Of ungleg fyrir sæti ...

SvonaTannlæknirinn minn er kominn í dýrlingatölu hjá mér. Það þurfti að gera við pínkupons- nánast bara passa að eitthvað yrði ekki að skemmd en samt var þetta sama vesen og þegar um stóraðgerð er að ræða. Tjalddúkur og klemmur og það allt. Þegar verið var að koma þessu fyrir í fögrum munni mínum fylltist ég allt í einu innilokunarkennd og nefndi það án þess að biðja um að nokkru yrði breytt. Tannsinn minn, sankti Jónas, hætti snarlega við bráðabirgða-dúklagningar í gini mér og gerði þetta upp á gamla mátann sem ég verð endalaust þakklát fyrir. EF ég flyt í bæinn, er alveg möguleiki á því að halda mig við þessa dýrð og dásemd sem hann er, einhverjir brottfluttir Skagamenn gera það. Það var einungis gífurleg sjálfstjórn sem varð til þess að ég faðmaði hann ekki í kveðju- og þakklætisskyni, þá hefði ég sennilega misst af strætó heim, klukkan var orðin svolítið margt. Já, talandi um strætó. Tannlæknirinn er í góðu göngufæri en brrrr, veðrið frekar fjandsamlegt hárinu á mér; rok, hálka, hláka, vindur, haglél, skýjað, rigning, allt þetta og meira til.

 

 

Svo ég tók strætó frá Garðabrautinni - fór upp í hverfi og til baka, upp hjá Bónushúsinu og svo niður í bæ og stökk út skammt frá þar sem tannlæknastofan er, rétt hjá spítalanum, Jóni rakara, Nínu, fiskbúðinni, kírópraktornum og gamla pósthúsinu. Ég stóð allan tímann. Vagninn fullur af fjórðubekkingum og fleirum sem höfðu sennilega aldrei heyrt minnst á að standa upp fyrir gamla fólkinu. Ég get sagt þetta þótt ég samsami mig á engan hátt með gömlu fólki, því ég man fullvel hvað mér fannst um 12 ára krakkana þegar ég var sjö ára. Þau voru fullorðin, foreldrar mínir gamlir. Afar og ömmur (50-60 ára) komin á grafarbakkann. Svo áttaði ég mig á því að svo margt hefur breyst í áranna rás. Í Reykjavík unglingsáranna tóku allir strætó, bíleign var langt í frá eins og núna, og við stóðum að sjálfsögðu alltaf upp fyrir eldra fólki. Svo flaug í huga minn þar sem ég stóð og ríghélt mér í handfang sem hékk niður úr lofti vagnsins. Handarbakið á mér var rennislétt (andúð á sólböðum að gefa), alveg jafnslétt og á börnunum (9-16 ára) svo bara það hve ungleg ég hlýt að hafa verið í þeirra augum, alla vega handarbakið, kom sem sagt í veg fyrir að þau drusluðust upp úr sætunum sem merkt eru gömlu fólki með staf. Og var ég með staf? Nei, aldeilis ekki. Var líka öllu vön síðan ég ferðaðist reglulega með SVR hér áður fyrr. Þá var nú ábyggilega gott fyrir fólk með mikla snertiþörf að taka strætó, get ég ímyndað mér, oft svo þétt staðið og setið. Þrengslin í innanbæjarstrætó í dag minntu mig einna helst á Jethro Tull-tónleikana á Akranesi árið 1992. Man vel eftir fulla gaurnum sem stóð nálægt sviðinu. Hann var stór og stæðilegur en þrengslin héldu honum uppi, hann reyndi nefnilega hvað eftir annað að deyja áfengisdauða og hrynja niður á gólf en það tókst ekki fyrr en eftir tónleikana. 

 

Stráksi minnUm næstu helgi fer stráksi í helgardvöl í Reykjadal. Það er einn allra besti staður í jarðríki, í hans huga, allir svo góðir og skemmtilegir og fyndnir og frábærir.

 

 

Við urðum hrikalega montin þegar við sáum mynd á Facebook-síðu sumarbúðanna þar sem stráksi sést vel og greinilega, situr fremst í báti í appelsínugulu björgunarvesti. Geri ráð fyrir því að þessi mynd sé opinber og ég megi birta, fyrst hún er á opinni síðu sumarbúðanna, ég veitti leyfi fyrir birtingu mynda af honum og eflaust forráðamenn hinna barnanna líka. Ef ekki, tek ég hana út í hvelli.

 

Disco-Stylistic-FeaturesStráksi er pínku kvefaður og fékk því ekki að fara í sund í dag. Fósturmamman (ég) sagði nei, svo hann er í slökun inni í herbergi og hlustar á hræðilega tónlist á milli þess sem hann gúglar eitthvað áhugavert um álfa, tröll og þjóðsögur í spjaldtölvunni. Ég hef mikið reynt að gera hann að góðum rokkara en hann flýr öskrandi (ýkt) eða biður mig um að lækka. Held að hippakynslóðin hafi svolítið lent í þessu með börn sín fædd upp úr 1970. Var ekki diskóið að hefja innreið sína um svipað leyti og börnin urðu unglingar? Ég er af 78-kynslóðinni svo ég hef ekki þessa reynslu, fékk rjómann af 70's og kynntist seinna frábærri tónlist tíunda áratugarins, 90´s, í gegnum soninn. Radiohead, Wu Tang Clan, Greenday, Nirvana og fleira í þeim dásemdardúr sem fékk mig til að trúa á mannkynið aftur. Ef ég reyndi að hlusta þarna inn á milli heyrði ég bara diskó, fönk og soul og lagðist þá til dásvefns aftur með Led Zeppelin í annarri og Pink Floyd í hinni. MTV-sjónvarpsstöðin sem kom á heimilið 1995, breytti sem sagt öllu. Enn dett ég svolítið í: Vá, hvað það er ömurleg tónlist í gangi núna (úti í heimi) ... en svo kemur eitthvað gott lag og þá hægt að taka gleði sína aftur.

 

EldabuskanGet ekki sagt að ég sé mikið fyrir stórar breytingar í lífinu nema sirka á átján ára fresti, (ef eitthvað virkar fínt, því þá að breyta?) en ég ákvað í gær að panta mat fyrir tvo í þrjá daga hjá Eldabuskunni. Sá að mömmur.is (Hjördís) mæla hástöfum með þessu, það var að auki afsláttur upp á 15% í gegnum mömmurnar og hægt að fá sent upp að dyrum á Akranesi, svo mér fannst sniðugt að prófa. Maturinn er fulleldaður og þarf bara að hita hann. (Dásamleg snilld) Ég var svo einbeitt við að panta og ganga frá þessu að ég gleymdi að slá inn afsláttarkóðann! Verðið kom mér samt gleðilega á óvart, það er ekki nema ögn hærra en hjá Eldum rétt og svo kostar sendingin eitthvað líka. Stráksa leist aldeilis vel á þetta og við bíðum spennt eftir grilluðum kjúklingi með sweet chili og rjómaosti, nautagúllasi með kartöflugratíni og gratíneruðum þorski með humarsósu. Ferskt salat með öllu, sýnist mér. (Rændi mynd af eldabuskan.is til að sýna hvað þetta virðist vera flott).

Svo er allt að verða vitlaust á Skaganum út af hvítlaukssalti frá Dalahvítlauk ... ég er búin að panta og fæ far með grannkonu til að sækja á morgun í Breið þróunarsetur. Strætó gengur ekki þangað. Hjónin hjá Dalahvítlauk koma sem sagt aftur á morgun eftir óvænta svakasölu í fyrradag. Skilst að þetta sé ekki bara gott, heldur rosalega gott. Efast ekki um það. 

 

Facebook fyndin í dag:

„Ég las einhvern tíma að hver sígaretta stytti líf manns um x mínútur. Svo er líka frádráttur vegna óhollrar fæðu, yfirþyngdar, hreyfingarleysis, áfengisneyslu og ég veit ekki hvað og hvað. Ég var að reikna og með trega tilkynni ég hér með að ég lést í miðjum samræmdu prófunum árið 1982. Blóm og kransar afþakkaðir en ég bendi á súkkulaðibirgðir næstu verslunar og heimilisfang mitt.“ (Dúa dásamlega)  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 161
  • Sl. sólarhring: 348
  • Sl. viku: 1877
  • Frá upphafi: 1454457

Annað

  • Innlit í dag: 144
  • Innlit sl. viku: 1578
  • Gestir í dag: 138
  • IP-tölur í dag: 138

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Bakklóra
  • Snorri og Patrik
  • Vifta

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband