Partí eða partý - fávitar eða fyndnir flottrassar

FávitarHef staðið mig að því að agnúast bæði út í fimleika og hestaíþróttir um helgina, ekki vegna þess að það sé leiðinlegt efni, heldur það að fá ekki gosið sitt í sjónvarpið gerir hvern mann vitlausan.

 

Hvernig væri að hafa nokkrar stöðvar, t.d. þrjár sem aðeins sýna gosið frá ýmsum sjónarhornum. Þá gæti RÚV haldið í sína íþróttarás án þess að við gosklikkhausarnir tryllumst. (Í góða veðrinu í kvöld hefur ótrúlegur fjöldi „fávita“ hangið fyrir framan vélina og veifað, tveir múnuðu en ég ritskoðaði fyrir birtingu, að hugsa sér hvað ég er orðin klár í tölvutækni, sjá mynd.) Ég mæli með því að svæðið fyrir framan vélarnar verði með rafstraumi svo við heima getum líka skemmt okkur yfir stórum strákum fá raflost.

 

Ef ríkisstjórn auðvaldsins vill hafa öreigana sína stillta og prúða held ég að það væri þjóðráð að vera með gosvarp. Hver nennir út að mótmæla ef eldgos er í boði í stóra flatskjánum heima sem orsakar kannski næsta bankahrun? Munið þið þegar Skýrslan kom út eftir 2008-hrun? Öll hneykslin sem þar var að finna en hurfu í hraunstraumi nýs eldgoss sem ég man ekki einu sinni hvar var ... Eins og einhver krakkakrúttmoli sagði á barnamenningarhátíð í sjónvarpinu í gær þá er þetta bara búið þegar maður verður sextugur ... þá er eðlilegt að muna ekki allt.

 

Það mætti halda að ég væri verkalýðshatari að gefa yfirvöldum svona góð ráð, en það er ekki rétt, það stefndi í flottan feril minn sem verkakona, eiginlega þar til ég fékk vinnu á skrifstofu í gegnum klíku árið 1982. Ég hafði áður unnið í fiski í Hraðfrystistöðinni í Grindavík, Ísfélagi Vestmannaeyja (fyrirgefðu, Binni), á Kirkjusandi og tveimur stöðum á Akranesi, ég hef unnið í sokkaverksmiðju, verslunum, uppvaski á Hótel Vík hluta úr sumri og verið í sveit. 

 

StafsetningÞað sem hefur algjörlega vantað í ferilskrána mína er vinna á sjúkrahúsi. Ég sem ætlaði alltaf að verða leikkona, söngkona, dansmær eða ljósmóðir. Varð allt nema ljósmóðir, (bláa öxlin í Heilsubælinu, söng með Kór Langholtskirkju, Mótettukórnum og Fílharmóníu og ég dansa oft heima við lagið Luftguitar).

Lífið færði mig einhvern veginn aldrei þangað þótt mér hafi alltaf fundið spítalar spennandi upp á vinnu að gera. Ég gleymi ekki veðmálinu sem fór eitt sinn fram á Sjúkrahúsi Akraness á sjöunda áratug síðustu aldar þegar mamma (hjúkka) og nokkrir í viðbót héldu því fram að það ætti að skrifa orðið dýrðlingur með ð-i en hinn hópurinn vildi sleppa ð-inu. Ég hélt auðvitað með mömmu en þótt ég muni ekki segja henni það, losaði ég mig við ð-ið fyrir löngu, líka d-ið í hunsa sem sumir vilja skrifa hundsa. 

Ég var heilt sumar í fæði á spítalanum, systkini mín stödd víða um land, þau yngri á Ökrum á Mýrum, elsta í Hólshúsum, Eyjafirði en sennilega vildi enginn fá mig í sveit svo mamma þurfti að afplána mig. Þetta er það eina sem ég man eftir þessu sumri, dýrðingur eða dýrlingur, jú, og þegar ekki var hlustað á mig og beygt til vinstri á réttum stað, frekar brunað alla leið á Brú í Hrútafirði þegar átti að sækja systkini mín um haustið. Þau biðu og biðu og biðu ... Þegar ég ólst upp var lítið mark tekið á börnum, þau áttu að sjást en ekki heyrast. 

Ég urraði hneyksluð einu sinni þegar ég sá orðið partí skrifað með Ý-i í Séð og heyrt. Ritstjórn SH sat á næsta borði við okkur á Vikunni og ég kom þessu á framfæri, þung á svip, alveg stórhneyksluð. Eiríkur Jónsson, þá ritstjóri SH, gaf lítið út á þetta en sagði margsannað mál að partí með ufsiloni væru miklu skemmtilegri en partí með einföldu. Karlmenn og rök ... Ég gætti þess að láta hann ekki sjá hvað mér fannst þetta fyndið, heldur hvæsti: „Viltu þá ekki bara skrifa BAKARÍ með ý-i?“ 

En varðandi dýrling og dýrðling ... það var náttúrlega ekki búið að finna upp tölvur á þessum tíma ... og einum lækninum var falið að spyrja vin sinn sem þekkti íslenskufræðing við Háskóla Íslands, eða eitthvað, um að fá úr þessu skorið. Mikil varð spæling beggja liða þegar í ljós kom að það mátti skrifa orðið bæði með ð-i og án.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 238
  • Sl. viku: 1486
  • Frá upphafi: 1453955

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 1242
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Sven-Göran
  • Hálka
  • Sumardagurinn fyrsti 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband