Spurt og svarað - og njósnari í Krambúðinni

28. júlí 2021Langur vinnudagur í dag, þotuþreytan eftir keyrsluna að norðan á mánudag nánast horfin, Hilda sennilega enn í löngu öngviti eftir alla keyrsluna. Það var ekki hægt að nota krús-kontrólið  vegna furðulegs háttalags ökuhunda fyrir framan okkur (óku hægt þegar erfitt var að fara fram úr, löglega hratt þegar hægt var að fara fram úr og svo framvegis). „Ekki eiga allir skilið að vera með bílpróf,“ sagði ég og systir mín kinkaði stolt kolli. Þetta var það gáfulegasta sem hún hafði heyrt mig segja alla helgina.

 

Eldgosið var flott í dag og enn flottara í kvöld (myndin tekin kl. 23.27). Fræðingarnir (MT) verða að hætta að spá andláti þess, annars sitjum við uppi með það næstu ár, áratugi. Heitir þetta ekki mótþróaeldfjallaþrjóskuröskun? Svo eru bæði Katla og Bárðarbunga farnar að skjálfa af dularfullum spenningi en ég nenni samt varla að fylgjast með þremur eldgosum í miðri drepsótt og það í fullri vinnu og rúmlega það.

 

Okkur stráksa var boðið í fimmtugsafmæli í kvöld ... og ef einhver hefur séð mig á rúntinum með Hilmari í vitanum var hann að skutla mér í afmælið, eða leyfa mér að sitja í en Hildur, elsku Hildur sem bjó á hæðinni fyrir neðan þar til fyrir skömmu, er systir hans og átti stórafmælið. Við erum sem sagt ekki byrjuð saman. Hann er líka allt of ungur fyrir mig og er auk þess með frægustu Guðlaugu á Akranesi, skilst mér ...

 

Afmælisbarnið vildi ekkert fá að gjöf en mér tókst að lauma hekluðu sjali (ég er stoltur meðlimur í Hekls Angels) inn á milli M&M-pokanna (ég kláraði næstum allt M&M-ið í Krambúðinni) en M&M er víst eini veikleiki afmælisbarnsins. Eins gott að ég hafi ekki misskilið neitt og þetta hafi átt að vera Eminem. Í kveðjuskyni fengum við væna sneið af ofsagóðu afmælistertunni og nokkrar snittur - svo í fyrramálið snæðum við morgunverð meistaranna ... nema ég ætla að leyfa stráksa að sofa út. 

- - - - - - - - - - - - - 

Spurningar til bloggsins

(Eitthvað sem við áhrifavaldar fáum reglulega - fjölbreyttar spurningar um allt milli himins og jarðar)

 

GloriaEr það rétt að þú hafir farið á tónleika með Gravediggaz og Megadeth? Já, svo sannarlega. Og Metallicu, Rammstein o.fl.

 

Hvað er það hræðilegasta sem þú getur ímyndað þér? Það er þegar fólk sem drekkur ekki kaffi stofnar kaffihús og lendir í klónum á sannfærandi kaffisölufólki með vont kaffi ...

 

Gastu eitthvað notað veiðigræjurnar fyrir norðan? Nei, í rauninni ekki. Það var svo heitt að ég gat ekki notað meikið, ég þurfti svo sem ekki maskara, var nýlega lituð, en setti gloss tvisvar en gleymdi alveg að naglalakka mig. Alveg spurning hvort þetta skemmdi eitthvað fyrir okkur systrum.

 

Hver heita kettirnir þínir? Keli, Krummi og Mosi.

 

Hvað heldur þú að ég sé gömul og hvað lestu úr skriftinni? Þú ert fjórtán ára og notar Times New Roman-letur.

 

Valda fréttir þér virkilega engum kvíða? Nei, alls ekki, ég fyllist kvíða ef ég get ekki hlustað á fréttir og veit þá ekki hvað er að gerast í heiminum.

 

Ertu byrjuð að vera með Hilmari í vitanum? Nei, hann skutlaði mér, stráksa og sjálfum sér í sama afmælið nú í kvöld. Varstu kannski í Krambúðinni?

 

Hefurðu farið að gosstöðvunum? Nei. Fer þegar verður bara fimm mínútna gangur frá bílastæðinu. Eða í þyrlu, jafnvel gullstól.

 

Hvaða kaffi drekkurðu? Í nýju græjunum aðallega Húsblöndu Kaffitárs, einnig Espresso Roma frá Te og kaffi, svo keypti ég pakka af brasilíska kaffinu frá Kaffibrugghúsinu um helgina í Ketilkaffi á Akureyri og gleymdi svo í bílnum hennar Hildu). Held samt að það sé ekki sama tegundin og ég kolféll fyrir í Rjúkanda á Snæfellsnesi sumarið 2018 eða 2019, sennilega var það Kólumbíukaffið - ég verð þá bara að éta ofan í mig að mér finnist kólumbíukaffi ekki gott. Þetta brasilíska er líka geggjað.

 

Hvernig finnst þér að vera af 78-kynslóðinni? Bara fínt, fílaði meira að segja Slade um tíma.

 

Neðri myndin er með bestu kveðju til fyrrum kórfélaga minna.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 145
  • Sl. sólarhring: 294
  • Sl. viku: 1689
  • Frá upphafi: 1453848

Annað

  • Innlit í dag: 114
  • Innlit sl. viku: 1402
  • Gestir í dag: 110
  • IP-tölur í dag: 109

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Sven-Göran
  • Hálka
  • Sumardagurinn fyrsti 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband