Allt í gangi ... dregur senn til tíðinda

Útsýni á eldgosSíðasti dagur kennslunnar var í dag og hefur sannast á mér hið fornkveðna, konur geta bara gert eitt í einu. Annaðhvort kennt eða bloggað.

 

Mikið hafði ég dásamlega nemendur, og það frá flestum heimshornum. Þau sem segja að "þessir útlendingar" vilji ekki læra tungumálið, aðlagast og slíkt, hefðu átt að vera flugur á vegg í tímum. Ég (sem hata hita) var sú eina sem kvartaði yfir kuldanum á morgnana og tók samt strætó (innanbæjarvagn, leið 2, alls 5 ferðir á dag) á meðan þau gengu alla leið í skólann sem er í útjaðri bæjarins. Bónus er síðasta húsið í bænum, skólinn þriðja síðasta ... í skólanum mínum eru fleiri fyrirtæki, eins og Fjöliðjan, Landmælingar, Hver, Vinnumálastofnun, hárgreiðslustofa, fótaaðgerðastofa og fullt í viðbót. Sum gengu langar leiðir og kvörtuðu ekki þótt þau væru ansi hreint vind- og veðurbarin við komu og ég þyrfti jafnvel að brjóta af þeim íshröngla og láta þau setjast á ofninn á meðan þau þiðnuðu.

Þau sem þekkja mig vita hversu mikið ég hata að ganga, ég hefði hatað það og samt eiginlega ekki getað það heldur.

 

Allt þetta labbEr afar þakklát fyrir leið 2, annars hefði ég farið illa út úr þessu. Hásinin á hægri svo slæm núna (gömul íþróttameiðsl) að ég haltra, enda fær hún ekkert frí þessa dagana, ekkert afslappelsi fyrr en kannski eftir helgi. Gott að eiga sjúkraþjálfara að vinkonu ... Inga sagði mér frá vissri snilld sem ég fengi í apótekinu, eitthvað sem sett er undir hælinn og hækkar hann sem orsakar minna álag á hásinina, ég keypti og fann strax breytingu til batnaðar.

 

Ég predikaði endalaust yfir nemendum mínum að málið væri að þora að tala, það myndu allir skilja þótt þeir töluðu bjagað, bara láta vaða frekar en að tala ensku. Íslenska væri ekki svo erfið. Í gær fengu þau hvert sitt páskaeggið (allra, allra minnsta) frá mér svo ég gæti frætt þau um málshætti. Hver vill ekki læra með munninn fullan af súkkulaði? Í mínu eggi var málshátturinn Seint fyrnast fornar ástir.

Hmm ... hvaða fyrrverandi eiginmanni, kærasta eða elskhuga þarf ég að byrja með aftur? hugsaði ég beisklega, ég hef engan tíma til að binda mig í bráð. Sorrí, strákar.

Engu spillir hægðin, fékk rólegur og ljúfur strákur í hópnum. Mér sýndist fyrst, Engu spilla hægðir ... og flissaði þegar ég pældi í því hvernig ég gæti útskýrt þennan fáránlega málshátt fyrir honum - en sem betur fer las ég betur. Aðrir málhættir voru m.a. Dropinn holar harðan stein. Aumur er ástlaus maður.  

Ég sýndi þeim ýmislegt á risaskjánum, eldgos í vefmyndavél, Skálmöld og Sinfó á YouTube, vedur.is, google translate, ja.is-google maps þar sem við ferðuðumst um Skagann ... Tuttugu stuttmyndir sem hjálpa þeim að skilja eru fast kennsluefni en margt hefur breyst síðan þær voru gerðar, eins og bankaþjónusta og strætógreiðslumáti. Græna kortið ... hver man eiginlega eftir því? Og persónuleg bankaþjónusta utan Akraness, látið ykkur dreyma!

 

HúsóÉg horfi nánast aldrei á sjónvarp en mundi að fólkið í kringum mig, sjónvarpssjúklingarnir, hafði hrósað Húsó. Ég sá þættina inni á sarpi hjá RÚV, enn aðgengilegir en alveg að detta út, horfði á fyrstu fimm heima (til að koma í veg fyrir eitthvað vandræðalegt, eins og í upphafi íslenskrar glæpaseríu sem ég sýndi um árið og var búin að sjá en gleyma að fyrsti þáttur hófst á æsilegu kynlífsatriði á bryggju (mjög stuttu, sjúkk, svo tóku sem betur fer blóðug morð við). Ég var svo vandræðaleg þá að nemendur mínir hlógu sig máttlausa. Þeim fannst gaman að sjá þann þátt og ætluðu að horfa á alla seríuna heima.

Við horfðum á alla sex þættina af Húsó og vá, hvað þetta er frábær þáttaröð. Er mjög montin af Möggu Völu, bróðurdóttur minni, sem stjórnaði kvikmyndaupptökunni sem var brilljant eins og allt annað þarna. Vildi samt að ég hefði séð síðasta þáttinn áður en við horfðum á hann í dag því ég varð klökk, endirinn svo fallegur, svo ég rak nemendur hryssingslega í helvítis kaffihlé ... þau tóku samt ekki eftir neinu. Þetta var eina efnið sem ég fann sem sýnir svolítið raunverulegt líf í dag, með íslenskum texta sem auðveldaði mikið. Gaman að sjá elsku Kjötborg í svona stóru hlutverki, þannig.

Þetta var ekki bara íslenskukennsla, þau þurftu að fá að vita um svo margt hér á Akranesi. Einn daginn fórum við í flöskumóttökuna og Búkollu nytjamarkað. Guðmundur Páll hjá Fjöliðjunni fór með okkur um allt þarna, elsku yndið. Það er hægt að kaupa flotta hluti á fáránlega lágu verði hjá Búkollu og nauðsynlegt að vita af öllu svona þegar maður er nýfluttur hingað. Við kíktum líka á Frískápinn (ísskápur, frystir, hilla ... enga matarsóun, takk) en hann var tómur að þessu sinni, finnst ég helst sjá auglýsingar um gómsæti þar seinnipartinn. Mjög snjallt að vera með svona. Ömurlegt að henda mat, ég geri það aldrei, elsku fuglarnir mínir hérna við sjóinn eru hjálplegir við að sjá um afgangana.

  

Himnaríki 21. mars 2024Hef nokkrum sinnum viðrað hér þá þrá mína að flytja í bæinn eftir að stráksi flytur frá mér ... ættingjar og langflestir vinir búa á höfuðborgarsvæðinu og þótt ég sé aldrei einmana í eigin stórkostlega félagsskap held ég að sé rétt skref að breyta til í tilverunni núna. Það hefur aðeins dregið til tíðinda í þeim málum, í raun er næstum allt að gerast, svolítið hraðar en ég hafði búist við eða ætlað mér.

 

 

Himnaríki fer því í sölu í fyrramálið og ég vona innilega að draumaíbúðin bíði mín í bænum. Markaðurinn er orðinn hressari. Þegar ég sá myndirnar úr himnaríki frá Daníel í Hákoti, teknar í gær, nánast snerist mér hugur. Sjá nokkrar þeirra hér.

Þegar ég keypti himnaríki á sínum tíma (fyrir rúmum 18 árum) féll ég fyrir útsýninu, ágæt íbúð með samt og nú er sú íbúð orðin að algjöru himnaríki. Þetta er vissulega penthouse-íbúð, þar sem hún er efst og jafnstór og báðar íbúðirnar fyrir neðan hana. Gleymdi alveg að benda fasteignasalanum á það.  

 

 

Veðrið var ekki sérlega myndvænt þegar ljósmyndarinn kom svo ég sendi tvær fínar útsýnismyndir frá mér til að hafa með ... önnur sýnir Langasand ... sjá hana hér efst ... og auðvitað er eldgos í baksýn. Kannski algjör synd að flytja þegar íbúðin er orðin svona fín og flott. Hina myndina má sjá neðst.

 

Himnaríki 6. mars 2023Vonandi verður himnaríki draumaíbúð einhvers sem kann vel að meta óhindrað sjávarútsýni - alla leið til Ameríku ef jörðin væri ekki hnöttótt - og fallega íbúð. Guðný hönnuður var þyngdar sinnar virði í gulli og líka iðnaðarmennirnir, allir í fremstu röð.

 

Þau sem halda að ég sé að flytja í bæinn af því að ég hlóð óvart niður Klapp-appinu í fyrra - sem dugar bara í strætó í bænum (varla samt), eru alveg í ruglinu. Eða af því að ég fari sífellt hjá mér við að fylgjast með Skagamönnum striplast á náttslopp og inniskóm til að fara í Guðlaugu (laug við Langasand). Ónei. Það er sko djammið sem kallar. Leikhús, bíó, kaffihús, bingó, gömlu dansarnir, harmonikkutónleikar ...

... sem minnir mig á að ég á miða á Skálmöld í Hörpu núna 1. nóvember! Þegar ég keypti miðana, nú í byrjun janúar, hefði mig seint grunað að ég yrði jafnvel flutt í bæinn þá. Kemur í ljós, kemur í ljós. Krossið fingur fyrir mig, elsku bloggvinir, að rétta íbúðin bíði mín hinum megin við flóann. Akranes er samt best og yndislegast, frábærast og dásamlegast.

 

Ef neðsta myndin prentast vel má sjá grilla í Bandaríkin lengst til hægri.


Tvítugur stráksi, hnetufár og júróhneyksli

Amælistertan handa stráksaHáttvirtur stráksi af Himnaríki er tvítugur í dag. Húrra, húrra, húrra. Hann var vakinn í morgun af Möttu sinni, þar sem hann gisti um helgina, og fékk afmælissöng og -köku. Hingað heim var hann kominn um hálfátta í morgun og fékk þá gjöfina frá mér, gegnsæan hraðsuðuketil til að hita sér vatn í te í nýju íbúðinni. Aðeins mánuður eftir hér, svona um það bil. Elsku Maren okkar frá Akraneskaupstað er búin að koma og kveðja og rígfullorðinslífið alveg að taka við. Hann er sennilega tilbúnari en ég í þessar breytingar.

Í kvöld mætti ástkær vinafjölskylda í pasta-pasta ... ég gerði sko tvöfaldan tagliatelle-rétt með piparosti, frá Eldum rétt, og bjó einnig til lasagne (úr pakka, dúndurgott). Þetta vakti gífurlega lukku hjá genginu mínu, litlu snúllurnar sem kalla mig vonandi ömmu með tíð og tíma, mættu í flottu kjólunum úr Costco sem Hilda lét mig kaupa í stað páskaeggja (einmitt) og þeir smellpassa núna og örugglega alveg í ár til viðbótar.

 

 

Myndin er svakalega óskýr eitthvað - en takið eftir afbragðs góðum fókus á ljósakrónunni sem ég keypti fyrir ábyggilega 25 árum hjá Jónasi antíksala sem þá var í Austurstræti, nú kominn í Kópavog. Þarna má sjá frábæra vinafólkið mitt skömmu áður en við réðumst til atlögu við tertuna sem þau komu óvænt með.

 

Keli helgar sér klakavélÞað er alltaf verið að búa til einhvers konar staðalímyndir af okkur mannfólkinu og konur eiga til dæmis að geta multitaskað, gert marga hluti í einu, á meðan karlar geta í mesta lagi eitthvað eitt. Virkilega? Ég steingleymdi að gefa gestunum vatn með matnum, ætlaði aldeilis að hafa fína klaka út í úr flottu mikið notuðu klakavélinni sem lætur mig stundum vakna tvisvar á nóttu til að pissa, svo gráðug er ég í vatnið ... Það er ekkert annað en kraftaverk að ég hafi getað eldað tvo (svakalega einfalda) rétti á sama tíma og haft allt tilbúið um sexleytið.

Þau lofuðu að borða mjög vel en ég eldaði sennilega of mikið. Nóg til afgangs í hádegismat á morgun, og svo fer eitthvað í frystinn.

Þau mættu með flott súkkulaði handa stráksa í afmælisgjöf og súperfína AFMÆLISTERTU! Hann var alsæll með daginn og rúmlega það.

 

Myndin er af Kela þar sem hann var að enda við að helga sér klakavélina fyrr í kvöld.

 

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - -

Mossad

 

Hvað gerðist eiginlega á laugardaginn? Af hverju sigraði ekki lagið sem kommúnista-RÚV með allt þetta góðafólksgengi hafði ákveðið að myndi sigra? Og hvers vegna sigraði lagið sem íhaldsfasistaliðið sem heldur RÚV í heljargreipum ákvað að myndi sigra?

Sko ...

- Mossad fékk Rússa til að brjótast inn í kosningaappið þannig að um hálf milljón atkvæða sem „óvinurinn“ átti að fá, endaði sem páskaegg handa kennara ákveðins menntaskóla við visst Laugarvatn. 

 

 

Ég horfði reyndar ekki á Söngvakeppnina í ár. Yfirleitt er slökkt á sjónvarpinu hvort sem er. Einhverra hluta vegna datt ég þó inn í breska bökunarþáttinn þar sem augnayndið hann Hollywood dæmir baksturshæfileika breskra áhugabakara. Enn eitt í lífinu sem ég er þakklát fyrir-hugsun kviknaði við áhorfið.

Já, ég er sérlega þakklát fyrir að vera ekki dómari í þessum þáttum, með mína góðu bragðlauka ... ég vissi ekki af öllum þessum hnetutegundum sem þarna var hægt að troða inn og skemma fínasta kex og kruðerí.

 

 

Er hnetufár kannski að aukast í heiminum? Horfði oft, nánast alltaf, á þessa keppni á meðan ég nennti að horfa á sjónvarp að einhverju ráði og man ekki eftir svona hrottalegri meðferð á deigi sem hefði getað endað sem eitthvað gómsætt. Eini bakarinn á Íslandi sem ég hef einlæga trú á er Siggi í Bernhöfts. Konudagskakan hans um árið var sú besta í manna minnum, og ... algjörlega hnetu-, möndlu-, döðlu- og rúsínulaus. Í þættinum komu kúrennur fram sem eitt hráefnið, var ekki búið að útrýma þeim?   


Ömmur sem hata og enn meira um tónlist

Mest seldu plöturnarGúglkunnátta mín er sérlega slæm, eins og alþjóð veit, og sérstaklega Hilda systir, eftir ferð okkar til Hafnar í Hornafirði og hún bað mig um að gúgla vegalengdina að næstu bensínstöð (17 klst. og 54 mín.). Ég er fljót að gefast upp ef ég finn ekki í hvelli. Mig langaði að vita hvaða plötur Íslandssögunnar væru vinsælastar og hefðu selst mest. Ég fékk upp fréttir á borð við: Mest selda platan árið 2022, ég var samt ekki að leita að því. Óþolinmæði er eflaust versti óvinur góðs leitara.

Á tímarit.is var listi frá 28. feb. 2006, sem sagt 18 ára gamall. Þar er Björk okkar Guðmundsdóttir efst, síðan Sykurmolarnir, þá Sigur Rós, Gus Gus, Quarashi, Emiliana Torrini, Mezzoforte, Bubbi, Stuðmenn og síðast Þú og ég.

Enginn Ásgeir Trausti kominn til sögunnar þá - til að löngu síðar heyrast í verslun í Orlando (2018, ég var þar) og Hafdís Huld ekki búin að gefa út vögguvísuplötuna sína sem hefur sprengt alla skala hjá Spotify - enda eru víst ársgömul þýsk börn á vissum leikskóla ytra farin að sofna við Dvel ég í draumahöll, af þeirri plötu (heimild: Istagram) eins og ótrúlega mörg íslensk börn. Besta lagið til að svæfa þau litlu.

 

Langsamlega mest seldu plöturnar í útlöndum - það var auðveldara að finna. Hér eru efstu fimm: 

1. Michael Jackson - Thriller (65,8 milljón seldar plötur)

2. Pink Floyd - Dark Side of the Moon (43,3)

3. Whitney Houston - The Bodyguard (41,1)

4. Varíus artists - Grease (38,1)

5. Led Zeppelin - Led Zeppelin IV (36,8)

 

Þessi listi (sjá líka myndina) er fjögurra ára gamall en það vekur furðu mína að sjá t.d. ekki Bítlana ofarlega þarna, Abbey Road (26,7 m) og ögn neðar, Sgt. Pepper´s (24,8 m). Kannski var bara svona færra fólk í heiminum í gamla daga ...

Að Celine Dion sé ofar en Nirvana er bara hneyksli og margt annað stórfurðulegt má finna á þessum Reddit-lista.

Ég vona innilega að gúglkunnátta mín sé bara svona slæm, það hlýtur að vera einhvers staðar listi yfir íslenskar plötur. Sennilega er Lifun ofarlega þar. Annars man ég eftir vinsældakosningu á Rás 2, sem er auðvitað annað en sölutölur, fljótlega eftir að Rásin byrjaði. Þá þótti Stairway to Heaven með Led Zeppelin flottasta lag í heimi. Þónokkuð mörgum árum síðar var önnur svona kosning og þá vann lagið Smells like Teen Spirit með Nirvana, sú kosning gæti hafa verið á MTV, svona ef ég fer að hugsa. Mér þætti gaman að vita hvaða lag myndi teljast besta lag allra tíma, nú í dag.   

 

Facebook

Mánaðarlega eldgosið á Reykjanesskaga var sumum fjöndum ofarlega í huga og þetta birtist hjá honum í gær, föstudag:

 

„Ætlið þið að taka þátt í gosinu á sunnudaginn?“ 

og þetta í dag ...

„Allir voru brjálaðir yfir því að það var ekkert naut í nautaloku Gæðakokka og nú eru allir að trompast yfir því að það sé mús í kartöflumúsinni hjá Pho Víetnam ... hvað viljið þið eiginlega?“

 

Besta fólkiðUngur rithöfundur skrifaði pistil um ömmur ... en ömmur eru það besta í heimi, eins og við vitum; safna fyrir barnaspítala og prjóna sokka á hermenn í Úkraínu á milli þess sem þær baka pönnukökur ofan í barnabörnin. Hann talaði um nokkrar ömmur sem elskuðu ömmugullin sín en vildu ekkert af Palestínufólki vita, alls ekki fá það til Íslands þótt það bjargaði lífi þess. Það hafa orðið ansi fjörugar umræður á Facebook um þetta. Sumar ömmur taka þetta alls ekki til sín, aðrar kvarta undan því að þær megi ekki tjá sig, þótt enginn hafi bannað þeim það.

 

Umræðan um suma (brúna) hælisleitendur minnir óneitanlega  á hatursorðræðuna gagnvart gyðingum fyrir um 90 árum, hversu ömurlegir og ómögulegir þeir væru, og auðvitað þyrfti Ísland að hugsa um sína þegna fyrst og fremst, því miður gætum við ekki tekið við þeim gyðingum sem sóttu um hæli hér - og allir vita hvernig fór. Ég held meira að segja að það sé bannað með lögum að heita Hitler, svo hataður er hann enn í dag vegna helfararinnar. Skiljanlega!

 

Barnabarnið og stráksiÉg er ekki amma, ég þarf að ræna barnabörnum ef ég á að eignast nokkur og eitt ömmugullið mitt (sjá mynd, sá lægri í loftinu) býr í næsta húsi og kíkti í heimsókn síðast í dag með mömmu sinni, sem færði mér disk af dásamlegum arabískum mat (ekki með hnetum, döðlum, möndlum eða rúsínum, sjúkk). Ég á nokkra góða vini frá Miðausturlöndum, bæði múslima og kristna (eða trúlausa, ég veit það ekki, við ræðum aldrei trúmál). Ég kannast ekkert við lýsingarnar á lötu liði sem þráir það eitt að komast á spenann hér, og þaðan af verra - vissulega er slíkt fólk samt til, og það hjá öllum þjóðum. Mín kynni eru af friðelskandi, harðduglegu fólki sem elskar Ísland, líka veðrið (sem ég skil reyndar mjög vel, hiti er viðbjóður). Sumir segja að þessi neikvæða umræða sé vegna stöðugs áróðurs Útvarps Sögu og sumra pólitíkusa (til að veiða þannig þenkjandi kjósendur) svo stundum fer jafnvel góðhjartaðasta fólk að trúa öllu illu um þessa útlendinga ... án þess nokkurn tímann að hafa kynnst eða þekkt nokkurn persónulega - bara heyrt eitthvað um þetta "voðalega fólk" frá öðrum. 

 

Myndin sýnir stráksa minn og „ömmugullið“ mitt eftir að sá síðarnefndi fékk að gista hjá ömmu Gurrí sl. haust. Hvorugur fæddur hér á landi. Hér sést líka í bíl sem er í eigu grannkonu frá Úkraínu, hún er hörkudugleg, hleypur í vinnuna (nema þegar rignir) sem er ekkert langt frá minni vinnu sem ég verð að taka strætó í, hún hefur boðist til að skutla mér í búð hvenær sem ég þarf, hún passar kisurnar mínar í sumar- og jólafríum og bakaði bollur á bolludaginn og færði mér nokkrar. Ekki svo mjög voðalegt fólk ...

 

SeríoslíVinkona í Svíþjóð furðar sig á fullyrðingum sumra Íslendinga um hælisleitendavandamálið í Svíþjóð, hún kannast ekkert við það. Annars varð okkur tveimur næstum því alvarlega sundurorða þegar við töluðum síðast saman. Ég sagði henni að ég ætlaði á tónleika með Skálmöld núna 1. nóvember í Hörpu. Hún er náskyld einum í Skálmöld en lýsti því samt yfir við mig að hún myndi frekar fara og sjá Geirmund Valtýsson, það yrðu tónleikar með honum nú í apríl, hana langaði svooo að koma til landsins. Hún sagðist ekki trúa því upp á mig að mig langaði ekki til að fara.

Ég reyndi varfærnislega að segja henni að kona (samt með skagfirsk gen) á borð við mig, sem veldi sér viljandi tónleika á borð við Metallicu, Rammstein og Töfraflautuna, færi sennilega frekar að sjá Skálmöld en Geirmund ... Ég held að hún hafi ekki trúað mér.

 

Mér finnst ekki ólíklegt að ónefnd systir mín færi með henni á Geirmund, frekar en með mér á Skálmöld, og mögulega líka einhverjar vinkonur (ekki margar).

 

Fátt held ég að geti toppað tónleikaupplifun vinkonu minnar sem sá Atom Heart Mother, frumflutning Pink Floyd, í Hyde Park árið 1970. Ég fæ óraunveruleikatilfinningu bara við tilhugsunina. Enn er mín skrítnasta upplifun sem tengist óraunveruleika sú að þegar ég var níu eða tíu ára datt flaska með mjólk í (til að drekka með nestinu mínu) af þriðju hæð í Brekkubæjarskóla niður á mölina á skólalóðinni og BROTNAÐI EKKI! Já, reynið bara að toppa það!       


Meint martröð í morgunsárið og meint veikindi Katrínar ...

Nemendur finna vörurAlgjört öngþveiti ríkti í skólastofunni í gær þegar ég tjáði nemendum að hlaupársdagur táknaði að konur gætu beðið sér manns og hann mætti ekki neita, nema greiða henni skaðabætur fyrir. Held að einhleypu konurnar hafi hugsað sitt en karlarnir urðu stressaðir. Ég, aðeins í þeirri viðleitni minni að kenna íslensku, bað einn um að giftast mér og svo brá við að þessi gáfupiltur (ég gæti verið móðir hans) kunni allt í einu enga íslensku. Brosti bara sætt og sagði: „Ég skil ekki.“ Ég var ekki einu sinni búin að kenna þeim að segja það.

Svo um leið og hann og hinir skildu að þetta væri eitthvað gamalt og í raun bara grín, kviknaði íslenskukunnáttan aftur af fullum krafti og léttirinn flæddi um allt. Núna í morgun hittumst við í elsku bókasafninu og spjölluðum heilmikið saman. Til er mjög sniðugt app sem heitir Bara tala - og þau hlóðu því niður í símana. Mjög snjallt til að æfa sig í íslenskunni. Eftir kaffitímann hófst svo martröðin, eða það sem ég hélt að væri martröð í þeirra augum. Ég leyfði þeim að vera tvö til þrjú saman í liði og rétti þeim nokkra handskrifaða miða. Og þótt ég hati dramatík fannst mér vel við hæfi að þau ímynduðu sér að ég lægi fárveik heima, þau væru bestu vinir mínir og myndu algjörlega bjarga mér með því að finna það sem mig vantaði í Krónunni, sem er nánast við hliðina á bókasafninu. Bara bókabúðin og Lindex á milli. Einn hryllingurinn sem ég flissaði subbulega mikið yfir í gærkvöldi þegar ég skrifaði innkaupalistann var: Súputeningur - grænmetis. Einu vísbendingarnar með vörunum voru: Kalt og Ekki kalt. Sem þýddi t.d. að kaffið (Espresso Roma, baunir) var merkt EKKI KALT. En 1 lítri laktósafrí nýmjólk með D-vítamíni var merkt KALT. Einu mistökin, ef mistök mætti kalla, var þar sem ég skrifaði 1 stk. avókadó. Nemendur komu með lífrænt ræktað, 2 í poka, svo lítil samt að þau voru svipuð og eitt venjulegt. Þau fengu öll tíu og A plús. Og innkaupin mín hafa sjaldan gengið jafnhratt og vel ... nema ég var ein um að bera þetta heim, hafði bætt við t.d. súrmjólk og tilbúnum rétti, girnilegri kjúklingasúpu ... með kókos- og karrí-eitthvað, en stráksi fer nefnilega til stuðningsfjölskyldu sinnar í allra síðasta sinn núna um helgina (og ég nenni ekki að elda fyrir mig eina) og næst þegar ég sé hann verður hann orðinn tvítugur!

Skóla lauk því allt of snemma, svo ég þarf lævíslega að ræna af þeim einni mínútu af kaffitímanum í tvær vikur. En vá, þau geta svo miklu meira en ég bjóst við. Fljótlega þarf ég svo að sýna þeim páskaeggjaúrvalið - og segja að það sé skylda að gefa börnunum sínum (og auðvitað sjálfum sér) páskaegg. Ég tjáði þeim að ég hefði alltaf fengið slíkt í morgunmat á páskadag og fékk ekki nokkra samúð, þetta þótti hinn besti morgunmatur. Hvenær glataði ég gleðinni ... og lyst æskunnar á súkkulaði í morgunverð?

 

MYND: Yndin bestu frá Sýrlandi og Palestínu voru ekki lengi að finna kaffirjóma, suðusúkkulaði og kaffipakka. Þær leyfðu að sjálfsögðu myndbirtinguna.  

 

Ég bætti líka orkudrykkjum við, 2 hvítum Monsterum, í þeirri viðleitni að orkan aukist eitthvað sem er ekki vanþörf á. Ég hef rétt haft kraft til að vinna á morgnana, svo er ég bara slappur eymingi. Verkefni sem ég átti helst að skila í dag frestast til mánudags, sem mér bauðst og þáði, svo ég get gert himnaríki ögn fínna í dag og brotið saman smávegis þvottafjall og gengið frá svo helgin geti farið í eintóma vinnu og ekkert nema vinnu. Ég er svo mikill vinnualki að mér finnst bara sjálfsagt að vinna um helgar. Ekki nenni ég að horfa á sjónvarp (sniðgeng Júró) nema þá elskuna hann GMB á föstudögum, hef samt misst af tveimur síðustu þáttum, einhverra hluta vegna.

 

Ég get ekki notað íslensku sjónvarpsfréttirnar til að sýna nemendum hvað gengur á í heiminum, það er örugglega of erfitt fyrir þá sem flúðu stríð eða helför. Eins og við (sem vorum ekki einu sinni fædd) skömmuðumst okkar fyrir hönd Íslands, fyrir að hafa úthýst gyðingum bara til að Hitler gæti myrt þá, og þjóðir heims sögðu í kór: Aldrei aftur, aldrei aftur. Einmitt. Sagan mun ekki gleyma.

Ef ég væri að læra tungumál ríkis sem ég hefði þurft að flýja til, vegna t.d. náttúruhamfara, myndi ég eflaust skæla ef ég þyrfti að horfa upp á brennandi Ísland í þarlendum fréttatíma, til að læra nýja tungumálið. Ég sýni mínu fólki veður.is, vefmyndavélar frá komandi gosstöðvum, íslenska tónlist á YouTube, verst samt hvað ég er hugmyndasnauð og spila eiginlega bara Bríeti, Palla, Bubba ... þigg með þökkum tillögur að tónlist, og jafnvel sjónvarpsefni á RÚV.is eða YouTube (sem inniheldur ekki eitthvað vandræðalegt). Jú, Kaleo líka, en þau eru of ung til að muna eftir Björk og sum ekki með nógu stórkostlegan tónlistarsmekk til að meika Skálmöld (nema þá helst Úkraínukarlar). Ekki sem sagt nóg að kenna þeim bara tungumálið - það er svo margt annað sem er gott að kunna. Hvar antíkmarkaðurinn er, frískápurinn (mæli líka með að gefa fuglunum afganga niðri við sjó) og fleira og fleira. Reyni að hugsa: Hvað myndi ég vilja vita ef ég byggi hálfmállaus í nýju landi? Akraneskaupstaður stendur sig rosalega vel varðandi aðstoð og utanumhald til þeirra sem þurfa en ... hér hittist t.d. hópur í matarklúbbi Rauða krossins, einu sinni í mánuði, þar er eldað og spjallað og kynnst og borðað og hlegið.  

 

Katrín MiddletonÁ Facebook o.fl.

Alþjóðlegur dagur hróss er í dag - svo hrósum hvert öðru í drasl, eins og ein fb-vinkonan orðar það.

 

Á Instagram er skemmtileg íslensk síða fyrir aðdáendur kóngafólks, Royalicelander, sem flytur fréttir af fólkinu með bláa blóðið. Mér fannst ótrúlega fyndið að lesa í gær um áhyggjur fólks af Katrínu hans Vilhjálms, en hún fór í leyndardómsfullan uppskurð (ég giska á legnám) fyrir mánuði og hirðin tilkynnti að kæmi aftur í sviðsljósið eftir páska (það tekur einmitt tvo mánuði að jafna sig eftir legnám). Þar sem hún hefur ekkert sést opinberlega fór orðrómur af stað - ýmsar sögur og hér eru þær helstu: 

- Hún er í dái.

- Vilhjálmur drap hana. 

- Hún fór í rasslyftingu. 

- Henni er haldið í kjallara hallararinnar af því að hún vill skilnað en höllin leyfir það ekki.

- Hún er horfin og höllin veit ekki einu sinni hvar hún er. 

-Hún er dáin. 

- Hún gaf Karli tengdaföður sínum nýra og er að jafna sig (skv. þessu er Karl með krabbamein í nýra og þurfti nýtt).

- Hún er að safna í topp. 

- Hún rakaði af sér hárið. 

- Hún fór í lýtaaðgerð.  


Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 66
  • Sl. sólarhring: 195
  • Sl. viku: 1945
  • Frá upphafi: 1454819

Annað

  • Innlit í dag: 43
  • Innlit sl. viku: 1577
  • Gestir í dag: 38
  • IP-tölur í dag: 30

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Bakklóra
  • Snorri og Patrik
  • Vifta

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband