Af óvæntu kryptóníti í afmælum og víðar

Kaka ársinsÉg á von á tveimur gestum nú á eftir og hafði ákveðið að gleðja þá (þær) með köku ársins 2021 sem litur fáránlega vel út og innihaldið virkar sérlega gott ... ég er reyndar hætt að háma í mig sætindi en alltaf gaman að smakka. Ég er með ofnæmi fyrir hnetum, allavega jarðhnetum, og fer mjög varlega í að innbyrða þær - að auki bragðast þær verulega illa sem ég tel bragðlaukana vera að segja mér að ég hafi ekki gott af því að borða þær ...

Ég hafði vit á því að hringja í bakaríið á Akranesi áður - og fékk þær hroðalegu upplýsingar að eitthvað væri um hnetur sem leyndist í smáa letrinu. Enn eitt sorgarárið ... 

Well, ég held alltaf stórafmæli á hverju ári og býð 70 allra, allra nánustu og er aldrei með hnetur (möndlur, döðlur eða rúsínur) í neinu og allt er borðað með bestu lyst, enginn kvartar.

Eitt árið ætluðu vinkonur (sem þekktu mig ekki nógu vel þá) að gleðja mig ærlega og mættu með risastóra afmæliskringlu sem gjöf (það þarf samt ekki að færa gjafir). Ekkert pláss var fyrir kringluna í eldhúsinu sem var yfirfullt af brauðtertum og hnallþórum svo hún var sett á borðstofuborðið. Hún var auðvitað útötuð í hnetum, möndlum, döðlum og rúsínum, gott ef var ekki núggat og súkkat líka ... hrollur Ég er enn hálfmóðguð út í hina 65 gestina sem kláruðu næstum alla kringluna ... og mávana sem voru ofsaglaðir daginn eftir yfir restinni. Vinkonum mínum (ekki samt fyrrverandi) fannst ógeðslega fyndið að hafa fært mér eins konar Gurríar-kryptónít að gjöf. En í alvöru, þetta var bara fyndið.

Það er aftur á móti ekkert fyndið að troða svona hnetum í allt - algengasta ofnæmisvaldinum, held ég - og auglýsa það svona illa, eins og súkkulaðiísinn um árið sem meira að segja fóstursyninum þótti vondur. Eftir það sjokk hef ég alltaf lesið innihaldslýsingar mjög vel. Þar sem ég er ekki komin með ellifjarsýni þrátt fyrir að vera orðin 62 ára, hef ég enga afsökun fyrir að gera það ekki. (Ellifjarsýnin tefst víst vegna þess að ég les svo ofboðslega mikið án gleraugna, augun í sífelldri þjálfun, sagði sjóntækjafræðingur mér). Besta kaka ársins allra tíma var sú sem Siggi í Bernhöfts gerði fyrir nokkrum árum ... hvít og laus við hnetur.

Ég keypti rauða velvet-köku með ostakremi handa gestunum, nógu rómantíska á litinn til að gleðja okkur yfir konudagshelgina því við fáum engar gjafir (takk, karlar) ... önnur kemur með pönnukökur með sér á eftir, en óttaðist fyrst að ég liti á það sem aðför að mér sem húsmóður, ónei, aldrei. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 15
  • Sl. sólarhring: 233
  • Sl. viku: 1496
  • Frá upphafi: 1453965

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 1251
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Draugar og uppeldi
  • Himnaríki sjór
  • Flutningar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband