Þessi fullkomni Dagur ... og ofmetin sumur

Kaffi kaffi kaffiJátning: Nýja og fína kaffivélin mín var sett í gang í fyrsta sinn í dag eftir að hafa verið upp á punt í eldhúsinu um hríð. Það voru ýmsar afsakanir fram að því ... best að bíða þar til drengurinn verður ekki heima svo ég geti einbeitt mér, ég er nú ekki 100% í ensku, kannski snjallt að bíða eftir kennslumyndbandinu frá Kaffitári eða kannski byrja í BA-námi í ensku í háskólanum í haust ... Ég var búin að gleyma því að ég ætlaði aldrei að kaupa tæki framar sem ekki hefðu leiðbeiningar á íslensku, eftir að hafa lent í ýmsum raunum varðandi þvottavél, þurrkara, bakaraofn og helluborð í fyrra. Ég þvæ alltaf á sama prógrammi, get skipt um hitastig, og alltaf á sama á þurrkaranum líka. Eins og maður borgi ekki nóg fyrir þetta. Sorrí, Siemens og fleiri. Eða ekki sorrí. Bara prinsip! 

Fékk ansi hreint góða heimsókn í dag, gamla samstarfskonu, Helgu Dís og manninn hennar, Dag, sem vildi svo stórkostlega til að hafði alist upp með alvörukaffimaskínu á æskuheimilinu og kunni öll trikkin. Það voru nefnilega ógnvekjandi serímoníur sem þurfti að framkvæma áður en vélin gæti farið að búa til gott kaffi og það tafði líka.

 

AlgebraElsku Dagur las sig í gegnum það á ensku, hefði getað verið úrdú eða serbó-króatíska fyrir mér, ég var alltaf betri í algebru en ensku hér í denn. Þessi fullkomni Dagur ... (syngist) framkvæmdi allt á örfáum mínútum og kenndi mér síðan á gripinn og kaffikvörnina. Hann harðneitaði að verða eftir þótt það byðist, og fór með Helgu sinni í antíkskúrinn góða sem hefur ekki minna aðdráttarafl en Guðlaug við Langasand, vitinn, sjálfur Langisandur, ísbúðin Frystihúsið, Galito, Kaja ... og svo framvegis. 

Þau fengu tvö blóm heim með sér, m.a. hálfslappa rúmlega fertuga síblómstrandi hoju sem þykir frekar dýrmætt blóm, afleggjarar eru seldir dýrum dómum ... Það þýðir nefnilega lítið að vera með blóm í himnaríki, kettirnir misþyrma þeim - líka afskornum blómvöndum sem aðdáendur hafa fært mér.

Ég hafði hrúgað öllum blómunum mínum niður á næsta stigapall þegar framkvæmdir hófust (jan. 2020) og tók þau aldrei upp. Svo þið verðið bara að færa mér konfekt.

- - - - - - - - - - - 

Ekki tengist þetta hjálparleysi aldrinum, tel ég, að láta ekki bara vaða í að prófa kaffivélina, þora ekki, fresta, hika. Vinkonur mínar eru ekki hræddar við neitt, ein fer t.d. stundum í gönguferð ÚTI þegar geitungatíminn stendur sem hæst, og sú sem flutti til mín í nokkra daga á Hringbrautina á síðustu öld eftir að þrír geitungar höfðu lagt undir sig heimili hennar var innan við fertugt. Það er þó ekkert verra en að heimsækja Jólagarðinn á Akureyri eftir miðjan ágúst og kaupa karmelliserað epli á priki handa t.d. fósturbarni og þurfa svo að taka óvænt til fótanna. Það er ekki hetjudáð að taka slíka áhættu, bara vitfirring. Aldrei aftur, Hilda, aldrei aftur.

Vanmetnar pöddurErlendur miðill ætlaði eitt sinn fyrir langa löngu að gleðja mig og kitla hégómagirnd mína og sagði að ég væri svoooo gömul sál. Viðkomandi hefði ekki getað hitt á verra „hrós“. Ég sagði að það gæti ekki verið, lýsingin segði gamlar sálir vera sífellt ÚTI að rækta garðinn sinn, reyta arfa og slíkt og njóta þess! Það ætti ekki við um mig. Miðillinn lét svar mitt ekki slá sig út af laginu, kunni sitt fag, og sagði bara: „Ekki hafa svona litla trú á þér.“ Ég gat stillt mig um að myrða hana, svona svo það komi fram.

Ég er sem sagt ungbarnssál, ef hægt er að flokka sálir niður eftir aldri. Og ef það er hægt held ég að frænka mín í Hveragerði hljóti að vera með eindæmum forn sál, hún er garðyrkjutýpan ... og flutti til Hveragerðis árið sem kóngulærnar tóku yfir bæinn. Hún lét eins og það væri eðlilegt að hafa þurft að ýta þungum og þykkum kóngulóarvef til hliðar til að geta opnað útidyrnar eftir að hafa skroppið út í búð að kaupa mjólk ... og frekar kósí bara hafa getað notað vefina á milli trjánna í garðinum sem hengirúm.

Sumur eru svo ofmetin. Ég held að fólk hlakki til af gömlum vana, af því að því var innrætt frá fæðingu að það ætti að hlakka til, skil samt alveg að meindýraeyðar séu spenntir. Þegar ég var lítil var litið á það sem synd og skömm að nýta ekki hvern einasta sólargeisla. „Ekki vera inni að lesa, Guðríður, þú átt að vera úti í sólinni.“ Maður þurfti að laumast inn til að geta klárað bókina sína og stundum fela sig undir sæng með vasaljós og bókina.

P.s. Ég er enn að reyna að búa til fullkominn latte í nýju vélinni ... þrjár tilraunir sem ég gerði ein í dag, tvær vondar, ein sæmileg, hugsa að ég prófi að leita á YouTube að myndbandi sem kennir upp á gramm (já, ég er með kaffivigt) hvernig á að fara að. Ég hefði sennilega ekki átt að sleppa Helgu Dís og Degi heim.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 109
  • Sl. sólarhring: 319
  • Sl. viku: 1653
  • Frá upphafi: 1453812

Annað

  • Innlit í dag: 82
  • Innlit sl. viku: 1370
  • Gestir í dag: 80
  • IP-tölur í dag: 79

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Sven-Göran
  • Hálka
  • Sumardagurinn fyrsti 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband