Hamingjuvekjandi hraunveruleikasjónvarp

Ómetanleg aðstoð erlendis fráEins og áður hefur komið fram er ég fórnarlamb of mikillar aðstoðar í síma- og tölvumálum. Nú kemst ég ekki inn á Snapchat, fékk skilaboð í símann um að ég þyrfti að uppfæra appið. (Ég skrifa nú eins og ég kunni þetta upp á tíu, finnst mér). Með því að tala við ættingja erlendis komst ég að því að ég þyrfti bara að fara í App Store, ýta á haus efst til hægri og þá kæmi þetta. Gerði það og sá að Snapchat uppfærði sig sjálft fyrir tveimur dögum en samt kemst ég ekki inn. Þannig að ég er líklega bara hætt með snappið, öllum mínum þrjátíu snappvinum til hroðalegra vonbrigða, býst ég við. Það er nú samt ég sem á eftir að sakna Íslenskir trukkarar í USA (gaur sem ekur um þjóðvegi USA, flytur áfengi í tanki, upp og niður landið austanvert), Önnu í olíunni (hún vinnur á olíuborpöllum í Noregi, vinna 2 vikur, frí 4 vikur) og öllum hinum mínum dásamlegu snappvinum sem eru misduglegir (eins og ég) við að setja eitthvað inn. Tel afar ólíklegt að Davíð frændi nenni að keyra alla leið úr Kópavogi eða Ellen frænka að norðan eða frændi í Frakklandi til að aðstoða mig í eigin persónu við að uppfæra appið. Instagram er líka mjög skemmtilegt ...

 

Ég var ekki fyrr búin að þurrka tár og annað snappsaknaðarkast í uppsiglingu þegar ættinginn erlendis gaf mér ráð sem dugðu - en svona geta vandamálin í Himnaríki orðið risastór en samt svo auðleyst, núna klikka ég aldrei á þessu framar. Stofna kannski þjónustu við kjánaprik sem lenda í vandræðum út af engu ... hahahaha ... ekki ég.

 

Hvar er HildaAnnars er lífið bara ljúft eftir fríið, ekkert stress við að taka Himnaríki í nefið í hreingerningum fyrir afmælið (sem var samt svo gott að gera og fara með allt glimrandi fínt inn í haustið). En ég hef ekkert heyrt frá Hildu. Vona að hún sé á landinu og gefi mér upp nýja númerið sitt sem hún er kannski komin með. Er hægt að blokka fólk frá því að geta hringt? Spyr bara svona ef mér dytti í hug að gera það.  

 

Eins og hálfsteiktir landsmenn suðvestanlands vita skall á með miklum hita í gær, hann mældist um 21°C við Akrafjall, rokrassgatið sem við Skagamenn verðum að sætta okkur við sem veðurstöð og lækkar sennilega húnæðisverðið og dregur úr löngun ókunnugra við að heimsækja þennan annars dýrlega bæ. Hugsa að hitinn hafi verið nær 30 gráðum hér við ströndina fögru, ef ekki hærri. En hér var algjört logn svo það að opna glugga var bara til að hleypa óbærilegum hlýindunum inn. Tvær viftur á hæsta allan daginn, önnur í stofunni, hin hér við tölvuna. Kettirnir slettust um Himnaríki, hentu sér niður einhvers staðar áður en þeim tókst fyrir rest að komast á áfangastað, t.d. sófann í stofunni en stofuviftan hélt þeim stað til dæmis bærulegum. Búum við ekki á ÍS-landi? Við háttatíma voru góð ráð dýr og eftir um klukkutíma umhugsun datt mér það snjallræði í hug að sofa bara með sængurver. Þetta virkaði og mér leið eins og ég byggi í útlöndum, vantaði bara loftkælitækið ... en með ameríska viftu frá Costco var ekkert erfitt að koma sér í þann gír.

 

Slæm tónlistVestmannaeyingar eru sniðugir, tjalda bara á lóðinni heima og brekkusöngurinn í sjónvarpinu ... Hægt að hlakka til næsta árs, vonandi. Yfirleitt hefur eina spennan varðandi þessa miklu ferðahelgi verslunarmanna o.fl. verið sú að sitja í strætó seinnipartinn á föstudegi á heimleið og þurfa að komast út úr Grundahverfi á Kjalarnesi og inn á þjóðveginn á 15 metra löngum bíl. Það hefur tekið sinn tíma og er alltaf ógurlega spennandi, gott að það er sjoppa þarna, svona ef strætó kemst ekki eitthvert árið.

 

 

Það getur bara vel verið að ég skreppi í bæinn á morgun, bara til að upplifa þessa áður árlegu spennu þegar ég fer til baka frá Rvík (og athuga í leiðinni hvort Hilda sé flutt!!!) og njóta þess síðan alla helgina að horfa á hamingjuvekjandi hraunveruleikasjónvarpið frá Fagradalsfjalli og kannski njóta þess/eða sakna að leggjast ekki í trylltan afmælisundirbúning.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gamla Grjótið Já Já við félagarnir vorum þar 11 helgar í röð árið 1976,saklausir að sjálfsögðu.Við höfðum bara aðrar skoðanir en gæslumenn lagana.Kallast þetta ekki skoðanakúgun í dag.????

Tomas Runar Andresson (IP-tala skráð) 2.8.2021 kl. 16:35

2 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Hahaha, auðvitað saklausir. Jú, skoðanakúgun, að sjálfsögðu. :) 

Guðríður Haraldsdóttir, 2.8.2021 kl. 16:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 122
  • Sl. sólarhring: 292
  • Sl. viku: 1666
  • Frá upphafi: 1453825

Annað

  • Innlit í dag: 93
  • Innlit sl. viku: 1381
  • Gestir í dag: 91
  • IP-tölur í dag: 90

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Sven-Göran
  • Hálka
  • Sumardagurinn fyrsti 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband