Jólagjafaleit, hjartaleikur og björgun frá beru kvenfólki

Flott jólagjöfÉg er í alvöru byrjuð að kaupa jólagjafir og tók tvær slíkar með mér heim úr borginni í gær til að pakka inn ... en Ellen frænka, pöntunar-erlendis-frá-ráðherra Himnaríkis, lét mig fá þær, svona fæst ekki á Íslandi. Henni fannst þetta sem ég pantaði svo sniðugt að hún pantaði sér sjálf eitt slíkt í leiðinni (og ég líka eitt fyrir mig). Þetta er svo gaman, veit nefnilega ekki hvort það telst vera góð jólastemning að vera á síðustu stundu með gjafakaupin ...

 

Það er eitthvað um hjónafólk/pör auðvitað í fjölskyldunni og ég sá nýlega auglýsingu um kósí jólagalla. Eins og að ganga í skýi, segir þar. Hugsa sér kósíheitin að bíða t.d. úti á stoppistöð og vera ekkert kalt, hinir brjálaðir úr öfund og fá kannski að koma inn í hlýjuna með manni. Það gæti samt verið að ég væri eina manneskjan í ættinni sem notar strætó, en fólk ætti að prófa það samt hvað það er guðdómlegt í kulda og trekki að bíða og vera samt hlýtt. Sumir fara út í bíl sinn í gallanum á meðan bíllinn hitnar og alla leið í vinnuna? Grilla úti á svölum í apríl í honum? Fara í jólaglögg, jólahlaðborð og vera ekki kalt. Sumir myndu ekki fíla jólagalla allan ársins hring en ég á flippaða fjölskyldu ... Kannski bók með? Grilla úti á stoppistöð og lesa meðan kjötið eða vegan-ið grillast? Möguleikarnir eru óþrjótandi. Maður á alltaf að finna gjafir með margfalt notagildi og helst skemmtanagildi - þar koma bækurnar inn.

 

Sennilega tengist snemmgjafadæmið því að mig vantar útrás fyrir leynivinaleiki síðan ég fór að vinna heiman frá mér, alein en auðvitað í frábærum félagsskap sjálfrar mín og kattanna. Ætla nú samt að skilja eftir eina mandarínu á hverju kvöldi til að gleðjast yfir henni næstu fimm morgna.

 

Vér frænkurHalla frænka rakst á gamla mynd af okkur tveimur (c.a. 1985-1986) og blastaði henni á Facebook þar sem ég hirti hana og setti hér. Og gömlu árin okkar saman rifjuðst upp, allt djammið, allir ljósatímarnir, allur þvotturinn sem hún þvoði fyrir mig af því að ég átti ekki þvottavél (eða síma eða sjónvarp) þótt ég væri virkilega „efnuð einstæð móðir á öllum þessum bótum,“ sagði fólk. Og akkúrat þegar mamma lánaði mér litla sjónvarpið sitt kom hin grimma innheimtudeild Ríkissjónvarpsins heim til mín og ég var þar með rukkuð fyrir afnotagjöld þótt ég ætti það ekki. Ég var svo hrædd við þau að ég næstum bauð þeim inn í kaffi ... hefði aldrei þorað að ljúga að þeim.

 

 

Halla sótti reglulega poka af óhreinum þvotti til mín, þvoði, þurrkaði og braut saman. Fannst það lítið mál, eiginlega svo sjálfsagt að ég mátti varla þakka fyrir. Það er líka Höllu að þakka að ég fer ekki lengur í sund. Við fórum saman í Sól og sælu við Aðalstræti minnst vikulega heilan vetur og þar var sérsturtuklefi fyrir hvern og einn ... Svo þegar ég skrapp um vorið í sund í Laugardalslauginni fékk ég áfall yfir öllum rössunum í yfirfullum sturtuklefa ... var eins og í atriði úr kvennafangelsismynd eða hryllingsmynd fyrir teprur ... og hef ekki farið í almenningslaug síðan. Mér finnst hún hafa, með því að draga mig í ljós, bjargað mér hardcore-gagnkynhneigðri frá allsberum kerlingum. Mætti ég frekar biðja um ... æ, skiptir ekki ...

 

Hvar er strætóinn minnÉg hætti við ferðina í bæinn í dag vegna veðurs. Komnar rauðar hviðutölur á Kjalarnesi, Skrauthólar í 28 m/sek, var 22 fyrir skömmu (strætó hættir í 30 m/sek-hviðum).

Hlýt að finna eitthvað af húsverkum til að vinna í staðinn. Djók. Las í Viðskiptablaðinu, held ég, að ungur Íslendingur hafi grætt milljónir á gamaldags tölvuleikjasíðu sem hann heldur úti.

 

 

Ég kíkti á síðuna og sá að þar er löngu glataður leikur sem heitir Hearts og ég hef sárlega saknað mjög lengi, var búin að gleyma honum, svo sárt hafði ég saknað hans. Nú er ég farin að spila við þau Mike, Bill og Lisu nokkur spil á dag, kostar ekki krónu svo gróðinn hlýtur að koma frá auglýsendum.

 

 

Best er að fá sem allra fæsta slagi, alls ekki spaðadrottninguna (13 stig) og helst engin hjörtu (eitt stig á hvert hjarta) ... nema ef manni tekst að ná öllum hjörtum og spaðadrottningunni, þá fá hinir held ég 26 stig - en þegar einhver er kominn í 100 stig tapar hann leiknum. Síðan heitir cardgames.io ... Ekkert að þakka!

 

Neðsta myndin sýnir strætóinn sem ég hefði átt að taka áðan en þorði ekki.       


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 193
  • Sl. sólarhring: 282
  • Sl. viku: 1737
  • Frá upphafi: 1453896

Annað

  • Innlit í dag: 153
  • Innlit sl. viku: 1441
  • Gestir í dag: 144
  • IP-tölur í dag: 142

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Sven-Göran
  • Hálka
  • Sumardagurinn fyrsti 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband