Ef ...

„Þið Íslendingar eigið bara að vera heima hjá ykkur,“ sagði danski embættismaðurinn og virtist eiga erfitt með að leyna vanþóknun sinni.

Úff„Eftir að bæði Katla og Hekla fóru að gjósa ofan í gosin tvö á Reykjanesskaga og Bláfjöll á barmi goss má segja að landið okkar sé nánast óbyggilegt,“ sagði ég festulega en hjartað barðist, hvað var í gangi? Hann var miklu indælli þegar hann hringdi daginn áður og bað okkur að koma. 

„Má segja, má pegja,“ sagði hann pirraður. 

„Ja, ég neita allavega fyrir okkar hönd að fara aftur heim, þar er hættulegt að búa. Eiturefnagildin í hæstu hæðum í andrúmsloftinu og-“

Hann greip fram í fyrir mér: „Samkvæmt nýjustu mælingum er allt í fína lagi með andrúmsloftið á Íslandi.“ 

„Það var notaður hitamælir til að mæla það,“ mótmælti ég en hann var ekki einu sinni að hlusta.

Þegar ég ætlaði að strunsa út með fóstursyninum, Hildu og fleira fólki, smellti embættismaðurinn fingrum og allt fylltist skyndilega af lögregluþjónum, slökkviliðsmönnum, sjúkraliðsmönnum og sérsveit grárri fyrir járnum. Ég var bæði stuðuð og gösuð og síðan flutt í járnum í varðhald ásamt hinum og okkur var tjáð að við yrðum send til Íslands næsta dag, á þennan fullkomlega hættulausa stað sem Ísland væri, þar sem fólk hafði þó veikst og dáið í unnvörpum vegna mengunar.

Við biðum of lengi, við vildum ekki yfirgefa landið okkar fyrr, vorum vongóð um að allt lagaðist, en innviðirnir voru nánast hrundir og ástandið að verða óbærilegt, hópar ofbeldisfulls fólks höfðu myndast, einna verstur sá sem tilheyrði Hvolsgerði. Bændur í grennd höfðu víggirt bæi sína til að bjarga sér og sínum. Í Mýri í Víkurdal var líka sérlega hættulegur hópur sem hafði komist í heimsfréttirnar oftar en einu sinni fyrir fólskuverk sín. Það var ekki alveg laust við að komið væri fram við okkur eins og við tilheyrðum svona hópi þótt við værum bara að leita að betra lífi, eða eiginlega ... bara lífi, lifa af.

Næsta morgun var okkur skellt í káetu í Norrænu - ekki lengur flogið til og frá Íslandi, hraunið úr meinlausa ræfilsgosinu, eins og það var upphaflega kallað, hafði runnið alla leið yfir flugvöllinn og ekki þótti sniðugt að gera nýjan völl eftir að bæði Hekla og Katla fóru að gjósa, ásamt bráðum Bláfjöllum eftir margra mánaða skjálftahrinu, Norður- og Austurland með algjörlega afgirt hjá sér, háar rafmagnsgirðingar og engum hleypt í gegn, og auk þess var landið stjórnlaust eftir að ráðafólk hafði fengið boð um að flytja til Svíþjóðar, þar hafði vantað almennilegt fólk sem fékk allt hæli - stór hluti sænsku þjóðarinnar lést úr gamma-afbrigði Covid - en hjarðónæmi náðist fyrir rest, hvað eru milljónir mannslífa annað en nokkur sandkorn í stóra samhenginu? var uppáhaldssetning sænska landlæknisins. 

Við höfðum í alvöru haldið að við skiptum máli í heiminum, við vorum Íslendingar! Alltaf að setja met í öllu miðað við höfðatölu, komumst á bæði EM og HM í fótbolta og vorum krúttin alla vega á EM karla 2016, en nú var allt breytt. Fyrstu Íslendingarnir sem leituðu ásjár Dana fengu fínar móttökur og neyðin var virkilega viðurkennd, erlendir vísindamenn hrúguðust til landsins þar til andrúmsloftið varð þeim lífshættulegt, við fengum sendar neyðarbirgðir af vatni og matvælum og alvörugasgrímur sem glæpahóparnir fóru að leggja hald á, en þegar okkur flóttafólkinu fór að fjölga í Danmörku fundu Íslendingar fyrir sífellt meiri fjandskap (þið takið bæði húsnæði og vinnu af okkur-fjandskap), ég frétti það eftir að við komum út. Það var búið að taka allt fémætt af okkur en því var ekki skilað til baka áður en okkur var vísað úr landi. Þjóðarsálin danska breyttist víst eftir 7.7. 2021, eða eftir leikinn við England í EM, sem svo skemmtilega vill til að var akkúrat dagurinn þar sem voru liðin 49 ár frá því ég fékk fyrsta kossinn, á sveitaballi í Aratungu. Ég man tölur, bílnúmer, mánaðardaga ... sem nýttist mér best þegar mamma hringdi og spurði um póstnúmer þegar hún var að skrifa jólakortin. 860 Hvolsvöllur, 470 Þingeyri ... þuldi ég upp fyrir hana.  

Nýdanski flokkurinn (óánægjuframboð danska Miðflokksins) var fyrstur til að orða það sem landsmenn voru farnir að hugsa og kallaði okkur sníkjudýrin frá Íslandi sem kæmu eingöngu til að lifa í vellystingum á kostnað danskra skattgreiðenda. Þetta féll í virkilega góðan jarðveg og flokkurinn vann stórsigur í kosningunum. Við höfðum vissulega öll í hópnum mínum beðið um að fá að vinna en það mátti ekki á meðan umsókn okkar væri í vinnslu.

Af hverju rerum við ekki bara til Noregs? spurði ég sjálfa mig en ég vissi svo sem að þar hefðum við fengið sömu móttökur. „Landið er orðið fullt af fjandans Íslendingum, eigum við ekki bara að halda upp á 17. júní sem þjóðhátíðardag?“ heyrði ég Norðmann segja í sjónvarpinu í flóttamannamiðstöðinni, þá hafði lítill hópur landa minna farið í litla sæta 17. júní-skrúðgöngu sem féll svona líka í grýttan jarðveg. Við vorum orðin plága, tilfinningin var hræðileg. Samt má segja að við höfum verið heppin að vera Íslendingar því allt svart og brúnt fólk var sent sjálfkrafa beinustu leið til Afríku en þangað höfðu Danir útvistað stórum hluta útlendingamála sinna 2021 ... og í Afríku er sko fjölskrúðugt skordýralíf. Engar pöddur á Íslandi, huggaði ég mig við, ekki ein einasta. 

„Aldrei nokkurn tímann í lífinu hefði verið farið svona með hælisleitendur eða flóttamenn á Íslandi,“ sagði ég við samferðafólk mitt sem kinkaði kolli. Við vorum öll blá og marin eftir aðgerðir gærdagsins. „Við fáum þó eina máltíð á dag í skipinu og  lítra af vatni hvert okkar, þetta gæti verið verra,“ sagði ég og reyndi að vera jákvæð, Danir geta alveg verið fínir, sumir. „Ef, ég meina þegar, netsamband kemst á get ég farið að blogga aftur á Moggablogginu og látið heiminnn vita hvernig er komið fram við okkur Íslendinga núorðið. Við erum engin úrhrök, við erum manneskjur í leit að betra lífi!“

„Heldurðu að heiminum sé ekki bara drull?“* spurði Hilda sem þrátt fyrir ungan aldur (16 mánuðum yngri en ég) er alltaf með báða fætur á jörðinni og einstaklega raunsæ. Í raun talsvert lífsreyndari en ég eftir að hafa búið um hríð í hríð á Akureyri sem aðkomumanneskja. Henni var kennt um alla árekstra, þjófnaði úr búðum og slagsmál um helgar allan tímann sem hún bjó þar.

„Jú, líklega,“ játaði ég en ætlaði nú samt að blogga við fyrsta tækifæri. Heimurinn yrði að fá að vita af þessari grimmd. En orð Hildu gleymdust ekki ... kannski er heiminum bara „drull“!

*Drullusama, skítsama, alveg sama. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 240
  • Sl. sólarhring: 260
  • Sl. viku: 1784
  • Frá upphafi: 1453943

Annað

  • Innlit í dag: 194
  • Innlit sl. viku: 1482
  • Gestir í dag: 180
  • IP-tölur í dag: 180

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Sven-Göran
  • Hálka
  • Sumardagurinn fyrsti 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband