Færsluflokkur: Dægurmál

Þokan fjölgar Skagamönnum!

Þykk þoka á SkaganumÞykk þoka umlukti himnaríki í morgun og ég rétt komst út á stoppistöð, rataði eiginlega eftir minni. Aðeins einn farþegi var í strætó, ásamt bílstjóranum, sem ég held að heiti Skúli. Líklega hafa margir Skagamenn ráfað um í morgun og ekki fundið stoppistöðvarnar ... þokan hefur áður hjálpað okkur Skagamönnum við að fjölga okkur, ekki bara sem rökkvuð og kynlífshvetjandi, heldur er fólk fast á Skaganum og verður svo hrifið og ánægt eftir tvo, þrjá daga að það fer aldrei heim sín aftur. 

SkokkkkkKarlinn sem fyrir var í strætó þegar ég kom upp í hafði fyllt fremsta sætið af farangri og sat sjálfur á öðrum bekk, sætinu fyrir aftan. Ég fussaði og sveiaði (í gríni auðvitað) yfir því að sætið mitt væri fullt af töskum og drasli ... og settist fyrir aftan bílstjórann. Það fer betur um tískusýningardömuleggi mína löngu í fremstu sætunum. „Þú hefur greinilega verið á Írskum dögum?“ sagði ég, enda reyni ég við allt karlkyns sem hreyfist. „Já,“ sagði maðurinn, „ég skrapp svo aðeins á harmonikkuhátíð á Suðurnesjum.“ Einhverra hluta vegna fór hann svo að nöldra yfir EM í Sjónvarpinu, að fréttirnar hefðu verið teknar frá honum og svona. Ég og strákur sem bættist við hjá íþróttahúsinu bentum honum á að það væru fínar fréttir t.d. á Stöð 2, mbl.is, visir.is, dv.is og eyjan.is. Ætla að reyna að muna að verða ekki svona ... eða tryllist ef ég fæ ekki kvöldmatinn minn kl. 18.30 sharp, fréttirnar mínar kl. 1900 sharp og slíkt. Var reyndar búin að slökkva á sjarmanum þegar hann nefni harmonikkuhátíðina en þarna var mér nóg boðið. Sökkti mér niður í spennubók eftir Dean Koontz, dormaði í göngunumþar sem vantar lesljós í strætó og hélt svo áfram að lesa eftir göng. Dásamlegt alveg. Hitti Elínu í Mosó í leið 15 og hún var hress og skemmtileg eins og venjulega. Hún er farin að skokka og er víst enn á stiginu að „hlussast“, sagði hún. Hún er kornung alveg, reyndar orðin amma, en ætlar greinilega að verða hress amma og það lengi, lengi. Myndin hér að ofan er EKKI af Elínu en var samt ábyggilega tekin í Mosfellsbænum um helgina ... sýnist þetta jafnvel geta verið Sigurður Hreiðar.

ÍsfólkiðÍ leið 18 voru flestir gömlu, góðu farþegarnir, NEMA sá ógreiddi. Tek það fram að ef hann er búinn að þvo sér um hárið og láta klippa sig þá er ekki séns að ég þekki hann í útliti. Ljúf skátastelpa spjallaði við mig í Ártúni og kom líka upp í leið 18, hún er að lesa bók nr. 26 af Ísfólkinu. Ég sagði henni að sonur minn , 28 ára, hefði verið 2-3 ára þegar ég keypti í algjöru hallæri Ísfólksbók nr. 5, enda eina bókin sem til var í sjoppunni, og bara haft gaman af. „Já, þetta eru frábærar bækur,“ sagði stelpan sem er í unglingavinnunni og er að lesa Ísfólkið í annað skiptið.   

Haffi HaffAð vanda farðaði Haffi Haff mig við komu .... hmmm, nei, kannski ekki á hverjum morgni, en núna í morgun, það á nefnilega að skipta um myndir af okkur fögru blaðakonunum, þessar sem eru fremst í blaðinu og ég get ekki sagt að ég bíði spennt eftir útkomunni.

Ég myndast venjulega eins og vitfirrtur vélsagarmorðingi, þrátt fyrir flotta förðun og jafnvel íbúfentöflu.

Hafið það gott í dag, kæru bloggvinir, og passið ykkur á sólinni!


Mariah Carey grætir barn, Robbie Williams fitnar og fleira sjokkerandi ...

Robbie WilliamsNýlega komst ég yfir nokkur nýleg, erlend tímarit og er æf út í Moggann og fleiri fyrir að halda svona merkilegum fréttum um Hollywood-stjörnurnar frá okkur lesendum. Að sjálfsögðu deili ég þeim með bloggvinum mínum. Finnst það eiginlega vera samfélagsleg skylda mín.

Ekki vissi ég t.d. að Robbie Williams væri orðinn kærulaus um ímynd sína og hefði bætt á sig heilmörgum kílóum. Honum hættir víst til að fitna og þarf að hafa mikið fyrir því að halda sér í formi. Hann sást kyssa einhverja Sophiu á dögunumLiz Hurley og hvað með kærustuna Aydu Fielding, konuna sem hann hreifst svo af vegna þess að hún vissi ekki hver hann var?

Svo langar David Beckham ógurlega í enn eitt barn en þau hjónin hafa alltaf þráð stóra fjölskyldu.

Það náðist mynd af aumingja Liz Hurley á dögunum sem sýnir að hún er komin með skallablett á hnakkann.

Jeremy Clarkson, aðalgæinn í Top Gear, bílaþættinum skemmtilega á SkjáEinum, þjáist víst af miðaldurskrísu, hann gengur a.m.k. um í grænum, forljótum mokkasíuskóm.

Oprah og RachelRachael Ray og Oprah Winfrey eru orðnar svarnar óvinkonur en sú fyrrnefnda á frægðina þeirri síðarnefndu algjörlega að þakka. Oprah sagði víst við Rachel: „You make me sick.“ Rachel segir um þessa fyrrum vinkonu sína: Oprah er stjórnsöm tík!“

Meiri fitufréttir: Í Chicago er verslun sem heitir Oprah´s Closet og þar eru seld notuð föt af sjónvarpskonunni. Oprah hefur víst fitnað um 30 kíló síðustu þrjú árin en vakið hefur athygli að aðeins föt síðan hún var sem grennst eru til sölu þar.

Bobbi og WhitneyLeikarinn Nick Nolte, 68 ára, hefur átt við mikið áfengisvandamál að stríða og leitaði til Hare Krishna-sértrúarhópsins eftir hjálp og segist hafa verið edrú um tíma í kjölfarið. Kærasta hans, Clytie Lane, 39 ára, kynnti hann fyrir hópnum. Þau Clytie eiga saman 7 mánaða barn.

Dóttir Whitneyjar Houston, Bobbi Kristina, reyndi að fremja sjálfsmorð á dögunum og ekki í fyrsta sinn. Í þetta skiptið gerði hún tilraun til að stinga móður sína með hnífi fyrst. Hún vill ekki búa hjá mömmu sinni að sögn heimildamanna.

kirstieKirstie Alley er hætt í megrun og bætir hratt á sig. Hún sýndi sig í bikiní í fyrra einmitt í þætti Opruh Winfrey. Kirstie finnst mjög gott að borða snakk og ís fyrir framan sjónvarpið og segja heimildamenn að henni hafi tekist á þann hátt að þyngjast um næstum 40 kíló.

Hasselhoff og CorinaDavid Hasselhoff féll fyrir einum keppanda í America´s Got Talent, Corinu Brouder sem er 29 ára. Þau deita nú grimmt. Þau sáust á sama hóteli og saman á tónlistarhátíð þar sem David leit hræðilega illa út en var allur á hjólum í kringum Corinu. Systir Corinu var með í för og vakti þríeykið mikla athygli.

Mariah CareyMariah Carey grætti 8 ára stúlku (ég græt reyndar líka þegar ég heyri hana syngja). Hún var að kynna plötu sína á Hard Rock Café í Hollywood og mætti tveimur og hálfum tíma of seint. Hún harðneitaði að árita nokkuð nema plötuna sína og lét eins og algjör díva. Litla daman hafði beðið í röð í nokkra klukkutíma með plakat af söngkonunni og þegar kom að henni hrakti söngkonan hana á brott með dónaskap og svo lét hún sig hverfa ... meira að segja áður en þeir sem keyptu þó geisladisk gátu fengið áritun á þá. Sumir af aðdáendunum urðu svo reiðir að þeir köstuðu geisladiskunum á jörðina og trömpuðu á þeim.

Kalli og MartaMartha Stewart mun fljótlega giftast milljarðamæringnum Charles Simonyi, þau náðu víst saman aftur. Þegar hann bað hennar sagði hún „JÁ, JÁ, JÁ, JÁ!“ samkvæmt heimildum hins virta tímarits National Enquirer. Enda er hún orðin 66 ára ... Charles er bara 59 ára unglamb.

meganfoxSystir Marks Wahlberg leikara sat í fangelsi fyrir tryllt rifrildi við kærastann og komu vopn við sögu ... hún beið róleg eftir að litli bróðir borgaði hana út en ekki fylgdi sögunni hvort hann gerði það.

Megan Fox leikkona, ein kynþokkafyllsta kona heims, stal 500 króna gloss úr Wal-Mart og má ekki koma þangað framar, aldrei í lífinu!

Adam Sandler er víst ökklabrotinn.


Kröfur til karla á hverju aldursskeiði ...

Boldið rúllar í endursýningu í sjónvarpinu og ég sá loks fangann, konuna sem dæmd var til langrar fangelsisvistar fyrir að keyra full og valda dauða. Hún leit hroðalega illa út, hárið allt ruglað og svona en varirnar voru þó bólgnar og sexí. Frábært að hafa lýtalækna í fangelsum í Bandaríkjunum, vantar bara almennilega hárgreiðslustofu. Þarf flýta mér að slökkva á sjónvarpinu áður en Nick fer að syngja.

Ég ætla að njóta þess að vera í síðasta fríinu mínu áður en ég verð ábyrg og fullorðin núna í ágúst. Ætti kannski að reyna að ná mér í mann á meðan ég hef einhverjar kröfur.

Fann gamlan lista sem skýrir þetta betur. Hann segir til um þær væntingar og vonir sem við stelpurnar höfum til strákanna á mismunandi aldursskeiðum. Kröfurnar minnka eðlilega með árunum. En hér kemur þetta, fyrst kemur upprunalegi listinn og síðan endurskoðaðir listar á tíu ára fresti:

BrúðkaupUpprunalegur listi, 20 ára

Mjög myndarlegur.

Spennandi.

Alltaf klæddur samkvæmt nýjustu tísku.

Þekktur eða á þekkta foreldra.

Á flottan bíl.

Rómantískur.

Fer létt með að segja góða brandara.

Bráðgáfaður.

Er í arðbæru námi eða stefnir á það.

Býður stundum út að borða.

 

Endurskoðaður listi, 30 ára

Myndarlegur.

Heillandi.

Vel stæður

Umhyggjusamur hlustandi.

Fyndinn.

Í góðu líkamlegu formi.

Smekklega klæddur.

Kann gott að meta.

Hugulsamur og kemur á óvart.

Hugmyndaríkur og rómantískur elskhugi.

 

Endurskoðaður listi, 40 ára

Myndarlegur, helst með hár á höfðinu.

Opnar bíldyr.

Á nóg af peningum til að bjóða upp á góðan kvöldverð.

Hlustar meira en hann talar.

Hlær að bröndurunum þínum

Getur auðveldlega haldið á innkaupapokum.

Á að minnsta kosti eitt bindi.

Kann að meta góðan, heimatilbúinn mat.

Man afmælisdaga og brúðkaupsafmæli.

Er rómantískur minnst einu sinni í viku.

 

Endurskoðaður listi, 50 ára

Ekki of ljótur en má vera sköllóttur.

Ekur ekki af stað fyrr en þú ert komin upp í bílinn.

Er í föstu starfi og splæsir stundum í pylsu.

Kinkar kolli þegar þú talar.

Getur yfirleitt sagt brandara án þess að gleyma aðalatriði hans.

Er í nógu góðu líkamlegu ásigkomulagi til að geta fært til húsgögn.

Gengur í skyrtum sem hylja ístruna.

Veit að það á ekki að kaupa kampavínsflösku með skrúfuðum tappa.

Man eftir að setja klósettsetuna niður.

Rakar sig yfirleitt um helgar.

 

Endurskoðaður listi, 60 ára

Snyrtir nasahárin og hárin í eyrunum á sér.

Ropar hvorki né klórar sér á almannafæri.

Fær ekki of oft lánaða peninga hjá þér.

Sofnar ekki á meðan þú rausar yfir honum.

Segir ekki sama brandarann of oft.

Er í nógu góðu líkamlegu ásigkomulegi til að komast upp úr sófanum um helgar.

Er yfirleitt í íþróttasokkum og hreinum nærfötum.

Kann að meta góðan örbylgjumat yfir sjónvarpinu.

Man yfirleitt alltaf nafnið þitt.

Rakar sig stundum um helgar.

 

Endurskoðaður listi, 70 ára

Hræðir ekki lítil börn.

Man hvar baðherbergið er.

Þarfnast ekki mikilla peninga til framfærslu.

Hrýtur lágt í vöku en hátt þegar hann sefur.

Man hvers vegna hann er að hlæja.

Er í nógu góðu líkamlegu ásigkomulagi til að geta staðið upp hjálparlaust.

Er venjulega í fötum.

BrúðkaupVill helst mat sem ekki þarf að tyggja.

Man hvar hann skildi tennurnar eftir.

Man að það er helgi.

 

Endurskoðaður listi, 80 ára

Andar.


Óþarfaviðkvæmni kannski ... og loksins smá bold

Fékk far heim með unga blaðamanninum, þessum sem er stundum samferða mér í strætó á morgnana og vinnur hjá dv.is. Farið munaði heilmiklu og ég var komin heim fyrir kl. 4. Náði meira að segja að horfa á boldið um leið og ég skrifaði síðustu nýju lífsreynslusöguna í bókina. Nýju sögurnar verða 15 talsins og þær gömlu 35. Ákvað að sleppa einni gamalli og setja nýja sem ég fékk í gær í staðinn. Þetta verður dúndurbók, þótt ég segi sjálf frá ... hehehhe

womens-murder-club„Hvað er eiginlega að þeim á Stöð 2?“ spurði ég sárhneyksluð þegar ég var að skoða dagskrársíðuna þeirra fram í tímann. Þar var umsögn um nýjan þátt sem fer að hefjast, Woman´s Murder Club. Fjórar vinkonur eru ekki í neinum venjulegum saumaklúbbi ... og áhugamál þeirra slúður og sakamál. Eitthvað fannst mér ég kannast við aðrar lýsingarnar á konunum, ein rannsóknarlögga, önnur saksóknari,  þriðja réttarmeinafræðingur og sú fjórða rannsóknarblaðakona. Ég hringdi í Forlagið og spurði hvort það verið gæti að þessir þættir tengdust eitthvað bókum James Patterson um vinkonurnar fjórar sem hefðu tekið saman höndum til að leysa morðmál. Það reyndist rétt. Annað hvort hafa persónurnar breyst svona frá bókunum yfir í sjónvarpið en ég held samt ekki.

Sl��ra� um mor�Íslenskir saumaklúbbar eru heilagt fyrirbæri og algjör misskilningur að halda að þótt nokkrar konur hittist yfir kaffibolla sé það sjálfkrafa saumaklúbbur. Þar sem standa tvö tré er skógur ... þar sem sitja tvær konur er saumaklúbbur ... AllyMér finnst þetta að vissu leyti gera lítið úr saumaklúbbum ... og konum. Slúður hefur alltaf þótt ansi neikvætt, hvort sem karlar eða konur eru staðin að því, og hvers vegna eru þessar konur, sem leysa hin flóknustu morðmál, sagðar hafa slúður sem áhugamál? Ekki er það þannig í bókunum. Ég veit að Stöð 2 reynir að selja konum áskrift grimmt núna, það eru frábærir „kvennaþættir“ fram undan og ég ætla sannarlega að horfa á einhverja þeirra milli EM-leikjanna (Ally McBeal og fleiri). Þetta með að vísa til saumaklúbba og slúðurs laðar konur ábyggilega ekkert frekar að þessum þáttum, gæti frekar virkað öfugt á margar okkar. Ef ég vissi ekki að þessir þættir væru eftir bókum James Patterson myndi ég líklega sleppa þeim.

James PattersonRitstjórinn minn glotti bara að mér og sagði að ég væri allt of viðkvæm fyrir þessu, það getur svo sem alveg verið rétt. Ég tek það fram að ég verð líka grautfúl ef mér finnst vegið að karlmönnum á einhvern hátt eða reynt að gera lítið úr þeim. Líklega er þetta bara hugsunarleysi hjá Stöð 2 eða röng markaðssetning. Ætla samt að horfa á þessa þætti, enda eru bækurnar æsispennandi! Karlar í þessu annars ögn minnkandi staðalímyndaþjóðfélagi munu þó eflaust margir halda sig frá skjánum þar sem þetta eru greinilega algjörir stelpuþættir ... svona slúður-saumaklúbbadæmi eitthvað ... þeir sem vita ekkert um saumaklúbba ímynda sér held ég margir að þar fari bara fram kjaftagangur og slúður. Vissulega spjöllum við um ýmsa hluti í Sunnudagsklúbbnum mínum í þau fáu skipti sem við hittumst en ég myndi aldrei skilgreina það sem slúður. 

Takk fyrir að leyfa mér að fá útrás. Smile

taylor&hectorÆtlar þú að segja Thorne þetta?“ spyr Phoebe móður sína í þrítugasta skiptið.
„Hann á skilið að fá að vita sannleikann,“ svarar Taylor í þrítugasta skiptið. Nú ætlar hún að játa fyrir Thorne að það hafi verið hún sem ók á Dörlu.
Baker lögga, sem fann vínlykt af Taylor á sjúkrahúsinu eftir slysið, hefur hana sterklega grunaða um verknaðinn og hefur gengið hart að henni og líka Hectori brunaliðsmanni að viðurkenna þetta. Hann hefur meira að segja sáð fræjum efa í huga Stefaníu, mömmu Thorne. Baker finnst grunsamlegt að Hector skuli hafa farið með Taylor og Phoebe í heimsókn til konu í fangelsi, konu sem fékk langan dóm fyrir að keyra drukkin á manneskju og drepa hana. Ég missti greinilega af þeim þætti en hugsa að Hector hafi ætlað sér með þessu að koma í veg fyrir að Taylor játaði á sig verknaðinn.
Bíll fannst í Mexíkó sem passar við upplogna lýsingu Phoebe. Stolinn bíll sem fyrrum fangi ók, gæti mögulega verið sá seki ... en Baker heldur ekki.

Taylor biður Ridge, fyrrum mann sinn, að koma í heimsókn og lætur hann lofa því að hugsa vel um börnin. Hún segir honum ekkert meira og hann virðist áhyggjufullur.
Hector kemur til Taylor þegar Ridge er farinn og þau þrátta um málið enn einu sinni. Hector segir að Thorne muni aldrei fyrirgefa henni og að hún muni sitja í fangelsi í tíu ár. Hann muni sjálfur lenda illa í því, enda samsekur þar sem hann vissi allt um málið. Taylor segir að Thorne nái ekki að halda áfram að lifa lífinu nema vita hver drap konuna hans.

Hector býðst til að skutla Taylor heim til Thornes til að segja sannleikann, það minnsta sem hann getur gert ... hmmm. Þess í stað rænir hann henni og segir að hún megi aldrei segja neinum frá þessu og hann sleppi henni ekki fyrr en hún lofi ... Hún situr hrædd en hlýðin í bílnum. Þau slást síðan heima hjá honum og hann bindur hana við handriðið. Hún gargar og veinar en hann langar ekki í fangelsi og að missa vinnuna. Var búin að sjá hvað gerist á youtube-myndbandinu sem fylgdi síðustu færslu. Eldsvoði, Stefanía, Hector með bundið fyrir augun á sjúkrahúsi, mikið drama.

NickP.s. Best að vera hreinskilin. Ástæðan fyrir því hversu langt er síðan ég hef boldað er sú að Nick tók upp gítarinn í einum þættinum nýlega og söng ástarljóð til Brooke. Það tók 15 slökkviliðsmenn tvo tíma að laga hjartslátt minn og ég þurfti að drekka fimm kókflöskur til að hætta að kasta upp. Eða hefði þurft ef ég væri ekki svona hörð af mér. Ég hef ekki enn getað hlegið eftir áfallið og þetta atriði úr boldinu mun fylgja mér alla ævi, líka orsaka martraðir, skertan svefn eða hroðalegar andvökunætur. 

Nick með gítarinn sinn. 


Rafmagnsbíll, matarboð, 1986 og sumarfrí ...

RafmagnsbíllVinnudeginum lauk einstaklega skemmtilega í gær. Ritstjórinn minn keyrði mig á rafmagnsbíl niður í bæ og var gaman að sjá viðbrögð fólks við bílnum sem er lítill og krúttlegur. Hundrað kílómetra akstur á honum kostar 78 krónur! Það færðist blíðusvipur yfir aðra vegfarendur við að sjá þennan líka sæta bíl og fögru konurnar inni í honum. Við vorum þó ekki sammála um þennan sem flautaði á okkur á Miklubrautinni, ég held að þetta hafi verið aðdáunarflaut en Elín var viss um að einhver hafi verið að reka á eftir okkur. Hann kemst nú alveg upp í 70 þessi litli sæti dúllubíll en er svo sem ekki sá kraftmesti í brekkum, sé þungu steypubílana fyrir mér taka fram úr í Hvalfjarðargöngunum ... en 78 krónur fyrir 100 kílómetra ... þetta er framtíðin! Til eru bílar sem ganga bæði fyrir rafmagni og bensíni, aðrir þyngri og stærri sem komast á 90 km/klst. Elín skutlaði mér á Grettisgötuna til Nönnu Rögnvaldar í mat en það er orðið ansi langt síðan við höfum hist. Maturinn var fáránlega góður, þrírétta gómsæti með önd í aðalrétt. Hekla var stödd hjá ömmu sinni, skemmtileg og klár stelpa sem ég hef þekkt frá fæðingu. Ég hef eiginlega þekkt mömmu Heklu frá fæðingu. Hekla er að vinna að skemmtilegu skólaverkefni um árið 1986, tísku og fleira. Gaman var að rifja það ár upp yfir matnum, enda eitt skemmtilegasta ár lífs míns.
Það hittist svo vel á að brottfarartími okkar erfðaprins hentaði vel Lilju strætóvinkonu sem vinnur á Laugaveginum og alltaf fram á kvöld á föstudögum. Við gátum því gefið 20.45 strætó frá Mosó langt nef þegar við brunuðum þrjú heim á leið.

Karlar eða hvaðNú er bara vika í sumarfrí hjá mér og EM í fótbolta ... já, og krúttlega „stelpuþætti“ á milli leikjanna. Tek það fram að ég hef ekkert á móti sætum, væmnum og dúllulegum þáttum, sem eru líklega vinsælli af kvenþjóðinni, en mér finnst leiðinlegt hvernig þetta er sett fram hjá Stöð 2 og SkjáEinum. Veit til þess að fólk hefur sagt upp áskrift að Stöð 2 vegna þessa. Við stelpur höfum áhuga á miklu fleiri hlutum en tilfinningaríku efni, sem reynt er svo mikið að halda að okkur, við fílum líka alveg stjórnmál, bókmenntir, íþróttir og spennuþætti. Kannski er þetta ekkert stórmál en þetta litla skiptir samt líka máli.

Það skrýtnasta finnst mér þó að ef maður gagnrýnir þetta þá koma miður kurteislegar ásakanir um beiskju, offitu og skort á innihaldsríku lífi, jafnvel karlhatur. Þeir sem þekkja mig vita að ég elska karlmenn, er eiginlega alveg vitlaus í karlmenn þótt ég sé ekki nógu dugleg að blaka augnhárunum framan í þá í veiðiskyni! Ég hlakka reyndar mikið til að sjá Ally McBeal-þættina aftur, þótt þeir séu flokkaðir sem kvenvænlegir, en ætla samt ekki að láta þá stela mér frá boltanum ef það hittist þannig á (sem ég vona ekki). EM er á fjögurra ára fresti og er algjör veisla. Annars ætla ég að njóta útiveru á svölunum í sumarfríinu (já, líka í rigningu), gera „vor“hreingerningu í himnaríki og lesa einhver ósköp.


Hvílir bölvun á Karli Bretaprinsi?

Einu sinni skrifaði ég grein um bölvun konunganna, að ákveðnum nöfnum kóngafólks fylgdi bölvun en blessun öðrum.

Kalli prinsKarl IIKarl Bretaprins hefur í gegnum tíðina fengið frekar slæma útreið í fjölmiðlum, nema kannski allra síðustu árin, og var líf hans sannarlega enginn dans á rósum í kringum allt Díönufárið. Ef allt fer eins og það á að fara mun hann ríkja í Bretlandi sem Karl III. Nafnar hans tveir sem ríktu á undan honum voru ekki farsælir konungar. Karl I var hálshöggvinn árið 1649 eftir ósætti við þingið. England var síðan lýðveldi í um 11 ár undir stjórn Cromwells. Að þeim tíma loknum komst Karl II til valda og ekki gekk honum betur. Hann stjórnaði án samþykkis þingsins síðustu fjögur ár sín á valdastóli, vegna ósættis sem gerði hann ekki að vinsælasta manni samtímans. Dæmi nú hver fyrir sig hver hafi átt verri daga, Kalli prins eða kóngarnir tveir.

Edward VIII og frú SimpsonKingEdwardVIIJátvarður. Játvarðar í bresku konungsfjölskyldunni hafa heldur ekki átt svo góða daga. Síðustu þrír Játvarðar voru ekki öfundsverðir af hlutskipti sínu í sögunni. Játvarður VIII átti í ástarævintýri sem skaðaði krúnuna mjög um miðja síðustu öld og endaði það með því að í fyrsta sinn í sögunni afsalaði breskur þjóðhöfðingi sér krúnunni. Játvarður afsalaði sér henni vegna ástarinnar á hinni fráskildu frú Simpson. Margur Bretinn á enn erfitt með að ímynda sér að maður afsali sér krúnu, hvað þá fyrir ást. Næstur á undan honum var maðurinn sem beið mestalla ævi sína eftir krúnunni (og hefði ekki látið sér detta í hug að láta hana fyrir ástina né nokkuð annað). Hann var fæddur 1841 og varð konungur 1901. Hann beið sem sagt í 60 ár eftir hásætinu og sat þar til 1910 eða í níu ár.
Játvarður VI, sem tók við völdum á erfiðum tímum, árið 1547, var veikburða. Hann var ekki nema tíu ára gamall þegar hann varð konungur. Ekki hjálpaði það til að faðir hans hafði slitið sambandi ensku kirkjunnar við páfann og leysti úr læðingi trúarbragðastríð. Ekki getur það verið gott fyrir heilsufar veikburða drengs, enda lést hann fimm árum eftir að hann var krýndur. Aðrir Játvarðar eru frægir fyrir að hafa átt í innanlandsátökum sem nánast klufu konungdæmið. Einn þeirra kom 100 ára stríðinu af stað ... ekki leiðinleg arfleifð það.

Georg VGeorg VI pabbi Elísabetar IIGeorg. Tveir vinsælustu konungar Englands 20. aldar voru Georg V og sonur hans Georg VI en hvorugur þessara manna áttu að verða konungar. Þeir tóku við eftir að eldri bræður þeirra gátu ekki tekið við krúnunni. Játvarður, eldri bróðir Georgs V dó (enn einn Játvarðurinn) og eins og fyrr segir afsalaði eldri bróðir Georgs VI sér völdum (Játvarður sem áður var getið). Þó má segja að þeir Georgar sem á undan voru og áttu réttmætan erfðarétt til krúnunnar hafi ekki verið svo lukkulegir stjórnendur þótt þeir kunni að hafa verið góðviljaðir menn. Meðal afreka þeirra voru að sá fyrsti þeirra talaði ekki stakt orð í ensku og sá næsti lét sig lítið stjórnmál varða en þessi tvö atriði urðu til þess að minnka völd og áhrif konunga gagnvart þingi. Sá þriðji er líkast til frægastur fyrir geðveiki sína en var líka illa liðinn fyrir að hafa tapað nýlendunum í Ameríku. Þó má segja að sá fjórði hafi í raun gert mestan skandal fram að þessu með því að giftast kaþólskri konu en hún var ekki aðeins kaþólsk heldur einnig fráskilin og slíkt var og er bannað. Hjónaband þeirra var lýst ógilt og hann giftist aftur.

Elizabeth IElísabet IIElísabet. Á meðan segja má að þetta fólk hafi í raun verið dæmt til mistaka vegna nafns síns má segja að Elísabet II, sem hefur verið gífurlega vinsæl sem drottning, feti í fótspor nöfnu sinnar. Sú náði að sameina ríkið undir eina trú og ljúka trúarbragðastyrjöldum með stofnun ensku biskupakirkjunnar.

Elísabet I var svo skyldurækin að hún giftist aldrei, heldur giftist í raun til opinbera starfa.

 

Vilhjálmur prinsVilhjálmur, sonur Karls og Díönu, þarf meðal annars að feta í fótspor mannsins sem náði að sameina konungdæmið, Vilhjálms sigursæla sem undirritaði réttindaskrána sem er grundvöllur breska þingræðisins. Hann jók sem sagt þingræðið á siðmenntaðan hátt, ólíkt Georgunum. Vonandi stendur Vilhjálmur undir því.

Hvort fólk trúir á bölvanir eða hvort framansagt er allt ein stór tilviljun skal ósagt látið. Ef bendillinn er látinn yfir myndirnar birtast nöfn viðkomandi.


Aðallega bókablogg ...

Úlli kokkur skutlaði mér í Mosó um hálffimmleytiðog þar beið Heimir spenntur eftir því að fá að keyra okkur á Skagann. Í vagninum voru án efa nokkrar hetjur morgunsins sem létu sig hafa það að fara í vinnuna í Reykjavík þrátt fyrir að hafa lent í árekstrinum. Maðurinn sem sat fyrir aftan mig sagðist hafa fengið glerbrotadrífu yfir sig . Hann greiddi sér til öryggis þegar hann kom í vinnuna til að ná restinni. Skrýtið að fréttastofa Stöðvar 2 telji þetta ekki fréttnæmt ... ég er að horfa á kvöldfréttirnar.

Áður en ég deyÉg byrjaði á nýrri bók í strætó, Áður en ég dey, heitir hún. Ég er bara komin á bls. 56 en samt táraðist ég tvisvar. Þetta er ekki góð strætóbók. Það gengi nú ekki ef Tommi, Heimir, Gummi eða Kiddi þyrftu sífellt að vera að stoppa strætó til að hugga mig. Bókin fjallar um 16 ára stelpu sem þjáist af ólæknandi sjúkdómi og á aðeins nokkra mánuði ólifaða. Stelpan er frekar kúl á þessu en ég þjáist svo með pabba hennar sem er á afneitunarstiginu. Það eiga án efa eftir að renna ansi mörg tár áður en kemur að bls. 332.

Ég kláraði Strákurinn í röndóttu náttfötunum í strætó í fyrradag, hún var líka mjög áhrifamikil en öðruvísi. Hún er ekki enn farin út úr hausnum á mér ...  ógleymanleg í einfaldleika sínum. Hún segir frá Bruno, níu ára þýskum dreng í síðari heimstyrjöldinni, sem gerir sér ekki grein fyrir helförinni þótt pabbi hans sé greinilega háttsettur Gestapo eða SS-maður. Hann flytur með fjölskyldu sinni til „Ásviptis“ og kynnist jafnaldra sínum sem er alltaf svo svangur, gengur í röndóttum náttfötum og býr hinum megin við gaddavírsgirðingu. Þau kynni hafa vægast sagt afdrifaríkar afleiðingar ...

Nokkrir Norrisar að lokum:

Norris DodgeBall- Chuck Norris kastar ekki upp ef hann drekkur of mikið. Chuck Norris kastar niður.
- Það er líffræðilega ómögulegt að Chuck Norris eigi dauðlegan föður. Vinsælasta kenningin er sú að hann hafi farið aftur í tímann og gerst eigin faðir.
- Chuck Norris getur dæmt bók af kápunni.
- Biblían hét upphaflega Chuck Norris og vinir.
- Chuck Norris hefur 12 tungl. Eitt þeirra er Jörðin.
- Chuck Norris malar kaffið sitt með tönnunum og sýður vatnið með eigin bræði.

- Chuck Norris notar lifandi skröltorma sem smokka.


Nokkrir fleiri úr safninu ... hver er bestur?

Gamalt sjónvarpKarlar ...Fyrir milljónum ára þekktist ekkert á borð við hjólið. Einn dag fylgdust nokkrir fornmenn með konum sínum draga dauðan fíl í átt að eldunarsvæðinu. Þetta var hroðalega erfitt og þreytandi verk og sumir mannanna urðu nærri örmagna við það eitt að horfa á konurnar. Þá komu þeir auga á nokkra stóra, slétta og hringlaga hnullunga og fengu frábæra hugmynd. Nú gátu þeir setið ofan á hnullungunum og fengið betra útsýni yfir konurnar við störf sín.
Þetta var fyrsta atvikið í röð byltingarkenndra breytinga sem að lokum leiddu til sjónvarps ... og síðar fjarstýringar. 

JakkafötÞegar verslunarstjórinn kom úr mat tók hann eftir því að afgreiðslumaðurinn var með sáraumbúðir á annarri hendinni. Áður en hann gat spurt um það sagði afgreiðslumaðurinn: „Veistu hvað gerðist? Mér tókst loksins að selja ljótu jakkafötin sem enginn hefur litið við!“
„Ertu að meina þessi viðbjóðslegu, tvíhnepptu, guldoppóttu og bláu?“
„Já, einmitt!“
„Það er frábært!“ æpti verslunarstjórinn. „Ég hélt að við myndum aldrei losna við þessi ljótustu jakkaföt sem ég hef séð. En segðu mér, hvað kom fyrir höndina á þér?“
„Ó,“ sagði afgreiðslumaðurinn, „sko, þegar ég var búinn að selja gaurnum jakkafötin kom blindrahundurinn hans og beit mig!“

BílstjóriÓskar var að aka upp bugðótta, bratta brekku og kona kom akandi á móti honum. Þegar þau mættust æpti hún: „SVÍN!“ Óskar brást reiður við, renndi í hvelli niður bílrúðunni og öskraði á móti: „TÍK!“ Þegar hann kom að næstu beygju ók hann yfir svín sem stóð á miðjum veginum.

Hjá lækniUnga móðirin var hjá heimilislækninum
„Þú hefur allt of miklar áhyggjur af barninu þínu,“ sagði hann. „Ég ætla að skrifa upp á róandi lyf sem þú þarft að taka tvisvar á dag. Komdu svo til mín aftur í næstu viku.“
Viku seinna kom konan og læknirinn spurði: 
„Hafa lyfin haft einhver áhrif?“
„Já,“ svaraði konan. „Þau hafa gert algjört kraftaverk.“
„Hvernig hefur svo barnið þitt það?“
„Hverjum er ekki sama!“ sagði konan kæruleysislega.

Í búðinniMargrét var úti í búð að kaupa í matinn. Hún setti mjólk, egg, ávaxtasafa og epli í körfuna sína. Þegar hún var að borga vörurnar tók hún eftir fyllirafti sem starði á hana.
„Þú hlýtur að vera einhleyp,“ drafaði í honum.
Margrét horfði á innkaupin sín og sá ekkert sem gæti bent til þess að hún væri einhleyp. „Það er alveg hárrétt hjá þér. Hvernig í ósköpunum fórstu að því að finna það út?“ spurði hún.
„Það var auðvelt,“ svaraði hann. „Þú ert svo ljót!“


Trúaða konanÍri nokkur drakk sem óður væri á barnum og skálaði stöðugt við félaga sína. „Er ekki allt í lagi með þig?“ spurði einn drykkjufélaginn.
„Jú,“ svaraði Írinn. „Ég er bara að skála fyrir konunni minni. Blessuð sé minning hennar. Hún var algjör dýrlingur sem fór í kirkju á hverjum morgni. Hún las Biblíuna frá orði til orðs, söng sálma öll kvöld og skreytti heimili okkar með kristilegum munum og myndum. Hún bauð nunnum og prestum til kvöldverðar heim til okkar minnst þrisvar í viku.“
„Vá, þessi eiginkona þín hefur verið sannkallaður engill. Guð hefur sem sagt kallað hana snemma til sín?“
„Nei,“ svaraði Írinn. „Ég kyrkti hana.“

Maður hjá lækni„Ég held að eitthvað alvarlegt ami að mér,“ sagði Guðmundur við lækninn sinn. „Annað eistað á mér er orðið blátt á litinn.“ Læknirinn skoðaði Guðmund vandlega og komst að þeirri niðurstöðu að það yrði að fjarlægja eistað til að bjarga lífi hans. Læknirinn var þó góða stund að sannfæra Guðmund um nauðsyn þess. Tveimur vikum eftir aðgerðina kom Guðmundur aftur og sagði skelfdur við lækninn að nú væri hitt eistað orðið blátt.
„Við neyðumst til að nema það í burtu líka,“ sagði læknirinn alvarlegur á svip. „Annars geturðu dáið.“
Tvær vikur liðu og enn var Guðmundur mættur til læknisins.
„Nú hlýtur eitthvað hryllilega alvarlegt að ama að mér því lillinn er orðinn kolblár á litinn,“ sagði Guðmundur á barmi taugaáfalls.  
Læknirinn skoðaði hann vandlega og felldi síðan þann dóm að ef Guðmundur ætlaði að halda lífi yrði að skera vininn af.
„Hvernig fer ég að því að pissa ef þú skerð hann af,“ kveinaði Guðmundur.
„Við setjum bara plastslöngu í staðinn,“ sagði læknirinn hughreystandi.
Síðan fór Guðmundur í aðgerðina og allt gekk vel. Innan nokkurra vikna var hann þó, enn og aftur, mættur á skrifstofu læknisins. Nú var hann reiðilegur á svip.
„Læknir, plastslangan er orðin blá! Hvað er eiginlega í gangi?“
Læknirinn fórnaði höndum af undrun og tók til við að rannsaka Guðmund.
„Hmmmm,“ sagði hann eftir smástund. „Getur verið að gallabuxurnar þínar láti svona mikinn lit?“


Af ruslpósti ... eða hvað

Í tilefni bóndadagsÉg fékk þessa mynd senda í tölvupósti en veit ekkert hvernig hún virkar, hef aldrei verið sterk í að sjá í gegnum sjónhverfingarmyndir. Ef maður starir nógu lengi á hana á maður að sjá hafið. Ég, sem er vön, sé hafið á hverjum degi, get engan veginn komið auga á það á þessari mynd.

Á glerborðiJamms ... sum ruslpóstbréf geta verið fyndin. Mér fannst kisumyndin mjög fyndin þegar ég fékk hana í pósti í dag. Gerður í vinnunni spurði mig auðmjúklegast um leyfi, hún veit að ég HATA ruslpóst. Sérstaklega sæta kettlinga eða ungbörn með texta sem segir að ég detti í lukkupottinn ef ég sendi tíu vinum mínum þetta keðjubréf. Arggggg!


The Getnaðarvörn ... og englasöngur í Mosfellsbæ

Við bæjarstjóradóttirin í Mosó í morgunAllt í einu er allt orðið rólegt í vinnunni ... búið að lesa blaðið yfir og vinnudeginum er lokið. Að sjálfsögðu náði ég strætó 7.41 síðdegis í morgun og Hafnfirðingurinn Gummi kom okkur farþegum heilum á húfi í Mosfellsbæ. Ég vissi að indælt og ljúft og skemmtilegt og frábært fólk tæki Skagastrætó en ekki að englar gerðu það. Dæmi: Þegar ég var að labba út sagði ung stúlka: „Ertu ekki að fara upp í Birtíng?“ Ég hélt það nú og þá kom í ljós að engilskrúttið vinnur í sama húsi en hjá öðru fyrirtæki. Bíllinn hennar beið á bílastæðinu í Mosó og ég fékk far upp að dyrum. Þetta reyndist vera sjálf bæjarstjóradóttirin!

Veit ekki hvað er með mig og hefðardúllur þessa dagana. Afi var að vísu hreppstjóri úti í Flatey en það er ekki hægt að lifa endalaust á því ... Þetta veit á einhvað ... Albert prins kemur fljúgandi frá Mónakó, neitar að hitta Ragnheiði Clausen að þessu sinni (sjá Séð og heyrt f. nokkrum árum), æðir beint í himnaríki og grátbiður mig um að verða frú Grimaldi. Að sjálfsögðu þigg ég það. Þá myndi nú enginn forseti liggja í flensu þegar ég kæmi í heimsókn ... og það girnilegasta: Ég fengi líklega að afhenda verðlaunin í Mónakó-kappakstrinum (Formúla 1).

Brjáluð börnBirti hér mynd af bestu getnaðarvörn EVER!!! Virðið myndina vel fyrir ykkur ... ekki segja mér að ykkur langi út á djamm og djús  á sódómugómorrustað og beint þaðan í syndsamlegt hjásofelsi sem ber ávöxt. Svoleiðis verða nefnilega óþekku börnin til. Vildi bara vara ykkur við áður en kvöldið skellur á með öllum sínum freistingum.

Jæja, það styttist í stuðið og hefur bæði blóðþrýstingur hækkað og hjartsláttur aukist með hverri mínútunni  ... ég er að rifja upp hinar ýmsu dagsetningar ef spurt verður um þær ... reyna, öllu heldur, hér hefur verið svo mikið stress og álag að fagurmótað höfuðið (jamm, líka seinnipartinn) er eins og fullt af bómull. Treysti á strákana mína í kvöld. Í stað Sigrúnar Óskar, sem kemst allllllls ekki vegna anna, ætlar símavinurinn okkar úr síðasta þætti, Máni Atlason, að vera þriðji maður. Bróðir hans, Vífill Atlason, verður þá símavinurinn í kvöld. Skilst að hann sé heilmikill viskubrunnur!

 


Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 218
  • Sl. sólarhring: 257
  • Sl. viku: 1762
  • Frá upphafi: 1453921

Annað

  • Innlit í dag: 176
  • Innlit sl. viku: 1464
  • Gestir í dag: 164
  • IP-tölur í dag: 162

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Sven-Göran
  • Hálka
  • Sumardagurinn fyrsti 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband