Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Tengdamamma frá helvíti, stjórnsamir vinir og morðóðar fyrrverandi!

Hingað til hefur hið mikla álag og þær gífurlegu hremmingar sem ungar konur þurfa að þola, sumar jafnvel fram á áttræðissaldur, legið í þagnargildi. Fyrir eitthvert kraftaverk tekst þeim flestum að komast klakklaust í gegnum þetta víti sem margir kalla bestu ár konunnar. Hahahahaha!!!

Svo grönnÚtlitskúgun
Til að sleppa við samúð og/eða fyrirlitningu samborgara þinna þarftu að vera GRÖNN. Þér ber engin skylda til að vera gáfuð, góð, snjöll eða skemmtileg, bara GRÖNN. Ef þú ert GRÖNN færðu afgreiðslu í tískuvöruverslunum, kemst í betri vinnu og eignast fleiri kærasta.

DrekinnLaunamisrétti
Við kennum þeim starfið og áður en við vitum af eru þeir komnir með helmingi hærri laun en við.

Þeir verða yfirmenn okkar og reka okkur síðan til að rýma til fyrir ungum frænda sínum!

 

Brooke, Bridget og DeaconMamma
Mömmur líta á dætur sínar sem keppinauta um hylli karla og daðra óspart við kærastana þína. Mamma þín er ómeðvitað að hefna sín á þér síðan þú varst þriggja ára og ástfangin af pabba þínum. Snúðu taflinu þér í hag og notaðu mömmu þína sem tæki til að prófa strákana. Þeir sem ekki falla fyrir henni komast áfram á næsta stig. 

TengdamammaTengdamamma
Þessar elskur kunna milljón aðferðir við að niðurlægja þig og gagnrýna án þess að nokkur annar verði var við það, síst af öllu sonurinn!

Þú munt örugglega ekki verða svona slæm tengdamóðir þótt þú vitir fullvel að engin kona verði nokkurn tíma nógu góð fyrir son þinn.

 

VinirnirVinir þínir
Vinir þínir eru tilætlunarsamir, lævísir, eigingjarnir og stjórnsamir. Þeir eru afbrýðisamir út í manninn því að nú þarftu ekki lengur á þeim að halda. Þeir reyna hvað þeir geta til að skemma sambandið, aðallega til að þú haldir áfram með víðfrægu, erótísku Evróvisjónpartíin þín fyrir einhleypa.

Vinir hansVinir hans
Þarna leynist hreinræktað hatur! Þú ert vond kona sem sér til þess að hann hætti karlmannlegum lífsstíl sínum; fótbolta- og formúluglápi, jeppaferðum og bjórdrykkju. Þetta eru soddan fávitar, þeir ættu bara að vita að þú missir ekki af West Ham-leik, ert margfaldur sigurvegari í drykkjukeppni Vitabars, heiðursfélagi í Jeppaklúbbnum 4x4 og hefur veitt lax undanfarin sumur með Michael Schumacher (sem beitu). 

Fyrrverandi hansFyrrverandi hans
Fyrrverandi kærustum finnst nálgunarbann vera ögrandi svo að þú þarft að taka til þinna ráða: 

1. Láttu tékka daglega á bremsunum í bílnum þínum eða skoðaðu ökuskírteini og starfsleyfi strætóbílstjórans þíns kvölds og morgna. 

2. Hafðu alltaf dregið fyrir þegar þú ert heima.

3. Fáðu þér grimman varðhund, ógnvekjandi fuglahræðuvélmenni við alla innganga heimilis þíns eða tengdamömmu í forstofuherbergið.

4. Plantaðu nokkrum jarðsprengjum í bakgarðinn til öryggis ef henni tækist að komast yfir rafmagnsgaddavírsgirðinguna.


Fyrrverandi �innFyrrverandi þinn
Halldór VEIT fullvel að þið eruð EKKI hætt saman, þú ert bara að ganga í gegnum erfitt tímabil. Halldór trúir því staðfastlega að þið giftið ykkur fyrr eða síðar og finnst það ekki skipta máli að þú giftist Gumma þínum fyrir fimmtán árum ... eða fimm árum eftir að þú hættir með honum sjálfum.

 

(Birtist sem grein í Vikunni fyrir nokkrum árum. Á enn fullt erindi til ungra kvenna) 


Yfirsof, stoppistöðvarfréttir og Saga ástarinnar ...

ÞyrnirósÍ himnaríki var ákveðið yfirsofelsi í gangi (hmmmm) sem tafði brottför um tvo tíma þótt munaði bara fimm mínútum að ég hefði náð 7.41 vagninum. Næsti strætó 9.41. Það var þó hægt að vinna í lífsreynslusögum þangað til. Svona yfirsof virðist núorðið vera eina leiðin til að hitta ástkæra heimabílstjórana, en Gummi Hafnfirðingur er næstum sá eini sem ég hitti. Þótt hann sé frábær er tilbreytingin alltaf best. Heimir krútt var undir stýri og kom okkur örugglega í Mosó.

Heimir hafði margt áhugavert að segja. Í fyrsta lagi verður endastoppistöðin ekki lengur við upplýsingamiðstöðina (Skrúðgarðinn), heldur færð til, Akratorg kom til greina en ekki varð samkomulag með það, spennandi að vita hvar hún endar. Vonandi stoppar strætó samt við Skrúðgarðinn, eina staðinn sem fólk getur beðið af sér hrikaleg vetrarveðrin. Svo er búið að færa stoppistöðina við íþróttahúsið nokkrum metrum austar og þar er komið biðskýli. Aðeins lengra fyrir Sigþóru að labba  en hún fer létt með það, göngugeitin sjálf. Það eru byrjaðir tveir nýir bílstjórar, Haukur og svo kona sem Heimir man ekki hvað heitir. Vona að ég hitti á þau fljótlega og geti farið að elska þau eins og Heimi og Kidda ... já, og auðvitað Gumma.

Í leið 15 dökkhærð, hugguleg og glaðleg kona undir stýri... sem mig grunar að sé systir Röggu bloggvinkonu en þori ekki að fullyrða það, hvað þá rjúka á hana og spyrja.

Barbíkjú-kjúklingabringur, bollufranskar, kokkteilsósa og salat var á boðstólum í matsalnum. Fékk mér kjúllann og svo bara salat, mjög óvenjulegur fimmtudagsmatur, allir alsælir með þetta. Kokkurinn fékk marga plúsa í kladdann fyrir þetta. Við borðið sem ég sat var rætt um sumarfrí, hvað eigi að gera í fríinu og svona. Ein samstarfskonan ætlar til Fíladelfíu þar sem vinur þeirra hjóna býr. Hann hefur það greinilega nokkuð gott í lífinu, býr í stóru húsi með sundlaug og hefur hesta svo hægt verður að skreppa í reiðtúra um þjóðgarðinn í bakgarðinum hjá honum. Önnur ætlar að taka með sér fimm börn (og karl) til sólarlanda og hlakkar mikið til. Sú þriðja ætlar að liggja allan tímann á sænginni sinni á svölunum í sólinni. Þegar ég sagðist ætla að lesa, sofa og horfa á fótbolta bjóst ég við hneykslisaugnaráði en það kom nú ekki.

Það sem olli yfirsofelsinu morgunsins var líklega nýja bókin (kiljan) sem ég byrjaði að lesa í gærkvöldi. Ætlaði bara að lesa í svona 10 mínútur en gat ekki slitið mig frá bókinni fyrr en eftir klukkutíma. Hún er eftir Nicole Krauss og heitir Saga ástarinnar. Virkilega GÓÐ bók, titillinn segir voða lítið um hana. Persónusköpun er æðisleg og þetta er svo mikill konfektmoli að ég náði ekki að lesa hana í strætó í morgun, fannst ég missa af of miklu í truflandi umhverfi. Í kvöld mun ég bakka aðeins og endurlesa í friði og ró. Held að ég hafi ekki upplifað þetta áður, að hafa ekki undan að lesa bækur að sumri til. Það er náttúrlega ekkert annað en dásamlegt! Fékk í gær sniðuga bók sem hetir Viðurnefni í Vestmannaeyjum. Maðurinn (Guðjón í Hólum) kom með hana til mín og ég spurði náttúrlega hvort Einsi klink væri ekki í bókinni og hann var ekki viss. Auðvitað er Einar klink þarna, en hann er gamall samstarfsmaður minn úr Ísfélagi Vestmannaeyja síðan ég var 16 ára. Virkilega sniðug bók eftir Sigurgeir Jónsson sem var blaðamaður á Vikunni árið 1965, sagði Guðjón mér.


Bold úr himnaríki og hitt boldið - varúð

TannlæknirHimnaríkisbold: Erfðaprinsinn er með tannpínu dauðans og er stokkbólginn. Hann fékk neyðartíma hjá Ingjaldi tannlækni snemma í fyrramálið. Ingjaldi sem ég stökk upp úr stólnum hjá fyrir 40 árum þegar hann ætlaði að deyfa mig. Mömmu var nær að hræða mig til hlýðni með óþekktarsprautu þegar ég var lítil. Ég þjáðist af mikilli sprautuhræðslu til 21 árs aldurs. Svona voru bara tímarnir þá. Mér fannst strax heilbrigðara þegar ég hótaði syni mínum ungum að slíta af honum handleggina ... og honum fannst það svo fyndið að hann hætti að vera óþekkur.

Hitt boldið: Bridget ræðir ástamál sín við Nick, fyrrum eiginmann og núverandi stjúpföður, en Nick segir henni að Dante hafi aldrei verið nógu góður fyrir hana en Dante hefur snúið aftur til Feliciu, barnsmóður sinnar og hálfsystur Bridgetar, sem hann gat ekki hugsað sér að giftast fyrir nokkrum þáttum af því að hann elskaði Bridgeti heitast af öllu.

Taylor og PhoebeTaylor er búin að viðurkenna fyrir Thorne að hún hafi ekið á Dörlu, þrátt fyrir ítrekaðar aðvaranir Hectors sjúkrabílaslökkviliðsmanns (var Hector ekki sætari, er búið að skipta um leikara? Eða er það hárgreiðslan?)
„Varstu drukkin þegar þú myrtir konuna mína?“ spyr Thorne alveg brjálaður. „Ég vildi bara að þú vissir sannleikann, þetta var slys, Darla datt út á götu og í veg fyrir bílinn minn,“ kveinar Taylor. „Ásakar þú Dörlu fyrir að detta? Þú kemur hingað til að hugga mig og ert síðan bara að friða eigin samvisku.“
Taylor vaknar æpandi, þetta var bara draumur. Phoebe huggar hana og hughreystir.

Brooke og RidgeThorne hringir í Taylor og ítrekar klikkað þakklæti sitt. Til að kvelja Taylor enn meira segir hann að nú sé Darla örugglega að horfa niður úr himnaríki á hana, þakklát fyrir stuðninginn sem hún veitir ekklinum og barninu hans. Hver myndi viðurkenna að hafa óvart drepið Dörlu í þessum sporum? Ekki ég.

Bridget tekur á sig sökina vegna sambandsslitanna við Dante, hann vildi hjónaband, barn og allan pakkann, karlmenn eru svo giftingarsjúkir. Bridget er útskrifaður læknir, það gerðist í kringum andlát Dörlu og Bridget vildi ekki gera veður út af því. Ég hef reyndar aldrei séð hana opna skólabók í þessum þáttum, bara vera á kafi í flóknum ástamálum þegar mamma hennar hefur stolið hverjum kærastanum af öðrum af henni .... ókei, tveimur. Nick vill halda upp á Dr. Forrester-nafnbótina en Dr. Bridget er ekki til í það.

Donnu og Ridge kemur vel saman og þau spjalla mikið saman, daðra pínku. Nick heyrir í þeim og segir fúll við Donnu: „Ættir þú ekki að vera farin? Ridge er bara að leika sér að þér.“
R.J. litli vaknar, sonur Brooke og Ridge. Donna fer upp og þá geta hanarnir rifist. „Þú notar Donnu bara til að gera Brooke afbrýðisama.“ „Er þetta rétt, Ridge? Ertu að nota mig til að gera systur mína afbrýðisama?“ spyr Donna sem kemur niður stigann, búin að hugga krakkann. Hún virðist sár.

Að lokum kemur hér æsispennandi myndband, klippa af atburðum sem hafa nýlega átt sér stað og munu gerast í framtíðinni:

 


Tölvuvesen ... og lífsreynslusögur óskast!!!

TölvuraunirNú þjáist blessuð tölvan mín af minnisleysi. Reglulega kemur upp aðvörun um að minni hennar sé too low. Ég lenti í þessu í fyrra, minnir mig, og þá gaf Guðmundur bloggvinur mér gott ráð til að þjappa saman á tölvunni en ég get ómögulega fundið ráðleggingarnar hans þrátt fyrir leit. Hef eflaust skrifað milljón færslur síðan. Veit einhver hvað best er að gera? Ég man að þetta var mjög einfalt og fljótlegt, svona miðað við tölvu-fávita eins og mig. Tölvan uppfærir einhver forrit í hvert skipti sem ég slekk á henni, ég er þó búin að læra það ...

Mikið vona ég að okkur Skagamönnum fari að ganga betur í Landsbankadeildinni. Við erfðaprins ókum fram hjá þeim á æfingu í gær þar sem þeir skokkuðu á túninu við risaíþróttahúsið og hann flautaði ... vona að strákarnir hafi áttað sig á því að þetta var stuðningsflaut. Við elskum strákana okkar bæði í blíðu og stríðu. Held ég mæti bara í eigin persónu á næsta leik, það er hálfgert svindl að standa í einkastúkunni minni (svölunum) þaðan sem gargið í mér heyrist ekki alla leið. Nágrannar mínir horfa alltaf undarlega á mig í nokkra daga eftir heimaleiki.

L�fsreynslub�kinElsku bloggvinir. Lumið þið á skemmtilegri lífsreynslusögu í Vikuna? Hún (þær) má vera dramatísk, fyndin, krúttleg, sorgleg, spennandi eða hvað sem ykkur dettur í hug, stutt eða löng. Auðvelt er að breyta aðstæðum svo ekki þekkist hver á í hlut á meðan sagan skilar sér. Í þakklætisskyni fyrir sögu/sögur fær viðkomandi lífsreynslusögubókina 2007 og líka 2008 en nú er einmitt verið að undirbúa nýja bók. Í fyrra voru gefnar út 50 gamlar lífsreynslusögur sem seldust grimmt þótt bókin hafi aðeins verið til sölu í bókabúðum. Af þeim hafði Steingerður almáttugur (ritstjóri Hann Hún tímarits) skrifað 18 stykki á meðan hún var blaðamaður á Vikunni. Að þessu sinni langar mig að hafa nýjar sögur í bókinni, helst helminginn. Er búin að skrifa tvær. Sendið mér endilega línu, ég get hringt og tekið niður söguna í gegnum símann. Að sjálfsögðu er algjör nafnleynd. Ég er með netfangið gurri@birtingur.is og koma svo!!! Allir eiga sér sögur.

Einu sinni hitti ég nokkrar vinkonur mínar og bað þær í byrjun kvölds að segja mér nú einhverja sögu, ég þyrfti að skrifa lífsreynslusögu daginn eftir. Þær urðu algjörlega tómar og mundu ekki eftir neinu. Þegar við fórum á flug í spjallinu fékk ég heilar tvær sögur út úr kvöldinu, önnur tengdist einelti og hin hættu á ferðalagi. Vinkonur mínar og ættingjar hafa verið mikil uppspretta sagna og svo berast okkur stöku sinnum nafnlausar sögur frá lesendum, allt of sjaldan þó.


Sætir Indverjar, ruslaföturæningi og beiskjufliss yfir

Stuð í strætóEins gott að stoppistöð Grundaskóla og íþróttahússins kemur á eftir himaríkisstoppistöðinni við Garðabraut ... Ég var rétt búin að koma mér vel fyrir með öryggisbelti og bók þegar yfir 20 unglingar þustu inn og næstum fylltu strætó. Þeir voru á leið í Árbæjarsafnið með nokkrum kennurum. Stilltir og góðir krakkar sem eltu mig úr leið 27 yfir í 15, síðan úr 15 niður milljóntröppurnar, undir brúna og upp lúmsku brekkuna í Ártúni. Það var freistandi að segja kennurunum að taka leið 6 (í Grafarvog) með hópinn en það hefði verið svo grimmdarlegt með allan hópinn, svo er fyrsti apríl liðinn. Elsku Indverjarnir mínir sætu voru í strætó og m.a. maðurinn sem ég spjallaði við á stoppistöðinni um daginn. Við heilsuðumst eins og ævafornir vinir og aðrir farþegar störðu á okkur! Úr augnaráði Íslendinganna skein: "Hvað er hún að tala við útlendinga?" Og úr augnaráði Indverjanna: "Hvað er hann að tala við innfædda?" Ef ekki munaði svona 20 árum á okkur, mér í hag, hefði ég kysst hann bless til að sjokkera en það er víst ljótt að fara illa með unga menn svona snemma á morgnana.

RuslafatanFékk taugaáfall við komu í vinnuna. Ruslafatan mín er horfin og ekki nóg með það heldur er búið að stela stól markaðsstjórans líka. Við Ási skælum í kór. Það hressti aðeins upp á líðanina að vita að það verður steiktur fiskur með remúlaði í hádegismatinn.

-       -          -         -       -       -      -        -

RasistarNúorðið flissa ég bara (pínku beisklega þó) þegar ég sé nýjar bloggfærslur fólks um "skömm" Skagamanna vegna flóttamannanna. Fólk þarf enn að fá útrás fyrir gremju sína út í skoðanir eins manns, eða fyrrum formanns félagsmálaráðs á Skaganum. Kannski er ég ekkert skárri, mögulega hefði ég sjálf tekið upp heykvíslina og gargað ef t.d. formaður félagsmálaráðs í Keflavík hefði lýst yfir áhyggjum sínum af komu flóttamanna ... og dæmt allt bæjarfélagið rasista, óhæfa til að taka á móti flóttakonunum og börnum þeirra. Held þó ekki. Skil ekki svona heift út í saklaust fólk. Maður var nýlega dæmdur í fangelsi fyrir að myrða mann á Hringbrautinni. Getur verið að allir sem búa við Hringbraut séu morðingjar? Er ekki verið að kreista og kreista til að ná sem mestu úr þessu máli og jafnvel refsa okkur Skagamönnum fyrir að leyfa manni með "svona skoðanir" að búa hér? Ég skil þetta samt ekki, það varð allt vitlaust í bæjarstjórn yfir þessu og Magnús látinn hætta vegna skoðanna sinna. Af hverju þá að velta sér svona upp úr vondum Skagamönnum? Ég er kölluð rasisti í vinnunni minni en finnst það bara fyndið, engin meining þar að baki, bara góðlátlegt grín. Samt hefur þetta skaðað bæjarfélagið alveg helling og engin lógík á bak við það!!! Sumir virðast hafa bitið í sig að við viljum ekki taka við flóttamönnunum! Miðað við hvað bæjarstjórnin greip hratt inn í þetta þá eigum við ekki svona skilið! Frétt RÚV um þetta mál var illa unnin og léleg, bara gerð til að staðfesta þennan orðróm um rasismann´á Akranesi ... en kvöldið eftir var frétt Stöðvar 2, miklu betur gerð, en þar var viðtal við Magnús Þór og síðan götuspjall við fjölda Skagamanna sem öllum fannst frábært að fá flóttafólkið!

Útrás dagsins var í boði frú Guðríðar! Og ég lem ykkur ef þið reynið að skamma mig fyrir að vera Skagamaður! Tounge 

 


Óvænt stefnumót við mjólkurkælinn og Formúlujátning

tiramisuOkkur erfðaprins langaði í eitthvað gott til að maula með Evróvisjón í gær og skruppum í Krónuna. Við sleiktum út um þegar við sáum óverðmerkt Tiramisú í kælinum og skelltum í körfuna. Skiluðum því síðan ... það kostaði yfir 1.000 kall. Keyptum einn snakkpoka á 189 krónur en útlenska tegundin kostaði næstum 400 kall. Þó að ég hafi verið á kafi í verðpælingum fylgdist ég samt vel með umhverfinu og sá mann koma gangandi framhjá ostakælinum og áleiðis að mjókinni þar sem ég stóð. Eitthvað fannst mér ég kannast við hann og spurði hvort hann héti kannski Þröstur bloggvinur, www.motta.blog.is. Hann svaraði ekki strax svo ég stakk upp á fleiri fuglsnöfnum. Már? Valur? Magnús, Sigurður? Gottsveinn? Guðmundur? „Nei, ég heiti Þröstur!“ sagði hann illskulega. Ég kynnti mig og brosti breiðu himnaríkisbrosi sem ég hef æft margoft ef ég skyldi nú lenda í spennandi uppákomum. Ekki hafði brosið nokkur áhrif á Þröst sem sagði reiðilega: „Ég veit ekki betur en að ætluðum að hittast fyrst í Einarsbúð?“ Þetta var hárrétt hjá honum, við áttum stefnumót í Einarsbúð inni í framtíðinni, en það var ekki bara hægt sisona að afkynna sig og láta sem ekkert hefði gerst. Maður hittir ekki bloggvini sína í mannheimum á hverjum degi.

Fjör hjá öldruðumUmhverfi skiptir síðan öllu máli og ég get ekki verið fegnari yfir að hafa ekki hitt Þröst hjá t.d. klósetthreinsiefnunum eða dömubindunum. Ef þetta hefði gerst í apótekinu og ég að kaupa gyllinæðarkrem, pilluna, lúsasjampó eða pensílín ... kræst, það hefði verið skelfilegt. Nei, mjólkurkælirinn var ágætisrammi fyrir þessi fyrstu bloggvinakynni. „Á ekkert að klípa mig í rassinn?“ spurði hann svo. Kannski var hann að gantast, kannski ekki. Áður en ég gat svarað, hvað þá gert nokkuð, kom erfðaprinsinn hlaupandi og eyðilagði þessa fallegu stund. „Hvaða maður er þetta? Hvað hef ég ekki sagt þér um ókunnuga menn?“ Hann nánast skellti mér í innkaupakörfuna og hljóp með mig að kassanum. Jamm, svona voru nú fyrstu kynni okkar Þrastar bloggvinar.

Nú er Evróvisjón eitthvað svo gærdags og komið að Formúlunni. Mér finnst keppnin í Mónakó alltaf leiðinlegust. Það hefur þó verið óvenjumikið fútt í henni núna þar sem rignir ... en vanalega er ekki séns að fara fram úr hinum bílunum ... þannig að án rigningar, óhappa eða tafa á viðgerðasvæðinu rúllar þetta bara hring eftir hring eins og mislitur þvottur í þvottavél.


Ég var misnotuð af Halldóri frænda - sjokkerandi frásögn

LygarinnHalldór frændi þekkir alla og veit um allt sem er í gangi í þjóðfélaginu. Hann er sá sem segir mér stundum kjaftasögur. Þótt nánasti vinnustaður minn innihaldi bara konur og Haffa Haff heyri ég sjaldan slúður í vinnunni. (Nú er ég örugglega búin að eyða þeirri mýtu að allar konur slúðri en allir karlar þegi.) Um daginn benti Halldór mér á frétt á www.dv.is þar sem fram kom að heyrst hefði auglýsing (af hverju fattaði ég þetta ekki þá?) á Bylgjunni þar sem Sturla væri að sverja af sér einhver læti um komandi helgi. Halldór sagðist hafa heyrt að það yrði allt snarvitlaust hjá trukkabílstjórum, svo brjálað að Sturla sjálfur ætlaði ekki að koma nálægt þessu. Þetta fór að síastSkriðdreki út og við vorum alla vega tveir nytsamir sakleysingjar sem skelltum þessu á bloggið okkar, við Jens Guð. Í ljós kom að þetta var auglýsingaherferð fyrir EJS sem ætla að verða með „læti“ á morgun, eða verðlækkun á tölvum. Af þessum útsölum öllum sem tröllríða þjóðinni hefur Halldór greinilega ætlað að skera sig aðeins úr með því að niðurlægja okkur flottustu bloggara landsins, okkur Jens Guð. Ég er ekkert voða reið út í Halldór ... en kannski reiðast einhverjir. Nú verður óeirðalöggan gjörsovel að afpanta skriðdrekana og kannski skemmir þetta alla möguleika á að við fáum rafbyssur, alla vega í bili!

Portugal 2008Horfði vel og vandlega á Evróvisjónkeppnina í gærkvöldi, nýböðuð og í upphlut, og kaus síðan siðprúðasta lagið, Portúgal. Ekki endilega af því að svo lítið var af holdi (erfðaprinsinn var farinn að kvarta yfir notkun holds til að fela lélega tónlistarhæfileika ...), heldur af því að búningar Portúgals minntu svo á sloppana (risastóru, víðu pilsin sem náðu frá hálsi og niður að hnjám og hefði komið rok hefðum við tekist á loft) í skemmtilegu krabbameinsskoðuninni á Skaganum um daginn. Flott að norrænu þjóðirnar komust loksins allar í úrslit, djöfull skulum við kjósa hver aðra!
„Ég vona að það verði ekki framlenging,“ stundi erfðaprinsinn skömmu áður en tilkynningin sem breytti öllu var lesin upp („Iceland!“) og leit órólegur á klukkuna, enda Bones að hefjast á Stöð 2.

Stærðin skiptir máliVið farþegarnir í strætó veifuðum íslenska fánanum í morgun þeim sem við mættum og þeir voru líka með fána, veifur, blöðrur og hátalara ofan á bílunum sem spiluðu í sífellu This is my life. Fínn undirbúningur fyrir hinn sigurinn (annað kvöld), nú verður að spýta í lófana til að klára nýja tónleikahúsið. Æ, við erum svo mikil krútt. Hvaða þjóð sturlast svona yfir því að komast í Evróvisjón nema við? Well ... Við erum reyndar þjóðin sem bauð kynlífsráðgjafa á Bessastaði í móttöku hjá forsetanum okkar. Ekki sé ég fyrir mér að Englandsdrottning bjóði Jónu Ingibjörgu í teboð eða George Bush haldi móttöku fyrir hana í Hvíta húsinu ... þótt hún sé án efa alveg jafnfrábær og Dr. Ruth.

Talandi um drottningu. Áður en ég fékk ritgerðina góðu í yfirlestur í fyrrakvöld hafði móðir tilvonandi stúdents breytt ýmsu, m.a. því að einhver kóngur í Bretlandi hefði kastað upp öndinni úr lungnakrabbameini. Sonurinn fékk rúmlega 7 í einkunn fyrir ritgerðina ... sem er bara kraftaverk!


Nuddbaðbomba, tvöföld heimsókn og eldhúsraunir ...

bathbombsÉg fékk gefins fallegan stauk nýlega sem inniheldur litlar baðbombur. Samkvæmt leiðbeiningum áttu þær að leysast upp með þvílíkum látum að baðþeginn fengi létt nudd í leiðinni. Ég settist í baðið, kom bombunni fyrir undir bakinu og beið rosaspennt. Kannski misskildi ég eitthvað en það eru meiri læti í svona c-vítamín uppleysanlegum pillum en þessum bombum sem ilmuðu þó vel. Mér leið eins og þegar ég reyndi í æsku minni að orsaka öldur í baðvaskinum með salti en án árangurs.

KakaFyrr í dag komu systurnar hugumstóru, Steingerður og Svava, í heimsókn með fullt fangið af tertum, eða tvær gómsætar. Í mínum huga eru þær einu sönnu vorboðarnir, enda duglegar að kíkja í heimsókn á sumrin. Freyja voffi var geymd úti í bíl vegna kattanna en Steingerður fór þó út um miðbik heimsóknar og leyfði henni að hlaupa á sandinum og fara í sjóinn. Aldrei of vel farið með góðan hund. Frábær heimsókn.

Brim � veturNokkrir hraustir Skagakrakkar nota nú hvert tækifæri til sjóbaða, á fjöru jafnt sem flóði. Sjórinn er mjög fallegur núna þótt ég sakni vetrarbrimsins (sjá mynd) ... en í réttri vindátt og smároki gæti nú alveg komið flott sumarbrim. Það var notalegt að hlusta á hlátur þeirra og önnur sumarleg umhverfishljóð þar sem ég sat við tölvuna.

B�flugaEitthvað truflaði mig þó í sælunni og það var ekki fyrr en skugga bar við sólu og almyrkt varð í vinnuherberginu eitt augnablik að ég áttaði mig á því hvað suðið táknaði. Þetta var býflugnadrottning. Í kjánaskap mínum hafði ég talið þetta vera hljóð í sláttuvél! Ósjálfráð viðbrögð voru gæsahúð og hrollur sem þeyttu mér upp úr stólnum og á fimmföldum ljóshraða tókst mér að loka glugganum áður en hlussunni hafði einu sinni dottið sá möguleiki í hug að troða sér inn um gluggann. Eins og Michael Schumacher orðar það: „Einbeitingin skiptir öllu.“ Eða eins og Magnús Geir orðar það: „Það er bara ein drottning í himnaríki.“

Uppvask„Kæra móðir,“ sagði erfðaprinsinn, eftir að hafa hrósað mér fyrir dáðina. „Ég held að uppþvottavélin sé biluð sem er hræðilegt þar sem ég vil ekki missa helsta aðstoðarmann minn í eldhúsinu.“ Ég benti honum hæðnislega á að á ungdómsárum mínum hefðum við nú þurft að þvo allt leirtau úti í læk. Þá hefðu engar fínar sápur verið til og við hefðum notað kúahland til að láta askana gljá. Hann hljóp öskrandi af aðdáun út áður en ég gat sagt honum fleiri sögur úr æsku minni.


Ást og fótbolti

Ástin á tímum kólerunnarHef verið að lesa svo dásamlega bók. Endurlesa öllu heldur þar sem hún var að koma út í kilju. Ástin á tímum kólerunnar eftir Gabriel Garcia Marquez. Mögnuð ástarsaga um langa bið eftir elskunni sinni. Ég er nú sjálf svo trygglynd að það væri eflaust ekki mikið mál fyrir mig að bíða í fimmtíu og eitt ár, níu mánuði og fjóra daga eftir stóru ástinni minni. Alla vega ef ég fengi nóg af latte og góðum bókum til að þreyja biðina. Einu sinni á unglingsárum mínum vorum við pabbi í bíltúr og ég sagði honum frá nýjustu ástarsorginni. Löngu seinna sagði hann mér hvað honum hefði þótt fyndið þegar ég talaði um trygglyndi mitt gagnvart strák sem vissi varla af tilveru minni. Þetta hefur samt örugglega ekki verið sönn ást, annars væri ég enn að bíða ef ég þekki mig rétt. Þetta getur því ekki hafa verið maðurinn sem síðar varð fyrrverandi eiginmaður minn, við kynntumst á unglingsárunum. Eða hvað. Ó, kannski er ég ekkert trygglynd, heldur ein af þessum gleymnu glyðrum sem eltast við flottustu buxnaskálmarnar.

Oh+My+Nose+soccerHermann sigraði. Held að ég hljóti að hafa átt þátt í því á einhvern hátt. Fyrir misskilning var Stöð 2 Sport nefnilega opin hjá mér. Ég gerðist áskrifandi að stöðinni um páskana og þegar ég fattaði, þremur tímum seinna, að ég fengi ekki Formúlu og fótbolta á einni stöð hætti ég með hana. Gjaldið var þó dregið af mér um síðustu mánaðamót en það átti að ganga upp í áskrift að Stöð 2 núna næst. Þegar ég hringdi í ungan mann í þjónustuverinu um síðustu mánaðamót til að tékka hvort þetta yrði alveg pottþétt jánkaði hann því í algjöru áhugaleysi (eftir að hann heyrði kennitöluna mína) ... og gerði mig svo bara að áframhaldandi áskrifanda.

Ung, áhugasöm og frábær stelpa í þjónustuverinu lagaði síðan þennan misskilning áðan. Það hlaut eitthvað að vera og þetta er allt Þresti að þakka, athugasemd hans í kommentakerfinu við síðustu færslu. Það hefði orðið erfitt að leiðrétta þetta ef liðið hefði lengri tími. Kannski fæ ég mér bara Enska boltann næsta haust. Eða fer í fótboltaferðina langþráðu.


Hjólreiðahetja, útrás hringtorga og pínkuponsu bold

Mógilsá í framtíðinniSlapp fremur snemma heim, svona miðað við að það er föstudagur. Tókst að pína aðeins hjólreiðahetju okkar Skagamanna sem kom ásamt hjóli sínu með strætó nr. 15 í Mosó og fékk það síðan geymt í farangursgeymslu Skagastrætó. „Hnuss, á ekki að hjóla heim?“ spurði ég. „Nei, ég má ekki fara á reiðhjóli í göngin,“ svaraði hjólreiðamaðurinn glaðlega, fullur af endorfíni. „Hvað með að fara fyrir Hvalfjörðinn?“ hélt kyrrsetukonan úr himnaríki áfram og leið svolítið eins og djammara sem skammar þann heimakæra fyrir að eiga sér ekkert líf. Hjólreiðamaðurinn sagði okkur sem sátum þarna fremst hjá Gumma bílstjóra að hann hefði nú einu sinni hjólað Hvalfjörðinn og það hefði tekið rúma sex tíma. Hann hætti í vinnunni á hádegi þann daginn og hjólaði þetta í félagsskap með fleiri hraustmennum og –kvendum. Hann sat fyrir aftan mig og sá ekki aðdáunarglampann í augum mínum. Gummi bílstjóri vill meina að þegar koma ný göng, ef verður af Sundabraut, muni koma hjólreiðastígur þar ... kannski loftræstur eða með súrefnisblæstri, nema hjólreiðahetjurnar hjóli hreinlega með súrefnistæki. Annars fréttum við í gær að það kæmi enn eitt hringtorgið við Mógilsá við rætur Esjunnar. Held að það finnist ekki fleiri staðir í Mosó til að skella hringtorgum á og þetta heitir nú bara að færa út kvíarnar. Snilld.

Eric og DonnaÉg rétt náði í skottið á boldinu á Stöð 2 plús. Donna, systir Brooke, slær í gegn hjá Forrester-unum og þykir með afbrigðum kynþokkafullt módel. Svo æðisleg að ástarsorgin vegna Brooke sviptist af Ridge. Skyldi hann gruna að hún verði kannski einn daginn stjúpmóðir hans? Hún og Eric virka nú svolítið spennt á myndinni ... Hin hamingjusama, nýgifta Brooke segir Nick sínum að hún ætli að aðeins að kíkja á myndatökuna en nú myndar prófessjonal kona, Ridge var greinilega bara að taka prufumyndir í gær. Ekkillinn Thorne platar Taylor með út ... og þau enda á AA-fundi. Taylor heldur þar hjartnæma ræðu um aumingja Thorne sem missti konuna sína í bílslysi ... en minnist ekki á hver á sökina ... eða allt sérríið sem hún hefur dreypt á undanfarið. Hlýtur að vera leiðinlegt fyrir hana að koma aftur (eftir að hafa dáið og lifnað við) inn í þessa þætti, nýbúin að fara í margar lýtaaðgerðir hjá eiginmanninum í raunheimum, og þurfa svo að leika alka sem drepur konuna hans Thorne, reyndar óvart.
Brooke fylgist einstaklega fúl á svip með sínum margsinnis gamla eiginmanni, Ridge, sem hún er nýbúin að hafna fyrir Nick, horfa áfergjulega á Donnu í ýmsum korsilettum, greinilega búinn að steingleyma ódauðlegri ást sinni á henni. Þegar myndatökunni lýkur kyssast Donna og Ridge og Brooke verður alveg brjáluð út í Donnu. Hún öskrar: „Þú mátt ALDREI kyssa Ridge!“


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 218
  • Sl. viku: 641
  • Frá upphafi: 1505932

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 516
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband