Dularfull spá fyrir 2023

Völvan 2007Þar sem ég sat við vinnu mína í dag og hlustaði á meðan á Spotify-listann minn með fjölbreyttri tónlist, fékk ég hugmynd. Drengurinn fór í Hvíta húsið (ungmennahús á Skaganum) svo ég hef Spotify í friði. Róleg lög, villt lög, nýleg og gömul lög, og allt þar á milli.

 

Eftir tvö eða þrjú lög ákvað ég að spá fyrir mér. Hvernig ætli nýja árið verði, gerist loksins eitthvað í tengdasonarmálum pabba, heldur sjórinn minn áfram að vera svona flottur og verður lítið um hálku í vetur ... og það allt. Ok, hugsaði ég, næsta lag sem kemur (ég var með stillt á stokkun / shuffle) mun segja allt um nýja árið hér í Himnaríki. Plís, ekki hafa það óskiljanlegt bull, eins og Horse with no name (America) eða eymdarlegt ár, Solitude (Black Sabbath), hvað þá um biluð þrif ... Cleanin´Out my closet (Eminem), frekar t.d. Going to California (Led Zeppelin) eða spennandi, Gangsta´s Paradise (Coolio). Ég beið spennt. Auðvitað kom auglýsing fyrst til að auka á taugaspennuna sem var byrjuð að myndast.

 

Svo kom lagið ... og þvílíkur spádómur: No One Knows (Queens of the Stone Age). Hefði svo sem getað verið eitthvað móðgandi á borð við: Old and Wise (Alan Parsons) svo ég kvarta alls ekki. (Myndin völvulega er auðvitað af mér, montrassinum úr Þingeyjarsýslu, af forsíðu völvublaðs Vikunnar 2007, ég var forsíðufyrirsætan af því að ég var langelst á ritstjórninni, hrukkur geta verið svo töff, en hreykin móðir mín sagði öllum í kjölfarið að ég væri völva Vikunnar, sem var rosalega erfitt að leiðrétta).

 

TónlistÞað er þessi dagur í dag, sá sem á að vera verstur allra daga og hefur svo sem verið það. Sá í dag er þó bestur þeirra til þessa. Fimm ár frá slysinu hans Einars. Sá fyrsti, ári eftir slysið, var í Orlando í Flórída. Samferðafólk mitt fór í skemmtigarð og ég settist við sundlaugarbarinn og horfði á skemmtilegan fótboltaleik, drakk einn bjór, eitthvað af kaffi og las líka. Vinsælasta lagið var Shallow með Lady Gaga og Bradley Cooper - og það hljómaði nokkrum sinnum á meðan ég sat þarna í hitanum. Næsti "þriðjinn" var í Conway hjá elsku Elfu og Tom. Ég kom heim 7. janúar 2020, mjög sátt við að verða ekki föst ytra vegna bráðsmitandi víruss sem var aðeins farið að tala um, meira á Íslandi en í Bandaríkjunum, en fáir hér virðast muna eftir þessum fréttaflutningi svona snemma en ég geri það, því ég man eftir feginleika mínum við að ná að lenda á Íslandi snemma í janúar. Kaninn heldur, eins og Íslendingar um Ísland, að allir vilji búa í USA - ég vil bara búa á Íslandi - meðal annars vegna veðursins.

Hinir þriðjujanúarnir liðu bara heima í rólegheitum við vinnu og tónlist. Það kemur sér ansi vel að eiga bestu ættingja og vini í heimi sem skilja þessa þörf fyrir að vera ein þennan dag, eða án gesta eða blóma, meira að segja konfekts. Eina heimsóknin í dag var frá Eldum rétt, örsnögg og eldhress - og tryggir okkur stráksa fínasta kvöldmat. Drengurinn hafði það svakalega gott yfir áramótin hjá mínu fólki, kom ekki fyrr en í gærkvöldi með strætó. Á meðan hann var í góðu yfirlæti í Kópavogi held ég að mér hafi tekist að ná úr mér mestu næstum-því-veikindunum.

 

Megi árið 2023 verða ykkur rosalega gott, elskurnar.

Legg ég á og mæli um! 

 

Þetta er sem sagt það sem gerist á nýja árinu í Himnaríki:

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 220
  • Sl. sólarhring: 257
  • Sl. viku: 1764
  • Frá upphafi: 1453923

Annað

  • Innlit í dag: 178
  • Innlit sl. viku: 1466
  • Gestir í dag: 166
  • IP-tölur í dag: 164

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Sven-Göran
  • Hálka
  • Sumardagurinn fyrsti 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband