Flumbrugangur og furðulegt greiðslumat

12. apríl 2024Verulega góður dagur að kvöldi kominn, öllu heldur kominn nýr dagur. Hér var vaknað fáránlega snemma, eða rúmlega átta, unnið, myndarskapast, drukkið kaffi og sitt af hverju afrekað með misjöfnum árangri. Nú er svo lítill þvottur alltaf, eftir að stráksi flutti, að það er til vandræða, en lítil rúmfatavél fór í gang (tíma- og vatnssparnaðartakkinn miskunnarlaust notaður), síðan handklæði og tuskur - en mér leið betur að setja báðar hálfu vélarnar saman í þurrkarann. Svona geta nú húsverkin verið gefandi. Ég er líka í sparnaðar- og sniðugleikaátakinu: Borðið úr frystinum og fann heilu fjársjóðina þar í dag. Frystipoki með tveimur sneiðum af sítrónukökunni úr Costco (sandkaka með sítrónubragði, hvað er sandkaka i google translate?) en hún er svo stór að við stráksi höfum ekki getað klárað og því leynast svona gleðipakkar víðs vegar í frystiskúffunni. Sá appelsínuguli reyndist vera þetta líka fína tagliatelle frá Eldum rétt. Orðið þítt um kvöldmatarleytið og þá hitað í örbylgjuofninum. Spennt að vita hvað þetta brúna er ... og hissa á öllu þessu frosna hakki úr Einarsbúð. Hélt ég væri svo dugleg að búa til lagsagne. Geymist ekki hakk nokkuð lengi?

 

Við Mosi lögðum okkur svo í klukkutíma seinnipartinn, eða svo, ef maður fær ekki sína átta eða níu tíma þarf að bæta sér það upp með góðum fegurðarblundi. Aldurinn? Leti? Kósíheit? Kötturinn að smita mig? Fannst þetta óheyrilega notalegt en það var svo sem ekkert rétt við að vakna svona snemma.  

 

GreiðslumatFyrirhugaðir eru flutningar í bæinn með tíð og tíma, eins og bloggvinir vita og ég ákvað að reyna á tölvusnilli mína og sækja mér greiðslumat en það þarf þegar um svona hluti er að ræða. Þetta væri víst ekkert mál, bara nota rafrænu skilríkin og samþykkja að app bankans leitaði logandi ljósi að öllum upplýsingum ... og kostaði sjö þúsund krónur - sem var gjafverð fyrir svona snilld. Ég fór eftir öllu og innan mínútu kom útkoman og sú var ekki beysin - sjá mynd! Ég gæti ekki einu sinni keypt mér hótelherbergi yfir nótt. Hvað þá lítra af mjólk. Ég hóf að hugsa málin sem ég geri stundum. Gat verið að launaseðlar ársins 1984 hefðu leynst þarna en útgjöld ársins í ár? Gat verið að störfin mín þrjú væru bara ímyndun? Glasgow-ferðin í fyrra draumur og Eldum rétt-sendingarnar bara óskhyggja? Ég horfði í kringum mig, á ríkmannlegt umhverfið ... fína RB-rúmið, rúmteppið úr IKEA sem Hilda gaf mér, kommóðuna frá Önnu undir sjónvarpinu, tekkskrifborðið sem ég fékk í staðinn fyrir gamla og flotta skrifborðshlunkinn, persnesku mottuna sem kostaði bara 13 þúsund, samt svo flott ... var þetta allt bara ímyndun og ég kannski ekki til, Matrix væri málið?

Mosi kom stökkvandi upp á skrifborðið til mín og mjálmaði í mótmælaskyni. „Taktu þig taki, kæra matmóðir,“ hvæsti hann og hóf svo að mala værðarlega sem kom vitinu fyrir mig. Ahhh, þetta bankaapp réði bara ekki við verktakagreiðslur, hugsaði ég og saknaði sáran launþegavinnu - ekki í fyrsta sinn. 

 

 

Ég tók upp risaeðlusímann (kostar ekkert að hafa hann) og ætlaði að hringja í bankann. Það heyrðust undarlegir skruðningar úr tólinu og ég sem var nýbúin að tengja nýja beininn (ráderinn). Ég sá að í einhverjum flumbrugangi hafði ég sett símasnúruna á rangan stað, vissulega réttum megin miðað við gamla beininn, en ekki í gatið þar sem á stóð PHONE á þeim nýja. Ég bætti úr því og hringdi í bankann. Indæla stúlkan þar var verulega hjálpleg í þessu 20 mínútna símtali og þá hafði ég ekki tekið eftir því að þessi 24 þúsund kall var í MÍNUS ... og sagði henni að ég hefði þann pening í greiðslugetu sem gæti hreinlega ekki passað. Flumbr, flumbr. Ég sagði henni að launagreiðslur mínar væri að finna þarna og allt væri gefið upp, að sjálfsögðu, ég er meira að segja með endurskoðanda til að allt sé rétt. Hafði svindlað á sjálfri mér árum saman af því að mér fannst svo mikið vesen að vera með verktakagreiðslur með og þurfa að fylla út kostnað á móti, svo ég gerði það ekki. Samstarfsmaður fyrrverandi, áður að vinna hjá Skattinum, var stórhneykslaður á mér og eiginlega honum að þakka að ég kom þessum málum í lag ... og fór að borga minni skatta, en rétta.

Þetta rugl minnir á örbylgjuofninn minn. Ég sagði við Davíð frænda þegar hann var í heimsókn hjá mér eitt skiptið, að þessi asnalegi örbylgjuofn væri svo mikill bjáni, að ef ég ræki mig í aðaltakkann yrði ég að láta ofninn ganga í þessa hálfu mínútu sem takkinn heimtaði og ef matur hitnaði kannski nóg á þremur mínútum og ég hefði stillt á fjórar yrði ég að bíta í það súra epli að láta tóman ofninn ganga þar til tíminn væri liðinn. „Hvað með þennan takka sem á stendur PAUSE/STOP?“ spurði frændi minn yfirvegaður að vanda.

ElshúsiðMér til varnar er takkinn lítt áberandi, í kös með fimm öðrum gagnslausum tökkum ... og mér hafði ekki verið litið svona neðarlega á ofninn. Svona getur nú verið flókið að vera húsmóðir.

 

Himnaríki lítur sérlega vel út núna, nánast eins og enginn búi hér, fyrirhugað er opið hús á þriðjudaginn, og þótt fólk horfi frekar á íbúðirnar sem það skoðar með sín eigin húsgögn í huga, hvar þessi sófi yrði nú flottur og slíkt, en ekki mín húsgögn, er miklu skemmtilegra að hafa allt fínt.

 

 

Ég lánaði kisubúrið mitt svo sennilega verð ég að fylla kettina af gómsætum blautmat, eftir að hafa leikið tryllingslega við þá með leiserbendli svo þeir steinsofi uppgefnir í opna húsinu og reyni ekki að vingast of mikið við fólkið sem kemur, en þeir eru stundum mjög ástreitnir, elsku gömlu fressarnir mínir sem sofa nú samt í ábyggilega 22 tíma á sólarhring.   


Bloggfærslur 13. apríl 2024

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 66
  • Sl. sólarhring: 201
  • Sl. viku: 1945
  • Frá upphafi: 1454819

Annað

  • Innlit í dag: 43
  • Innlit sl. viku: 1577
  • Gestir í dag: 38
  • IP-tölur í dag: 30

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Bakklóra
  • Snorri og Patrik
  • Vifta

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband