Mannavillt, grísatær og innistæðulaus aðdáun

Ekki Nína ...Vinkona mín úr Mosfellsbæ (samt ágæt) heimsótti mig á Skagann í gær og dró mig með í Krónuna, það þurfti að kaupa sérstaka tegund af rúllutertu (frá Kristjánsbakaríi) fyrir unglingsdótturina. Henni var heilsað þarna inni af ungu pari og skildi ekki neitt í neinu, hélt að viðkomandi hefðu verið að heilsa mér en ég kom af fjöllum, þekki reyndar mömmu mannsins. „Ahh, þau voru að heilsa Nínu,“ sagði ég greindarlega við vinkonuna en allt þetta gerðist á nokkrum sekúndum og svo var fjarlægð líka svo tækifærið til að taka niður grímu, brosa og leiðrétta hvarf nánast um leið. Fattarinn líka svolítið seinn.

 

Svona í fjarlægð er hún ekkert ólík Nínu sem er í 2. sæti hjá Samfylkingunni, henni frábæru Nínu okkar, fyrrum barnapíunni minni í eldgamla daga og söngkonu sem lét ekki bjóða sér íspinna í bónus í frystihúsinu á meðan eigendurnir voru organdi úr hlátri á leiðinni í bankann. Það er sú Nína. Þannig að ef þið heyrið sögur af nýtilkomnum merkilegheitum frambjóðandans er þetta ástæðan. Ég reyndi að kalla á vinkonu mína með nafni hátt og snjallt þegar parið sem heilsaði henni var nálægt okkur en veit ekki hvort það virkaði.

 

Þegar ég er álitin merkileg með mig tengist það iðulega gleraugnaveseni ... Nýju gleraugun mín eru ögn of stór svo á Rafmagnslausa daginn ætla ég í gleraugnabúðina og láta laga, fékk þau afhent á föstudegi og svo skall ekki-covidið á með tilheyrandi. Til að komast inn í bíl hjá vinkonu minni í gær, í hvassviðrinu hér við Atlantshafið, rétti ég henni gleraugun mín fyrst og barðist síðan upp á líf og dauða við nautsterka bílhurðina. 

- - - - - - 

Ég las mér loks almennilega til um blöðrubólgu og augu mín opnuðust allt í einu fyrir ýmsu. Til dæmis því mikla viðurkenningaraugnaráði frá hjúkrunarfræðingnum, nánast aðdáun, þegar ég fór með þvagprufuna ... en meginástæða blöðrubólgu er samkvæmt því sem ég las (á alnetinu) taumlaust kynlíf eða nýir rekkjunautar. Ég er nú samt ekki það gömul að eiga skilið aðdáun fyrir að að vera laus í rásinni ... þvagrásinni auðvitað ... Það vantaði bara að hún segði glettnislega: „Þá veit maður hvað þú hefur verið að gera!“ Ég mun aldrei leiðrétta þennan misskilning. 

 

Vax-BondVið fórum út að borða vinkonurnar um kvöldið og hún fór einhverra hluta vegna að tala um andúð sína á franska eldhúsinu.

„Ha, bíddu, nefndu dæmi,“ sagði ég hlessa, enda aldrei heyrt annað en eitthvað fallegt um franskan mat.  

„Gufusoðnar, fylltar grísatær,“ sagði hún án hiks. Hún sagðist líka hafa fengið franska matreiðslubók að gjöf eitt sinn þar sem fyrir var tekinn dæmigerður matur hvers landsfjórðungs fyrir sig. Henni fannst þetta með eindæmum ógirnilegt allt saman og gaf bókina manneskju sem er hrifin af frönskum mat. Ég man ekki eftir neinu vondu sem ég fékk að borða þessa daga mína í Frans - uppgötvaði þar að það kemur ekki mylsna af hinu franska crossiant-i, eins og oftast af því íslenska.

 

Þessi vinkona mín fór nefnilega eitt árið með hópi fólks í mat hjá kokkaskóla þar sem hægt var að fá ódýran veislumat - sem bæði æfði þjóna- og kokkanema - vinsælt en samt aldrei hægt að vita fyrirfram hvað yrði í matinn. Hún var svo óheppin að það voru fyrrnefndar grísatær ... sennilega ekki gufusoðnar viljandi, hélt hún, og að auki voru þær fylltar með einhverju innyflaógeði, eins og hún orðaði það. Ég gúglaði „grísatær“ en birti ekki mynd af þeim á þessu fallega bloggi, heldur frekar vaxmynd af James Bond ... ég var víst búin að hóta því fyrir nokkrum vikum að gera það - en ég er í erlendum, skemmtilegum vaxmyndahópi á Facebook. 

 

Talandi um Frakkland. Ég lenti í hroðalegu atviki í París þegar ég heimsótti fjanda 2018. Við vorum á Starbucks og ég bað kurteislega um Double latte, please, eða tvöfaldan latte, og fékk tvo einfalda latte (og ódrekkandi). Kurteisi og ljúfi kaffibarþjónninn leyfði mér ekki að borga nema fyrir annan vegna þessa „misskilnings“ og fjandi leyfði mér ekki að teikna upp alvöru-latte fyrir hann, eða að einn þriðji bollans væru tveir espressó og tveir þriðju væru heit mjólk, án cappucciono-froðu sem svo margir halda að eigi líka að vera á latte-i. Held að fjandi hafi tautað eitthvað um að hann vildi getað farið á þennan stað aftur. Þannig að þarna er sennilega enn búinn til vondur og bragðdaufur latte, nema einhver frændinn hafi leyft einhverri frænku sinni að útskýra með myndskreytingum hvernig Á að búa til almennilegan latte.

 

Rauðvínið kæltRéttur hiti á rauðvíni er sagður eiga að vera 15-20 gráður á Celsíus. Á langflestum veitingahúsum hér er hann yfir 20 gráður. Í gær leyfði ég mér rauðvínsglas með matnum og það var frekar volgt ... ég hellti því aftur í karöfluna, setti hana ofan í vatnsglasið mitt (með klaka og alltaf hægt að fá nýtt vatnsglas) og eftir tíu mínútur hafði það kólnað og bragðið batnað mikið. Íslensk híbýli eru hituð meira en víða annars staðar og sumir eru með rauðvínið sem þeir selja í sérstökum kæli til að hafa hlutina nú fullkomna.

 

Ég hef ekki borðað á t.d. Hótel Holti árum saman en man að árið 1989 þegar við fórum nokkuð mörg af DV í hádegisverð þar (mjög flott tilboð á mat) fékk ég mér bjór með og án þess að hafa nokkurt vit á svonalöguðu áttaði ég mig á því að bjórinn var á hárréttu hitastigi, hvorki volgur né ískaldur. Vonbrigðin komu svo eftir matinn þegar ég spurði hvaða kaffi þeir væru með (áhuginn hefur greinilega hafist snemma hjá mér) og í ljós kom að einn fastakúnninn flutti inn Café Marino (ef ég man nafnið rétt) og til að gleðja hann var það í boði á Holtinu ... og einnig hægt að kaupa það í Bílanausti, verslun sem seldi varahluti í bíla. Það var í fínustu dósum sem var nýjung og söluaukandi. Ef ég hefði valið mér latte eða cappuccino hefði ég reyndar fengið einhverja dýrðina frá Te og kaffi en það vissi ég ekki og afþakkaði kaffi eftir ansi góðan matinn.

 

Belti og axlabönd ...Þættirnir mínir í útvarpinu (undir aldamót) voru lengi kenndir við kaffi og eitt sinn fékk ég þá hugmynd að gera könnun á því hvaða kaffi t.d. forsetinn drykki á Bessastöðum, hvað þingmenn okkar yrðu að gera sér að góðu á Alþingi og hringdi líka á nokkra fína veitingastaði. Einhvern veginn fóru ótrúlega margir í vörn og reyndu að réttlæta krónu- og aurasparnað sinn á hvern bolla, fyrir mér sem þurfti samt alls ekki, ég var bara forvitin og lét á engu bera þegar ég fékk sum svörin. „XXX? En gaman ...“

 

Annars held ég að kaffið á Grensásdeild á þessum tíma hafi slegið öll met í hryllingi. Það kom í glærum, ómerktum plastpokum og ég gat ekki fundið út úr því hvaða lykt var af því ... Ég mætti eitt sinn með Kosta Ríka-kaffipakka frá Kaffitári á vaktstofuna um leið og ég heimsótti mömmu sem lá þar um tíma (fjandans bakið) og sá hörðustu nagla tárast af gleði á meðan þeir drukku það. Þarna áttaði ég mig á því að kaffiinnkaupastjóri sjúkrahúsanna hugsaði rökrétt ... sjúklingar væru svo dýrir fyrir þjóðarbúið, best væri að fækka þeim svolítið með þessu brúna dufti sem enginn vissi hvað innihélt. Mamma keypti alltaf bláan Ríó í gamla daga og um hríð setti hún klípu af kaffibæti út í. Kaffið sem ég fékk eftir matinn í gær var ágætt en of mikil mjólk ... hún fullyrti samt stúlkan að ég hefði fengið tvöfaldan latte! Dæs. Neðsta myndin tengist þessu ekki neitt.

 

Er ég kannski að breytast í eða orðin algjör hryllingsmanneskja sem aldrei er hægt að gera til hæfis? Langaði mig að horfa á RÚV-tónlistarveisluna á föstudaginn, þáttinn sem þjóðin grét af gleði yfir? Nei, ég, fúli karlinn, hefði frekar viljað Bach, Mozart og slíkt í svona þætti, og horfði (reyndar glöð og hress) á Stöð 2 í staðinn. Er aðeins farin að geta horft á sjónvarp aftur. Ætla samt að nota Rafmagnslausa daginn til innri skoðunar. Kannski finn ég minn innri andskota og get reynt að gleðja hann og róa með geggjuðu kaffi og góðu þungarokki. Nei, skrambans, það verður rafmagnslaust!       


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gaman að því þegar Mörlendingar kvarta undan ókræsilegum mat í útlöndum, graðgandi í sig sviðakjamma, súrsaða hrútspunga, selshreifa og lambatittlinga. cool

Hef alltaf fengið frábæran og mjög svo lystugan mat á veitingahúsum og í heimahúsum úti um allar koppagrundir í Frakklandi, í borgum, bæjum og sveitum.

Og Frakkar taka sér góðan tíma til að borða en graðga ekki allt í sig á nokkrum mínútum, eins og margur Mörlendingurinn, þannig að selshreifarnir standa út úr eyrunum. cool

kép.png

Þorsteinn Briem, 5.9.2021 kl. 20:28

2 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Sko, það er ekki hægt að rífast um smekk fólks á mat eða öðru. Hef mikið þurft að verjast árásum vegna ógeðs míns á hnetum, möndlum, döðlum og rúsínum. Við vinkonurnar skiptumst líka á hræðilegum sögum af einmitt hræringi og selshreifum æsku okkar ... en hún er svo ung að hún á örugglega eftir að smakka góðan franskan mat, myndi sjálf mjög ósennilega panta mér grísatær á veitingastað.

Guðríður Haraldsdóttir, 5.9.2021 kl. 21:21

3 identicon

Alveg sammála, Gurrí, smekkur fólks er einfaldlega ólíkur. Mér finnst alveg stórmerkilegt hvað fólk virðist hafa rosalega sterkar skoðanir á því hvað aðrir elda og borða og er ótrúlega ófeimið að tjá þessar sterku skoðanir, sem á stundum jaðra nú við hreinan dónaskap.

Nanna Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 6.9.2021 kl. 10:46

4 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Svo var þetta sennilega ekki nógu skýrt hjá mér, þessi matur var eldaður og borðaður hér á Íslandi, af fólki sem var að læra að elda.

Ég myndi nú samt seint panta svona mat hjá fullmenntuðum kokki í Frakklandi. Örugglega margt annað miklu betra, er ekki hrifin af svínakjöti, ekki einu sinni hamborgarhrygg. 

Guðríður Haraldsdóttir, 6.9.2021 kl. 11:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 168
  • Sl. sólarhring: 291
  • Sl. viku: 1712
  • Frá upphafi: 1453871

Annað

  • Innlit í dag: 133
  • Innlit sl. viku: 1421
  • Gestir í dag: 127
  • IP-tölur í dag: 126

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Sven-Göran
  • Hálka
  • Sumardagurinn fyrsti 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband