Færsluflokkur: Lífstíll
23.7.2007 | 09:22
Fögur og fljótsnyrt
Vaknað 6.23 og andvarpað, aðeins 18 mínútur í brottför strætó frá Skrúðgarðinum. Hrein, falleg en nokkuð gömul fötin tilbúin á stól við rúmið (sett þannig að kettirnir geti ekki lagst á þau), sokkar enn í þurrkaranum, þeir sóttir. Horft á kaffikönnuna, einhver tími? ... nei. Strætó náð og það án þess að hlaupa eða stressa sig á nokkurn hátt, aðeins þetta kvenlega andvarp við vöknun. Mikið er gott að vera svona fljótsnyrt á morgnana!
Undanfarið hef ég verið að pæla í því að það væri kannski mögulega svolítið sniðugt að ganga út, jafnvel bara skrambi hentugt, sérstaklega ef maðurinn er handlaginn því að þótt smiðurinn minn hugsi mikið til mín lagast svalaumbúnaðurinn ekki neitt og ég kann EKKERT á svona smíðadrasl. Það styttist líka í veturinn og það er nú ögn hlýlegra að hafa karl í fanginu en kött. Það styttist líka fáránlega í að ég verði 49 ára, eða 12. ágúst nk., og það vill enginn 49 ára gamla konu, eins og allir vita. Ég hef því lagst í ýmsar handbækur undanfarið um árangursríkar karlaveiðar, meira að segja las ég Handbók piparsveinsins, sem ég fann uppi í hillu, en hún reyndist bara vera fyrir stráka, eins og nafnið gefur til kynna. Handbók einstæðra mæðra: Íslenskir milljarðamæringar, var lítið skárri. Þá datt ég ofan í gamla Viku þar sem mátti finna veiðiaðferðir á frelsaða karlmenn. Ég hló subbulega í upphafi en svo fór ég að hugsa alvarlega um þetta ... Ég bý líka í næsta húsi við KFUM-húsið á Skaganum og hæg heimatökin. Ætla að prófa að negla einhvern með einhverri af þessum setningum: 1) Flott biblía! 2) Meiddir þú þig þegar þú féllst af himnum ofan? 3) Ertu syndugur maður vegna þess að þú STALST hjarta mínu? 4) Ég er að fara að mála mynd af Jesú, viltu sitja fyrir?
Æ, annars, ég held að ég nenni þessu ekki. Það mátti vissulega velta þessu upp í morgunsárið! Takk fyrir að hlusta. Argggg!
Megi dagurinn ykkar, bloggvinir góðir, verða FRÁBÆR!
22.7.2007 | 21:11
Þriðjungur af Potter, draugahræddur miðill og fleira ...
Búin með næstum 200 síður af Potter, bara 400 eftir, mikil spenna, verst að Monk og 4400 tefja helling. Það var bjartsýni að ætla að ljúka bókinni yfir helgina. Bjartur er farinn heim og nú er loksins opið út á svalir, Tomma og Kubbi til mikillar gleði. Þetta var eins og í Formúlunni ... hálfri mínútu eftir að kettirnir komust út á svalirnar fór að rigna! Í stað þess að skauta um allt komu þeir bara aftur inn, frekar spældir. Rosalega var þetta annars spennandi Formúla!
Sá auglýsingu í sjónvarpinu um að þátturinn Ghost Whisperer hefjist aftur á kellingasjónvarpsdaginn og verður á eftir Opruh og Riches. Medium var ágætur þáttur en GW ekkert spes. Mér fannst skrýtið að kona sem hefur séð dedd pípol alla sína tíð verði alltaf jafnhrædd í hvert skipti sem einhverjir draugar birtast henni. Kannski er það til að hún geti sett sexí hræðslustút á varirnar.
Fór ekkert austur í sumarbúðir um helgina en heyrði í Hildu áðan. Allt gengur mjög vel og einstaklega skemmtilegir og góðir krakkar núna (eins og alltaf). Strákur, sem hefur ekki komið áður í Ævintýraland, átti ekki orð yfir matinn. Vá, það er BARA góður matur hérna, svona matur sem börn vilja! sagði hann steinhissa eftir að hafa fengið pítsu, kjúkling, vöfflur með súkkulaði og rjóma og margt fleira. Ellý hefur verið að teikna GEGGJUÐ tattú á krakkana. (www.sumarbudir.is, 6. tímabil) Hlakka til að fara þangað um verslunarmannahelgina en þá verður unglingatímabilið, 12-14 ára. Strákarnir eru alltaf nokkuð færri en stelpurnar og fá svo mikla athygli frá stelpunum að þeir koma heim breyttir menn, öruggari með sig og montnari, eftir vikuna.
Hilda verður í fríi í viku, frá og með næsta þriðjudegi og vá, hvað við ætlum á Harry Potter-myndina! Ætla líka að reyna að draga hana á Die Hard IV.
Aldrei framar tíu tíma bíóferð, Akranes-Rvík-Akranes með strætó. Hef ekki enn tekið Da Vinci lykilinn í sátt síðan í fyrra þegar það tók okkur erfðaprinsinn næstum hálfan sólarhring að fara á hana.
Eru þetta ekki flott tattú?
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 21:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.7.2007 | 12:26
Sem beljur á svelli ...
Alltaf gaman að horfa á Formúluna í rigningu. Bílarnir minna á beljur á svelli. Mögnuð uppákoma, segir þulurinn. Keppnin stoppuð og beðið eftir sólinni.
Mér tókst ekki að lesa nema 10 blaðsíður í Potter í gærkvöldi og held jafnvel að ákvörðunin um að klára hana um helgina náist ekki. Ég sagði heldur ekki hvaða ár þessi helgi ætti að vera.
Mikið held ég að Bjartur í sumarbúðum verði glaður að komast heim og geta farið út. Tommi nennir ekki að leika við hann (frekar ofbeldisfullt þó) og Kubbur urrar bara ef hann horfir á hana. Hann reynir í sífellu að snapa fæting. Þori þó ekki að leyfa honum að fara út á svalir, vil ekki að hann príli upp á þak og renni alla leið niður.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
21.7.2007 | 19:15
Hvað gerir maður við óþekka tölvu?
Hundruðir bloggvina, alla vega Jenný, hafa fyllst höfnunartilfinningu síðustu daga/vikur vegna meintrar kommenta-leti frúarinnar í himnaríki. Veit ekki hvað í ósköpunum gengur á en leti og áhugaleysi er það sannarlega ekki.
Ég skrái mig inn á bloggið mitt en skráningin dettur orðið út við hverja einustu hreyfingu. Dæmi: Jenný bloggar kannski eitthvað ógurlega fyndið og mig langar að leggja orð í belg en sé að ég er dottin úr tengingu. Arg! Skrái mig aftur inn, skrifa eitthvað ódauðlegt og ýti á SENDA. Þá kemur upp villumelding sem segir að ég sé óskráð inn. Þá er ég orðin svo pirruð að ég arga innra með mér en sýni samt þroska og skrái mig inn á nýjan leik og ýti aftur á SENDA. Þá birtist kommentið. Svo ætla ég inn í stjórnborðið mitt í kjölfarið en er dottin út vegna þess AÐ ÉG ER EKKI SKRÁÐ INN ... Skrái mig þá inn og læt þetta eina komment duga það skiptið. Skil pirring þeirra sem blogga annars staðar og eiga erfitt með að kommenta hjá okkur Moggabloggurum. Ég hélt að ég væri í klíkunni þar sem ég er Moggabloggari!
Þetta gerist ekki í vinnutölvunni en þar hef ég engan tíma til að vera á blogginu. Skrifaði grátbólgið bréf til tæknimanna Moggabloggs áðan og bíð eftir svari frá þeim. Þeir björguðu mér einu sinni þegar ég gat ekki lengur sett inn myndir. Fjarstýrðu mér með að henda inn nýrri útgáfu af Firefox. Þá breyttist allt í tölvunni til hins betra á fleiri en einn veg. Getur verið að einhver sé að reyna að komast upp á milli mín og bloggvina minna?
P.s. Annars er ég að hugsa um að leggjast bara í leti inni í stofu í nýja Lazy Girl-stólinn minn með Harry Potter í annarri og latte í hinni. Held að það yrði hið fullkomna laugardagskvöld ... fyrst enginn hefur boðið mér á stefnumót! Það þyrfti reyndar að vera ansi stórvægilegt stefnumót til að toppa Potterinn og latteinn og Lazygörlinn!
21.7.2007 | 15:47
Mikið haft fyrir Harry Potter
Dagurinn hófst ótrúlega eðlilega og það var ekkert sem bjó mig undir þær miklu hremmingar sem síðar gerðust þar sem lögreglan, kattagras, matvörur með sjálfstæðan vilja, Skessuhorn og Harry Potter komu við sögu. Þetta byrjaði allt ósköp sakleysislega með símtali.
Penninn, góðan dag!
Góðan dag, hvað verður opið lengi í dag?
Til klukkan tvö.
Eigið þið nýju Harry Potter-bókina?
Já.
Ég tölti af stað, alveg að drepast í bakinu sem ég hefði átt að líta á sem aðvörun. Nei, ég óð beint út í skelfinguna. Nokkur fjöldi fólks var í bókabúðinni. Ég leit í kringum mig og sá nokkrar gamlar Potter-bækur í hillu og eina splunkunýja sem ég greip feginsamlega. Tók einnig Skessuhorn, hið frábæra vikublað Vestlendinga, og bjó mig undir að borga. Einhver hrollur fór um mig svo að ég fór aðra leið heim, gekk framhjá apótekinu og stóðst freistinguna að fara þar inn, fór Arnarholtið og horfði á gamla æskuheimili mitt, skærgult á lit en samt ótrúlega ógnvekjandi. Skagabrautin var mannlaus sem var frekar skerí. Sundurlausar hugsanir þutu í gegnum höfuðið og ein sat þar föst. Kattagras fyrir Tomma og Kubb! Einmitt það sem hefur lengi vantað fyrir innikettina mína. Ég áttaði mig svo á því á leiðinni í Krónuna að ef undirgöng væru undir gamla Skaganesti hefði gönguleið mín verið eins og rembihnútur.
Til að styðja við bakið tók ég innkaupakörfu (göngugrind) og gekk óhrædd inn í Krónuna. Ætlunin var að kaupa kattagras fyrir 129 krónur, ekkert meira þótt það væri reyndar svolítið tómlegt í ísskápnum þar sem ég komst ekki í Einarsbúð í gær. Í búðinni fóru undarlegir atburðir að gerast. Ýmsar matvörur duttu ofan í körfuna, chili-pipar, hvítlaukur, tilbúinn fiskréttur, mjólk, skyr, jarðarber og annað sem ég myndi aldrei í lífinu kaupa. Ég hristi Potter-bókina reiðilega en allt kom fyrir ekki. Galdrarnir kostuðu mig rúmlega 6.000 krónur. Þá var hryllingurinn bara rétt að hefjast. Óþægileg en ókeypis plastpokahöldin skárust svo í lófana að ég þurfti nokkrum sinnum að gera hlé á leið minni heim til að pústa og leyfa mislitum höndum mínum að anda. Hvar eru Þrestir á rauðum jeppum þessa heims þegar þeir eiga að vera úti að rúnta og hjálpa bloggvinkonum sínum heim með vörur? Þetta var orðið þvílíkt lögreglumál að ég nötraði af þreytu þegar ég staulaðist inn úr dyrunum. Setti kælidótið inn í ísskáp af veikum mætti og bjó mér til róandi latte sem ég er að drekka núna. Þegar ég var að skola mjólkurkönnuna sá ég tvær löggur (sjá sönnun á mynd) út um eldhúsgluggann. Það verður sko bið á því að ég hætti mér út um helgar, hvað þá að ég kaupi næstu bók með Harry Potter!
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
20.7.2007 | 21:32
Sósuskortur, spennusögur og nýr, undarlegur útlitsgalli
Loksins komst ég í strætó í dag. Hafði rúman hálftíma til umráða eftir lendingu í Mosó og hvað gera konur þá? Nú auðvitað fara þær í KFC og kaupa Zinger-salat ... mér finnst það svo gott. Gat þó ekki torgað nema helmingnum þar sem bara einhver hryllingssósa var til út á salatið, Honey Mustard-uppáhaldssósan búin. Svona gerir maður ekki þreyttri og svangri Skagakonu.
Vonaði að Tommi væri á vaktinni en ég er alveg komin út úr vaktaplönum strætóbílstjóranna eftir allt þetta rand á einkabílum undanfarið. Tommi keyrir líklega um helgina. Kom of seint heim til að geta horft á boldið á Stöð 2 plús ... en það gerist hvort eð er allt svo löturhægt þar, líklega nægir að horfa á fimmtudaginn næsta til að ná auðveldlega þræði margra daga. Ekki séns að ég nenni að horfa á þættina endurtekna eftir hádegi á morgun. Þá er nefnilega tímataka í Formúlunni! Hver lendir á ráspól? Spenna, spenna!
Fyrir einhverjum vikum kom út kiljan Þrír dagar í október. Hún er eftir Fritz nokkurn Jörgensson. Sagan fór svolítið hægt af stað þannig að ég sat ekki stöðugt við hana ... fyrr en líða fór á, þá negldi ég hana á tveimur kvöldum og ætlaði ekki að tíma að gera hlé til að fara að sofa. Steingerður mælti líka með henni sem hvatti mig til dáða. Þetta er splunkunýr spennusagnahöfundur sem lofar góðu.
Nú er ég að lesa svona Da Vinci bók um starfsmann Rannsóknarréttarins sem er í leynilegum erindagjörðum til að hafa upp á Predikaranum. Sjálfur Leonardo Da Vinci er persóna í bókinni. Með rigningunni kom eirðin og stefnan er að gera skurk í lestri um helgina.
Hvað mynduð þið segja ef ég opinberaði það hér og nú að ég þjáðist af stórfelldum útlitsgalla? Hægri höndin á mér (og handleggurinn) er nokkuð brún, á meðan sú vinstri er bara ljósbrún, eiginlega ljósdrapplituð.
Til að enginn taki eftir þessu væri t.d. snjallt að hafa aðra höndina á sífelldri hreyfingu en það gæti þó hrætt fólk. Hvernig getur svona gerst? Sólin skín vissulega meira á þá hægri þegar ég sit við tölvuna heima í sólskini en ég hélt ekki að væri hægt að verða brúnn í gegnum glerrúðu og ekki hef ég haft hægri handlegginn út um bílgluggann hjá Ástu eða Birki ... Allir sem ég þekki eru jafnbrúnir, hvað er eiginlega í gangi? Næstu sólböð verða framin í langerma bol öðrum megin og stutterma hinum megin. Hver veit nema það verði nýtt trend.
20.7.2007 | 08:19
Morgunspælingar Ástu og sjálft Leyndarmálið ...
Hef ekki stigið upp í strætó síðan á mánudaginn, algjör tilviljun, bara fengið far með Birki og Ástu til skiptis. Býst þó við að taka strætó heim eftir vinnu.
Ásta henti í mig geisladiskamöppu í morgun og bað mig um að velja tónlist í bílinn. Á meðan ég valdi setti ég Rick Wakeman á, það vildi nú svo skemmtilega til að ég var með nýju plötuna frá Magnúsi í töskunni og er að hlusta á hana núna, en Ástu fannst þetta með eindæmum leiðinleg tónlist. Ekki hló ég hæðnislega að henni þegar ég sá Sixtís-plötu í möppunni, hvað þá einhvern hryllingsviðbjóð með músíkmorðingjanum Mariuh Carey eða George Michael-martröð (GM er flottur en ekki tónlistin hans). Nei, ég þagði kurteislega en hugsaði mitt. Ekki geta allir haft sama góða tónlistarsmekkinn en ég ræðst ekki á aðra.
Held að ég sé betur uppalin en allir sem ég þekki, kurteisari, geðþekkari, fallegri að innan sem utan ... hmmmm, já, ég er byrjuð að lesa The Secret í íslenskri þýðingu og þetta er málið. Kannski ekki að montrassgatast svona á fullu, það er nú meira í gríni, þótt ég sé reyndar Þingeyingur aftur í ættir (Flatey á Skjálfanda).
Mikið held ég að margir muni hafa gott af því að lesa þessa bók og tileinka sér eitthvað af boðskap hennar. Það er aldrei of mikið af jákvæðni í lífinu.
19.7.2007 | 16:03
Kynslóðabilið
Þar sem við vinnum mörg saman í opnu rými heyrist allt sem sagt er nema fólk lækki sig um nokkur desibil ... sem er yfirleitt gert til að halda vinnufriðinn. Einhverra hluta vegna kom nafnið Jón Múli upp í vinnunni í gær. Ung blaðakona spurði í sakleysi sínu hvort þessi Jón tengdist kannski Múlakaffi. Þetta fannst fólki fyndið.
Ég man vel eftir Jóni Múla í morgunútvarpinu og ýmsu öðru auðvitað, t.d. þegar breytt var yfir í hægri umferð 1968. Ein fyrsta minningin var þegar ég var fimm ára og mátti ekki tala því að verið var að segja frá því í útvarpinu að John F. Kennedy hafði verið myrtur ... Man meira að segja hvar útvarpið, stóra mublan, var staðsett og hvar ég stóð á meðan foreldrar mínir sátu límdir við tækið. Ja, hérna hvað tímarnir hafa breyst. Þetta sannfærði mig enn frekar um að best sé að hafa góða aldursblöndu á vinnustöðum þar sem þekkingar og reynslu er þörf. Held nefnilega að blaðakonan unga viti heilmargt sem mun meiri reynsluboltar en hún hafa ekki hugmynd um.
18.7.2007 | 19:43
Afmælisgjafir, bold-skýrsla og viðhald í himnaríki
Þar kom að því, nú er loksins komið viðhald í himnaríki. Hann er ljós yfirlitum, þögull, interísant, umlykjandi og með einn fótinn styttri en hina. Inga vinkona skutlaði mér með hann upp á Skaga. Ég á engin verkfæri af viti til að lengja stuttu löppina, bara skrúfjárn, hamar og töng finnst í himnaríki. Jamm, þetta er Lazyboy-stóllinn langþráði, lítill, drapplitur og bara ágætur, en vantar skrúflykil til að laga löppina. Inga kemur með hann í næstu heimsókn.
Fékk löngun í svona stól þegar ég sá stólinn hennar Nönnu Rögnvaldar í Þorláksmessuboðinu síðast. Ég hélt áður að allir leisíbojar væru algjörar hlussur og tækju álíka pláss og flyglar.
Ég held ég elski hann Magnús, Akureyring, vin og bloggvin. Hann sendi mér í pósti Rick Wakeman-plötuna um Arthúr konung, þessa sem ég hef leitað að undanfarið en ekki fundið ... og ekki bara hana, heldur líka gömlu uppáhaldsmyndina mína síðan ég var lítil; Sound of Music. Snemmbúin afmælisgjöf, segir hann. Ég var ekki næstum því búin að tilkynna á blogginu að ég ætti allt og þyrfti engar afmælisgjafir, heppin. Hann hefur eflaust frétt af tertunni 2001 ...
Ridge á ansi bágt núna. Taylor, konan hans, kyssti nefnilega slökkviliðsmanninn eftir að hafa hringt í Ridge og Brooke svaraði í símann og sagði: I love you too. Hélt að þetta væri Ridge. Nick hamast í Bridget og segir að þau geti víst verið hamingjusöm saman þótt hann elski mömmu hennar. Bridget segir: Þú elskaðir mömmu á undan mér og ég get ekki keppt við það, þú elskar hana meira en mig. Stefanía ætlar að hugsa um Bridget og barnið og rífst nú við Brooke sem fer síðan beint og klagar í fyrrum eiginmann sinn, Eric, pabba Bridget, sem er líka fyrrverandi maður Stefaníu, mömmu Ridge, fyrrum hönks þáttarins áður en Nick tók við hlutverkinu. Eric segir Brooke að hann sé löglega skilinn við Stefaníu og hún megi fara til fjandans. Þátturinn endaði á því að Bridget sagði Nick upp!
18.7.2007 | 10:54
Ástarsaga að morgni og upprisa hunds a la EHÁ
Fékk far í bæinn með Birki og Ástu ... jú, einmitt, sögupersónunum úr unglingabókinni þarna ... Það var svo gaman hjá okkur á leiðinni að Birkir bíleigandi móðgaðist ekkert alvarlega þótt Yaris-dolla þyti fram úr drossíunni hans. Bylgjan var á og í einkabíl er hún ekki jafnbráðaofnæmisvekjandi og í strætó. Við meira að segja skellihlógum að fyndni útvarpsfólksins. "Hvað er hraðfiskibátur?" "Hmmm, er það ekki bátur sem veiðir tilbúna fiskrétti?"
Æ, ég er svo veik fyrir aulabröndurum ...
Birkir ók mér upp að dyrum í vinnunni, þessi elska. Vel þegið svona einu sinni að þurfa ekki að klöngrast, ég meina svífa léttilega, upp brekkuna. Svo bara datt ég ofan í VINNU strax upp úr hálfátta í stað þess að byrja á því að blogga ... vildi koma tveimur greinum sem ég vann í gær í prófarkalestur sem allra fyrst. Bjóst hálfpartinn við því að sjá starfsmenn DV húka við dyrnar, svona miðað við fréttir morgunsins en við erum að sameinast þeim. Ef þannig færi að nafn okkar breyttist í DV get ég loksins farið að nota gömlu pappírspressuna mína sem á stendur: Guðríður - DV. Indæll maður hjá Álfasteini vildi endilega gefa mér slíkan stein/pressu fyrir 20 árum þegar ég vann hjá DV. Fer ekki lífið í hringi?
Elías Halldór Ágústsson samdi nýja trúarjátningu og birti á Moggabloggi sínu í gær. Ég stal henni miskunnarlaust ... maðurinn er snillingur:
Ég trúi á Lúkas, hans einkahund, Drottinn vorn, sem mærður var af Barnalandsmömmum, píndur á dögum Moggabloggsins, sparkaður, dáinn og urðaður, steig niður til heljar, reis á þriðju viku upp frá dauðum, situr ofan Akureyrar og mun þaðan koma að dæma plebba og fávita.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 10:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.8.): 18
- Sl. sólarhring: 20
- Sl. viku: 421
- Frá upphafi: 1532244
Annað
- Innlit í dag: 16
- Innlit sl. viku: 351
- Gestir í dag: 15
- IP-tölur í dag: 13
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni