Færsluflokkur: Sjónvarp
26.12.2007 | 13:28
Krumminn á svölunum
Krummarnir hafa verið flögrandi allt í kringum um himnaríki í dag, greinilega svangir. Ég setti smá brauð út á svalir og vona að þeir þori að gæða sér á því með æsispennta Kubbsu hinum megin við gluggarúðuna.
Hér í himnaríki hefur verið afar rólegt. Við erfðaprins hituðum upp kalkún í gær með öllu tilheyrandi og notuðum að sjálfsögðu nýja, flotta örbylgjuofninn til þess. Matseðillinn í dag verður alveg eins. Í dag á bara að hafa það rólegt og notalegt. Kvefið er á undanhaldi og með þessu áframhaldi verður það horfið fyrir áramót. Vegna slappleika aflýsti ég árlegu hangikjötsboði sem átti að vera í gær. Sem betur fer, veðrið var nefnilega frekar slæmt og ekki gaman að fá fólk frá Reykjavík í fljúgandi hálku og hríðarveðri. Held samt að Mía systir hafi fengið akandi úr bænum-gesti í hangikjötið í gær. Þarf að hringja í hana á eftir og tékka á málum.
Tókst að ljúka við Eldvegg Hennings Mankell í nótt, sannarlega spennandi bók. Nú eftir áramót þegar húsfélagsformaðurinn fer út á sjó með hana í farteskinu á hann lítið eftir að elda fyrir áhöfnina, hann mun liggja í bókinni.
Núna kl. 14 verður Sound of Music sýnd á Stöð 2. Ég hlakka mikið til þótt ég eigi reyndar myndina. Á ferðalagi á Írlandi einu sinni sá ég blað, aukablað sunnudagsblaðs, þar sem afdrif barnanna úr Sound of Music komu fram. Sagan um að yngsta stelpan hefði dáið í bílslysi á frumsýningarkvöldinu var ósönn, stelpuskottið er enn í fullu fjöri, næstum hundrað árum eftir að myndin var fyrst sýnd. Skrifaði að sjálfsögðu grein um Tónaflóðsbörnin í Vikuna skömmu eftir heimkomu. Reyni að finna blaðið og setja þetta svo á bloggið. Hvern langar ekki að vita hvað blessuð börnin tóku sér fyrir hendur?
West Ham Reading í dag, mikið vildi ég að það kostaði ekki svona mikinn pening að vera áskrifandi að Sýn 2 ... ekki séns að ég nenni út á pöbb að horfa ... þótt ég gæti ábyggilega lent á séns þar ...
22.12.2007 | 14:11
Jólabold - varúð
Best að jólabolda svolítið. Mikið hefur gengið á að undanförnu hjá feita og fallega fólkinu (er að reyna að breyta þessu Svo grönn og sæt-dæmi), hef misst af einhverju en getað lesið á milli línanna samt. Mamma, eyddir þú nóttinni með Ridge eða Nick? spurði Bridget, óeigingjarnasta og besta dóttir sem Brooke gæti hugsað sér, enda var Bridget gift Nick, eins og allir muna. Hvorugum, var svarið.
Felicia lifnaði við í sjúkrabílnum og Stefanía stjórnunarfíkill leynir því og er búin að redda lifrarskiptum fyrir hana. Enginn skilur í því hvers vegna hún syrgir ekki dóttur sína, heldur talar um hana eins og um lifandi manneskju væri að ræða. Felicia veit heldur ekki af því að hún er á lífi, hún er í kóma, var búin að kveðja alla og svona. Eftir næstum því ástaleik Taylor og Nicks sem næstum því gift Ridge hún Brooke gengur inn á hafa Taylor og Nick orðið perluvinir. Nick elskar þó Brooke sína ofurheitt en hún tekur þá ákvörðun að ekkert verði á milli þeirra fyrr en að sex mánuðum liðnum, þegar skilnaður Nicks og Bridget, dóttur hennar, verður löglegur. Mér sýnist á öllu að það séu mikil mistök hjá henni. Ég spái því að Taylor, í ástarsorg eftir Ridge (sem var næstum búinn að plata Brooke upp að altarinu í fimmta skiptið eða svo) næli sér í Nick á þessu tímabili. Bridget fórnfúsa segir að Brooke þurfi ekki að fórna sér svo mikið en Brooke má ekki heyra á annað minnst.
Bridget skælir um leið og hún afhendir Nick eigur hans, Nick virðist fatta að hún hefur gengið of langt í fórnfýsinni, maður gefur ekki mömmu sinni manninn sinn þótt mamman sé ástfangin af honum.
Ridge segir við Brooke að hann sé að flytja inn á hana. Brooke mótmælir harkalega, greinilega ekki búin að fyrirgefa honum, heldur hann. Það er mikill munur á því að hafa gifst og næstum því gifst. Hún viðurkennir fyrir Ridge að hún elski Nick. Samt ræðst hann ástríðufullt á hana og kyssir í klessu. Hún hlýtur að láta segjast.
Minningarathöfnin um Feliciu er bæði falleg og átakanleg, það vottar meira að segja fyrir leikhæfileikum hjá sumum þarna en laukur er vissulega áhrifaríkur, ég tala af reynslu. Stefanía engist af samviskubiti en læknirinn ráðlagði henni að halda þessu með dauða hennar til streitu, svo litla von hefur hann um að henni batni. Annars sýnist mér hann vera orðinn skotinn í henni. Hann hringir aðeins seinna í Stefaníu og segir henni að hún þurfi að koma strax. Þá er minningarathöfninni lokið. Stefanía segir að það sé ekki of seint að bjarga Feliciu en allir horfa samúðarfullir á hana og trúa henni ekki. Læknirinn segir að Felicia hafi sýnt ótvíræð batamerki!
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.12.2007 | 01:40
Guð og kæfan
Fékk æsispennandi símtal í dag. Geðþekk konurödd tjáði mér að Skagaliðið ætti að mæta til næstu Útsvarskeppni 11. janúar nk. Það er mikið tilhlökkunarefni að hitta andstæðingana ógurlegu frá Ísafirði. Vona bara að þessir doktorar og prófessorar fái erfiðari spurningar en við, pöpullinn af Akranesi. Ég hugga mig þó við að vera doktor í Oliver Twist. Kannski koma fleiri spurningar úr bókinni. Tókst vel að svara spurningum þáttarins í kvöld en það er víst alltaf auðveldara heima í stofu.
Við vinkona mín spjölluðum saman í síma í dag og m.a. rifjuðum upp gamlar minningar af yngri syni hennar. Þegar hann var fjögurra ára mátti hann hlusta á móður sína bölva og ragna eftir að hafa keyrt bílinn út af í hálku. Úr aftursætinu heyrðist allt í einu í stráksa: Nú er bara að treysta á guð og kæfuna, mamma mín! Um tíu árum seinna, þegar hann fór í eina skyldumessuna sem tengdist fermingarundirbúningnum, skrifaði hann nafn sitt í gestabókina frammi í anddyrinu í kirkjunni. Messan hófst og fermingarbörnin sátu róleg og stillt og hlustuðu á prestinn. Í lokið las presturinn upp úr sérstakri fyrirbænabók, nöfn sjúklinga sem beðið var fyrir ... og nafn stráksa var allt í einu lesið upp hátt og snjallt, fermingarsystkinunum til mikillar skemmtunar ... Þetta kennir manni að vera ekki að skrifa í hvaða gestabók sem er!
11.12.2007 | 20:47
Montblogg um frændur og skór út í glugga ...
Elsku litlu Úlfur og Ísak voru í Kastljósi í kvöld. Svo broshýrir og fallegir. Mikið er ég montin af þeim. Reyndar vissi ég ekki fyrr en hálftíma fyrir Kastljós að þetta yrði sýnt í kvöld. Vonandi að tannréttinga- og talþjálfunarmálin verði komin á hreint þegar kemur að því að þeir þurfi slíkt. Þeir verða ársgamlir núna 19. desember, jólastrákarnir hennar frænku sinnar! Þeir hitta mig svo miklu sjaldnar en Hildu en finnst við greinilega líkar (eins og mörgum) því að ég fæ alltaf risastórt og svolítið undrandi frænkubros frá þeim. Ég er búin að kaupa jólagjafirnar handa þeim en ætla ekki að segja hvað það er. Miðað við hvað mamma segir um þá, að þeir séu undrabörn, hætti ég ekki á að þeir nái að lesa það hér á frænkublogginu. Doddi afi tók myndina til hægri.
Ég benti erfðaprinsinum á að í kvöld settu öll góðu börnin skóinn sinn út í glugga. Hann þóttist ekkert skilja, þannig að ég endurtók þetta og talaði hægar og skýrar, var líka komin með hættulega glampann í augun. Þá hunskaðist hann til að sækja annan strigaskóinn sinn og skellti honum út í stofuglugga. Ég ætla að halda mér vakandi og grípa sveinka glóðvolgan. Mig hefur alltaf langað til að sjá hvernig þeir fara að þessu en aldrei getað haldið mér vakandi. Best að kveikja á kaffivélinni, er farin að geispa.
Það er aðeins þrennt í stöðunni ef barnið mitt fær ekkert í skóinn:
1. Jólasveinninn gefur ekki 27 ára strákum í skóinn.
2. Erfðaprinsinn hefur ekki verið nógu þægur.
3. Jólasveinninn vill ekki láta standa sig að verki.
11.12.2007 | 18:35
Bold and the brúðkaupsraunir
Held að það sé kominn tími á að bolda svolítið. Brooke hætti við að giftast Ridge af því að ástsjúkur tengdasonur hennar, Nick, truflaði brúðkaupið, eins og komið hefur fram. Felicia dó og Bridget huggaði Ridge vegna systurmissisins og notaði svefnherbergisröddina á hann meðan hún strauk honum huggandi og léttklædd uppi í rúmi. Nick hljóp upp til að athuga hvað væri í gangi, opnaði dyrnar hljóðlaust og kíkti og gat ekki séð betur en ástaleikur stæði sem hæst. Fólkið í boldinu læsir aldrei að sér. Hann hljóp út í hvelli og á barinn, hitti þar blindfullan og snöktandi geðlækninn, hana Taylor sem vonaðist til að fá vonandi kannski mögulega að hirða upp leifarnar af Ridge. Ekkert stolt kemur í veg fyrir hamingju mína, drafaði hún. Hún elti samt harmþrunginn Nick í bátinn hans. Á svipuðum tíma, þegar Brooke var búin að hugga Ridge, hitti hún Jackie, mömmu Nicks, sem sagði henni að Nick hafi greinilega séð til Brooke og Ridge því hann hafi hlaupið út í sjokki. Brooke fær líka sjokk, ákveður að finna Nick og segja honum að hún elski hann, ekki Ridge. Af einskærum drykkjuskap og klaufagangi datt léttklædd Taylor ofan á enn minna klæddan Nick sem var allt í einu kominn í koju og um leið gekk Brooke í salinn (káetuna). Tjaldið fellur.
Það er þrennt í stöðunni:
1. Brooke fleygir Taylor útbyrðis sem missir minnið og giftist svo Tómasi, syni sínum, þegar kemur í ljós að ruglingur hafði átt sér stað á fæðingardeildinni fyrir 18 árum. Brooke fellur fyrir fangaverði í kvennafangelsinu og tekst með hennar hjálp að flýja. Hún litar hár sitt dökkt og fer að ganga í lágbotna skóm.
2. Taylor stofnar bleikan trúarhóp þar sem fjölveri er leyft og gengur að eiga Nick, Ridge, Thorne og brunakarlinn. Hún verður MJÖG hamingjusöm. Oprah fjallar um málið í þætti sínum.
3. Taylor giftist Eric, tengdaföður sínum. Stefanía, mamma Ridge, fer að vera með Nick sem er genginn í Vísindakirkjuna. Tom Cruise fer að bregða fyrir í þáttunum.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
3.12.2007 | 19:39
Brúðkaupsklukkur klingja ...
Brúðkaupsþátturinn boldið var sjokkerandi í dag og ég bið viðkvæma um að lesa ekki lengra. Enn eitt brúðkaupið í uppsiglingu og ég vissi ekki einu sinni af því ... að þessu sinni Brooke og Ridge, jamm, honum tókst að tala hana til. Fjórða eða fimmta skiptið þeirra. Nýlega giftist hún reyndar pabba Ridge, eins og allir vita, en sleit því nokkru síðar.
Á meðan heima hjá Bridget og Nick: Ég veit að þú elskar mömmu meira en mig og varst bara með mér vegna barnsins/barnanna, segir Bridget við Nick. (Þarna er átt við barnið sem þau misstu við fæðingu og Dominic litla sem Nick reyndist ekkert eiga í). Nú er ekkert barn/börn sem heldur okkur saman og ég veiti þér frelsi til að næla í mömmu. En flýttu þér áður en hún giftist Ridge (sem er reyndar bróðir Bridget, ekki blóðskyldur þó).
Þegar Ridge og Brooke höfðu farið með brúðkaupsheit sín, tárvot og verulega krúttleg þar sem þau lofuðu hvort öðru eilífri ást, var kirkjuhurðin rifin upp og inn þusti Nick. Hættið! argaði hann. Hljóp til Brooke, tók hana og vippaði yfir öxlina á sér og hélt á henni upp tröppurnar. Ridge hefði náð honum ef móðir hans, Stefanía, hefði ekki brosandi haldið honum. Hún þolir ekki Brooke, sem hefur gifst Eric, manni hennar, tvisvar, Thorne, syni hennar, einu sinni, og Ridge, syni hennar, fjórum eða fimm sinnum, jafnvel oftar. Nú, Nick læsti og þegar Brooke skammaði hann fyrir að hafa rænt sér úr eigin brúðkaupi þaggaði hann niður í henni með ástríðufullum kossi. Brooke gerði sig ekki líklega til að opna fyrir Ridge sem stóð hinum megin við dyrnar, barði á þær og kallaði.
Þegar völvan hafði lokið máli sínu í dag (sjá Vikuna 52. tbl. 2007 milli jóla og nýárs) sagði hún: Þú ert að fara að ganga út! Ég hélt eðlilega að hún ætti við að ég væri í þann veginn að ganga út af heimili hennar og fannst varla þurfa spádómsgáfu til að vita það, en hún meinti það ekki ... Fylltist ofsóknaræði við heimkomu í himnaríki og hef þegar pantað öryggismyndavél við dyrasímann og öryggisskírlífisbelti (karlmenn geta verið svo freistandi), að auki fleygði ég óöryggisbaðbombunum mínum. Nó mor ilmandi kvöldböð frá og með 2008. Þetta ætti að duga til að fæla menn frá. Bað erfðaprinsinn um að sleppa böðun líka til að honum liði betur í breyttu andrúmslofti. Flott að fá þessa viðvörun. Svo á viðkomandi að vera sæmilega efnaður líka! Ekkert þó á við Björgólf. Varð svo brugðið við þetta að ég gleymdi að spyrja hvort hann væri ljóshærður, dökkhærður, sköllóttur eða rauðhærður, Skagamaður eða ekki, eldri eða yngri ... Hún gaf í skyn að ég vissi hver hann væri. Þetta skyldi þó ekki vera George Clooney? Efast þó um að hann líti við rúmlega fertugum súperskvísum ...
1.12.2007 | 22:44
Matar- og tónlistarblogg
Matarboðið gekk frábærlega. Maturinn heppnaðist sjúklega vel, heiðursgesturinn, Inga, var svo þreytttttt að hún kom ekki, enda búin að vinna mikið og vaka lengi. Vildi að hún hefði sofið í himnaríki í dag og náð að koma í matinn. Hún hefur ekki svo oft á þessum 24 árum sem við höfum þekkst fengið ætan bita hjá mér. Enda er hún kokkurinn og ég bakarinn. Það var ekki hægt að klúðra þessu kjöti í dag, enda útbúið af kærleika og miklum hæfileikum af Einarsbúðarsnillingunum. Fylltur lambahryggur með gráðaosti og villisveppum. Sveppasósa með (bara úr pakka ... en með nokkrum villisveppum sem kokkurinn í Einarsbúð lét fylgja með), grænmetisréttur með sætum kartöflum og fleira (uppskrift kemur bráðum, sérstaklega fyrir Jennýju), gular baunir, hitaðar með smjöri, salti og pipar og að síðustu ferskt salat með alls kyns grænmeti.
Erfðaprinsinn á mikinn heiður skilinn, hann hélt öllu hreinu á meðan ég djöflaðist, henti öllu rusli jafnóðum, algjör hjálparhella. Það var soldið fyndið að hafa 2/3 Idol-dómaranna í stofunni hjá sér á meðan Laugardagslögin hljómuðu, ætla að blaðra því að Ragnheiður Gröndal féll þvílíkt í kramið hjá okkur öllum, að hinum ólöstuðum. Þriðji dómarinn var reyndar á staðnum ... á sófaborðinu í formi "Öll trixin í bókinni".
Svo fóru allir í einu um tíuleytið ... Monika í bæinn en Palli vildi sjá húsið hennar Ellýjar áður en hann fer að skrattast í Breiðinni (gamla Hótel Akranesi). Ég mundi loks eftir myndavélinni en ég gleymdi henni alveg í gærkvöldi í þættinum, í Skrúðgarðinum í dag og á tónleikunum í Bíóhöllinni ... og á núna m.a. þrjár algjörar hryllingsmyndir af gestunum. Meira að segja fallegi erfðaprinsinn minn myndaðist illa.
Stutt í að haldið verði í draumalandið og vei þeim sem hringir fyrir klukkan átta í fyrramálið ... djók, ég meinti hádegi!
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 22:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
30.11.2007 | 22:18
Bara sooooo gaman
Takk fyrir kveðjurnar, hjartagullin mín, þetta gekk bara ljómandi vel, og frábært að Skagaliðið sigraði. Það var heilmikil pressa á okkur, frétti rétt fyrir þáttinn að Skessuhorn hefði sagt að við værum síðasta von Vesturlands! Dramatíkin að fara með þá ... Mér fannst eiginlega best þegar ljóshærða fegurðardrottningin í Skagaliðinu var með á hreinu hvað eitthvað hérað í Indlandi hét. Hún horfði svellköld á Hafnfirðingana og sagði GÓA! Þau voru annars alveg frábær í hinu liðinu, gaman ef þau hefðu komist áfram líka. Bjarni Ármanns er einstaklega hress og skemmtilegur og ég er fegin að hann píndi mig til að taka Oliver Twist-flokkinn. Var aðeins of fljótfær í síðustu spurningunni þar.
Nú er víst "fárviðri" á Kjalarnesi og ég sit í Galtalindinni í Kópavogi, gisti hjá Hildu í nótt og Inga ætlar að skutla mér í fyrramálið á Skagann, eldsnemma. Útvarpsþátturinn hefst kl. 11 í Skrúðgarðinum og ég á eftir að finna tónlist og fleira, gera það sem ég hefði gert heima í kvöld ef ... Hviðurnar eru reyndar ekki nema 33 m/sek, næstum strætófært en Inga er þreytt og mér líst líka vel á fyrramálið.
28.11.2007 | 22:38
Tæknitröll, bold og allt um Útvarp Akranes
Gott var að fá far heim með Ingu en þegar hún var að fara út úr dyrunum eftir latte og spjall bað ég hana að tengja snöggvast vídeótækið sem hún lánaði mér. Það hefur alltaf gleymst. Hér á þessu heimili leikum við okkur að kjarneðlisfræði og töfrateningum en kunnum ekki á svona hversdagslega hluti. Dæmi: Hér er ekki ryksugað, heldur sér vélmenni um að halda gólfum himnaríkis hreinum! Jæja, annað hvort er tækið bilað eða scart-tengi eru uppfinning andskotans! Þetta tafði Ingu um næstum klukkutíma og heima í Reykjavík beið hennar sársvangur drengur (20 ára). Tek það fram að Inga leikur á fjarstýringar og tengingar eins og Mía systir á píanó og ég á karlmenn, eða gerði ef ég virkilega legði mig fram um það! Kannski.
Hef horft með öðru, eiginlega hálfu, auganu á síðustu bold og skil ekki alveg allt sem er í gangi. Mér sýnist þó að Bridget tali um barnið, Nichole, sem dó við fæðingu, sem límið sem hélt hjónabandi hennar og Nicks saman. Nú er ekkert lím. Svo kom í ljós að Nick á ekkert í Dominic litla, heldur Dante, bjargvættur Taylor (bjargaði henni frá Ómari soldáni sem hafði rænt henni og allir héldu að hún væri dáin en þá var hún bara í dásvefni). Dante kemur sterkur inn, deitaði meira að segja Brooke á tímabili. Nú þráir hann heitast af öllu að Briget komi til sín og gangi barninu í móðurstað, eins og hún ætlaði að gera með Nick.
Það gengur löturhægt hjá Ridge að reyna við Brooke, hún sér bara tengdason sinn, Nick, sem verður væntanlega brátt á lausu. Eflaust verða þó einhverjar flækjur til að skemma það, kannski að Brooke játist bara Ridge til að spæla Stefaníu, mömmu hans. Svo er dóttir Lou horfin, eftir að Barnavernd kíkti í heimsókn út af marblettinum á öxlinni á henni, sem hún reynir að kenna hinni hressu dóttur Steiger lögregluforingja um. Svo kom eitthvað um að stýrimaður eða vélstjóri hefði klikkast og reynt að sökkva skipi þótt hann hefði ekki stímt á ísjaka og ... jamm, það var alltaf fjör í boldinu.
Miðvikudagar eru ekki lengur viðbjóðslegir kellingasjónvarpsdagar á Stöð 2, ekki eingöngu. Nú eru bæði Closer, spennuþáttur (reyndar kona sem yfirlögga) og Grey´s Anatomy (kona sem læknir en líka fullt af körlum) á dagskránni og hægt að fara að lesa þegar Oprah byrjar ... og horfa á Kiljuna í leiðinni. Er komin frekar langt í Ösku, bókinni hennar Yrsu og finnst hún alveg stórskemmtileg. Í dag fékk ég Guðna sjálfan og kíki á hana um helgina. Harry Potter er þó ofar í bunkanum en erfðaprinsinn, sem átti þá næstsíðustu eftir, spændi hana í sig og er nú langt kominn í þessarri nýju, rosalega spenntur.
Útvarp Akranes verður sent út frá Skrúðgarðinum um næstu helgi (FM 95.0). Það er sniðug hugmynd að senda út þaðan. Tommi strætóbílstjóri og Jón Allansson (gamall bekkjarbróðir úr barnaskóla og safnstjóri hér í bæ) sjá um rokkþátt frá kl. 21 á föstudagskvöldinu. Það verður án efa góð skemmtun! Svo ætlar sjálf Anna Kristine að vera með viðtal við hjónin Ingibjörgu Pálmadóttur og Harald Sturlaugsson á sunnudeginum um miðjan dag. Þess á milli bara glimrandi fjör og skemmtun. Erfðaprinsinn ætlar að skutla mér undir hádegi á laugardeginum og fara svo að kaupa jólagjafir. Hef ekki hugmynd hvað ég á að pína hann til að gefa mér! Getur hann toppað afmælisgjöfina? Efast um það. Kannski að ég tali meira um hvað nýja safnplatan með Led Zeppelin sé örugglega góð ... Mér sýnist hann vera sofnaður með Potter á bringunni og kettina til fóta. Hvað er annað hægt að gera en sofa þegar Jónatan hefur alveg yfirgefið fjölskylduna?
27.11.2007 | 15:20
Áhyggjufækkun, peningaminnkun, gleðiaukning
Það birti yfir í Skrúðgarðinum þegar Guðmundur, bloggvinurinn besti, gekk inn. Sumir standa við hótanir gærdagsins, Guðmundur er einn þeirra. Mikið var gaman að hitta hann! Hulda, eina sanna, var í búðarápi og ég dreif hana með í Skrúðgarðinn. Súpan alveg súpergóð og þriðjudagsmömmuklúbburinn á sínum stað í öðrum sal. Sakna þeirra helling en skil þær svo sem alveg að vilja vera sér og spjalla. Hitti eina þeirra og viðraði þennan söknuð. Kjáði framan í prinsinn hennar, ógurlega sætan. Held að ég fari alveg að öðlast þann þroska að verða amma. Hef, held ég, gefið upp á bátinn að koma með litla systur fyrir erfðaprinsinn. Það væri samt kúl að hafa tæp 30 ár á milli barna. Koma tímar, koma ráð.
Útsvarsáhyggjurnar: Í gærkvöldi kíkti Sigrún Ósk, meðreiðarmær mín, í heimsókn í himnaríki. Finnst líklegt að hún verði frábær í leiklistinni. Henni tókst að koma skilaboðum til Bjarna Ármanns í gær um að hann yrði látinn hlaupa í bjölluna, enda maraþonhlaupari mikill. Ég fæ sem sagt að sitja eins og klessa og vera sæt ... og vonandi gáfuð. Um daginn fékk ég spurninguna: Í hverju ætlar þú að vera? Sú manneskja á skilið mikið þakklæti því að ég hefði annars lent í miklum vandræðum. Föt eru ekki mínar ær og kýr. Skrapp í Nínu eftir Skrúðgarðinn og fékk svo góða hjálp við að velja falleg föt að ég mun bera af öllum þeim keppendum fyrr eða síðar sem nokkurn tíma hafa tekið þátt í spurningakeppni á Íslandi, jafnvel í öllum heiminum. Held ég. Hvít skyrta, svart vesti, svartur jakki, svört hálsfesti. Jólafötin komin, líka páska-, bolludags-, hvítasunnu- ...
Fór loksins með uppáhaldsúrið mitt í viðgerð til úrsmiðsins í Lesbókinni (Morgunblaðshöll okkar Skagamanna, Tommi bílstjóri býr á efstu hæðinni). Úrið á myndinni hér t.h. er svolítið líkt því.
Reykvískur úrsmiður hafði metið úrið ónýtt og ég ætlaði loksins að kaupa nýtt úr á keðjuna. Á henni eru fjórir fallegir túrkíssteinar. Þessi frábæri úrsmiður sagði að það þyrfti bara að hreinsa úrið, í því væri gott verk og algjör óþarfi að henda því. Snillingur! Þetta gladdi mig mjög.
Svona er allt á Skaganum. Konan hjá sýslumanni hér gerði t.d. óumbeðin við ökuskírteinið mitt eftir að hún hafði úrskurðað það í gildi. Bara lítið dæmi.
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 3
- Sl. sólarhring: 54
- Sl. viku: 632
- Frá upphafi: 1524947
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 537
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni