6.8.2023 | 14:38
Gleraugnablæti og sérvaldar myndir sem auka andúð
Kattakrúttin á þessu heimili eru ekki alltaf krútt og voru það allra síst í gærkvöldi/nótt, eða Keli. Ég heyrði gleraugun mín detta af náttborðinu niður á mjúkt-eitthvað, sennilega mottuna, og fannst lamandi syfjan of dýrmæt til að sóa henni í að vakna of vel til að finna þau, ég myndi hvort eð er gera það næsta morgun. Aldrei skyldi maður ganga að nokkru vísu þar sem kettir búa, ekki einu sinni gamlir og endalaust sofandi á milli þess sem þeir úða í sig rándýrum kattamat og stöku kattanammi.
Tryggustu og bestu bloggvinirnir muna eftir falli mínu í ógæfumölinni við íþróttahúsið (2007-2008?) sem var áður en strætó fór að stoppa við Garðabraut, nær Himnaríki sem sagt. Þá þurfti stundum að feta sig varlega heim í öllum veðrum (helv. hálku) og myrkri, og einu sinni tókst það bara ekki. Kostaði saumaskap og vesen á spítalanum og spá læknis um að það gæti tekið tíma fyrir hnén að jafna sig aftur, sársaukalega séð.
Þegar beygjurnar og teygjurnar í morgun báru engan árangur í leitinni að gleraugunum þóttist ég viss um að þau hefðu jafnvel skotist undir rúm ... -Best að prófa hnén aftur, gá hvort ég geti kropið án þess að bresta í grát, sagði ég bjartsýn við sjálfa mig, kraup niður á púða ... en á skalanum einn til tíu þar sem tíu er óbærilegt, var sársaukinn á milli átta og níu. Enn, eftir öll þessi ár. Sennilega verð ég bara að sætta mig við að geta aldrei orðið kaþólsk, aldrei prestur, aldrei gift mig kirkjulega (þarf ekki að krjúpa?) og aldrei stundað jóga.
Myndin efst: Einhverjir myndu kannski halda að ég hefði viljandi valið frekar vonda mynd af Kela en það er innræting til að þið skiljið hvað hann getur verið óskammfeilinn ... Þegar eitthvað ljótt er skrifað á netinu um t.d. Katrínu Jakobs og Dag B. Eggerts fylgja alltaf skelfilegar myndir af þeim til að ýta undir andúð. Keli er reyndar dásamlegur, nema ... sjá neðar:
Gleraugun eru enn ófundin og ég með þessi gömlu á nefinu til að þurfa ekki að reka mig á veggi eða detta út um gluggana. Ég verð að bíða eftir því að stráksi finni þau fyrir mig (flissandi), eins og oft áður, en hann kemur ekki heim fyrr en í kvöld.
En hvað kemur þetta köttunum við? Jú, einn þeirra, Keli, sá elsti, alfa-kötturinn sem öllu ræður, sjálfur pokakötturinn úr Kattholti, virðist vera með gleraugnablæti. Eitt sinn átti ég ótrúlega flott gleraugu frá Reykjavík Eyes sem voru bara eitt gramm að þyngd, laus við samskeyti, skrúfur og slíkt, og bara voða töff. Það fannst okkur Kela báðum. Hann gerði sér að leik að ræna þeim og ganga stoltur með þau í kjaftinum um gólf en það gat verið þrautin þyngri að finna þau suma morgna, ekki síst eftir slysið í ógæfumölinni sem hafði þessi átakanlegu áhrif á hnén á mér. Held að læknirinn hefði frekar átt að kyssa á bágtið, eins og ég bað um, en að sauma öll þessi spor, þá sæi ég betur við að blogga núna. Orsök, afleiðing ... Þótt gleraugu nútímans séu þyngri, leikur hann sér stundum að því að henda þeim niður á gólf (mottu). En að láta sér detta í hug að leika sér svona með dýrmætar eigur matmóður sinnar. Kannski sé ég ekki kattamatinn næst, ég meina kattanammið, þegar hann reynir að væla eitthvað extra gott út úr mér. Á miðmyndinni virkar hann svo sem nógu sakleysislegur og sætur ... en undir niðri kraumar blætið.
Yfirleitt vakna ég ágætlega kát en eitthvað súrnaði gleðin í morgun þegar kom í ljós að rafmagnið var farið af Himnaríki, það ofan á gleraugnahvarfið. Kaffivélin hlýddi ekki og á þeirri sekúndu áttaði ég mig á því að ekkert heyrðist í vatnsbrunni kattanna. Ég myndi sem sagt neyðast til að ganga niður allar 50 hæðirnar kaffilaus, ýta vissum takka upp þarna í kjallaranum, og dragnast svo upp í Himnaríki aftur.
Við Inga ætlum að skreppa á kaffihús í dag, Lighthouse café, þar sem Grjótið var áður og enn áður Skrúðgarðurinn. Ekki beint kaffihús reyndar en það er ágætt Lavazza-kaffi þar á boðstólum, áherslan samt lögð á mat. Inga borðaði með mér þennan ljómandi fína tortilla-turn (Eldum rétt) í gærkvöldi. Hún er sko vinkonan sem skreppur til Íraks í páskafríinu sínu (norðurhlutans, Kúrdístan) svo ég monti mig nú aðeins af henni. Því óvenjulegri sem staðirnir eru, þeim mun líklegra er að hitta hana þar. Þegar Inga segist hafa sofið hjá mörgum konum, þýðir það bara sofið og það í sama rúmi og kvenkynsferðafélagi. Ekkert djúsí og spennandi. - Stundum er bara ein sæng, sagði hún eitt sinn mér til hryllings. Ég man enn eftir uppnáminu þegar ég heimtaði aukasæng á hóteli úti í Florida í desember 2018. Var ekki nóg að við Hilda þyrftum að deila rúmi? Þyrftum við að vera með sömu sængina líka? - She is my sister, not my lover, sagði ég stórhneyksluð í lobbíinu. Og fékk aðra sæng. Stundum getur borgað sig að vera hneykslaður. Aldrei sýna reiði eða frekju, miklu frekar að hæfilega hneykslan, það er mín reynsla.
Þriðja myndin sýnir í verki blómablæti ALLRA kattanna. Þarna sést svoooo vel hvað ég þarf að búa við! Ég fékk blómvönd í vor frá einhverjum aðdáandanum sem ég svo neitaði að giftast, minnir mig, og vöndurinn hafði aðeins staðið við eldhúsgluggann í eina og hálfa mínútu þegar Keli, Krummi og Mosi áttuðu sig á því og bókstaflega þutu á vettvang. Mosi og Keli (fjær) komnir upp á borð en Krummi að stökkva upp, hann ætlaði ekki að missa af þessari veislu. Þið sem haldið að ég hati blóm ... Afmælisgestir um komandi helgi ... ef þið færið blóm, þá gæti farið mjög, mjög, mjög illa fyrir þeim. Kattagras væri betur þegið, það hefur ekki fengist lengi í dýrabúðum nema eitthvað dæmi þar sem leiðbeiningar eru á of erfiðu tungumáli fyrir mig, það þarf víst bara að vökva einu sinni sem getur bara ekki passað. Óskiljanlegt. Ég viðurkenni að ég tek góðar og skýrar leiðbeiningar (á íslensku helst) fram yfir flest í lífinu, meira að segja súkkulaði!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.8.2023 | 16:05
Óvænt innihátíð í sveit og vanmetin sagnalist
Stundum fara hlutirnir ekki alveg eins og planað var. Hér átti að vinna í gær, ásamt því að gera afmælistiltekt en svo breyttist allt. Vinkona mín, dönsk en samtalveg stórfín, hafði samband. Hún var að klára vinnulotu í Reykjavík og á leið í bústaðinn með karlinum sínum hollenska þegar henni datt í hug að fá mig og stráksa með, og standa við gamalt loforð um að sýna honum álfabyggð nálægt Grunnafirði. Stráksi að heiman til sunnudags, eins og lesendur bloggsins vissu, en hva, vildi ég ekki kíkja með og kannski gista og fá svo skutl heim á morgun, laugardag?
Ekkert Ein með engu, hugsaði ég glöð, heldur Þrjú hress á palli, jess, jess, og ákvað að slá til, fara út fyrir þægindarammann í annað sinn á einni viku sem hefur aldrei gerst áður. Ég sá alveg fyrir mér að þurfa að sitja úti á pallinum umvafin grimmum geðillum geitungum og risastórum kóngulóm, en það er ekki að spyrja að hetjulundinni. Þetta fór þó ekki þannig. Þau sögðu mér frá lúsmýi þarna í sveitasælunni, sem væri ansi gráðugt í að bíta fólk, þau eru nú farin að kalla það mini-mý, að minni áeggjan. Því var ekki hægt að tala um okkur á pallinum, því við vorum inni allan tímann og allir gluggar harðlokaðir, þeir höfðu víst verið lokaðir í heilan mánuð eftir að vinkona mín var bitin af gríðarlegri ákefð af miklum fjölda lúsmýa (maðurinn hennar hefur ekkert verið bitinn en mítlarnir í Danmörku eru víst óðir í hann).
Við borðuðum þetta fína sveppapasta í kvöldmat og sátum nokkuð lengi yfir matnum, margt að spjalla, orðið svo langt síðan við fórum saman á Ölver á tónleika, í sama sal og brúðkaupsveislan mín var haldin þegar ég giftist einum af mínum fyrstu eiginmönnum. Vinkonan stakk upp á því að við myndum spila borðspil en hætti við þegar hún mundi að það þyrfti að skrifa einhver svör í spilinu á dönsku og ég væri varla talandi á því annars ágæta tungumáli.
Við settumst inn í stofu eftir uppvask og nutum þess að horfa á útsýnið yfir trén og vatnið fyrir neðan (sjá efri mynd). Mjög fallegt. Ég var í miðri mjög áhugaverðri sögu sem ég var að segja þeim um drauma mína síðustu vikurnar og hvernig þeir fyrir tilviljun tengdust því hvernig eigi að búa til vegan-kindakæfu og varna geimverum aðgang að raftækjaverslunum þegar ég tók eftir því að þau voru bæði steinsofnuð (sjá neðri mynd sem gefur í skyn hvernig þetta var). Ég hafði reyndar stungið upp á því að fara snemma að sofa, því ég vissi að þau hefðu bæði verið á fullu síðan fyrir klukkan sjö um morguninn en þeim fannst það ekki hægt, kommon, það væri föstudagskvöld! Ég kláraði nú samt söguna mína og klukkutíma seinna, eða um hálfellefu, ræskti ég mig hátt, og við ákváðum að það væri líklega sniðugast að fara bara að sofa - þótt það væri föstudagskvöld.
Kaffið eftir matinn hélt mér vakandi í nokkra klukkutíma í viðbót sem þýddi að ég gat lesið lengi, lengi sem var dásemd. Kyrrðin umlukti allt, engir gargandi djammarar í grennd. Bíllaust fólk eins og ég elskar að fara í bíltúra svo ég fékk heilmikið út úr því að ferðast um fallega sveit í góðum félagsskap þótt vegalengdirnar væru nú ekki miklar og samveran helst til stutt. Svo þegar við fórum heim á Skagann, fljótlega eftir hádegi í dag, ókum við í gegnum Svínadal sem ég held að ég hafi aldrei séð áður. En kannski er auðvelt að rugla saman trjám, klettum, fjöllum og háspennumöstrum ef líður langur tími á milli ... Ég fékk óvænt og ljúft ferðalag, fínustu innihátíð að mínu skapi, þakka líka ógeðs-lúsmýinu fyrir að hafa ekki verið dregin í gönguferð úti í guðsgrænni eða út á pallinn, og gat að auki í fyrsta sinn klárað að segja löngu og fróðlegu söguna mína um kæfu og furðudrauma. Hilda systir þykist alltaf sofna og slefa þegar ég reyni, eða segist þurfa að skreppa áríðandi eitthvað - sumir kunna bara ekki að meta góða frásagnarlist.
Eldgosið var sprellfjörugt í gærkvöldi / nótt en það er ekki mikið líf í því núna. Ég sem ætlaði að setja í afmælisboðskortið: Kökur, kaffi og eldgos en þarf sennilega að breyta í Kökur, kaffi og gos. Það eru engin svik því ég kaupi pottþétt kók og appelsín en vonandi halda einhverjir að þeir geti gengið að eldgosi vísu út um glugga Himnaríkis.
Það hefur ekki einn einasti sprækur karl (55-65 ára) sótt um hjá mér (sjá síðustu færslu) en ég held í þá von að einhverjir eigi mæður sem þrái almennilega tengdadóttur og grípi því til sinna ráða. Ein vinkona mín sagði mig vera allt of kröfuharða, konum á okkar aldri nægði að gaurinn andaði. Æ, ég veit það ekki. Veit einhver hvort James Hetfield (úr Metaliccu) sé á lausu? Hann virkar sprækur og hefur fínan tónlistarsmekk. Held að Skálmaldargaurarnir séu of ungir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.8.2023 | 15:26
Innihátíð, vinnuófriður og ... sprækir taki eftir
- Tötrughypja verður þú seint, sæta mín, sagði ég við spegilmyndina í morgun. Fallegi græni bolurinn frá Systrum og mökum, flottu buxurnar úr Nínu og doppóttu sokkarnir frá Liverpool. Fullkomið.
Í Himnaríki gengur senn í garð innihátíðin Ein með engu, eins og svo oft áður um verslunarmannahelgina. Tiltekt (spes vönduð) fyrir afmælið eftir viku, sem léttir á jólaþrifum með grisjun á bókum og öðru. Jei, gaman. Stráksi verður fjarri "óðu gamni" fram á sunnudag svo ég reyni að tína til það sem þarf að fara í ruslið fyrir brottför hans. Eldgosið virðist ætla að lognast út af fyrir afmælið mitt en sem betur fer komst Davíð frændi þangað í fyrradag á meðan það var enn í hálffullu fjöri, ég bað svo sem ekki mikið meira en það þegar ég ákallaði veðurguðina síðast.
Mynd: Gamla Landsbankahúsið.
Hluti af húsinu sem m.a. bæjarskrifstofurnar á Akranesi voru í virðast hafa orðið myglu að bráð, eða einhverju álíka, og miklar umræður eru nú í gangi um framtíðarstað skrifstofanna. Marga langar til að sjá þær í gamla Landsbankahúsinu á Akratorgi (sjá mynd) og það væri virkilega gaman, kostar minna að gera upp en byggja nýtt, en auðvitað þarf starfsemin líka að passa inn. Vonandi kemur eitthvað gott þarna í húsið til að lífga upp á miðbæinn. Ég hef komið inn í núverandi bæjarskrifstofur á stað sem er til bráðabirgða og vona að senn finnist góð lausn. Viðkvæm starfsemi nánast í opnu rými.
Í sama stigagangi og bæjarskrifstofurnar voru áður voru Landmælingar líka, sem nú hafa flutt í nýtt framtíðarhúsnæði. Það nýja er rúmlega helmingi minna og hönnunin byggist á hugmyndum um verkefnamiðaða vinnuaðstöðu, skv. fréttatilkynningu! Er það ekki svipað og kennarar hafa verið að mótmæla í HÍ? Hljómar hræðilega, ef satt er, enginn með fasta aðstöðu og allt saman opið, sem sagt enginn vinnufriður. Vonandi er starfsfólkið ánægt þótt ég sé með hroll, og þetta vonandi unnið í samráði við það. Held að einhver þar hafi gert þetta skemmtilega landakort sem hér sést.
Ég tel nokkuð víst að svona opin rými hafi haft ansi neikvæð áhrif á líf mitt frá árinu 2000 - því ég gat illa einbeitt mér á opnu svæði í annars frábæru vinnunni minni sem flutti þrisvar og skrifaði því ansi mörg viðtöl og greinar heima. Sem gæti meðal annars hafa orsakað núverandi hjúskaparstöðu mína. Hver hefur tíma til að hlaupa uppi sæta karla þegar þarf að skrifa flest kvöld og helgar líka? Ég er ekki fljót að skrifa, sem gæti auðvitað skýrt eitthvað en fann að einkalíf og vinnustaður uxu hratt saman.
Ég hefði í staðinn getað verið í fjallgöngum, bókabúðum að skoða háfleygar bækur, í grænmetisdeildinni í Hagkaup og fleiri vænlegum veiðistöðum ... en það tók alveg 20 ár að átta sig. Fegurðin náði ekki alveg öll að hverfa á þeim tíma, sjúkk, en nú nenni ég ekki í fjallgöngur, vel mér lesefni í gemsanum heima og panta grænmeti í Einarsbúð. Allar leiðir lokaðar. Svo eru karlmenn orðnir svo varkárir, koma alltaf tveir saman frá Einarsbúð, vottum Jehóva, að rukka fyrir Moggann og það allt sem ég þreytist ekki á að kvarta yfir. Langar mig svona svakalega mikið í karl? Nei, eiginlega ekki, nema hann sé ansi sprækur og svakalega skotinn í mér, sætur, greindur, húshreinn, góður kokkur, stórmunasamur, með góðan húmor, dýravinur og ekki of mikill áhugamaður um útivist. Áhugasamir geta sótt um í athugasemdakerfinu. Meðmæli minnst tveggja fyrrverandi eiginkvenna verða að fylgja.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.8.2023 | 15:45
Dularfulla símtalið sem hvarf
Síminn hringdi hátt í morgun og vakti mig af værum blundi.
- Góðen dagen, sagði vingjarnleg karlmannsrödd þegar ég loksins svaraði. - Þetta er hjá Norske senderoðinu i Þingeyri. Ég er Lukas, þriðji sendiroðsfulltrúi.
- Bíddu, ha, eruð þið ekki til húsa á Fjólugötunni? stundi ég, varla vöknuð og ekki búin að drekka einn sopa af kaffi. Njósnarar kallast venjulega sendiráðsfulltrúar, eru þeir ekki alltaf að eitra fyrir fólki? Nístandi þögn skall á.
- Hvernig vedder du það? Röddin var orðin hvassari, einbeittari og meira rannsakandi, en enn kurteisleg. Svo hélt Lukas áfram. - Við spörum og spörum, ólíkt ykkur Íslendingum, og okkur fannst Þingeyri nógu líkt nafn og Þingholtin til að það gæti gengið upp að flytja. Við glemmede samt að gera ráð fyrir fjarlægðum og illa förnum vegum, himinháu flugfargjaldi (nú hló Lukas að óvart-brandara sínum) og slíku en við sparer mange mikkit í leigu, kostnaður hefur lækkað gríðarlega. Nýi þyrluflugvöllurinn verður sennilega byggður á gömlu lóðinni okkar við Fjólugötuna. Nógu langt frá skrækjandi skrílnum í Skerjafirði, bætti hann hneykslaður við.
- Hvað get ég gert fyrir ykkur? spurði ég. -Hafa komið kvartanir vegna fílabrandarans eða tengist þetta tímamótabloggfærslu gærdagsins?
- Filebrandere hvað? Ja, detta með hitastigin. Norska veðursíðan segir 11°C og íslenskar tölur 16°C. Manstu eftir hrunet, eller 2007-brjálæðinu þegar penge-utrase-víkingerne keyptu danske Tívolí og Legoland og heimtuðu ogso að borga miklu meira fyrir þakíbúðirnar í New York en það sem þær kostuðu?
- Hver gæti gleymt því, svaraði ég beisk.
- Har þú aldrei hugsað um mögulega mútuþæga veðurfræðinge á Íslandi? Það verður rokk og regning um verslunarmannahelgina en den islenske spa segir logn, sól og sextán stig. Finnst þér það ekkert grunsamlegt, svona år eftir år? Eyjamenn eiga penge, svo sannerlega. Og andret ... vi Nordmenn falser ekki norðurljós. Við gætum gert það en það er of dýrt. Við vil spare vores olíupengerne. Áhrifavaldar eins og du geta skaðað ímynd elsku Norge mitt. Þarf að þagga niður svona bull.
- Þetta var nú bara létt grín á blogginu, svaraði ég. - Við vitum öll að norska veðursíðan, yr.no, spáir best fyrir Noregi, samt bara grunsamlegar þessar hitatölur, öllu heldur kuldatölur hér sem eru ekki í neinum tengslum við raunveruleikann.
Ætti ég að láta fílabrandarann fjúka til að spæla Lukas? Nei, það væri of grimmdarlegt og brandarinn hefur sært ótal marga góða og gegna Norðmenn ... en Lukas flokkaðist ekki undir það, fannst mér.
- Viltu heyra fílabrandarann? Ég sprakk á limminu. - Hann á að vera ansi lýsandi fyrir ýmis lönd sem gætu mögulega brjálast út í mig. Þennan brandara segir maður eiginlega bara í reykfylltum bakherbergjum ... eða við hetjur.
Löng, löng þögn.
- Låt de vaðe, sagði Lukas loks.
Og ég lét vaða:
Til stóð að halda gríðarlega fína ráðstefnu um fílinn eftir tvö ár. Þátttakendur voru beðnir um að vinna bók um fílinn og taka með sér. Bretar mættu fyrstir á svæðið og þeirra framlag var innbundið í leður og hét Elefant Hunting. Næstir skiluðu Bandaríkjamenn bók sem var í afar stóru broti, litrík og vel myndskreytt, Bigger and Better Elefants. Frakkar mættu með litla, gullfallega ljóðabók innbundna í rautt silkiflauel og hún hét einfaldlega Éléphant, mon amour, þar voru ástaljóð um fíla. Framlag Þjóðverja var átta binda inngangur að formála um sögu fílsins frá upphafi, Erzählung, Elefant, ekkert verið að flækja það. Bók Dana var matreiðslubók, Elefanter på hundrede måde. Norðmenn komu síðastir á ráðstefnuna og með bókina Vi Nordmenn sem fjallaði um Norðmenn.
- Stadalímyndir, klisjur, bull! var öskrað. Svo heyrðist hávær smellur.
- Lukas? Halló? Halló!
Ég horfði á gemsann minn og athugaði úr hvaða númeri þessi maður hafði hringt. Fannst trúlegt að hann hefði bara haft samband til að hræða mig, fyrir hönd félags viðkvæmra Norsara hér á landi. Íslenska félagið er mun fjölmennara, svo það komi nú fram. Gæsahúðin hríslaðist um mig. Það voru engin merki um eitt einasta símtal í dag. Það var horfið! Þetta var þá mögulega alvörusendiráðsfulltrúi!
Veit einhver hvað tekur langan tíma að keyra frá Þingeyri til Akraness? Sennilega ekki á hraðskreiðum og dýrum bíl. Er hægt að fá leynilegt heimilisfang í hvelli á ja.is? Er kannski nóg að líma nöfn fólks sem Lukas vill ekki trufla, yfir nöfn okkar stráksa á póstkassa og bjöllu? Hákon Haraldsson & Mette-Marit gæti dugað. Hugsið samt til mín.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.8.2023 | 15:11
Út fyrir sælgætisrammann ...
Framandi amerískt sælgæti var skoðað í Kosti í gær, eins og M&M með saltstangafyllingu og annað sem heitir Pop-tarts. Eins og margir vita eru sætindi ein leiðin til að koma sér upp sléttara andliti (en vissulega stærri fatastærðum) svo ég fjárfesti í einum pakka af Pop-tarts og öðrum af þessu skrítna MogM-i. Á meðan Tidy-þvotaefnið er æðislegt og þurrkaraklútarnir sturlað góðir, fær þetta sælgæti ekki svo háa einkunn hjá mér. Mögulega annað of sætt og hitt of skrítið. Svona er nú hægt að gera tjúlluð mistök þótt það hafi ekki verið ætlunin. Þetta, að kaupa framandi sælgæti, heitir sennilega að fara út fyrir þægindarammann sinn og þá er ég búin að því þetta árið. Ekki einu sinni stráksi hafði áhuga á að smakka þetta. Uppáhaldið hans í kökudeildinni er hvít regnbogaterta sem ég bakaði um síðustu helgi (sjá sérlega girnilega mynd). Mín er flottari en sú sem sýnd er á Betty-kassanum. Svo segir stráksi og ekki lýgur hann. Inga og Guðrún komu í kaffi á sunnudaginn og kvörtuðu ekki, svo þetta er pottþétt rétt.
Ég keypti líka eitthvað náttúrulegt til að sofna af í gær, mest til að snúa við þeirri óheillaþróun hér á bæ að sofna seint og vakna seint sem hefur viðgengist í sumar við mikla gleði stráksa sem breytist í B-manneskju á sumrin. Hann er auðvitað fyrirvinna heimilisins (öll sumur frá 13 ára) og mætir til vinnu í Fjöliðjunni klukkan 12, annað árið í röð, sem sagt annað sumarið í röð sem þessi ómennska viðgengst. Í gærkvöldi fengum við okkur gúmmíbirni sem innihalda svefnaðstoð. Ég hafði legið ofan á umbúnu rúminu mínu með skrautpúða (ok, risapúði, ekki skrautlegur) undir höfðinu og verið að lesa - og vaknaði næst klukkan fjögur í nótt (viftan sem blés á mig hafði kælt helst til of mikið), bara til að hátta og fara undir þunnu sængina mína. Þetta sem sagt virkar og verður hér eftir bara notað í neyðartilfellum, til dæmis til að sofna afbrigðilega snemma kvöldið fyrir morgunflug til Evrópu og líka venja okkur stráksa á skólavakn. Hann harðneitaði reyndar að segja mér hvort hann hefði sofnað eitthvað fyrr en vanalega í gærkvöldi.
Það sem mér fannst einna flottast í Kosti var fjöldi glútenlausra vörutegunda. T.d. Betty Crocker-kökur og -krem, pasta og alls konar fleira. Eitthvað fyrir frænku mína sem er með glútenóþol.
Rétt áður en ég leið óvænt út af í gærkvöldi (00.30) náði ég mynd af einhverju furðulegu sem hékk yfir Reykjavík. Geimskip eða fullt tungl var það sem mér datt helst í hug. Síminn var á náttborðinu svo ég greip hann og myndaði ósköpin. Að vísu var máninn ögn appelsínugulari en myndin sýnir en sennilega hefur Apple þótt flottara að laga litinn ... En litur birtunnar í sjónum fékk nú samt að halda sér. Ef þetta var geimskip sem ég uppgötvaði er kannski ekkert skrítið þótt ég hafi sofnað (verið svæfð) skömmu síðar en gleymst að eyða myndinni ...
Það var ekki laust við gæsahúð af hrifningu þegar ég upplifði hlýðni veðurguðanna (ekki í fyrsta sinn) ... sem höfðu skellt þessari fínu norðanátt á í dag. Samt alveg sól fyrir hitt fólkið, þann ótrúlega fjölda sem kýs að verja fé sínu í sólarvörn. Mér tókst að loka grunlausa kettina inni í herberginu mínu og opnaði síðan alla glugga og svaladyr ... hitinn hrundi úr molluhita (22,5-50?) niður í eðlilegan (18?) á örfáum mínútum. Þakklæti mitt er yfirgengilegt. En vifturnar hamast nú samt. Ég hef líka aðeins hindrað miskunnarleysi sólarinnar í suðurgluggum Himnaríkis án þess þó að loka birtuna úti. Það munar um það. Mér finnst óþægilegt að vera stödd einhvers staðar innandyra að degi til og fólk er með dregið fyrir gluggana, en það er til millivegur og hann þræddi ég í dag.
Mig langar að biðja veðurguðina sem öllu stjórna að halda gosinu á lífi ögn lengur, eða fram yfir 12. ágúst helst, til að ég verði samkeppnishæf við vissar hátíðir þann dag, en alla vega þar til Davíð frændi er búinn að þramma þessa níu kílómetra sem þarf til að skoða það. Eftir mini-móðuharðindin um daginn er ég alfarið á móti eldgosum, nema meinlausum ræflum sem ekki er hægt að skoða nema í sjónvarpinu og gasútblásturinn úr því veki furðu vísindafólks vegna skaðleysis. Láttu þig dreyma, frú Guðríður ... sem man samt að í gær óskaði hún eftir norðanáttinni SEM KOM Í DAG. Ekki vildi YR.no meina að nokkur breyting yrði á veðrinu. Sú norska segir mér reyndar að það séu 11 gráður þegar þær eru í raun 16 ... sem er ótrúlega góð innræting fyrir mig, heldur eiginlega í mér lífinu en einhver gæti sagt að Norðmenn væru að reyna að halda Íslendingum niðri með slíkum fölsunum, gefa í skyn að landið okkar væri frosinn klaki til að fá sjálfir fleiri ferðamenn. Einhvers staðar heyrði ég að norðurljós Norðmanna væru sjónhverfing gerð með speglum, sem kæmi mér ekkert á óvart. Upptaka af íslenskum norðurljósum, dass af gervigreind ... myndvarpi ... spegill og einbeittur norskur brotavilji.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.8.2023 | 20:14
Nafli alheimsins fundinn
Höfuðborgin var heimsótt í dag (eiginlega í gærkvöldi og gist), stráksi átti erindi og ég fylgdi með. Hilda hirðbílstjóri fór með okkur um víðan völl og við heimsóttum meðal annars álfa og svo nokkrar verslanir, einn dýralækni (sjúkrafæði fyrir Kela) og eitt kaffihús sem er með opið lengur en flest, jesssss (Te og kaffi í Garðabæ).
Sár skortur hefur til dæmis verið að myndast í Himnaríki á þurrkaraklútum sem sjá til þess að þvotturinn í þurrkaranum komi út þurr og rafmagnslaus. Eru ekki allir löngu hættir að nota mýkingarefni til að afrafmagna? Held að klútarnir séu skárri valkostur en það.
Costco bauð upp á sítrónukökuna góðu en það var Kostur sem átti þurrkaraklúta, ekki þessa góðu frá Kirkland (sjá mynd) en frábær og sérlega hjálpleg starfskona í Kosti benti okkur á öðruvísi klúta í litlum pökkum. Hún sagði líka snjallt að nota klútana í skó til að varna lykt ... og Hilda fékk glampa í augun, enda með fótboltastrák, svo hún keypti pakka.
Áður en við skutluðum stráksa rétt eftir hádegið prófuðum við ítalska samlokustaðinn (Cibo Amore) í Hamraborg og það er ekkert skrítið að þau þurfi oftast að loka fyrr á daginn af því að allt klárast nánast jafnóðum. Hamraborgin er eiginlega nafli alheimsins, ég væri til í að búa í íbúð þarna fyrir ofan ... ekki of mikill gróður, heldur dásamleg pöddulaus steinsteypa með flottri þjónustu allt um kring. Þar er dýralæknir, veitingastaðir, tannlæknir, blómabúð, kaffihús, matvöruverslun ... svo fátt eitt sé talið. Mér skilst reyndar að það eigi að fara að byggja þarna fyrir aftan svo það gætu orðið læti. Spurning um að vera þá með enn háværari músík ... já, ef ég flyt suður kæmi Hamraborg vel til greina. Ekki verra að hafa stóra strætóstöð rétt hjá, já, og Gerðarsafn er þarna líka, og bókasafn. OG EKKI MÁ GLEYMA KATALÍNU!
Ég hef stundum hugleitt hvort ég sé jafnvel að breytast í Hildu systur (ekki leiðum að líkjast). Ég er hætt að vera fréttasjúk, held ég hafi örmagnast eftir að hafa þurft að fylgjast grimmt með bæði jarðskjálftum og eldgosum, fyrir utan Covid-fréttir síðustu árin, en tók það skrefinu lengra en hún og nenni ekki að horfa á neitt nema eldgos í sjónvarpinu. Eins og hún hlusta ég orðið mikið á hljóðbækur en eitt er mjög ólíkt með okkur ... ég hef nokkuð betri kaffismekk en hún, finnst mér, (Espresso Roma vs Neskaffi). Svo finnst mér mikið ábyrgðarleysi að hafa slökkt á símanum á nóttunni sem hún ráðleggur mér reglulega eftir að ég kvarta yfir bíbbi úr gemsanum sem vekur mig stöku sinnum.
Mér tókst af mikilli snilld um árið að ná öllum bling-hljóðum úr gemsanum mínum nema því sem segir mér að einhver sem ég gæti mögulega þekkt (en geri nánast aldrei) sé á Instagram. Ég fæ svakaleg óhljóð í hvert skipti sem Insta lætur mig vita og einnig þegar frægir leikarar úr Hollywood byrja að fylgja mér ... eins og t.d. Keanu Reeves. Ég er líka með Elon Musk sem fylgjanda og einnig annan Elon Musk.
Ég veit því miður að það er ekki bara fegurð mín sem lokkar þessa stórhuggulegu fylgjendur að mér, heldur einhver svipur sem fær sumt fólk til að reyna að netsvindla á mér, frelsa mig til ofsatrúar eða dónast eitthvað og halda að Instagram sé stefnumótasíða. Stundum finnst mér eins og skrifað sé á ennið á mér: Bjáni, auðvelt að plata! Hef fengið frið frá indverskum ungum mönnum á snappinu eftir að heill veitingastaður ytra reyndi við mig um árið (íslensk, kannski ljóshærð og til í tuskið?) og ég tók smáspjall í beinni (í mynd) þar sem ég stóð og beið pirruð eftir strætó hérna á Garðabrautinni, með lífsreynslulínur og allt á andlitinu, ekki ljóshærð og ekki til í neitt. Þeim fannst þetta ógeðslega fyndið (og mér reyndar líka þótt ég léki mig hneykslaða og benti á að snappið væri ekki Tinder).
Hér í Himnaríki er mikill viftuhvinur. Ein vifta í eldhúsinu, önnur stór á ganginum, þriðja í stofunni og fjórða í svefnherberginu mínu. Hvar er norðanáttin svala þegar þörf er á henni? Til í að fá hana bara seint á kvöldin og til morguns til að styggja ekki vini og vandamenn ... dæs.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.5.): 21
- Sl. sólarhring: 38
- Sl. viku: 494
- Frá upphafi: 1526927
Annað
- Innlit í dag: 19
- Innlit sl. viku: 421
- Gestir í dag: 18
- IP-tölur í dag: 17
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni