Nýir heimilisvinir, óð dyrabjalla og kraftaverkakvittun

Sjöundi maí 2024Dyrabjallan stoppaði ekki í dag sem er mjög óvenjulegt heima hjá manneskju sem fann engan mun á lífi sínu í covid-samkomubanni en ég náði fleiri skrefum fyrir vikið. Stráksi kom og fór út með ruslið, klappaði kisunum, sótti þrjú ónýt úr og risastóran jólaálf ... nú er sennilega allt komið. Ég spurði hann hvort hann kynni að tengja Playstation 4 en hann hristi hausinn svo vonandi kann drengsi það sjálfur. Eða við í sameiningu með aðstoð YouTube, taka bara Hildi (fv. granna) á þetta.

 

Eldgömul vinkona kíkti líka, alveg óvænt og í fyrsta sinn, stráksi þá nýkominn til að þræla (hann bauðst til þess, þessi elska), ég í tölvunni að vinna á trilljón, svo illa stóð á. Eins og það er gaman að fá gesti er ég orðin háð því að fá fyrirvara, sem var nú alls ekki svo fyrir bara örfáum áratugum, tveimur, þremur, en ég var sem betur fer sómasamlega klædd og fínt í himnaríki, en tveir ruslapokar stóðu samt við dyrnar, og pappi/plast-poki sem stráksi ætlaði að fara út með. Svo kom elsku sýrlenska vinkona mín akkúrat þá, með disk af sérlega góðum mat og rauk svo strax heim. Jamm, Eldumrétt-fiskurinn sem átti að vera í kvöld fór í frysti. Tvisvar í dag hringdi svo sérstakur vinur minn og nágranni, níu ára, dyrabjöllunni en hann gleymir stundum lyklunum heima.

 

Ótrúleg kvittunStráksi var enn hjá mér þegar bjallan hringdi enn og aftur, nú Einarsbúð. Sending. Í fyrsta skipti á ævinni þurfti ég að skoða reikninginn fimm sinnum, því ég trúði ekki upphæðinni. Er Einarsbúð farin að námunda? hugsaði ég greindarlega en sá ýmsar upphæðir sem enduðu á 8, 9, 5 ... en samtals hljóðaði reikningurinn upp á 20.000 nákvæmlega! Ef þetta veit ekki á eldgos ... Vona bara að Arion banki stoppi ekki millifærsluna af ótta við peningaþvætti!

 

Þetta var nú bara kornflex, ostur, brauð, rjómi, kaffirjómi, bananar, mjólk og súrmjólk og eitthvað með kaffinu á morgun þegar drengsi kemur. Ég er vissulega manneskjan sem breytti Messenger milli mín og einnar systur minnar með kinninni, var að hlusta á sögu í strætó, gleymdi að slökkva á skjánum, og tókst að breyta litasamsetningunni á samskiptunum og þegar ég ýti á þumal upp-merkið, kemur pylsa með öllu. Inga vinkona er álíka sniðug, breytti samskiptum milli okkar tveggja á svipaðan hátt, nema þumallinn er körfubolti. Allt með kinninni. Og nú þetta! Ég óttaðist að mér yrði ekki trúað svo ég tók mynd af kvittuninni (sjá myndina). Þetta er eitt það æsilegasta sem ég hef lent í lengi ... algjör kraftaverkakvittun.

Veit einhver hvernig maður breytir til baka Messenger hjá sér?

 

Fréttir og slúður af Facebook - samfélagsmiðlar 

Á Facebook er eiginlega bara talað um Júróvísjón í kvöld. Þau sem horfðu voru flest hrifin af frammistöðu Heru, enda dúndursöngkona ... sem er svo sem ekki málið.

Guðni forseti sat á fremsta bekk á samstöðutónleikunum í kvöld (fyrir Palestínu) - einhver spurði:

„Mættu einhverjir forsetaframbjóðendur?“ Já, viðkomandi sá Ástþór og Steinunni Ólínu.

Alltaf af og til brjálast einhver yfir tungumálinu, að við skulum reyna að hafa það minna karllægt en það hefur verið. Sko, ef ég leita að orði í netorðabók verð ég að hafa það í karlkyni til að það finnist. Leikurinn Orðasnakk í símanum býður bara upp á orð í karlkyni. Í spennubók sem ég las yfir kom nokkrum sinnum fyrir að talað var um lögguna svona: „Kannski vita þeir í löggunni eitthvað um málið?“ Lögreglustjórinn í umdæminu þar sem glæpurinn gerðist var kona - og líka önnur aðalsöguhetjan.

Breytingar eru oft ljótar - ég gleymi ekki feginleikanum þegar prófarkalesararnir hjá Birtíngi leyfðu okkur að skrifa sprey í staðinn fyrir sprei sem var lengi vel talið hið eina rétta. Ég gat ekki vanist því, ég er samt manneskjan sem vill hafa partí (ekki ý), kósí (ekki ý), Gurrí ekki ý ... en við fengum svo oft skammir fyrir sprei, svo ljót villa, sagði fólk.

 

SiegfriedungjoyÉg ver talsverðum tíma á samfélagsmiðlum, svona símahangs ... þá tel ég líka með þegar ég hlusta á sögur með símann í vasanum að gera húsverk. Instagram fer með mér í bólið, það tekur mig um klukkutíma að fara yfir allt, þá fyndnu helgi.and.erlend (norskir en samt skemmtilegir, gera oft grín að Íslendingum (urrr) en aðallega Svíum samt), siegfriedundjoy (eru hrikalega fyndnir, sjá mynd) og greipjokes (íslenskur, frábær) en svo er venjulegt fólk, líf og ástir og örlög, og ég hef mjög gaman af því að fylgjast með: katrinedda, gudnymatt, kristaketo, thelmahilmars og helling í viðbót. Katrín Edda er vélaverkfræðingur hjá Bosch í Þýskalandi, vinnur við að þróa sjálfkeyrandi bíla, töff, falleg ljóska sem lætur útlitið ekki skemma fyrir sér, með bein í nefinu, flott fyrirmynd ... Guðný Matt og fjölskylda ferðast um heiminn á húsbíl, aðallega Evrópu, og þau eru voða viðkunnanleg og skemmtileg, Krista gerði upp hús í sveitinni í Hafnarfirði, við sjóinn, þau eru ótrúleg hjónin þegar kemur að endurbótum, Thelma er einfaldlega ofboðslega fyndin ... svo er Þórdís Gísladóttir, uppáhaldsljóðskáldið mitt, líka á Instagram og mjög gaman að fylgjast með henni. Þetta er bara örlítið brot sko!

 

Fólkið sem maður fylgist með verður ... eins og sagt var um fréttaþulina í gamla daga, hálfgerðir heimilisvinir! og mér er alveg sama þótt síminn minn skammi mig fyrir að hanga svona í símanum ... Nokkrir (tveir) áhrifavaldar eru vissulega með og þegar þeir byrja að sýna kannski snyrtivörur eða blóta köttum, skippa ég hratt. Hef meiri áhuga á hvernig til dæmis littlevikingstravel gengur að fá nýja vél í húsbílinn og hvernig óvæntu hvolpunum vegni.


Bloggfærslur 7. maí 2024

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 483
  • Sl. sólarhring: 580
  • Sl. viku: 2276
  • Frá upphafi: 1461259

Annað

  • Innlit í dag: 412
  • Innlit sl. viku: 1869
  • Gestir í dag: 405
  • IP-tölur í dag: 402

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Jón Gnarr og stráksi
  • Jörgen Klopp
  • Opið hús kl. 17

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband