Vonbrigði með véfrétt en mikil matarhamingja

Eldum rétt 2Um þrjúleytið í dag fékk ég SMS frá Eldum rétt, um að maturinn væri rétt ókominn í Himnaríki. Nokkru síðar um að hann væri kominn upp að útidyrum, svo ég skakklappaðist (munið slysið á föstudag) niður stigana og sótti kassa sem var í forstofunni, fullur af mat sem átti eftir að elda. Eða þrjár máltíðir fyrir tvo. Fyrsti rétturinn, Miðjarðarhafsýsa með krydduðu búlgur og spínati (sjá mynd), var síðan eldaður í kvöld og brosið hefur ekki farið af drengnum. Ég veit ekki alveg hvað mér á finnast um það.

 

 

Ég er löt að ganga alla leið út í fiskbúð, við elskum fisk, í gegnum hálfan bæinn ef nýju hverfin eru ekki talin með. Hann hélt, fisksalinn, að ég væri að gantast, og náði ekki hinti mínu um heimsendingar á fiski síðast. Er samt að hugsa um að fara á fimmtudaginn, í leiðinni frá tannlækninum sem ætlar að gera ódeyft við eitthvað algjört smotterí, brotnað upp úr tönn-smáræði. Veðrið verður sturlað „vont“ (spennandi) og ég hef bara gott af því að berjast í gegnum suðvestan stórhríð með strætó bara.

 

 

Mosi veiðirÁ morgun verða það kjúklingabringur í fennelrjómasósu með bökuðu grænmeti og kartöflum ... og ég mun rúlla eldamennskunni upp með annarri (mjög góðar og skýrar leiðbeiningar sem fylgja með). Stráksi fer annað í mat á miðvikudag og svo elda ég á fimmtudag ostafylltar kjötbollur með villisveppasósu og bökuðum sætkartöflum. Hann er matgæðingur þessi drengur og ótrúlega gaman að gefa honum að borða. Það eru eiginlega bara sviðin sem við forðumst algjörlega, og hræringur og flest súrsað. Við erum sammála um að finnast það ekki sérlega gott. Ég sá fyrir mér að eiga eitt fiskstykki og búlgur með í hádeginu á morgun fyrir mig en nei, hann kláraði hverja ögn sem er bara hjálplegt í baráttunni við covid-keppinn sem hefur nákvæmlega ekkert stækkað þrátt fyrir „fallið“ í gær (sítrónukaka og sörur) og hafa ekki getað hreyft mig nokkuð að ráði um helgina, vegna stigaóhappsins.

 

Stelpurnar, vinkonur mínar, voru frekar ósáttar við blogg gærdagsins, varðandi umræðuefnin í fína boðinu. Þær voru á kafi, segja þær, við að tala um orðuhafa síðasta nýársdags, hvað væri nú flott að þessi gamli vinurinn / vinkonan hefði fengið fálkaorðuna þegar ég á að hafa byrjað að tala um gömul fyllirí, grobbað mig af klikkuðu verbúðarlífi bæði í Grindavík og Eyjum og montað mig af brúðkaupi mínu í Ölveri. Kræst, hvað ég held að sérríið í lokin hafi svifið á suma og ekki farið úr blóðinu nærri því strax ... Vá, hvað þetta var annars notalegt, sítrónukakan góð og sörurnar, slurp.

 

King CrimsonFacebook var skrítin í dag. Nokkrir lýstu hreinlega yfir sorg sinni yfir því að foreldrar færu með börn sín í bólusetningu, einhverjir notuðu sterkari orð eins og heimskir og fávitar - en svo sá ég einn sem beindi orðum sínum til þeirra sorgmæddu og sagði:

 

„Fólkið sem er að missa sig í dag þarf að spyrja sig: Hvort er líklegra að nær allir læknar, heilbrigðisstarfsfólk og sérfræðingar á Íslandi séu siðlausir barnamorðingjar eða ... þú féllst fyrir hræðsluáróðri og samsæriskenningum?“ 

 

- - - - - - - -

 

Eiginkona þín ...Svo þarf ég að vara bloggvini mína við. Ég hélt að ég væri komin í samband við einhvers konar hirðvölvu, flotta hirðvéfrétt í gegnum Facebook, það var svo magnað hvað margt rétt birtist þarna þegar ég ber fram spurningar, eins og með ástamál mín núna 2022, það að ég verji árinu nánast stanslaust á stefnumótum og það með mörgum mönnum.

Mér finnst það ekkert ólíklegt þótt ég hafi ekki farið á stefnumót árum saman, frekar lengi allavega. Þetta er mjög sennilega rétt hjá henni með stefnumótin en samt, gleðin sprakk framan í andlitið á mér.

Ég hafði hugsað um hvað það væri gaman að eiga hirðverndarengil og ef ég ætti einn slíkan, hver það væri. Auðvitað þarf maður að eiga einhvern sem passar að maður hlaupi ekki fyrir strætó í einhverju óðagotinu. Alla vega langaði mig að vita hver minn væri. Ég hafði mikla trú á þessari síðu sem hefur sko ekki svikið mig hingað til. Hér birti ég svarið til að þið skiljið betur hvað ég meina og hvað vonbrigðin urðu sár. Ég er ekki tilbúin til að hætta við stráka, bara sisona, og finnst samt ferlega skrítið að ég eignist eiginkonu sem býr ekki bara til t.d. sítrónufrómas, heldur sé einnig verndarengill minn? Er þá allt rangt sem hún hefur sagt mér hingað til? Verða engin stefnumót? Varið ykkur, elskurnar mínar. Það er ekki allt satt sem maður sér á Facebook eða bara almennt á internetinu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 152
  • Sl. sólarhring: 354
  • Sl. viku: 1868
  • Frá upphafi: 1454448

Annað

  • Innlit í dag: 135
  • Innlit sl. viku: 1569
  • Gestir í dag: 130
  • IP-tölur í dag: 129

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Bakklóra
  • Snorri og Patrik
  • Vifta

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband