Ýsa var það, heillin!

Tommi og fiskurinnKubbur og fiskurinnÍ gærkvöldi var allur kattamatur búinn í himnaríki. Mjög svo pattaralegir kettirnir grétu sáran en þá mundi ég allt í einu eftir fiski inni í frysti. Vissi að Tommi myndi verða ánægður en Kubbur vill helst bara þurrmat, sættir sig við túnfisk (ekki kisutúnfisk þó) en lítur t.d. ekki við rækjum. Hungrið bar matvendni hennar ofurliði að þessu sinni og hún virtist bara ánægð með nýsoðna ýsu. Tommi lá um tíma ofan á eldavélinni og beið eftir því að suðan kæmi upp.

Ég ætlaði að sofa til tíu eða ellefu í morgun en það átti ekki fyrir mér að liggja. Blessuð klukkan hringdi kl. 6.15. Það var reyndar ansi mikil nautn að geta slökkt á henni að þessu sinni og haldið áfram að sofa. En allt of skömmu síðar, kannski um tíuleytið, hófst nágranni minn handa við eitthvað mjög hávaðasamt á planinu fyrir neðan. Þetta þýddi að ég þurfti aftur og aftur að bæta mér upp svefntruflanir og var ekki komin á kreik fyrr en um þrjú! Ég hef nú lent í því að þurfa að sofna alveg upp á nýtt eftir að hafa verið vakin til að fá mína átta tíma samfleytt. Kannski hefði ég gert það ef Ellý hefði ekki hringt og boðið mér með í Bónus.

Tommi á flugnaveiðum

 Tommi á flugnaveiðum í himnaríki.

Hér á Skaganum er ágæt Bónusverslun. Hún er ekki staðsett í göngufæri við himnaríki, heldur er langt uppi í sveit en ég er svo sem vön því að allt sé miðað við fólk á bílum. Við Ellý (á bíl) klikkuðum báðar á Einarsbúð fyrir lokun í gær, ég vann lengi og hún stendur í flutningum, og urðum að kaupa einhvers staðar inn. Verðlagið er mjög svipað og í Einarsbúð, nema það er ekkert kjötborð í Bónus. Mjólkin í eins lítra pakkningum mun renna út á morgun svo að ég varð að kaupa eins og hálfs lítra-pakkninguna. Svakalega þarf ég að drekka af latte næstu dagana. Held að Ellý hafi óvart keypt tvo lítra ... hún gleymdi að kíkja á dagsetninguna, ég ráðlagði henni að fara bara aftur og skipta.
Ungur afgreiðslumaður benti mér kurteislega á að ég væri nú svolítið skrýtin (orðalag mitt) að kaupa svona heilsubuff frá Himneskri hollustu, það gerðu svo fáir í Bónus. Ég sagði honum að fólk missti af miklu, þetta væri eðalfæða, bæði holl og góð. Ég var á undan Ellýju að versla og beið eftir henni frammi. Ungur maður, líklega þriggja ára, gerði uppreisn gegn móður sinni og neitaði að fara heim. Hann var sár yfir því hvað hún stoppaði stutt inni í búðinni og keypti kannski ekki það sem hann dreymdi um. Ég spurði hann hvort að hann vildi þá koma heim með mér en hann varð svo hræddur að hann flúði til mömmu sem þakkaði mér fyrir. Ég dauðsá eftir því að hafa mætt eins og Grýla út í Bónus. Ég á bæði meik og maskara heima ... en snyrtileti mín hefur mögulega kostað unga manninn ör á sálinni. Þetta verður alla vega uppspretta óteljandi martraða hjá honum. Aldrei of illa farið með góð börn ... myndu kannski einhverjir segja en mér þykir vænt um börn og það er ljótt að hræða þau. Ég var bara að spjalla, eins og ungi afgreiðslumaðurinn um heilsubuffin.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

haha. Klikkar aldrei að bjóða börnunum heim með sér til að þagga niður í þeim.

Jóna Á. Gísladóttir, 18.8.2007 kl. 18:13

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ekki sammála, börn flykkjast að mér, gráta um að fá að koma með fér heim og alveg niður í tveggja ára biðja þau mig um að ættleiða sig.

Jenný Anna Baldursdóttir, 18.8.2007 kl. 18:35

3 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Sko, Jenný mín, krakkinn hefði gert það ef ég hefði verið máluð! Ekki spurning. Ég væri komin með lítinn vinnumann núna til að fara út með ruslið!

Guðríður Haraldsdóttir, 18.8.2007 kl. 18:59

4 Smámynd: Ragnheiður

æj krakkagreyið, honum var nær að vera að óþægðast út í búð. Næst segir mamma hans bara við hann ; sko ef þú verður ekki góður þá ferðu til Himnaríkis !

Ragnheiður , 18.8.2007 kl. 19:30

5 Smámynd: krossgata

Ja margt er mannanna bölið.... að hugsa sér að lenda í þrisvar sinnum sama daginn að þurfa að svefnjafna.

krossgata, 18.8.2007 kl. 20:06

6 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Heheheh, þið eruð svo fyndnar!

Guðríður Haraldsdóttir, 18.8.2007 kl. 20:10

7 identicon

Þakkaðu bara fyrir að fá að sofa út - hér á Egilsstöðum er ég í nábýli við Landflutninga sem byrjað að hlaða bílana klukkan 6.10. Þá byrjar lítil vél að æpa bíb,bíb,bíb,bíb. Og það er alveg sama hvað maður ætlar sér mikið að sofa til 8 - Landflutningar koma í veg fyrir það. Klukkan 8 byrjar svo sinfónían ógurlega - eða kakófónían öllu heldur - allar mögulegar og ómögulegar vinnuvélar byrja að syngja bakkgírslagið .... Viltu koma í rólegheitin á Egilsstöðum? Og hver var það annars sem fann upp að setja þennan ófögnuð í alla bíla og vinnuvélar?

Jóhanna Hafliðadóttir (IP-tala skráð) 18.8.2007 kl. 22:16

8 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

OMG, hvílíkur hryllingur, ég mun ekki pirrast út í vekjaraklukkur framar, mér var nær að gleyma að slökkva á henni í gærkvöldi! Vona að Landflutningar flytji langt í burtu frá þér!!!

Guðríður Haraldsdóttir, 18.8.2007 kl. 22:25

9 Smámynd: Brynja Hjaltadóttir

Hehe ég sem hélt að það væru bara skrítnir afgreiðslumenn í hverfisbúðinni minni. Þeir eru sko stórundarlegir og tilvitnanir þeirra í hvert sinn sem ég kem þar eru efni í mörg blogg. Þetta unga fólk í dag..*fuss*

Brynja Hjaltadóttir, 19.8.2007 kl. 00:03

10 identicon

Jóhanna!! Það voru Bectel menn sem heimtuðu bakkbíbb í allar vélar og bíla á austurlandi!

Ég tjaldaði í fyrra sumar, niður við Lagarfljót, hlakkaði til að sofna og vakna við öldugjálfur við sandinn.

En klukkan eldsnemma hrekk ég upp við BÍB BÍB BÍB!....Jösses, ÞAÐ ER BÚKOLLA AÐ BAKKA YFIR TJALDIÐ MITT!!

Ég út úr tjaldinu á fjórum fótum, hálf flækt í svefnpoka, og annað sem tjaldútilegum fylgir.....viðbúin því versta.

En, það eina sem ég sá var SKÓGARÞRÖSTUR á grein.....syngjandi fullum hálsi BÍB BÍB BÍB.

Þeir læra það sem fyrir "eyru" ber þessi fuglar.

Flakkari (IP-tala skráð) 19.8.2007 kl. 07:16

11 Smámynd: Laufey Ólafsdóttir

En hvað við erum nú líkar í lífsstílnum á margan hátt Gurrí, nema vandinn hjá mér er að komast í IKEA því það er komið langt út í sveit. Óþolandi að allt sé alltaf stílað á fólk á bílum. Svo er ekki einu sinni með góðu móti hægt að taka strætó þangað heldur. Díses! Ég bíð bara eftir fari eða fæ heimsent.

Frosinn fiskur er snilld þegar kattamatur klárast. Fressinn minn einmitt situr þá svona á hellunni og bíður enda lítt þekktur fyrir þolinmæði. Snilld þessir kettir!

Starfsfólkið í bónus á laugavegi er ekki svona áhugasamt um það sem maður er að kaupa, þetta er sennilega dreifbýlismenningin sem þarna er rótgróin. Kannski efni í mannfræðirannsókn . Sé líka að þú kannt lagið á börnum. Hann hugsar sig kannski um tvisvar áður en hann frekjast næst í búðinni. Mamma hans notar þig kannski sem hótun héðan í frá. Strákpeyjinn er kannski bara að þróa með sér slæman smekk á kvenfólki. Þeir hafa það flestir eins og við vitum. 

Laufey Ólafsdóttir, 19.8.2007 kl. 12:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 35
  • Sl. sólarhring: 272
  • Sl. viku: 1577
  • Frá upphafi: 1460510

Annað

  • Innlit í dag: 34
  • Innlit sl. viku: 1258
  • Gestir í dag: 34
  • IP-tölur í dag: 34

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ken
  • Krummi heitur
  • Galdraskjóða-Gurríar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband