Hefnd Framsóknar

Páfi og coUmræðuefnin fjögur sem varast ætti að nota í fínum boðum eru:

- Trúmál

- Stjórnmál

- Fjármál

- Heilsa

 

Ég segi kannski ekki að internetið sé gott partí en það kemst nálægt því stundum. En ekki sérlega „fínt“ partí því fólk brýtur reglurnar miskunnarlaust. Dæmi sem ég sá í dag: „Guð hjálpi okkur ef fólk kýs XXX sem mun fjársvelta heilbrigðiskerfið áfram.“ Bingó!

„Kjósendur vilja meira í heilbrigðisþjónustu,“ kom svo fram í fréttum áðan, enginn guð reyndar - ekkert partí heldur. En þið skiljið hvað ég meina, í partíum er sennilega mun skemmtilegra að hlusta á eitthvað allt annað en langar sögur um botnlangauppskurð og sýkingu í kjölfarið, allt um prédikunina á síðustu samkomu hjá Krossinum, hvað Sigmundur Davíð býr til góðar hrákökur eða hvernig maður geti grætt rosalega með því að opna kaffihús og hafa svo næstum aldrei opið ... loka það snemma að vinnandi fólk neyðist til að fara á barinn eftir vinnu og endi jafnvel í meðferð (sjá síðustu færslu).

 

Mér er alveg sama þótt spáð sé vondu veðri á laugardaginn, á KOSS-ningadaginn. Ég ætla að klæða mig upp á, mála mig og ef þarf, hárlakka yfir andlitið svo það haldist fínt - og fara að kjósa (takk enn og aftur fyrir að færa kjörstað á hlaðið til mín), síðan skreppa í kosningakaffi um allt, ef ég fæ einhvern á bíl með mér. Ég mun ekki berjast á móti roki og rigningu neitt ofsalega langt (fékk nóg af því í æsku), þrátt fyrir kökur og brauðtertur. Bara ... ekki gleyma að vera með GOTT kaffi. Ekki nóg að hafa bara gott meðlæti.

 

Samfó á vinninginn með staðsetningu kosningakaffis, eða við hliðina á Galito, í sjö mínútna göngufjarlægð frá mér. Hálftíma í vestanátt.

 

Hvalirnir ykkarÉg er enn með samviskubit yfir að hafa farið í kosningakaffi hjá Framsókn eitt sinn á síðustu öld, án þess þó að hafa kosið Framsókn. Fór með vinkonu og okkur fannst þetta mjög fyndið. Við mættum óvart of snemma svo við vorum sjanghæjaðar í að skera niður vínartertur og brúnar randalínur og raða á kökudiska, og þegar Óli Jó sjálfur mætti, nánast klökknaði hann og sagði dásamlegt að svona ungar konur létu sig hag landsins varða og kysu Framsókn. Við vorum langyngstar.

Þetta var svo gott á okkur. 

Nokkrum árum áður hafði ég reyndar kosið Ingibjörgu Pálma í bæjarstjórn, eins og stór hluti Skagamanna, hún varð síðar heilbrigðisráðherra svo ég átti Framsóknarkaffið alveg skilið. Ég hef reynt að hugga mig við það síðustu áratugi.

 

Jójó-búseta mín milli Akr. og Rvk. skýrir af hverju ég gat kosið Skagakonu eitt árið og ekki svo löngu seinna svindlað mér í kosningakaffi í Reykjavík: 

Frá fæðingu: Reykjavík (1958)* - Stykkishólmur (1959) - Akranes (1961) - Reykjavík (1971) - Sauðárkrókur (1974) - Bifröst (1975) - London (1976) - Reykjavík (1977) - Akranes (1978) - Reykjavík (1982) - Akranes (2006)

* Ég er í raun miklu, miklu yngri - en þegar ég falsaði nafnskírteini mitt til að komast inn í Tónabæ um árið, gekk ég aðeins of langt í því og hef þurft að burðast með rosalega mörg aukaár síðan. Ef ég reyni að leiðrétta gæti ég lent illa í því. Sérstaklega hjá Hildu systur sem er farin að trúa lyginni í sjálfri sér um að hún sé yngri.

 

Viðreynslutæki á hlaðinuVeðrið ógurlega stóð ekki undir væntingum hér á Akranesi. Það hvein vissulega ögn í norðurgluggum Himnaríkis í um 15 mínútur og á planinu sunnanmegin fóru kranarnir (viðreynslutæki aðdáenda minna þar til ég fékk mér almennilegar gardínur) aldeilis ekki á flug, eins og ég hafði búist við (Sjá mynd).

 

Samt var loftvogin í botni, appelsínugul viðvörun í gangi, veðurfræðingir grafalvarlegir í fréttaviðtölum ... en ekkert dugði til að óveðrið stæði undir nafni.

 

Ef vindur hefði verið að austan hefði ég vissulega fundið verr fyrir þessu korteri. Ég tala auðvitað bara út frá sjálfri mér og hvernig ástandið var í Himnaríki, skilst að veðrið í Eyjum og víðar hafi ekki verið jafnkósí.

 

Myndirnar tengjast efni færslunnar ekki beint, nema sú af krönunum hugumstóru sem högguðust ekki í rokinu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 10
  • Sl. sólarhring: 236
  • Sl. viku: 1491
  • Frá upphafi: 1453960

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 1246
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Draugar og uppeldi
  • Himnaríki sjór
  • Flutningar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband