Færsluflokkur: Bloggar

Hættuleg áróðurssíða, fríkað út og ástarsögumeiningar

1. maí fyrir nokkrum árumMótmælaganga var ekki gengin í dag, enda vinn ég hjá sjálfri mér og fékk ekki frí. Var mun duglegri við að mæta í slíkar göngur í gamla daga. Nú virðist úr mér allt bit. Áður fyrr, þegar aðalsamkomustaðurinn var bókasafnið eða stúkuhúsið, voru svona göngur hin besta skemmtun. Hreyfing, lúðrablástur og fjör. Sumardagurinn fyrsti var mun kaldari í minningunni en 17. júní bestur. Þetta dekkaði apríl, maí og júní. Ef ekki hefði verið fyrir jól, páska og bolludaginn ...

 

Mynd: 

Við Bogga vinkona göngum þarna hlið við hlið, beint fyrir aftan Gunnhildi (sem er fremst með með loðkragann). Létum svona skemmtun ekki fram hjá okkur fara. Við kynntumst í kringum fimm ára aldurinn í Nýju blokkinni þar sem við bjuggum báðar, og vinátta okkar hefur staðið óslitið í minnst fjörutíu ár plús ... Man eftir okkur dansa við Led Zeppelin III sem Siggi stóri bróðir hennar átti en þá gæti ég svo sem hafa verið flutt í Arnarholtið (bak við Einarsbúð) og verið í heimsókn, þá hef ég mögulega verið í kringum 11 ára og farin að meta þungarokk. 

 

Keypti tvo pakka af Eldum rétt-mat fyrir tvo sem komu stundvíslega eftir hádegi á mánudaginn. Veit ekki hvaða lufsugangur þetta er, en ég eldaði fyrri réttinn núna fyrst í kvöld, voða fínar kjúklingabringur sem klárast svo í hádeginu á morgun. Hinn rétturinn þarf að eldast á morgun því það er Rvíkurferð í kortunum um helgina, með sjálfum stráksa sem fær svo sannarlega ekki að segja sig úr fjölskyldunni þótt  hann hafi flutt. Ætli verði ekki pantað að kaupa KFC og aka Álfhólsveginn sem er uppáhaldsgatan hans í öllum heiminum, enda segir heitið allt um aðaláhugamálið, stráksi er þjóðlegur mjög, nema þegar kemur að sviðum, sem eru ekki uppáhaldsmaturinn okkar.

Yfirleitt eru karlar vitlausir í mig en andstyggð mín á sviðum hefur haft mikinn fælingarmátt. Úff, þessi hættulega áróðurssíða þarna á Facebook, Gamaldags íslenskur matur, hefur án efa eyðilagt allan séns fyrir mér. Réttast væri að tilkynna þennan boðskap um siginn fisk, gellur, skötu og slíkt, því eigendur Meta myndu án efa líta á þetta flest sem efnavopn. Ég var svo heppin að vera alltaf með svona hrylling vakúmpakkaðan þegar Elfa vinkona skældi út úr mér að koma með hákarl og hval til hennar í Ammríkunni. Hangikjötið var fínt og ég mátti alltaf koma með það til landsins, sagði bara LAMB ... en þau sem reyndu að taka hamborgarhrygg með sér westur voru iðulega stoppuð í því. Nú held ég að ekkert kjöt sé leyfilegt þangað.

 

Sofandi köttur„Á ekkert að fara að mála húsið þitt?“ spurði góð kona sem skutlaði mér heim úr stuttri heimsókn í dag.

„Jú, en fyrst ætlum við að klára eitthvað pípara-dæmi, einhver rör sem er verið að mynda, og ef þarf að gera við, verður það gert. Svo verður ábyggilega farið í utanhússfegrunaraðgerð.“

„Það gæti haft áhrif á söluna á himnaríki að húsið þarfnist málningar,“ sagði hún. Meinti eflaust að fólk héldi að ef það keypti himnaríki, biði þess einhver meiriháttar fjárútlát, en svo er auðvitað ekki. Járnið er meira og minna heilt en ljótt, þess vegna höfum við látið annað ganga fyrir. 

„Við eigum sko margar, margar milljónir í sjóðum,“ montaði ég mig, „það vildu allir klára gluggana fyrst sem nú er nánast búið, svo er verið að kíkja á rörin og þar á eftir, nú í sumar, verður eflaust málað,“ sagði ég.

 

Rúmið sem ég keypti í Jysk kemur á morgun, einnig fæ ég aðstoð á morgun við að gera herbergi drengsa suddalega flott. Vona bara að hann verði ánægður. Líklega kemur hann strax eftir helgi.

Ég hef sem sagt bara laugardagskvöldið til að fríka ærlega út. Hvernig fríkar maður út? Tillögur óskast. Góður kaffibolli og spennandi hljóðbók hljómar ekkert illa en bókin sem ég er að hlusta á núna ætti að vera algjör hvalreki fyrir þau sem lesa hjá Storytel - eða um ástir og örlög tveggja lesara hljóðbóka. Hún heitir Takk fyrir að hlusta og er só far alltílæ ... nema þar er talað um erótískar bækur (50 gráir skuggar-bækur) sem ástarsögur sem er algjör misskilningur. Í flestum ástarsögum er ekki farið svo mörgum orðum um ... þið vitið. Þær bækur gerast til dæmis í bakaríum við ströndina í hálöndunum þar sem rúntar er um í bókabílum. Siðprúðar ástarsögur. Hinar heita einfaldlega erótískar bækur, held ég. 

 

ÁstarsagaÍ þessari sem ég er að hlusta á er afskaplega mikið talað um hreim hjá sögupersónum, persónueinkenni og slíkt sem hræðir mig mjög frá því að hlusta á amrískar hljóðbækur, nema Takk fyrir að hlusta sé skáldskapur (djók). Hún er bjálæðislega vel lesin og lesari súpergóð leikkona sem getur sennilega ekki annað en leiklesið ... sem er algjörlega óþolandi til dæmis þegar eldgömlu konurnar eru að tala (gagga). En sú sem les getur samt varla annað en leiklesið bók sem fjallar um mikilvægi þess að leiklesa bækur, eiginlega ... ég ætla að reyna að gefast ekki upp ... Hef hlustað á bækur með þessari leikkonu og hún kann að lesa fyrir fólk, án þess að fara út í leikræna þjáningu. Eitt er að hlusta á hljóðbók og geta jafnvel sofnað út frá henni, annað er útvarpsleikrit sem krefst þess að maður haldi einbeitingu allan tímann. Ég ætlaði eitt sinn að prófa að hlusta á bók um Jack Reacher (eftir Lee Child) á ensku en gafst upp eftirörfáar setningar. Það var greinilega Marlboro-maðurinn sem las með murrandi, rifnum hljóðum sem áttu að vera svoooo karlmannleg í takt við Jack Reacher sem er auðvitað óbærilega flottur (í þáttunum á Amazon Prime). En hann talar ekki með svona röddu, hann er bara venjulegur.

Mynd af alvöruástarsögu, í þeirri merkingu sem flestir leggja í ástarsögur. Barbra Cartland var sannarlega siðprúður rithöfundur, og fólk hoppaði ekki saman í rúmið nema vera harðgift hvort öðru. Í eina skiptið sem hún hliðraði aðeins til með það, vissi konan að hann væri maðurinn hennar, en maðurinn þekkti ekki hlassið sem hann hafði gifst, enda hafði hún fallið í ómegin strax eftir brúðkaupið og legið í kóma í marga mánuði, eða þar til hún hafði náð kjörþyngd. Hún einsetti sér að ná ástum hans sem tókst, henni tókst meira að segja að vera á undan honum til herragarðsins þar sem hún bjó, en hann var svo mikill heiðursmaður að hann fór þangað til að biðja eiginkonuna um skilnað, sem var fáheyrt á þessum tímum, til að kvænast þessari fögru dásemd sem hann hafði sofið hjá ... þið skiljið, ég hef pottþétt skrifað um þessa bók ... man samt ekki hvað hún heitir.        


Góð bæjarferð, frændi kvaddur og unglingar með viti

JyskBæjarferð farin í morgun og þótt mér finnist ég ekkert hafa hreyft mig er skrefafjöldinn í dag kominn í fjórfalt meira magn en meðaltalið sýnir. Ég skammast mín of mikið fyrir hreyfingarleysið, svo tölur, þótt þær skipti öllu máli í öllu, verða ekki birtar að svo stöddu. Fór með systur minni í Jysk til að kaupa rúm, sængurföt og rúmteppi fyrir snáðann, drengsa, pottorminn, piltunginn, guttann(þessi nöfn eru komin í pottinn, takk, elskurnar). Keypti ljómandi fínt rúm sem þarf ekkert að gera við nema skrúfa fætur undir, á frábæru verði þar að auki. Ekki séns að ég geti sett nokkuð saman, hef reynt með slæmum árangri, lífið of stutt fyrir slíkt helvíti, og hirðsamsetjarinn minn er staddur úti í Litháen núna! Búin að redda góðum karli til að sækja fyrir mig rúmið, koma með það og skrúfa fæturna undir það. 

 

Elsku Geiri frændiAðalerindi bæjarferðarinnar var nú samt að fylgja elsku Geira (Þorgeiri) frænda sem lést óvænt fyrir nokkru og var jarðsunginn í dag. Við þekktumst ekki mikið en alla ævi hefur mér líkað einstaklega vel við hann og allt hans fólk. Hjalti pabbi hans var föðurbróðir minn. Geiri kom nánast árlega í afmælið mitt upp á Skaga, rétti mér pakka, fékk sér eina sneið af brauðtertu, eða svo með kaffinu og svo var hann farinn. Eitthvað sem mér fannst afskaplega kunnuglegt og ekkert athugavert við. Pabbi tolldi aldrei í neinum veislum nema í allra mesta lagi hálftíma, oftast svona korter. Svo frétti ég í dag að Hjalti, pabbi Geira, hefði verið svona líka. Guðríður amma kannski alið þá bræður upp við að gestir ættu ekki að vera þaulsætnir - enda var svo sem nóg að gera þarna úti í Flatey (á Skjálfanda) og lítill tími til að stjana við þaulseta ...

 

Geiri vissi auðvitað hversu mikil kattakerling ég er og skellti annað slagið kattabröndurum á vegginn minn á Facebook. Þeir voru vel valdir og skemmtilegir. Mér brá illa þegar kom fram í ræðu prestsins - og minningarorðum systur hans á fb í dag, að hann hafi orðið fyrir heiftarlegu einelti, ekki bara í grunnskóla, heldur líka af hendi einhvers eða einhverra í Vélskólanum. Í þá daga var þetta kallað stríðni en nú þætti það bara ofbeldi. Hann var stór og mikill um sig frá fæðingu, fékk seinna gleraugu ... og það þurfti ekki meira til að leyfa sér að ráðast á þetta stórgáfaða ljúfmenni. 

 

Það var ekki spurning um að mæta í útförina ... reyndar þá fyrstu sem ég treysti mér í eftir dauða sonar míns, fyrir utan jarðarför mömmu 2022. Held að það hljóti að vera erfitt að festast of lengi í einhverju sem kemur í veg fyrir að maður geti gert eitthvað, en ég var virkilega ánægð með að hafa komist yfir þennan hjalla og kvatt góðan frænda sem mér þótti vænt um, í leiðinni hitta stóran hóp af yndislega frændfólkinu sem ég er svo heppin að eiga.

 

„Frú Guðríður, klukkan er að verða fimm, ætlaðir þú ekki að ná strætó heim klukkan hálfsex?“ sagði rödd skynseminnar (systir). Við brunuðum af stað og ekki að spyrja að reykvísku umferðinni, hún tafði okkur það mikið (Hótel Loftleiðir-Mjódd) að ég lagði til að ég tæki bara næsta vagn á eftir, hálfsexvagninn væri líka Akureyrarferðin og oft alveg fullur strætó. Við hefðum sennilega náð, ég hefði kannski haft tvær mínútur frá bíl að vagni, sem nægir, en mig langaði að taka smávegis með af Jysk-dótinu úr skottinu á Hildubíl. Þvo sængurfötin og svona sem er fínt að vera búin að gera. Þarf að vera ansi hreint dugleg á morgun - og hinn. Fæ aðstoð á fimmtudaginn, sjúkk. 

 

 

Útlitið í Mjódd í dagÁ leiðinni í Mjódd til að ná hálfsjöferðinni fór ég að hugsa um næsta eldgos, eða kvikuhlaupið sem verður kannski að eldgosi í kvöld eða á morgun (sem Jón Frímann efast þó um að komi svo fljótt) það hefði nú samt verið dæmigert ef það hefði hafist í dag og ég ekki á vaktinni heima með aðgang að myndavélum í beinni. Þetta er áhugamál hjá mér og hefur verið árum saman.

Er enn hvekkt eftir að hafa verið stödd í bænum þegar eitt einsdagsgosið hófst. En úkraínski hirðljósmyndarinn minn hér í neðra, tók þessa fínu mynd út um gluggann hjá sér. Get ekki ímyndað mér að hún tími nokkurn tíma að flytja héðan. Af hverju gerðist ég ekki jarðfræðingur?

 

Þar sem við stóðum nokkur og biðum eftir leið 57 sagði unglingsstúlka við mig, alveg upp úr þurru: „Mikið ertu með flott um hálsinn.“ Hún átti við túrkísbláa trefilinn minn og bætti svo við: „Þau gera augun í þér svo fallega blá.“

(Sjá mynd af  mér eins og leit sennilega út á stoppistöðinni kl. hálfsjö í kvöld. Fölsun Lagfæring gerð með aðstoð Snapchat)

 

Sko, ef ég hef einhvern tímann efast um unga fólkið á Akranesi ... sem ég hef auðvitað alls ekki gert, aldrei nokkurn tímann, það er upp til hópa vel uppalið, smekklegt, hefur auga fyrir fegurð, er gáfað og dásamlegt. Auðvitað hefði verið afar gaman ef sætur karl hefði sagt þetta - það er orðið allt of langt síðan ég hef hitt menn með viti.     


Óvæntur dögurður, nýr stráksi og afmælisklúður

Flottur brönsSvolítið spennandi að taka þátt í fjáröflun, eða festa kaup á einhverju hratt án umhugsunar til styrktar körfuboltastrák, og ekkert pæla í því hvað kemur. Þegar dyrabjallan hringdi undir hádegi í gær, ýtti ég á takkann og mæðginin Hjördís og Aron þutu upp stigana hjá mér (án þess að blása úr nös, hrósuðu fyrir þessa ókeypis líkamsrækt) með vænan kassa með í för og afhentu mér. Þetta var nýbakað súrdeigsbrauð, alls kyns vínarbrauð (einhvers konar crossant-tegundir, ekkert hnetudrasl, jess) og tvær tegundir af salati. Ákaflega flottur dögurður/bröns fyrir átta manns. Í huganum hafði ég séð eitthvað fyrir mér sem ég komið með færandi hendi til Hildu í næstu bæjarferð, hún er með svo stórt heimili. Bakarísvörur eru bara góðar nýjar, finnst mér. Nú þurfti að hugsa hratt. Ég setti upp mitt blíðasta bros og bað þau um að aðstoða mig með kassann inn í eldhús. Á meðan þau hjálpuðu mér, læsti ég með alls kyns lásum og slagbröndum, nánast öllu sem ég fann og hefur einmitt orsakað að löggur, sendlar og vottar koma alltaf tveir og tvö eða tvær eða tvennt saman. 

„Þið sleppið héðan EF þið aðstoðið mig við átið,“ sagði ég svo ákveðin að þau settust. Mig grunar reyndar að þau hafi verið orðin svöng eftir að hafa hlaupið með svona brönskassa um allt Akranes. Klukkutíma og nokkrum mörgum kaloríum síðar fengu þau að fara. Ekki nema hálft brauð, niðurskorið í tveimur pokum, fór í frysti, enn svolítið eftir af salati. Brikk-bakarí? Ef rétt munað, þið eruð æði. Fínasti félagsskapur, akkúrat rétt um hálftólf á sunnudegi. Svona vildi ég byrja alla sunnudaga. 

 

Fíni sjórinnÍ dag komst á hreint að nýr stráksi (15) flytur í himnaríki, sennilega í næstu viku og tímabundið í einhverja mánuði. Þátt fyrir háan aldur minn (miðað við tvítuga manneskju) er ég þar með aftur komin í tvær til þrjár vinnur og finnst það bara fínt. Ég bjóst nú aldeilis við, snemma í apríl, að ég myndi fríka út hérna ein með kisunum, en þessar vikur hafa nánast bara farið í, fyrir utan vinnu við tölvuna, fjandans tiltektir eða annað hræðilega nauðsynlegt. Hvað með fallhlífastökkið, súludansinn, ananas-leiki í Hagkaup, valhoppa Fimmvörðuhálsinn ... og það allt.

Það er samt ekki hægt að kalla hann stráksa, burtfluttur stráksi minn á það nafn, það þarf eitthvað á borð við drenginn, piltinn, snáðann ... þigg allar tillögur.

 

Mynd af Mosa, (ekki ný).

 

Konan sem mætti hingað í dag til að ganga frá málum var næstum kæfð í gæsku af köttunum. Krummi lá á öxlunum á henni, hélt nánast utan um hálsinn á henni, Keli lagðist þétt við hlið hennar í sófanum og Mosi nuddaði sér upp við hana. Sennilega bara svona góð manneskja, mér sýndist það nú líka þótt ég léti ekki svona í henni. Keli er reyndar algjör snillingur þegar einhver er í ástarsorg, konan sór það af sér, hann finnur það og sækir í viðkomandi til að mala hjá honum, svo ef vini okkar, einhverfum, leið illa, var Keli kominn til hans og það gladdi, því Keli var annars hræddur við hann, eins og svo marga. Kettirnir  mínir eru yfirleitt góðir við alla en ég hef aldrei séð þá sýna álíka „ástreitni“ og þetta. 

 

Ég kláraði nýlega bókina Ég ferðast ein, e. Samuel Björk, mjög fín bók. Snjalla lögreglukonan Mia missti tvíburasystur sína fyrir tíu árum og syrgir hana enn sárt, þótt hún hafi skotið "morðingja" hennar, gaurinn sem kom henni í dópið. Hún gælir við að sameinast systur sinni, þegar hún hefur fyllt sig af víni og lyfjum, og sér fyrir sér nöfn þeirra systra, fer yfir nöfnin og svo koma fæðingardagarnir ... nema í Ég ferðast ein, eiga þær afmæli 11. nóvember, en í næstu bók á eftir Uglan drepur bara á nóttunni, sem ég er að ljúka við núna, eiga þær allt í einu afmæli 11. september. Í þriðju bókinni panta ég að þær eigi afmæli 12. ágúst! Held að ég eigi þessar bækur einhvers staðar, verð að kíkja, og ... þetta hlýtur að hafa verið höfundurinn sem klikkar svona, ekki þýðandinn, þetta kemur fyrir oftar en einu sinni í hvorri bók. Kannski tekur enginn eftir þessu nema ég. Kannski tók ég eftir þessu af því að ég las (hlustaði) þá seinni strax á eftir þeirri fyrri. 

 

 

Fólk sem lifir lífinu í gegnum tölur (ég) tekur eftir svona. Heyrir kannski orðið Hvammstangi og fær þá upp í kollinn töluna 530. Það má ekki koma jarðskjálfti nema ég verði að vita hve stór hann var, nægir ekki að vita að fólk hafi orðið vart við hann alla leið upp í Borgarnes. Á meðan covid var, þurfti ég að vita tölurnar, fannst bara ekki nóg að heyra að smitum hefði fækkað eða þeim fjölgað. Afmælisdaga man ég marga, gömul símanúmer, og ef líf mitt lægi við gæti ég sennilega rifjað upp nafnnúmer (8 tölustafir) Hildu systur og mömmu (þær skrifuðu upp á lánin fyrir mig í gamla daga) og alltaf varð útibússtjórinn í Búnaðarbankanum á Hlemmi jafnhrifinn þegar ég þuldi þetta upp, á eftir mínu eigin nafnnúmeri. Hvílíkur hvalreki hefði ég verið fyrir 118.

 

Það kæmi mér ekkert á óvart þótt einhver hugglegur stærðfræðingur hringdi í mig mjög fljótlega til að biðja  mín. Ég varð sjálf alltaf máttlaus í hnjánum þegar ég hitti flotta menn sem mundu t.d. póstnúmer og giftist þeim nokkrum. Þeim mun meira svekkelsi þegar kom í ljós að þetta var bara tímabundinn utanbókarlærdómur til að næla í mig. Eftir á að hyggja dáist ég samt að þeim fyrir að leggja það á sig. 


Snorrabull, strætórugl og bestu ráð í heimi

ViftaViftur himnaríkis eru ekki enn komnar í notkun en það líður að því. Svo á ég stórkostlegt leynivopn, afmælisgjöf frá Hildu systur, "hálsmen" sem virðist vera töff heyrnartól en er í raun vifta sem blæs í andlitið á manni. Það er ástæða fyrir því að fólk í gamla daga talaði um hitann í neðra, heitt = helvíti. Einmitt.

 

Snorri og Patrik spjölluðu saman á hlaðvarpi og vonuðust sennilega til að gera allt vitlaust á samfélagsmiðlum með því að segja að staður konunnar væri bak við eldavélina, eitthvað slíkt, konan gæti í mesta lagi opnað kaffihús. Held að kaffihúsaeigendur séu brjálaðri út í þessa gaura því það er algjör þrældómur að reka kaffihús. Þetta var ekki árið 1924 að segja hæ, en átti sennilega að vekja athygli, gera allt brjálað en held að flestir hafi nú verið slakir.

 

Snorri og PatrikÞetta hreyfði nákvæmlega ekkert við mér, Snorri getur ekkert gert mér verra en hann gerði þegar hann var fréttamaður á Stöð 2 og tók athyglisverða nálgun á frétt um fækkun strætófarþega á landsbyggðinni. Ekki samt nálægt sannleikanum; um fækkun ferða og hækkun fargjalda, covid sem átti mestu sökina, eða annað, heldur fannst honum sniðugt að telja stoppistöðvarnar á milli Mjóddar og Akureyrar og jesúsaði sig í bak og fyrir. Vissi greinilega ekki eðli almenningssamgangna, að verið væri að ferja gangandi vegfarendur hraðar yfir, og þá má alls ekki hafa langt á milli stoppistöðva. Ef Vegagerðin (sem rekur landsbyggðarvagnana) hefði farið í að fækka stoppistöðvm í kjölfarið hefði farþegum sennilega fækkað enn þá meira.  

 

 

Það breytti lífi mínu til hins verra þegar kerfið tók breytingum eitt árið (fyrir árið 2006) og ég þurfti að hlaupa út í háskóla til að ná vagni sem hentaði mér, eða labba út á Hofsvallagötu og taka vagn þaðan niður að ráðhúsi og ná þá öðrum út í svartholið* (*allt fyrir austan Háaleitisbraut), kannski nr. 115 en man það samt ekki. Þarna hafði komið kerfi sem átti að koma heppnum með búsetu-borgarbúum hraðar og oftar á milli og það bitnaði á mér, einnig nágrönnum mínum, vistfólki á Grund, stoppistöðin fyrir framan Grund var nú bara tekin, og fleirum. Ég hef aldrei heyrt um skipulagningu á strætósamgöngum þar sem strætófarþegar eða bílstjórar fá að vera með í ráðum. 

 

Fréttir af Facebook:

BakklóraSá ótrúlega langan þráð sem ég nennti ekki að klára að lesa, enda 1.500 komment ... Fólk var beðið um að gefa ráð, alveg sama hvers konar, bara góð ráð, takk og það lét ekki á sér standa. Svo mögulega eru þetta bestu ráð í heimi:

- Treystu innsæinu.

- Vertu góð/ur. Þú veist aldrei hvernig öðrum líður í dag, góðmennska þín gæti bjargað mannslífi. 

- Þú getur klórað þér á bakinu með því að nudda þér utan í hurð.

- Jóga núna, eða sjúkraþjálfun seinna.

- Karlmenn, setuna og lokið niður!

- 50 plús: Aldrei treysta prumpi.

- Ekki hlusta á ráð ókunnugra á Internetinu. 

- Vertu alltaf í hreinum og nýlegum nærfötum. Alltaf.

- Ekki borða gulan snjó.

- Ekki ofmeta mikilvægi þitt í lífi annarra. 

- Vertu alltaf með tissjú á þér. 

- Kauptu aldrei hús með flötu þaki. 

- Þegar þú ert í hættu eða vafa: hlauptu öskrandi í hringi. 

- Til að komast yfir einhvern, þarftu að komast undir annan.

- Farðu á klósettið fyrir svefninn, líka þegar þú heldur að þér sé ekki mál.

- Kauptu hús eða íbúð fyrir austan vinnustað þinn. Þá blindastu hvorki af sólinni á leið til vinnu né á heimleið. 

- Ef þú lánar einhverjum fimmþúsundkall og sérð hann aldrei framar var þeim peningi vel varið. 

- Aðeins tvennt sem píparar þurfa að vita. Skítur rennur niður í móti og ekki naga neglurnar.

- Ef önnur nösin er stífluð, t.d. sú hægra megin, þrýstu þá vinstri upphaldlegg þínum upp að vegg eða leggstu á hann í eina eða tvær mínútur, þá fer stíflan. Sama með vinstri nös og hægri handlegg. Klikkar ekki.

- Farðu úr sokkunum áður en þú leggst í baðkarið. 

- Aldrei gifta þig, sama hver á í hlut, viðkomandi mun mölva í þér hjartað, jafnvel eftir 35 ár.

- Hámark fimm takó frá Taco Bell, treystu mér.

- Aldrei treysta fólki sem segir treystu mér.

- Þú þurrkar þrisvar, enn brúnt, farðu þá í bað.

- Þegar þú ferð út að borða með vinum þínum, pantaðu alltaf aukaskammt af frönskum. 

- Aldrei treysta manni í hjólastól ef hann er í skítugum skóm.

- Það eru mörg hræðilega slæm ráð hérna. 

- Aldrei taka hægðalosandi lyf og svefntöflur á sama tíma. 

- Ekki borða eftir klukkan fjögur á daginn. Ekkert að þakka.

 

Ráð úr himnaríki:

- Lífið er of stutt fyrir vont kaffi. 

- Geymdu púðursykurinn í ísskápnum.


Fegurra göngulag og sumarbústaðaverð ...

FlutningarVanræksla stráksa hefur verið nokkur gagnvart mér og kisunum, miðað við fyrri yfirlýsingar, og með úkraínska hirðbílstjóranum mínum var farið í búð í dag, keypt eitthvað skemmtilegt og gott handa honum og gerð örstutt innrás til að afhenda gjafir og knús. Það er erfitt að keppa við nýja heimilið en ég fékk svo mörg knús á móti að það dugir mér vel fram í næstu viku. Svona í alvöru talað, hann er alsæll á nýja staðnum en mætti alveg koma oftar í heimsókn. 

 

Tíminn síðan hann flutti hefur verið notaður í svakalega vinnu, yfirlestur, tiltekt og þjálfun á göngulagi. Þetta síðasta er einna erfiðast. Ég hef haltrað í nokkra mánuði vegna verks í hásin sem hefur lagast mikið en ég geng samt enn eins og íþróttamaður sem hefur slitið hásin, nánast með staurfót án þess að þörf sé á. Ég tók því væna gönguæfingu í dag (og í gær) til að ná upp mínu gamla fjaðurmagnaða yndisþokkagöngulagi og þrátt fyrir nokkur eymsli hef ég góða von um að verða æðisleg. Svo náðist næstmesti skrefafjöldi vikunnar í dag, föstudag, en hvað gerði ég eiginlega á miðvikudaginn sem orsakaði að sá dagur ber höfuð og herðar yfir hina? Ahh, nú man ég, ömmukaffi og bakarísferð.

 

Himnaríki sjór„Ertu virkilega ekki búin að selja himnaríki?“ spurði systir mín hlessa þegar hún hringdi í dag. Hún hefði spáð klukkutímum en ekki dögum eða vikum, eins og kannski eðlilegra er þegar selja á íbúð. Ég hef horft girndaraugum á eina íbúð á Laugavegi, en hún er allt of lítil, allt of dýr og of hátt uppi til að ég geti gerst lattelepjandi 101-töffari í fúlustu alvöru. Hún hefur verið mjög lengi á markaðnum. Mjög lengi. 

„Nei, það liggur svo sem ekki lífið á, stráksi var að flytja og fínt að friður fékkst til þess,“ svaraði ég full bjartsýni. „Það verður líka ekkert grín að yfirgefa sjóinn minn, elsku himnaríkið, Einarsbúð, mömmur.is, Ingu, Símenntun, antíkskúrinn og fleira flott, en ... Katalína kallar,“ djókaði ég svo systir mín gjörsamlega veinaði af hlátri en hún hefur einmitt mælt með því við mig að ég flytji í póstnúmer 200. Ég er opin fyrir ýmsu. Ég sá í dag að það var að seljast sumarbústaður uppi í sveit, á 54.9 millur, á sama verði og sett er á himnaríki! 

 

Annars þarf ég að fara að deila dýrðinni (hlekknum frá fasteignasölunni) aftur á Facebook og minna á í leiðinni að í húsinu býr heimsins besta fólk (sem maður hittir þó allt of sjaldan), húsfélagið sjúklega vel rekið og heilu sjóðirnir sem við eigum í banka því við viljum safna fyrir því sem á að gera og erum líka varkár á víðsjárverðum tímum sem eru alltaf fyrir húsfélög. Hér er frábær formaður sem kann allar reglur, gjaldkeri með peningavit og riddari sem var eiginlega fengin í djobbið vegna útlitsins. Það sem ég skrifaði eitt sinn um að ég sem riddari húsfélagsins færi í siglingar um Karíbahafið fyrir sjóðina, með hinum í stjórninni, var orðum aukið, eiginlega bara lygi. Og það er heldur aldrei vodka í boði (til að fá hina íbúana til að samþykkja Karíbasjóferðirnar). Hér eru engir vortiltektardagar (hlaupið undan geitungum-dagar), það er aðili sem slær grasið og annar sem þrífur sameign. Svo ryksugum við sjálf, hver og ein íbúð, niður að næsta palli. Ég hef tvisvar ryksugað fyrir strákana hér fyrir neðan mig í þakklætisskyni fyrir að þeir kvarta aldrei undan háværri tónlistinni frá himnaríki (ekki hörpusláttur). Í sumum fjölbýlishúsum er ekki góður mórall, settar kannski glórulausar reglur eins og að banna börnum í húsinu að leika sér á lóðinni og bara allt svo hræðilega mikið bannað að það hlýtur að vera martröð að búa þar nema fyrir fólk sem vill banna allt. Hér þarf ekkert að banna, nema kannski að spila Mariuh Carey á hæsta, hlaupa upp stigana á skítugum vinnuskóm ... hér er aldrei neinn með skötu á Þorláksmessu sem er mikil gæfa, svo held ég að allir séu hættir að reykja, engir stubbar, enginn reykur um allt. Aldur íbúa: 0-65 ára.    

 

Draugar og uppeldiÞað eru auðvitað ástæður fyrir því að ég ákvað að setja á sölu og flytja svo í kjölfarið á mölina, tilfinningaríkar auðvitað, ættingjar, vinir, frændhundar og -kettir, fleiri bókasöfn, Katalína - en auðvitað eru gallar við höfuðborgina; meiri mengun, fleiri geitungar, meiri bílaumferð, lítill (enginn) séns á svipað geggjuðu útsýni ... en ég hef samt hugsað um þetta í einhver ár og af sífellt meiri alvöru, og núna hef ég búið hér í rúm 18 ár. Ég bíð samt eftir því að fólk segi: „Þú ert bara alltaf að flytja.“ Well. Átján ár hér, ef ég flyt í ár, áður átján ár á Hringbrautinni. Þar áður var ég vissulega alltaf að flytja. Leigjandi á ótryggum markaði ... Þegar ég fékk gat á hnéð (48 ára) vegna byltu á ógæfumölinni hér rétt hjá íþróttahúsinu á Jaðarsbökkum, sagði einhver við mig: „Vá, hvað þú ert mikill hrakfallabálkur.“(Svipað og ef einhver segði að ég væri alltaf að flytja) Ég flissaði því akkúrat á því ári voru liðin 40 ár frá síðasta óhappi, nema þá fékk ég gat á ennið. Kannski leggur fólk mismunandi skilning í sum orð. Hrakfallabálkur er sá sem endurtekið dettur á hausinn, brýtur sig ... ahh, man eftir einu, þrettán mánaða datt ég niður stiga og lærbrotnaði, í Stykkishólmi. Mamma kenndi draugagangi um (sjá mynd) en Möllershúsið var víst þekkt fyrir draugagang. Kostgangari þar, mörgum, mörgum árum áður, hafði drukknað, en kom þann dag í húsið til að láta vita af sér, rennblautur og sagi ekki orð, og sáu hann fleiri en einn. Fúlt að hafa búið í svona spennandi húsi og vera nánast ungbarn og óviti. Eiginlega verra en að eiga pabba sem var bíóstjóri á þessum tíma.    


Sumargleði, möguleg landráð og lestrarþjáning

Sumardagurinn fyrsti 2024

Gleðilegt sumar, elsku bloggvinir, nær og fjær, og takk fyrir veturinn.

Það er svo sannarlega komið sumar. Í gær sá ég kappklædda hlaupara fara fram hjá en í dag voru þeir mjög fáklæddir. Lítill munur á hitastigi en dagsetningin gerði gæfumuninn. 

 

 

Jarðarberjakókostertan sem ég keypti í gær var allt í lagi, gestir þáðu þó ekki aðra sneið, svo ég sit uppi með hana, hún var nefnilega svolítið þurr. Mögulega vildi bakarinn ekki að hún yrði of blaut og sparaði rjómann - eða notaði g-rjóma sem bleytir ekki marens. Frekar mikil synd, kannski ég kaupi rjóma á morgun, bæti á hana og setji svo í frysti til að eiga handa gestum. Eða mér - ef kökusneið kallar á át.

 

Myndin ... sú efsta sýnir árlegan glaðning, þegar hestamenn ríða yfir Langasandinn. Hin sjávarmyndin var tekin í kvöld og sú þriðja af ömmustráknum mínum, 7 mánaða, sem lærir senn að segja amma. 

 

Ekki var möguleiki að sofa lengur en til tíu þótt ég hafi reynt. Það var einhver myndarskapur að malla í mér og ég sá hættumerkin alls ekki fyrr en allt of seint. Áður en ég vissi af var ég búin að skipta á rúminu, skipta um kattasand, setja í þvottavél, setja restina úr vaskinum í uppþvottavél og setja hana í gang, fara út með kattasandsruslapokana og ryksuga himnaríki - rankaði svo við mér þegar farið var að nálgast hádegi og stoppaði þetta rugl. Eru þetta ekki landráð, svona á þessum degi? Smávegis möguleiki að bókin sem ég er að hlusta á sé svona spennandi, hún heitir Ég ferðast ein og er eftir Samuel Björk. Hún er það vel og nógu hratt lesin að ég hef hana á venjulegum hraða en í einhverjum húsverkjalátum ýtti ég óvart á takkann sem eykur hraðann og það var bráðfyndið að heyra lesið á mesta hraða, alveg óskiljanlegt í raun.

 

HálkaÉg nefnilega lét símann elta mig, var ekki með vasa svo ég hélt á símanum á meðan ég ryksugaði - og á milli herbergja. Skrefin? Algjör vonbrigði en ég sá við þessum fjandans skrefamæli, hahahaha. Göngubrettið ódýra en góða, er komið inn í fyrrum herbergi stráksa og þegar farið er á það horfir maður út á sjó. Og sjórinn er svívirðilega fagur núna, flottar öldur en ekkert brim samt. Svo ég stökk upp á brettið, gætti þess vandlega að hafa símann í vasanum á peysunni svo skrefin myndu telja ... og hviss, bang, ég fór nærri 200 skrefum yfir meðaltal (þarf svo sem ekki mikið til). Náði meira að segja örsnöggu snappi án þess að detta af brettinu. Held að þetta bretti verði notað enn meira en áður, mig langar að setja met - jafnvel toppa metið í Glasgow, tíu þúsund skrefa "skreppitúrinn" úr miðbæ að hóteli og það var óvart farinn stór krókur, stórt og vítt U til að viðra okkur enn lengur, ég fer ekki ofan af því, sum öpp eru leiðindatól.

 

Mynd 2: Þessi hálkumynd er það eina sem fær mig til að fagna sumarkomu, og hitanum sem oft fylgir. Vifturnar eru klárar.

 

Sven-GöranOft læt ég framburð á nöfnum pirra mig þegar ég hlusta á bækur og í morgun var það Händel, einhver var að hlusta á tónlist eftir hann. Lesarinn sagði HAndel í stað HEndel. Ég hef t.d. aldrei komið til Svíþjóðar og kann ekki stakt orð í sænsku en engdist samt í gegnum heila bók yfir framburði á Göran ... sem var bara borið fram eins og það er skrifað, í staðinn fyrir Jorann. (Sjá mynd af Sven-Göran Eriksson, allir segja Sven-Joran). Áður en ég skrifaði þetta með Göran, fór ég á YouTube og lét sænska konu segja Jorann aftur og aftur. (How to pronounce Göran (Swedish)) Hafði þó pottþétt heyrt það í sænskum lögguþáttum eða fótboltafréttum í sjónvarpinu. 

En samt ... það getur verið mjög, mjög tilgerðarlegt að heyra ensk nöfn í íslenskum bókum með sterkum enskum eða amerískum framburði. Bjarkarframburðurinn er kannski of harður, en þarna mitt á milli er fínt. Svo leist mér ekki á blikuna með nýja bók sem ég ætlaði að fara að hlusta á en hætti við ... heill herskari af leikurunum les hana og eflaust lúðrablástur og söngur líka. Ég hlusta á storytel til að láta lesa fyrir mig. Það er meira að segja á mörkunum að ég nenni að hlusta á bækurnar um Erlend (eftir Arnald) því það eru nokkuð mikil leikræn tilþrif þar (sumir halda að það eigi að vera, að hlustendur elski það, svo er nú ekki hjá flestum).

Þau sem sofna með Storytel í eyrunum (ég stilli iðulega á korter eða hálftíma) hrökkva upp við lætin í Erlendi þegar hann hundskammar Sigurð Óla, og sofna svo aftur eftir langa mæðu. Er að skrifa þetta fyrir vin.

 

(hrað)Fréttir af Facebook,:

- Gleðilegt sumar - mest áberandi

- Óska eftir túbusjónvarpi.

- Svona leit ég út þegar ég fermdist 1974, mynd

- Þrir hundar lausir hjá Bíóhöllinni (voru sóttir)


Ömmukaffi, örmögnun og jakkahremmingar

Matur og ömmupartíÖmmubarnarán mín undanfarið náðu nýjum hæðum í dag þegar mér var boðið í ömmu- og afakaffi á leikskóla hér í grennd. Ég hef ekki svo sjaldan lofsungið vinahjón mín hér í næstu blokk sem færa mér mat minnst vikulega og þau eiga tvo stráka. Yfirleitt eldar hann og hún kemur - og í gær þegar hún mætti með mat færði hún mér boðsmiða í kleinukaffi fyrir ömmur og afa. Ég telst vera Gurrí amma hjá eldri syni þeirra og að sjálfsögðu þáði ég boðið. Yngri drengurinn er bara sjö mánaða en hann lærir innan tíðar að segja amma ...

 

Myndin sýnir litla boðsmiðann - og fyrir ofan hann má sjá dýrðarinnar matinn (pabbinn elskar chili og eftir nokkra góða skammta frá honum af sterkum mat hef ég öðlast eins konar drekahæfileika. Kveðja, mannlega eldvarpan í himnaríki. 

 

ÖmmukaffiAlveg er það merkilegt hvað við Íslendingar, sætindaþjóðin mikla, smitum marga af sykuræðinu, eins og minn kæra ömmudreng, sem kemur í sumarkaffi til mín á morgun ásamt foreldrum og litlabróður. Vissulega hafa þau tekið upp ýmsa íslenska siði en ég átti ekki von á þegar ég hvíslaði að honum í ömmukaffinu á meðan ég lagaði vaðmálstreyju hans: „Hvað á ég nú að gefa þér á morgun, snáðinn minn? Pönnukökur með kandíssykri, kleinur, flatkökur með hangikjöti og hamsatólg, vöfflur með súru slátri og rófusöppu?“

 

 

Svona taldi ég nú upp alls konar þjóðlegt góðmeti sem sjálfsagt er að halda að öllum sem eru svo hugrakkir að þora að flytja hingað til lands elds og ísa, hárra vaxta, Norðmannaþjónkunar ... svo fátt sé talið.

 

Drengurinn er vissulega alveg vitlaus í kleinur, veit ég eftir reynslu dagsins, en hann hvíslaði nú samt: „Mig langar í donuts!“ Svo ég staulaðist (fóturinn samt skárri) út í bakarí eftir að ömmukaffinu lauk. Fann þennan ljómandi fína ferkantaða kleinu"hring" en féll að auki fyrir sumarlegri jarðarberjatertu sem ég hef lúmskan grun um að sé útgáfa af þessari sjúklega góðu, kókosmjölsbotn og jarðarberjarjómi á milli. Ég er ekki að plata með ferkantaða kleinuhringinn, þetta er mjög flott hjá Kallabakaríi, vekur mikla lukku.

 

Mynd 2: Ömmustrákurinn sæti. Mjög, mjög sjaldgæf mynd af sjálfri mér sem ég bið ykkur um að vera ekkert að pæla mikið í, en mér hefur tekist að halda mér afar unglegri með því að leyfa ekki myndatökur síðustu misserin og birta bara gamlar myndir af mér á Facebook til að fólk segir Sæta spæta, þegar ég þarf á peppi að halda ...

 

Bara þessi göngutúr út í leikskóla - og svo ögn lengra út í bakarí og ekki endilega stysta leiðin heim ... og ég setti met í skrefafjölda, 2.000 fleiri skref í dag en í gær, ég er líka gjörsamlega örmagna og get kannski, mögulega, varla þó staðið upp úr skrifborðsstólnum undir miðnætti ... annað kvöld. Gott að súrtunnan er undir skrifborðinu og slátrið síðan í fyrra orðið svo girnilega morkið að ekki þarf að tyggja það eða melta.

 

CartmanSumardagurinn fyrsti er víst á morgun - ansi margt sem bendir til þess núna - en aldrei í æsku minni. Ég kíkti á veðurappið áður en ég fór út í dag og sá mér til hryllings að það voru 11°C og enn vetur. Ég yrði að fara í aðra yfirhöfn, því þykka heimskautaúlpan gæti skaðað heilsu mína alvarlega í svona hita. Ég blótaði upphátt og áttaði mig svo á því að ég hafði gert það í þessari snjöllu röð og alveg óvart: A-D-H-D, mjög gamaldags íslenskt blót sem endaði á -ull.

En ég hunskaðist inn í herbergið mitt og gramsaði í einum skápnum þar til ég fann þynnri jakka, samt allt of hlýjan. Það þynnsta og kaldasta sem ég á er regnkápa (samt stundum óheyrilega hlý) og sú er göldrótt. Ég gekk í henni hálft sumar og það rigndi ekkert allan tímann, mjög vandræðalegt fyrir mig, vantaði bara regnhlífina. Bændur í Árnessýslum höfðu loks samband og báðust vægðar, grasið þyrfti vætu. Þá fór ég í þessa eldgömlu flík sem hefur allt of lengi (sex-sjö ár) virkað sem vor-, haust og sumaryfirhöfn. Jakkinn er styttri en ég hefði kosið og minnir talsvert mikið á Cartman-jakkann minn (sjá mynd 3) sem ég átti í gamla daga og var silfurlitaður, þá hlýtur mér að hafa verið sama um útlitið. Gleymi alltaf að kaupa mér almennilegan vor-haust-sumar-jakka. Vó, vor-haust-sumar ... er VHS. Nú fékk ég gæsahúð.     


Köttur úti á svölum og sjokkerandi sögur af tengdó

Kamilla, Inga, GerryGestakomur eru að verða daglegt brauð en ... mögulega fréttist af sítrónukökunni úr Costco sem systir mín færði mér í gær og enn var góður afgangur af. EN ... góðu, skemmtilegu vinirnir, hin danska Kamilla sem starfaði hérna á spítalann sem fæðingarlæknir um hríð, og Gerry, hollenski maðurinn hennar, listamaður sem hélt myndlistarsýningu í galleríi á Skólavörðustíg, kíktu óvænt á Skagann í dag. Kamilla hafði verið beðin um að halda námskeið í Reykjavík og þar sem hún átti afmæli tveimur dögum seinna, fannst manni hennar ekki hægt að hún héldi upp á það ein ... svo hann mætti og þau skemmtu sér á ýmsum blús- og djasstónleikum, eins og þau voru dugleg að sækja þegar þau bjuggu hér. Það voru auðvitað þau sem drógu mig með á tónleikana góðu í Ölveri ... stað sem þau héldu að væri í miðborginni - svo það var eins gott að ég var með í bílnum og gat vísað þeim veginn. Ein brúðkaupsveislan mín, sennilega sú fyrsta, var einmitt haldin í Ölveri í Glæsibæ. Það var verulega gaman að sjá þau, en þau fluttu heim til Danmerkur í fyrrahaust (eftir um ársdvöl) og ég átti hreint ekki von á að sjá þau svona fljótt aftur. Þau eru afar hrifin af Íslandi og finnst Akranes æði, of kors. Inga kom líka og sat með okkur og Keli köttur tók talsverðan þátt í samræðunum með mali sínu um sitt af hverju kattatengt, eins og sést á myndinni. Ég trúði þeim fyrir því að eini tölvupósturinn sem ég hefði fengið í dag væri frá sjálfri mér. MUNA AÐ KELI ER ÚTI Á SVÖLUM. Það hefur verið ómögulegt að hafa opið út á svalir í nokkur ár, nema loka Mosa einhvers staðar inni, hann sér opinn glugga og fleygir sér út um hann, ef eru opnar svaladyr hafnar hann á næstu svölum fyrir neðan. Sannar hryllingssögur. Svo fannst hann ofan í bílvél sem kettlingur og enginn veit hvaðan hann kom. Aðeins sex líf eftir.

 

Ég hef nefnilega gleymt Kela á svölunum, honum er treystandi til að vera þar og fer sér ekki að voða. Svo starir hann svekktur á mig næst inn um gluggann þegar ég kem fram og sæki mér kaffi, jafnvel tveimur tímum síðar, hann mjálmar of lágt. Hann var tiltölulega nýkominn inn eftir mátulega langa útiveru þegar Kamilla og Gerry komu og svo þegar Kamilla rauk út á svalir og sagði að þar væri dásamlegt elti hann hana þangað.

 

 

Hálftíma eftir að þau hjónin voru farin fékk ég SMS frá Kamillu. MUNA, KELI ER ÚTI Á SVÖLUM (hún talar fína íslensku). Ég hló, hélt fyrst að hún væri að stríða mér ... kíkti samt og Keli sat á svölunum ögn móðgaður, greinilega búinn að mjálma lágt nokkrum sinnum. Nýi vaninn í himnaríki verður að kíkja út á svalir mörgum sinnum á dag, jafnvel þótt ég muni vel að hann hafi ekkert farið út á þær. Ég kíki nú samt til öryggis.

- - - - - - - - - - - - - - - - - - -

Tengdamömmur

 

Tengdósögur: Ég heyri alltaf af og til góðar sögur og fékk margar slíkar þegar ég skrifaði stundum lífsreynslusögur fyrir Vikuna. Nýlega rakst ég á síðu á Facebook þar sem mátti finna frásagnir af samskiptum við tengdaforeldra. Hér eru nokkrar þaðan og líka eitthvað innlent sem ég lumaði á og vona að ég hafi munað rétt.

 

Ég hafði verið gift í yfir 20 ár þegar ég rakst á gulan límmiða inni á baði frá manninum mínum þar sem hann  skrifaði að hann væri búinn að fá nóg og hefði yfirgefið mig og börnin. Ég reyndi að ná í hann án árangurs og hringdi loks í mömmu hans. Hún gargaði á mig, vissi greinilega allt og sagðist skilja vel af hverju hann hafði gefist upp á mér, ég neitaði stundum að gefa honum heimalagaðan mat. Það var svo sem rétt, því hann kom oft svo seint heim á kvöldin að ég og börnin vorum sofnuð - það hafði hann þó ekki sagt mömmu sinni.“

 

Fyrrverandi maðurinn minn hafði verið giftur áður en við kynntust. Foreldrar hans voru með brúðkaupsmyndir af honum og fyrri konu hans upp á vegg inni í stofu. Ég spurði eitt sinn hvers vegna og fékk þá frá tengdamömmu: „Jú, við þekktum hana á undan þér og hún mun alltaf vera hluti af þessari fjölskyldu, er hún ekki falleg?“ Tengdamamma sá svo til þess að þessari fyrrverandi væri boðið í allar veislur og viðburði í fjölskyldunni þótt við værum þar líka.“ 

 

Tengdaforeldrar mínir voru lengi ósáttir við hvernig ég og sonur þeirra vildum hafa hlutina á heimili okkar, t.d. í skápum og -skúffum í eldhúsinu. Undir því yfirskini að hjálpa til við frágang í eldhúsi við ýmis tækifæri, reyndu þau lengi vel að raða í skápana eins og þeim fannst að ætti að gera það. Við breyttum alltaf til baka og loks hættu þau þessu. Þetta var bara fyndið.“

 

Foreldrar mannsins míns telja sig til fína fólksins, nógu rík eru þau. Alltaf flott klædd, heimilið óaðfinnanlegt og matarboðin þeirra bera af. Þau sýna mér kurteisi en góði smekkurinn þeirra er víðs fjarri þegar þau velja handa mér afmælis- og jólagjafir. Ég veit ekki hvar þau grafa upp allt þetta ljóta en oft dýra dót sem ég fæ frá þeim, ósmekklegt punt, ilmvötn sem ilma hræðilega eða kerlingalegan fatnað. Maðurinn minn sér þetta vel og saman skemmtum við okkur bara yfir þessu núorðið. Ég skil ekki ástæðuna og mun eflaust aldrei gera það.“

 

Sambýlismaður minn til þriggja ára á son frá fyrra sambandi sem kemur til okkar aðra hvora helgi. Tengdaforeldrar mínir vilja ekkert af mér vita, ég má ekki stíga fæti inn á heimili þeirra og þau heimsækja okkur aldrei. Ástæðan er sú að þegar maðurinn minn hætti með barnsmóður sinni sögðu þau honum að nú yrði hann að einbeita sér að barninu og hætta öllu kvennastandi. Þess vegna láta þau eins og ég sé ekki til.“

 

Eftir að tengdaforeldrar mínir mættu trekk í trekk óvænt í heimsókn bað ég þau um að gera boð á undan sér, svo það væri hægt að taka betur á móti þeim. Við vorum kannski að fara eitthvað út, eða allt í drasli og ekkert gaman að fá þau við slík tækifæri. Þau urðu nú samt svo móðguð að þau hættu að koma í heimsókn og litu mig ekki réttu auga næstu árin, eða þar til ég skildi við son þeirra.“      


Fjör í vetrarlok og aðalsamkvæmisleikurinn í dag

Gestir í dagSamkvæmislífið tók óvænt stökk í dag, eiginlega tvö sem hefðu getað orðið þrjú (heimsókn nr. 2) ef hraðklónun væri möguleg eða hægt að teleporta sig á milli staða. Litla systir brá sér í bíltúr upp á Skaga eftir hádegið (og það er mjög skemmtilegt, Erpur!) ásamt fylgikonu og tveimur mjög sætum hundum, og eftir smávegis kaffispjall í himnaríki kíktum við á stráksa þar sem hann lifir góðu lífi annars staðar en í himnaríki, ótrúlegt en satt. Hann bauð upp á sælgæti (hann lumar enn á nánast ósnertu páskaeggi) og við fengum líka nýbakaðar tebollur (með súkkulaði).

 

Myndin efsta sýnir gestina góðu stefna á Langasand sem var upp á sitt besta og fegursta í dag, sjórinn flottari eftir því sem leið á daginn og fullt af sjóbrettafólki í dag, skilst mér.

 

Við buðum stráksa í ísbíltúr en Frystihúsið hefur tekið nokkrum breytingum og nú er hægt að fá þar kaffi og bakkelsi (m.a. Langa-Jón). Staðfesta mín er einstök, einn latte, takk, hljóðaði pöntun mín. Stráksi var spenntur yfir meðlætinu, fékk sér safa og meððí, engan ís, og fékk að nota gjafakort sem hann fékk í afmælisgjöf í fyrra (það fannst í flutningunum). Engir stælar  þarna þótt meira en ár væri liðið, bara ljúfmennska OG fínasta kaffi frá Costa. Þarf að prófa drykkinn Langasand, sem ég hef heyrt gott um, er bara svo hrædd við sætt kaffi. Sumir óttast uppvakninga og blóðsugur, jafnvel geitunga, ég er hrædd við sæta kaffidrykki, geitunga og að festast í sumarbústað með drukknu og leiðinlegu fólki sem ég þekki lítið.

 

Áður en systir mín renndi í hlað, hafði mér borist spennandi boð ... á söngleik í Bíóhöllinni á Akranesi. Grease, hvorki meira né minna. Ég hef áður sagt frá grimmd örlaganna, þegar ég er á leið í sumarbústað þar sem er kannski jafnvel ekki sjónvarp og HM í fótbolta er að hefjast klukkan fimm. Svipað gerðist í dag, bæði leikur með Liverpool ytra og ÍA mun nær. Skvísa sem er með FOTMOB í símanum sínum nær samt að gleðjast þegar hún kíkir í hléinu á sýningunni ... Fulham 1-3 Liverpool ... og svo ÍA 5-1 Fylkir.

 

GreaseÉg er kannski ekki orðlaus yfir sýningunni sem elsku Hjördís (mömmur.is-snillingurinn) bauð mér á og Peta, mamma hennar, ásamt fullt af krökkum á öllum aldri í fjölskyldu þeirra, heldur skortir mig frekar nógu sterk lýsingarorð til að hrósa krökkunum úr Fjölbrautaskóla Vesturlands sem sungu og dönsuðu eins og þeir hefðu ekki gert annað, og hljómsveitin var æðisleg líka. Fyrir misskilning var ég komin hálftíma á undan Hjördísi og kó en áttaði mig samt ekkert á því að standa upp til að vera fremst í biðröðinni. Hefði samt verið vesen að hlaupa fyrst inn, ég var ekki með miða og er heldur ekki nógu þybbin til að taka frá ellefu sæti, alveg spurning hvað maður getur klætt sig úr mörgum peysum, treflum og úlpum eða reynt að flæða yfir sætin. Við sátum fjórar á öðrum bekk, hægra megin og barnabörn Petu tóku eiginlega allan fyrsta bekk, ég hætti að telja þegar ég var komin upp í fimm. Ég táraðist nokkrum sinnum af einskærri hrifningu ... þau voru, hvert og eitt einasta, virkilega góð. Vona bara að það verði jafngaman á Skálmöld núna 1. nóvember. Mínir menn þurfa heldur betur að bretta upp ermar, stilla sína strengi og vera í sínu besta formi til að jafnast á við Grease-gengið á Skaganum.

 

Samkvæmisleikurinn sem allir taka þátt í þessa dagana er að finna skyldleika við forsetaframbjóðendurna í ár. Mér til mikillar gleði er ég skyld þeim öllum. Hér eru nokkur sigurstrangleg, eitt af þeim verður pottþétt forseti - og sem frænku verður mér vonandi boðið á Bessastaði:

Frændfólk mitt

Arnar Þór Jónsson - áttmenningar

Ásdís Rán - sjömenningar

Ástþór Magnússon - skyld í tíunda og sjöunda lið, löng saga

Baldur Þórhallsson - sjömenningar

Guðmundur Felix - skyld í sjöunda og áttunda lið

Halla Hrund Logadóttir - skyldar í fjórða og fimmta

Halla Tómasdóttir - sjömenningar

Jón Gnarr - áttmenningar 

Katrín Jakobsdóttir - áttmenningar

Steinunn Ólína - áttmenningar

 

Veit ekki hvað ég á að gera við þennan skyldleika. Kjósa þá sem er mest skyld mér, Höllu Hrund - eða þann sem er minnst skyldur mér til að forðast klíkutengsl vegna skyldleika, Ástþór? Mér finnst samt mjög fúlt að vera ekki skyldari þessu fína fólki en ég er, það er samt blátt blóð sem rennur um æðar mér (spyrjið bara á sjúkrahúsinu, blóðprufudeild, s. 432 1000) einn forfaðir minn er norskur konungur - af hverju man ég ekki nafnið á honum. Svo er einn sona Jóns Arasonar líka skyldur mér, forfaðir ... Ég get reyndar montað mig af Kristjáni Jóhannssyni söngvara, ef hann hefði boðið sig fram til forseta hefði ég getað kosið hann, við erum þremenningar! 


Skerí talnaminni, móðguð Skagakona og ... eltihrellar

Fyrr í kvöldTalsverð vinnuafköst í dag þótt fótaferðartími væri nær hádegi en sjö, og það er enn fínt í himnaríki! Diskur og bolli dagsins í vaskinum af því ég nenni ekki að taka úr uppþvottavélinni, hreinn og þurr þvottur í körfu inni á baði en korterið sem þessi verkefni taka, verða unnin á morgun. Ég fer ekki einu sinni inn í stofu, ég þori varla að anda til að ryk fari ekki á ranga staði. Það er svo gaman að hafa allt fullkomið. Gestir eru auðvitað samt velkomnir. En þeir verða að sætta sig við að sitja ofan á plastpokum á gólfinu og drekka vatn úr pappaglösum.

 

Grannkonan góða frá Úkraínu fór í búðarferð seinnipartinn og tók Gurrí sína með þótt mig vantaði svo sem ekki margt. Við fórum þó fyrst í frískápinn, beint á móti Búkollu nytjamarkaði, þar sem grannkonan skildi eftir smávegis matarkyns. Allt brauðið sem var til í frysti í gær, var búið. Vildi að ég hefði vitað af því að við færum þangað, nú er stráksi fluttur og mataræðið orðið mun sykurminna svo ég þarf að gefa eitthvað af Royal-búðingi og fleira í þeim dúr, einnig frosnu nautahakki í nokkru magni, nema ég verði MJÖG reglulega (daglega) með lasagna á meðan frystirinn tæmist.

 

Fórum næst í húsið í enda bæjarins, sem hýsir Classic hárstofu, Apótek Vesturlands, pítsustað (sem ég er enn fúl út í vegna lélegrar þjónustu við app-lausa) og Bónus. Frábæra Andrea, góðgerðadrottning okkar Skagamanna, sat við borð á ganginum, eins og flesta föstudaga, og seldi lakkrís og sitt af hverju fleira, en allt rennur til góðra málefna, eins og að hjálpa veiku fólki. Sjálfstjórnin kom í veg fyrir lakkrískaup svo ég ákvað frekar að leggja inn á hana og sleppa fjandans lakkrísnum. Henni virtist brugðið þegar ég fór að þylja upp kennitöluna hennar (ekki síðustu stafina, ég er ekki klikkuð) en ég lagði inn á reikninginn hennar fyrir tveimur eða þremur árum (því ég var ekki pening á mér) og ég er minnug á tölur. Reyndar fæddist hún daginn sem ég átti að fæðast (tveimur dögum fyrir 12. ágúst) en er yngri, en ég tjáði henni það bara alls ekki, vonandi tilnefnir hún mig til Nóbelsverðlaunanna fyrir talnaminni en kannski varð hún of skelkuð, þótt hún liti svo sem ekki út fyrir það. Hún þekkir kannski fleiri nörda.

 

Gísli gerir Mart-einnRottweiler-Erpur móðgaði mig í kvöld í sjónvarpinu (hjá Gísla Marteini) með því að tala um það eins og einhvern hrylling að skreppa í bíltúr upp á Akranes - miðað við hvað það væri nú meira hipp og kúl að vera leiðsögumaður í Írak og í eyðimörkinni þar í grennd, þar sem sporðdrekar eru minnst hættulegu kvikindin. Hefur hann aldrei heyrt um antíkskúrinn, vitann, Langasand og Guðlaugu? Ein ísbúðin okkar er orðin Costa-kaffihús og ég ætla að prufukeyra kaffið þar á sunnudaginn, mjög spennt. Það er virkilega almennilegt hitastig utandyra á Akranesi núna, helst til of hvasst samt seinnipartinn. Erpurinn kýs frekar 45 stiga hita ... og ég er að tala um á Celsíus. Sko, 45 gráður á Farenheit væru reyndar mátulegur 7 stiga yndishiti á Celsíus. Sko, ég er Skagakona (alltaf í hjartanu þótt ég búi annars staðar) og hlusta mjög reglulega á Bent nálgast, sem er reyndar eina Rottweiler-lagið á Ýmis lög á tónlistarveitunni minni. Þar eru líka Valdimar, BG og Ingibjörg, Eminem, Red hot chilli Peppers, Hljómar, Pixies, Radiohead, Skálmöld, Rolling Stones og bara alls konar skemmtilegheit, gott við vinnuna. 

 

Ætla samt, svona móðguð, að halda Bent nálgast með Rottweiler inni á tónlistarveitunni. Þegar ég bjó á Hringbrautinni (101 Rvík núna, var 107) gerðu Rottweiler-hundar myndband með einu laginu, einmitt við stigaganginn minn í gömlu Verkó. Ég þorði ekki að anda, þarna uppi á annarri hæð. Rosalega stolt. Ég hlusta aldrei á texta svo ekki segja mér ef texti þess lags fjallar um hrylling við að búa við umferðargötu sunnanmegin og með geitunga inn um gluggana garðmegin.

 

Ove OttoYfirleitt þegar ég heimsæki Hildu og gisti horfum við á eins og eina bíómynd - sem er vinsælt af öðru heimilisfólki og heitir kósíkvöld. Þetta heldur mér upplýstri um það sem er í gangi í kvikmyndaheiminum. Þess vegna sé ég fleiri bíómyndir en ella, því ekki kemst ég í Bíóhöllina á Akranesi, enginn strætó á kvöldin eða um helgar. Í nýjum sáttmála, eitthvað slíkt, Akraneskaupstaðar, var talað um gott aðgengi fyrir alla að menningu - svo strætó mun sennilega fara að ganga oftar, nema bærinn kaupi undir mig bíl og bílstjóra. En Bíóhöllin er ógeðslega langt í burtu. Síðast horfðum við Hilda og fleiri á A Man Called Otto. Tom Hanks í aðalhlutverki. Amerísk og nýleg útgáfa af hinum geðvonda Ove ... Dásamleg bók og fín bíómynd ... sú nýja með Tom Hanks var sýnd á Stöð 2 áðan og ég horfði með öðru um leið og ég bloggaði. Skemmtilega nágrannakona Ottós sem dró hann upp úr geðillskunni er frá Suður-Ameríku, man ekki landið, en í sænsku myndinni og bókinni er sú hressa frá Íran. Áttaði mig ekki á þessu um daginn. Það má auðvitað ekkert jákvætt koma fram westra um fólk sem kemur frá Íran og löndunum í kring, nema einu. Ég meira að segja gúglaði muninn á myndunum og þar kom bara fram að sú ammríska gerðist í Bandaríkjunum og töluð væri enska - sú fyrri væri sænsk og allt það.   

 

baby reindeerFréttir af Facebook

Dásamleg kona sem ég þekki mælti með þáttum um mann sem lendir í heljargreipum harla óvenjulegs eltihrellis, eins og hún orðar það. Hún rifjaði upp, af því tilefni, að þegar hún starfaði sem sjónvarpsþulur um tíma á níunda áratug síðustu aldar, að stundum hafi karlmaður hringt inn í útsendingarstúdíóið þegar hún var á vakt. Í fyrstu hrósaði hann henni fyrir fatnað eða framburð en svo kárnaði gamanið ... Hann fór að segja henni að hann hefði fylgst með henni í búðinni sem hún fór alltaf í, hvað hún hefði keypt og hverju hún hafði klæðst. Undir það síðasta byrjaði hann að lýsa því hvað hann vildi gera við hana og þá hafði hún samband við lögreglu sem gat lítið gert. Tæknimenn á vakt fylgdu henni út í bíl eftir að vinnu lauk og hún fór ekkert ein og alls ekki í búðina sína næstu þrjá mánuði. Símtölin hættu svo alveg. Mjög óhugnanleg upplifun.

 

Nokkrir skrifuðu athugasemd og höfðu lent í svipuðu. Eins og fréttamaður sem sagði meðal annars: „Ég fór að fá símtöl ... og svo tugi smáskilaboða á dag frá sjúkri konu ...“

 

Kona sem vann í morgunútvarpi skrifaði að hún hefði átt tvo eltihrella á svipuðum tíma, annar var leigubílstjóri og lögreglumaður, hinn virtur lögmaður. Hún var bíllaus, strætó ekki byrjaður að ganga svo hún varð að taka leigubíl. Annar eltihrellirinn var bílstjórinn sem sótti hana einna oftast.

 

Þættirnir sem orsökuðu þessar umræður heita Baby Reindeer og eru á Netflix. Mögnuð sería, segir hún, vel skrifuð og leikin, djúp og bæði grátbrosleg og óhugnanleg. Byggð á reynslu höfundar sem leikur aðalhlutverkið. Ætla að sjá þessa þætti.


Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 18
  • Sl. sólarhring: 364
  • Sl. viku: 1980
  • Frá upphafi: 1455683

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 1614
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ástarsaga
  • Sofandi köttur
  • 1. maí fyrir nokkrum árum

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband