Sumargleði, möguleg landráð og lestrarþjáning

Sumardagurinn fyrsti 2024

Gleðilegt sumar, elsku bloggvinir, nær og fjær, og takk fyrir veturinn.

Það er svo sannarlega komið sumar. Í gær sá ég kappklædda hlaupara fara fram hjá en í dag voru þeir mjög fáklæddir. Lítill munur á hitastigi en dagsetningin gerði gæfumuninn. 

 

 

Jarðarberjakókostertan sem ég keypti í gær var allt í lagi, gestir þáðu þó ekki aðra sneið, svo ég sit uppi með hana, hún var nefnilega svolítið þurr. Mögulega vildi bakarinn ekki að hún yrði of blaut og sparaði rjómann - eða notaði g-rjóma sem bleytir ekki marens. Frekar mikil synd, kannski ég kaupi rjóma á morgun, bæti á hana og setji svo í frysti til að eiga handa gestum. Eða mér - ef kökusneið kallar á át.

 

Myndin ... sú efsta sýnir árlegan glaðning, þegar hestamenn ríða yfir Langasandinn. Hin sjávarmyndin var tekin í kvöld og sú þriðja af ömmustráknum mínum, 7 mánaða, sem lærir senn að segja amma. 

 

Ekki var möguleiki að sofa lengur en til tíu þótt ég hafi reynt. Það var einhver myndarskapur að malla í mér og ég sá hættumerkin alls ekki fyrr en allt of seint. Áður en ég vissi af var ég búin að skipta á rúminu, skipta um kattasand, setja í þvottavél, setja restina úr vaskinum í uppþvottavél og setja hana í gang, fara út með kattasandsruslapokana og ryksuga himnaríki - rankaði svo við mér þegar farið var að nálgast hádegi og stoppaði þetta rugl. Eru þetta ekki landráð, svona á þessum degi? Smávegis möguleiki að bókin sem ég er að hlusta á sé svona spennandi, hún heitir Ég ferðast ein og er eftir Samuel Björk. Hún er það vel og nógu hratt lesin að ég hef hana á venjulegum hraða en í einhverjum húsverkjalátum ýtti ég óvart á takkann sem eykur hraðann og það var bráðfyndið að heyra lesið á mesta hraða, alveg óskiljanlegt í raun.

 

HálkaÉg nefnilega lét símann elta mig, var ekki með vasa svo ég hélt á símanum á meðan ég ryksugaði - og á milli herbergja. Skrefin? Algjör vonbrigði en ég sá við þessum fjandans skrefamæli, hahahaha. Göngubrettið ódýra en góða, er komið inn í fyrrum herbergi stráksa og þegar farið er á það horfir maður út á sjó. Og sjórinn er svívirðilega fagur núna, flottar öldur en ekkert brim samt. Svo ég stökk upp á brettið, gætti þess vandlega að hafa símann í vasanum á peysunni svo skrefin myndu telja ... og hviss, bang, ég fór nærri 200 skrefum yfir meðaltal (þarf svo sem ekki mikið til). Náði meira að segja örsnöggu snappi án þess að detta af brettinu. Held að þetta bretti verði notað enn meira en áður, mig langar að setja met - jafnvel toppa metið í Glasgow, tíu þúsund skrefa "skreppitúrinn" úr miðbæ að hóteli og það var óvart farinn stór krókur, stórt og vítt U til að viðra okkur enn lengur, ég fer ekki ofan af því, sum öpp eru leiðindatól.

 

Mynd 2: Þessi hálkumynd er það eina sem fær mig til að fagna sumarkomu, og hitanum sem oft fylgir. Vifturnar eru klárar.

 

Sven-GöranOft læt ég framburð á nöfnum pirra mig þegar ég hlusta á bækur og í morgun var það Händel, einhver var að hlusta á tónlist eftir hann. Lesarinn sagði HAndel í stað HEndel. Ég hef t.d. aldrei komið til Svíþjóðar og kann ekki stakt orð í sænsku en engdist samt í gegnum heila bók yfir framburði á Göran ... sem var bara borið fram eins og það er skrifað, í staðinn fyrir Jorann. (Sjá mynd af Sven-Göran Eriksson, allir segja Sven-Joran). Áður en ég skrifaði þetta með Göran, fór ég á YouTube og lét sænska konu segja Jorann aftur og aftur. (How to pronounce Göran (Swedish)) Hafði þó pottþétt heyrt það í sænskum lögguþáttum eða fótboltafréttum í sjónvarpinu. 

En samt ... það getur verið mjög, mjög tilgerðarlegt að heyra ensk nöfn í íslenskum bókum með sterkum enskum eða amerískum framburði. Bjarkarframburðurinn er kannski of harður, en þarna mitt á milli er fínt. Svo leist mér ekki á blikuna með nýja bók sem ég ætlaði að fara að hlusta á en hætti við ... heill herskari af leikurunum les hana og eflaust lúðrablástur og söngur líka. Ég hlusta á storytel til að láta lesa fyrir mig. Það er meira að segja á mörkunum að ég nenni að hlusta á bækurnar um Erlend (eftir Arnald) því það eru nokkuð mikil leikræn tilþrif þar (sumir halda að það eigi að vera, að hlustendur elski það, svo er nú ekki hjá flestum).

Þau sem sofna með Storytel í eyrunum (ég stilli iðulega á korter eða hálftíma) hrökkva upp við lætin í Erlendi þegar hann hundskammar Sigurð Óla, og sofna svo aftur eftir langa mæðu. Er að skrifa þetta fyrir vin.

 

(hrað)Fréttir af Facebook,:

- Gleðilegt sumar - mest áberandi

- Óska eftir túbusjónvarpi.

- Svona leit ég út þegar ég fermdist 1974, mynd

- Þrir hundar lausir hjá Bíóhöllinni (voru sóttir)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

 Stærsti bílaframleiðandi Þýskalands heitir Volkswagen, frb Folkswagen. En áhrifin frá enskri tungu hefur náð til Íslands  og hér auglýsir Hekla bílinn með því að sagt er "vólgsvagen". 

Ómar Ragnarsson, 26.4.2024 kl. 23:22

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Afsakið innsláttarvillu: Á að vera: Áhrifin frá enskri tungu hafa náð...

Ómar Ragnarsson, 26.4.2024 kl. 23:25

3 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Já, þetta er alveg ótrúlegt. 

Guðríður Haraldsdóttir, 26.4.2024 kl. 23:34

Bæta við athugasemd

Hver er summan af þremur og sautján?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 121
  • Sl. sólarhring: 259
  • Sl. viku: 2071
  • Frá upphafi: 1456824

Annað

  • Innlit í dag: 112
  • Innlit sl. viku: 1767
  • Gestir í dag: 110
  • IP-tölur í dag: 109

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Gardínukettir
  • Ostapítsa með sultu
  • Náttborð

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband