Hættuleg áróðurssíða, fríkað út og ástarsögumeiningar

1. maí fyrir nokkrum árumMótmælaganga var ekki gengin í dag, enda vinn ég hjá sjálfri mér og fékk ekki frí. Var mun duglegri við að mæta í slíkar göngur í gamla daga. Nú virðist úr mér allt bit. Áður fyrr, þegar aðalsamkomustaðurinn var bókasafnið eða stúkuhúsið, voru svona göngur hin besta skemmtun. Hreyfing, lúðrablástur og fjör. Sumardagurinn fyrsti var mun kaldari í minningunni en 17. júní bestur. Þetta dekkaði apríl, maí og júní. Ef ekki hefði verið fyrir jól, páska og bolludaginn ...

 

Mynd: 

Við Bogga vinkona göngum þarna hlið við hlið, beint fyrir aftan Gunnhildi (sem er fremst með með loðkragann). Létum svona skemmtun ekki fram hjá okkur fara. Við kynntumst í kringum fimm ára aldurinn í Nýju blokkinni þar sem við bjuggum báðar, og vinátta okkar hefur staðið óslitið í minnst fjörutíu ár plús ... Man eftir okkur dansa við Led Zeppelin III sem Siggi stóri bróðir hennar átti en þá gæti ég svo sem hafa verið flutt í Arnarholtið (bak við Einarsbúð) og verið í heimsókn, þá hef ég mögulega verið í kringum 11 ára og farin að meta þungarokk. 

 

Keypti tvo pakka af Eldum rétt-mat fyrir tvo sem komu stundvíslega eftir hádegi á mánudaginn. Veit ekki hvaða lufsugangur þetta er, en ég eldaði fyrri réttinn núna fyrst í kvöld, voða fínar kjúklingabringur sem klárast svo í hádeginu á morgun. Hinn rétturinn þarf að eldast á morgun því það er Rvíkurferð í kortunum um helgina, með sjálfum stráksa sem fær svo sannarlega ekki að segja sig úr fjölskyldunni þótt  hann hafi flutt. Ætli verði ekki pantað að kaupa KFC og aka Álfhólsveginn sem er uppáhaldsgatan hans í öllum heiminum, enda segir heitið allt um aðaláhugamálið, stráksi er þjóðlegur mjög, nema þegar kemur að sviðum, sem eru ekki uppáhaldsmaturinn okkar.

Yfirleitt eru karlar vitlausir í mig en andstyggð mín á sviðum hefur haft mikinn fælingarmátt. Úff, þessi hættulega áróðurssíða þarna á Facebook, Gamaldags íslenskur matur, hefur án efa eyðilagt allan séns fyrir mér. Réttast væri að tilkynna þennan boðskap um siginn fisk, gellur, skötu og slíkt, því eigendur Meta myndu án efa líta á þetta flest sem efnavopn. Ég var svo heppin að vera alltaf með svona hrylling vakúmpakkaðan þegar Elfa vinkona skældi út úr mér að koma með hákarl og hval til hennar í Ammríkunni. Hangikjötið var fínt og ég mátti alltaf koma með það til landsins, sagði bara LAMB ... en þau sem reyndu að taka hamborgarhrygg með sér westur voru iðulega stoppuð í því. Nú held ég að ekkert kjöt sé leyfilegt þangað.

 

Sofandi köttur„Á ekkert að fara að mála húsið þitt?“ spurði góð kona sem skutlaði mér heim úr stuttri heimsókn í dag.

„Jú, en fyrst ætlum við að klára eitthvað pípara-dæmi, einhver rör sem er verið að mynda, og ef þarf að gera við, verður það gert. Svo verður ábyggilega farið í utanhússfegrunaraðgerð.“

„Það gæti haft áhrif á söluna á himnaríki að húsið þarfnist málningar,“ sagði hún. Meinti eflaust að fólk héldi að ef það keypti himnaríki, biði þess einhver meiriháttar fjárútlát, en svo er auðvitað ekki. Járnið er meira og minna heilt en ljótt, þess vegna höfum við látið annað ganga fyrir. 

„Við eigum sko margar, margar milljónir í sjóðum,“ montaði ég mig, „það vildu allir klára gluggana fyrst sem nú er nánast búið, svo er verið að kíkja á rörin og þar á eftir, nú í sumar, verður eflaust málað,“ sagði ég.

 

Rúmið sem ég keypti í Jysk kemur á morgun, einnig fæ ég aðstoð á morgun við að gera herbergi drengsa suddalega flott. Vona bara að hann verði ánægður. Líklega kemur hann strax eftir helgi.

Ég hef sem sagt bara laugardagskvöldið til að fríka ærlega út. Hvernig fríkar maður út? Tillögur óskast. Góður kaffibolli og spennandi hljóðbók hljómar ekkert illa en bókin sem ég er að hlusta á núna ætti að vera algjör hvalreki fyrir þau sem lesa hjá Storytel - eða um ástir og örlög tveggja lesara hljóðbóka. Hún heitir Takk fyrir að hlusta og er só far alltílæ ... nema þar er talað um erótískar bækur (50 gráir skuggar-bækur) sem ástarsögur sem er algjör misskilningur. Í flestum ástarsögum er ekki farið svo mörgum orðum um ... þið vitið. Þær bækur gerast til dæmis í bakaríum við ströndina í hálöndunum þar sem rúntar er um í bókabílum. Siðprúðar ástarsögur. Hinar heita einfaldlega erótískar bækur, held ég. 

 

ÁstarsagaÍ þessari sem ég er að hlusta á er afskaplega mikið talað um hreim hjá sögupersónum, persónueinkenni og slíkt sem hræðir mig mjög frá því að hlusta á amrískar hljóðbækur, nema Takk fyrir að hlusta sé skáldskapur (djók). Hún er bjálæðislega vel lesin og lesari súpergóð leikkona sem getur sennilega ekki annað en leiklesið ... sem er algjörlega óþolandi til dæmis þegar eldgömlu konurnar eru að tala (gagga). En sú sem les getur samt varla annað en leiklesið bók sem fjallar um mikilvægi þess að leiklesa bækur, eiginlega ... ég ætla að reyna að gefast ekki upp ... Hef hlustað á bækur með þessari leikkonu og hún kann að lesa fyrir fólk, án þess að fara út í leikræna þjáningu. Eitt er að hlusta á hljóðbók og geta jafnvel sofnað út frá henni, annað er útvarpsleikrit sem krefst þess að maður haldi einbeitingu allan tímann. Ég ætlaði eitt sinn að prófa að hlusta á bók um Jack Reacher (eftir Lee Child) á ensku en gafst upp eftirörfáar setningar. Það var greinilega Marlboro-maðurinn sem las með murrandi, rifnum hljóðum sem áttu að vera svoooo karlmannleg í takt við Jack Reacher sem er auðvitað óbærilega flottur (í þáttunum á Amazon Prime). En hann talar ekki með svona röddu, hann er bara venjulegur.

Mynd af alvöruástarsögu, í þeirri merkingu sem flestir leggja í ástarsögur. Barbra Cartland var sannarlega siðprúður rithöfundur, og fólk hoppaði ekki saman í rúmið nema vera harðgift hvort öðru. Í eina skiptið sem hún hliðraði aðeins til með það, vissi konan að hann væri maðurinn hennar, en maðurinn þekkti ekki hlassið sem hann hafði gifst, enda hafði hún fallið í ómegin strax eftir brúðkaupið og legið í kóma í marga mánuði, eða þar til hún hafði náð kjörþyngd. Hún einsetti sér að ná ástum hans sem tókst, henni tókst meira að segja að vera á undan honum til herragarðsins þar sem hún bjó, en hann var svo mikill heiðursmaður að hann fór þangað til að biðja eiginkonuna um skilnað, sem var fáheyrt á þessum tímum, til að kvænast þessari fögru dásemd sem hann hafði sofið hjá ... þið skiljið, ég hef pottþétt skrifað um þessa bók ... man samt ekki hvað hún heitir.        


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 10
  • Sl. sólarhring: 162
  • Sl. viku: 1326
  • Frá upphafi: 1460225

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 1045
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Fótapláss ekkert
  • Facebookvinátta
  • Fótapláss ekkert

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband