Merkilegast í heimi

Sprauta honum„Verða bjúgur og kartöflur í matinn?“ spurði fóstursonurinn og matargatið og hló ... Ég sit greinilega meira við tölvuna þessa dagana og safna ... bjúg. Grönnu, fallegu ökklarnir á mér eru eins og ljósastaurar núna. Mér hættir til að safna og þrátt fyrir sérlega yfirgripsmikla blóðprufu fyrir kannski 20 árum viðurkenndi undrandi læknirinn: „Það er ekkert að þér!“ Hann kunni sig þessi, mamma fór eitt sinn til að fá niðurstöður úr einhverju sem var þúsund sinnum alvarlegra og læknir hennar sagði: „Nú er það ljótt, Bryndís ....“ þagði í þrjár sekúndur og á meðan var mamma búin að ákveða kirkju, prest og velja útfararsálmana ... „niðurstöðurnar eru bara ekki komnar!“

Svo liðu nokkur ár og ég fór aftur til sama læknis, nú með eitt af mest spennandi æxlum heims, ef marka má Greys Anatomy. Allt starfsfólk Sjúkrahúss Seattle hljóp á skurðstofuna þegar fréttist að sjúklingur sem var verið að skera upp væri með Teratoma-æxli ... en Landspítalinn? Ekkert. Ég fékk ekki einu sinni betri mat. Ein hjúkkan hélt meira að segja að vinkona mín sem kom í heimsókn væri dóttir mín, hún er vissulega yngri, alveg tveimur mánuðum!

Mamma vissi hvað þetta var, enda hjúkka til margra ára, og sagði spennt: „Ég vissi það, hélt að ég gengi með tvíbura þegar ég var ólétt að þér ...“ (mana ykkur til að gúgla teratoma). Og samviskubit mitt minnkaði til muna, ég var alls ekki jafnóviðeigandi og ég hafði haldið þegar ég spurði manninn í Domus Medica sem skoðaði æxlið í sónar, mjög alvarlegur á svip, hvort þetta væri strákur eða stelpa. Alla aulabrandara skyldi nota áður en ég dæi, dauðinn var einna líklegastur miðað við svipinn á öllum - svo var þetta teratoma alveg skaðlaust.

Með EinariElskan hann Einar flutti til mín í nokkra daga eftir að ég kom heim af spítalanum og aðstoðaði mig. Þetta var árið 2004. Hann hefði einmitt orðið 41 árs í dag, 12. apríl. Þetta er fjórði afmælisdagur hans síðan hann lést í janúar 2018 og sá auðveldasti. Í fyrra slökkti ég á símanum, vildi engan hitta - bara vera í friði.

Nýlega las ég stutta, fallega og mjög áhrifamikla bók hér á netinu á síðu sem heitir Engilbjort.is, undir Meyjarmissir. Engilbjört lést langt fyrir aldur fram og maðurinn hennar, Ólafur Teitur, skrifar þetta til að halda minningu hennar á lofti. Hann kemur í lokin inn á það sem hefur verið mér svo mikið hjartans mál eftir að sonur minn dó og tengist óöryggi syrgjenda - sem vita ekki hvort þeir syrgi RÉTT! Má nota húmor? Má þetta, má hitt? Það hentar sumum að tala um sorgina, hitta fólk, gráta með öðrum, en svo er líka til fólk eins og ég sem kýs að sleikja sárin í friði, alls konar bara. Hann hafði lesið sér heilmikið til og fann til dæmis að  þetta með nokkur stig sorgarinnar; afneitun, reiði og það allt saman, átti við dauðvona fólk og stigin sem það gæti farið í gegnum en þessu var skippað yfir á alla syrgjendur sem er bara bull að gera, við erum öll svo ólík.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

2 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Já, það var frábært. Ég gleypti söguna í mig, las langt fram á nótt og kláraði, ætla fljótlega að lesa hana aftur og þá hægar.  

Guðríður Haraldsdóttir, 13.4.2021 kl. 13:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 112
  • Sl. sólarhring: 318
  • Sl. viku: 1656
  • Frá upphafi: 1453815

Annað

  • Innlit í dag: 84
  • Innlit sl. viku: 1372
  • Gestir í dag: 82
  • IP-tölur í dag: 81

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Sven-Göran
  • Hálka
  • Sumardagurinn fyrsti 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband