Og nú er sjokk í höllinni ...

Fyrir og eftirSvakalega sem Önnu Júlíu tókst að gera mig ægifagra í dag - bara með því að nota skæri og fleira. Ef helmingur Skagamanna væri ekki fyrir norðan og austan þessa dagana hefði ég orðið að skella slæðu yfir hausinn til að valda ekki öngþveiti - en með slæðu hefði ég fengið skammir fyrir að aðlagast ekki íslensku þjóðfélagi, svo það er nánast ómögulegt að gera öllum til hæfis. Hitti elskuna hana Hörpu úr Hafnarfirði sem lítur út fyrir að hafa yngst um mörg ár síðan hún bjó hér, og ég gat ekki stillt mig að segja það hreinskilnislega. „Hreyfingin,“ sagði hún, „Allt D-vítamínið.“ Hún fer sjálfviljug í langan göngutúr á hverjum degi, sama hvernig viðrar (hrollur).

Myndin er samsett (ég gat það). Sú til vinstri tekin kl. rúmlega 13 í dag, myndin hægra megin um fjögurleytið í dag.

Í apótekinu fann ég þessar fínu veiðigræjur; meik, gloss, maskara og naglalakk, dásamlega konan sem afgreiddi mig fór gjörsamlega á kostum og sú fær að verða brúðarmær ef allt gengur upp ... Vona að það verði ekki yfir 20 stiga hiti og glampandi sól fyrir norðan ... þá bráðnar nú andlitið af manni og allt unnið fyrir gýg. Sjá senu í fyrstu Indiana Jones-myndinni þegar örkin opnast og vondi nasistinn fær fyrir ferðina (bráðnar).

Lækkandi hiti(Mér datt í hug að athuga veðurspána fyrir Akureyri um helgina og sé að hitinn lækkar hratt lau. og sun. og verður kominn niður í 6°C á mán. þegar við höldum í bæinn. Hverjum er svona vel við mig? (Og illa við Hildu systur?). Elsku Vilmundur veðurfræðingur? Nú hlakka ég enn meira til að fara - engin hætta á farðabráðnun.)  

Svo á meðan ég beið eftir strætó hitti ég enn eina skvísuna og nýjustu fréttir bárust í tal. „Úff, hugsa sér hvað allt hefur breyst, ég byrjaði með manninum mínum þegar ég var 15 ára,“ sagði hún (48). „Og ég flutti að heiman þegar ég var 15 ára,“ sagði ég (62). Við sögðum ekki meira, vildum ekki vera meðvirkar en samt svolítið daprar. Málin eiga að sjálfsögðu eftir að skýrast og ef glæpur var framinn þarf viðkomandi auðvitað að axla sína ábyrgð.

Svo er sagt að Harry Bretaprins sé orðinn blankur, einn fb-vinur minn orðar það svona: „Harry litla vantar pening. Búinn að eyða arfinum frá mömmu. Spotify og Netflix hafa dregið sig til baka. Megan skilar honum fljótlega þegar þessi* peningur klárast. Hann er henni einskis virði án titils, peninga og sambanda.“

*Tilefnið er ævisaga sem prinsinn ætlar að skrifa og senda frá sér - hefur án árangurs reynt að tilkynna fjölskyldunni um bókina en svo virðist sem búið sé að loka á hann. Nú eru allir í höllinni í sjokki, samkvæmt DV. Mér fannst viðtal Opruh við ungu hjónin ekki gott, ekki réttar spurningar, allt frekar loðið en nú á ALLUR sannleikurinn að koma fram í bókinni, er sagt. Er hún Megan svona vond manneskja? Er hún kannski narsissisti (sjálfsdýrkandi?) sem hugsar fyrst og fremst um sjálfa sig og snýr prinsinum eins og skopparakringlu í kringum sig? Eða er breska hirðin svona skelfileg stofnun? Ekki leið Díönu vel þarna, heldur ekki Fergie sem vill láta kalla sig Söru núna, og býr reyndar með sínum fyrrverandi, Andrési prinsi, eða heldur heimili með honum. Allt platónskt samkvæmt mínum heimildum.

HefðardúllurÉg hef lesið nógu margar bækur eftir Barböru Cartland til að vita að margt slæmt getur gerst í höllum og köstulum, og bæði hirðmenn og hirðmeyjar tekið upp á öllum fjandanum sem getur komið sér illa fyrir prinsa, prinsessur og jafnvel leikkonur.

Gleymi aldrei bók Barböru sem ég las fyrir áratugum um konu sem var neydd til að giftast manni sem var neyddur til að giftast henni ... sem sagt skipulagt hjónaband. Hún var mjög feit þannnig að aðalsmaðurinn yfirgaf hana við altarið, en lofaði að sjá fyrir henni samt. Henni varð svo mikið um þetta að það leið yfir hana og næstu mánuði lá hún í kóma. Og þegar hún vaknaði var hún orðin grönn og falleg. Hún ákvað að gera mann sinn ástfanginn af sér án þess að hann vissi hver hún væri og það tókst. Í fyrsta sinn í bókum Barböru Cartland svaf saman fólk sem var ekki gift en var það samt ... og um morguninn reið hann á fund hlassins sem hann var giftur til að biðja um lausn úr hjónabandinu ... en í stað þess að hitta það var granna fallega konan komin á undan honum og kvaðst vera eiginkona hans í raun. Og þau lifðu hamingjusöm til æviloka.

Ég á enga bók eftir Barböru en tvær eða þrjár eftir Theresu Charles (sem er reyndar karlmaður, eða hjón?), alla vega bækurnar Hulin fortíð og Sárt er að unna. Ég las TC-bækurnar í tonnatali fyrir mörgum árum (Bókasafn Akraness bjargaði öllu, eins og svo oft) og skrifaði grein um þær og höfundinn. Patrick læknir sem Úrsúla hjúkrunarkona ætlaði að eignast og beitti öllum brögðum til, reyndist vera dónalegur ruddi við endurlesturinn, en var fullkomlega eðlilegur, þögull og interísant, þegar ég var unglingur og las þessar bækur. Giftist hann ekki Inez, eða er ég farin að rugla saman læknum?

Ég endurlas líka Óskilabarn 312 sem var BÓKIN þegar ég var 11 eða 12 ára og slegist um hana í bókasafninu. Hún eltist ekki vel. Eina bók endurles ég nú alltaf á nokkurra ára fresti. Það er gömul ástar- og hjúkkusaga: Vinur minn, Prófessorinn. Mæli með henni þegar  allir verða komnir undir teppi og búnir að kveikja upp í arninum (um næstu helgi fyrir norðan), ég kem með haustið með mér ... múahahaha Ja, eða út á palli eða svölum þegar ég verð farin suður aftur. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 15
  • Sl. sólarhring: 237
  • Sl. viku: 1496
  • Frá upphafi: 1453965

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 1251
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Draugar og uppeldi
  • Himnaríki sjór
  • Flutningar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband