Færsluflokkur: Sjónvarp

Heita Nína ... og pínku bold

Heita Nína, Hæ kanínaOkkur Vikukonum leist illa á saltfiskinn í mötuneytinu í dag og fórum á Taí-matstofuna hinum megin við götuna. Fínasti matur og bara ágætlega huggulegir menn sem þar snæddu.

„Hahahaha,“ hló Íris Hrund samstarfskona mín skömmu eftir að við komum í vinnuna aftur. Tilefnið var spjall um textamistök hjá fólki þegar það sönglar með vinsælum dægurlögum. „Ég söng alltaf „Hæ, Kanína,““ viðurkenndi Íris og flissaði. „Uuuu, það á að vera þannig,“ sagði Björk hissa. Íris starði á hana og sagði: „Ég hef alltaf haldið að það væri Heita Nína?“ Auðvitað hlógum við illgirnislega og ég mundi eftir stelpunni í barnakórnum hennar mömmu sem söng þjóðsönginn á skólaskemmtun: Eitt eilífðar smáblóm með titrandi tær ... Einn aðalbrandarinn í æsku minni.

Boldið gerist æ æsilegra. Nick réðst á Stefaníu og ætlaði að neyða sannleikann upp úr henni, eða að hún hefði hrint Jackie, mömmu Nicks, niður stigann. Donna, sjónarvottur og þó varla, kjaftaði í Nick sem rauk beint heim til Stefaníu, braut rúðu í bakdyrunum þegar hún neitaði að opna, rauk inn með látum. Henni tókst að ná í byssu og hélt honum í fjarlægð þar til Eric, maður hennar, og Ridge, sonur hennar og hálfbróðir Nicks samfeðra, komu hlaupandi til að bjarga henni. Í þættinum í kvöld, sem ég sá nú ekki allan, neitar Nick að þiggja fébætur fyrir þetta, þótt Stefanía hafi alls ekki hrint Jackie, hann heimtar tískufyrirtæki Forresteranna, annars sendir hann Stefaníu í fangelsi!  

P.s. Ég hef fengið þrenn skilaboð frá bloggvinum í gær og í dag sem ég held að séu mér ekki ætluð, sjálf hef ég sent skilaboð sem ég held að hafi farið á ranga staði. Vona að kerfið sé ekki að klikka.


Fullur bíll af kjéddlíngum ... og smá bold

Kaupstaðarlykt í strætóHeilmikið fjör var í strætó á heimleiðinni. Megn kaupstaðarlykt var af síðasta farþeganum sem kom inn í Mosó og sá var í glimrandi góðu skapi. Hann settist nálægt Haffa bílstjóra og reyndi mikið að fá hann til að gera eitthvað spennandi. „Fullur bíll af kjéddlíngum, sérðu möguleikana?“ sagði hann en Haffi lét ekkert trufla einbeitinguna við aksturinn, sýndi bara manninum ótrúlega þolinmæði og aðrir farþegar virtust skemmta sér vel. Sú sem sat fyrir aftan mig hvíslaði að mér: „Mikið er annars gott að vera á lausu.“ Hún meinti, held ég, að það væri gott að eiga ekki von á svona lítið edrú manni heim, frekar en að nú væri lag ... að veiða sér einn góðglaðan. „Ertu til í að koma við hjá hesthúsinu?“ kallaði maðurinn skömmu áður en við komum í göngin. „Já, já,“ sagði Haffi en ók samt beinustu leið á Skagann. Ég hefði ekki þurft að bölva því að vera búin með strætóbókina, en hún kláraðist í leið 15 á leið í Ártún í morgun, svo gaman var á leiðinni. Alltaf samt að vera með varabók!

Brooke og RidgeJæja, Brooke er búin að segja Nick upp sem pakkaði föggum sínum í pínulitla tösku, rétti henni giftingarhringinn og fór. Tár á hvörmum beggja og næstum því kveðjukoss. Brooke vill ekki leyfa systur sinni, Donnu, að segja Nick frá því sem hún sá, eða að Stefanía hafi hrint Jackie, mömmu Nicks, niður stigann. Stefanía sleit sig reyndar lausa af Jackie með þessum skelfilegu afleiðingum að Jackie er næstum í kóma eftir fallið.

„Þú kynnir ekki Beð Brooke fyrir Forrester lengur,“ segir Stefanía við Donnu og er búin að láta Jason pakka niður dóti hennar. Stefanía veit sem satt er að Donna gæti haft truflandi áhrif á vonandi tilvonandi enn eitt hjónaband Ridge og Brooke. Donna er svo skotin í Ridge. Donna er auðmýkt og tautar bölbænir og við vitum (vegna kristalskúlu minnar) að Donna á eftir að stela karlinum frá Stefaníu sjálfri, honum Eric. Svaðaleg hefnd. Brooke eiginlega segir Ridge upp líka en hann „veit“ að það er bara tímabundið á meðan fyrrverandi tengdó, Jackie, mamma Nicks, liggur svona stórslösuð á sjúkrahúsinu.

P.s. Fékk algjört lost þegar Nágrannar voru sýndir á undan boldinu en skv. Eyjunni (eyjan.is) var þetta með vilja gert og auglýst í dagskránni. Það er ekki hægt að treysta á neitt í þessum heimi, hvað næst? Kannski Latibær á besta tíma á laugardagskvöldum? Úps, það er víst þannig.


Bloggarar afhjúpaðir ... og smá bold

BloggararÞeir bloggarar sem héldu að þeir „slyppu við“ að tekjur þeirra yrðu gerðar opinberar geta nú tekið gleði sína þar sem www.dv.is ætlar að opinbera þær fljótlega. Held að þetta sé ekkert leyndarmál svo ég blaðra því bara. Annars segja þessar útsvarstölur ekki allt, sumir lifa á fjármagnstekjum, aðrir fá áætlun, enn aðrir eiga fyrirvinnur og einhverjir vinna hlutastörf. Loksins eitthvað fútt í lífinu fyrir okkur sem hafa sogast inn í heim bloggsins og finnst ekkert þar fyrir utan skipta nokkru máli!

 

Fékk guðdómlegt far með drossíunni hennar Ástu í morgun. Brottför frá himnaríki var kl. 6.55 og geri aðrir betur. Með latte í annarri og latte í hinni hoppaði ég léttfætt niður himnastigann og var mætt í vinnuna upp úr kl. 7.30.

 

Darla heitinTaylor er komin í varðhald og appelsínuguli búningurinn fer henni bara nokkuð vel. Hún þráir heitast af öllu að afplána langan dóm, finnst hún ekki eiga neitt annað skilið fyrir að hafa ekið á Dörlu og orsakað dauða hennar. Thorne er enn öskureiður yfir því að hafa næstum trúlofast Taylor morðingja.

Stefanía reynir að fá garðyrkjumanninn grunsamlega til að segja dómaranum frá því sem hann sá en hann varð vitni að slysinu og getur vottað um það sem gerðist. Sá ætlaði í upphafi að kúga fé út úr Taylor en guggnaði á því þegar Phoebe skar næstum af honum hendina, alveg óvart.

Storm og Taylor í réttarhöldunumLögfræðingur að nafni Storm reynir að verja Taylor en það er erfitt verk þar sem hún vill taka út refsinguna og þjást sem mest. Dómarinn er sammála henni í því og dæmir hana í 10 ára vist í fangelsi með hámarksöryggisgæslu.

Stefanía og „garði“ hlaupa inn í dómsalinn og bregður Thorne mikið þegar hann heyrir þennan trúverðuga fyrrum umrenning segja það sama og ástvinir hans fram að þessu, eða að þetta hafi verið slys.

Svo bara féll tjaldið og enginn mun hvað gerist fyrr en næsti þáttur verður sýndur. Mig grunar að Taylor sitji ekki inni í 10 ár því að hún fer víst fljótlega að deita Nick, eignast með honum barn og síðan deitar hún Rick, son Brooke, en Brooke er einmitt byrjuð á föstu með Ridge einu sinni enn.


Inn á með göngugrindina ...

Latibær„Vá, bara barnaefni á præmtæm á laugardögum,“ sagði ég steinhissa við erfðaprinsinn, enda færist aldurinn hratt yfir mig þessa dagana. Ég áttaði mig á því að hann (aldurinn) hlýtur að vera rosalega smitandi því að sonurinn var enn fúlli en ég yfir því að Latibær verði sýndur eftir kvöldfréttir næstu átján laugardagskvöld frá og með 16. ágúst, afmælisdegi Madonnu. „Ætli við fáum ekki Með afa á sunnudagskvöldum?“ hnussaði í honum. Samt erum við bæði með frekar barnslegan smekk á sjónvarpsefni, elskum ævintýramyndir, Simpsons og slíkt, en „þessi“ fúlheit gætu verið vegna heilsustefnu þáttanna ... hreyfing, útivera, hollur matur og slíkt ... á nammidegi!

Heilsubælið„Ja, ekki sýna þeir íslenska þáttinn Heilsubælið í Gervahverfi sem ég lék svo eftirminnilega í,“ hélt ég áfram, þakklát syninum fyrir að taka undir nöldrið. „Varstu ekki bara stadisti þar og lékst öxl í náttslopp?“ spurði hann. „Ja, ég var a.m.k. mjög eðlileg og flott öxl,“ svaraði ég snúðugt.

 

PikkkknikkkkkHér í himnaríki vorum við nýböðuð og pússuð í sparifötunum á leið út úr dyrunum þegar ég mundi skyndilega eftir því að matarboðinu kl. 18 hafði verið aflýst. Það hafði verið ákveðið af fyrrverandi tilvonandi gestgjöfum að fara frekar í fallegan lund um miðjan dag og borða smurt brauð með Úlfi og Ísaki, tvíburunum guðdómlegu, og leyfa þeim að hlaupa á Langasandinum ... í stað þess að vera flugnalaus inni í þægilegheitunum og borða grillmat. Okkur var vissulega boðið að koma í útivistina, hollustuna, flugurnar og hreyfinguna og það allt en kommon, ekki á sunnudegi. Við létum ekki hugfallast, heldur smurðum okkur gamlar flatkökur og ætlum bara að detta ofan í bókmenntir, ekkert minna en Dean Koontz, hann með nýju bókina, Góða strákinn, og ég með gamla og góða, From the Corner of his Eye sem er tryllingslega spennandi. Jú, auðvitað horfa á Monk sem er að hefjast.

Mikið er ég ánægð með umferðarmenninguna núna. Þegar ég fór í Borgarfjörðinn í gær óku allir á 90 km/klst, ekkert stress, enginn framúrakstur alla leiðina, bara frábært. Vona að þetta haldi áfram svona alla helgina. Þetta er ábyggilega öllum áróðrinum að þakka ... með dassi af ógeðslega háu bensínverði.


Guðni Ág. öskureiður og Thorne trylltur - brjálað bold

Sverrir GuðniJa, hérna. Sverri Stormsker tókst að gera Guðna Ágústsson, fv. landbúnaðarráðherra, svo brjálaðan í útvarpsviðtali í dag að hann rauk á dyr.

Sjá: http://dv.is/frettir/2008/7/30/gudni-rauk-dyr-hja-stormsker/

 

„Þú myrtir konuna mína,“ segir Thorne alveg sjokkeraður í boldinu. „Og ég sem bað þín! Þú laugst að mér og dóttur minni.“ Thorne er að sleppa sér. „Kennirðu Dörlu um þetta?“ öskrar hann svo þegar Taylor segir að Darla hafi dottið fyrir bílinn (sem er satt). Stefanía fréttir af þessu og ætlar að drífa sig upp í Big Bear, sumarhús Darla og Thornefjölskyldunnar, þar sem Thorne hafði ætlað sér að eiga rómantíska stund með Taylor. Þá hringir dyrabjallan, Baker fulltrúi kominn í heimsókn. Hann segist vita að Taylor hafi setið undir stýri og heimtar að þau játi öll með tölu!

Talor og Hector slökkviliðsGeðlæknirinn geðþekki segir Thorne hvað henni líði illa og hún sjái í sífellu fyrir sér óttaslegið andlit Dörlu á framrúðunni. Eins og það sé þetta sem Thorne þarf helst að heyra þessa dagana. Taylor nuddar meira salti í sárin ... „nú sér Darla litlu stúlkuna sína aldrei vaxa upp. Ó, andlitið á henni á framrúðunni hjá mér. Ég elska þig og hvert sem ég fer mun ég biðja fyrir þér. Þú verður í hjarta mínu til eilífðar!“ Samt vitum við áhorfendur að hún á eftir að deita Nick og verða ófrísk eftir hann með eggi Brooke, hún á líka eftir að deita son Brooke, hann Rick. Síðan hringir hún í fulltrúann, þar sem hann er staddur hjá hinum sem vissu, og játar allt. Hann sendir samstundis löggubíl eftir henni.

Baker fulltrúiNú er Taylor komin í varðhald og lúmskur Baker fulltrúi lætur hana segja frá öllum sem vissu af þessu; dótturinni Phoebe, Hector slökkviliðsmanni og Stefaníu sem teljast samsek og geta lent í fangelsi. Þegar hún af heimsku sinni er nýbúin að „skvíla“ þessu kemur Ridge, fyrrum eiginmaður hennar og pabbi Tómasar og tvíburanna, og bannar henni að tala meira fyrr en lögfræðingur er mættur.

PhoebePhoebe fer til Thorne, föðurbróður síns, og biður hann um að fyrirgefa þeim, aðallega Taylor, mömmu hennar. Thorne segist ekki trúa því að Darla hafi dottið fyrir bílinn, það sé léleg afsökun. Gullfalleg lyftutónlist ómar svo eftir að hann er orðinn einn. Hugsa sér, tvöföld sorg. Fyrst deyr konan hans og svo örfáum vikum síðar, þegar hann er orðinn ástfanginn af Taylor, þarf hún endilega að vera ökumaðurinn sem keyrði á Dörlu. Aumingja Thorne. Hvernig fer þetta?

Frábærir Skagamenn, panik í Mosó og ör-bold

Gjafmild SkagastelpaFékk fréttir frá Rauða krossinum í dag. Skagamenn hafa verið svo gjafmildir á fatnað, húsbúnað og húsgögn að búið er að kúffylla skemmuna og ekki er pláss fyrir meira. Þetta eru frábærar fréttir og segir margt um Skagamenn og nærsveitunga sem hafa komið með heilu kerrurnar af dóti til að gefa palestínsku flóttakonunum sem koma líklega til landsins eftir u.þ.b. mánuð. Ég átti að vinna næsta mánudagskvöld til að taka á móti hlutum en var tilkynnt að ég þyrfti ekki að mæta. Söfnunin hefur gengið framar öllum vonum! Húrra, Skagamenn!!!

Vinkona mín skutlaði mér í Mosó seinnipartinn, eiginlega upp á líf og dauða. Brottför frá Lynghálsi var kl. 17.36 vegna gífurlegrar umferðar sem tafði hana á leiðinni til mín. Strætó átti að fara frá Mosó kl. 17.45, eftir sjö mínútur! Arggg! Ég treysti á að leið 15, sem Skagastrætó bíður alltaf eftir, yrði örfáum mínútum of sein Esjanað vanda, og við brunuðum eftir Vesturlandsveginum, auðvitað á löglegum hraða. Vinkonu minni fannst ekki hægt að ég væri búin að vinna kl. 17.30 og þyrfti að bíða í rúman klukkutíma eftir að geta lagt af stað heim! Þegar hringtorgið hjá KFC kom í augsýn sáum við Skagastrætó aka út úr því áleiðis heim og stressuðumst við heldur betur. Vinkonan sagðist bara elta strætó að stoppistöðinni hjá Esjunni (Akrafjalli 2) en ég reyndi að senda einhverjum Skagamanninum í vagninum hugskeyti og að hann fengi óviðráðanlega þörf fyrir að fara út á stoppistöðinni í Lopabrekkunni í Mosó, þarna skömmu áður en komið er að afleggjaranum upp í Mosfellsdal. Þetta tókst, elsku strætó beygði inn á stoppistöðina, Skagamaðurinn þaut út í erindisleysu Í flugvélörugglega, vinkona mín fleygði mér út á ferð fyrir framan vagninn og ég þaut inn í strætó sekúndubroti áður en hann lagði af stað á Skagann. Þvílík spenna. Einn karlinn af Sætukarlastoppistöðinni sat í mínu sæti en ég var svo þakklát fyrir að hafa náð vagninum að ég stóð ekkert í því að fleygja honum aftur í til hinna villinganna. Náði að setjast fyrir aftan bílstjórann á Kjalarnesi og gat rétt úr fótunum. Annars er sniðugt að sitja aftar í strætó t.d. skömmu fyrir ferð til útlanda, svona til að venja sig við og læra að bregðast við krömpum, andnauð, ofsapanik og innilokunarkennd.

Illi lögreglustjórinn í DesperationÆtla að horfa á Stephen King mynd í kvöld kl. 22.20 á Stöð 2. Desperation heitir hún! Ég las bókina fyrir nokkrum árum og minnir að hún hafi verið hrikalega spennandi. Vona að myndin verði jafngóð ... þær geta verið misjafnar blessaðar. Besta myndin eftir bók Stephens King er örugglega The Shining og kannski ekki skynsamlegt að vonast eftir álíka gæðum ...

Bað erfðaprinsinn fyrr í dag um að kíkja á boldið fyrir mig þar sem ég vinn alltaf svo lengi á föstudögum og hann sagði að hún þarna með varirnar (Taylor) hefði loksins sagt honum þarna sem missti konuna (Thorne) að hún hefði sú sem ók á þarna konuna (Dörlu) og olli dauða hennar. Framhald eftir helgi.


Veðurbeltið í Háholti, gamalkunnur geitungur og smá bold

Í HáholtiNýi bílstjórinn mætti á vaktina í morgun, úthvíldur eftir gott frí. Hann kom okkur heilu og höldnu í Háholt í Mosó þar sem ríkti óvenjugott veður miðað við staðsetninguna. Háholtsveðurbeltið er öðruvísi en öll önnur veðurbelti og sækir kvikindisskap sinn alla leið til útlanda. Fárviðri og fellibyljir hamast í Ameríku, ná í sig enn meira afli í ítölsku Ölpunum, smeygja sér þaðan út á Atlantshaf, lauma sér inn í Faxaflóann og upp í Háholt í Mosó þar sem það deyr út eftir að hafa farið illa með Skagamenn sem þurfa að húka þar í fjórar mínútur í bið eftir leið 15. Vísindalega útreiknað!

Í Mosó sá ég ekki betur en litli geitungurinn, sem laumaði sér með okkur frá Kjalarnesi fyrir nokkrum vikum, hafi verið þar á sveimi. Hann hefur stækkað einhver ósköp og lagði karlmennina, kuldaskræfurnar í skýlinu, í einelti.

Við Vesturlandsveginn í morgunGuðný í vinnunni náði að grípa mig í Ártúni, rétt á undan leið 18, sem spældi örugglega DV-blaðamanninn sem hélt að hann yrði á undan mér í vinnuna. Hann fór út á Vesturlandsveginum og gekk upp Súkkulaðibrekkuna. Það var samt sárt að horfa á eftir unga fólkinu feta sig niður mjög háan kantinn og niður í hyldýpið út frá Vesturlandsveginum. Stelpan í hælaháu skónum fékk þó góðan stuðning frá vini/kærasta, annars hefði hún rúllað alla leið, eins og ég í fyrra. Ég mótmæli þessarri stoppistöð með því að nota hana ekki og mun ekki gera fyrr en það eru komnar tröppur þarna eða við fáum afhentar fallhlífar eða sigbúnað. Ungu krakkarnir halda þau að þau séu eilíf, ég þekki lífið betur og byltur þess ...

Dark KnightUm tíuleytið mætti viðtalsefnið mitt í hús, fékk förðun hjá Haffa og svo lögðum við öll í hann í Kópavoginn og hafði ljósmyndari bæst í hópinn. Ég ætla að fara að skrifa viðtalið, svona á meðan það er í fersku minni. Hætti frekar aðeins fyrr á morgun og fer á fjögursýningu á Dark Knight! Það er uppselt á allar seinni sýningar út árið, held ég. Alla vega næstu daga.

Talyor, Ridge, Nick og BrookeBrooke er í miklu uppnámi vegna svika Nicks (sem svaf hjá dóttur hennar, Bridgeti, sem er reyndar fyrri kona Nicks). Donna, systir Brooke, var næstum því búin að forfæra Ridge en þá kom Brooke grátandi þangað og fór beint í fangið á Ridge. Hann var ekki einu sinni búinn að þurrka varalit Donnu af vörum sér þegar hann kyssti Brooke ástríðufullt. Bridget bað mömmu sína um að sýna Nick miskunn og halda áfram að vera gifta honum, en Ridge mun án efa ekki sleppa Brooke svo auðveldlega. Stefanía er alsæl, enda vill hún að Ridge og Brooke verði saman. Ef hún bara vissi ... Donna beinir spjótum sínum nefnilega næst að eiginmanni Stefnaníu, Eric, sem hún hefði ekki gert ef hún hefði fengið Ridge.

Rick, sonur Brooke, og TaylorNú fer unga kynslóðin að koma inn. Það er t.d. ekki mjög langt í að Rick, bróðir Bridgetar og sonur Brooke, fari að deita Taylor, fyrri konu Ridge og mömmu Tómasar og tvíburanna. Held meira að segja að Taylor stingi undan öðrum tvíburanum sínum með Rick. Taylor hefur í mörg ár keppt við Brooke um ástir Ridge sem er í raun hálfbróðir Ricks nema þeir eru ekki blóðskyldir. Ridge er Massimo í raun og því hálfbróðir Nicks.


Rafmagnsleysi, bold og fyrri fegurðarþrá ...

Stuð í rafmagnslausu himnaríkiRafmagnið fór af hér á Skaganum í hálftíma í gærkvöldi. Þetta gerist ekki oft og kenni ég Önnu minni alfarið um þetta en hún hefði stýrt tölvunum í Orkuveitunni af öryggi í gær ef hún væri ekki í sumarfríi núna. Hvað gerir maður ekki í ofboði sínu þegar allt er hrifsað frá manni? Jú, ég fór að þvo spjarir á þvottabretti, strokka smjör, súrsa slátur og þess háttar og ég var ekki fyrr búin að búa mér til kaffi með hlóðabragði þegar rafmagnið kom á aftur. Erfðaprinsinn hafði þá handskorið ýmsa hluti og var að útbúa brúðuleikhús inni í sjónvarpstækinu. Hann er enn að reyna að púsla sjónvarpsinnvolsinu saman.

Fyrri fegurðHér í himnaríki hefur illa gengið að sofa út, hryllingsandlitið vekur eldsnemma og heimtar sitt krem! Lítið lát er á bólgu og kláða og langar mig mest að leggjast inn á spítala með íbúfen í æð ... Jamm, þetta var væl dagsins. Verst að við Mette-Marit erum ekki í sambandi, þá gæti ég spurt hana hvað bataferli hennar tók langan tíma þarna 2002. Ég veit auðvitað að hún myndi fara að væla um hornhimnubrunann sem hún fékk líka og gera lítið úr hinu. Doktor Sigríður sagði að það tæki fimmtudaginn og helgina að ná fyrri fegurð og nú er langt liðið á sunnudag, a.m.k. miðað við A-manneskju-fótaferðatímann þessa dagana.

Boldið er alltaf jafnspennandi. Thorne vill fara með samband þeirra Taylor yfir á næsta stig (fara að sofa hjá henni) og hún virðist bera tilfinningar til hans líka. Eric, pabbi Thornes, segir við Stefaníu, konu sína og mömmu Thornes, að hann sé eitthvað stressaður yfir samdrætti þeirra, enda svo stutt síðan BoldiðThorne varð ekkill, en Stefanía róar hann niður. Í þann mund kemur Thorne sjálfur og virðist vera að springa úr hamingju eftir rómantískt matarboðið með Taylor. „Mamma,“ segir hann, „ég er þér þakklátur fyrir að hafa látið mig hætta að leita að morðingja Dörlu og horfa fram á veginn.“ Morðinginn Taylor hefur það ekki jafnkósí því að garðyrkjumaðurinn er búinn að opna sig fyrir henni og líka Phoebe, dóttur hennar, Hectori slökkviliðsmanni og öðrum ungum manni og segist hafa orðið vitni að slysinu sem kostaði konu Thornes lífið. Taylor geðlæknir fær kast og ætlar enn einu sinni að viðurkenna allt fyrir Thorne þótt nú hafi bæst nýr einstaklingur við sem gæti endað í fangelsi fyrir samsekt, eða garðyrkjumaðurinn sjálfur. Hann lofar að steinþegja og vill ekki krónu fyrir það þótt ætlun hans hafi reyndar verið sú í upphafi að fá milljón dollara. Hector hneggjar af hneykslan og trúir engu sem kvikindið segir þeim.

Nick, Brooke og Hope DeaconsdóttirEftir að Brooke og Nick giftu sig aftur, eða endurnýjuðu heitin, eru þau að springa úr hamingju. Nick hefur þó áhyggjur af því að vera búinn að barna fyrrum eiginkonu sína og núverandi stjúpdóttur, hana Bridget. Brooke fær örugglega að vita fljótlega að hún er að verða amma stjúpsbarns síns. Verst að hún var búin að lofa Donnu, systur sinni, að Ridge væri endanlega horfinn úr hjarta hennar og gaf systu veiðileyfi á Ridge, með trega þó. Brooke sagðist vera svo örugg með Nick, hann myndi aldrei svíkja hana eins og Ridge gerði ... hahaha. Hún veit auðvitað ekki að þegar hún kyssti Ridge oggulítið á dögunum og það fréttist með ljóshraða innan fjölskyldunnar þá fór Nick og svaf hjá Bridget ... og barnaði hana.


Af sápuóperum og spennubók

Ljóta LetyÍ gær lullaði Stöð 2 á allan daginn og án þess að ég væri fyrir framan tækið tók ég eftir því að spænska var mjög áberandi fyrrihluta dags. Ákvað að kanna málið á Netinu og sá að komnar eru á dagskrá tvær sápuóperur í stað einnar þar sem töluð er spænska (eða portúgalska, þekki ekki muninn). Eftir boldið, sem er góðkunn ammrísk sápa, hófst þátturinn Ljóta Lety, fyrirmyndin að Ljótu Betty, eða La Fea Más Bella. Síðan eftir hádegisfréttir og áströlsku sápuna NágrannarNágranna tók við Forboðin fegurð, ný suðuramerísk smásápa í 114 þáttum og voru sýndir 3. og 4. þáttur í gær alveg til kl. 14.30. Þar er fjallað um þrjár hálfsystur sem alla tíð hafa liðið mjög fyrir fegurð sína ... Svo kom blessað boldið aftur í endursýningu og Nágrannar í kjölfarið. Segið svo að sápuóperur séu ekki vinsælar, bara í gær voru sex sýningar.

Mikið hlakka ég til að setjast í helgan stein ... sem verður pottþétt í leisígörl fyrir framan Stöð 2. Get fylgst með fallega fólkinu og lífi þess og lært framandi tungumál í leiðinni. Stundum horfi ég á Nágranna og skil áströlsku núorðið mjög vel.

Sænska bókarkápanSjónvarpsdagskráin var síðan hundleiðinleg í gærkvöldi, skárst á RÚV, og ég byrjaði að lesa nýja bók eftir Lizu Marklund, Lífstíð. Annika Bengtzon blaðakona er aðalpersónan í henni og kannar morð á lögreglumanni. Þessi bók byrjar þar sem Arfur Nóbels endaði en þar slapp hún naumlega út úr brennandi húsi með börn sín tvö ... Bækur Lizu Marlund eru allar frábærar og þessi lofar mjög góðu. Ætla að klára hana á eftir og hlakka mikið til.

Í morgun hefur lífið við Langasandinn verið eins og í myndinni The Birds, mávager og önnur krútt sveima í stórum flokkum fyrir framan og hafa Svona ...kettirnir verið á gluggaveiðum í allan morgun. Sitja ógurlega spenntir og stara. Erfðaprinsinn kom til mín áðan og sagði sannfærandi: „Það er allt annað að sjá þig!“ Ég leit í spegil og sá að andlitið var eldrautt og enn bólgið og ferkantað (hamstursfés). Ég kýs samt miklu frekar svona krúttlega lygi en ískaldan sannleikann.


Skrýtna árið 2001 - plús smá bold ...

Pabbi, Bryndís og erfðaprinsinnÍ dag á Dean Koontz rithöfundur afmæli og ekki bara hann, heldur einnig Elín Arnar, ritstjórinn minn. Til hamingju með daginn bæði tvö. Svo er þetta líka dánardagur pabba en hann dó þennan dag 2001, sjötugur að aldri.

Snemma í janúar 2001 dreymdi mig að ég missti fjórar tennur. Draumspök vinkona mín hristi höfuðið og sagði að þetta táknaði yfirleitt ástvinamissi. Hálfum mánuði seinna dó sonur vinafólks míns, yndislegur ungur maður, ég syrgði hann ofboðslega mikið og geri enn. Um sumarið missti móðursystir minn manninn sinn og skömmu síðar dó pabbi. Ég var löngu búin að gleyma þessum draumi mínum, enda hef ég talið drauma frekar vera undirmeðvitundina að verki frekar en að hafa forspárgildi. Rétt fyrir jólin þetta ár varð þrítugur frændi minn bráðkvaddur, ungur og efnilegur læknir sem dó frá konu og ungri dóttur. Í jarðarförinni hans mundi ég svo drauminn og ráðningu vinkonu minnar á honum.

11_sept_2001_596377.jpgÞegar 11. september-hörmungarnar dundu yfir gat ég ekki gert að því að hugsa að þarna hefði pabbi misst af miklu, hann var svo mikill fréttafíkill. Ein fyrsta bernskuminningin mín var þegar hann sat stjarfur fyrir framan útvarpstækið og sussaði á mig og systkini mín, Kennedy hefði nefnilega verið myrtur.

 

Heilsan er öll að koma til en ég er enn með brunablöðrur á kinnunum. Þær fara minnkandi og ég hef haft þær marineraðar í góða jurtasmyrslinu frá Móu. Það dregur alveg úr sviða og kláða. Líklega hefur húðin verið ofurviðkvæm eftir förðunina á mánudaginn og algjör klikkun að fara í sólbað á svölunum. Eins gott að ég keypti það um daginn þegar ég fór í Heilsuhúsið, annars væri ég í slæmum málum.

 

BridgetBrooke og NickNick ákvað að koma Brooke sinni á óvart, pantaði prest og þau giftu sig aftur ... ókei, endurnýjuðu heitin. Sama kvöld segir Bridget honum að hún sé ófrísk eftir hann. Þau ætla að segja Brooke þetta á morgun. Taylor fær viðurkenningu frá AA, 60 daga edrúmerkið. Hún og fyrrum mágur hennar, sorgmæddi ekkillinn, Thorne, virðast voða happí saman, enda veit hann ekki að hún ók af slysni á Dörlu og drap hana.

 

Dularfulli garðyrkjumaðurinn sem Phoebe næstum skar hendina af fyrir slysni Darla heitin og Thornebýr enn á heimili hennar og Taylor, mömmu hennar.

Þar býr líka Hector slökkiviliðsmaður, eftir að hann blindaðist í brunanum, og hann hefur grun um að garðyrkjumaðurinn sé eitthvað dúbíus. Ef hann bara vissi að nú er hann með Phoebe í bíltúr og segir henni að hann hafi verið vitni að dauða Dörlu. Hann hafi verið dularfulli, skeggjaði gaurinn sem næstum hræddi úr henni líftóruna þegar hann bauð fram hjálp sína við að skipta um dekk. Phoebe er dauðhrædd!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 34
  • Sl. viku: 828
  • Frá upphafi: 1515923

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 701
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Mikið labb
  • Draumar úr snjó
  • Engin tilviljun

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband