Fura eða lerki, frostpinni eða prins

Hús örlagannaÞessi ljómandi góði dagur hófst með dásamlegri sturtu og síðan enn dásamlegri kaffibolla. Hafði þó ekki hugmynd um hvað dagurinn átti eftir að bera í skauti sér. Samkvæmislíf sumarsins hófst sem sagt með látum í dag með fermingarveislu í Fólkvangi á Kjalarnesi kl. 15. Hilda systir sagði það grunsamlega vel planað hjá mér að strætó gengi beinustu leið þangað frá Akranesi á hárréttum tíma. Það skiptu vissulega nokkrir fímmtíukallar í brúnum bréfpokum um hendur um árið þegar tímaáætlunin var gerð - því ég hafði á tilfinningunni að veislan sem frestað yrði tvisvar í fyrra vegna covid, átti fyrst að vera í í Reykjavík, yrði á Kjalarnesi á endanum, sem engan grunaði. Ekki að spyrja að innsæi mínu. Húsið mun ég sennilega kalla Hús örlaganna, ef allt gengur að óskum ... svo magnaðir hlutir gerðust þar.

Geggjaðar veitingar (meira að segja ljómandi gott kaffi), allt upp á tíu, flottir ættingjar sem gaman var að hitta en hátindurinn var sessunautur minn (mig grunar að frænka mín, fermingarmóðirin, hafi vandlega undirbúið að við kynntumst, því ég fékk einhleypan og bráðhuggulegan byggingaverkfræðing á réttum aldri við hliðina á mér sem þýddi að ég gat montað mig af öllu sem ég vissi um timbur og byggingar. Hann hlustaði heillaður á mig tala illa um birkikrossvið sem myglar um leið og hann er einangraður, að Íslendingar ættu að einangra hús sín að utan, ekki innan, og hvað það væri sniðugra fyrir fólk að fá sér lerki sem pallaefni í stað furu, ekkert viðhald á lerki og dugir í heila öld. Furan dugir í kannski 15-20 ár og þarf heilmikið viðhald og vesen en kannski auðveldari að vinna með. 

V eða B„Lerki er samt fjórum sinnum dýrara,“ sagði ég hugsi og greindin skein úr grænleitum augum mínum. Biggi (hann er alltaf kallaður það) kinkaði kolli til samþykkis og sagði að enn betra væri að fá sér sedrusvið sem ekki bara væri sterkur og flottur harðviður, heldur fjórfalt dýrari en lerki ... og lyktin sem bærist frá sedrusviði virkaði sem skordýrafæla. Það var þá sem ég missti stjórn á mér, nánast datt af stólnum í sæluhrolli. Það þarf ekki meira til að heilla mig. Ég gaf honum símanúmerið mitt þegar ég var sest aftur við hlið hans ... óþarft að skrifa niður, sagði hann og kvaðst hafa gott minni á tölur - og þá leið yfir mig. Hvar hafði þessi maður verið allt mitt líf? hugsaði ég áður en allt varð svart. Systkini mín báru mig í gullstól yfir í næstu setustofu og eftir hálftímalanga ilmsalts- og blævængsmeðferð rankaði ég við mér. Fermingarveislunni hafði verið aflýst, allir reknir heim og bara tíu mínútur í strætóinn minn á Skagann.

Ég er búin að steingleyma Vilmundi þótt ég sé vissulega hálfpartinn veðursjúk, alla vega lægðasjúk á veturna, því á sumrin er ekkert um almennilega tilbreytingu, bara lægri eða hærri hitatölur. Nú er ég heppin að vinna heima með bæði heimasíma og gemsa við hliðina á mér, ég gaf Bigga sæta (Biggi byggir) bæði númerin - nú er að vita hvort hann meinti eitthvað með hrifningarstununum sem hann rak annað slagið upp í samtali okkar. Eða er hann tilfinningalaus frostpinni eins og sumir sem ég þekki og mun gleyma? V var bara nær. Ég er meira að segja búin að afpanta ódýra þjónustu vinkonu minnar sem hefur setið öll kvöld í bílnum sínum fyrir utan heimili V og gefið mér svo skýrslu næsta morgun. Hún hefur ekki séð frostpinnann í marga daga en ég hef engar áhyggjur, ég hef þegar gleymt honum.

P.s. Hilda systir hringdi rétt áðan (eftir að hún talaði við fermingarmömmuna) og skammaði mig fyrir að hafa sest í hennar sæti í veislunni. Ég átti víst að sitja annars staðar. Ég er svolítið ráðvillt. Er B minn - eða var hann allan tímann Hildu? Hvernig taka örlögin á svona mistökum? Á ég að tékka á fornleifafræðingnum sem Hilda sat uppi með og kvartaði yfir að hún hefði allt of fáar hrukkur miðað við aldur? Af hverju vorum við Hilda aðskildar í fermingarveislunni? Og af hverju fékk hún Moderna og ég Astra Zeneca? Hvað er um að vera?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Dreymir nú um kræfan kall,
í krapi ástarinnar,
gegnheilt parket, góðan pall,
geirvörturnar stinnar.

Þorsteinn Briem, 18.6.2021 kl. 12:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 23
  • Sl. sólarhring: 239
  • Sl. viku: 1504
  • Frá upphafi: 1453973

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 1259
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 22

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Draugar og uppeldi
  • Himnaríki sjór
  • Flutningar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband