reyndist bara vera Tommi dulbúinn sem Íri í tilefni Írsku daganna. Hann ók nokkrum rosalega slöppum unglingum heim til Reykjavíkur með fyrsta strætó í morgun, þeir voru alveg búnir á því. Kalt í tjaldinu, þeir voru svangir og vildu komast heim til mömmu. Steinsváfu alla leiðina, þessar dúllur, að sögn Tomma.

AnnaÞetta varð síðan algjör lasagna-dagur. Anna, brúðkaup, Anna, brúðkaupsveisla, Anna.

Anna beið í Mosó og við fórum beint í Kringluna í brúðkaupsgjafar- og latteleiðangur. Ég ætlaði að kaupa Matreiðslubók Nönnu handa brúðhjónunum en hún var greinilega uppseld þannig að ég keypti nýju, stóru Kjúklingauppskriftabókina, hún er voða flott. Bætti við plötu með Ljótu hálfvitunum og smellti svo Lífsreynslusögubókinni með. Vona að þau verði ánægð. Kannski lauma ég bók Nönnu að þeim síðar.
Fór svo heim með Önnu á Álftanesið og vá, hvað húsið hennar hefur tekið miklum breytingum! Hef fylgst náið með endurbótunum á blogginu hennar en alltaf er skemmtilegast að sjá þetta með berum augum.

Anna Ósk og HelgiBrúðkaupið var mjög fallegt og látlaust. Milli brúðkaups og veislu naut ég þess að vera með Önnu aftur og nú var Ari, maðurinn hennar, kominn heim. Þarna var ákveðið að þau hjónin færu upp í sumarbústað í Borgarfirði um kvöldið og myndu skutla mér heim á Skaga í leiðinni.

Veislan var algjört æði. Sat við borð með hluta af fjölskyldu brúðgumans og Guðrúnu, föðursystur brúðarinnar. Kaffi Konditori Copenhagen í Hafnarfirði sá um veisluna og fólk var mjög ánægt með kræsingarnar.

Reyktur lax í forrétt, nautakjöt m/rótargrænmeti og gratíneruðum hvítlaukskartöflum í aðalrétt og glæsileg terta í eftirrétt. Þegar danski krónprinsinn trúlofaði sig var boðið upp á svona tertu. Kaffið með kökunni var gott en það er ekki algengt, yfirleitt kaupir fólk allt það fínasta í veislur en býður svo upp á vont kaffi með.

Upp úr níu komu Anna og Ari og sóttu mig. Það var gaman á leiðinni, mikið spjallað og Anna lét einn góðan flakka:
Viðskiptavinurinn: „Ég ætla að fá bensín fyrir 200 krónur.“
Bensínafgreiðslumaðurinn: „Viltu svo að ég hræki í rúðupissið fyrir þig?“

Ellen, systurdóttir mín, hringdi í mig rétt áðan frá Hróarkeldu.
„Varð að láta þig vita að ég er á tónleikum með Red Hot Chili Peppers, hlustaðu!“
„Vá, grát, mig langar að koma, ertu nokkuð að drukkna í rigningunni, elskan?“
„Neibbs, ég keypti mér ný föt og nýtt tjald og þarf bara að vera eina nótt í viðbót hérna, svo fer ég til Köben! Hringi í þig ef lagið þitt kemur og leyfi þér að hlusta!“
„Það heitir Road Trippin’, já, hringdu ef það kemur.“
http://www.youtube.com/watch?v=LZvRj726ipg


Rjúkandi rústir og vísir að grill-einelti?

Við Kirkjubrautina í morgunVaknaði um níuleytið í morgun, sem eru hálfgerð helgi-spjöll, en brúðkaupið bíður með öllum sínum dásemdum í dag. Allt var þögult, eins og um hánótt væri, en núna um tíuleytið eru unglingarnir farnir að streyma að Langasandinum. Ja, alla vega fólk sem var einu sinni unglingar og annað sem stefnir hratt í það. Hjá einum bloggvini mínum, Skagamanninum Þresti, http://motta.blog.is/blog/motta/#entry-257259 má lesa að Skaginn sé ónýtur eftir læti næturinnar. Allt sefur maður nú af sér, eins og mest spennandi fótboltaleik síðustu ára og nú þetta.

Allir á Skaganum voru úti á grilla í gærkvöldi, götugrill og gleði um allar götur. Við Þröstur vorum útundan ... göturnar okkar sökka greinilega, nema þetta sé bara undarleg tilviljun ... Grillmatur er hvort eð er náttúrlega algjör viðbjóður.   

Hef verið frekar ódugleg við að bolda undanfarið en nýjustu fréttir eru þessar:
Nick fullvissaði Bridget um ást sína og hún var að springa úr hamingju. Það stóð ekki lengi, þegar Bridget átti erindi á skrifstofu mömmu sinnar var Stefanía þar og blaðraði öllu í Bridget sem stirðnaði upp. Taylor og Ridge eru við það að taka saman aftur. Hann hefur þó viðurkennt fyrir henni að vera veikur fyrir Brooke. Það er líka Eric pabbi hans, þó ekki blóðfaðir, en hann er farinn að deita Jackie, sem er fyrrum eiginkona blóðföður hans og móðir Nicks. Eric var einu sinni kvæntur Brooke og á með henni tvö börn; Bridget og Rick.
Er komin með það á hreint að til að spara leikaralaun er fólkið í þáttunum látið deita hvert annað, giftast og skilja og svona og lítil endurnýjun verður. Mögulega má rekja furðulegt hegðunarmynstrið til skyldleikaræktunar.

Strætó leggur af stað frá Skaganum kl. 11.41, ef það er þá ekki búið að kveikja í honum, og hinum megin við rörið, eða í Mosó, mun elskan hún Anna bíða. Við náum að eiga stund saman áður en brúðkaupið hefst hálfþrjú. Nú er það bara bað, flott föt, spartl í andlitið og hír æ komm!


Allt að gerast á Skaganum ...

Hljómsveitin á Írskum dögumVið Steingerður brunuðum á Skagann eins og fínar frúr og vorum komnar rétt um sexleytið. Komumst að því að bókabúðinni er lokað á sekúndunni sex. Engin brúðargjöf keypt þar.

Hálfgert umsátursástand ríkti á Skaganum (stuð), unglingar og hasshundar í röðum (sá a.m.k. einn hund) og rokktónleikar fyrir utan kaffihúsið sem var LOKAÐ! Opna á kl. 10 í kvöld í tjaldi við hliðina, sem verið var að setja upp við dúndrandi tónlist hljómsveitarinnar.

Steingerður og Freyja í Skrúðgarðinum

 

Við kíktum aðeins í Skrúðgarðinn sjálfan sem er fyrir aftan kaffiðhúsið. Mikið er hann orðinn fallegur.  

Besta kaffið er vitanlega í himnaríki og var Steingerður dregin þangað. Freyja terroriseraði því kettina, alla vega Kubb sem varð eins og dalmatíu-klósettbursti í útliti, en Tommi hetja fílar hunda bara ágætlega. Lokaði þá samt báða inni svo að Freyja yrði til friðs.

Kettirnir voru búnir að rústa stofunni þannig að ég get ekki frestað tiltekt lengur. Það hefur verið ákveðin sjálfsblekking í gangi undanfarið þegar ég geng viljandi gleraugnalaus um himnaríki og finnst vera frekar fínt! Nú verður ráðist á draslið með hörku!

 
Ránsskútur?Eitthvað undarlegt er í gangi. Fékk hjartslátt af spennu þegar ég leit til hægri, eða út á sjó. Fjöldi seglskúta stefnir til Akraness ... örugglega unglingar. Náði mynd af þremur þeim fremstu, fleiri eru á leiðinni. 

Skyldi saga Tyrkja-Guddu verða endurtekin í dag? Kemur í ljós ef ég blogga ekki meira í kvöld. Best að taka úr lás. Alltaf gaman að lenda í ævintýrum. Best að brosa þó ekki þar sem það er nú á hreinu með nýlegum dómsúrskurði að það veitir leyfi til ofbeldis.


Furðulegt háttalag kattavinar um morgun

Of hátt stillt útvarp orsakar margtAlveg furðulegur fjandi kom yfir mig í strætó í morgun. Aðstæður voru þannig að góðlega konan (sem ég held að sé þroskaþjálfi) hafði hlammað sér fremst og hjartahreini (hélt ég) djákninn tróð sér fram fyrir mig og settist hjá henni. Að vanda hafði móðirin, sem ekkert er fyrir börn, skellt sér hinum megin við ganginn með óbundið barn sitt svo að ég þurfti að setjast aftar. Þreytan var líka að yfirbuga mig og syfjan ... mér hafði reyndar tekist að klæða, bursta og það allt á tíu mínútum án þess að nokkurt stress væri í gangi, fumleysi einkenndi athafnir mínar, eins og svo oft.... Jæja, byrjar svo ekki útvarpið í strætó að baula beint inn í eyrað á mér. Sem betur fer var það Rás 2, annars hefði ég andast þarna í sætinu. Mér fannst einhvern veginn svo óyfirstíganlegt að losa öryggisbeltið, fara alla leið fram í til Tomma og biðja hann um að lækka. Hávaðinn var of mikill til að ég gæti kallað ...

Súkkulaði ... nammmmmmÞá byrjaði þetta skrýtna að færast yfir mig og ég skildi fyrst ekki hvað þetta var ... það var ekki fyrr en á Kjalarnesinu, rétt eftir göngin, að ég fattaði að þetta var VÍSIR AÐ GEÐILLSKU! Það er tilfinning sem ég hef ekki fundið fyrir mjög lengi, mjög, mjög lengi! Nú, í stað þess að láta það bitna á samferðamönnum mínum reyndi ég að hugsa um eitthvað skemmtilegt, eins og brúðkaupið sem ég er að fara í á morgun, hjá elskunni minni henni Önnu Ósk sem ég hef þekkt síðan hún fæddist. Það er svo langt síðan ég hef farið í brúðkaup ... ekki síðan á Gay Pride í hittiðfyrra (gagnkynhneigt brúðkaup) þarna þegar ég varð fyrir móðgun sama dag í Lífstykkjabúðinni sem hefur markað mig ævilangt, ... að ég veit ekki alveg hvað ég á að kaupa í brúðargjöf. Ég var svo blönk í hitt skiptið að ég hafði bara efni á því að kaupa matreiðslubókina Súkkulaði sem vakti reyndar ógurlega lukku og var ein af fáum gjöfum sem ekki var skipt ... en ég er aðeins ríkari núna.

Ef ykkur, hjartkæru, fallegu bloggvinir, dettur eitthvað sniðugt í hug til að gefa í brúðkaupsgjöf þá er heilt kommentakerfi hérna fyrir neðan sem bíður eftir gáfulegum athugasemdum ykkar.

Hætt að vera geðvondÁ leið út úr strætó laumaði ég því að Tomma að taugar mínar hefðu verið orðnar úfnar eins og gaddavírsgirðing eftir útvarpsofbeldið  ... og Tommi varð eiginlega alveg miður sín ... hann sagði að þetta væri hipparútan með sérkerfi fyrir farþegana og málið væri bara að biðja um lækka ...

Geðillska mín gufaði endanlega upp þegar mér hafði tekist að eyðileggja daginn fyrir Tomma ... en ég gaf honum samt DV-ið mitt í kveðjuskyni. Á móts við Harðviðarval fann ég að kramdi fóturinn var óðum að jafna sig og heltan á undanhaldi. Líklega verð ég að labba niður á Skrúðgarð á morgnana til að geta notað samgöngutækið strætó (og sitja fremst) ... eða biðja Betu sjúkraþjálfara um túrbómeðferð.


Grillarinn Úlfar, Írskir dagar og heimsókn Freyju

ÚlfarHann Úlfar kokkur á Gestgjafanum býr í Mosfellsbæ og fannst ekki mikið mál að skutla mér á stoppistöðina mína á leiðinni heim. Úlli er mikill dýramaður sem hætti m.a. í golfi til að geta einbeitt sér að kanínunum sínum! Hann og fjölskylda áttu eitt sinn glæsilegan kött sem var svona næstum því inniköttur. Hann hætti sér stundum út í Grafarvoginum þar sem þau bjuggu og eitt sinn lenti hann í skelfilegum slag við frekan fresskött úr nágrenninu. Konan hans Úlla sagði blíðlega við kettina: „Svona, hættið þessarri vitleysu!“ en Úlli greip blautt handklæði og bjó sig undir að skilja þá að með því að slá til þeirra. Ekki vildi betur til en svo að konan hans beygði sig eitthvað og varð fyrir handklæðinu. Hún datt niður ... ómeidd en nágrannarnir öskruðu úr hlátri yfir þessu fyndna fólki sem nýflutt var í hverfið. Bakgarðarnir voru í einni hrúgu, svona eins og sameiginleg lóð. Freki fresskötturinn kom ekki framar inn á yfirráðasvæði glæsikattarins.

GrillEinu sinni sem oftar grillaði Úlli. Nágrannarnir, sem líka voru úti að grilla, fylgdust spenntir með þessum fræga sjónvarpskokki, sem hann var þá. Allt gekk vel. Úlli var með fjórar litlar nautakjötssneiðar sem hann bjóst svo sem ekkert við að þurfa en skellti þeim samt á grillið, sneri þeim við eftir smástund, slökkti á grillinu og lokaði því. Hálftíma seinna opnaði hann grillið til að tékka á málum, og fjórar eldsúlur stóðu upp í loftið við mikla gleði grannanna. Hann hafði sett grillið á hæsta í stað þess að slökkva á því!

Tommi kom eftir smástund á strætó þótt heill hálftími væri í brottför og ég náði sætinu mínu! Rúntaði með honum inn í Mosfellsdal og til baka í Mosó þar sem ungarnir hans (farþegarnir) komu fljótlega með leið 15. Tommi sagði mér að mikill viðbúnaður væri fyrir Írsku dagana nú um helgina. Við fáum heilan hasshund og allt til að þefa af farþegunum, enda er pínuoggulítið um drykkju og dópneyslu ungmenna (undir 18 ára) á svona skipulögðum „fjölskylduskemmtunum“ sem eru nánast um hverja helgi yfir sumartímann.

Brosmild FreyjaLítil hætta er þó á því að ég verði handtekin á morgun. Elskan hún Steingerður ætlar að koma með mér á Skagann og taka Freyju með. Kannski við viðrum voffa á Langasandinum. Flóð verður líklega um kvöldmatarleytið svo að við ættum að ná smá sandræmu. Steingerður vill helst ekki leggja á kettina mína að fá Freyju í heimsókn en Freyja lítur á ketti sem skemmtileg þroskaleikföng, enda á hún tvo ketti sjálf; Matta og Týru. Akkúrat núna er ég að horfa á mann með ansi fjörugan sjefferhund niðri á sandi.

Stal þessarri stórkostlegu mynd af blogginu hennar Steingerðar. www.steingerdur.blog.is  



Þyrnirós ...

ÞyrnirósHvernig í ósköpunum er hægt að sofna klukkan 19 á miðvikudagskvöldi og sofa af sér mest spennandi leik Landsbankadeildarinnar EVER, sérstaklega þar sem ég bý við hliðina á íþróttavellinum. Þar að auki missti ég af fyrri hluta framhaldsmyndar Stöðvar 2 sem fjallar um náttúruhamfarir, jörðina að farast, fljóðbylgjur og læti ... ??? Ég er vitlaus í náttúruhamfarir, læt mig meira að segja hafa það að horfa á illa leiknar, lélegar svona myndir, bara til að fá útrás fyrir þennan kinkí smekk.

astral-body-awake-1969Það kemur vissulega fyrir að unglingurinn í mér tekur völdin og vill sinn svefn og stundum kemur það fyrir á miðvikudagskvöldum vegna sérlega kvenmiðaðrar sjónvarpsdagskrár (sem ég þoli ekki, Oprah, kvensjúkdómaþættir og væl) en nú var þetta afar ósmekklega valinn miðvikudagur. Ég ætlaði að horfa á leikinn af svölunum mínum og hefði getað hlustað á lýsinguna á Sýn með. Að ég hafi ekki vaknað við slagsmálin og lætin og rauðu spjöldin og gargið ... er mér hulin ráðgáta. Mér dettur reyndar eitt í hug. Ætlunin var að ryksuga og taka svolítið fínt til í himnaríki fyrir leikinn, jafnvel parkettleggja og skipta um eldhúsinnréttingu í tilefni af hátíðinni, ... en kannski hef ég bara sofnað úr leiðindinum við tilhugsunina ... en hvílíkar afleiðingar! Afasakaðu tiltektarguð, ég klikka ekki oftar á þessu!

Voða var skrýtið að geta varla lokað augunum í strætó í morgun. Ég var svo hryllilega útsofin að þau glenntust alltaf upp aftur. Kíkti í gegnum DV en þar sem ég þurfti að kúldrast á þriðja bekk í strætó voru bæði lappir og áhöld til blaðalesturs í kremju. Eins gott að ég er ekki fjarsýn. Ef Beta sjúkraþjálfari heldur áfram þessarri snilld mun ég fljótlega krefjast þess að sitja í kremju, bara af því að ég get það! Núna er það bara vont! Svo finnst mér fólkið í fremstu sætunum ekki eiga skilið að fá að vera þar í ókremju. Ekkert þeirra notar öryggisbelti. Mér finnst sérlega slæmt að sjá útlensku mömmunum með barnið (glaða barnið með hvellu röddina) sitja þarna fremst og vita að barnið getur slasast ef strætó þarf að bremsa snögglega. Sumir bílstjórarnir hafa tekið rispur og minnt fólk á beltin ... eiginlega skipað því að nota þau en vissulega getur verið að konan sé bæði lífsleið og ekki mikið fyrir börn.


mbl.is Skagamenn lögðu Keflvíkinga á dramatískan hátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ævintýri á stoppistöð og bold-uppdeit

LjósmyndariÍ strætóVið Tommi bílstjóri komumst aldeilis í hann krappan áðan. Gunni ljósmyndari skutlaði mér í Mosó og svo hófust myndatökur. Reynsla mín úr ótal fegurðarsamkeppnum og fyrirsætustörfum nýttist  sérlega vel. Það er bara á passamyndum sem ég lít út eins og vélsagarmorðingi. Vandamálið hófst ekki fyrr en Gunni vilda mynda okkur Tomma saman. Ég var nánast komin í fangið á honum þegar Gunni sagði með svona B&B rödd: „Jæja, Tommi, kyssa Gurrí núna!“ Þá áttuðum við okkur á alvarleika málsins og ég fleygði Gunna öfugum út úr strætó og við ókum af stað þótt enn væru nokkrar sekúndur í brottför. Skyldi hún Magga „mágkona“ standa á bak við þetta?

Gaf Tomma Séð og heyrt-ið mitt þegar ég var búin að lesa það og tautaði eitthvað um að þetta væru skaðabætur fyrir að plata hann í myndatökuna. Hann þáði blaðið en sagðist bara líta á þetta sem upphaf að frægðarferli. Næst ætlar hann að komast í Golfblaðið. 
 

Skrýtið ... hin heilaga Taylor er allt í einu orðin vondi karlinn í boldinu. Hún uppfyllir mýtuna um að vera leiðinleg tengdamóðir og reynir af alefli að stía Tómasi sínum og Gaby sundur.  Önnur tvíburadóttirin þolir hana ekki og svo hefur hún hrakið Ridge frá sér.
Nick kelar við tengdamömmu sína og tjáir henni ást sína. Hún reynir að sýna þroska því að dóttir hennar ber barn Nicks undir belti. HAHHHH, of seint, Stefanía, óvinur Brooke númer eitt, sér eitthvað í garðinum, nær í kíkinn og barúmmm, sér hún ekki Nick og Brooke! Skömmu síðar mætir hún á skrifstofuna hjá Brooke og hundskammar hana!



Frægðin og furðulegur kjúklingur

Forsíðuviðtalið okkar þessa vikuna er við 55 ára konu sem lifir lífinu til fulls, svo vægt sé til orða tekið. Börnin eru uppkomin og búin að gera hana að þrefaldri ömmu. Hún málar, ferðast, skrifar og bara nýtur þess að vera til. Hún á virkilega myndarlegan og góðan kærasta sem er 27 ára. Geri aðrir betur.  Hlakka til að lesa viðtalið við hana í strætó á leiðinni heim. Verð greinilega að hætta að glápa græðgislega á þessa gráhærðu gaura og ... nei, annars.

Gunni ljósmyndari skutlar mér í Mosó á eftir og tekur mynd af mér í strætó kl. 16.45 ... fyrir Séð og heyrt, já, ég legg ekki meira á ykkur. Fyrst er það Wall of Fame hérna á Moggablogginu, loksins tekin í sátt eftir að hafa skrifað ódauðlegar færslur hér síðan í lok janúar án nokkurrar viðurkenningar ... og nú er það Séð og heyrt! Ástæðan fyrir þessu síðarnefnda er útkoma bókarinnar með lífsreynslusögunum.

Ein bókabúðasamsteypa er strax búin að panta fullt í viðbót ... úje! Þetta heyrir maður þegar labbað er fram hjá lagernum. 

Þetta er náttúrlega ótrúlega skemmtilegt lesefni í flugvél, sumarbústað, strætó, uppi í rúmi, inni í eldhúsi, í vinnunni í felum bak við tölvuna, á rauðu ljósi og fleira og fleira ... Ég er mjög montin af þessu og bíð spennt eftir viðtökunum. Ég ítreka að þetta eru dagsannar sögur, nöfnum yfirleitt alltaf breytt og stundum aðstæðum. Þarf að leggja til við yfirmenn mína að ég fái að ferðast um landið og safna sögum!

Kjúklingurinn í hádeginu var ... uuu, áhugaverður. Við héldum fyrst að hann væri reyktur en þetta var bara kryddið. Náði ekki að klára bringuna, fíla ekki  mikið saltan mat. Mætti ég þá frekar biðja um vel sterkt indverskt eða mexíkóskt!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 36
  • Sl. sólarhring: 64
  • Sl. viku: 665
  • Frá upphafi: 1524980

Annað

  • Innlit í dag: 30
  • Innlit sl. viku: 566
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 27

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Brandon Apple
  • Á lausu
  • Jason minn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband