Færsluflokkur: Sjónvarp

Litrík fortíð ...

MennnnnnNú mun ég aldrei þora að skrá mig á stefnumótavefinn einkamal.is aftur (já, ég á mér litríka fortíð). Segjum svo að ég hætti við frelsaða manninn í KFUM og ákveði að freista gæfunnar á Netinu. Þá get ég nú átt von á ýmsu. Fékk þetta sent í morgun til viðvörunar:

Menn á einkamal.is  
Rúmlega fertugur: 52 ára og leitar að 25 ára gellu.
Íþróttamannslegur: Horfir mikið á akstursíþróttir.
Frjálslyndur: Myndi sofa hjá systur þinni.
Myndarlegur: Hrokafullur.
Mjög myndarlegur: Heimskur.
Heiðarlegur: Sjúklegur lygari.
Kelinn: Óöruggur mömmustrákur.
Þroskaður: Eldri en pabbi þinn.
Mjög tilfinningaríkur: Hommi.
Andlegur: Gerði það einu sinni í kirkjugarði.
Tillitssamur: Afsakar sig þegar hann rekur við.

Litríka fortíðin - fréttaskýring
Fyrir nokkrum árum lét ég eitthvað hæðnislegt út úr mér um fólk sem fer á „svona stefnumótavefi“ eins og einkamal.is. Var skömmuð fyrir hroka og ráðlagt að prófa þetta áður en ég dæmdi. Ég tók vinkonu mína á orðinu og hún hjálpaði mér að skrá mig á Vinátta/Spjall. Ekki átti ég von á því að fá mörg bréf en fyrsta daginn kom heill hellingur. Ungir strákar, jafnaldrar erfðaprinsins, sendu mér beiðni um kynlíf með „eldri konu“, sadómasókistar lýstu í smáatriðum hvað væri áhugavert að gera með mér og ungir hermenn á Vellinum buðu mér gull og græna skóga fyrir að „taka“ svona tíu í einu. Það komu líka bréf frá ágætlega heilbrigðum mönnum ... reyndar flestum kvæntum í leit að tilbreytingu ... Ég spurði einn þeirra hvort honum fyndist ekki vera trúnaðarbrestur að skrifast á við aðrar konur á Netinu. Hann hélt nú ekki en móðgaðist greinilega og hætti að senda mér bréf. Æ, æ.
Eftir að hafa bitið á jaxlinn um tíma gafst ég upp og skráði mig út. Hugsa að margir karlarnir á einkamal.is hafi velt fyrir sér hvað varð um „Hot sexy-lips“ ... DJÓK!!!! Man ekki einu sinni hvaða dulnefni ég valdi mér. Þarna lauk æsku minni og sakleysi endanlega. Já, ég veit ... er ekki töffari, gat ekki einu sinni hlegið að þessu, fylltist bara hryllingi yfir sumum bréfunum. Núna fyrst finnst mér þetta að verða fyndið og tel mig vera nokkuð lífsreyndari.
Frétti seinna af konum sem stunda einkamal.is til þess að kvelja kvænta menn sem eru í leit að alvörutilbreytingu. Þær þykjast vera til í tuskið og samþykkja stefnumót. Þegar hann síðan mætir á staðinn hittir hann fyrir nokkrar illskeyttar konur sem skamma hann og segja honum að hunskast heim til konunnar og barnanna. Skyldi þetta vera satt?

Í stað þess að grúfa mig ofan í Potter í gærkvöldi horfði ég á myndina Ghost Rider og hafði gaman af. Hver nýtur þess ekki að horfa á Nicholas Cage sem logandi sendiboða skrattans en góðmenni inn við beinið? Mun segja strætóbílstjóranum undan og ofan af söguþræði GR til að hann fyrirgefi mér Potter-svikin. Nú verður unnið heima í dag, eins og iðulega á þriðjudögum, enda næg verkefnin. Er gapandi hissa ... Brooke og Eric hafa greinilega gift sig, Stefaníu til hrellingar. Þau hefja brúðkaupsnæturkeliríið þrátt fyrir að Stefanía sé á staðnum til að vara fyrrum eiginmann sinn við kvendinu. Eric hefur verið kvæntur Brooke áður og veit ... Samt er Stefanía búin að ryðja brautina fyrir Brooke og Nick með því að segja hinni óléttu Bridget, dóttur Brooke að Nick sé skotnari í mömmu hennar. Tókst ekki að njósna meira um nágranna mína í næsta stigagangi.


Þriðjungur af Potter, draugahræddur miðill og fleira ...

Búin með næstum 200 síður af Potter, bara 400 eftir, mikil spenna, verst að Monk og 4400 tefja helling. Það var bjartsýni að ætla að ljúka bókinni yfir helgina. Bjartur er farinn heim og nú er loksins opið út á svalir, Tomma og Kubbi til mikillar gleði. Þetta var eins og í Formúlunni ... hálfri mínútu eftir að kettirnir komust út á svalirnar fór að rigna! Í stað þess að skauta um allt komu þeir bara aftur inn, frekar spældir. Rosalega var þetta annars spennandi Formúla!

ghost_whispererSá auglýsingu í sjónvarpinu um að þátturinn Ghost Whisperer hefjist aftur á kellingasjónvarpsdaginn og verður á eftir Opruh og Riches. Medium var ágætur þáttur en GW ekkert spes. Mér fannst skrýtið að kona sem hefur séð dedd pípol alla sína tíð verði alltaf jafnhrædd í hvert skipti sem einhverjir draugar birtast henni. Kannski er það til að hún geti sett sexí hræðslustút á varirnar.

Tattú 1Fór ekkert austur í sumarbúðir um helgina en heyrði í Hildu áðan. Allt gengur mjög vel og einstaklega skemmtilegir og góðir krakkar núna (eins og alltaf). Strákur, sem hefur ekki komið áður í Ævintýraland, átti ekki orð yfir matinn. „Vá, það er BARA góður matur hérna, svona matur sem börn vilja!“ sagði hann steinhissa eftir að hafa fengið pítsu, kjúkling, vöfflur með súkkulaði og rjóma og margt fleira. Ellý hefur verið að teikna GEGGJUÐ tattú á krakkana. (www.sumarbudir.is, 6. tímabil) Hlakka til að fara þangað um verslunarmannahelgina en þá verður unglingatímabilið, 12-14 ára. Strákarnir eru alltaf nokkuð færri en stelpurnar og fá svo mikla athygli frá stelpunum að þeir koma heim breyttir menn, öruggari með sig og montnari, eftir vikuna.  

Tattú 2Hilda verður í fríi í viku, frá og með næsta þriðjudegi og vá, hvað við ætlum á Harry Potter-myndina! Ætla líka að reyna að draga hana á Die Hard IV.

Tattú 3Aldrei framar tíu tíma bíóferð, Akranes-Rvík-Akranes með strætó. Hef ekki enn tekið Da Vinci lykilinn í sátt síðan í fyrra þegar það tók okkur erfðaprinsinn næstum hálfan sólarhring að fara á hana. 

Eru þetta ekki flott tattú? 


Sósuskortur, spennusögur og nýr, undarlegur útlitsgalli

Zinger salatLoksins komst ég í strætó í dag. Hafði rúman hálftíma til umráða eftir lendingu í Mosó og hvað gera konur þá? Nú auðvitað fara þær í KFC og kaupa Zinger-salat ... mér finnst það svo gott. Gat þó ekki torgað nema helmingnum þar sem bara einhver hryllingssósa var til út á salatið, Honey Mustard-uppáhaldssósan búin. Svona gerir maður ekki þreyttri og svangri Skagakonu.

Vonaði að Tommi væri á vaktinni en ég er alveg komin út úr vaktaplönum strætóbílstjóranna eftir allt þetta rand á einkabílum undanfarið. Tommi keyrir líklega um helgina. Kom of seint heim til að geta horft á boldið á Stöð 2 plús ... en það gerist hvort eð er allt svo löturhægt þar, líklega nægir að horfa á fimmtudaginn næsta til að ná auðveldlega þræði margra daga. Ekki séns að ég nenni að horfa á þættina endurtekna eftir hádegi á morgun. Þá er nefnilega tímataka í Formúlunni! Hver lendir á ráspól? Spenna, spenna!

Fyrir einhverjum vikum kom út kiljan Þrír dagar í október. Hún er eftir Fritz nokkurn Jörgensson. Sagan fór svolítið hægt af stað þannig að ég sat ekki stöðugt við hana ... fyrr en líða fór á, þá negldi ég hana á tveimur kvöldum og ætlaði ekki að tíma að gera hlé til að fara að sofa. Steingerður mælti líka með henni sem hvatti mig til dáða. Þetta er splunkunýr spennusagnahöfundur sem lofar góðu.
Nú er ég að lesa svona Da Vinci bók um starfsmann Rannsóknarréttarins sem er í leynilegum erindagjörðum til að hafa upp á Predikaranum. Sjálfur Leonardo Da Vinci er persóna í bókinni. Með rigningunni kom eirðin og stefnan er að gera skurk í lestri um helgina.  

Handleggirnir á mérHvað mynduð þið segja ef ég opinberaði það hér og nú að ég þjáðist af stórfelldum útlitsgalla? Hægri höndin á mér (og handleggurinn) er nokkuð brún, á meðan sú vinstri er bara ljósbrún, eiginlega ljósdrapplituð.

Til að enginn taki eftir þessu væri t.d. snjallt að hafa aðra höndina á sífelldri hreyfingu en það gæti þó hrætt fólk. Hvernig getur svona gerst? Sólin skín vissulega meira á þá hægri þegar ég sit við tölvuna heima í sólskini en ég hélt ekki að væri hægt að verða brúnn í gegnum glerrúðu og ekki hef ég haft hægri handlegginn út um bílgluggann hjá Ástu eða Birki ... Allir sem ég þekki eru jafnbrúnir, hvað er eiginlega í gangi? Næstu sólböð verða framin í langerma bol öðrum megin og stutterma hinum megin. Hver veit nema það verði nýtt trend.


Afmælisgjafir, bold-skýrsla og viðhald í himnaríki

Stóllinn minnÞar kom að því, nú er loksins komið viðhald í himnaríki. Hann er ljós yfirlitum, þögull, interísant, umlykjandi og með einn fótinn styttri en hina. Inga vinkona skutlaði mér með hann upp á Skaga. Ég á engin verkfæri af viti til að lengja stuttu löppina, bara skrúfjárn, hamar og töng finnst í himnaríki. Jamm, þetta er Lazyboy-stóllinn langþráði, lítill, drapplitur og bara ágætur, en vantar skrúflykil til að laga löppina. Inga kemur með hann í næstu heimsókn.
Fékk löngun í svona stól þegar ég sá stólinn hennar Nönnu Rögnvaldar í Þorláksmessuboðinu síðast. Ég hélt áður að allir leisíbojar væru algjörar hlussur og tækju álíka pláss og flyglar.

Afmælistertan 2001Ég held ég elski hann Magnús, Akureyring, vin og bloggvin. Hann sendi mér í pósti Rick Wakeman-plötuna um Arthúr konung, þessa sem ég hef leitað að undanfarið en ekki fundið ... og ekki bara hana, heldur líka gömlu uppáhaldsmyndina mína síðan ég var lítil; Sound of Music. Snemmbúin afmælisgjöf, segir hann. Ég var ekki næstum því búin að tilkynna á blogginu að ég ætti allt og þyrfti engar afmælisgjafir, heppin. Hann hefur eflaust frétt af tertunni 2001 ...

Ridge á ansi bágt núna. Taylor, konan hans, kyssti nefnilega slökkviliðsmanninn eftir að hafa hringt í Ridge og Brooke svaraði í símann og sagði: „I love you too.“ Hélt að þetta væri Ridge. Nick hamast í Bridget og segir að þau geti víst verið hamingjusöm saman þótt hann elski mömmu hennar. Bridget segir: „Þú elskaðir mömmu á undan mér og ég get ekki keppt við það, þú elskar hana meira en mig.“ Stefanía ætlar að hugsa um Bridget og barnið og rífst nú við Brooke sem fer síðan beint og klagar í fyrrum eiginmann sinn, Eric, pabba Bridget, sem er líka fyrrverandi maður Stefaníu, mömmu Ridge, fyrrum hönks þáttarins áður en Nick tók við hlutverkinu. Eric segir Brooke að hann sé löglega skilinn við Stefaníu og hún megi fara til fjandans. Þátturinn endaði á því að Bridget sagði Nick upp!


Tommi tölvuséní, góður eftirréttur, heimsókn og sjónvarpsdiss

Tölvuséníið á heimilinuTommi köttur (ekki strætóbílstjóri) gekk yfir lyklaborðið mitt til að sýna mér extra-ástreitni og áður en ég náði að setja hann niður á gólf hafði honum einhvern veginn tekist að lita eitt bréfið í tölvupóstinum appelsínugult. Þetta gæti ég ekki gert þótt lífið lægi við. Mjög dularfullt. Fannst ég vera komin inn í Dean Koontz-bók, nema Dean notaði labradorhund sem ofurgáfað kvikindi í einni bóka sinna. Appelsínugulur litur er sagður mjög góður og skapandi. Hér með birti ég litaða bréfið frá samstarfskonu minni, líklega var það tilgangurinn með þessu öllu saman, guði sé lof að þetta var saklaust bréf. En svona er bréfið:

JarðarberjabúðingurGÓÐUR EFTIRRÉTTUR
750 g vanillu skyr.is án viðbætts sykurs
1 peli þeyttur rjómi

Hrært saman og berjum blandað í (t.d. jarðarberjum og/eða bláberjum)
Látið standa í kæli í um eina klst. og skreytt með berjum.
Ath: hægt að setja smá ósætt hafrakex í botninn!

 
HuldaGömul vinkona af Skaganum kom í heimsókn seinnipartinn og sat með mér á svölunum í smástund. Þótt ég sé hálfgerður hermit þá finnst mér fólk í raunheimum bara virkilega skemmtilegt. Ég leyfði Huldu að smakka góða eftirréttinn úr tölvupóstinum sem ég klessi saman á einni mínútu en notaði mun minni uppskrift. Huldu fannst þetta MJÖG gott og mér líka. Þoli ekki bláber (ormar í þeim) og notaði jarðarber.

  

America´s got talentHorfði á America´s Got Talent áðan í fyrsta sinn, missti af fyrsta þættinum. Miðað við það sem ég hef séð á youtube.com hefði ég miklu frekar viljað fá Britain´s Got Talent. Ant og Dec, kynnarnir í bresku þáttunum, eru svo æðislegir ... og kannski er maður bara búinn að fá nóg af ammmrískum svona þáttum. Ég er tryggasta kvikindi sem fyrirfinnst en treysti mér t.d. ekki til að horfa á ameríska ædolið sl. vetur ... þá var ég búin að fá nóg, löngu á eftir öllum sem ég þekki.

Nokkrir breskir þættir hafa reyndar verið á dagskrá undanfarin misseri, m.a. draugagangsþáttur og tískuþáttur en mér fannst þeir reyndar alveg skelfilegir. Draugaþátturinn er með þekktum miðli sem „finnur fyrir“ framliðnum í þekktum draugahúsum og sjónvarpsfólkið með honum skrækir ógurlega. Tískuþátturinn er þannig að tvær gellur auðmýkja nokkrar kerlingar í hverjum þætti, fá þær helst til að skæla og viðurkenna hvað þær eru ljótar og hallærislegar en svo redda gellurnar öllu! Arggg!     


Hægfara beljur - svikin um Schwarzenegger

Kátar kýrÞað var frekar skrýtið að keyra framhjá sveitabænum við Akranes á leiðinni heim. Rétt fyrir sjö í morgun var hópur af kúm á leið í fjósið og staðan virtist síðan algjörlega óbreytt rúmum tíu tímum síðar. Annað hvort var kúrekinn svona lengi að reka beljurnar, tíminn frystur eða mjaltir miðast við áætlun strætó.

Hlakkaði til að horfa á heimsendismynd með Arnoldi sem átti að hefjast strax á eftir dansþættinum sem ég afplánaði lauslega með eyrunum. Hef ekki gaman af dansi yfirhöfuð, ballett getur þó verið ansi flottur við góða tónlist. Girnilegasti kosturinn er að skríða upp í með góða bók og sofna út frá henni. Ég er á því stiginu í augnablikinu að vera að breytast úr A-manneskju yfir í B, eins og alltaf á föstudögum, grútsyfjuð en tek ekki í mál að sofna snemma á föstudagskvöldi.

End of daysÍ Póstinum, aðalblaði okkar Skagamanna, er nefnilega auglýst myndin End of Days. Er veik fyrir sumum myndum með Arnoldi ... einn af mínum örfáu veikleikum. Kíkti á dagskrá Stöðvar 2 á Netinu og þar er engin slík mynd auglýst. Prófaði að athuga hvort hún væri á dagskrá á morgun ... en nei, þá verður sýnd átakanleg fótboltamynd með Billy Bob Thornton. Henni er í alvöru lýst svona á Netinu. Hlýtur að vera mikið um rauð spjöld, illa nýtt færi og sjálfsmörk. Martröð allra aðdáenda fótbolta. Ætla ekki að horfa.

Í fyrrnefndu dagskrárblaði segir að myndin The Thin Red Line verði sýnd. Það er ekki fótboltamynd, held ég. 


Játningar úr himnaríki plús smá bold

Sundlaug og heitur potturEinhver vírus eða eitthvað virðist vera að ganga á Netinu ... virðulegasta fólk er klukkað, sumt jafnvel fjórum sinnum, og verður að opna hjarta sitt fyrir bloggvinum sem halda virkilega að þeir viti ekki allt ... Reyndi að taka saman eitthvað sem er kannski ekki endilega á allra vitorði ... án þess þó að afhjúpa öll fjölskylduleyndarmálin. Er búin að klukka Dodda og Þröst Unnar. Kann ekkert rosalega vel á svona leiki.  

Átta virkilega háalvarlegar og opinskáar játningar:

1)  Kann ekki að nota matarlím.

2)  Þoli sjaldnast tónleikaútgáfur af lögum.

3)  Hef ekki farið í sund í 20 ár, fyrir utan smásvaml í sundlaug í Hrútafirði á síðustu öld. Heitir pottar eru heldur ekki á vinsældalistanum.

4)  Finnst lax, silungur og slíkt ferlega vondur matur, nema reyktur.

5)  Leigði mér Bodyguard (Whitney Houston) á spólu eitt árið.

6)  Líður langbest í 10-15°C og forsælu ... sól er stórlega ofmetin til baða.

7)  Nagaði neglurnar í 40 ár. Er nýhætt af því að fólk hætti að skipta sér af því.

8)  Þoli ekki nísku, þá meina ég ekki sparsemi eða varkárni í fjármálum.

ANNAÐ:

Ástumálin: Ásta kíkti í stutta heimsókn í kvöld. Fæ sjaldan kvöldgesti á virkum dögum, eins gott að hún þarf að vakna klukkan sex eins og ég, annars værum við enn að spjalla! Spiluðum nokkur Metallica-lög á youtube.com og rifjuðum upp skemmtilega tónleika í Egilshöll. Afrekaði líka að ryksuga himnaríki í dag!

Boldið: Stefanía ÆTLAR að eyðileggja hjónaband Bridgetar og Nicks en fyrrum maður hennar, Eric, sem er líka pabbi Bridgetar, hótaði henni öllu illu ef hún blaðraði frá leyndarmálinu, eða því að Nick og Brooke, mamma Bridgetar, ætla að fórna sér og ást sinni fyrir hamingju Bridgetar. Þetta og samdráttur Jackie, mömmu Nicks, og Erics, pabba Bridgetar og fyrrum eiginmanns Stefaníu, hefur verið það helsta undanfarið. Lofa að fara að fylgjast betur með! Já, og Jackie ætlar ekki að leyfa Stebbu að skemma hjónabandið af því að hún Á þetta barnabarn og Stebba fær ekki að skipta sér af því. Svona ömmuslagur er alltaf spennandi!


Ja, dýrt er það ...

West HamÞað kostar mig, M-12 áskrifandann, tæplega 2.800 krónur til viðbótar (við Stöð 2 og Sýn 1) að fá Sýn 2 og þar með Enska boltann. Aðrir borga yfir 4.000. Ég má ekki skipta; fá Sýn 2 og hætta með Sýn 1 af því að ég batt mig við Sýn 1 í ár, sagði sölumaður sem hringdi áðan. Fattaði ekki þá að árið er liðið og rúmlega það. Horfði a.m.k. á heimsmeistarakeppnina í fyrra og hóf áskriftina nokkru fyrr. Sagði honum að ég þyrfti að hugsa þetta vel og vandlega.
„Ja, ég get ekki boðið þetta ódýrara,“ sagði hann.
„Ykkur var nær að stela Formúlunni af RÚV,“ svaraði ég beisk. Við kvöddumst eiginlega með huglægum hnúum og hnefum en kurteislega þó.  

Óléttur karlNú ganga hvort eð er allar auglýsingar út á að aðeins karlmenn horfi á Enska boltann (óléttu karlarnir) og ég get ekki verið svo ókvenleg að glápa á svona karlaefni þegar ég ætti bara að hunskast til að vera kvenleg einu sinni.

Já, ég er jafnvel að hugsa um að sleppa enska boltanum og segja Sýn 1 upp líka í mótmælaskyni ... er frekar fúl út í þetta allt saman. Gæti boðið erfðaprinsinum til Englands í vetur á West Ham-leik eða Manchester United fyrir sparnaðinn. Ætla samt að tékka betur á þessu skiptidæmi þar sem bindiárið er liðið.   


Sætari fyrir eða eftir brottnámið ... og tillaga um breytingar á Írskum dögum

Indverskur kjúklingarétturMamma og erfðaprinsinnFékk notalegt símtal um kvöldmatarleytið. Stóra systir bauð mér í kjúkling. Mágur minn sótti mig á nýja, flotta, svarta bílnum og haldið var til veislunnar. Við ókum fram hjá tjaldstæðinu á leiðinni ... og þar var nú hálfgerð rúst, sumir höfðu bara skilið tjöldin eftir. Finnst ekki ólíklegt að dagskrá Írsku daganna verði eitthvað breytt í kjölfarið. Kannski verða bara þjóðdansasýningar, reiptog og aflraunir, og allt endar svo í spennandi bingóorgíu í Bíóhöllinni. Það ætti að fæla drykkju- og ofbeldisboltana frá. Þeir hafa kannski verið 1% af gestum en settu ljótan svip á. Aðkomumenn, auðvitað. Eflaust Reykvíkingar úr Breiðholti, sagði Mía systir og mamma þóttist ætla að berja hana. Mamma er nefnilega hamingjusamur Breiðhyltingur. Já, mamma var í heimsókn hjá Míu og ég var hálfkvíðin að hitta hana ... eftir að Morgunblaðið birti játningu mína um fyrsta kossinn. Bjóst við skömmum: „Hvað varstu að gera á balli svona ung? Hvernig datt þér í hug að kyssa ókunnugan strák?“ Komst að því að mamma hefur orðið frjálslyndari með árunum og fannst þetta allt í lagi. Hún viðurkenndi þó að hún hefði ekki verið ánægð 1972 með þetta ef hún hefði vitað ... þess vegna segi ég: Höfum unglingana okkar í hlekkjum til þrítugs! Við vitum ekkert hvað þau eru að gera!
Myndin t.v. hér að ofan er af háttvirtri móður minni með erfðaprinsinn, c.a. tveggja ára. 

Lítil vinkona í brúðkaupsveislunniFéll kylliflöt fyrir enn einni Önnunni í brúðkaupsveislunni. Þetta var nokkurra mánaða stelpa sem ég fékk að halda á og við smullum svona líka vel saman. Komst að því að virðuleg móðirin er vinkona Rúnar sem bjó í íbúðinni á móti minni á Hringbrautinni. Rún bjó við það harðræði að hafa bara RÚV á heimilinu og kíkti stundum í heimsókn og fékk að horfa með mér á MTV. Stundum kíktu vinkonur hennar með og þá var fjör. Man vel eftir einu skiptinu þar sem við sátum þarna nokkrar 12 ára og skemmtum okkur yfir Space Man með Babylon Zoo. Það kom í minn hlut að útskýra fyrir þeim að myndbandið fjallaði um venjulegan mann sem geimverur rændu og breyttu ... úúúúúú ... og ein þeirra varð hálfhrædd við myndbandið á eftir. Sorrí.

Óttalegt súkkulaðikvikindi ...Man hvað við Guðrún vinkona vorum algjörlega á öndverðum meiði um hvort hann væri sætari fyrir eða eftir. Hún sagði fyrir, þar sem hann var ósköp venjulegur jakkafatagæi, en mér fannst hann miklu flottari eftir brottnámið ... kominn í blátt pils og allt. Hann er nú óttalegt súkkulaði samt ...
Jamm, svona getur nú komið fyrir góðar konur þegar þær eru tónlistarsveltar í næstum 20 ár og fá svo MTV, sem var skrambi gott í kringum 1995. Hætti að hlusta á nýja tónlist þegar diskóið hélt innreið sína, fannst það skelfilegt (fyrirgefðu Palli). Vaknaði svo upp úr tónlistarkómanu 95. Hér fyrir neðan er lagið Space Man. Hvort finnst ykkur gaurinn sætari sem hallærislegur hagfræðingur eða rosasæt geimvera? Svör óskast!
http://www.youtube.com/watch?v=uE8G-sJ2f4s


Afdrifarík gleymska og smá Evróvisjón-upprifjun

Flotta brúðartertanBýr sig undir að fleygja til þeirra óútgengnuUppgötvaði mér til mikils hryllings að ég yfirgaf brúðkaupið áður en brúðurin kastaði vendinum. Þarna held ég að ég hafi orðið af síðasta tækifæringu til að ganga út. Eftir rúman mánuð verð ég 49 ára og þjóðtrúin segir að verði kona (eða karl) ekki gengin út fyrir þann merkisviðburð geti hún allt eins gleymt því og gerst kattakerling í fullu starfi. Sungu Stuðmenn ekki svo eftirminnilega og réttilega: Hver vill elska 49 ára gamlan mann? Konur eru menn.

 
Allir eru að tala um Evróvisjón ... er það ekki? Rakst á skemmtilegt myndband úr keppninni sem haldin var 1967 en talningakerfið var afar frumstætt á þessum tíma ... mikið um mistök. Sandy Shaw sigraði þetta ár, eins og allir muna.

Sandy ShawTók einu sinni viðtal við merkilega konu sem heitir Kolbrún. Hún sagði m.a. frá því að hún dvaldi eitt sinn á sveitasetri í Englandi hjá vinafólki og þar var stödd engin önnur en Sandy Shaw í helgarheimsókn og notaði sveitakyrrðina til að kyrja. Kolbrún gerðist síðar búddisti. Þegar hún fór að vinna í öskunni eitt árið var mórallinn frekar slæmur hjá körlunum en á stuttum tíma lagaðist hann, hún sagðist hafa kyrjað fyrir því.

Hér er myndbandið frá Evróvisjón 1967: http://www.youtube.com/watch?v=oM0UtIH-Yik

P.s. Veit ekki hvað er að í dag ... horfi á Formúluna með öðru auganu og veit varla hver staðan er!!! Er það sólin sem eyðileggur barnslega gleði manns yfir jafnsjálfsögðu sunnudagshádegisáhorfi og Formúlan er? 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 33
  • Sl. sólarhring: 51
  • Sl. viku: 228
  • Frá upphafi: 1527103

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 178
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Um 1960 með pabba og mömmu
  • Um 1960 með pabba og mömmu
  • Magpie Murders

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband