Af veiðiferð fyrir norðan og andsetnum kaupstað

Teni á BlönduósiAfskaplega glaðir kettir í Himnaríki núna þrátt fyrir að afar vel hafi farið um þá í umsjá sérlegs hirðkattapassara. Kettir sýna gleði sína öðruvísi en hundar og í stað þess að þvo manni í framan, ýlfra ofsakátir, hoppa og skoppa, fara t.d. kettirnir mínir í eltingaleik hver við annan, hlaupa glaðir um alla íbúð, koma svo og leggjast í smástund hjá mér við tölvuna, þiggja smáklapp og fara svo að sofa. Mér finnst það flott fagn. En hlakka til að vita hvernig Herkúles og Golíat tóku á móti Hildu þegar hún kom heim. 

Já, veiðiferðin. Hún gekk bæði vel og illa. Það er ekki mikið úrval af ógiftum, fullkomnum körlum í kringum sextugt. Strax á Blönduósi ákváðum við að minnka kröfurnar aðeins en þar stoppuðum við á eþíópiskum matsölustað (Teni) fyrsta kvöldið. Afskaplega góður matur og fínasta kaffi (Illy). Mennirnir þurftu ekki endilega að vera fullkomnir, vorum við sammála um, helst sætir en að kunna að gera sítrónufrómas er ekki lengur skilyrði hjá mér, hjá Hildu þarf hann ekki lengur að geta sagt í fimm mínútur án þess að ruglast: „Frank Zappa í svampfrakka.“ Mér finnst sítrónufrómaskunnáttan mun hagnýtari en Zappa-dæmið en Hilda er ekki á sama máli.

Tveir myndarmenn settust við næsta borð og sátu hlið við hlið svo þeir gætu horft á okkur (áfergjulega) á meðan þeir snæddu þennan svakalega góða mat. (Beygt til vinstri þegar keyrt er norðurátt, er í gömlu húsi, áður Mömmukaffi-eitthvað).

Ég viðurkenni að ég naut athyglinnar en Hildu fannst þetta undarleg viðreynsla. Hún hefur líka aldrei farið á Kaffibarinn. 

 

Morgunmatur á KróknumÉg hækkaði röddina svolítið (viljandi) þegar ég talaði um appelsínugula hótelið okkar á Króknum og sá að þeir sendu hvor öðrum þýðingarmikið augnaráði og áttu erfitt með að fela hversu sigrihrósandi þeir voru (þurftu ekki að spyrja fegurstu konur sem þeir höfðu eflaust séð lengi hvert förinni væri heitið). Það kom mér nákvæmlega ekkert á óvart að þeir voru það fyrsta sem við sáum morguninn eftir í mötuneytinu sem var samt ekki á vegum hótelsins. Mennirnir höfðu setið þarna síðan kl. sjö en við sváfum á okkar græna til níu og höfðum þá hálftíma til að fara í sturtu og þjóta niður ... og borða óspennandi morgunmat. Þurrar gúrkur og melónur (niðurskorið fyrir löngu, kannski daginn áður?), soðnu eggin vond, vondur og súr ávaxtasafi úr fernum og ógeðslegt kaffi sem hetjan hún Hilda bauðst til að smakka svo ég dytti ekki dauð niður. Einn sopi og hún sagði: „Ekki, passaðu þig!“ Ég spurði ungan starfsmann hvaða tegund þetta væri og fékk að sjá plastpoka (með kaffidufti, uppsópi?) þar sem á stóð eitthvað á borð við Mellem rystet. Þegar munar bara örfáum krónum (kannski 5-10 kr?) á bolla af góðu kaffi og vondu kaffi skil ég ekki þennan tryllta ofsasparnað fólks á kaffi í mötuneytum, opinberum stofnunum, erfidrykkjum, fermingarveislum ...

„Alltaf hressandi kaffisopinn,“ sagði annar maðurinn hupplega þegar hann settist með kaffibolla sinn við næsta borð þannig að við snerum bökum saman sem var kannski eins gott eftir að hafa sagt þennan hrylling ... eins og kaffi væri bara kaffi. Hversu plebbalegt var þetta? Vinur hans beið í nálægum sófa og fylgdist grannt með. „Nei,“ sagði ég ótrúlega róleg, „hann er ekki hressandi þessi kaffisopi, og eiginlega hvergi á Norðurlandi nema Siglufirði hjá Fríðu, og á kannski þremur eða fjórum stöðum á Akureyri.“ Ég var farin að frussa af bræði. Maðurinn hafði ekki átt von á þessu frá fallegri konu sem hann taldi vera auðvelda bráð, held ég. Hann hristi höfuðið aðvarandi í áttina að vininum sem örskömmu síðar stóð upp og benti hinum á að koma. Svo bara hurfu þeir. Ég veit að ég tala of mikið þegar ég er feimin og stressuð, sérstaklega þegar ég hitti fólk í fyrsta sinn, en þeir geta bara dinglað sér.

  

Danska„Alltaf þarft þú að skemma allt með þessari ömurlegu kaffiklikkun þinni og rugli,“ sagði Hilda með útiröddinni. „Viltu ekki bara kveikja á fréttunum líka?“ bætti hún við. Henni finnst nóg að hlusta á fréttir í hádeginu og annan sjónvarpsfréttatíma kvöldsins. Á meðan ég hlusta á þá alla, og beggja stöðva í sjónvarpinu, tíufréttir í sjónvarpi eða útvarpi, svo miðnæturfréttir (jafnvel fréttir kl. 1 og 2). Vissulega koma oft sömu fréttir en það gerist samt alltaf eitthvað nýtt. Þegar gosið til dæmis verður slappt og fer í pásu og Magnús Tumi ýjar að því að því ljúki nú senn, veit ég að þýðir að gosið eflist og verður rosaflott. Hann hefði aldrei átt að kalla það ræfil. Þetta veit ég bara af því að ég fylgist með fréttum. Ég gleymi til dæmis aldrei hvar ég var þann ellefta september 2001 þegar fyrstu fréttir bárust af flugvél sem flaug á turn. Í bíl með Hildu systur sem sagði: „Æ, ertu til í að lækka í útvarpinu?“ Ég held að ég sé búin að fyrirgefa henni þetta, ekki samt alveg viss. Sumar fréttir verður að hlusta á hátt til að missa ekki af einu einasta orði. 

Við slógumst aðeins í lobbíinu eftir að karlarnir hurfu en bakið á mér þoldi það illa svo ég þóttist gefast upp eftir nokkrir mínútur. Ég hafði samt sterka stöðu, ég var með lykilinn okkar að herbergi 320 (Það er til sjónvarpsþáttaröð sem heitir Evil Room 320). Ég held að Krókurinn hafi verið andsetinn (slæmt kaffi, slæm áhrif) því um leið og við nálguðumst Siglufjörð var komin svo mikil kaffitilhlökkun í mig að ég hætti að slá til Hildu á 20 km fresti og hrópa „GULUR BÍLL!“

Við fórum í Kaupfélag Skagfirðinga áður en við yfirgáfum Krókinn og gerðum góð kaup. Ég keypti mér hvítan bolla með gulum doppum (ég á samt allt of mikið af bollum!), held að sumarkaffið bragðist sérlega vel í honum. Hilda keypti þarna jólagjafir til 2028. Áhrifa vonda kaffisins gætti ekki í kaupfélaginu, enda er það í útjaðrinum, á móti gamla skólanum mínum (Landspróf 1974-1975). Allir þurfa að sjá hvaðan landinu er stjórnað í raun. Sumir segja það ... Ég mætti eintómum elskulegheitum í þessu risastóra og flotta kaupfélagi. 

Fólkið mitt á SiglóÉg vil endilega leiðrétta að ég fór alls ekki á Siglufjörð til að sparka í rassinn á presti, heldur til að hitta dásamlega ættingja og fá almennilegt kaffi.

Ég drakk tvo latte hjá Fríðu og sötraði þann þriðja á leiðinni til Akureyrar þar sem Hótel KEA beið okkar heitt og freistandi. Eiginlega allt of heitt því við vorum með viftuna í gangi á hæsta í herbergi 319 (næstum 320, ekki tilviljun) hverja einustu mínútu af veru okkar þar. Ég get ekki lýst því hversu fegin ég var að hitinn úti fór ögn lækkandi þessa helgi og svo hafði covid eflaust einhver áhrif líka á bæjarbraginn, færra fólk og sífellt fleiri með grímur. En þarna fyrir norðan var trylltur hiti og læti í fjórar vikur í röð. Kræst!

Ketilkaffi í Gilinu fagra (í listasafninu) stóð heldur betur undir nafni sem geggjaður kaffistaður. KEA bauð upp á fínan morgunverð en óspennandi kaffi (allt annað dásamlegt og þjónustan upp á tíu). Ég keypti meira að segja kaffibaunir í Ketilkaffi og tók með mér í bæinn - ef ég hef ekki gleymt þeim í bílnum hennar Hildu (Toyota) sem ég held að hafi gerst, því ég hef ekki séð pakkann hérna eftir að ég kom heim. Skrambs! 

Það gerðist heilmargt fleira auðvitað. Við heimsóttum nokkra innfædda (hjón+sonur+tengdadóttir) sem var hrikalega skemmtilegt ... þar sem m.a. Radiohead og Lee Child voru meðal áhugaverðra umræðuefna í virðulegri kaffi-og skonsuheimsókn.

Svo lækkuðum við Hilda kröfur okkar nánast niður í ekki neitt eftir ofboðslega erfiða leit um stóran hluta Norðurlands. Það eina sem karlarnir þurftu orðið að uppfylla var að anda ... en nægði það? Voru einhverjir eftir? Er eitthvað að marka svona síður sem spá fyrir manni? Ein slík sagði Hildu að hún fyndi sanna ást í júlí í ár ... Fann hún hana?

Framhald á morgun. Ekki fara langt.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 15
  • Sl. sólarhring: 236
  • Sl. viku: 1496
  • Frá upphafi: 1453965

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 1251
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Draugar og uppeldi
  • Himnaríki sjór
  • Flutningar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband