Færsluflokkur: Bækur

Lestur, vinna, spælandi kökuferð og blessað boldið

GönginHér í himnaríki hefur bara verið unnið og lesið. Las skemmtilega barnabók, svolítið óvenjulega, Funhildur heitir hún, er búin með Guðmund Andra, dásamleg bók alveg, er svo með tvær í takinu núna, glæpasöguna góðu eftir Jón Hall og ævintýralega unglingabók sem heitir Göngin. Ég hef varla tíma til að vera til, hvað þá hafa magasár yfir kreppunni. Aumingja sjónvarpið, ég vanræki það þvílíkt, eins og bloggið, en ekki boldið. Og auðvitað ekki Kiljuna sem var mjög skemmtileg að vanda í kvöld.

KakaSvo var ég aðeins á ferðinni í dag með ljósmyndara sem myndaði glæstar tertur í kökublaðið okkar sem er í undirbúningi en þar sem voru döðlur í öllum kökunum og hnetur, möndlur og rúsínur, ásamt döðlum í einni var þetta ekki fitandi ferð. Síður en svo, eiginlega bara frekar spælandi kökuferð.

 

TaylorLitla stúlkan með engilsásjónuna, Alexandría, eyðilagði brúðkaup föður síns, Thorne, og væntanlegrar stjúpmóður, geðlæknisins Taylor, (sem drap óvart mömmu hennar með því að keyra drukkin á hana) með því að klippa brúðarkjólinn í tætlur sem fattaðist nokkrum mínútum fyrir athöfnina. Hún fékk faðmlag fyrir og var sagt að hún væri bara ekki tilbúin. Ef þarna er ekki verið að búa til fjöldamorðingja framtíðar þá veit ég ekki hvað. Forrester-fjölskyldan hélt blaðamannafund og sagði frá nýstofnaða tískufyrirtækinu og Nick, sem á núna gamla Forrester-fyrirtækið, horfði stjarfur af reiði á þetta í sjónvarpinu. Hann sagði mömmu sinni að hann ætlaði að ná sér niðri á þeim með afdrifaríkum hætti. Svo man ég eiginlega ekki meira. Nú er það bara upp í rúm að sofa og hlakka til spennandi strætóferðar í fyrramálið.


Kvenhatarar og mótmælendadissarar

Karlar sem hata konurVar að ljúka við að lesa þykkan doðrant sem heitir Karlar sem hata konur. Bókin fjallar reyndar ekki um suma hér á Moggablogginu, þetta er sænsk glæpasaga og með þeim betri sem ég hef lesið. Ég byrjaði að lesa undir miðnætti í gær og gafst upp, úrvinda af syfju, kl. fjögur í nótt, grútspæld yfir því að þurfa að sofa, gat síðan ekki hætt í dag fyrr en ég var búin. Höfundur skrifaði þrjár bækur og dó síðan, aðeins rúmlega fimmtugur að aldri, áður en fyrsta bókin kom út. Það er grein um hann í Lesbók Morgunblaðsins í gær.

Held bara að með þessum rólegheitum um helgina, lestri, svefni, lestri, svefni (lasagna-bataaðferðin) hafi ég náð úr mér byrjandi lasleika. Andleysið er reyndar gígantískt.

P.s. Mikið var ég annars ósátt við hádegisfréttirnar á Stöð 2 í dag, þar fannst mér ekki laust við að það væri hæðst að þessum „500“ mótmælendum (sem er greinilega hin opinbera tala) og gefið í skyn að þeir gætu ekki komið sér saman um tímasetningu. Ég skildi þetta þannig að það væru tveir mótmælafundir, annar kl. 15 og hinn kl. 16 og væri blysför. Mér finnst fínt að mótmæla þögn ráðamanna, við eigum ekki að þurfa að lesa í erlendum fjölmiðlum hvað er í gangi á Íslandi. Að vísu róaði Ingibjörg Sólrún eflaust ansi marga á síðasta blaðamannafundi þegar hún sagði hvers vegna þögnin þyrfti að vera í sambandi við lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, flott hjá henni. Ætli Geir átti sig á því að hitt getur virkað sem hroki og fái fólk upp á móti honum?


Bjöllupyntingar, lestrarsýki, veðurguð og ófarðaðar jafnöldrur ...

DyrabjallaDyrabjallan hringdi klukkan hálfníu í morgun. Ég hoppaði í snarhasti framúr, greip sjúkrakassa, slökkvitæki og hlýtt teppi og svaraði lafmóð: „Halló, hver er þetta?“ „Já, bla bla læsti mig úti bla bla.“ sagði óskýr kvenmannsrödd í dyrasímanum. „Ha,“ hváði ég, enda heyrast yfirleitt ekki orðaskil í þessum dyrasíma. „...læsti úti ...bla bla,“ endurtók röddin. Í uppgjöf minni ýtti ég bara á opna. Ég þurfti sem betur fer ekki að byrja upp á nýtt að sofa, eins og komið hefur fyrir ef prinsessusvefn minn er rofinn, heldur nægðu þrír tímar til að ná þessu upp. Jamm, ævintýrin gerast heldur betur hér í himnaríki. Ég sem hélt að ég ætti fullkomna nágranna ... nema þetta hafi verið glæpakvendi, sölukona eða trúboði sem nýtti sér veikleika minn svona snemma morguns til að komast inn í stigaganginn. Ég heyrði þó engin öskur í ástkærum grönnum mínum svo líklega býr hún bara hér í húsinu en er örugglega aðkomumaður ... hehehe. Himnaríki er alltaf læst svo ekki komist syndarar inn, nema þá helst dauðasyndarar á borð við kaffi- og tertusjúklinga.

Síðasta uppgötvun EinsteinsMér tókst, þrátt fyrir mikla syfju í gærkvöldi, að ljúka bókinni Svartnætti. Hún var bara ansi skemmtileg og annar krimmi er kominn í lestur; Síðasta uppgötvun Einsteins. Hún er eftir Mark Alpert og lofar ansi hreint góðu. Ætli ég fórni ekki heilum Manchester-fótboltaleik kl. 15 í dag fyrir hana. Henni er af einum gagnrýnanda líkt við Da Vinci lykilinn nema eðlisfræði í stað myndlistar ... Aðrir gagnrífendur halda vart vatni og sá sem skrifaði eina frægustu ævisögu Einsteins, Walter Isaacson, sagði: „Vá, Einstein hefði orðið hrifinn af þessari bók!“ Ég reyni yfirleitt að láta svona ummæli ekki hafa áhrif á mig, sumum fannst t.d. Da Vinci Code ekkert sérstök og það gæti fælt þá frá ... Best að lesa og dæma bara sjálf.

MadonnaÞað er ansi haustlegt út að líta hér við himnaríki, alskýjað og smá öldur og bara yndislegt. Það var líka haustlegt veðrið í júní sl., minnir mig, þegar lægð heimsótti okkur. Ég trúi öllu sem veðurguðinn minn, Nimbus, segir um vetur, sumar, vor og haust og það er ekki komið haust, það er bara miður ágúst. Sem minnir mig á að óska jafnöldru minni, Madonnu, innilega til hamingju með afmælið í gær. Myndir af henni ófarðaðri hafa gengið um bloggheima og fólk hefur talað um hvað hún sé ljót! Myndin er reyndar ekki góð af henni, alls ekki, en mér finnst Madonna mjög flott kona.

Sjálf steingleymdi ég að hafa förðunaræfingu nokkrum dögum fyrir afmælið mitt og athuga hvort ég þyldi farða eftir sólbrunann agalega í júlí, þannig að ég Barn í afmælisgjöfsleppti öllu pjatti. Á myndum finnst mér ég heldur rjóð og óinterísant en verra hefði þó verið ef fésið hefði stokkbólgnað og afmælisgestir orðið hræddir, hlaupið út aftur og þá hefði ég ekki fengið allar þessar flottu gjafir. Skartgripir, föt, dekurkrem, baðbombur, bækur, lampi, blóm, listaverk, trefill með innbyggðri húfu, Radiohead-diskur, grifflur, peningar, gjafakort og fleira og fleira, að ógleymdu barninu þeirra Auðnu og Andrésar sem fæddist 10 mínútum áður en ég varð löglega fimmtug. Skyldi ég fá að velja nafnið á litlu dömuna?


Ógreidda sætið, Connelly og Wallander ... örbold

Ógreiddur maðurÞað voru heilmargar og stórmerkilegar strætósögur sem áttu að fara á bloggið í gær en föstudagsannir í vinnunni og svo syfja á föstudagskvöldum breytir bestu áætlunum um að blogga. Það sem stendur upp úr er að nýr ógreiddur maður er kominn til sögunnar í leið 18 og mun huggulegri (og eldri) en sá fyrri. Ég get víst ekki lengur talað um ógreidda menn, heldur er ég viss um að sætið sem þeir hafa valið sér hafi eitthvað með þetta að gera. Þessi nýi var í nákvæmlega sama sætinu og sá fyrri valdi sér alltaf og þá er þetta bara orðið spurning um sætið, finnst mér.

Við vorum tvö í leið 27 frá Akranesi í gærmorgun með sömu bókina. Hinn, maður sem hélt áfram að lesa standandi á stoppistöðinni í Mosó, var með nýja bók eftir Michael Connelly, Svartnætti. Eftir að ég las Skáldið eftir hann er ég Blóðskuldhúkkt á bókunum hans. Ef þið munið eftir bíómynd þar sem Clint Eastwood lék lögreglumann sem hafði fengið hjartaáfall í eltingaleik við glæpamann. Kona var myrt og svo heppilega vildi til að hún var í sama, sjaldgæfa blóðflokki og löggan og hann fékk hjarta hennar. Aðrir líffæraþegar voru síðan myrtir síðar og löggan okkar, ekki beint kominn til starfa aftur, leysti þó málið. Í myndinni var kunningi löggunnar látinn vera sá seki en alls ekki í bókinni, sem heitir Blóðskuld. Já, þessi nýja bók fjallar um sömu lögguna og kunninginn er enn kunningi, hvernig ætla kvikmyndagerðarmennirnir að láta Eastwood redda þessu? Löggan er auk þess MIKLU yngri en sjötíu plús.

Wallander hinn sænskiVið erfðaprins steinsofnuðum síðan bæði yfir Wallander í gærkvöldi, ég í leisígörl, hann í leisíboj, sem við geymum fyrir vinkonu mína. Algjör synd, myndin lofaði svo góðu.

Núna kl. 13 á að byrja að innrétta íbúðir fyrir flóttafólkið þannig að ég get ekki horft á boldskammt vikunnar. Ég hef þó séð sitt af hverju: Jackie fór í stóra aðgerð á sjúkrahúsinu og óvinur Stefaníu, Donna, systir Brooke, sem varð vitni að slagsmálum Jackiear og Steffí, hótar að segja lögreglunni að Steffí hafi hrint Jackie. Nick er alveg brjálaður yfir þessu og rifjar upp góðar stundir með móður sinni við undirleik lyftutónlistar, mjög átakanlegt. Lofa svo að fylgjast voða vel með í komandi viku.


Karlarnir í strætó sögðu "sæt, sæt, sæt!"

Daðrað í strætóFann mikinn mun á öllu umhverfi mínu í morgun og hvernig það brást við tilveru minni og andliti. Karlarnir í strætó sögðu sæt, sæt, sæt og strætóbílstjórarnir heimtuðu ekki að sjá græna kortið mitt tvisvar, sem samsvarar því að borga tvöfalt í strætó, en það hafa þeir gert undanfarið. Jú, leðurfésið fer hverfandi, eins og glöggir lesendur hafa án efa áttað sig á, og týnda fegurðin er alveg við það að finnast. Indverjunum mínum heldur áfram að fækka, voru bara þrír eða fjórir í leið 18 morgun og fóru út á sama stað og ég. Ógreiddi maðurinn enn horfinn!

Góði strákurinnTókst að lesa aðra frábæra spennubók í slapplegheitunum og að þessu sinni nýútkomna þýðingu á bók eftir Dean Koontz, The Good Guy! Góði strákurinn. Tim Carrier situr í sakleysi sínu á barnum þegar inn kemur maður og fer að tala við hann. Fljótlega áttar Tim sig á því að maðurinn heldur að hann sé leigumorðingi og áður en hann veit af er hann kominn með umslag með peningum, mynd af konu sem á að myrða og gaurinn horfinn. Honum tekst ekki að stoppa manninn en þegar rétti leigumorðinginn kemur inn og heldur að Tim sé leigutakinn segir Tim honum að hann geti hirt peningana en áð hann sé hættur við samninginn. Hann veit þó að þetta virkar ekki til lengdar til að stoppa leigumorðingjanna af og ákveður Tim að reyna að bjarga fórnarlambinu frá grimma en góðlega leigumorðingjanum ... Þegar ég beið í apótekinu eftir nýja ofnæmislyfinu mínu stóð ég þar eins og þvara á miðju gólfi í korter og las ... það var engin leið að hætta. Mér brá samt svolítið fyrst þegar ég sá bókina og las aftan á hana og hélt að íslenski útgefandinn hefði ruglast eitthvað og gefið út sömu bókina tvisvar í röð. Fannst eitthvað líkt með byrjuninni á bókunum báðum en það var algjör ímyndun hjá mér. Léttir, léttir ...

Jæja, vinnan bíður. Óska ykkur bæði frama og/eða friðsældar í dag!


Af sápuóperum og spennubók

Ljóta LetyÍ gær lullaði Stöð 2 á allan daginn og án þess að ég væri fyrir framan tækið tók ég eftir því að spænska var mjög áberandi fyrrihluta dags. Ákvað að kanna málið á Netinu og sá að komnar eru á dagskrá tvær sápuóperur í stað einnar þar sem töluð er spænska (eða portúgalska, þekki ekki muninn). Eftir boldið, sem er góðkunn ammrísk sápa, hófst þátturinn Ljóta Lety, fyrirmyndin að Ljótu Betty, eða La Fea Más Bella. Síðan eftir hádegisfréttir og áströlsku sápuna NágrannarNágranna tók við Forboðin fegurð, ný suðuramerísk smásápa í 114 þáttum og voru sýndir 3. og 4. þáttur í gær alveg til kl. 14.30. Þar er fjallað um þrjár hálfsystur sem alla tíð hafa liðið mjög fyrir fegurð sína ... Svo kom blessað boldið aftur í endursýningu og Nágrannar í kjölfarið. Segið svo að sápuóperur séu ekki vinsælar, bara í gær voru sex sýningar.

Mikið hlakka ég til að setjast í helgan stein ... sem verður pottþétt í leisígörl fyrir framan Stöð 2. Get fylgst með fallega fólkinu og lífi þess og lært framandi tungumál í leiðinni. Stundum horfi ég á Nágranna og skil áströlsku núorðið mjög vel.

Sænska bókarkápanSjónvarpsdagskráin var síðan hundleiðinleg í gærkvöldi, skárst á RÚV, og ég byrjaði að lesa nýja bók eftir Lizu Marklund, Lífstíð. Annika Bengtzon blaðakona er aðalpersónan í henni og kannar morð á lögreglumanni. Þessi bók byrjar þar sem Arfur Nóbels endaði en þar slapp hún naumlega út úr brennandi húsi með börn sín tvö ... Bækur Lizu Marlund eru allar frábærar og þessi lofar mjög góðu. Ætla að klára hana á eftir og hlakka mikið til.

Í morgun hefur lífið við Langasandinn verið eins og í myndinni The Birds, mávager og önnur krútt sveima í stórum flokkum fyrir framan og hafa Svona ...kettirnir verið á gluggaveiðum í allan morgun. Sitja ógurlega spenntir og stara. Erfðaprinsinn kom til mín áðan og sagði sannfærandi: „Það er allt annað að sjá þig!“ Ég leit í spegil og sá að andlitið var eldrautt og enn bólgið og ferkantað (hamstursfés). Ég kýs samt miklu frekar svona krúttlega lygi en ískaldan sannleikann.


Hjartalæknir í Skagastrætó - ný lífsreynslusögubók komin út!

StrætóLoksins mætti ég með galopin augu í strætó í morgun eftir langþráðan mátulega langan nætursvefn. Bjóst alveg eins við að splunkunýi bílstjórinn úr móðu undanfarinna morgna væri jafnvel kona eða þaðan af verra ... eftir gott frí hef ég ekki verið nema skugginn af sjálfri mér eftir að þurfa að vakna uppúr sjö á morgnana, les lengi frameftir og sýni vítavert kæruleysi í því að reyna að fá almennilegan nætursvefn. Bílstjórinn reyndist alveg vera hinn skemmtilegasti karl, eins og mig minnti, og sagðist hafa sett met í morgun ... eða ekið með heila fjóra farþega frá Mosó til Akraness í fyrstu ferð. Helmingur farþega voru víst læknishjón, karlinn hjartasérfræðingur og á helgarvakt á sjúkrahúsinu. Það datt óvart af mér andlitið eitt augnablik ... læknir í strætó?? En hví ekki? Er ég ekki virðulegur blaðamaður, meira að segja aðstoðarritstjóri? Hví kýs ég strætó? Ja, ekki er það af neinum lúðahætti, ég þori bara ekki að keyra bíl ... Læknirinn tók víst rándýrar endurbætur á stofu sinni framyfir að eiga bíl ... og vá hvað ég skil hann. Öruggur með sig, þarf ekki stöðutákn á borð við jeppa. Er ekki líka svolítið flott að aka um í stórum, dýrum bíl og hafa einkabílstjóra?

Yfirleitt eru ansi fáir með fyrstu ferð á Skagann á morgnana á meðan fara tvær rútur af fólki í hina áttina, eða til Reykjavíkur. Notkun hefur greinilega aukist eftir skelfilegar bensínhækkanir síðustu vikna því það nægði að hafa bara einn vagn í fyrstu ferð allt sumarið í fyrra. Ég fór meira að segja stundum heim á Skagann með rútukálfi sl. sumar. Engin Elín kom upp í strætó í Mosó í morgun, ég sat með þrumusvip á andlitinu til að enginn þyrði að setjast hjá mér (eftir sundurstíun á okkur Elínu undanfarna morgna). Þegar mér loks tókst að taka frá sæti þá klikkar hún ...

Indverskur forritariÓgreiddi maðurinn sat í sama sætinu og í gær og breiddi svo vel úr sér að ég sá að hann var í brúnum, mjög illa burstuðum skóm. Sumir þjást af hræðslu við kóngulær eða töluna 13 og aðrir óttast skuldbindingu, þessi ungi maður gæti verið burstafælinn (hárbursta-, skóbursta- osfrv.) Svo var allt gert til að rugla mig og þýðandann í ríminu, nú fór hluti Indverjanna út á gamla staðnum og stærri hluti út um leið og við, nema sá ógreiddi kom út um leið og við, eins og í gær. Einhvern morguninn ætla ég ekki í vinnuna, heldur elta samferðamennina, bara til að geta sagt ykkur hvert liðið mitt fer. Við verðum alla vega að komast að því hvar sá ógreiddi vinnur, ekki satt? Minnir að Indverjarnir (karlar plús ein kona) séu hjá Glitni við tölvuforritun.

Bókin í fyrraNú var að koma út bókin 50 íslenskar lífsreynslusögur, fallega túrkísblá að lit og inniheldur 15 djúsí splunkunýjar lífsreynslusögur og 35 eldri sögur sem hafa birst í Vikunni áður. Vá, það var svo gaman að rifja þessar sögur upp. Sigurjón M. Egilsson, ritstjóri Mannlífs, sá mig handleika fyrsta eintakið (ógurlega montna, eins og Þingeyinga aftur í ættir er siður) og sagði vingjarnlega: „Ég veit að þú samdir allar þessar sögur sjálf ... og þar að auki ertu völva Vikunnar!“ Ég vissi ekki hvort ég ætti að vera upp með mér yfir þessu áliti hans eða móðguð fyrir mína hönd, völvunnar og Völvublaðið fyrir 2007fólksins sem hefur sagt mér sögur sínar ... Ég hallast að því að þetta teljist hrós og SME álíti mig einstaklega hugmyndaríka, fallega, gáfaða og að auki með miðilshæfileika. Hver annar en miðill (völvan okkar) hefði getað sagt fyrir um lætin í borginni og að borgarstjórin myndi springa, hún segir reyndar að ríkisstjórnin springi líka ... Eina sem mér finnst ólíklegt að rætist hjá völvunni er að ÍA berjist um fyrsta sætið við Val í Landsbankadeild karla! Hún hlýtur að hafa lesið hugsanir mínar og tekið inn óskhyggjuna þegar ég tók viðtalið við hana ... ég held með ÍA og finnst Gaui Þórðar ekki fram úr hófi skapmikill, bara eðlilegur fótboltaþjálfari! Hverjum er ekki illa við dómara? Hér að ofan sést mynd af lífsreynslusögubókinni sem kom út í fyrra. Þessi nýja er næstum alveg eins í útliti ... nema túrkísblá!


Fimm ógæfudagsetningar og frábært talnaspekidagatal ...

Búin að sitja á svölunum í klukkutíma, vel varin af sólvörn en tók smá pásu af virkilega eðlilegum ástæðum. Hávær sláttuvél frá bænum er í gangi fyrir neðan og að auki er „súkkulaðibíllinn“ mættur með slöngur og dælur til að hreinsa kamrana við Langasand, á hlaðinu hjá mér. Jæks!

Þetta er síðasti virki dagurinn í sumarfríi og mér finnst honum ágætlega varið í sólinni.

Spennandi bókEr að lesa einstaklega spennandi bók sem heldur mér rólegri on the svals. Hún er eftir Dean Koontz, heitir Life Expectancy og segir frá Jimmy sem fæðist óveðursnótt nokkra (9. ágúst 1974) á sömu mínútu og afi hans, kökugerðarmeistarinn, deyr. Rétt áður hafði fárveikur afinn, öllum að óvörum, farið að tala og spáð fyrir um nokkra hættulegar dagsetningar í lífi ófædda barnsins og sagt ýmsa hluti sem hann átti ekki að geta vitað. Sömu nótt fæddist annað barn, sonur trúðs við sirkus sem var í heimsókn í bænum, konan dó en barnið lifði. Í reiði sinni og sorg skaut trúðurinn lækni og hjúkku, hljóp út með barnið og hvarf. Pabbi Jimmy hafði reykt með honum á biðstofu feðranna og var hálf smeykur við trúðinn. Honum fannst skrýtið þegar hann skrapp til pabba síns á sama sjúkrahúsi að sá gamli varaði hann við trúðnum ... úps. Nú bíð ég bara eftir því hvað gerðist fyrsta daginn af þessum fimm hræðilegu dögum sem afi Jimmys sagði fyrir um. Elska svona bækur. Þær eru margar góðar eftir Koontz en ein þeirra, Demon Seed, er þó líklega með verri bókum sem ég hef lesið. Vona að Skjaldborg haldi áfram að þýða bækurnar eftir hann og það bara beint í kilju!

Einu sinni skrifaði ég grein um dagsetningar og hvaða orka fylgir hvaða mánaðardegi út frá talnaspekinni. Jú, maður finnur margt á Netinu ... Þetta birtist í Vikunni og hér kemur þetta á blogginu. Dagurinn í dag er t.d. tilvalinn til að hvetja fólk til góðra verka! Góða skemmtun! (Þetta er nú bara samkvæmisleikur ...)


Hvað er best að gera hvenær!

Samkvæmt talnaspekinni hefur hver dagur mánaðarins sína merkingu. Gott er t.d. að prófa eitthvað nýtt fyrsta dag mánaðar og þann tólfta ætti maður að reyna að brjóta upp mynstur, jafnvel breyta atburðarás ef maður getur. Hér kemur listi yfir alla daga mánaðarins og þá orku sem hver þeirra hefur.

1. dagur mánaðar er góður til að prófa eitthvað nýtt, opna fyrir nýjar hugmyndir og breyta aðferðum, jafnvel fá þér nýja klippingu.

2. dag mánaðar skaltu leggja þig fram við að vera samstarfsfús gagnvart fjölskyldu, vinum og samstarfsmönnum.

3. dagur mánaðar er góður til að ræða málin við fjölskyldu, vini og samstarfsmenn.

4. dagur mánaðar er góður til að koma öllu í röð og reglu, bæði í vinnunni og á heimilinu.

5. dag mánaðar er gott að tala hreint út, sleppa tökum og losa sig úr fjötrum.

6. dagur mánaðar er góður til að fást við allt sem tengist tilfinningunum og andlegum málum.

7. dag mánaðar er gott að íhuga og yfirfara verkefni og ljúka við það sem þú hefur á þinni könnu.

8. dag mánaðar er gott að fást við þau mál sem tengjast vinnu, viðskiptum og eigin fjármálum.  

9. dag mánaðar skaltu sýna mannlegu hliðarnar og koma vini og/eða nágranna til hjálpar.

10. dag mánaðar er gott að hefja nýjar áætlanir sem tengjast framtíð þinni.  

11. dagur mánaðar hentar vel til að taka á móti hugljómun og góðum straumum.

12. dag mánaðar er snjallt að nota til að brjóta upp mynstur eða breyta atburðarrás.

13. dagur mánaðar er góður til þess að líta yfir farinn veg og vega og meta árangur þinn.

14. dagur mánaðar er dagur ævintýramennsku, nú er rétti dagurinn til að taka áhættu.

15. dag mánaðar er gott að nýta sér þá kænsku sem þú býrð yfir og taka stjórnina í þínar hendur.

16. dagur mánaðar er dagur mikillar orku og þér gengur vel að ljúka verkefnum þínum.  

17. dagur mánaðar er hentugur til að koma sér á framfæri við aðra.

18. dag mánaðar er gott að horfa jákvæðum augum á líf sitt og umhverfi ... í gegnum rósrauðu gleraugun.

19. dagur mánaðar er sá dagur sem gott er að vera á réttum stað á réttum tíma.

20. dagur mánaðar hentar vel til þess að renna yfir valkostina og velja þann besta.

21. dagur mánaðar er hentugur til að skreppa út fyrir bæinn eða skella sér á spennandi stað, listasafn eða veitingahús.

22. dag mánaðar er gott að taka yfirvegaðar ákvaðanir og finna leiðir til að taka á vanda síðustu daga.

23. dagur mánaðar er vel til þess fallinn að grípa þau tækifæri sem bjóðast.  

24. dagur mánaðar eru dagurinn til að opna nýjar dyr og búa til ný sambönd.  

25. dagur mánaðar er góður til þess að nota orku, kraft og einbeitingu þína í að leysa smáatriðin í lífi þínu.

26. dagur mánaðar er dagur sköpunar og skemmtunar.

27. dagur mánaðar er tilvalinn til að hvetja fólk í kringum þig til góðra verka.

28. dagur mánaðar er góður til að finna nýtt athvarf, t.d. nýtt og spennandi kaffihús.

29. dag mánaðar er gott að nota til að velja bestu tækifærin.

30. dagur mánaðar hentar vel fyrir sjálfsdekur; nudd, snyrtingu eða í heilsulind.

31. dagur mánaðar er rétti dagurinn er til að leggja línurnar í erfiðum málum.

 


Með leigumorðingja á hælunum og dularfullt kattarhvarf

LeigumorðinginnNóttin var fáránlega annasöm. Gerður hafði verið út leigumorðingi til að drepa okkur erfðaprins og vorum við á flótta undan honum í alla nótt. Við þurftum á allri okkar kænsku og ráðsnilld að halda því þetta var ansi klár morðingi, asískur að uppruna. Við flúðum og földum okkur um allt Akranes og var t.d. María í Skrúðgarðinum okkur afar hjálpleg, líka Nína í samnefndri tískubúð (þar sem Dorrit kaupir stundum fatnað). Þetta er sko ekki í fyrsta sinn sem þessi leigumorðingi eltist við okkur en við höfðum alltaf haft betur. Ekki veit ég hver gerði hann út, kannski einhver bloggóvina minna ....

BókinVaknaði upp af martröðinni kl. 6 í morgun og þorði ekki að sofna aftur ... sem náttúrlega mistókst.

Þetta hlaut að vera fyrir einhverju ... og jú, þriðji ísbjörninn ... (hehhehe, djók), Bjartur var týndur!!! Gestakötturinn í himnaríki var horfinn sporlaust. Hann sem var að leika sér áhyggjulaus í nótt þegar ég las græðgislega Tré Janissaranna, æsispennandi bók sem gerist í Istanbúl árið 1836. Við erfðaprins leituðum um allt, kölluðum, mjálmuðum og hvaðeina, sérstaklega í þvottahúsinu þar sem Bjartur hefur helgað sér svæði (ekki þó með því að spræna þar). Þegar erfðaprinsinn var búinn að leita af sér allan grun umhverfis himnaríki og kominn alla leið í Hjarðarholtið þar sem heimili Bjarts er og kallaði þar fyrir utan datt mér í hug að leita bak við þurrkarann í himnaríki. Þar lá Bjartur í makindum og sagði bara mjá þegar hann sá mig. Þvílíkur léttir.

Leitin að BjartiErfðaprinsinn var búinn að gera leitaráætlun og átti að beita öllum tiltækum ráðum, það er jú þyrlupallur við hliðina á himnaríki. Ég sá mág minn fyrir mér með brostið hjarta og mitt var byrjað að bresta yfir öllum þessum hryllingi. Það er mikil ábyrgð að passa kött.

Svo tók skynsemin völdin. Bjartur hafði ekkert leitað upp í opna glugga, virtist frekar lofthræddur hérna uppi á 4. hæð og líka ólíklegt að hann hefði Bjartur í pössun í fyrrasloppið við beinbrot ef hann hefði hoppað út um glugga.

Þetta dýrlega dekurdýr hefur bara ekki nennt að svara „frænku“ þegar hún kallaði örvæntingarfullt á hann. Nú étur hann kattamat í gríð og erg og erfðaprinsinn er að klappa honum í ræmur. Hann var búinn að aflýsa Einarsbúðarferð því að Bjartur gekk fyrir öllu. Allt er gott sem endar vel, nema ég vaknaði áður en við erfðaprins réðum niðurlögum leigumorðingjans. Held ég þrái samt ekkert þennan draum einu sinni enn. Kannski ég lesi bara krúttlega kjéddlíngabók í kvöld.


Af bæjarferð, veðmálum og símarugli ...

Phil CollinsÞjóðverjum gengur bara vel í leiknum. Ég hefði veðjað á þá í veðbankanum í vinnunni ef ég væri ekki í sumarfríi. Annars sat svolítið fast í mér það sem ég las í blaði fyrir skömmu að þeir sem halda með Þjóðverjum líta á Phil Collins sem flottan tónlistarmann. Well, ég myndi nú aldrei kaupa sólóplötu með honum en hann var góður í Genesis í gamla daga (Selling England by the Pound, Foxtrot o.fl.) en líklega var það Peter Gabriel sem setti standardinn þar á bæ.

Ástandið í Mosó í dagVið erfðaprins skruppum í bæjarferð í dag þrátt fyrir fádæma bensín-nísku upp á síðkastið. Sumir ganga lengra en aðrir í sparnaði og við lentum fyrir aftan tvo aðila sem óku á 70 km/klst. Þann seinni (venjulegur fólksbíll) rétt áður en við fórum í göngin á heimleið. Við veðjuðum (upp á ekki neitt), erfðaprinsinn sagði að viðkomandi myndi aka á 50 í gegnum göngin en ég sagði 70. Hvorugt sigraði. Karlskrattinn ók á 60. Ekkert ólöglegt en svakalega var röðin orðin löng fyrir aftan hann. Svo mættum við líka bílalestum en þetta var þó ekkert á við að vera í umferðinni ógurlegu í Reykjavík á háannatíma.

 

Nokia 3310 krúttiðÉg fór í búð í Ármúlanum, man ekki hvað hún heitir en þar fást sjónvörp og slíkt OG loksins batterí í fornaldarsímann minn frá Nokia, 3310-símann sem uppáhaldsfrænkurnar, Margrét og Dagbjört, gáfu mér um árið. Aðalgemsanúmerið mitt er staðsett í þeim síma sem drepur á sér við hverja hringingu í hann. Ég rétt næ að öskra: „Hann er að drepa á sé ...“, hef notað þetta krútt í SMS-in, enda einfaldur og þægilegur sími. Nýi síminn sem erfðaprinsinn gaf mér í jólagjöf hefur innanborðs vinnunúmerið mitt og ég verð að hafa hann tiltækan. Ég er svo lítill græjusjúklingur að mér finnst tímasóun að verja kvöldstund í að læra á hann. Ef ég ýti á c-ið eða mínus þá fer kvikindið að taka upp tautið í mér (record-kjaftæði eitthvað). Ef ég gleymi að læsa honum og rek töskuna mína í fer hann að spila tónlist sem fylgir einhverjum leik. Nei, ég er upptekin kona og kýs einfaldleikann í símum. Ég á myndavél og þarf hana ekki í síma. Verst að gamli hlunkurinn (elsti Nokia-snúllinn) var kominn að fótum fram þegar ég lagði honum eftir margra ára notkun, og ég keypti hann notaðan á sínum tíma. Rafhlaðan í þennan þótti forngripur og kostaði yfir 4.000 kall en var alveg þess virði. Dugir í þrjú ár. Jamm, það sem ég ætlaði að segja var að þjónustan þarna var alveg frábær!

Eftir Hugleik DagssonNý Hugleiks-teiknimyndabók var að koma út, Ókei bæ tvö, og virðist sama snilldin og hinar bækurnar hans. Svo var að koma út í kilju Engin spor eftir Viktor Arnar Ingólfsson, það verður gaman að rifja hana upp. Minnir að hún hafi verið góð.

Fékk líka í hendur ansi girnilega safnplötu (diska) sem heitir 100 bestu lög lýðveldisins. Líst ansi vel á hana.

Svo líður að því að Lífsreynslusögubókin 2008 fari að koma en hún inniheldur 15 splunkunýjar lífsreynslusögur og 35 eldri. Ég sat sveitt yfir henni öll kvöld og helgar um nokkra tíð og afraksturinn fer að koma. Verst að sitja í sumarfríi á Skaganum þegar ég ætti að vera með puttana í hlutunum.


Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 215
  • Sl. sólarhring: 257
  • Sl. viku: 1759
  • Frá upphafi: 1453918

Annað

  • Innlit í dag: 173
  • Innlit sl. viku: 1461
  • Gestir í dag: 162
  • IP-tölur í dag: 160

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Sven-Göran
  • Hálka
  • Sumardagurinn fyrsti 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband