Annir, flugur, keppni, verðlaun og menning

Alltaf gott að koma heim á föstudögum, sérstaklega eftir skemmtilega strætóferð með Tomma. Við höfum ansi líkan tónlistarsmekk og ef Magnús hefði ekki gefið mér King Arthur-diskinn með Rick Wakeman í afmælisgjöf hefði Tommi lánað mér plötuna (vínyl) og ég getað látið Bergvík afrita hana yfir á geisladisk.

West-Ham-02Þetta var vægast sagt MJÖG annasamur dagur, við vorum að ljúka við mjög djúsí blað (já, lögfræðingur hringdi og allt ... kannski fer ritstjórinn minn í fangelsi Police). Aukablað með geggjuðum uppskriftum fylgir líka næstu Viku ... Ritstjórinn fer í frí á mánudaginn og undirrituð þarf að leysa hana af í tvær vikur. Það verður bara spennandi, ég væri eflaust þrælstressuð ef ég ynni ekki með jafnmiklum dúndurkonum og ég geri. Velgengnin hefur verið slík síðustu mánuðina að við vorum verðlaunaðar, fengum gjafakort á tvo flugmiða með Iceland Express. Langar mikið að nota þá í að bjóða erfðaprinsinum í fótboltaferð til Englands í vetur. Það hefur verið draumur okkar að fara á leik, t.d. með West Ham, uppáhaldsliðinu okkar. Kannski skreppa til Katrínar í leiðinni!

FlugaÁ meðan sumir kljást við geitunga þessa dagana er allt fullt af stórum og pattaralegum fiskiflugum í himnaríki, ég sé alla vega eina núna. Mig grunar að þær komi mun fleiri inn yfir daginn þar sem kettirnir hafa sjaldan verið þriflegri. Þetta sparar mér gífurlega fjármuni í kattamat ... hvað er hollara en fljúgandi ferskt og stökkt sushi, fullt af próteini og vítamínum! Verð reyndar að viðurkenna að ef mér tekst ekki að bjarga viðkomandi risaflugu út þá tek ég fyrir eyrun áður en smjattið hefst, enda finnst mér smjatt einstaklega ógeðfellt hljóð ... bæði hjá köttum og mannfólki.

Katrín Snæhólm

 

Mig langar að benda á einstaklega skemmtilega keppni sem fram fer á bloggsíðunni hennar Katrínar Snæhólm, svona sögu- og ljóðakeppni. Hún hvatti gestkomandi til að semja ljóð eða sögur um myndir sem hún birti og nú keppist fólk við að tilnefna það sem því þykir best.

Er búin að lesa þetta einu sinni yfir og þarf að gera það aftur ef ég á mögulega að geta valið. Það er erfitt að gera upp á milli, kannski get ég það ekki.

Hélt að ég væri ekki mikil ljóðamanneskja en þar skjátlast mér, þarna eru fín ljóð. Tilnefningar/kosningin er ekki bara fyrir bloggvini Katrínar, heldur alla þá sem kíkja við á síðunni hennar. Hér er slóðin:  
http://katrinsnaeholm.blog.is/blog/katrinsnaeholm/entry/287784/#comments

MenningarkvöldMegi svo kvöldið verða gott hjá ykkur, krúsídúllurnar mínar. Held að mitt verði guðdómlegt. Fékk DVD-disk með fyrsta þættinum úr nýrri míníseríu sem byrjað verður að sýna á SkjáEinum í næsta mánuði og hlakka til að horfa á hann! Svona er nú hægt að sameina vinnu og skemmtun. Vissulega gæti einhver sagt að ég eigi mér ekkert líf en hamingjan liggur í litlu hlutunum ... Á morgun ætla ég t.d. að njósna með stjörnukíkinum um fólk sem djammar á menningardeginum hinum megin við Faxaflóa. Held að ég nenni ómögulega í bæinn og mun njóta þess í tætlur að horfa á t.d. flugeldasýninguna í gegnum stjörnukíkinn. Hér er þó ekkert til að borða nema landnámshænuegg og möffins síðan úr afmælinu, ég klúðraði helgarinnkaupunum algjörlega, neyðist líklega til að fara í einhverja Óeinarsbúð eða bensínstöð á morgun. Það vantar alla vega kattamat og mjólk út í latte!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: krossgata

Stjörnukíkir segirðu.  *hugsi-hugsi-hugs*  Ég ætla að fara að venja fólk við orðið stjörnukíki og 50 ára afmælið mitt í samhengi.  Að vísu nokkur ár í það en reynslan hefur kennt mér að fólk tekur ekki mark á svona skrítnum óskum nema það hafi verið undirbúið lengi.  Ég er ekki enn búin að fá fiðluna sem ég hef veirð að undirstinga fólk með síðustu 30 ár.

krossgata, 17.8.2007 kl. 21:14

2 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Þetta með að undirstinga fólk ... ég sá svo flotta uppþvottavél í húsi skömmu fyrir þrítugsafmælið mitt, litla vél sem var byggð ofan í eldhúsbekkinn. Ég setti ekkert samasemmerki á milli þess og afmælisins en fólkið mitt tók þessu ómeðvitaða hinti mínu og færði mér litla og sæta uppþvottavél. Það varð ást við fyrstu sýn. Verst að það tók 11 mánuði að fá pípara til að tengja hana ... þessi þriðji sem kom hafði hringt á rangri dyrabjöllu um morguninn og kom sama daginn og tengdi! 

Mikið vona ég að þú fáir stjörnukíki, Krossgata! 

Guðríður Haraldsdóttir, 17.8.2007 kl. 21:31

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Já Gurrí mín (dæs) þar sem ég veit að þú ert hokin af forvitni og eigandi öflugs stjörnukíkis verð ég að játa að ég ofurlítið öfundsjúk út í þig, þjáist af sama "hoka"

Smjúts

Jenný Anna Baldursdóttir, 17.8.2007 kl. 21:44

4 Smámynd: Brynja Hjaltadóttir

Brynja Hjaltadóttir, 17.8.2007 kl. 21:45

5 Smámynd: Brynja Hjaltadóttir

..ekki nota þessar fiskiflugur í fiskisúpu? Arg þoli ekki þegar tölvan tekur af mér völdin og vistar algerlega óskrifuð commet....ekki ég að fálma á lyklaborðinu heldur allt tölvunni að kenna

Brynja Hjaltadóttir, 17.8.2007 kl. 21:47

6 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Fiskisúpa, hmmmm, kettirnir éta flugurnar jafnóðum, kannski ég kenni þeim að safna þeim í staðinn. Hehehheeh!

Er ég rosaleg að nenna ekki í bæinn, Jenný? Býst við að fá Ellý með barn í mat á morgun. Hún nennir ekki heldur! Það er svo gott að búa á Skaganum. Þið Jóna ættuð bara að skella ykkur til mín um helgina ... ja, hún er með tengdó í heimsókn. Alla vega bráðum, stelpa! 

Guðríður Haraldsdóttir, 17.8.2007 kl. 21:57

7 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Elsku. Gurrí þú ert yndisleg alltaf gaman að lesa bloggið þitt

Kristín Katla Árnadóttir, 17.8.2007 kl. 22:14

8 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Áttu virkilega stjörnukíki ? mikið hlytur það að vera skemmtilegt hobby.

Marta B Helgadóttir, 17.8.2007 kl. 22:17

9 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Jamm, það er sko gaman að fylgjast með í góðu skyggni, sé þoturnar taka á loft frá Keflavíkurflugvelli, sæta manninn fara í morgunsturtuna í Öldugrandanum ... nei, ókei, þetta seinna er ekki rétt, tunglið er voða flott í gegnum kíkinn og flugeldasýningin á menningarkvöld var æðisleg í fyrra. Vona að hún verði jafnflott á morgun. 

Guðríður Haraldsdóttir, 17.8.2007 kl. 22:39

10 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

VIð áttum einu sinni stjörnukíki, nennti honum ekki þurfti þolinmæði og þess háttar við stillingu og að ná nokkrum myndum af viti, sá bara stjörnur á flögri svo ég bara seldi hann. Verð heima á morgun ekkert helv. borgarrölt, allt betra en það. Yndislegt þetta með flugurnar, ég veiddi oft hrosssaflugur handa gömlu kisu sem ég átti, henni fannst svo sérstaklega gaman að borða þær lifandi, ég náði þeim á einni löpp og færði henni þær í rúmið hún elskaði mig líka geðveikt. Hafðu það gott um helgina með kisum og góðu kaffi.

Ásdís Sigurðardóttir, 17.8.2007 kl. 23:43

11 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Kannski er kíkirinn minn ekki alvöru -alvörustjörnukíkir. Ég þarf bara að stilla fókusinn. Þetta er langdrægur skratti, mun þægilegri en þessi sem ég keypti óvart fyrst þar sem allt var öfugt og á hvolfi þegar ég kíkti í gegnum hann, sá var bara fyrir tungl og stjörnur og ég fékk að skipta eftir að hafa eytt nokkrum klukkutímum í að setja hann saman og taka hann svo aftur í sundur þegar ég fattaði mistökin. Mun ætíð verða þakklát Bræðrunum Ormsson fyrir geggjaða þjónustu í gegnum elskurnar hjá Módel hér á Skaganum. Hefði ekki getað horft á flugeldasýninguna með þessum fyrsta! - Ég gekk ekki svo langt að veiða hrossaflugur fyrir Fjólu, gömlu kisuna mína, þegar við bjuggum á Hávallagötunni, en ég lyfti henni upp svo að hún gæti veitt þær sjálf, ... við mikinn viðbjóð einnar vinkonu sem varð vitni að því einu sinni. Fjóla elskaði mig líka voða heitt! 

Guðríður Haraldsdóttir, 17.8.2007 kl. 23:59

12 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Var einmitt að pæla í þessu sama, skyldi ég lenda í fangelsi fyrst Elín fer til útlanda? Það væri bara kúl! Já, ég er hætt að halda með Barcelona fyrst þeir eru svona leiðinlegir við Eið Smára!  

Guðríður Haraldsdóttir, 18.8.2007 kl. 00:45

13 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Fallegt af þér að minnast á mig, en algjör óþarfi! En mig langar líka til Englands, komast í plötubúðir og svona, má ég ekki bara koma með!?

Magnús Geir Guðmundsson, 18.8.2007 kl. 01:12

14 Smámynd: Svava S. Steinars

Flott að fara í fangelsi, færð mat á kostnað ríkisins og þarft ekki að borða afganga lengur.  Fylgist spennt með næstu Viku   Viss um að þú rokkar feitt sem ritstýra, í næstu viku verða FBI, KGB og Stasi farnir að hringja líka

Svava S. Steinars, 18.8.2007 kl. 01:17

15 Smámynd: Jens Guð

  Hvað er í gangi á Vikunni?  Verð ég aftur að kaupa þetta kvennablað?  Síðast keypti ég það í vor þegar ég var að fara til útlanda og vantaði lesefni.  Sá fyrirsögn um ofsóknir gegn Gunnari í Krossinum.  Mig langaði til að taka þátt í þeim og greip með mér blaðið.  Og uppgötvaði að Vikan er orðin ágætis blað. 

  Ritstjórinn þarf ekki að gráta það að fara í fangelsi.  Ég er þaulvanur að sitja í fangelsi.  Það er bara frábært.  Maður kynnist öllum þessum indælu handrukkurum,  dópsmyglurum og morðingjum.  Að vísu lendir ritstjórinn í fangelsinu í Kópavogi.  Þar eru bara konur og nokkrir sakleysislegir sætabrauðsdrengir.

Jens Guð, 18.8.2007 kl. 01:32

16 Smámynd: Steingrímur Helgason

Jamm, ég stend kórréttari, þér hef ég alveg misst af,

Flott.....

S.

Steingrímur Helgason, 18.8.2007 kl. 01:45

17 Smámynd: Rebbý

Keli minn elskaði mig líka agalega, en ekki fyrir að hjálpa honum með flugurnar heldur fyrir að smyrja flatköku með smjöri og hangikjöti handa honum svona spari ... merkilegt hvað kettir leggja í að borða

Rebbý, 18.8.2007 kl. 11:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 9
  • Sl. sólarhring: 450
  • Sl. viku: 2251
  • Frá upphafi: 1456547

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 1882
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Sjö saman í Karíba
  • Facebook ógnir
  • Herbergi drengsa

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband