Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Idol-uppsögn og bíórythmi íslensku þjóðarinnar

Idol upplifunKona sem ég þekki missti vinnuna í Landsbankanum á dögunum eins og svo margir. Hún sagði upplifunina hafa verið skelfilega. Aðferðin við uppsögnina var vond, að hennar mati, en samt vildi hún meina að hugsunin á bak við hana hafi örugglega verið góð, eða að tala persónulega við alla, ekki flytja fréttirnar með tölvupósti eða í ábyrgðarbréfi heim. Fólk var kallað, eitt í einu, inn á skrifstofu og kom síðan fram ýmist bugað eða yfir sig hamingjusamt með ráðningarsamning í hönd. Þetta minnti konuna óþyrmilega á Idol-stjörnuleit. Tvær konur sem héldu vinnunni föðmuðust t.d. fagnandi þegar sú seinni kom fram með góðar fréttir og aðrir biðu með kvíðahnút í maganum eftir að vera kallaðir inn. Alveg eins og í Idol. Ég held að mér hefði þótt betra að fá uppsögn í tölvupósti og dílað við það ein, ekki í augsýn allra. Það er auðvitað misjafnt hvernig fólk vill láta tækla svona mál og örugglega afar erfitt að sitja hinum megin við borðið og flytja fólki slæmar fréttir. Svo hefðu eflaust einhverjir kvartað sáran yfir kuldalegri uppsögn ef hún hefði borist bréfleiðis, að það hefði verið það minnsta að tala við hvern og einn! Samstarfskona mín lenti í svona uppsögn fyrir mörgum árum og var kölluð inn síðast. Henni fannst biðin óbærileg. Þá var það þannig að bara þeir sem misstu vinnuna voru kallaðir inn á teppið.

Annars fannst mér skrýtið að lesa um að prestur hafi blessað bankafólk, sjá www.dv.is, af hverju, fyrst hann var að þessu á annað borð, blessaði hann ekki ALLA sem misst hafa vinnuna? Það eru nokkur þúsund manns í þeim sporum.

Ég glotti subbulega þegar ég sá í færslu JVJ í gær: „Hætta ber allri bullsóun í ríkisrekstri (félagsmálafemínistavitleysu ýmissi ...)“ Vésteinn Valgarðsson skrifaði athugasemd við færsluna og spurði hvort ekki væri þá ráð að ríkið hætti að dæla fé í kirkjuna og nefndi háa upphæð sem ég get því miður ekki endurtekið þar sem búið var að eyða athugasemd VV og ég man ekki upphæðina.

biorythmi_islensku_thjo_arinnar_5_okt_sl_698418.gifÉg er ofsótt af útlenskri netspákonu sem ég get ekki sagt upp. Í gær gerði ég enn eina tilraunina til að reyna að afmá mig af póstlista hennar en kíkti fyrst inn á bíórythmann minn og sá að hnerrinn undanfarna daga og oggulítið kvef stafar eingöngu af því að líkamlega staðan mín er í botni þessa dagana. Ég prófaði að gamni að setja íslenska lýðveldið, 17. júní 1944, inn í bíórythmann og dagsetninguna 5. október 2008. Áhugavert að sjá ástandið á þjóðinni þennan dag, líkamlega næstum í toppformi en vitsmunalega og tilfinningalega í mikilli lægð. Segið svo að svörin liggi ekki þarna ... heheheh! Jæja, farin í sjúkraþjálfun!


Guðsbörnin ...

Muna ekki allir eftir Guðsbörnunum sem settu svip sinn á íslenskt samfélag á áttunda áratugnum? Krúttlega fólkinu sem fór út í búð og lét skrifa vörurnar hjá guði, dreifði bæklingum sem hvatti konur til að brenna brjóstahaldarann sinn og fleira. Ég vissi að safnaðarmeðlimir seldu allar eigur sínar og gáfu til safnaðarins og stundaði svo trúboð grimmt, m.a. í Austurstræti. Skemmtilegt og gott fólk, svolítið hippalegt en það var sko ekki verra.

Þegar mér bauðst að fara með vinkonu minni yfir helgi í herbúðir Guðsbarna í Borgarfirðinum sló ég til, var 14-15 ára þá. Hún átti vinkonu í söfnuðinum og skólafélagi okkar var þar líka. Við fórum fjögur saman á puttanum, tveir strákar og tvær stelpur, öll á svipuðum aldri. Við skiptum liði, enda auðveldara að fá far fyrir tvo en fjóra. Bílstjórinn sem tók mig og annan strákinn upp í var mjög indæll. Hann bauð okkur upp á gos og smurt brauð í Botnsskála, allt í boði Sambandsins. Ég fékk líka smá samviskubit þegar Sambandið fór á hausinn nokkrum árum seinna.

davidberg12Fréttabréf Moses DavidMikil ást ríkti í húsinu í Borgarfirðinum, meira að segja sæti hvolpurinn hét Ást. Á laugardagskvöldinu var bænastund og danskur strákur, greinilega leiðtogi, las bréf frá stofnanda safnaðarins, Moses David (sjá mynd). Ég sat úti í horni og reyndi að láta lítið fyrir mér fara, spennti greipar þegar það átti við, tók undir Faðir vorið, hlustaði bara og fylgdist með. Mér er enn minnisstætt hvað mikið var talað um djöfulinn og lymsku hans í bréfinu frá Moses David. Hann sagði að allir þeir sem efuðust um orð hans væru útsendarar frá djöflinum. Af því að mér fannst eitthvað ekki alveg rétt þarna fór mér sem ungri, óöruggri stúlku að líða skringilega, ég fann fyrir þessum djöfullega efa sem góði Daninn að það þýddi að sá vondi væri að tæta í mér. Ég hélt að ég hefði engin svipbrigði sýnt en samt sneri sá danski sér að mér í þeim tilgangi að frelsa mig hér og nú. Sem betur fer talaði hann ensku, sem ég skildi aðeins, og hafði ráðrúm til að hugsa á meðan íslenski túlkurinn endursagði orð hans á íslensku. Það var ansi óþægilegt að láta tugi manns horfa á sig þarna og krafa kvöldins var að ég brotnaði niður og cog-bustæki Jesú inn í hjarta mitt.
Óbreytt orð Danans, sem bætti við að ef ég
COGHistorygerði þetta ekki þyrfti ég að fara ... Borgarfjörður, seint um kvöld, hmmm. Hann hlaut að vera viss um sigur í þessu máli. Ein safnaðarstelpan sagði hughreystandi við mig að sleppa mér bara, guð hefði líka auðmýkt hana þegar hún frelsaðist. Þrátt fyrir þessa girnilegu hvatningu þrjóskaðist ég við og var send í gönguferð með skólabróður mínum úr söfnuðinum. Ég þorði að tjá mig við hann, sagði að ég hefði haldið að allir væru svo góðir þarna og svo ætti bara að henda mér út.
Alla vega hvorugt gerðist, ég frelsaðist ekki en fékk samt að vera um nóttina. Mamma hafði verið treg til að leyfa mér að fara en þar sem þetta var kristið og gott fólk sannfærðist hún um að það væri óhætt. Svo bara ekkert meira ...

B�rn Gu�s... þangað til seint í gærkvöldi þegar heimildamyndin Children of God/The Family (?) var sýnd á Stöð 2. Mikið var talað um David Berg, stofnanda Fjölskyldunnar, öðru nafni Moses David. Ég vona innilega að myndin verði endursýnd svo að ég nái að sjá hana alla. Ástæðan fyrir því að hún var sýnd svona seint er sú að hún er svo óhugnanleg. Heimildamynd eftir strák sem ólst upp í Fjölskyldunni. Fjöldinn allur af börnum var misnotaður kynferðislega, í nafni guðs auðvitað. Fyrsta minning einnar konunnar sem talað var við var frá því hún var þriggja ára að fróa gömlum karli. Einn sonur Davids Berg átti að vera arftaki föður síns og var hvattur til að sænga með móður sinni. Mæðurnar börðu börnin sín (innan við 10 ára) ef þau mótmæltu því að eiga mök við David eða aðra karla þarna. Fjöldi barna úr söfnuðinum hefur strokið þaðan, margir í kringum 18 ára aldurinn. Fæstir hafa náð að lifa eðlilegu lífi. Einn viðmælandinn sagðist ekki lengur treysta sér til að eiga kærustur, hann hefði svo mikla þörf fyrir að refsa þeim ef þær gerðu eitthvað rangt. Margir hafa tekið eigið líf en allir sem talað var við virtust eiga í sálrænum erfiðleikum eftir þessa vist. Konurnar innan safnaðarins seldu sig og reyndu að boða guðsorð í leiðinni, sifjaspell var fremur vani en undantekning.

Enginn í Borgarfirðinum virtist vita, eða minntist á, að þetta væri kynlífssöfnuður. Ég veit ekki til þess að einhverjir Íslendingar hafi farið alla leið í fang Moses Davids/Davids Berg þarna í útlandinu en mikið er ég fegin að hafa ekki látið undan þótt hart hafi verið lagt að mér, þetta var sannarlega vondur félagsskapur.  http://www.eaec.org/cults/cog.htm


Spádómar þínir, Nostradamus ...

bush_nostradamusFyrir einhverjum árum var mikil stemmning fyrir spádómum Nostradamusar. Stór galli er að erfitt er að tímasetja hlutina en mér sýnist á öllu að ég verði væntanlega komin undir græna torfu þegar allt verður vitlaust. Sérfræðingar í þessum málum segja t.d. að anti-kristur hafi fæðst í júlí 1999, líklega asískur, þannig að allar ásakanir um að George W Bush sé sá vondi eru greinilega úr lausu lofti gripnar. Hér koma „til gamans“ 30 fyrirsagnir úr einni þýðingunni og þær fyrstu eiga ágætlega við þjóðfélagsástandið ... og einnig það sem ég ætla að gera 1. maí nk., eða að mótmæla verðbótum lána sem renna óskiptar til bankanna. Vona að ég verði ekki gösuð. Árið 2066 lýkur öllu þessu slæma og spádómar Nostradamusar öðlast viðurkenningu. Góða skemmtun! Til að lesa miklu, miklu nánar um þetta bendi ég á: http://www.snerpa.is/net/nostri/nostr3.htm#uppgangur  

Óþarfi að óttast ... þetta er bara úr bók! Smile Bara pæling á lötum sunnudegi eftir lestur á Netinu. Vona að Guðmundur Sigurfreyr fyrirgefi mér að birta þetta!

1. Skapadægur neyslusamfélagsins. Verðbólga og gerræði. Spádómar Nostradamusar rætast

2. Nauðungaruppboð og vaxandi vantrú á getu stjórnmálamanna

3. Efnahagskreppa. Hrun verðbréfamarkaðarins

4. Samsöfnun auðs á fárra hendur og vaxandi þörf fyrir lánsfé

5. Almenningur jafnar reikninginn við vestrænar bankastofnanir
Musterin, þar sem Vesturlandabúar geyma fjársjóði sína á leyndum stöðum, verða brotin upp af hungruðum [lýðnum] sem endurheimtir auðæfin og vinnur ótrúleg spellvirki.Meðal þeirra verða hræðilegar óspektir.

6. Þverrandi trú á stjórnmálamönnum vegna verðbólgu. Glundroði í París

7. Efnahagslegt öngþveiti leiðir til styrjaldar. Beiting kjarnorkuvopna

8. Fjármálakreppa. Stríð á Vesturlöndum

9. Efnahagskreppa og almennur skortur

10. Hörmungartímar renna upp. Ringulreið í Frakklandi og á Ítalíu

11. Afvopnunarviðræður stórveldanna

12. Samningar um vígbúnað og undirbúningur undir nýtt stríð

13. Fráfall háttsetts ráðamanns færir yngri manni völdin

14. Friðarsáttmálar rofnir

15. Friðarsamningar vanvirtir. Sundurlyndi meðal Frakka

16. Egyptar efna til ófriðar við vinátturíki Rússlands. Hryðjuverk í Þýskalandi

17. Friður á Vesturlöndum undanfari stórstyrjaldar

18. Þrettán ára friðsamleg sambúð tveggja stórvelda fyrir bí

19. Aðvörun Nostradamusar. Hungurdauði og undirokun. Hernaðaraðgerðir að frumkvæði hávaxins þjóðarleiðtoga

20. And-Kristur birtist fyrir upphaf Vatnsberaaldarinnar

21. And-Kristur fæðist í júlí árið 1999

22. Trúarleiðtogi þjarmar að andstæðingum sínum. And-Kristur í leikhúsi
Stofnandi sértrúarhreyfinga veldur þeim er sakfella hann mikilli sorg.Dýrið verður í leikhúsinu
[þegar] látbragðsleikurinn er undirbúinn.

23. Dýrið sem varð heilt af banasári sínu

24. Dýrið frá jörðinni

25. Maður blóðsins: Bandaríkin á hátindi máttar síns.

26. Samvinna Bandaríkjamanna og annars stórveldis.

27. Kosning and-Krists. Hann lifir fábrotnu lífi og beitir voldugar þjóðir ofríki
Lævís maður verður kosinn án þess að láta nokkuð uppi. Hann leikur dýrling og lifir fábrotnu lífi. Síðan gerist hann skyndilega yfirgangssamur og beitir öflugustu þjóðir gerræði.

28. And-Kristur kyndir undir ófriði. Írak gegn Ítalíu

29. Yfirstjórn Bretlands í höndum Bandaríkjamanna. Kuldakast í Skotlandi. And-Kristur

30. And-Kristur ræður niðurlögum þriggja ríkja. Dómsdagsstríðið varir í tuttugu og sjö ár


Söfnuður hinna tíu þúsund engla

Svona mennLangar að vekja athygli á því að ég hef stofnað Söfnuð hinna tíu þúsund engla. Hann er til húsa hér í himnaríki. Skilyrði fyrir inngöngu er safnaðarmeðlimir gefi mér eigur sínar, tíund launanna og tilbiðji mig að auki. Þetta er söfnuður sem samanstendur af huggulegum karlmönnum sem ég hef óheftan aðgang að. Æskilegt er að a.m.k. einn sé laghentur, eigi verkfærasett og borvél og kunni að setja upp rúllugardínur. Allir vita hvað erfitt er að ná í iðnaðarmann ... sem kemur aftur.

Í himnaríki er pláss fyrir heilmörg eintök af einhleypum mönnum, lengi má stafla í kojur. Ég geri engar kröfur um greind, undirgefni nægir. Ég áskil mér líka allan rétt til að ráðstafa mönnunum til ógiftra vinkvenna, mömmu eða annarra skyldkvenna á öllum aldri. 

Hlýðnipróf verða haldin á Langasandi á morgun kl. 14-16. Mætið í sundskýlu, það verður flóð. 


mbl.is 52 stúlkur fluttar af búgarði sértrúarsöfnuðar í Texas
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aldrei of illa farið með góðan dýrling ...

DýrlingurinnÉg hef alltaf verið svolítið veik fyrir sögum af dýrlingum. Einu sinni sendi Nanna vinkona mér hlekk á kaþólska vefsíðu þar sem mátti finna ALLT um dýrlinga. Á þessum tíma vann ég á Útvarpi Sögu, sem á þeim tíma var í eigu Fíns miðils og þar var bara leikin íslensk tónlist. Ég hóf hvern þátt á því að fjalla aðeins um verndardýrling dagsins. Allir eiga sér nefnilega verndardýrling, þjóðir, starfsstéttir og meira að segja piparsveinar sem eiga sér heila átján verndardýrlinga. Brúðir eiga fjórtán, slátrarar sjö, leigubílstjórar fjóra en strætóbílstjórar aðeins einn ... svo dæmi séu tekin.

Margir dýrlingar þurftu að ganga í gegnum hroðalegar pyntingar og voru líflátnir fyrir trú sína en aðrir komust í helgra manna tölu vegna mannkosta sinna, góðverka og trúrækni svo fátt eitt sé nefnt. Ýmis kraftaverk hafa átt sér stað á helgum stöðum, t.d. við grafir dýrlinganna og nokkur slík gerðust í Skálholtskirkju við gröf Þorláks helga, verndardýrlings Íslands. Veikt fólk fékk bót meina sinna þar sem það stóð við gröf hans en Þorlákur helgi lést þann 23. desember og hefur sá dagur verið kenndur við hann síðan á 12. öld og kallast Þorláksmessa.

Saint ColumbaDagur heilags Lawrence er 10. ágúst. Hann lét lífið vegna trúar sinnar eins og svo margir dýrlingar. Hann var bundinn við tein og steiktur yfir eldi en lét sem ekkert væri. Hann sagði við ofsækjendur sína: „Þið getið snúið mér við núna, ég er orðinn gegnsteiktur á annarri hliðinni.“

Þeir sem eru t.d. að drepast undan tannhvassri tengdamömmu eða tengdapabba geta heitið á eftirtalda dýrlinga til að ástandið batni: Adelaide, Elísabetu af Ungverjalandi, Elísabetu Ann Seton, Godelieve, Helenu af Skofde, Jeanne de Chantal, Jeanne Marie de Mille, Ludmilu, Marguerite d´Youville, Michelinu og Pulcheriu.

Hægt er að heita á sex verndardýrlinga ef maður týnir hlutum. Þeir eru: Anne, Antoníus af Padua, Antoníus af Pavoni, Arnold, Phanurius og Vincent de Paul. Kaþólsk vinkona mín segir að það bregðist sjaldan, hluturinn kemur fljótlega í leitirnar.

Þrír verndardýrlingar vernda fólk sem þjáist af gallsteinum: Benedict, Drogo og Florentius af Strassburg.

stvalentineicon333Valentínusardagurinn, dagur elskenda, er kenndur við heilagan Valentínus. Engum ætti því að koma á óvart að finna Valentínus á þessum lista. Færri vita kannski um Dwynwen og Rafael, erkiengilinn sjálfan, sem eru einnig verndardýrlingar elskenda og ástarinnar.

Verndardýrlingar sem hægt er að ákalla gegn jarðskjálftum eru fjórir; Agatha, Emidius, Francis Borgia og Gregory Thaumatugus.

Heilög Apollonía er verndardýrlingur tannlækna. Hún var pyntuð af hópi Egypta sem drógu úr henni allar tennurnar, eina af annarri, því hún neitaði að skipta um trú.

Marteinn frá Tours er verndardýrlingur Frakklands, bindindismanna, drykkjumanna, betlara, fanga, vefara, klæðskera, hanska- og hattagerðarmanna, smala, klæðskera, fátæklinga, betlara, holdsveikisjúklinga, þeirra sem fá útbrot á líkamann og höggormsbit, skeifnasmiða, ferðamanna, hestamanna og riddara, hermanna, vopnasmiða, húsdýra, hesta og gæsa.

Heilagur Kristófer í húðflúriEligius er verndardýrlingur járnsmiða, leigubílstjóra, klukkugerðarmanna, gullsmiða, hesta, bensínafgreiðslumanna, veikra hesta, dýralækna, handverksmanna, skeifnasmiða, landbúnaðarverkamanna, logsuðumanna, myntsláttumanna,  námuverkamanna, úrsmiða, söðlasmiða og myntsafnara.

Kristófer (einnig kallaður Kitts eða Offero) er verndardýrlingur bogaskyttna, bílstjóra, piparsveina, strætisvagnabílstjóra, leigubílstjóra og annarra sem vinna við að flytja fólk, ávaxtakaupmanna, vörubílstjóra, sjóliða, burðarkarla, tannpínusjúklinga, heilags dauða, skyndilegs dauða og þeirra sem vinna við að flytja fólk.

Zita er verndardýrlingur gegn því að týna lyklum, ráðsmanna, ráðskvenna, vinnuhjúa, þerna, fórnarlamba nauðgana, þjóna og þjónustustúlkna, týndra lykla og fólks sem er gert grín að vegna trúar sinnar. Gæti verið að sumir Moggabloggarar tauti nafnið Zita fyrir munni sér stundum.

Patrik er verndardýrlingur þeirra sem óttast snáka og Fiard passar okkur sem erum hrædd við geitunga.

Varð bara að deila þessu með ykkur þótt ég sé ekki kaþólsk.


Dulbúið kristniboð í spennumynd? Read all about it!

I am legendVið erfðaprins fórum í gær á myndina I am legend. Hún var að mörgu leyti góð og spennandi en undirtónninn, kannski öllu heldur boðskapurinn, truflaði mig heilmikið. Hann varaði við að fólk skipti sér um of af „sköpunarverkinu“. Kristileg samtök hafa líklega styrkt gerð myndarinnar. Læknir nokkur fann lækningu við krabbameini með því að breyta mislingaveirunni ... veiran stökkbreyttist með geigvænlegum afleiðingum; næstum útrýmingu mannkyns. Í lok myndarinnar opnast stórt hlið og það fyrsta sem sést er falleg og friðsæl kirkja inni í miðju afgirtu þorpi sem er eflaust fullt af vingjarnlega, trúuðu fólki. Þarna væri vonin, þarna var hið sanna bjargræði fólgið ... arggggg! Æ, af hverju fá áhorfendur ekki að draga sínar eigin ályktanir, af hverju á að troða inn í okkur svona boðskap, dulbúnum í vel leikinni spennumynd? Ef ekki væri fyrir læknavísindin og „fikt“ þeirra værum við enn að deyja úr lungnabólgu, berklum, svartadauða, bólusótt ... og það héti guðsvilji.

GlansmyndMér líður reyndar afskaplega vel í kirkju, þegar ég á erindi þangað, finnst gaman að hlusta á góðan prest og uppáhaldstónlistin mín er háklassísk kirkjutónlist ... en ég er farin að óttast þessa þróun sem er t.d. mjög áberandi í Bandaríkjunum. Meira að segja Gyllti áttavitinn, sú frábæra ævintýramynd, var dæmd óguðleg (eins og Harry Potter) og þótti svakatrúuðum ástæða til að vara fólk við henni. Aðvörunin þýddi minni aðsókn frumsýningarhelgina og það getur kostað að ekki verði gerðar framhaldsmyndir eftir bókum II og III. Öll þessi læti í heiminum, á Íslandi og á blogginu hafa sannfært mig um að best væri að fá trúarbragðakennslu í skólana, og að kenna þyrfti börnum heimspeki, víðsýni og umburðarlyndi. Agaleysi er það sem amar að flestum íslenskum börnum, ekki skortur á meiri kristinfræðslu. Það gerði mér a.m.k. ekki gott að hafa ofsatrúarmann sem umsjónarkennara í gamla daga, frekar hið gagnstæða.
Ekki sammálaTil eru kristileg samtök, t.d. KFUM og KFUK, sem stunda trúboð allan ársins hring fyrir börn. Foreldrum er í lófa lagið að senda börn sín á samkomur hjá þeim. Í æsku fannst mér hún Kristrún í Frón (KFUK) miklu ljúfari en nokkurn tíma þeir kennarar/prestar sem kenndu mér kristinfræði í skólanum og svo gaf hún okkur alltaf flottar glansmyndir.

Ja, hérna. Þetta átti sko ekki að vera kristileg færsla ... hvað þá ókristileg. Ég nenni yfirleitt ekki að taka þátt í heitustu umræðunum, fleygja þar fram frábærum skoðunum mínum og uppskera ekkert nema vanþakklæti ... en ég flissa þó oft yfir kommentum frá sumu fólki sem segir með ýmsum tilbrigðum á bloggsíðum fólks: „Skoðun þín er ekki rétt, þú átt að hafa sömu skoðun og ég!“ Jamm, ég elska bloggið.

Ókristilegar bíómyndir og sýnishorn úr Gyllta áttavitanum

Fann ansi áhugaverðan lista yfir tíu ókristilegustu bíómyndir allra tíma, myndir sem væntanlega geta gert saklaust fólk trúlaust ... Hér er listinn:

Carrie1.         The Canterbury Tales (1972)
2.         The Meaning of Life (1983)
3.         The Boys of St. Vincent (1993)
4.         The Magdalene Sisters (2002)
5.         The Name of the Rose (1986)
6.         Jesus Camp (2006)
7.         Dogma (1999)
8.         Footloose
9.         Priest (1995)
10.       Carrie (1976)

Veit ekki alveg hvenær á að frumsýna Gyllta áttavitann á Íslandi, fyrstu myndina af þremur, gerðar eftir ævintýrabókum Philips Pullman sem eru mjög skemmtilegar að mínu mati. 

Fann fyrstu fimm mínúturnar af myndinni á youtube.com, eins og svo margt gott annað. http://youtube.com/watch?v=uxt72D9E-X4


Sannur jólaandi og spennandi spurningar ...

Gurrí og klukkuhelvítiðAlltaf svolítið kvalafullt að breyta sér í A-manneskju á mánudögum en von um kaffi hvatti til þeirrar hetjudáðar að vippa sér fram úr. Svo þegar ég var komin á stjá mundi ég eftir því að ég þurfti sjálf að búa mér til latte ... eins og venjulega en þá var of seint að hætta við framúrrúminu-dæmið.

Eftir að armbandsúrið fór á rauntíma er allt miklu auðveldara. Vekjaraklukkan er sjö mínútum of fljót og fyllti mig vonbrigðum eitt augnablik í morgun og ég hélt að ég hefði of lítinn tíma ... þangað til ég mundi eftir því að ég hef haft klukkur heimilisins of fljótar í mörg ár. Djísus!!! Ásta var svo sæt að leyfa mér að sitja í í bæinn þannig að ég var komin eldsnemma. Kýrnar lágu bara og jórtruðu hér í vinnunni og andinn í fjósinu var einstaklega góður, eiginlega bara jólalegur. Best að gefa, skella mjaltavélunum á fyrstu skvísurnar og fara svo að moka flórinn. Ekki veitir af.

VölvanFer í dag og tek fyrsta viðtal við völvu Vikunnar. Ef þið hafið einhverjar spurningar sem brenna á ykkur (stjórnmál, veðurfar, kosningar í USA, hneyksli hjá kóngafólki, eldgos, efnahagsástandið osfrv.) þá væri mjög gott að fá þær í kommentakerfið fyrir hádegi! Ráðherrar og alþingisfólk, ekki hika við að spyrja!


Undarleg hegðun í himnaríki

Fullt tunglTunglið, næstum fullt og svo óstjórnlega töfrandi, hefur skinið á mig í kvöld þar sem ég hef setið við skrifborðið og unnið. Mér var litið niður á hendur mínar áðan og sá að neglurnar hafa lengst mikið á nokkrum tímum. Ungverska baðbomban í gærkvöldi hefur líklega haft þessi áhrif en ég hef nagað neglurnar með góðum árangri í 40 ár. Bomban virðist reyndar líka hafa aukið hárvöxt minn og þarf ég líklega að raka fótleggina í kvöld, í fyrsta skipti á ævinni, jafnvel handleggina líka og handarbökin fyrst ég er byrjuð. Eyrun á mér hafa stækkað smá, nema það sé ímyndun, en heyrnin hefur örugglega aukist. Ég heyri greinilega í bílum sem koma upp úr Hvalfjarðargöngunum, reyndar bara þeim eru komnir á nagladekk.

 

Ó, tungliðÞetta er ekki það eina óvenjulega á þessu heimili í kvöld. Kettirnir hafa ekkert sést í nokkra klukkutíma en ég heyri samt niðurbælt hvæs í þeim innan úr einum fataskápum. Erfðaprinsinn er þó enn furðulegri í hegðun. Hann stendur við eldavélina, segist vera að gera gæðatilraun á kaffi og er með nokkrar teskeiðar ofan í heitum potti (hræðilegt brunalykt). Mér varð ekki um sel þegar hann spurði mig titrandi röddu hvort þær væru ekki örugglega úr silfri. Ég ætlaði að segja honum að þetta væri bara plett en þá fann ég að ég gat varla talað, er líklega komin með bráðatannholdsbólgu eða eitthvað, finnst tennurnar eitthvað svo stórar. Mig langar mest til að góla, bakið er að drepa mig ... en veit samt ekki hvort ég þori í heitt bombubað í kvöld ef það hefur svona aukaverkanir.


Pissað upp í vindinn ...

Enn ein belgísk vafflaEf þú ert ekki að geta komist í gegnum þetta ...“ sagði kona í sjónvarpinu áðan. Mér skilst að svona málfar megi finna í nýju biblíunni. Einn prófarkalesarinn minn sagðist vera í losti yfir því og  íslenskuprófessor við Háskóla Íslands gerði athugasemdir við málfarið. Prófarkalesarinn bætti því við að það væri eins og að pissa upp í vindinn að reyna að breyta einhverju.

Hvernig getur heilt tungumál tekið svona miklum breytingum á nokkrum árum? Sjálf áttaði ég mig ekki á þessu fyrr en samstarfskona mín var spurð (í hittiðfyrra): „Hvar voruð þið að sitja?“. Mikil er ábyrgð íþróttafréttamanna. 

Íslenskukennari sagði við bekkinn minn fyrir tæpum tíu árum að stéttaskipting í þjóðfélaginu í dag kæmi fram í gegnum tungumálið. Það hlýtur að hafa breyst því að þessa dagana heyrir maður alls konar hefðardúllur, m.a. alþingismenn og ráðherra, tala svona.

Þetta voru pælingar kvöldsins.


Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 231
  • Sl. sólarhring: 252
  • Sl. viku: 1775
  • Frá upphafi: 1453934

Annað

  • Innlit í dag: 188
  • Innlit sl. viku: 1476
  • Gestir í dag: 174
  • IP-tölur í dag: 174

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Sven-Göran
  • Hálka
  • Sumardagurinn fyrsti 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband