Hollustusystirin góða og margir gulir bílar

HollustufræFjölbreytnin í systkinahóp mínum er mikil, enda erum við fjölmörg ... við erum ólík og lík og allt þar á milli en öll falleg. Ein af systrum mínum, sérlega hrifin af hollustu, fékk þá hugmynd nýlega að kaupa tvöfaldan skammt af hollustukúr, endurræsingarkúr, eitthvað slíkt, og var svo yndisleg þegar hún sá grilla í öfundarglampa (ég er líka hrifin af hollustu) í augum mínum, að hún gaf mér heilan dag af kúrnum, síðasta daginn hennar sem hefði átt að vera í gær eða dag. Nema, hún sleppti því að gefa mér hráefni í morgunmatinn, því hafragrautur breytist í steypu í maganum á mér. „Glútenfrítt haframjöl gæti virkað öðruvísi og betur á þig,“ stakk hún upp á en ég hristi hausinn. Ekkert fær mig til að borða hafragraut eftir hryllingshafragraut æsku minnar. EKKERT.

 

Ég drakk kaffibolla í morgunmat, átti að vera með laktósalausri mjólk (ekki til). Svo kom að hádegisverðinum þegar klukkan var langt gengin í tvö, ég get verið frestari stundum. Ég bjó mér fyrst til sérstakt te til að sötra allan daginn, drakk sopa af sterku seyði og hófst svo handa við að hita matinn. Bræddi skírt smjör á pönnu, hitaði fræbyggtrefjakássu-eitthvað þar og setti ögn meira skírt smjör í lokin. Mér tókst með herkjum, hugrekki og hugprýði að borða skammtinn og skildi þá loks af hverju holla systir hafði viljað sleppa síðasta deginum. Bara grunsemdir samt, hún er hetja að geta þetta í fimm daga. Þetta var svolítið eins og kartöfluhýði og roð fræheimsins, því maður bruddi eitthvað sem maður var sennilega vanur að taka utan af einhverju skárra ... Margvíslegt hýði - bragðbætt með skírðu smjöri? 

Rétt í þann mund og ég lauk máltíðinni kom Eldum rétt með vikulega kassann, svona eins og til að núa salti í sárin, ég hafði fyrirfram ákveðið að elda ER í kvöld en geyma minn hluta til hádegis á morgun. Þetta hljómar svo miklu verr en það gerði í gær. Í dag tók ég bara einn klukkutíma í senn. Er búin að slökkva á kaffivélinni og holli fiskrétturinn með melónusalatinu verður ábyggilega næstum jafngóður upphitaður á morgun. Þú getur þetta, frú Guðríður! Engum sögum mun þó fara af því hvort þetta tókst hjá mér ...

 

MangókjúklingurÞegar við stráksi vorum á leiðinni í Mjódd á laugardaginn, til að taka strætó heim kl. 20, stoppuðum við í Nettó til að kaupa kvöldmat sunnudagsins. Ég sagði honum að ég væri búin að elda svo oft og mikið að ég þyrfti frí. Annaðhvort sæi hann um kvöldmatinn eða við hefðum eitthvað svakalega þægilegt. Ég benti honum á ýmsan girnilegan (og hollan) mat til að hita upp en hann hristi hausinn og stoppaði svo fyrir framan kælinn með 1944-mat sem ég hafði heitið mér að hvíla vel og lengi eftir endurbæturnar 2020 þegar eldhúsið var í lamasessi, eða ekkert eldhús í Himnaríki um hríð. Drengurinn benti á mat sem var honum að skapi ... Kjöt í karrí. Slæmar æskuminningar um kjöt í karrí (áður en ég smakkaði alvörukarrí löngu seinna), skræla sjálf kartöflur og leiðindi flaug í gegnum hugann:

„Já, góð hugmynd, elskan! Örugglega voða gott,“ sagði ég og bætti við: „Hvað ætti ég að velja mér?“ Það hafa bæst við fjölmargar tegundir af réttum og erfitt að velja.

„Mangókjúklingurinn er fínn,“ sagði hljómfögur rödd fyrir aftan okkur. Ég leit við að sá að sjálf Guðrún Bergmann heilsugúrú stóð þarna í eigin persónu. Ég hélt að hún væri svo mikil hollustulögga að hún léti bara sjá sig í Heilsuhúsinu og Gló en greinilega ekki. Hún sagði að barnabörnin stödd í heimsókn hjá henni væru búin að heimta bjúgu í matinn og hún væri að reyna að finna þau. Ég þakkaði Guðrúnu kærlega fyrir og greip pakka af Mangókjúklingi. (Á myndinni hér ofar var ég búin að hræra hrísgrjónunum saman við, annars hefði diskurinn minn líkst myndinni á pakkanum meira, eða kannski ekki. Mangókjúklingurinn reyndist alveg ágætur, takk, Guðrún, og stráksi var líka mjög sáttur við kjötið sitt í karríi, enda fullviss um að hann hefði valið betri réttinn.

Hann sá til mín við matarbrasið skrítna upp úr hádegi og spurði ögn stressaður: „Hvað verður í matinn í kvöld?“ (eins og hann fengi kannski ekkert).

„Fiskur,“ svaraði ég.

„Vei, það var líka fiskur í skólanum í hádeginu,“ sagði hann glaður ...

Það rifjaðist svo upp fyrir okkur þar sem við stóðum í Mjóddinni að fyrr þennan sama dag, þegar við brunuðum einmitt í Mjóddina, sagði einhver í strætisvagninum okkar: „Gulur bíll, gulur bíll,, gulur bí-“ sem okkur fannst sérlega fyndið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.5.): 42
  • Sl. sólarhring: 150
  • Sl. viku: 2328
  • Frá upphafi: 1458866

Annað

  • Innlit í dag: 38
  • Innlit sl. viku: 1911
  • Gestir í dag: 35
  • IP-tölur í dag: 35

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Fallegustu menn í heimi
  • hvernig íslend sjá Evrópu
  • Siegfriedungjoy

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband