Færsluflokkur: Tölvur og tækni

Símaraunir, játningar og enn ófært ...

SímaspjallÆvintýrin láta ekki á sér standa þótt ég sitji heima veðurteppt og föst við tölvuna. Kl. 11.30 í morgun átti ég að mæta í stúdíó 3 í Útvarpshúsinu og spjalla við Margréti Blöndal í þætti á Rás 1. Ég sendi henni SMS fyrr í morgun og sagði henni stöðuna. Ófært í bæinn og heimasíminn bilaður. Vildi ekki sjokkera hana með því að segja henni að gemsinn minn þyldi ekki nema í mesta lagi fimm mínútna símtöl áður en hann dræpi á sér. Ég var reyndar búin að vinna heilmikla rannsóknarvinnu fyrr í morgun með því að hringja úr gemsanum í heimasímann. Engin hringing heyrðist en ég prófaði samt að svara og átti þarna eitt skemmtilegasta og persónulegasta símtal ævi minnar.

Lét útvarpsfólkið vita af þessum möguleika og þegar tæknimaðurinn hringdi í heimanúmerið hringdi Magga í gemsann til að segja mér að svara. Þetta gekk ekki alveg upp í fyrstu tilraun, það slitnaði ... en við endurtókum leikinn og þá gekk allt eins og í sögu. Þetta gerðist sem betur fer þegar lagið á undan viðtalinu hljómaði ... og ekkert fattaðist.

Tilbúin fyrir símamanninnÞað gekk hratt og vel að ná sambandi við Símann (1771) þótt ég hafi verið númer fimm í röðinni. Ljúfur drengur, sem vildi allt fyrir mig gera, stakk upp á því að ég tæki símann úr sambandi við Netið, prófaði að setja eingöngu símann í samband, án allra truflana frá sítengingu . Ég gerði það en þá kom enginn sónn, eins og er núna.

Pantar maður ekki bara sætan símamann (40+) í heimsókn? Mér finnst eina leiðin til að tæla karlmann vera að plata hann í himnaríki, sérstaklega ef hann er ekki viðbúinn, eins og mennirnir í Einarsbúð, sem koma nú alltaf tveir saman, líka Pólverjar í svalaviðgerðir, þeir mæta aldrei færri en tveir. Þetta er t.d. ástæðan fyrir því að Vottar Jehóva koma tveir ... og líka Mormónar ... og líka löggur. Ég tala af reynslu ... og beiskju. 

Ásta hringdi (í gemsann minn) áðan og sagðist vera strandaglópur. Strætó er ekki enn farinn að ganga þar sem enn er of hvasst á Kjalarnesi. Það er samt farið að lægja. Ásta fékk far um áttaleytið í morgun hjá Birki sínum, alveg viss um að ég hefði einhvern veginn komist í bæinn, og ætlaði að bjóða mér far með sér og manni sínum sem er á leiðinni frá Akranesi til að sækja hana. 


Sjálfsstjórn og liðugt lyklaborð

VöknuðÞað fer að komast upp í vana að vera árrisul um helgar. Nú eru þetta orðnar tvær helgar í röð og kannski hægt að tala um reglu. Klukkan var ekki orðin hálfellefu þegar ég vaknaði. Tek það fram að ég þurfti að beita mig virkilega hörðu til að snúa mér ekki á hina hliðina og halda áfram að sofa. Sumir segja að þeim líði best í rólegheitunum fyrir allar aldir þegar lífið ekki komið í gang. Ekki get ég tekið undir það, ekki enn að minnsta kosti.
 

Eyjagosið 1973Ég vorkenndi einni vinkonu minni alveg rosalega yfir því að þurfa alltaf að vakna til dóttur sinnar fyrir kl. 6 á morgnana, eða miðja nótt, þá var krakkaormurinn hennar útsofinn og eldhress. Á þeim tíma hófst útvarpið kl. 7 og sjálfur Jón Múli hjálpaði fólki ljúflega inn í daginn. Eina skiptið sem mömmu tókst að koma mér á fætur fyrir sjö var þegar hún kom hlaupandi inn í herbergið mitt og tilkynnti mér að Vestmannaeyjar væru ónýtar! Hún hafði þann vana að kveikja á transister-batterístækinu þegar hún vaknaði og skömmu síðar, eða á sekúndunni, sló útvarpsklukkan. Þennan morgun brá henni í brún þegar hún heyrði að allt var komið í gang hjá RÚV og hélt að vekjaraklukkan hefði bilað. Prófinu, sem ég átti að fara í, var frestað þar sem Austurbæjarskóli var tekinn undir flóttamenn úr Eyjum. Við í bekknum mínum græddum Eyjapæjuna Emmu Davíðs í kjölfarið og urðum við það örlítill hluti af ævintýrinu. Mig minnir að það hafi verið mamma hennar sem fór að pakka niður ýmsum óþarfa í klikkuðum flýti þegar verið var að rýma Eyjar ... m.a. lambalæri úr frystinum. Ég fór síðan að vinna í Eyjum rúmu ári seinna og það var nú meiri ævintýratíminn. Vann m.a. með Shady Owens, hef nú sagt frá því áður, en það var eiginlega hápunktur lífs míns fram að því að hafa fengið að hlaupa út í sjoppu fyrir hana.

Ja, hérna, hvað lyklaborðið getur farið með mann út um víðan völl ... þetta átti að vera montfærsla um sjálfsstjórn og ég er allt í einu farin að tala um Eyjagosið 1973.


Mannlegur róbót og "átakanlegt" sjónvarpefni

Tommi og róbótinn í kröppum dansiEitthvað er nú andlegt ástand orðið sérkennilegt hér á bæ. Nú er ég farin að spjalla hástöfum við vélmennið. „Svona, suss, ekki fara hingað, þú lendir bara í sjálfheldu!“ Hmmm, ég er ekki enn búin að kaupa batterí í hnullungana tvo sem varpa geisla sem róbótinn kemst ekki fram hjá. Vá, ef tækni nýrrar aldar hefur ekki hafið innreið sína í himnaríki þá veit ég ekki hvað. Fljúgandi bíll er ekki svo fjarlægur möguleiki lengur ...

Það er eins og vélmanninum finnist það sérstök áskorun að komast niður þennan sentimetra sem gólfið er lægra í kósíhorninu (sjá mynd) en kannski getur hann alveg bjargað sér þarna, komist bæði upp og niður af sjálfsdáðun, prófa það næst. Ég er samt búin að koma fyrir alls kyns  hindrunum sem hann reynir að ýta frá til að þrífa, þrífa, þrífa!!! Ég elska þetta kvikindi! Það sést orðið í mynstrið á kattaháramottunum, ég meina fínu persnesku teppunum!
Nú hefur þessi elska hreinsað eldhús, stofu og gang vel og vandlega og ég þarf bara að hagræða snúrum betur í svefnherberginu áður en ég hleypi honum þangað, ef hann fær aðgang. Ekki hver sem er kemst í meyjarskemmuna! Hann rakst tvisvar á Tomma í dag þar sem Tommi flatmagaði á stofugólfinu en það er engin hræðsla í gangi hjá hetjuketti himnaríkis. Meira að segja Kubbur fer alveg að taka hann í sátt! Ég bíð eftir að þeir

Hvað er í gangi á Stöð 2? Ekkert nema átakanlegir þættir eða myndir. Nú var að hefjast framhaldsmynd mánaðarins, átakanleg mynd um Natalie Wood. Nýlega var átakanleg fótboltamyndá dagskrá og mig minnir að framhaldsþátturinn um Henry VIII sé líka auglýstur átakanlegur. Er þetta kannski átakanlegur skortur réttra orða í íslensku? Eða er þetta svona söluvænt orð? Ég skipti í hvelli yfir á SkjáEinn þegar átakanlega framhaldsmyndin hófst og ætla að horfa á VEÐURMYND sem heitir Superstorm! Vonandi verður fullt af brimi í henni, kannski eitthvað í líkingu við þetta:
http://www.youtube.com/watch?v=bVU43tNSXXc&NR=1

Á eftir Superstorm hefst nýr læknaþáttur. Ætla að gefa honum séns þótt hann virðist væminn. Í treilernum sýnist mér læknirinn vera að segja konunni sinni og börnunum upp svo að hann geti fórnað sér enn frekar fyrir sjúklingana. Ég hlýt að hafa misskilið eitthvað og þess vegna ætla ég að horfa. Svo hefst House á fimmtudaginn!


Nafnasamkeppni ... og áskorun til stjórnvalda

Tommi og Þá er kominn tími til að opinbera hvaða þroskaleikfang kettirnir fengu að gjöf á föstudaginn. Ég geri að sjálfsögðu allt fyrir kettina mína, þótt það kosti tugi þúsunda, jafnvel milljónir ... Þegar Jónatan hætti að kíkja á svalirnar kom stór eyða í líf Kubbs og Tomma og eitthvað þurfti að gera og það strax! Ég hugsaði mig vel um og festi svo kaup á Roomba-vélmenni, iRobot, sem mun skemmta þeim konunglega í vetur. Það er framleitt af sömu aðilum og gera vélmennin sem aftengja sprengjur í útlöndum en ég vildi frekar fá tæki sem gerði meira gagn í himnaríki og sæti Rúmbinn mun sjá um húsverkin héðan í frá. Vona að þetta hafi verið rétt val hjá mér. Hitt getur komið sér vel.

Það vantar fleiri karlmenn á heimilið (sorrí, Tommi) og því bið ég ykkur, kæru bloggvinir, að stinga upp á góðu karlmannsnafni sem passar við vélmennið. Loksins rætast draumar mínir. Þegar ég var lítil var ég viss um að árið 2000 myndu jarðarbúar ferðast um á flugbílum og hægt væri að stinga pillu í tæki sem breytti henni samstundis í góðan mat. Róbótinn er kominn, þá hefst bara biðin eftir pillunni.
Nú situr Tommi á stól og horfir hugfanginn á ryksuguróbótinn, Kubbur er aðeins fjær, enda frekar tortryggin kisa. Akkúrat núna var tækið að ljúka þrifum í stofunni og rúllaði sér sjálft í heimahöfn í hleðslu.    

ATH - ATH:

Eftirfarandi bréf barst hingað sem komment og mér er bæði ljúft og skylt að birta það hér til að vekja meiri athygli á því:

Undanfarna daga hafa birst afar skeleggar greinar um stöðu velferðarmála á Íslandi - einkum hvað lýtur að sjúkum og öldruðum. Þar skrifa konur sem fá daglega að reyna kerfið á eigin skinni - auk þess að berjast við 4 stigs krabbamein. Ég hvet þig eindregið til að lesa færslu á : http://www.blogcentral.is/gislina sem ber yfirskriftina „Mótmælum öll“, skoða athugasemdirnar og veita innihaldinu áfram á þinni síðu.
M. kv.
Linda María

Kíkið endilega á þessa síðu sem Linda María bendir á. Þetta er afar þarft málefni. Illa er farið með sjúklinga, öryrkja og eldra fólk á Íslandi, því miður! Held að enginn viti hvernig það er, nema sá sem í því lendir, að veikjast og þurfa allt í einu að lifa af lágum bótum. Stjórnvöld okkar treysta um of á, eða ætlast til, að góðgerðarfélög sinni skyldu þeirra. Ég fékk áfall þegar ég las síðustu færslu Þórdísar Tinnu, ungrar einstæðrar móður sem bloggar hér á Moggabloggi. Hún berst ekki bara við lungnakrabbamein á lokastigi, heldur kerfið. Hún þarf að lifa á 95.000 kr. á mánuði og ef ekki væri fyrir gott fólk væri hún eflaust illa stödd. En það velferðarþjóðfélag, segi ekki meira ... Annars bind ég vonir við heilbrigðisráðherrann okkar til rúmlega 100 daga, hann var einu sinni yfirmaður minn og er einstaklega góður og ljúfur maður. Vonandi getur hann eitthvað gert.
http://thordistinna.blog.is/blog/thordistinna/#entry-299482


Varúð - ekki láta plata ykkur!

Ekki láta svindla á ykkurNú er mér nóg boðið! Ég er ekki vön að kvarta hér og kveina en þið sem hafið ekki uppfært myndlykil Stöðvar 2 nýlega EKKI GERA ÞAÐ! Samningur 365 og SkjásEins er greinilega úr sögunni og nú virðist ekki lengur vera hægt að horfa á Skjáinn í gegnum myndlykil Stöðvar 2 eins og hefur verið hægt mjög lengi!

Ég ætla ekki að kaupa Sýn 2, þurfti ekki að stilla hana inn, veit ekki af hverju ég var að þessu fikti í gær eða fyrradag. Líklega af því að ég kann það! Nú ætla ég að segja upp Sýn 1 í reiði minni, tími ekki að fleygja út Stöð 2 þótt mig langi mikið til þess. Hver veit nema ég geri það! 

Nú skil ég hvers vegna verið var að kenna fólki að uppfæra myndlykilinn í Íslandi í dag í gærkvöld. Það hefur engin ný stöð bæst við, þeir sem ætla ekki í okurpakkann Enska boltann, ekki hreyfa fjarstýringuna ykkar nema til að skipta milli stöðva. Ég fattaði þetta ekki fyrr en ég var að fikta með fjarstýringunni núna fyrir svefninn. Arggggg! Ég er komin í stríð! Nú, ef þetta er misskilningur og tækilegar bilanir valda þessu þá bið ég forláts á fljótfærninni. Þangað til er ég BRJÁLUÐ!!! 


Rafmögnuð færsla

RafmagnRafmagnið fór af á mjög slæmum tíma í dag hér á Skaga. Freistandi er að segjast hafa verið að ryksuga eða baka eða myndarskapast eitthvað fyrir afmælið en ég var að blogga. Búin að skrifa afar áhrifamikla tímamótafærslu sem hefði samstundis skellt mér upp í 1. sætið í vinsældakeppninni hjá Kalla Tomm en Jóna hefur greinilega mútað vélstýrunni sem kippti Vesturlandi úr sambandi um stund. Held að Jóna hafi líka þegið hjálp frá breska miðlinum sem ég talaði illa um nýverið og hefur þá væntanlega einhverja hæfileika fyrst hún sá að færslan mín var að detta inn.
Sjónvarpið er óvirkt, væntanlega vegna rafmagnstruflunarinnar, og ég sem ætlaði að segja frá því helsta úr boldinu. Reyndi að hringja í Stöð 2 en þar hringdi bara út! Frábært.

Síminn í Brauða- og kökugerðinni er stanslaust á tali, eins og hann sé bilaður. Ekkert smá sem líf manns snýst í kringum rafmagn. Ekki get ég pantað afmælistertuna núna, eins og ég ætlaði að gera, en kaffið, góða kaffið, ég hringdi eftir því fyrir bilun. Nú tala ég bara um fyrir bilun og eftir bilun. Náði reyndar að gera heilmargt fyrir bilun, m.a. fara í sjúkraþjálfun, fá mér kaffi í Skrúðgarðinum og þurrka þvott í þurrkaranum. Síðan hefur allt verið meira og minna lamað þótt rafmagnið sé komið á.

Á meðan bilunin stóð yfir lamaðist ég, lagðist upp í rúm og náði að ljúka við bókina Móðurlaus Brooklyn. Hún er mikil snilld, mæli með henni!
Er akkúrat núna að bíða eftir tækniþjónustu Stöðvar 2 í símanum ... ég drep þá ef þeir svara strax því að lagið Babe I´m gonna leave you með Led Zeppelin hljómar í símanum. ... Vá, nú er American Pie, ekki með Madonnu ... heldur Don MacLean. Vona að það verði ekki svarað næstum því strax! Þetta er gaman!


Hvað gerir maður við óþekka tölvu?

TölvupirringurHundruðir bloggvina, alla vega Jenný, hafa fyllst höfnunartilfinningu síðustu daga/vikur vegna meintrar kommenta-„leti“ frúarinnar í himnaríki. Veit ekki hvað í ósköpunum gengur á en leti og áhugaleysi er það sannarlega ekki.

Getur maður ekki fengið bloggfrið ...Ég skrái mig inn á bloggið mitt en skráningin dettur orðið út við hverja einustu hreyfingu. Dæmi: Jenný bloggar kannski eitthvað ógurlega fyndið og mig langar að leggja orð í belg en sé að ég er dottin úr tengingu. Arg! Skrái mig aftur inn, skrifa eitthvað ódauðlegt og ýti á SENDA. Þá kemur upp villumelding sem segir að ég sé óskráð inn. Þá er ég orðin svo pirruð að ég arga innra með mér en sýni samt þroska og skrái mig inn á nýjan leik og ýti aftur á SENDA. Þá birtist kommentið. Svo ætla ég inn í stjórnborðið mitt í kjölfarið en er dottin út vegna þess AÐ ÉG ER EKKI SKRÁÐ INN ... Skrái mig þá inn og læt þetta eina komment duga það skiptið. Skil pirring þeirra sem blogga annars staðar og eiga erfitt með að kommenta hjá okkur Moggabloggurum. Ég hélt að ég væri í klíkunni þar sem ég er Moggabloggari!

Þetta gerist ekki í vinnutölvunni en þar hef ég engan tíma til að vera á blogginu. Skrifaði grátbólgið bréf til tæknimanna Moggabloggs áðan og bíð eftir svari frá þeim. Þeir björguðu mér einu sinni þegar ég gat ekki lengur sett inn myndir. Fjarstýrðu mér með að henda inn nýrri útgáfu af Firefox. Þá breyttist allt í tölvunni til hins betra á fleiri en einn veg. Getur verið að einhver sé að reyna að komast upp á milli mín og bloggvina minna?

P.s. Annars er ég að hugsa um að leggjast bara í leti inni í stofu í nýja Lazy Girl-stólinn minn með Harry Potter í annarri og latte í hinni. Held að það yrði hið fullkomna laugardagskvöld ... fyrst enginn hefur boðið mér á stefnumót! Það þyrfti reyndar að vera ansi stórvægilegt stefnumót til að toppa Potterinn og latteinn og Lazygörlinn!


Tommi tölvuséní, góður eftirréttur, heimsókn og sjónvarpsdiss

Tölvuséníið á heimilinuTommi köttur (ekki strætóbílstjóri) gekk yfir lyklaborðið mitt til að sýna mér extra-ástreitni og áður en ég náði að setja hann niður á gólf hafði honum einhvern veginn tekist að lita eitt bréfið í tölvupóstinum appelsínugult. Þetta gæti ég ekki gert þótt lífið lægi við. Mjög dularfullt. Fannst ég vera komin inn í Dean Koontz-bók, nema Dean notaði labradorhund sem ofurgáfað kvikindi í einni bóka sinna. Appelsínugulur litur er sagður mjög góður og skapandi. Hér með birti ég litaða bréfið frá samstarfskonu minni, líklega var það tilgangurinn með þessu öllu saman, guði sé lof að þetta var saklaust bréf. En svona er bréfið:

JarðarberjabúðingurGÓÐUR EFTIRRÉTTUR
750 g vanillu skyr.is án viðbætts sykurs
1 peli þeyttur rjómi

Hrært saman og berjum blandað í (t.d. jarðarberjum og/eða bláberjum)
Látið standa í kæli í um eina klst. og skreytt með berjum.
Ath: hægt að setja smá ósætt hafrakex í botninn!

 
HuldaGömul vinkona af Skaganum kom í heimsókn seinnipartinn og sat með mér á svölunum í smástund. Þótt ég sé hálfgerður hermit þá finnst mér fólk í raunheimum bara virkilega skemmtilegt. Ég leyfði Huldu að smakka góða eftirréttinn úr tölvupóstinum sem ég klessi saman á einni mínútu en notaði mun minni uppskrift. Huldu fannst þetta MJÖG gott og mér líka. Þoli ekki bláber (ormar í þeim) og notaði jarðarber.

  

America´s got talentHorfði á America´s Got Talent áðan í fyrsta sinn, missti af fyrsta þættinum. Miðað við það sem ég hef séð á youtube.com hefði ég miklu frekar viljað fá Britain´s Got Talent. Ant og Dec, kynnarnir í bresku þáttunum, eru svo æðislegir ... og kannski er maður bara búinn að fá nóg af ammmrískum svona þáttum. Ég er tryggasta kvikindi sem fyrirfinnst en treysti mér t.d. ekki til að horfa á ameríska ædolið sl. vetur ... þá var ég búin að fá nóg, löngu á eftir öllum sem ég þekki.

Nokkrir breskir þættir hafa reyndar verið á dagskrá undanfarin misseri, m.a. draugagangsþáttur og tískuþáttur en mér fannst þeir reyndar alveg skelfilegir. Draugaþátturinn er með þekktum miðli sem „finnur fyrir“ framliðnum í þekktum draugahúsum og sjónvarpsfólkið með honum skrækir ógurlega. Tískuþátturinn er þannig að tvær gellur auðmýkja nokkrar kerlingar í hverjum þætti, fá þær helst til að skæla og viðurkenna hvað þær eru ljótar og hallærislegar en svo redda gellurnar öllu! Arggg!     


Sjálflæknandi tölva, gamlar myndir og sönnun!

Nóra og erfðaprinsinnBarnaafmæli í nánd, afi, Bryndís og erfðaprinsinnKveikti á tölvunni upp á von og óvon í kvöld. Nákvæmlega það sama gerðist og í gærkvöldi: Ekkert. Næstum hálftíma seinna heyrðust óhljóð úr horni og þegar ég kíkti var elskan mín komin í gang. Hún hafði greinilega haft gott af hvíldinni eða óttaðist fáránlega tillögu Braga bloggvinar um að ég fengi mér Makka. Ég hló hæðnishlátri þegar ég hugsaði um þetta.

Nú get ég unnið heima á morgun ... og t.d. skrifað ódauðlega lífsreynslusögu sem fer væntanlega í bók eftir nokkur ár! Svo endar með því að þetta verður eins og Ísfólkið, yfir 40 bindi, og ég fæ ekkert að blaðamennskast, heldur fer á milli staða á landsbyggðinni og safna djúsí sögum frá fólki.

Wembley 1987 Við Siggi HreiðarÁ Gauk á Stöng 1986Skoðaði gamlar myndir í kvöld, bæði eldgamlar og nýrri. Þar sem ég kann lítið á tölvur og hræðist tæknilega hluti á borð við skanna ákvað ég að taka myndir af myndunum. Þær eru kannski pínku skrýtnar þar sem þurfti að passa upp á glampann frá flassinu en þær eru samt flottar. Mun því skreyta þessa færslu með ýmsum nostalgíumyndum.
Ein myndin sannar það sem ég hef oft sagt um okkur Madonnu. Þótt við séum orðnar 48 ára og þar með verulega rosknar í hugum ungbarna, þá höldum við okkar striki enn í dag, förum í tónleikaferðir og hlöðum niður börnum eins og okkur sýnist. Fann reyndar engar nýlegar sviðsmyndir af sjálfri mér (Madonna er duglegri að ota sínum tota) en hér er ein gömul og góð síðan við Siggi Hreiðar sungum á Wembley á níunda áratugnum fyrir þúsundir. Dúettinn kallaðist Guru and the Gang.     

P.S. Elsku fullkomna PC-tölvan mín geymdi bloggfæsluna sem átti að fara inn í gærkvöldi:
Hlutirnir gerast hratt hér í himnaríki. Ég var ekki fyrr búin að blogga um The RÖDD I love þegar ég fékk símtal og skömmu síðar heimsókn. Fyrir algjöra tilviljun var upptökuvélin í gangi:
http://www.grapheine.com/bombaytv/index.php?module=see&lang=uk&code=758333dd76b29a409302406e98796ef9


Tölvuraunir - sjokkerandi upplifun

Ég veit eiginlega varla hvar ég á að byrja ... en eftir að hafa gannnntast aðeins í síðustu færslu með það hvort ég gæti hugsanlega brætt úr Youtube með síendurtekinni spilun á einu lagi gerðist eitthvað skelfilegt í kjölfarið ... tölvan mín fór í verkfall eða kannski dó!

Elsku tölvan mínÉg var einmitt að blogga þegar þetta gerðist, skrifa æðislega frábæra færslu sem hefði mögulega getað breytt lífi fólks og búin að búa til bíómynd og allt en áður en ég gat ýtt á vista varð skjárinn blár og einhverjir stafir birtust. Mér skildist á útlensku stöfunum að líklega hefði nýleg uppfærsla ekki tekist (og ég sem hlýddi bloggvini sem sagði að ég YRÐI að uppfæra allt sem tölvan stingi upp á). Nú svo átti ég að endurræsa tölvuna (ýta síðan á F8) nema ég gat ekki endurræst og varð að slökkva með handafli. Þegar ég kveikti aftur virðist tölvan vera galtóm, það birtist bara nafnið á henni á skjánum, ekkert Windows eða neitt. Ætli geti verið að hún sé með bráðaofnæmi fyrir Rick Wakeman? Þetta er skelfilegt og ég sem vinn heima á þriðjudögum.

Strætóferðin í morgun var algjörlega gjörsamlega sallaróleg. Ég náði næstum því sætinu mínu, eða hinum megin við ganginn, og gat því rétt úr fótunum. Við hlið mér sat skemmtilegi heilaskurðlæknirinn (eða skrifstofukonan á LSH). Viðurkenni að ég var leiðinlegur og þögull sessunautur, enda grútsyfjuð ... Var kannski andvaka út af afdrifum tölvunnar ... ja, eða datt ofan í Hercule Poirot-mynd (á Stöð 2 plús) sem ég hef ekki séð áður og heldur ekki lesið bókina (eftir Agöthu Christie).

Hvað á ég að gera út af þessu tölvumáli? 1) Biðja nágranna minn sem er tölvuséní að kíkja á kvikindið? 2) Fara með hana í viðgerð?  3) Kaupa nýja tölvu? 4) Hætta að nota tölvur? 5) Hætta í vinnunni af því að þar er krafist tölvunotkunar? 5) Vona að tölvan lagist að sjálfu í dag?

P.s. Þarf kannski ekki að taka það fram að ég er núna að hluta á Rick Wakeman-lagið í þriðja sinn, var komin í alvarlegt fráhvarf.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 34
  • Sl. viku: 828
  • Frá upphafi: 1515923

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 701
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Mikið labb
  • Draumar úr snjó
  • Engin tilviljun

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband