Croissant-sjokk, pítsugleði og stór misskilningur

chocolate-croissants-2Bæjarferð með gistingu var farin í gær með stráksa og alveg ótrúlega gaman hjá okkur. Við vorum sótt af vinkonu upp úr kl. 14 og byrjuðum reisu Guðríðar á kaffihúsi. Þekkjandi minn strák sagði ég: „Viltu ekki örugglega krossant (croissant) með súkkulaði - og kakó með eða ertu farinn að drekka kaffi? Djók!“ Hann samþykkti uppástungu mína. Vinkonan fékk sér voða fína samloku með bræddum osti utan á, heitir einhverju frönsku fínu nafni, og þegar stráksi pantaði sér krossant, heyrði hún bara fína franska heitið og útbjó því tvær þannig ostasamlokur. Meðvirka ég vorkenndi afgreiðslukonunni sem ruglaði svona í pöntuninni, sagði henni að það væri allt í lagi og borðaði aukalega ostabrauðið sem ég var hvort eð er búin að borga fyrir, ásamt einhverri hálfri samloku sem ég hafði pantað fyrir mig. Hafði hvorki borðað morgunmat né hádegisverð, bara einn kaffibolla, svo þetta slapp. Allt of lítill mjúkur kanilsnúður með kremi hafði líka verið pantaður og eina sérbeiðnin var að hita hann ekki. Honum ætluðum við vinkonur að skipta á milli okkar ... jú, jú, en hann kom en ekki með kremi. Pöntunin var: Tveir latte, einn kakó, mjúkur kanilsnúður með kremi, hálf samloka, krossant og ostasamloka á rúmlega 8 þúsund krónur. Vá, hvað er orðið dýrt að fara á kaffihús! hugsaði ég.

Stráksi fékk sjokk þegar ekkert krossant kom, þrátt fyrir að ég hafi leiðrétt ruglið. „En þú sagðir Cro-blablabla,“ sagði afgreiðslukonan. „Nei, við pöntuðum krossant með súkkulaði,“ sagði ég vingjarnlega og var almennileg (meðvirk), sagði þetta væri allt í lagi, og líka þegar kremið vantaði á kanilsnúðinn en því var svo úðað yfir þá og það lak um allt ...  

Með krossantinu sem ég þurfti að borga fyrir sér, fór þetta upp í rúmlega 9.000 kr. sem er of mikið þótt við höfum verið þrjú. Hefði ég ráðið einhverju þarna, hefði ég beðist afsökunar og ekki rukkað fyrir krossantið.

 

NáttborðÖgn seinna, á leið í heimsókn til einnar af ótalmörgum systrum mínum (sem er nýflutt á milli póstnúmera í bænum) stoppuðum við í Góða hirðinum til að kaupa náttborð fyrir drengsann minn. Eitt alveg ágætt fannst á 2.500 kall - ég forðast allt sem þarf að setja saman svo þetta var bara sjálfsbjargarviðleitni. Svo heppin að fá far heim daginn eftir, og þurfti ekki að taka það með í strætó, veit að stráksi hefði aðstoðað mig við að halda á því upp í himnaríki. Vinkonan fríkaði svo algjörlega út í Góða, keypti allt jólaskraut sem hún fann (það flottasta) og fékk það ráð frá indælli afgreiðslukonu að koma næst skömmu eftir jólin, því þá væri allt troðfullt af jólaskrauti. Sumt fólk gleymir því kannski að það koma jól á hverju ári?

Nýja íbúð systurinnar er svakalega flott, hún flutti í 108 sama dag og stráksi flutti frá mér, og hún er búin að koma sér ótrúlega vel fyrir með heimilisvarðkettinum fagra. Útsýni hennar, sem er yfir eitthvað grænt (tré, gróður), gleður hana mjög og það ríkir mikil sæla með fallegu íbúðina. Kisa hefur nánast malað stöðugt síðan þær fluttu svo það er greinilega góður andi þarna. Kannski búálfur í forstofuskápnum, stakk stráksi upp á. Við erum hrifin af álfum.

 

Ostapítsa með sultuVinkonan nennti alls ekki heim eftir heimsóknina, enda með svona dásamlega farþega í bílnum, og stakk upp á því að við fengjum okkur pítsu, sagðist hafa heyrt góða hluti um Pizza 107 við Hagamel. Ég er komin svo út úr öllu (veitingastöðum, börum) eftir næstum tveggja áratuga búsetu á Skaganum mínum, að ég bara hlýddi. Það var aldeilis góð ákvörðun því þarna fengust ótrúlega góðar pítsur. Ostapítsan mín var með þremur tegundum af osti, svo sultu yfir, óhemjugóð, stráksi fékk sér með ýmsu NEMA jalapeno og vinkonan setti stúlknamet í hryllingi ... piparostur (namm) og DÖÐLUR! Jæks.

 

Hjón með barn á unglingsaldri, utanbæjarfólk, kom í ljós ögn síðar, sat á borði við hliðina á okkur. Þau spurðu okkur, eða konan, hvort við vissum hvar í Vesturbænum braggarnir hefði verið. Ég ákvað að móðgast hrottalega: „Fyrirgefið, en hvað haldið þér eiginlega að ég sé gömul?“ Svo áttaði hún sig á því að þetta var bara lélegur húmor. Ég játaði fyrir henni að ég væri vissulega eldgömul miðað við margt yngra fólk, en því miður vissi ég (myndi ég) skammarlega lítið um bragga. Reyndar man ég eftir bröggunum í Hvalfirði (alin upp á Skaganum) og fékk að gista í einum slíkum þar sem vinafólk mömmu bjó (alla vega á sumrin) og fannst það mjög spennandi. En veit allt of lítið um þá í Reykjavík, það héngu nefnilega gamlar myndir uppi á vegg þarna á pítsustaðnum sem orsakaði forvitni fólksins.

 

Misskilingur kattanna

GardínukettirVið gistum hjá Hildu sem fór síðan með mig í Ikea í dag til að kaupa lampa í herbergið sem er óðum að taka á sig mynd. Já, og skutlaði mér heim! Rúmið er lítið þótt það sé nú alveg 90-200 cm og náttborðið gerir heilmikið fyrir herbergið og líka lampinn nýi sem ég keypti. Ég þvoði auðvitað gardínurnar og lagði þær svo á rúm drengsa til að þær héldust sléttar áður en ég setti þær upp, fyrst þurfti ég að fara í bæinn ... ég lokaði dyrunum þegar ég fór í gær ... og eftir að ég kom heim í dag hefur verið opið. Mögulega halda kettirnir að þetta sé nýja bælið þeirra því þeir lágu þar (ofan á gardínunum) einstaklega makindalegir, allir saman þegar ég ætlaði að fara að setja upp gardínurnar. Maður truflar ekki ketti í slökun. Mögulega þarf ég að þvo annan vænginn aftur en sjáum til. Verst er samt að himnaríki er á hvolfi. Gjörsamlega í rúst. Eins gott að enginn komi að skoða fyrr en ég er búin að taka til. Hvernig er hægt að rústa heilli íbúð með því að gera eitt lítið herbergi fínt? Látið mig vita ef þið viljið uppskriftina ...

 

Á morgun kemur Týnda systirin út á Storytel. Sjöunda bókin um systurnar sjö eftir Lucindu Riley. Álfrún Örnólfsdóttir les þessar bækur afskaplega vel - og sennilega verður himnaríki orðið virkilega flott og fínt ef ég gæti þess að hlusta á meðan ég reyni að fínisera og "flottheita" öll herbergin. Ég er mjög hrifin af þessum bókum, sú síðasta var kannski síst, slæmt val í ástum aðalpersónunnar hafði áhrifa á þá skoðun mína. Þoli ekki þegar konur og karlar halda að þau þurfi að breyta sér og persónuleika sínum til að falla öðrum í geð. Ég man eftir mjög flottri konu sem fór á námskeið hjá einhverjum erlendum gúrú. Hann skipaði henni að þegja í viku, hún talaði allt of mikið. Ég sá rautt ... þekki viðkomandi ekki en veit hver hún er og hún talaði ekki of mikið, hún var bara hún sjálf, mjög skemmtilegur karakter - en hélt eflaust að gúrú-fíflið væri að ráða henni heilt. Það eru mörg ár síðan, vonandi náði konan að verða hún sjálf aftur. 

 

Við Hilda erum vanar að skreppa í nokkurra daga ferðalag út á land á sumrin. Þegar allt var í volli vegna skorts á erlendum ferðamönnum í covid-ástandinu, gistum við á Hótel KEA (ágætt verð), en splæstum þó bara tveimur nóttum á okkur. Nýlega fór Hilda að tékka á nýjum landsfjórðungi og á gistiheimilum en það var allt svo hrikalega dýrt að við hættum við. Held að tvö herbergi í fjórar nætur hafi á einum stað kostað 800 þúsund. Annað sem hún fann var að vísu töluvert ódýrara en samt nógu dýrt. Áður en hún fór að kíkja mundi ég eftir að gúgla aðalatriðið annað hvert ár ... eða EM/HM Í FÓTBOLTA! 

EM stendur yfir 14. júní-14. júlí nú í sumar og ég ætla ekki (enn einu sinni) að uppgötva á leiðinni í ferðalag, eins og t.d. til Stykkishólms 2018, að HM væri að hefjast akkúrat kl. 16 eða 17 þann dag og við höfðum ekki hugmynd um hvort væri sjónvarp á staðnum! Það reyndist vera sæmilegt sjónvarp þarna en útigrillið var ónýtt ... þannig að þegar "stórasta" systirin mætti í heimsókn með grillkjöt varð að steikja það á pönnu ... sem var nú samt allt í lagi. Neðri kojan sem ég svaf í var svo hræðileg að það brakaði í henni við hvern andardrátt minn og stráksi í efri kojunni svaf mjög létt ... En hva, kannski skreppum við í dagsferðir, t.d. til Grundarfjarðar og smökkum góða kólumbíukaffið þar.         


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af þremur og sjö?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 204
  • Sl. sólarhring: 279
  • Sl. viku: 1746
  • Frá upphafi: 1460679

Annað

  • Innlit í dag: 189
  • Innlit sl. viku: 1413
  • Gestir í dag: 182
  • IP-tölur í dag: 182

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ken
  • Krummi heitur
  • Galdraskjóða-Gurríar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband