Skyndihugdetta á gönguför ...

hvernig íslend sjá EvrópuSkrefafjöldinn jókst um 200% miðað við gærdaginn, bara við að skreppa í smávegis gönguferð með drengsa sem mætti á svæðið í dag. Sólin var svo sæt að láta sjá sig eftir endalausar rigningar undanfarið, svo nú veit hann að það er alltaf gott veður á Akranesi. Takk, veðurfræðingar.

 

Í staðinn fyrir að njóta gleðinnar af Eldum rétt-snilldareldamennsku minni, fékk ég skyndihugdettu í gönguferðinni sem var farin undir kl. 18. Að bjóða upp á gómsætan skyndibita. Flamingo varð fyrir valinu. Annað okkar fékk sér kjúklingarétt með sætkartöflu og salati, hitt fékk sér hamborgara og franskar sem er til þarna þótt þetta sé sýrlenskur staður. Það var brjálað að gera, svona um miðvikudagskvöldmatarleytið. Skagamenn greinilega vitlausir í góðan mat.

 

Fallegustu menn í heimiÉg gekk aðeins of hratt því fóturinn var orðinn góður ... eða var hann það? Hásinarskrambinn ... Hefði sennilega þurft ögn lengri hvíld en þetta er samt allt að koma. Gömlukonugöngulagið er á hraðri útleið, held ég.  

 

Lauk við Týndu systurina rétt eftir hádegi í dag á meðan ég þvoði, braut saman og snurfusaði himnaríki. Hún var engir 25 tímar þar sem ég stillti á meiri hraða, sem getur sparað manni nokkra klukkutíma, en ég var samt þrjá og hálfan dag með hana, enda þarf fleira að gera í lífinu en hlusta á sögur. Lífið er enginn dans á rósum. Engar rósir án þyrna. Í þessum sögum er framvindan ekki endilega hröð - og fleiri en ein saga sögð (sem allar tengjast auðvitað) sem hentar mér prýðilega, fínt að geta látið dáleiðast og brotið saman þvott sem er mjög leiðinlegt án sögu í eyrum en fljótlegt og algjörlega gleymanlegt með bók. Svo þegar ég vinn í tölvunni við yfirlestur, hlusta ég á músík, eða öldunið frá Langasandi sem er ægilega notalegt.

 

Hvað er að gerast á Facebook?

Á Fb ríkja frekar mikil leiðindi, ég sá auðvitað ekki nema útvaldar síður (Takk, Meta) en það var vakin athygli á þessu:

Kona hljóp í 57 klukkutíma, 382 kílómetra. Sló met. Karl skrifar frétt um málið:

 

Stuðningurinn ómetanlegur (Myndband)

„Hann verður að bíða með þessi börn, elsku maðurinn.“

En kannski var þetta það eina merkilega sem hún sagði ... ;)


Nýir heimilisvinir, óð dyrabjalla og kraftaverkakvittun

Sjöundi maí 2024Dyrabjallan stoppaði ekki í dag sem er mjög óvenjulegt heima hjá manneskju sem fann engan mun á lífi sínu í covid-samkomubanni en ég náði fleiri skrefum fyrir vikið. Stráksi kom og fór út með ruslið, klappaði kisunum, sótti þrjú ónýt úr og risastóran jólaálf ... nú er sennilega allt komið. Ég spurði hann hvort hann kynni að tengja Playstation 4 en hann hristi hausinn svo vonandi kann drengsi það sjálfur. Eða við í sameiningu með aðstoð YouTube, taka bara Hildi (fv. granna) á þetta.

 

Eldgömul vinkona kíkti líka, alveg óvænt og í fyrsta sinn, stráksi þá nýkominn til að þræla (hann bauðst til þess, þessi elska), ég í tölvunni að vinna á trilljón, svo illa stóð á. Eins og það er gaman að fá gesti er ég orðin háð því að fá fyrirvara, sem var nú alls ekki svo fyrir bara örfáum áratugum, tveimur, þremur, en ég var sem betur fer sómasamlega klædd og fínt í himnaríki, en tveir ruslapokar stóðu samt við dyrnar, og pappi/plast-poki sem stráksi ætlaði að fara út með. Svo kom elsku sýrlenska vinkona mín akkúrat þá, með disk af sérlega góðum mat og rauk svo strax heim. Jamm, Eldumrétt-fiskurinn sem átti að vera í kvöld fór í frysti. Tvisvar í dag hringdi svo sérstakur vinur minn og nágranni, níu ára, dyrabjöllunni en hann gleymir stundum lyklunum heima.

 

Ótrúleg kvittunStráksi var enn hjá mér þegar bjallan hringdi enn og aftur, nú Einarsbúð. Sending. Í fyrsta skipti á ævinni þurfti ég að skoða reikninginn fimm sinnum, því ég trúði ekki upphæðinni. Er Einarsbúð farin að námunda? hugsaði ég greindarlega en sá ýmsar upphæðir sem enduðu á 8, 9, 5 ... en samtals hljóðaði reikningurinn upp á 20.000 nákvæmlega! Ef þetta veit ekki á eldgos ... Vona bara að Arion banki stoppi ekki millifærsluna af ótta við peningaþvætti!

 

Þetta var nú bara kornflex, ostur, brauð, rjómi, kaffirjómi, bananar, mjólk og súrmjólk og eitthvað með kaffinu á morgun þegar drengsi kemur. Ég er vissulega manneskjan sem breytti Messenger milli mín og einnar systur minnar með kinninni, var að hlusta á sögu í strætó, gleymdi að slökkva á skjánum, og tókst að breyta litasamsetningunni á samskiptunum og þegar ég ýti á þumal upp-merkið, kemur pylsa með öllu. Inga vinkona er álíka sniðug, breytti samskiptum milli okkar tveggja á svipaðan hátt, nema þumallinn er körfubolti. Allt með kinninni. Og nú þetta! Ég óttaðist að mér yrði ekki trúað svo ég tók mynd af kvittuninni (sjá myndina). Þetta er eitt það æsilegasta sem ég hef lent í lengi ... algjör kraftaverkakvittun.

Veit einhver hvernig maður breytir til baka Messenger hjá sér?

 

Fréttir og slúður af Facebook - samfélagsmiðlar 

Á Facebook er eiginlega bara talað um Júróvísjón í kvöld. Þau sem horfðu voru flest hrifin af frammistöðu Heru, enda dúndursöngkona ... sem er svo sem ekki málið.

Guðni forseti sat á fremsta bekk á samstöðutónleikunum í kvöld (fyrir Palestínu) - einhver spurði:

„Mættu einhverjir forsetaframbjóðendur?“ Já, viðkomandi sá Ástþór og Steinunni Ólínu.

Alltaf af og til brjálast einhver yfir tungumálinu, að við skulum reyna að hafa það minna karllægt en það hefur verið. Sko, ef ég leita að orði í netorðabók verð ég að hafa það í karlkyni til að það finnist. Leikurinn Orðasnakk í símanum býður bara upp á orð í karlkyni. Í spennubók sem ég las yfir kom nokkrum sinnum fyrir að talað var um lögguna svona: „Kannski vita þeir í löggunni eitthvað um málið?“ Lögreglustjórinn í umdæminu þar sem glæpurinn gerðist var kona - og líka önnur aðalsöguhetjan.

Breytingar eru oft ljótar - ég gleymi ekki feginleikanum þegar prófarkalesararnir hjá Birtíngi leyfðu okkur að skrifa sprey í staðinn fyrir sprei sem var lengi vel talið hið eina rétta. Ég gat ekki vanist því, ég er samt manneskjan sem vill hafa partí (ekki ý), kósí (ekki ý), Gurrí ekki ý ... en við fengum svo oft skammir fyrir sprei, svo ljót villa, sagði fólk.

 

SiegfriedungjoyÉg ver talsverðum tíma á samfélagsmiðlum, svona símahangs ... þá tel ég líka með þegar ég hlusta á sögur með símann í vasanum að gera húsverk. Instagram fer með mér í bólið, það tekur mig um klukkutíma að fara yfir allt, þá fyndnu helgi.and.erlend (norskir en samt skemmtilegir, gera oft grín að Íslendingum (urrr) en aðallega Svíum samt), siegfriedundjoy (eru hrikalega fyndnir, sjá mynd) og greipjokes (íslenskur, frábær) en svo er venjulegt fólk, líf og ástir og örlög, og ég hef mjög gaman af því að fylgjast með: katrinedda, gudnymatt, kristaketo, thelmahilmars og helling í viðbót. Katrín Edda er vélaverkfræðingur hjá Bosch í Þýskalandi, vinnur við að þróa sjálfkeyrandi bíla, töff, falleg ljóska sem lætur útlitið ekki skemma fyrir sér, með bein í nefinu, flott fyrirmynd ... Guðný Matt og fjölskylda ferðast um heiminn á húsbíl, aðallega Evrópu, og þau eru voða viðkunnanleg og skemmtileg, Krista gerði upp hús í sveitinni í Hafnarfirði, við sjóinn, þau eru ótrúleg hjónin þegar kemur að endurbótum, Thelma er einfaldlega ofboðslega fyndin ... svo er Þórdís Gísladóttir, uppáhaldsljóðskáldið mitt, líka á Instagram og mjög gaman að fylgjast með henni. Þetta er bara örlítið brot sko!

 

Fólkið sem maður fylgist með verður ... eins og sagt var um fréttaþulina í gamla daga, hálfgerðir heimilisvinir! og mér er alveg sama þótt síminn minn skammi mig fyrir að hanga svona í símanum ... Nokkrir (tveir) áhrifavaldar eru vissulega með og þegar þeir byrja að sýna kannski snyrtivörur eða blóta köttum, skippa ég hratt. Hef meiri áhuga á hvernig til dæmis littlevikingstravel gengur að fá nýja vél í húsbílinn og hvernig óvæntu hvolpunum vegni.


Mest pirrandi, kurteisi eða pappírsflóð

TitanicÓtrúlegt en satt, ég er búin með átta og hálfan tíma af Týndu systurinni síðan rétt eftir miðnætti 5. maí ... (hraði: 1,2) en á samt 12 klst. og 11 mín. eftir. Hversu dýrlegt er það. Ég á vinkonu sem er hreinlega ekkert spennt fyrir bókunum um systurnar sjö ... sem mér finnst ótrúlegt. Ég þekki svo sem fólk sem er afar hrifið af sannsögulegum myndum en mér finnst þær yfirleitt hörmulegar, þær enda iðulega illa, einhver deyr (Titanic) svo ég vil ekki verja frítíma mínum í slíka ekki-gleði. Ég veit alveg hvað heimurinn getur verið vondur en nenni ekki að velta mér upp úr því. Af sömu ástæðu get ég ekki horft á náttúrulífsmyndir (enda sannsögulegar), nema ég viti fyrir fram að ljón drepi ekki fallegu góðu mörgæsina (grín en ekki grín) þegar á að sýna okkur hversu náttúran geti verið grimm og eiri engu. Ég veit að þeir eru flottir en má ég frekar biðja um hunda- eða kattavídjó með góðum endi? Ekki endilega þegar gott fólk bjargar dýrum í neyð, slík myndbönd eru stundum sett á svið, til að fólkið geti baðað sig upp úr hrósi, hjörtum og lækum. En auðvitað alls ekki alltaf. 

 

Facebook í stuði:

Íslendingar í útlöndumVirkilega gaman stundum að lesa suma þræði - eins og nýlega af síðu vorra landsmanna sem búa í útlöndum. Ég á eftir að lesa þráðinn þar sem fólk segir frá kostum landanna sem það býr í, sá var neðar, því festist í þræðinum: Hvað fer mest í taugarnar á ykkur í núverandi búsetulandi? Hann var svo sem ekki langur og það sem fer í taugarnar á einum þarf ekki endilega að pirra annan. Mér fannst þetta mjög áhugavert og skemmtilegt. Er mjög hrifin af kurteisi Breta sem fer nú samt í taugarnar á sumum ... Munið bara að sumar þjóðir halda að við Íslendingar séum alltaf á fylliríi og kunnum ekkert með peninga að fara. Svo innilega fjarri sanni! Hérna kemur þetta: 

 

Svíþjóð: Svíar alltaf þreyttir, líka nývaknaðir. 

Belgía: Ekkert rafrænt, allt á pappír, háir skattar.

Holland: Allir svo hávaxnir.

Þýskaland: Bannað að þvo bílinn á sunnudögum. Nenna ekki að vinna en skrifa samt háa reikninga. 

Noregur: Vantar góðan ís í vél, góðar sundlaugar og almennilegt brauð.

Bretland: Bretar ekki nógu lausnamiðaðir, of kurteisir.

Skotland: Bretar svo móðgunargjarnir, koma engu í verk.

Austurríki: Íbúar skilja ekki kaldhæðni.

Kanada: Tveir veikindadagar á ári, allt svo dýrt, engin stéttarfélög.

Austur-Afríka: Helgin hefst á fimmtudegi, vinnuvikan á sunnudegi, eins og maður tapi degi ... Skilja ekki kaldhæðni, skortir allt tímaskyn.

Danmörk: Allt svo skipulagt fram í tímann, talað í vikum (Hentar þér að koma í heimsókn í viku 35?), mikil reglufesta.

Ástralía: Silagangur í öllu, ógeðslegar flugur.

USA, New York: Sorpmálin.

Spánn: Bankakerfið, pappírsflóð í stað tölvupósta.

- - - - - - - - - - - - - - -

Svo fann ég annan þráð, ekki íslenskan þó: 

Sleppið einu orði í lagi og setjið Jesús í staðinn. Það vantaði ekki hugmyndirnar:  

 

- Hit me Jesus one more time

- The real slim Jesus

- Smells like Teen Jesus

- Jesus just wants to have fun

- All you need is Jesus

- The Piano Jesus

- Me and Jesus McGee

 

Þetta fann ég líka

„Ég notaði Red Bull í staðinn fyrir vatn þegar ég hellti upp á í morgun. Ég var síðan á mótum Miklubrautar og Grensásvegar þegar ég uppgötvaði að ég hafði gleymt bílnum heima!“ 


Afmælisbörn, risalampinn og óviðeigandi tónlist

Mamma hjúkkaAfmælisdagurinn hennar mömmu er í dag, hún hefði orðið níræð. Vantaði bara tæp tvö ár upp á. Það er langlífi í ættinni okkar en mér virtist mamma ekkert mjög spennt fyrir því að verða mikið eldri. Henni fannst ekki taka því að fara til augnlæknis þótt slæm sjónin hamlaði henni frá því að ráða krossgátur og svo var hún löngu hætt að nenna að lesa blóðugu krimmana sem hún hafði svo gaman af. Hún þoldi vel blóð, enda hjúkrunarfræðingur ... Hadda tvíburasystir mömmu dó nokkrum árum á undan henni, fæddist líka ögn á undan, þær voru gjörólíkar í útliti, enda tvíeggja. Hjördís og Bryndís, og þegar Sissa vinkona þeirra slóst í hópinn voru þær alltaf kallaðar þríburarnir. Mammma ólst upp í miðborginni, á Laugaveginum, beint á móti Stjörnubíói, og þegar komu nýjar myndir í bíó, fóru þríburarnir stundum í bíó kl. 3, 5, 7 og 9, segir sagan. Eitthvað sem mamma var ófús að viðurkenna þegar við systkinin vildum fá að fara í bíó mörgum árum síðar. Ég man að hún fékk reiðhjól í fermingargjöf og amma fór upp í sveit til að redda rjóma til að hægt væri að bjóða upp á almennilegt bakkelsi í veislunni. Þetta var í kreppunni eftir seinni heimstyrjöldina.

  

Elsku TommiAnnað afmælisbarn dagsins hefði orðið 65 ára í dag, elskan hann Tommi bílstjóri sem dó langt fyrir aldur fram. Hann var afskaplega fyndinn og skemmtilegur, með sérlega góðan tónlistarsmekk og mikill sögumaður sem kunni að að ýkja til að gera sögurnar enn meira krassandi. Ég þurfti stundum að taka fyrir eyrun ...

 

Lampinn sem ég keypti í IKEA er svo voldugur og svakalegur (keypti hann vegna litarins) að hann myndi henta í einhverja risaskrifstofu með mjög hátt til lofts og vítt til veggja, á skrifborði sem hentar fimm manns eða einum forstjóra. Okkur skildist að það fylgdi eilífðarpera en svo var alls ekki, það er perustæði og þar segir Max 13W sem er nú bara kínverska í mínum eyrum. Ég missti tvisvar skrúfu þegar ég var að setja hann saman (ég hata ósamsetta hluti, hvernig átti mig að gruna?) en þrátt fyrir að hafa ekki arnarsjón fann ég þær báðar, sjúkk. Ég gat ekki sett skrímslið í minnsta herbergi himnaríkis, heldur færði til fallegan lampa sem þarf bara að snerta til að kvikni eða slökkni á honum, fellur án efa vel í kramið þótt hann sé bara silfurlitaður.

Svona er nú vont stundum að vera hætt að reykja, og hafa ekki kveikjara í vasanum til viðmiðunar - allt svo stórt í IKEA svo lampinn virtist alveg mátulegur. Rautt hættuljós kviknaði ekki þótt hann væri svakalega þungur. Einu sinni keypti ég tungusófa í Jysk, lítinn og sætan en svo varð hann næstum því skrímsli í stofunni heima hjá mér, eða þar til eftir breytingar þar sem hann passar bara ágætlega núna, en mætti ekki vera mikið stærri samt. Svo villandi og ég dett oft í pyttinn og kaupi of stórt.

 

Nú stendur yfir fótboltaleikurinn LIV - TOT, en flest í fjölskyldu minni halda með Liverpool. Sonur minn hélt með Tottenham. Aðallega út af Harry Kane en nú er Kane horfinn á braut svo ég er hætt að halda með bæði LIV og TOT. Áfram Liverpool, segi ég núna. Svo held ég líka með West Ham og ekki síst eftir að Dagný frænka, barnabarn Höddu, tvíburasystur mömmu, fór að spila með þeim.

 

Fréttir af Facebook

Á einhverri erlendu síðunni kom spurningin: Hvaða tónlist er mest óviðeigandi að spila við útfarir?

Ekki stóð á svörunum:

Hit me baby one more time 

It´s my life

Return to sender

Another one bites the dust

The witch is dead

I will survive

Congratulations

Going Underground

Highway to Hell

They are coming to take me away, aha

Staying Alive

og

Heat of the moment 

Light my fire 

 

Hérlendis myndum við byrja á: Komdu og skoðaðu í kistuna mína, og það eru án efa fleiri íslensk lög sem kæmust í þennan hóp þótt ég muni ekki eftir neinum akkúrat núna.

 

Í hópi ættingja sagði ég eitt sinn að ég myndi helst vilja lagið Hel með Skálmöld og Sinfó sem útgöngusálm í minni útför, svo fólk gæti dillað sér á leiðinni í brauðterturnar í erfidrykkjunni. Megrandi, hollt og gott. Þau tóku reyndar ansi vel í þetta, alls ekki viðeigandi en samt svo ótrúlega flott lag. Nú er það alla vega opinberað.  


Croissant-sjokk, pítsugleði og stór misskilningur

chocolate-croissants-2Bæjarferð með gistingu var farin í gær með stráksa og alveg ótrúlega gaman hjá okkur. Við vorum sótt af vinkonu upp úr kl. 14 og byrjuðum reisu Guðríðar á kaffihúsi. Þekkjandi minn strák sagði ég: „Viltu ekki örugglega krossant (croissant) með súkkulaði - og kakó með eða ertu farinn að drekka kaffi? Djók!“ Hann samþykkti uppástungu mína. Vinkonan fékk sér voða fína samloku með bræddum osti utan á, heitir einhverju frönsku fínu nafni, og þegar stráksi pantaði sér krossant, heyrði hún bara fína franska heitið og útbjó því tvær þannig ostasamlokur. Meðvirka ég vorkenndi afgreiðslukonunni sem ruglaði svona í pöntuninni, sagði henni að það væri allt í lagi og borðaði aukalega ostabrauðið sem ég var hvort eð er búin að borga fyrir, ásamt einhverri hálfri samloku sem ég hafði pantað fyrir mig. Hafði hvorki borðað morgunmat né hádegisverð, bara einn kaffibolla, svo þetta slapp. Allt of lítill mjúkur kanilsnúður með kremi hafði líka verið pantaður og eina sérbeiðnin var að hita hann ekki. Honum ætluðum við vinkonur að skipta á milli okkar ... jú, jú, en hann kom en ekki með kremi. Pöntunin var: Tveir latte, einn kakó, mjúkur kanilsnúður með kremi, hálf samloka, krossant og ostasamloka á rúmlega 8 þúsund krónur. Vá, hvað er orðið dýrt að fara á kaffihús! hugsaði ég.

Stráksi fékk sjokk þegar ekkert krossant kom, þrátt fyrir að ég hafi leiðrétt ruglið. „En þú sagðir Cro-blablabla,“ sagði afgreiðslukonan. „Nei, við pöntuðum krossant með súkkulaði,“ sagði ég vingjarnlega og var almennileg (meðvirk), sagði þetta væri allt í lagi, og líka þegar kremið vantaði á kanilsnúðinn en því var svo úðað yfir þá og það lak um allt ...  

Með krossantinu sem ég þurfti að borga fyrir sér, fór þetta upp í rúmlega 9.000 kr. sem er of mikið þótt við höfum verið þrjú. Hefði ég ráðið einhverju þarna, hefði ég beðist afsökunar og ekki rukkað fyrir krossantið.

 

NáttborðÖgn seinna, á leið í heimsókn til einnar af ótalmörgum systrum mínum (sem er nýflutt á milli póstnúmera í bænum) stoppuðum við í Góða hirðinum til að kaupa náttborð fyrir drengsann minn. Eitt alveg ágætt fannst á 2.500 kall - ég forðast allt sem þarf að setja saman svo þetta var bara sjálfsbjargarviðleitni. Svo heppin að fá far heim daginn eftir, og þurfti ekki að taka það með í strætó, veit að stráksi hefði aðstoðað mig við að halda á því upp í himnaríki. Vinkonan fríkaði svo algjörlega út í Góða, keypti allt jólaskraut sem hún fann (það flottasta) og fékk það ráð frá indælli afgreiðslukonu að koma næst skömmu eftir jólin, því þá væri allt troðfullt af jólaskrauti. Sumt fólk gleymir því kannski að það koma jól á hverju ári?

Nýja íbúð systurinnar er svakalega flott, hún flutti í 108 sama dag og stráksi flutti frá mér, og hún er búin að koma sér ótrúlega vel fyrir með heimilisvarðkettinum fagra. Útsýni hennar, sem er yfir eitthvað grænt (tré, gróður), gleður hana mjög og það ríkir mikil sæla með fallegu íbúðina. Kisa hefur nánast malað stöðugt síðan þær fluttu svo það er greinilega góður andi þarna. Kannski búálfur í forstofuskápnum, stakk stráksi upp á. Við erum hrifin af álfum.

 

Ostapítsa með sultuVinkonan nennti alls ekki heim eftir heimsóknina, enda með svona dásamlega farþega í bílnum, og stakk upp á því að við fengjum okkur pítsu, sagðist hafa heyrt góða hluti um Pizza 107 við Hagamel. Ég er komin svo út úr öllu (veitingastöðum, börum) eftir næstum tveggja áratuga búsetu á Skaganum mínum, að ég bara hlýddi. Það var aldeilis góð ákvörðun því þarna fengust ótrúlega góðar pítsur. Ostapítsan mín var með þremur tegundum af osti, svo sultu yfir, óhemjugóð, stráksi fékk sér með ýmsu NEMA jalapeno og vinkonan setti stúlknamet í hryllingi ... piparostur (namm) og DÖÐLUR! Jæks.

 

Hjón með barn á unglingsaldri, utanbæjarfólk, kom í ljós ögn síðar, sat á borði við hliðina á okkur. Þau spurðu okkur, eða konan, hvort við vissum hvar í Vesturbænum braggarnir hefði verið. Ég ákvað að móðgast hrottalega: „Fyrirgefið, en hvað haldið þér eiginlega að ég sé gömul?“ Svo áttaði hún sig á því að þetta var bara lélegur húmor. Ég játaði fyrir henni að ég væri vissulega eldgömul miðað við margt yngra fólk, en því miður vissi ég (myndi ég) skammarlega lítið um bragga. Reyndar man ég eftir bröggunum í Hvalfirði (alin upp á Skaganum) og fékk að gista í einum slíkum þar sem vinafólk mömmu bjó (alla vega á sumrin) og fannst það mjög spennandi. En veit allt of lítið um þá í Reykjavík, það héngu nefnilega gamlar myndir uppi á vegg þarna á pítsustaðnum sem orsakaði forvitni fólksins.

 

Misskilingur kattanna

GardínukettirVið gistum hjá Hildu sem fór síðan með mig í Ikea í dag til að kaupa lampa í herbergið sem er óðum að taka á sig mynd. Já, og skutlaði mér heim! Rúmið er lítið þótt það sé nú alveg 90-200 cm og náttborðið gerir heilmikið fyrir herbergið og líka lampinn nýi sem ég keypti. Ég þvoði auðvitað gardínurnar og lagði þær svo á rúm drengsa til að þær héldust sléttar áður en ég setti þær upp, fyrst þurfti ég að fara í bæinn ... ég lokaði dyrunum þegar ég fór í gær ... og eftir að ég kom heim í dag hefur verið opið. Mögulega halda kettirnir að þetta sé nýja bælið þeirra því þeir lágu þar (ofan á gardínunum) einstaklega makindalegir, allir saman þegar ég ætlaði að fara að setja upp gardínurnar. Maður truflar ekki ketti í slökun. Mögulega þarf ég að þvo annan vænginn aftur en sjáum til. Verst er samt að himnaríki er á hvolfi. Gjörsamlega í rúst. Eins gott að enginn komi að skoða fyrr en ég er búin að taka til. Hvernig er hægt að rústa heilli íbúð með því að gera eitt lítið herbergi fínt? Látið mig vita ef þið viljið uppskriftina ...

 

Á morgun kemur Týnda systirin út á Storytel. Sjöunda bókin um systurnar sjö eftir Lucindu Riley. Álfrún Örnólfsdóttir les þessar bækur afskaplega vel - og sennilega verður himnaríki orðið virkilega flott og fínt ef ég gæti þess að hlusta á meðan ég reyni að fínisera og "flottheita" öll herbergin. Ég er mjög hrifin af þessum bókum, sú síðasta var kannski síst, slæmt val í ástum aðalpersónunnar hafði áhrifa á þá skoðun mína. Þoli ekki þegar konur og karlar halda að þau þurfi að breyta sér og persónuleika sínum til að falla öðrum í geð. Ég man eftir mjög flottri konu sem fór á námskeið hjá einhverjum erlendum gúrú. Hann skipaði henni að þegja í viku, hún talaði allt of mikið. Ég sá rautt ... þekki viðkomandi ekki en veit hver hún er og hún talaði ekki of mikið, hún var bara hún sjálf, mjög skemmtilegur karakter - en hélt eflaust að gúrú-fíflið væri að ráða henni heilt. Það eru mörg ár síðan, vonandi náði konan að verða hún sjálf aftur. 

 

Við Hilda erum vanar að skreppa í nokkurra daga ferðalag út á land á sumrin. Þegar allt var í volli vegna skorts á erlendum ferðamönnum í covid-ástandinu, gistum við á Hótel KEA (ágætt verð), en splæstum þó bara tveimur nóttum á okkur. Nýlega fór Hilda að tékka á nýjum landsfjórðungi og á gistiheimilum en það var allt svo hrikalega dýrt að við hættum við. Held að tvö herbergi í fjórar nætur hafi á einum stað kostað 800 þúsund. Annað sem hún fann var að vísu töluvert ódýrara en samt nógu dýrt. Áður en hún fór að kíkja mundi ég eftir að gúgla aðalatriðið annað hvert ár ... eða EM/HM Í FÓTBOLTA! 

EM stendur yfir 14. júní-14. júlí nú í sumar og ég ætla ekki (enn einu sinni) að uppgötva á leiðinni í ferðalag, eins og t.d. til Stykkishólms 2018, að HM væri að hefjast akkúrat kl. 16 eða 17 þann dag og við höfðum ekki hugmynd um hvort væri sjónvarp á staðnum! Það reyndist vera sæmilegt sjónvarp þarna en útigrillið var ónýtt ... þannig að þegar "stórasta" systirin mætti í heimsókn með grillkjöt varð að steikja það á pönnu ... sem var nú samt allt í lagi. Neðri kojan sem ég svaf í var svo hræðileg að það brakaði í henni við hvern andardrátt minn og stráksi í efri kojunni svaf mjög létt ... En hva, kannski skreppum við í dagsferðir, t.d. til Grundarfjarðar og smökkum góða kólumbíukaffið þar.         


Hefnd litlu systur og stórhættuleg Meta-gervigreindin

Sjö saman í KaríbaSeinni pakkinn frá Eldum rétt var eldaður áðan og elskan hún Inga neydd til að koma í mat, enda pakkarnir ætlaðir tveimur. Hún kom reyndar alveg sjálfviljug, borðaði nokkuð sterkan tagliatelle-rétt og sagði mér hryllingssögur úr Mall of America, þeim sataníska stað, sem hún neyddist til að fara á fyrir mörgum árum til að kaupa eitthvað sem einn afkomandann vantaði sárlega. Hún var þeirri stund fegnust þegar hún slapp út með eitthvað í poka. Þegar við Hilda skruppum ásamt nokkrum viðhengjum okkar til Orlando (Sjá allt um ævintýri Sjömenninganna í Karíbahafi (sjá mynd af vettvangi, Cozumel í Mexíkó, á leið í dolluna) í virtum fjölmiðlum í desember 2018), gistum við á hóteli með Florida Mall á neðri hæðinni. Svo vel vildi til að yfirleitt var ekki þörf á því að fara nema rétt fram hjá lobbíinu og fara ganginn að mollinu því þar er kaffihús, jólabúð (jólakúlan með mynd af Trump fékkst þar), veitingastaðurinn þar sem Junior, vinur okkar, var að vinna ... og pínkulítil sjoppa sem selur vatn, gos, bjór, tóbak, flensupillur og ávexti, svo fátt sé nefnt.

Vissulega hittum við þarna ýmsar dásemdir alveg óvænt, í mollinu sko, eins og mann sem vann með mér í Ísfélaginu í Eyjum fyrir löngu, annan sem er elsti sonur tvíburasystur mömmu og við sjáum hann allt of sjaldan, eins og aðra ættingja, en það eru alltaf fagnaðarfundir samt.

 

Herbergi drengsaFrábæru karlarnir komu með rúmið upp úr kl. 18, skrúfuðu fyrst festingu undir (sem var óvænt) og svo rúmlappirnar. Afar kvenlegur hamar sem ég fékk í jólagjöf eitt árið fyrir löngu, með tvenns konar innbyggðum skrúfjárnum í skaftinu virkaði ansi hreint vel, alla vega hamarinn, en ég þurfti að heimsækja einn nágrannann og sníkja stjörnuskrúfjárn. Það var minnsta mál, hann rétti mér veglegt skrúfjárnasafn heimilisins og rúmkarlarnir urðu afskaplega glaðir og verkið gekk miklu hraðar eftir þetta. Rúmið er ansi hreint létt en samt ekkert drasl, fínt fyrir unglingsstrák og suddalega æðislega gott að hafa það létt þegar þarf að flytja það milli sveitarfélaga. Herbergið er orðið súperfínt ... sjá mynd.

Mynd: Rúmið frá Jysk var kannski ódýrt og létt en rúmfötin breyta því í konunglegan bedda, glæsileg sængurfötin njóta sín vel og einnig skiptir lýsingin talsvert miklu máli. Mottuna á gólfinu heklaði ég á mettíma, átta tímum, ljósakrónan fékkst í antíkskúrnum við Heiðarbraut, stóllinn í Húsgagnahöllinni. Ég vona innilega að drengurinn kunni að meta litina í teppinu og herbergið almennt. Ég gerði mitt besta, ekki hægt að krefjast meira af mér.

 

Þegar ég skrapp í bæinn á þriðjudaginn sótti Hilda systir mig. Ég hef oftar en einu sinni vælt og skælt yfir skorti hennar á rokkhjarta og spilun hennar á vissum geisladiski (Vinsælustu lög Íslandssögunnar-eitthvað) og ég hafi heyrt Heyr mína bæn svona 300 sinnum á ferðalagi okkar austur að Höfn og til baka. Var það ekki fyrra? „Blessuð og sæl,“ sagði hún ansi hreint vingjarnlega miðað við illskuna sem hún var í þann veginn að beita mig, skömmu eftir að ég inn í bílinn. Þegar ég var að spenna á mig beltin, sem betur fer búin, ýtti hún á takka í mælaborðinu og hækkaði í botn ... Heyr mína bæn drundi í eyrum mínum svo hljóðhimnurnar engdust, tónlistin heyrðist yfir allt bílastæðið Breiðholtsmegin í Mjóddinni og fólk kom hlaupandi frá stæðunum Kópavogsmegin líka, gjörsamlega í losti. Þetta heitir að kunna að hefna sín. Veit samt ekki hvað vesalings fólkið í Mjódd hafði gert henni ...  

 

Facebook ógnirFréttir af Facebook

2. maí 2009:

„Sá í fréttum Stöðvar 2 að David Lynch leikstjóri drakk latte frá kaffitári, eins og ég geri annað slagið.“ Ykkar einlæg.

 

Mér finnst ég stundum svo alþjóðleg, veraldarvön, veit ekki hvaða orð lýstir þessu best. Drekk víst stundum sama kaffi og heimsfrægur leikstjóri, eins og kemur fram hér ofar. Fékk ókunnan mann á rúmstokkinn sama ár og Elísabet heitin Englandsdrottning lenti í því sama. Ég elska Skálmöld - alveg eins og Guðni forseti. Finn fyrir miklum andlegum skyldleika við þau, og fleiri sem ég man ekki eftir í augnablikinu að ég eigi eitthvað sameiginlegt með.

 

Ég þori reyndar ekki að hafa mig mikið í frammi á fb þessa dagana - bara í þessari viku hafa tveir eða þrír fb-vinir verið sviptir síðum sínum fyrir engar sakir. Gervigreind sér um þetta og hún er ekki sveigjanleg, eins og þegar frændi nokkur fékk aðvörun þegar hann gerði grín að nýnasi..um og var svo látinn fjúka endanlega þegar hann sagði við eitt afmælisbarn dagsins orðið heillin. Fyrstu fjórir stafirnir í því orði sýndu einfaldlega að frændi væri óforbetranlegur.

Til að milda gervigreindina set ég reglulega inn krúttlegar myndir af kisunum mínum. Það virðist virka. Ég passa mig að læka ekki of mikið hjá fólki, ég set vissulega alltaf hlekk á blogg dagsins inn á fb en kannski þóknast Metu það ekki til lengdar. Fólk missir þarna minningar, mögulega myndir en mér skilst að hægt sé að endurheimta þær í einhverjum tilfellum. Svo missa sumir síður sínar í klær svindlara ... fékk kveðju frá gamalli vinkonu nýlega og svaraði strax með spurningu um hvernig henni liði í nýja landinu. Fékk ekkert svar, heldur hvarf síðan hennar. Nema þetta sé nýjasta nýtt til að slíta fb-vináttu á dramatískan hátt. Hvet fólk sem lendir í þessu að gúgla hvernig eigi að endurheimta síðu sína, sumir ná að gera það, aðrir ekki.  


Hættuleg áróðurssíða, fríkað út og ástarsögumeiningar

1. maí fyrir nokkrum árumMótmælaganga var ekki gengin í dag, enda vinn ég hjá sjálfri mér og fékk ekki frí. Var mun duglegri við að mæta í slíkar göngur í gamla daga. Nú virðist úr mér allt bit. Áður fyrr, þegar aðalsamkomustaðurinn var bókasafnið eða stúkuhúsið, voru svona göngur hin besta skemmtun. Hreyfing, lúðrablástur og fjör. Sumardagurinn fyrsti var mun kaldari í minningunni en 17. júní bestur. Þetta dekkaði apríl, maí og júní. Ef ekki hefði verið fyrir jól, páska og bolludaginn ...

 

Mynd: 

Við Bogga vinkona göngum þarna hlið við hlið, beint fyrir aftan Gunnhildi (sem er fremst með með loðkragann). Létum svona skemmtun ekki fram hjá okkur fara. Við kynntumst í kringum fimm ára aldurinn í Nýju blokkinni þar sem við bjuggum báðar, og vinátta okkar hefur staðið óslitið í minnst fjörutíu ár plús ... Man eftir okkur dansa við Led Zeppelin III sem Siggi stóri bróðir hennar átti en þá gæti ég svo sem hafa verið flutt í Arnarholtið (bak við Einarsbúð) og verið í heimsókn, þá hef ég mögulega verið í kringum 11 ára og farin að meta þungarokk. 

 

Keypti tvo pakka af Eldum rétt-mat fyrir tvo sem komu stundvíslega eftir hádegi á mánudaginn. Veit ekki hvaða lufsugangur þetta er, en ég eldaði fyrri réttinn núna fyrst í kvöld, voða fínar kjúklingabringur sem klárast svo í hádeginu á morgun. Hinn rétturinn þarf að eldast á morgun því það er Rvíkurferð í kortunum um helgina, með sjálfum stráksa sem fær svo sannarlega ekki að segja sig úr fjölskyldunni þótt  hann hafi flutt. Ætli verði ekki pantað að kaupa KFC og aka Álfhólsveginn sem er uppáhaldsgatan hans í öllum heiminum, enda segir heitið allt um aðaláhugamálið, stráksi er þjóðlegur mjög, nema þegar kemur að sviðum, sem eru ekki uppáhaldsmaturinn okkar.

Yfirleitt eru karlar vitlausir í mig en andstyggð mín á sviðum hefur haft mikinn fælingarmátt. Úff, þessi hættulega áróðurssíða þarna á Facebook, Gamaldags íslenskur matur, hefur án efa eyðilagt allan séns fyrir mér. Réttast væri að tilkynna þennan boðskap um siginn fisk, gellur, skötu og slíkt, því eigendur Meta myndu án efa líta á þetta flest sem efnavopn. Ég var svo heppin að vera alltaf með svona hrylling vakúmpakkaðan þegar Elfa vinkona skældi út úr mér að koma með hákarl og hval til hennar í Ammríkunni. Hangikjötið var fínt og ég mátti alltaf koma með það til landsins, sagði bara LAMB ... en þau sem reyndu að taka hamborgarhrygg með sér westur voru iðulega stoppuð í því. Nú held ég að ekkert kjöt sé leyfilegt þangað.

 

Sofandi köttur„Á ekkert að fara að mála húsið þitt?“ spurði góð kona sem skutlaði mér heim úr stuttri heimsókn í dag.

„Jú, en fyrst ætlum við að klára eitthvað pípara-dæmi, einhver rör sem er verið að mynda, og ef þarf að gera við, verður það gert. Svo verður ábyggilega farið í utanhússfegrunaraðgerð.“

„Það gæti haft áhrif á söluna á himnaríki að húsið þarfnist málningar,“ sagði hún. Meinti eflaust að fólk héldi að ef það keypti himnaríki, biði þess einhver meiriháttar fjárútlát, en svo er auðvitað ekki. Járnið er meira og minna heilt en ljótt, þess vegna höfum við látið annað ganga fyrir. 

„Við eigum sko margar, margar milljónir í sjóðum,“ montaði ég mig, „það vildu allir klára gluggana fyrst sem nú er nánast búið, svo er verið að kíkja á rörin og þar á eftir, nú í sumar, verður eflaust málað,“ sagði ég.

 

Rúmið sem ég keypti í Jysk kemur á morgun, einnig fæ ég aðstoð á morgun við að gera herbergi drengsa suddalega flott. Vona bara að hann verði ánægður. Líklega kemur hann strax eftir helgi.

Ég hef sem sagt bara laugardagskvöldið til að fríka ærlega út. Hvernig fríkar maður út? Tillögur óskast. Góður kaffibolli og spennandi hljóðbók hljómar ekkert illa en bókin sem ég er að hlusta á núna ætti að vera algjör hvalreki fyrir þau sem lesa hjá Storytel - eða um ástir og örlög tveggja lesara hljóðbóka. Hún heitir Takk fyrir að hlusta og er só far alltílæ ... nema þar er talað um erótískar bækur (50 gráir skuggar-bækur) sem ástarsögur sem er algjör misskilningur. Í flestum ástarsögum er ekki farið svo mörgum orðum um ... þið vitið. Þær bækur gerast til dæmis í bakaríum við ströndina í hálöndunum þar sem rúntar er um í bókabílum. Siðprúðar ástarsögur. Hinar heita einfaldlega erótískar bækur, held ég. 

 

ÁstarsagaÍ þessari sem ég er að hlusta á er afskaplega mikið talað um hreim hjá sögupersónum, persónueinkenni og slíkt sem hræðir mig mjög frá því að hlusta á amrískar hljóðbækur, nema Takk fyrir að hlusta sé skáldskapur (djók). Hún er bjálæðislega vel lesin og lesari súpergóð leikkona sem getur sennilega ekki annað en leiklesið ... sem er algjörlega óþolandi til dæmis þegar eldgömlu konurnar eru að tala (gagga). En sú sem les getur samt varla annað en leiklesið bók sem fjallar um mikilvægi þess að leiklesa bækur, eiginlega ... ég ætla að reyna að gefast ekki upp ... Hef hlustað á bækur með þessari leikkonu og hún kann að lesa fyrir fólk, án þess að fara út í leikræna þjáningu. Eitt er að hlusta á hljóðbók og geta jafnvel sofnað út frá henni, annað er útvarpsleikrit sem krefst þess að maður haldi einbeitingu allan tímann. Ég ætlaði eitt sinn að prófa að hlusta á bók um Jack Reacher (eftir Lee Child) á ensku en gafst upp eftirörfáar setningar. Það var greinilega Marlboro-maðurinn sem las með murrandi, rifnum hljóðum sem áttu að vera svoooo karlmannleg í takt við Jack Reacher sem er auðvitað óbærilega flottur (í þáttunum á Amazon Prime). En hann talar ekki með svona röddu, hann er bara venjulegur.

Mynd af alvöruástarsögu, í þeirri merkingu sem flestir leggja í ástarsögur. Barbra Cartland var sannarlega siðprúður rithöfundur, og fólk hoppaði ekki saman í rúmið nema vera harðgift hvort öðru. Í eina skiptið sem hún hliðraði aðeins til með það, vissi konan að hann væri maðurinn hennar, en maðurinn þekkti ekki hlassið sem hann hafði gifst, enda hafði hún fallið í ómegin strax eftir brúðkaupið og legið í kóma í marga mánuði, eða þar til hún hafði náð kjörþyngd. Hún einsetti sér að ná ástum hans sem tókst, henni tókst meira að segja að vera á undan honum til herragarðsins þar sem hún bjó, en hann var svo mikill heiðursmaður að hann fór þangað til að biðja eiginkonuna um skilnað, sem var fáheyrt á þessum tímum, til að kvænast þessari fögru dásemd sem hann hafði sofið hjá ... þið skiljið, ég hef pottþétt skrifað um þessa bók ... man samt ekki hvað hún heitir.        


Góð bæjarferð, frændi kvaddur og unglingar með viti

JyskBæjarferð farin í morgun og þótt mér finnist ég ekkert hafa hreyft mig er skrefafjöldinn í dag kominn í fjórfalt meira magn en meðaltalið sýnir. Ég skammast mín of mikið fyrir hreyfingarleysið, svo tölur, þótt þær skipti öllu máli í öllu, verða ekki birtar að svo stöddu. Fór með systur minni í Jysk til að kaupa rúm, sængurföt og rúmteppi fyrir snáðann, drengsa, pottorminn, piltunginn, guttann(þessi nöfn eru komin í pottinn, takk, elskurnar). Keypti ljómandi fínt rúm sem þarf ekkert að gera við nema skrúfa fætur undir, á frábæru verði þar að auki. Ekki séns að ég geti sett nokkuð saman, hef reynt með slæmum árangri, lífið of stutt fyrir slíkt helvíti, og hirðsamsetjarinn minn er staddur úti í Litháen núna! Búin að redda góðum karli til að sækja fyrir mig rúmið, koma með það og skrúfa fæturna undir það. 

 

Elsku Geiri frændiAðalerindi bæjarferðarinnar var nú samt að fylgja elsku Geira (Þorgeiri) frænda sem lést óvænt fyrir nokkru og var jarðsunginn í dag. Við þekktumst ekki mikið en alla ævi hefur mér líkað einstaklega vel við hann og allt hans fólk. Hjalti pabbi hans var föðurbróðir minn. Geiri kom nánast árlega í afmælið mitt upp á Skaga, rétti mér pakka, fékk sér eina sneið af brauðtertu, eða svo með kaffinu og svo var hann farinn. Eitthvað sem mér fannst afskaplega kunnuglegt og ekkert athugavert við. Pabbi tolldi aldrei í neinum veislum nema í allra mesta lagi hálftíma, oftast svona korter. Svo frétti ég í dag að Hjalti, pabbi Geira, hefði verið svona líka. Guðríður amma kannski alið þá bræður upp við að gestir ættu ekki að vera þaulsætnir - enda var svo sem nóg að gera þarna úti í Flatey (á Skjálfanda) og lítill tími til að stjana við þaulseta ...

 

Geiri vissi auðvitað hversu mikil kattakerling ég er og skellti annað slagið kattabröndurum á vegginn minn á Facebook. Þeir voru vel valdir og skemmtilegir. Mér brá illa þegar kom fram í ræðu prestsins - og minningarorðum systur hans á fb í dag, að hann hafi orðið fyrir heiftarlegu einelti, ekki bara í grunnskóla, heldur líka af hendi einhvers eða einhverra í Vélskólanum. Í þá daga var þetta kallað stríðni en nú þætti það bara ofbeldi. Hann var stór og mikill um sig frá fæðingu, fékk seinna gleraugu ... og það þurfti ekki meira til að leyfa sér að ráðast á þetta stórgáfaða ljúfmenni. 

 

Það var ekki spurning um að mæta í útförina ... reyndar þá fyrstu sem ég treysti mér í eftir dauða sonar míns, fyrir utan jarðarför mömmu 2022. Held að það hljóti að vera erfitt að festast of lengi í einhverju sem kemur í veg fyrir að maður geti gert eitthvað, en ég var virkilega ánægð með að hafa komist yfir þennan hjalla og kvatt góðan frænda sem mér þótti vænt um, í leiðinni hitta stóran hóp af yndislega frændfólkinu sem ég er svo heppin að eiga.

 

„Frú Guðríður, klukkan er að verða fimm, ætlaðir þú ekki að ná strætó heim klukkan hálfsex?“ sagði rödd skynseminnar (systir). Við brunuðum af stað og ekki að spyrja að reykvísku umferðinni, hún tafði okkur það mikið (Hótel Loftleiðir-Mjódd) að ég lagði til að ég tæki bara næsta vagn á eftir, hálfsexvagninn væri líka Akureyrarferðin og oft alveg fullur strætó. Við hefðum sennilega náð, ég hefði kannski haft tvær mínútur frá bíl að vagni, sem nægir, en mig langaði að taka smávegis með af Jysk-dótinu úr skottinu á Hildubíl. Þvo sængurfötin og svona sem er fínt að vera búin að gera. Þarf að vera ansi hreint dugleg á morgun - og hinn. Fæ aðstoð á fimmtudaginn, sjúkk. 

 

 

Útlitið í Mjódd í dagÁ leiðinni í Mjódd til að ná hálfsjöferðinni fór ég að hugsa um næsta eldgos, eða kvikuhlaupið sem verður kannski að eldgosi í kvöld eða á morgun (sem Jón Frímann efast þó um að komi svo fljótt) það hefði nú samt verið dæmigert ef það hefði hafist í dag og ég ekki á vaktinni heima með aðgang að myndavélum í beinni. Þetta er áhugamál hjá mér og hefur verið árum saman.

Er enn hvekkt eftir að hafa verið stödd í bænum þegar eitt einsdagsgosið hófst. En úkraínski hirðljósmyndarinn minn hér í neðra, tók þessa fínu mynd út um gluggann hjá sér. Get ekki ímyndað mér að hún tími nokkurn tíma að flytja héðan. Af hverju gerðist ég ekki jarðfræðingur?

 

Þar sem við stóðum nokkur og biðum eftir leið 57 sagði unglingsstúlka við mig, alveg upp úr þurru: „Mikið ertu með flott um hálsinn.“ Hún átti við túrkísbláa trefilinn minn og bætti svo við: „Þau gera augun í þér svo fallega blá.“

(Sjá mynd af  mér eins og leit sennilega út á stoppistöðinni kl. hálfsjö í kvöld. Fölsun Lagfæring gerð með aðstoð Snapchat)

 

Sko, ef ég hef einhvern tímann efast um unga fólkið á Akranesi ... sem ég hef auðvitað alls ekki gert, aldrei nokkurn tímann, það er upp til hópa vel uppalið, smekklegt, hefur auga fyrir fegurð, er gáfað og dásamlegt. Auðvitað hefði verið afar gaman ef sætur karl hefði sagt þetta - það er orðið allt of langt síðan ég hef hitt menn með viti.     


Óvæntur dögurður, nýr stráksi og afmælisklúður

Flottur brönsSvolítið spennandi að taka þátt í fjáröflun, eða festa kaup á einhverju hratt án umhugsunar til styrktar körfuboltastrák, og ekkert pæla í því hvað kemur. Þegar dyrabjallan hringdi undir hádegi í gær, ýtti ég á takkann og mæðginin Hjördís og Aron þutu upp stigana hjá mér (án þess að blása úr nös, hrósuðu fyrir þessa ókeypis líkamsrækt) með vænan kassa með í för og afhentu mér. Þetta var nýbakað súrdeigsbrauð, alls kyns vínarbrauð (einhvers konar crossant-tegundir, ekkert hnetudrasl, jess) og tvær tegundir af salati. Ákaflega flottur dögurður/bröns fyrir átta manns. Í huganum hafði ég séð eitthvað fyrir mér sem ég komið með færandi hendi til Hildu í næstu bæjarferð, hún er með svo stórt heimili. Bakarísvörur eru bara góðar nýjar, finnst mér. Nú þurfti að hugsa hratt. Ég setti upp mitt blíðasta bros og bað þau um að aðstoða mig með kassann inn í eldhús. Á meðan þau hjálpuðu mér, læsti ég með alls kyns lásum og slagbröndum, nánast öllu sem ég fann og hefur einmitt orsakað að löggur, sendlar og vottar koma alltaf tveir og tvö eða tvær eða tvennt saman. 

„Þið sleppið héðan EF þið aðstoðið mig við átið,“ sagði ég svo ákveðin að þau settust. Mig grunar reyndar að þau hafi verið orðin svöng eftir að hafa hlaupið með svona brönskassa um allt Akranes. Klukkutíma og nokkrum mörgum kaloríum síðar fengu þau að fara. Ekki nema hálft brauð, niðurskorið í tveimur pokum, fór í frysti, enn svolítið eftir af salati. Brikk-bakarí? Ef rétt munað, þið eruð æði. Fínasti félagsskapur, akkúrat rétt um hálftólf á sunnudegi. Svona vildi ég byrja alla sunnudaga. 

 

Fíni sjórinnÍ dag komst á hreint að nýr stráksi (15) flytur í himnaríki, sennilega í næstu viku og tímabundið í einhverja mánuði. Þátt fyrir háan aldur minn (miðað við tvítuga manneskju) er ég þar með aftur komin í tvær til þrjár vinnur og finnst það bara fínt. Ég bjóst nú aldeilis við, snemma í apríl, að ég myndi fríka út hérna ein með kisunum, en þessar vikur hafa nánast bara farið í, fyrir utan vinnu við tölvuna, fjandans tiltektir eða annað hræðilega nauðsynlegt. Hvað með fallhlífastökkið, súludansinn, ananas-leiki í Hagkaup, valhoppa Fimmvörðuhálsinn ... og það allt.

Það er samt ekki hægt að kalla hann stráksa, burtfluttur stráksi minn á það nafn, það þarf eitthvað á borð við drenginn, piltinn, snáðann ... þigg allar tillögur.

 

Mynd af Mosa, (ekki ný).

 

Konan sem mætti hingað í dag til að ganga frá málum var næstum kæfð í gæsku af köttunum. Krummi lá á öxlunum á henni, hélt nánast utan um hálsinn á henni, Keli lagðist þétt við hlið hennar í sófanum og Mosi nuddaði sér upp við hana. Sennilega bara svona góð manneskja, mér sýndist það nú líka þótt ég léti ekki svona í henni. Keli er reyndar algjör snillingur þegar einhver er í ástarsorg, konan sór það af sér, hann finnur það og sækir í viðkomandi til að mala hjá honum, svo ef vini okkar, einhverfum, leið illa, var Keli kominn til hans og það gladdi, því Keli var annars hræddur við hann, eins og svo marga. Kettirnir  mínir eru yfirleitt góðir við alla en ég hef aldrei séð þá sýna álíka „ástreitni“ og þetta. 

 

Ég kláraði nýlega bókina Ég ferðast ein, e. Samuel Björk, mjög fín bók. Snjalla lögreglukonan Mia missti tvíburasystur sína fyrir tíu árum og syrgir hana enn sárt, þótt hún hafi skotið "morðingja" hennar, gaurinn sem kom henni í dópið. Hún gælir við að sameinast systur sinni, þegar hún hefur fyllt sig af víni og lyfjum, og sér fyrir sér nöfn þeirra systra, fer yfir nöfnin og svo koma fæðingardagarnir ... nema í Ég ferðast ein, eiga þær afmæli 11. nóvember, en í næstu bók á eftir Uglan drepur bara á nóttunni, sem ég er að ljúka við núna, eiga þær allt í einu afmæli 11. september. Í þriðju bókinni panta ég að þær eigi afmæli 12. ágúst! Held að ég eigi þessar bækur einhvers staðar, verð að kíkja, og ... þetta hlýtur að hafa verið höfundurinn sem klikkar svona, ekki þýðandinn, þetta kemur fyrir oftar en einu sinni í hvorri bók. Kannski tekur enginn eftir þessu nema ég. Kannski tók ég eftir þessu af því að ég las (hlustaði) þá seinni strax á eftir þeirri fyrri. 

 

 

Fólk sem lifir lífinu í gegnum tölur (ég) tekur eftir svona. Heyrir kannski orðið Hvammstangi og fær þá upp í kollinn töluna 530. Það má ekki koma jarðskjálfti nema ég verði að vita hve stór hann var, nægir ekki að vita að fólk hafi orðið vart við hann alla leið upp í Borgarnes. Á meðan covid var, þurfti ég að vita tölurnar, fannst bara ekki nóg að heyra að smitum hefði fækkað eða þeim fjölgað. Afmælisdaga man ég marga, gömul símanúmer, og ef líf mitt lægi við gæti ég sennilega rifjað upp nafnnúmer (8 tölustafir) Hildu systur og mömmu (þær skrifuðu upp á lánin fyrir mig í gamla daga) og alltaf varð útibússtjórinn í Búnaðarbankanum á Hlemmi jafnhrifinn þegar ég þuldi þetta upp, á eftir mínu eigin nafnnúmeri. Hvílíkur hvalreki hefði ég verið fyrir 118.

 

Það kæmi mér ekkert á óvart þótt einhver hugglegur stærðfræðingur hringdi í mig mjög fljótlega til að biðja  mín. Ég varð sjálf alltaf máttlaus í hnjánum þegar ég hitti flotta menn sem mundu t.d. póstnúmer og giftist þeim nokkrum. Þeim mun meira svekkelsi þegar kom í ljós að þetta var bara tímabundinn utanbókarlærdómur til að næla í mig. Eftir á að hyggja dáist ég samt að þeim fyrir að leggja það á sig. 


Snorrabull, strætórugl og bestu ráð í heimi

ViftaViftur himnaríkis eru ekki enn komnar í notkun en það líður að því. Svo á ég stórkostlegt leynivopn, afmælisgjöf frá Hildu systur, "hálsmen" sem virðist vera töff heyrnartól en er í raun vifta sem blæs í andlitið á manni. Það er ástæða fyrir því að fólk í gamla daga talaði um hitann í neðra, heitt = helvíti. Einmitt.

 

Snorri og Patrik spjölluðu saman á hlaðvarpi og vonuðust sennilega til að gera allt vitlaust á samfélagsmiðlum með því að segja að staður konunnar væri bak við eldavélina, eitthvað slíkt, konan gæti í mesta lagi opnað kaffihús. Held að kaffihúsaeigendur séu brjálaðri út í þessa gaura því það er algjör þrældómur að reka kaffihús. Þetta var ekki árið 1924 að segja hæ, en átti sennilega að vekja athygli, gera allt brjálað en held að flestir hafi nú verið slakir.

 

Snorri og PatrikÞetta hreyfði nákvæmlega ekkert við mér, Snorri getur ekkert gert mér verra en hann gerði þegar hann var fréttamaður á Stöð 2 og tók athyglisverða nálgun á frétt um fækkun strætófarþega á landsbyggðinni. Ekki samt nálægt sannleikanum; um fækkun ferða og hækkun fargjalda, covid sem átti mestu sökina, eða annað, heldur fannst honum sniðugt að telja stoppistöðvarnar á milli Mjóddar og Akureyrar og jesúsaði sig í bak og fyrir. Vissi greinilega ekki eðli almenningssamgangna, að verið væri að ferja gangandi vegfarendur hraðar yfir, og þá má alls ekki hafa langt á milli stoppistöðva. Ef Vegagerðin (sem rekur landsbyggðarvagnana) hefði farið í að fækka stoppistöðvm í kjölfarið hefði farþegum sennilega fækkað enn þá meira.  

 

 

Það breytti lífi mínu til hins verra þegar kerfið tók breytingum eitt árið (fyrir árið 2006) og ég þurfti að hlaupa út í háskóla til að ná vagni sem hentaði mér, eða labba út á Hofsvallagötu og taka vagn þaðan niður að ráðhúsi og ná þá öðrum út í svartholið* (*allt fyrir austan Háaleitisbraut), kannski nr. 115 en man það samt ekki. Þarna hafði komið kerfi sem átti að koma heppnum með búsetu-borgarbúum hraðar og oftar á milli og það bitnaði á mér, einnig nágrönnum mínum, vistfólki á Grund, stoppistöðin fyrir framan Grund var nú bara tekin, og fleirum. Ég hef aldrei heyrt um skipulagningu á strætósamgöngum þar sem strætófarþegar eða bílstjórar fá að vera með í ráðum. 

 

Fréttir af Facebook:

BakklóraSá ótrúlega langan þráð sem ég nennti ekki að klára að lesa, enda 1.500 komment ... Fólk var beðið um að gefa ráð, alveg sama hvers konar, bara góð ráð, takk og það lét ekki á sér standa. Svo mögulega eru þetta bestu ráð í heimi:

- Treystu innsæinu.

- Vertu góð/ur. Þú veist aldrei hvernig öðrum líður í dag, góðmennska þín gæti bjargað mannslífi. 

- Þú getur klórað þér á bakinu með því að nudda þér utan í hurð.

- Jóga núna, eða sjúkraþjálfun seinna.

- Karlmenn, setuna og lokið niður!

- 50 plús: Aldrei treysta prumpi.

- Ekki hlusta á ráð ókunnugra á Internetinu. 

- Vertu alltaf í hreinum og nýlegum nærfötum. Alltaf.

- Ekki borða gulan snjó.

- Ekki ofmeta mikilvægi þitt í lífi annarra. 

- Vertu alltaf með tissjú á þér. 

- Kauptu aldrei hús með flötu þaki. 

- Þegar þú ert í hættu eða vafa: hlauptu öskrandi í hringi. 

- Til að komast yfir einhvern, þarftu að komast undir annan.

- Farðu á klósettið fyrir svefninn, líka þegar þú heldur að þér sé ekki mál.

- Kauptu hús eða íbúð fyrir austan vinnustað þinn. Þá blindastu hvorki af sólinni á leið til vinnu né á heimleið. 

- Ef þú lánar einhverjum fimmþúsundkall og sérð hann aldrei framar var þeim peningi vel varið. 

- Aðeins tvennt sem píparar þurfa að vita. Skítur rennur niður í móti og ekki naga neglurnar.

- Ef önnur nösin er stífluð, t.d. sú hægra megin, þrýstu þá vinstri upphaldlegg þínum upp að vegg eða leggstu á hann í eina eða tvær mínútur, þá fer stíflan. Sama með vinstri nös og hægri handlegg. Klikkar ekki.

- Farðu úr sokkunum áður en þú leggst í baðkarið. 

- Aldrei gifta þig, sama hver á í hlut, viðkomandi mun mölva í þér hjartað, jafnvel eftir 35 ár.

- Hámark fimm takó frá Taco Bell, treystu mér.

- Aldrei treysta fólki sem segir treystu mér.

- Þú þurrkar þrisvar, enn brúnt, farðu þá í bað.

- Þegar þú ferð út að borða með vinum þínum, pantaðu alltaf aukaskammt af frönskum. 

- Aldrei treysta manni í hjólastól ef hann er í skítugum skóm.

- Það eru mörg hræðilega slæm ráð hérna. 

- Aldrei taka hægðalosandi lyf og svefntöflur á sama tíma. 

- Ekki borða eftir klukkan fjögur á daginn. Ekkert að þakka.

 

Ráð úr himnaríki:

- Lífið er of stutt fyrir vont kaffi. 

- Geymdu púðursykurinn í ísskápnum.


Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.5.): 14
  • Sl. sólarhring: 37
  • Sl. viku: 1630
  • Frá upphafi: 1458947

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 1380
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Fallegustu menn í heimi
  • hvernig íslend sjá Evrópu
  • Siegfriedungjoy

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband