Sjokkeruð tepra ... og þó

Sýrlenskur maturTepruskapurinn í mér fékk svolítið áfall á föstudagskvöldið þegar Hugleikur Dagsson var með uppistand í sjónvarpinu, á ensku, þetta var upptaka frá Finnlandi þar sem hann skemmti þarlendum. Ég held og hef lengi haldið að Finnar séu með dásamlegri þjóðum. Ein heimsókn þangað (kórferðalag) á síðustu öld, kynnin við Ritvu, Matta, Leningrad Cowboys (finnsk hljómsveit), Lordi og ótal margt fleira. Já, uppistandið ... sko, ég er yfirleitt ekki sérlega hrifin af neðanbeltishúmor, finnst hann oft ansi þunnur og leiðinlegur, gerir lítið úr bæði körlum og konum ... en ... Nokkrum sinnum á meðan ég horfði hugsaði ég: Hulli þó! Oftast var nú alveg hægt að glotta út í annað og jafnvel flissa ... sumum tekst ágætlega að fara illilega yfir línuna, en þegar hann fór að segja prumpbrandara missti ég mig gjörsamlega úr hlátri í stofusófanum. Púðinn við hliðina á mér, sem ég tróð upp í mig, kom í veg fyrir að nágrannar mínir, Jaðarsbraut, Höfðabraut, Garðabraut, hringdu í lögregluna, þvílík voru lætin. Gott að stráksi var ekki heima, hann hefði ekki skilið þessi vein mín yfir lýsingum á glútenóþoli og hljóðunum og vandræðaganginum sem orsakast af því ... Finnsku áhorfendurnir skemmtu sér konunglega allan tímann. Ég er endalaust þakklát RÚV fyrir að sýna þessa uppistandsþætti. Hef séð þrjá síðan undir áramót, en ansi lítið sjónvarpsgláp mitt gæti mögulega hafa komið í veg fyrir að ég hafi séð fleiri, ef hafa verið. Best að kíkja á ruv.is við tækifæri hvort svo sé. 

 

Mynd: Hjónin í næsta húsi settu enn eitt stúlkna- og drengjametið í elskulegheitum núna áðan með matarsendingu. Enn og aftur. Dugar í þrjár himneskar máltíðir.

 

Fyrir og eftir baðiðUm þessar mundir eru fjögur ár síðan endurbætur hófust í Himnaríki. Ég fékk nýtt bað og nýtt eldhús, ný gólfefni og fataskápa. Allt var málað og tekið í gegn. Í leiðinni losaði ég mig við hátt í helminginn af eigum mínum, bækur, húsgögn, húsmuni og reyni enn í dag að hemja mig svo ég fari ekki að safna að mér dóti aftur. Gengur frekar illa þegar kemur að bókum. Þær hafa svolítið safnast upp. Reyni að losa mig við eitthvað af þeim jafnóðum, og svo dót í staðinn fyrir annað dót ... En mikið rosalega er skemmtilegra og fljótlegra að taka til. Enn hugsa ég með þakklæti til Didda og kó (Trésmiðja Akraness), Guðnýjar og allra frábæru mannanna sem komu að endurgerð þessarar glæstu íbúðar. Að fá þvottahúsið inn á bað var bara æði, miklu skemmtilegra að þvo og vera komin með fatahengi og hol í stað pínulitla þvottaherbergisins sem var áður. Ótrúlegt samt að það séu komin fjögur ár! Baðljósið sem lífgaði áður upp á veggina er nú komið inní eldhús og stendur sig ágætlega við að lýsa mér við eldamennskuna.   

 

Tjöld á AusturvelliAf Facebook:

„Hvernig í ósköpunum getur það truflað nokkurn mann að fólk sem á ættingja og vini í lífsháska tjaldi á túnbletti um hávetur? Myndi maður ekki aðallega hafa áhyggjur af því að því sé kalt?“ Heyr, heyr, Egill Helgason.

 

Svokallaðir Burner Accounts í Bandaríkjunum hafa verið notaðir til að senda ógeðsleg skilaboð á trans fólk. Trans kona segir: „Eftir 7. október sl. hef ég ekki fengið nein skilaboð af þessu tagi. Af því að þetta er sama fólkið, öfgakenndir trúarofstækismenn í USA og Bretlandi, sem keppist nú við að koma óorði á stuðningsfólk Palestínu.“

Skyldi það vera? Sá nýlega ljóð eftir „skáldið“ sem hefur vissulega fært athygli sína og sinna frá trans fólki að tjöldunum á Austurvelli.

 

Jón Frímann

„Jarðskjálftavirknin er núna orðin sú sama og fyrir eldgosið þann 14. janúar 2024. Þetta er eins og rúmlega 10 klst. fyrir eldgos. Hvort ég hef rétt fyrir mér verður að koma í ljós. Þetta eru spennuskjálftar í Krýsuvík og við Kleifarvatn vegna þenslu í Svartsengi og annarra færslna á svæðinu við Grindavík og Svartsengi.“

Jón Frímann (leikmaður í fræðunum, afar fróður og sannspár) var spurður hvort hann hefði tilfinningu fyrir því hvar næsta gos komi: „Því miður er líklegt að næsta eldgos komi sunnan við eldgosið sem varð þann 14. janúar.“ 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 287
  • Sl. sólarhring: 306
  • Sl. viku: 1768
  • Frá upphafi: 1454237

Annað

  • Innlit í dag: 244
  • Innlit sl. viku: 1481
  • Gestir í dag: 233
  • IP-tölur í dag: 229

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Bakklóra
  • Snorri og Patrik
  • Vifta

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband