FFH ... furðuleg fréttaforðun fólks

Þoka frænka og KeliPínulitla kisufrænka mín, Þoka, kom loksins í heimsókn á Skagann og hitti háæruverðuga aldraða kisufrændur sína; Kela, Krumma og Mosa.

 

 

Þoka átti annað erindi en að gera allt vitlaust úr krúttlegheitum í Himnaríki, eða að koma með silkisængina góðu svo ég geti farið að eiga viftulausar nætur. Það heyrist reyndar ekkert í viftunni en samt fínt.

 

 

Þre-kettingarnir tóku alveg ágætlega á móti Þoku, sá elsti, Keli (11) var hreinlega föðurlegur við hana (sjá mynd), Krummi (10) forvitinn og vinalegur og Mosi (7) hálfsmeykur. Þoka var mjög örugg með sig, hljóp um allt, stundum úfin eins og klósettbursti, að æfa sig fyrir lífið og tilveruna, ef hún þyrfti að setja upp kryppu í alvörunni. Henni fannst Himnaríki flottasti staður sem hún hafði komið í, held ég, hún vældi ef reynt var að taka hana upp, það mátti ekki trufla.

 

Mosi liggur alsæll ofan á rúminu mínu núna og lætur fara vel um sig, feginn að vera aftur orðinn yngstur og sætastur á heimilinu.

 - - - - - - - - - - - -  

Hvar er ævintýraþráinNú eru allar þvottavélar og þurrkarar á fullu, ég þarf að klára spennandi yfirlestur, pakka niður, svo skipta á rúmi í fyrramálið fyrir kisufóstruna, sem fær samt ekki silkisængina!  Uppþvottavélin fylltist loks eftir kvöldmatinn svo hún er komin í gang.

- - - - - - - - 

Ég er nú bara að fara í þrjá daga, ekki þrjátíu þótt mér líði þannig, en þetta er svo sem eina ferðalagið í ár ... sem ég veit af.

 

- - - - -

Væri gaman að fara dagsferð á Snæfellsnes, eitthvað slíkt. Þó ekki væri nema bara til að fá sér einn latte í Rjúkanda.

 

MYND 2: „Kommon, Hilda ... hvar er ævintýraþráin?“ 

 

TónlistHljómsveitin Rolling Stones er að verða sextug eftir tvö ár. Ég er af 78-kynslóðinni og missti af „hvort ertu Bítla- eða Stones-aðdáandi?“-spurningunum. Missti líka af Wham og Duran Duran, þá orðin of gömul. Uppáhaldsplöturnar mínar verða hver af annarri fimmtugar þessi misserin. Sem er fyndið, ég eldist nákvæmlega ekkert með öllum þessum hljómsveitum og plötum.

Söngvari Uriah Heep, John Lawton, lést fyrir skömmu, það var samt ekki hann sem kyssti mig á kinnina á Hótel Íslandi um árið, John sagði skilið við sveitina árið 1979 og þá voru enn nokkur ár í Íslandsferðina. Það var samt einhver stofnfélagi UH, ekki endilega söngvari ... Meira lauslætið að láta einhvern kyssa sig og vita ekki hvað viðkomandi heitir eða hverra manna ...

Ótrúlegt hvað tónlist er stór hluti af lífi manns. Í eldgamla daga (æsku) áttum við ekki margar plötur, Dúmbó og Steina, Vínardrengjakórinn, Trúbrot og Sound of Music sem fóru álíka oft á fóninn um tíma - og á unglingsárunum var Deep Purple-platan Machine Head mín fyrsta, eða var það Demons and Wizards með Uriah Heep? Lifun kom þarna í kjölfarið ... svooo góðir tímar að fara í hönd, þetta bara rétt byrjunin. 

Gaman að straujaÉg er vissulega hætt að kaupa geisladiska og hlusta á þá aftur og aftur og aftur eins og í gamla daga. Gerði það reyndar síðast þegar OK Computer kom út (Radiohead) og hef sjaldan skemmt mér eins vel við að strauja með hana á repeat.

Útvarpið fær oft að malla á daginn þessi misserin, ég er svo mikill fréttafíkill, finnst ég missa af lífinu ef ég næ þeim ekki nokkrum sinnum á dag. Þær valda mér engum kvíða eða stressi, ég hef heyrt um fólk sem sleppir þeim algjörlega, sem segir að það geri það hamingjusamara. Úff, hvað ég myndi þjást af fréttaskorti ... ég er hamingjusöm með mitt kaffi og mínar fréttir. Ekkert kjaftæði! Þessi aukaverkun af champix-lyfinu sem tók ekki bara af mér reykinganautnina, heldur líka ánægju af því að horfa á sjónvarpið (í alvöru) NEMA FRÉTTIR!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gaman að þessu,getur verið að Mic Box gítarleikari og einn af stofnendum UH hafi kysst þig,hann er reyndar  eini orginalin sem eftir er á lífi.Stór söngvarinn John Lawton söng með Les humphires singers skömmu áður en hann gekk til liðs við UH,þau tóku lagið Sing a song fyrir hönd Germany í evrovision 1976.Getur verið að Ken Hensley og félagar hafi uppgötvað hann þar?

Björn. (IP-tala skráð) 23.7.2021 kl. 21:13

2 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Það hlýtur bara að vera að þetta hafi verið hann en ég vissi svo sem lítið um meðlimi UH - ekkert Google þá. :) 

Svo er það ekki galin spurning varðandi Eurovision, en ég var einmitt í Englandi 1976 og horfði ábyggilega á keppnina, England vann það ár, ef ég man það rétt. :) 

Guðríður Haraldsdóttir, 26.7.2021 kl. 22:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 188
  • Sl. sólarhring: 287
  • Sl. viku: 1732
  • Frá upphafi: 1453891

Annað

  • Innlit í dag: 149
  • Innlit sl. viku: 1437
  • Gestir í dag: 140
  • IP-tölur í dag: 138

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Sven-Göran
  • Hálka
  • Sumardagurinn fyrsti 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband